143. löggjafarþing — 9. fundur
 15. október 2013.
ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 181/2012 um breytingu á XIX. viðauka við EES-samninginn, fyrri umræða.
stjtill., 74. mál (húsgöngu- og fjarsala, EES-reglur). — Þskj. 74.

[15:16]
utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Kætast nú einhverjir sjálfsagt en með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 181/2012 um breytingu á XIX. viðauka við EES-samninginn um neytendavernd og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2011/83/ESB frá 25. október 2011 um réttindi neytenda, um breytingu á tilskipun ráðsins 93/13/EBE og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 1999/44/EB og um niðurfellingu tilskipunar ráðsins 85/577/EBE og tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 97/7/EB.

Með tilskipuninni eru samræmd ákvæði um húsgöngu- og fjarsölu sem kveða m.a. á um rétt neytenda til að falla frá samningi og um hvaða atriði seljendum er skylt að upplýsa neytendur áður en samningur um kaup á vörum eða þjónustu verður skuldbindandi. Að auki er lögð sú skylda á aðildarríkin að tilkynna til framkvæmdastjórnarinnar og Eftirlitsstofnunar EFTA þegar þau samþykkja reglur á tilteknum sviðum um hvað geti talist sanngjarnir eða ósanngjarnir samningsskilmálar.

Innleiðing tilskipunarinnar kallar á breytingar á lögum nr. 46/2000, um húsgöngu- og fjarsölusamninga. Fyrirhugað er að innanríkisráðherra leggi fram frumvarp til slíkra laga en ekki er víst hvort framlagning náist á yfirstandandi þingi. Ekki er gert ráð fyrir því að verulegur fjárhagslegur eða stjórnsýslulegur kostnaður leiði af innleiðingu tilskipunarinnar hér á landi.

Tillaga þessi var lögð fram á 141. löggjafarþingi en afgreiðslu hennar var ekki lokið fyrir þinglok. Þá komu fram spurningar um áhrif innleiðingar tilskipunarinnar á ýmiss konar sölu á vegum íþróttafélaga og annarra félagasamtaka sem eingöngu starfa í góðgerðarskyni. Því skal hér svarað þannig að það fari ekki á milli mála. Það er metið svo að íþróttafélög og önnur félagasamtök, sem eingöngu starfa í góðgerðarskyni, falli ekki undir gildissvið neytendaréttartilskipunarinnar svo lengi sem ekki fari fram eiginleg framleiðsla eða sala þjónustu eða vöru hjá slíkum félögum sem telja má að jafnist á við atvinnustarfsemi.

Þar sem umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Því er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst svo aflétta megi hinum stjórnskipulega fyrirvara.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.



[15:19]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt hjá hæstv. utanríkisráðherra að í fyrra tókst ekki að fá þetta mál samþykkt. Þá var það svo að það var núverandi hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra sem gerði við það sterkar athugasemdir og það varðaði akkúrat þessi tilteknu álitaefni sem hæstv. ráðherrann lagði fram í lok máls síns og sagði að búið væri að svara. Ég er út af fyrir sig þakklátur hæstv. innanríkisráðherra fyrir að hafa svarað með svo skýrum hætti um hvaða svið það eru sem ekki falla undir þessa tilskipun.

Þetta eru nákvæmlega sömu svörin og núverandi hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra voru flutt á sínum tíma þegar hún kom í veg fyrir að þetta yrði samþykkt. Spurning mín er því bara þessi: Er það algjörlega svo að öll ríkisstjórnin sé sammála því að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara á þessu máli og hleypa því í gegn? Getur hæstv. utanríkisráðherra fullvissað mig um að hann sé búinn að snúa niður hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra og hún muni örugglega fallast á málið? Ég vildi gjarnan fá skýr svör við því, því að hún féllst ekki á það í fyrra.



[15:21]
utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það þurfi ekki að snúa einn eða neinn niður þegar kemur að þessu máli. Það er hins vegar búið að skýra málið enn frekar og ljóst er að það hefur ekki áhrif á þau málefni eða málaflokka eða þau félög sem hv. þingmaður nefndi hér og minntist á umræðu á síðasta þingi. Það er alveg ljóst miðað við þetta að það er ekki nýtt stórt múffumál í uppsiglingu.



[15:21]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þá er ég glaður og sæll og ánægður og get fyrir mína hönd og minna pólitísku vandamanna sagt að ég mun ekki skipta um skoðun við það að fara úr ríkisstjórn yfir í stjórnarandstöðu, en þetta sannfærir mig hins vegar um að það þveröfuga gerist stundum. Hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra sem móaðist í þessu máli í fyrra hefur skipt um skoðun, en svo mikill er sannfæringarkraftur hæstv. utanríkisráðherra að ég get ekki annað en tekið hatt minn ofan fyrir honum, ef ég ætti hann.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til utanrmn.