143. löggjafarþing — 8. fundur
 14. október 2013.
viðbrögð við ritinu Hreint loft – betri heilsa.
fsp. KJak, 54. mál. — Þskj. 54.

[16:14]
Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Mér þykir aldeilis leitt að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra er veikur því að annars hefði ég getað verið hér ein í allan dag með fyrirspurnir. En ég ætla að spyrja tvo ráðherra, hæstv. heilbrigðisráðherra, og hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra á eftir, um eftirfylgni við skýrslu sem kom út í vor, apríl 2013, undir yfirskriftinni Hreint loft — betri heilsa, og snýr að mjög mikilvægu máli, þ.e. loftgæðum og hvernig umhverfis- og auðlindaráðuneyti og velferðarráðuneytið, eða heilbrigðisráðuneytið núna, geta unnið saman að því að bæta loftgæði og gera almenning meðvitaðri um hvernig við getum bætt loftgæði.

Ég hef ekki tíma í þessu örstutta máli til að fara yfir allar þær tillögur sem lagðar eru til en þetta er ítarleg skýrsla sem snýr að þáttum sem hafa áhrif á okkar daglega líf. Þar má auðvitað nefna gamalkunna þætti, eins og tóbaksreykingar svo dæmi sé tekið, sem lúta að því sem hæstv. heilbrigðisráðherra er auðvitað að fást við í sínu daglega starfi, en líka til dæmis magni frjókorna í andrúmslofti, hvernig megi stuðla að því að gera lífið bærilegra fyrir þá sem eru með ofnæmi fyrir frjókornum, sem því miður fer vaxandi. Enn fremur hvernig megi koma í veg fyrir svifryksmengun og gera almenning líka meðvitaðri um það efni.

Stórt mál sem líka er rætt um er mygla sem virðist vera vaxandi vandamál í húsnæði á Íslandi með talsverðum heilbrigðisafleiðingum sem er oft erfitt að greina og erfitt að eiga við. Einnig má nefna málefni sem snýr að langtímaáhrifum brennisteinsvetnis. Bent hefur verið á að þegar komnar eru jarðvarmavirkjanir í nágrenni við þéttbýlisstaði er kannski ekki alveg fyrirséð hvaða áhrif brennisteinsvetni í andrúmslofti getur haft á heilsu. Við sem búum til að mynda á höfuðborgarsvæðinu sjáum það hins vegar að brennisteinsvetni frá Hellisheiðarvirkjun hefur talsverð áhrif á áfallið á silfur í úthverfum borgarinnar svo dæmi sé tekið. Við vitum af þessu í andrúmsloftinu, mælingar sýna slíka mengun og þá skiptir máli að þetta sé líka skoðað út frá sjónarmiðum heilbrigðis.

Það sem mig langar að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra um þegar svona mikil vinna liggur fyrir, sem kallar í raun og veru á þverfaglega vinnu í því hvernig eigi að bregðast við, er hvort hann hyggist bregðast við þessum tillögum. Hvaða aðgerðir menn sjá fyrir sér að hægt sé að ráðast í, hvernig starfi stýrihópsins sem vann ritið verði fylgt eftir og hvort hæstv. ráðherra sér hreinlega fyrir sér, af því að þetta er auðvitað liður í mjög mikilvægum forvörnum, að sett verði eitthvert (Forseti hringir.) fast form á það hvernig eigi að (Forseti hringir.) fást við loftmengun eða hvernig (Forseti hringir.) eigi að tryggja góð loftgæði.



[16:18]
heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Hér er um mikið og gagnmerkt mál að ræða sem er dregið ágætlega saman í ritinu sem hv. þingmaður vitnaði til, Hreint loft — betri heilsa, sem er í rauninni skýrsla um vinnu starfshóps sem settur var á laggirnar 2010. Þar er um að ræða fyrstu heildarúttekt á loftgæðum á Íslandi með ítarlegri umfjöllun um loftgæði og heilsufar en jafnframt, eins og kom fram í máli málshefjanda, voru lagðar fram ýmsar tillögur um úrbætur.

Áhrifum loftmengunar á heilsuna má skipta annars vegar í bein heilsufarsleg áhrif þar sem loftmengunin veldur sjúkdómum eða kvillum og hins vegar óbein áhrif þar sem loftmengunin eykur undirliggjandi sjúkdóm eða líkur á að viðkomandi veikist. Sömuleiðis er í ritinu undirstrikað að mengunarvaldar er af mörgu tagi, náttúrulegir eða manngerðir, innan húss eða utan. Hér á landi hafa heilsufarsleg áhrif loftmengunar lítið verið rannsökuð og dánartíðni vegna loftmengunar er ekki þekkt enda er það samdóma álit fræðimanna að það sé erfiðleikum bundið að rannsaka slíkt vegna þess hversu fáir búa hér en oft þarf meiri fjölda til að geta greint orsakasamband með óyggjandi hætti.

Það er þó eitt sem liggur alveg klárt og kvitt fyrir, það er sá þáttur sem kom ágætlega fram í máli málshefjanda og lýtur að reykingum. Það er mat Hjartaverndar, samkvæmt nýjustu áætlunum hennar, að 200 manns látist árlega af völdum reykinga á Íslandi. Tóbaksvarnir hafa verið stundaðar hér á landi, fyrst og fremst með fræðslu og verðstýringu, lagasetningu að litlum hluta og sem betur fer hefur stöðugt dregið úr reykingum á Íslandi undanfarna áratugi. Við gerum ráð fyrir því að árið 2011 séu um rétt rúm 14% sem reykja hér á landi en um 1990 og 1991 voru það rúm 40%. Það hefur því dregið verulega saman í því sem er fagnaðarefni.

Eins og komið hefur fram var þetta rit unnið af þverfaglegum vinnuhópi sem settur var á stofn fyrir tilstuðlan tveggja ráðuneyta, umhverfisráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis, árið 2010. Þarna var safnað saman miklu magni af upplýsingum um loftgæði og fjallað um helstu mengunarvalda. Ég get svarað þeirri spurningu strax sem til mín er beint af hv. þingmanni, það verður brugðist þannig við að sjálfsagt mál er að nýta alla þá miklu þekkingu og vinnu sem í þetta hefur verið lagt og reyna að vinna að einhvers konar úrbótum, fyrirbyggjandi aðgerðum og því um líku. Ég geri ráð fyrir því að við munum, eins og við höfum lítillega rætt í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og velferðarráðuneytinu, koma á fót og setja af stað einhvern samráðsvettvang eða vinnuhóp sem vinnur á þeim grunni og það má gera ráð fyrir því að aðild að slíkri vinnu ættu Umhverfisstofnun, embætti landlæknis og sveitarfélögin, að sjálfsögðu, því að þetta eru ýmis verkefni sem snerta málasvið þeirra.

Að því gefnu að okkur takist að koma því saman á einhvern hátt má gera ráð fyrir því að í framhaldinu verði sett niður einhvers konar aðgerðaráætlun sem við settumst svo yfir og reyndum að innleiða eftir því sem fram líða stundir. Ég vil þó leggja áherslu á að þetta kallar á mjög víðtækt samráð margra aðila sem þurfa að koma að því að bæta loftgæði og vinna á þeim agnúum sem þar er að finna og við munum að sjálfsögðu þurfa að forgangsraða í þeim efnum með einhverjum hætti.

Svo ég svari því strax þá hyggst ég, enn og aftur, vinna að framgangi þeirra mála sem um ræðir á þeim grunni sem ég nefni hér, við ætlum okkur að nýta þá vinnu sem hefur verið lögð í þetta.



[16:23]
Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég fagna því sem hæstv. ráðherra segir hér um að til standi að koma á fót samráðsvettvangi Umhverfisstofnunar, landlæknis og sveitarfélaganna. Mig langar að inna hæstv. ráðherra eftir því í mínu seinna innleggi hvað hann sjái fyrir sér í því í tímasetningum, hvort til standi að koma slíkum vettvangi á laggirnar bara núna á haustdögum, hvort farin sé af stað einhver vinna við að undirbúa það. Í öðru lagi langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé nú ekki í takt við það sem hann hefur sjálfur verið að ræða um, um gildi lýðheilsu og forvarna til að bæta almenna heilsu landsmanna og byrgja brunna áður en börnin detta ofan í þá — ég hefði að minnsta kosti talið að vinna á borð við þessa væri forgangsatriði; ég nefndi bara nokkra skaðvalda, hæstv. ráðherra kom inn á tóbakið, ég nefndi myglusveppinn og fleira sem eru hlutir sem hægt væri að koma í veg fyrir, geta valdið ómældum skaða og eru lúmskir skaðvaldar í okkar daglega umhverfi, hvort hæstv. ráðherra geti ekki verið sammála mér um að þetta eigi að vera í takt við þá stefnu sem boðuð hefur verið um áherslu á forvarnir og lýðheilsu, þá ættu verkefni á borð við þetta að vera forgangsmál.

Það segi ég ekki síst af því að okkar daglega umhverfi hefur mikil áhrif á heilsufar en oft reynist það vandkvæðum bundið vegna þess að þetta kallar á svo mikið samráð aðila — til að mynda er verið að ræða þarna um loftgæði í skólum sem reknir eru af sveitarfélögum svo að dæmi sé tekið þannig að ég er alveg sammála því að þau þurfa að koma að þessu. En þó það geti verið flókið að efna til slíks samráðs þá getur það væntanlega skilað talsverðum árangri.



[16:25]
heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Forseti. Þegar spurt er um tímasetningar í þessum efnum er ég frekar gefinn fyrir að gefa þær út þegar búið er að taka ákvarðanir um hvenær verk skuli hefjast. Ég lýsi hins vegar yfir vilja mínum til þess að við þokum málinu fram á veg. Ég held að það sé hluti af því stóra máli sem hv. fyrirspyrjandi nefnir varðandi forvarnir á sviði lýðheilsu. Þar eru því miður líka, ég segi því miður, mörg önnur stór verkefni að vinna sem kalla bæði á tíma, starfskrafta og fjármuni þannig að það fer einfaldlega inn í þann stóra pott sem úr þarf að vinna þar.

Þetta er þó þannig verkefni að verið er að vinna að forvörnum á þessu sviði á ýmsum starfsstöðvum, ef svo mætti segja, inni í og á vegum stofnana umhverfisráðuneytisins, á vegum heilbrigðisráðuneytisins, á vegum einstakra sveitarfélaga o.s.frv. Ég er þeirrar skoðunar að í sjálfu sér megi segja að það eitt að kalla saman þá aðila sem ég hef nefnt og nefndi í fyrri ræðu minni og fá þá til þess að setjast saman að þessu borði svo að þeir hafi betri yfirsýn yfir hvað hver og einn er að gera ásamt því að nýta niðurstöður þeirrar vinnu sem birtist í skýrslunni, geti orðið til þess að þoka málum í annan og betri farveg en við höfum verið með þessi málefni í hingað til.

Að því gefnu að þokkaleg sátt náist um það verklag sem hér er boðað, og ég veit að umhverfis- og auðlindaráðherra er sammála mér í þeim efnum, hef ég í sjálfu sér ekki stórar áhyggjur af því að þessum málefnum verði ekki hrint til einhverra framkvæmda innan tiltölulega skamms tíma.