143. löggjafarþing — 9. fundur
 15. október 2013.
ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 45/2013 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn, fyrri umræða.
stjtill., 75. mál (umhverfismál, EES-reglur). — Þskj. 75.

[15:22]
utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 45/2013, um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn um umhverfismál, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/126/EB, frá 21. október 2009, um II. áfanga endurheimtar bensíngufu við eldsneytistöku fyrir vélknúin ökutæki á bensínstöðvum.

Með tilskipuninni er stefnt að því að draga úr loftmengun og bæta loftgæði með því að draga úr losun bensíngufu út í andrúmsloftið. Í þeim tilgangi er í tilskipuninni kveðið á um skyldu til uppsetningar gufugleypa á bensíndælur á bensínstöðvum sem selja bensín umfram þau lágmarksmörk sem tilgreind eru í tilskipuninni.

Skylda til uppsetningar gufugleypa á grunni tilskipunarinnar verður hins vegar fremur takmörkuð hérlendis þar sem árleg sala bensíns á stórum hluta íslenskra bensínstöðva er undir þeim mörkum sem kveðið er á um í tilskipuninni eða á þeim mörkum að eingöngu þarf að setja upp gufugleypa ef stöðin undirgengst meiri háttar endurnýjun eða ef byggð er ný stöð af þeirri stærðargráðu sem um ræðir.

Til þess að innleiða tilskipun 2009/126/EB þarf að setja lagastoð fyrir því að skylda bensínstöðvar til þess að setja upp 2. stigs gufugleypibúnað á bensíndælur. Í dag er ekki fyrirséð hvenær slíkt frumvarp verður lagt fram.

Þar sem umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Því er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeim breytingum á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felast svo að aflétta megi hinum stjórnskipulega fyrirvara. Ég vil taka fram að haft var samráð eða samstarf við olíufélögin varðandi þetta.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.



[15:24]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég styð þetta auðvitað eins og flest önnur góð mál sem hæstv. ráðherra ber fram, og þekki þetta mál svolítið. Það vakti eftirtekt mína að hæstv. ráðherra sagði að ekki væri fyrirhugað að leggja fram breytingar á lögum til að geta innleitt þessa tilskipun. Þó kemur hæstv. ráðherra og biður þingið um að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara. Menn leika sér ekki að því að gera svoleiðis nema það liggi alveg ljóst fyrir að einhver alvara búi að baki.

Ég hef út af fyrir sig ákveðna samúð með hæstv. ráðherra að þurfa að koma hérna og flytja einhverja hörðustu innleiðingarhrinu sem ég man eftir. Ég held að ég sjálfur á tæpum fimm árum hafi aldrei náð því að koma hingað og berja í gegnum þingið tíu aðlaganir á einum eftirmiðdegi. Ég man ekki betur en hæstv. utanríkisráðherra hafi flutt margar góðar, snjallar og að mörgu leyti aðdáunarverðar ræður á síðasta þingi fyrir hans sannfæringu gegn öllu þessu innleiðingarbixi. Ég get alveg viðurkennt fyrir þinginu að mér var oft raun að því að þurfa að vera eins konar sendisveinn fyrir ESB og koma hingað í krafti EES-samningsins [Hlátur í þingsal.] og leggja fyrir þingið ýmiss konar mál sem ég hafði takmarkaða trú á en við urðum að gera það og getum ekki breytt því.

Þessi gerð sem hæstv. ráðherra er með varðar í reynd ekkert í dag nema eina litla bensínstöð í Kópavogi sem er undir blokk. Hæstv. ráðherra er í reynd að segja að hann hafi engan áhuga á því að trufla ríkisstjórnina með því að troða málinu í gegn í formi lagabreytinga og ég hef meira að segja fulla samúð með því. Samúð mín er þó meiri með ráðherranum sem hefur rifið sig niður í rass gegn því að Ísland aðlagi sig að ESB og kemur nú með tíu stykki á einum eftirmiðdegi. Til hamingju, hæstv. ráðherra. Þetta er Íslandsmet.



[15:27]
utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir vænt um að geta kætt hv. þm. Össur Skarphéðinsson í dag, en mikið ósköp er nú margt satt í hans máli.

Mig langar hins vegar að koma á framfæri að í ræðu minni áðan kom fram að ekki er fyrirséð hvenær lagafrumvarp þessu tengt verði lagt fram. Það er unnið að því en ég taldi ekki rétt að nefna einhverjar dagsetningar þar sem þetta liggur ekki alveg fyrir.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til utanrmn.