143. löggjafarþing — 11. fundur
 17. október 2013.
um fundarstjórn.

fjarvera forsætisráðherra.

[11:43]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka forseta fyrir að upplýsa það áðan, sem hann gat upplýst, að hæstv. forsætisráðherra sé erlendis en ég beið hér árangurslaust eftir forustumönnum Framsóknarflokksins til að svara spurningunni sem við blasir: Hvar er hæstv. forsætisráðherra?

Ég geng út frá því að hann sé ekki farinn í frí, heldur sé hann í einhverjum opinberum erindagjörðum á erlendum vettvangi. Ég tel alveg nauðsynlegt að það sé staðfest að svo sé og hvaða brýnu, opinberu erindagjörðir það eru sem valda því að alþingismenn þurfa að sæta því að hér sé hver óundirbúni fyrirspurnatíminn á fætur öðrum þar sem verkstjóri ríkisstjórnarinnar er ekki til svara.

Það var lögð á það rík áhersla í framhaldi af þeim óförum sem við fórum í gegnum að styrkja eftirlitshlutverk Alþingis. Það er algerlega óviðunandi að á hábjargræðistímanum líði fjölmargar vikur milli þess að alþingismenn hafi tækifæri til að eiga orðastað við hæstv. forsætisráðherra. Það er nauðsynlegt að fram komi á vettvangi þingsins hvar forsætisráðherra er og hvaða brýnu opinberu erindagjörðir valda því að hann er ekki hér til að svara þingmönnum um mikilvæg þjóðmál sem á okkur brenna. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[11:44]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka umhyggju hv. þm. Helga Hjörvars fyrir verkstjórninni í þessari ríkisstjórn. Hún er með ágætum. Það er mikil áhersla lögð á það að treysta fólki. Það er kannski nokkuð sem fyrri ríkisstjórn hefði átt að taka sem fyrirmynd, en mér sýnist sem hv. þingmaður hafi í hyggju að halda hér áfram leiknum „Hvar er Valli?“ og mæta á milli liða í umræðu um fundarstjórn.

Ég ítreka að ég tel að hv. þingmaður eigi ekki að hafa áhyggjur af verkstjórninni. Hún er með ágætum og að sjálfsögðu mun forsætisráðherra fljótlega koma í þingsal.



[11:45]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég tek undir þær áhyggjur sem hv. þm. Helgi Hjörvar vakti hjá mér. Ég er búin að reyna að finna tækifæri til að eiga orðastað við hæstv. forsætisráðherra en honum bregður sjaldan fyrir í þingsal. Hið sama má segja um aðra ráðherra þessarar ríkisstjórnar, þeir eru ekki mikið þátttakendur í umræðum og fyrirspurnum þingmanna til þeirra. Mér finnst eiginlega áberandi hvað það er miklu meira hjá núverandi ríkisstjórn en þeirri fyrri.