143. löggjafarþing — 12. fundur
 30. október 2013.
störf þingsins.

[15:06]
Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Mig langar að vekja athygli á þessu Netflix-máli sem hefur verið í umræðunni undanfarið og hvað það er stórskemmtilegt hvað SMÁÍS, hagsmunasamtök meðal annars 365 miðla, er orðið grímulaust í hagsmunagæslu sinni fyrir hluta umboðsaðila sinna. SMÁÍS vill viðskiptahindranir sem verja fjárfestingar nokkurra umboðsaðila sinna í 20. aldar viðskiptalíkani. Forstjóri eins þeirra, 365 miðla, skrifar í Fréttablaðið þar sem hann fullyrðir að Netflix sé, með leyfi forseta, „dæmi um þjónustu sem ekki er boðin löglega hér á landi“. En fyrirtæki hans stafar ógn af samkeppni við Netflix.

Snæbjörn Steingrímsson, framkvæmdastjóri SMÁÍS, ætlar að leggja fram kæru á hendur Tali og Netflix öðrum hvorum megin við helgina fyrir brot á lögum um höfundarétt. Hann segir að það komi skýrt fram í höfundaréttarlögum að ekki megi fara fram hjá tæknilegum ráðstöfunum er varða höfundarvarið efni.

Hverjar eru þessar tæknilegu ráðstafanir? Það útskýrði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sem menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins vel fyrir þingmönnum sem flutningsmaður þess ákvæðis í íslensk lög eftir tilskipun Evrópusambandsins. Þingmenn samþykktu þau ákvæði samhljóða í þessum sal. Þar segir hún í framsöguræðu sinni, með leyfi forseta:

„Ákvæðum frumvarpsins um vernd tæknilegra ráðstafana er með öðrum orðum ekki ætlað að vernda ýmsar ráðstafanir útgefenda hljóð- og myndrita til að skipta heiminum upp í tiltekin markaðssvæði …“

Það kemur alveg skýrt fram að ef efnið hefur verið gefið út á Evrópska efnahagssvæðinu megi nálgast það með hliðstæðum hætti og er í boði hjá Tali og Flix og það kemur líka fram í dómi Evrópudómstólsins, European Court of Justice, í október 2011. (Forseti hringir.) Það er því löglegt að sækja sér Netflix á Íslandi í dag.



[15:09]
Sigrún Magnúsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli hv. þingmanna á að yfirstandandi vika er tileinkuð jafnrétti. Dagur Sameinuðu þjóðanna er 24. október, en einmitt á þeim degi tóku íslenskar konur sér frí og gerðu sér dagamun árið 1975, málstað jafnréttis mjög til framdráttar.

Íslendingum, og þar með þingmönnum, lætur oft betur að benda á það sem miður fer fremur en að minnast ávinninga. En það var ekki hægt annað en að finna fyrir stolti á þingi Sameinuðu þjóðanna þegar ítrekað var sagt frá því þar að konur og jafnréttismál væru orðin jákvætt vörumerki fyrir Ísland. Þegar þessi málefni ber á góma hjá Sameinuðu þjóðunum er horft hingað, til Íslands. Fastanefnd okkar í New York heldur málstað jafnréttis mjög á lofti og hefur komið lagfæringum inn í alþjóðasamþykktir og ályktanir.

Okkur var reyndar tjáð að Ísland væri hvað best þekkt fyrir þrennt í þessu alþjóðlega umhverfi, þ.e. fiskinn, konurnar og landgræðsluna. Ólíkt, en hvað er sameiginlegt? Jú, hér á landi er skóli á vegum Sameinuðu þjóðanna í þessum málaflokkum og það hefur greinilega skilað miklum árangri.

Er ég var rétt stigin á íslenska grundu aftur kom fréttatilkynning um að Ísland sé í fyrsta sæti fimmta árið í röð í mati á jafnrétti kynjanna í úttekt sem Alþjóðaefnahagsráðið gerði. Reyndar raða hinar Norðurlandaþjóðirnar sér allar í næstu sæti. Við getum sannarlega verið stolt af þessum árangri okkar en við náum ekki að ráða við hinn kynbundna launamun og það er eitthvað sem við verðum að taka alvarlega á.

Reyndar er önnur hlið á þessum peningi er kemur löndum sunnar á hnettinum við. Þar er útkoman hvað konur varðar oft og tíðum alveg skelfileg og við fundum líka sannarlega fyrir því þarna.

Við eigum mörg falleg orð í íslenskri tungu og (Forseti hringir.) eitt er orðið „fjölskylda“, fjöl-skylda, og samkvæmt Grágás, okkar fornu lögbók, merkir orðið „hópur sem hefur skyldur innbyrðis gagnvart hvert öðru“. Við skulum halda þeirri túlkun í heiðri.



[15:11]
Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Nýlegar fréttir um starfsemi svokallaðs kampavínsklúbbs hér í nágrenni þinghússins, sem er búinn að starfa allt of lengi, valda áhyggjum. Ég fagna framkominni þingsályktunartillögu sem lögð var fram í þarsíðustu viku og vona að hún fái brautargengi. Ég óttast reyndar að hún gangi ekki alveg nógu langt vegna þess að ég heyrði lögmann eigenda þessa staðar segja í fréttum sjónvarps fyrir nokkrum dögum að umræddar stúlkur, sem eru staddar á þessum klúbbi, væru ekki starfsmenn. Það vekur mann til umhugsunar um hvaða stöðu þær hafa. Það vekur einnig upp spurningar um það á hvaða forsendum þær hafa fengið hér landvistarleyfi.

Ég verð að segja, herra forseti, að ég hef áhyggjur af þessu og þetta vekur með mér grunsemdir um að þarna kunni að vera um að ræða tilraun til mansals. Það er ekki nýtt í þessum bransa.

Því held ég að ekki sé nógu langt gengið í þingsályktunartillögunni sem hér kom fram að ræða um starfsmenn þessara klúbba.

Það hefur komið fram af hálfu eins ágæts hv. þingmanns sem er reyndar fjarverandi að hann hefur efast um forgangsröðun lögreglu. Ég deili ekki þeirri samúð sem hv. þingmaður hefur með kaupendum vændis og ég hef reyndar litla þolinmæði gagnvart þeim. Þess vegna fagna ég forgangsröðun lögreglunnar og ég held að brýnt sé að lögreglan við rannsókn þessa máls fari inn á svið mansals, að það verði gengið úr skugga um að þarna, í þessum svokallaða klúbbi, hafi mansal ekki átt sér stað.



[15:13]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Líkt og aðrir jafnaðarmenn trúi ég því að við eigum að leggja áherslu á verðmætasköpun til að efla íslenskt samfélag, styrkja velferðarkerfið og skapa vel launuð og áhugaverð störf á Íslandi. Þess vegna lagði ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboð áherslu á að styrkja meðal annars samkeppnissjóði til að efla verðmætasköpun og rannsóknir til lengri tíma.

Fjárlagafrumvarp núverandi ríkisstjórnar gengur þvert á þá stefnu og ég tel mikilvægt að þingmenn hér í sal geri sér grein fyrir því hvað niðurskurður til samkeppnissjóðanna þýðir. Afleiðingarnar hafa þegar komið fram þó að ekki sé búið að samþykkja frumvarpið og gera að lögum. Þrír prófessorar hafa sagt sig úr Vísinda- og tækniráði enda telja þeir ófært að stefna ráðsins sé mótuð í fjármálaráðuneytinu. Skera á niður framlög til þessara tveggja samkeppnissjóða, Rannsóknasjóðs og Tækniþróunarsjóðs, um 215 milljónir á næsta ári en framlögin verða alls helminguð fram til ársins 2016. Þetta er alvarleg þróun nema það sé stefna núverandi stjórnvalda að gera Ísland eingöngu að hráefnisframleiðanda.

Það er líka eðlilegt að líta til þess að formaður BHM, Guðlaug Kristjánsdóttir, tjáði sig í fyrradag í Ríkisútvarpinu um áhyggjur af því að ekki hefði dregið nægilega úr atvinnuleysi háskólamenntaðs fólks miðað við aðra hópa og að ljóst væri að leita þyrfti að allra leiða til þess að (Forseti hringir.) skapa störf fyrir háskólamenntað fólk. Stefna ríkisstjórnarinnar er þvert á móti að draga úr möguleikum vel menntaðs fólks til að fara í (Forseti hringir.) verðmætaskapandi störf hér á landi.



[15:16]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vildi beina máli mínu til hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur, formanns þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Ástæðan er sú að ég hef nokkrar áhyggjur af stöðu þingstarfa nú þegar vel er liðið á þetta haustþing. Forseti þingsins rakti í ræðu sinni við þingsetningu mikilvægi þess að mál kæmu snemma frá ríkisstjórninni til þess að vel tækist að vinna þau. Staðan er hins vegar sú að við verðum ekkert vör við mál frá ríkisstjórninni á þessu þingi. Ef frá eru talin þau frumvörp sem lagaskylda kveður á um að lögð skuli fram, fjárlög og tekjuöflunarfrumvörp, er næsta lítið að sjá í þinginu af málum frá ríkisstjórninni.

Í dag eru lögð fram í þinginu 20 mál sem allt eru fyrirspurnir þingmanna eða svör við þeim. Í nefndum hefur verið fundafall á undanförnum dögum vegna verkefnaskorts og í öðrum þeirra eru til meðferðar mál sem eru aðallega endurflutningar mála frá fyrra þingi eða þá mál sem eru innleiðingar á EES-gerðum. Er það þá orðið svo nú að hin linnulitla aðlögun landsins að Evrópusambandinu er orðin bjargvættur þessarar ríkisstjórnar og tryggir að hún hefur þó að minnsta kosti einhver mál til að leggja fram í þinginu?

Ég hef af þessu áhyggjur og vildi velta því upp við hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur hvað sé til ráða til að knýja á um úrbætur í þessu verkleysi ríkisstjórnarinnar. Ríkisstjórnin fékk viðbótartíma hér í haust, þing átti með réttu að koma saman 10. september en vegna þrábeiðni ríkisstjórnarinnar, sem treysti sér ekki til að koma fram fjárlögum á réttum tíma, var fallist á að þola það að þing kæmi ekki saman fyrr en 1. október. Mig óraði þá ekki fyrir að engin önnur mál kæmu frá ríkisstjórninni en fjárlagafrumvarp og tekjuöflunarfrumvarp.



[15:18]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við þessu hef ég bara einfalt svar. Ég deili áhyggjum hv. þm. Árna Páls Árnasonar yfir málafæð frá ríkisstjórninni.



[15:18]
Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla, í anda þeirra ræðumanna sem hér hafa talað, að taka undir áhyggjur af málafæð hæstv. ríkisstjórnar, en ég vil líka segja frá því að það er oft gaman að vera í ríkisstjórn, sérstaklega þegar um er að ræða verkefni og viðfangsefni sem leiða til framfara. Það var sem betur fer algengt í tíð síðustu ríkisstjórnar. Þann 28. október sl. var birt alþjóðleg samantekt á opnum gögnum opinberra aðila á síðu sem The Open Knowledge Foundation heldur úti. Þar er hástökkvarinn Ísland sem nú er komið upp í 11. sæti á heimsvísu. Af hverju er það? Það er fyrst og fremst Landmælingum Íslands að þakka. Í matinu fá Landmælingar fullt hús stiga hvað varðar aðgang að opinberum kortagögnum. Og af hverju var það? Það var vegna þess að í janúar sl. ákváðum við, sú sem hér stendur og sú góða ríkisstjórn sem þá var við völd í samvinnu við Landmælingar Íslands, að opna öll stafræn gögn um landupplýsingar stofnunarinnar, að þau yrðu öll gerð aðgengileg og yrðu opin á vef stofnunarinnar án gjaldtöku. Og með samþykkt fjárlaga fyrir yfirstandandi ár varð sú ákvörðun að veruleika.

Þarna er um að ræða gögn um eignaskráningu, skipulagsmál, náttúruvernd, náttúruvá, orkumál, rannsóknir og opinberar framkvæmdir. Gögnin eru eftir gjaldfrelsið notuð gríðarlega mikið af opinberum aðilum en ekki síður af fyrirtækjum til að veita upplýsingar um ýmiss konar þjónustu á samfélagsmiðlum og við gerð appa og smáforrita. Þarna var um að ræða eina af fjöldamörgum ákvörðunum sem snerust um að örva sprota og nýsköpun í þessu samfélagi.

Hvaða framfaramál eru helst í pípunum núna?



[15:20]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég verð að viðurkenna að ég er búin að sakna ykkar, hv. þingmenn, ég sakna þess hvað við hittumst sjaldan í þessum þingsal. Mér fannst mjög skringilegt að það átti að vera nefndadagur í gær, sem er heill dagur tileinkaður nefndastörfum, en það varð fundarfall þar í báðum nefndunum mínum. Ég hef ekki miklar áhyggjur af því að engin mál komi inn, við hv. þingmenn getum sett saman þingmannamál og höfum gott tækifæri núna til að fá þau í gegnum nefndirnar og í lokaumræðu og í lokaafgreiðslu á þingi þannig að við ættum að nota tækifærið og þrýsta á að fjallað sé um þessi mál í nefndunum okkar.

Ég hef ekki sérstakar áhyggjur af frumvörpum frá ríkisstjórninni, þau koma bara þegar þau koma og við erum búin að setja okkur ákveðinn ramma um hvernig við ætlum að vinna að þeim málum, en ég hef áhyggjur af því hvað við hittumst sjaldan. Ég hef áhyggjur af því að við höfum ekki tækifæri til að veita framkvæmdarvaldinu nægilegt aðhald og við megum ekki láta plata okkur út í svona mikið frí.

Ég skoðaði það og vakti athygli á því hvernig fyrirkomulagið verður næsta sumar. Við munum nánast ekki neitt hittast sem löggjafarvald í fjóra mánuði út af sveitarstjórnarkosningum. Mér finnst það algerlega ótækt af því að það þýðir að við getum ekki veitt framkvæmdarvaldinu aðhald, en til þess erum við hér meðal annars.

Ég hefði viljað ræða við þingmenn um það af hverju ég hef ekki séð nafn Íslendinga á ályktun hjá Sameinuðu þjóðunum sem kemur frá Þýskalandi og Brasilíu um gríðarlega mikla gagnaöflun og njósnir um almenning. Mig langar að athuga hvort einhver hér geti svarað því hvort við erum með á þeirri ályktun (Forseti hringir.) eða ekki.



[15:23]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Undanfarin ár hefur umræða um byggðamál verið með öðrum og skýrari hætti en oft áður. Vinna Byggðastofnunar, með byggðum sem segja má að séu brothættar vegna þess að þær skera sig úr hvað varðar mikla fólksfækkun, erfitt atvinnuástand og óhagstæða aldursþróun undangengin ár, er eftirtektarverð. Unnið hefur verið með íbúum fjögurra slíkra byggða og er Skaftárhreppur þar á meðal.

Byggðastofnun segir nýja nálgun nauðsynlega, sértækar aðgerðir og vinnu með íbúum þar sem hin almennu stuðningsúrræði á sviði atvinnuþróunar, nýsköpunar og byggðaaðgerða dugi ekki til. Byggðastofnun var tryggt fé, 50 millj. kr. á fjárlögum yfirstandandi árs, til að vinna samkvæmt þessari nýju aðferð. Það sýnir, ásamt sóknaráætlun landshluta með fjármunum upp á 400 millj. kr. þrátt fyrir þröngan fjárhag ríkisins og mörgu fleiru, í verki vilja ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur hvað málefni þessara sveitarfélaga varðar. En nú hefur ný ríkisstjórn slegið þessa vinnu af með tillögum í fjárlagafrumvarpinu og hefur auk þess hætt við byggingu húsnæðis fyrir þekkingarsetur á Kirkjubæjarklaustri sem er vel undirbúið samstarfsverkefni til að styrkja byggðina sem heimamenn höfðu bundið miklar vonir við og samtök sveitarfélaga á Suðurlandi sett ofarlega á forgangslista í sóknaráætlun landshlutans.

Ég spyr hv. þm. Ásmund Friðriksson hvað honum finnist um þessa stefnubreytingu ríkisstjórnarinnar og hvaða áhrif hann telji að byggðastefnan sem kynnt er í fjárlagafrumvarpinu hafi á brothættar byggðir landsins, svo sem Skaftárhrepp. Er hann ekki sammála því að víkja þurfi frá þeirri stefnu og að við 2. umr. fjárlaga þurfi þess í stað að styðja enn frekar við stefnu fyrri ríkisstjórnar í byggðamálum, ekki síst hvað varðar brothættar byggðir landsins?



[15:25]
Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég er upp með mér yfir því að hv. þingmaður skuli beina þessum spurningum til mín. Ég hef ekki komið að mótun byggðastefnunnar, hvorki á þessu þingi né fyrra þingi eða er í því í þeim nefndum sem ég hef starfað í. Aftur á móti hef ég mikinn áhuga á þessum málum og þykir vænt um að fá tækifæri til að ræða málefni brothættra byggða. Ég hef miklar áhyggjur af þeim. Ég veit að hv. þm. Oddný Harðardóttir hefði haft gott af því að vera með okkur þingmönnum Suðurkjördæmis á ferð okkar um Skaftárhrepp um daginn, hitta sveitarstjórnarmenn þar og ræða einmitt þeirra vandamál. Það er sameiginlegt með þessum sveitarfélögum, eins og í Skaftárhreppi, á Raufarhöfn, Breiðdalsvík og í Bíldudal, að lakar internettengingar, símatengingar, skortur á þriggja fasa rafmagni og slíkt stendur þessum byggðum mikið fyrir þrifum. Unga fólkið vill ekki koma heim um helgar vegna þess að það getur ekki tengt tölvuna sína eða sent SMS-skilaboð. Þetta eru stóru og erfiðu málin sem hefði þurft að vinna að.

Ég er tilbúinn að vinna að því ásamt hv. þingmanni að finna fé í þennan málaflokk, það stendur ekki á því, en mér finnst að við þurfum að hafa þrek til þess að forgangsraða fyrst fyrir heilbrigðisþjónustuna, menntunina og velferðina. Svo skulum við taka þetta á eftir, ég er alveg til í það. Ég er tilbúinn að setjast niður með hv. þingmanni ef hún er með tillögur innan fjárlaganna um hvar við getum fundið peninga sem við getum skorið niður til að fara í þennan málaflokk. Það mun ekki standa á því.

Þar er örugglega víða hægt að skera niður, bæði í menningu og annars staðar sem skiptir þá minna máli í augnablikinu meðan við höfum ekki næga peninga.

Ég held að við tökum ekki lán fyrir því sem við þurfum að gera þarna. Við þurfum að eiga þá peninga sjálf.



[15:27]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja eftir að hafa ferðast um mitt kjördæmi, Norðvesturkjördæmi, í síðustu viku að ég er miklu bjartsýnni en ég var áður um að ekki verði skorið eins mikið niður á landsbyggðinni, upp á 2,5 milljarða, og kemur fram í fjárlagafrumvarpinu.

Á fundum með sveitarstjórnarmönnum vítt og breitt um kjördæmið var mikill einhugur allra þingmanna um að slíkur niðurskurður mundi ekki eiga sér stað, niðurskurður varðandi jöfnun húshitunarkostnaðar, innanlandsflugið, sóknaráætlun, menningarsamninga, vaxtarsamninga og svo mætti áfram telja, framkvæmdir til vegamála og fyrirhugaða sameiningu heilbrigðisstofnana með 30 starfsmenn eða færri. Hið sama á við um aðrar stofnanir sem eru með færri en 30 starfsmenn, eins og Fjölmenningarsetur. Alls staðar stóð upp úr hjá öllum þingmönnum kjördæmisins, hvar í flokki sem þeir stóðu, að þetta mundi ekki gerast. Ég tala nú ekki um dreifnámið sem var komið á í tíð fyrri ríkisstjórnar á mörgum stöðum í kjördæminu og hafði gengið mjög vel, menn ætluðu að einhenda sér í að í því yrði ekki skorið niður eins og blasir við.

Ég er því frekar bjartsýn á að menn ætli að leggjast á eitt og hætta við þennan mikla niðurskurð á landsbyggðinni upp á 2,5 milljarða. Að minnsta kosti töluðu hv. stjórnarþingmenn þannig og nú reynir á hvaða burði og getu þeir hafa þegar þeir koma aftur inn á hið háa Alþingi með skilaboðin frá flokksmönnum sínum í kjördæminu og fólkinu á landsbyggðinni um að þetta geti ekki gengið, niðurskurður til brothættra byggða eins og var nefnt hér áðan, og að nauðsynlegt væri á að koma sem víðast á framlögum til háhraðatenginga.



[15:30]
Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Ástkæra Alþingi. Í síðustu viku var haldin svokölluð kjördæmavika á Alþingi og þá voru ekki fundir í þessum sal heldur þeystu alþingismenn um kjördæmi sín og hittu sveitarstjórnarfólk og aðra. Þá var meðal annars haldinn ágætur kynningar- og samráðsfundur fyrir þingmenn Reykjavíkurborgar. Sá fundur tók þó ekki heila viku og hvað gerðu þingmenn Reykjavíkur restina af vikunni? Fóru þeir saman í Kringluna? Ekki svo ég viti. Sá þingmaður Reykjavíkurkjördæmis suður sem hér stendur er hugsi og var hugsi fyrir kosningarnar þegar ég hitti marga kjósendur í Reykjavíkurkjördæmunum sem vissu ekki í hvaða kjördæmi þeir byggju, hvort þeir væru í suður eða norður, og það fær mig til þess að hugsa hvort kjördæmaskipting landsins sé endilega rétt.

Þegar maður fylgist með umræðum á Alþingi heyrir maður að þingmenn landsbyggðarkjördæma koma hérna með mál úr kjördæmum sínum en ég hef ekki tekið eftir að þingmenn Reykjavíkurkjördæmis suður tali meira um Háskóla Íslands en þingmenn Reykjavíkurkjördæmis norður. Það er hætt við að þetta ýti undir þá tilhugsun að Reykjavík sé eitthvað annað en restin af landinu, að Ísland sé Ísland og Reykjavík eitthvað annað. Ég veit ekki til þess að Frakkland sé Frakkland annars vegar og París hins vegar. Frakkland er Frakkland með París og Ísland er Ísland með Reykjavík.

Mér finnst mikilvægt að Alþingi hugsi það að við erum þjóð sem býr í einu landi. Við erum með eina borg og við þurfum að byggja upp þessa borg okkar til að unga fólkið noti ekki flugvélarnar sem fljúga hérna yfir (Forseti hringir.) á hverjum degi og flytji til útlanda.



[15:32]
Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Ég kem hérna upp undir liðnum um störf þingsins til að taka undir með Birgittu Jónsdóttur áðan, ég saknaði ykkar smá. Það er gaman að sjá hópinn þó að það séu kannski ekkert allt of margir hérna í dag. Við vorum í fríi sem helgaðist af því að við vorum í kjördæmaviku. Ég verð að viðurkenna sem þingmaður að eitt það skemmtilegasta sem ég hef upplifað á mínum þingmannsferli var að fara í heimsóknir í sveitarfélögin og heyra hvað brennur á sveitarstjórnarmönnum og fólkinu í kjördæminu. Fyrir það fólk erum við hér.

Það var alveg einstaklega gaman að hlusta á fólk þrátt fyrir að það væri svolítið þungur undirtónn í flestum sveitarstjórnarmönnum því að það er verið að skera allhressilega niður í mörgum verkefnum sem hin ágæta ríkisstjórn sem var áður hafði komið á laggirnar, t.d. sóknaráætlun. Þrátt fyrir að þetta væri lærdómsríkt var sorglegt að hlusta á margt sem sagt var, hvað það var dauft hljóð í fólki sem var búið að vinna að verkefnum síðustu tvö, þrjú árin fullt af bjartsýni og vonum til framtíðarinnar. Það var allt skorið af. Það var virkilega erfitt að hlusta á það, ekki síst fyrir mann í minni hluta sem getur eiginlega ekki gert neitt annað en lofað því að gera sitt besta.

Skaftárhreppur komst til tals áðan, hv. þm. Ásmundur Friðriksson nefndi hann, og það var einstaklega lærdómsríkt að sitja andspænis sveitarstjórnarmönnum í þeim hreppi. Það var ekki barið í borðið og öskrað þrátt fyrir allt sem gengur á í þeim hreppi. Þá vantar þriggja fasa rafmagn og internettengingar fyrir börnin til að koma heim um helgar. Bóndi í Meðallandi sendi Rarik bréf og Rarik sagði: Jú, jú, þú ert á áætlun með þriggja fasa rafmagn, það verður 2030.

Það er náttúrlega virkilega gott.

Þetta er það sem fólk berst við úti í byggðunum. Það eina sem það bað um var: Gefið okkur von.

Háttvirtir þingmenn, gerum það.



[15:34]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla að taka undir með hv. þingmanni sem síðastur talaði og sagði: Gefið okkur von. Ég held að okkur hafi verið gefin von þegar hæstv. innanríkisráðherra og formaður borgarráðs náðu samkomulagi um að Reykjavíkurflugvöllur yrði þar sem hann er í það minnsta til 2022. Það gefur okkur tækifæri til að leita leiða til þess að finna flugvellinum stað á höfuðborgarsvæðinu. Eins og hv. þm. Óttarr Proppé sagði er höfuðborg höfuðborg og þar þarf ýmislegt að vera sem laðar að fólk og fælir það ekki frá.

Flugvöllur er eitt í þeim efnum. Ég fagna samkomulagi sem ríki og borg gerðu um flugvöllinn. Ég vona að það veiti okkur tækifæri til að vinna í sátt að því að finna flugvellinum samastað hvar svo sem hann verður í Reykjavík. Ég virði að sjálfsögðu skipulagsvald Reykjavíkurborgar í þessum efnum en tel mikilvægt, og legg á það áherslu, að innanlandsflugið og flugvöllur þess verði frá Reykjavík. Það er grunnur að mörgum öðrum þáttum sem snúa að höfuðborginni.

Þegar við þingmenn lofum, vítt og breitt á ferðum okkar meðal kjósenda, einu og öðru þyrftum við að íhuga í loforðaflaumnum að til þess að við getum staðið við loforð þurfum við að breyta lögum eða setja ný lög. Í því er starf okkar fólgið, þ.e. að lagfæra lög og breyta lögum. Þannig getum við uppfyllt loforð okkar, ekki öðruvísi.



[15:36]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Óttari Proppé fyrir að taka upp málefni kjördæmaskipanar á Íslandi. Við hv. þingmaður komum úr sama kjördæmi, Reykjavíkurkjördæmi suður, sem er reyndar eina kjördæmi landsins þar sem ekki er stundaður sjávarútvegur. Við höfum þá sérstöðu fyrir utan það að hafa auðvitað Reykjavíkurflugvöll í miðju kjördæmisins.

Í þessu samhengi verðum við að ræða grundvallarþátt málsins. Þetta fjallar ekki eingöngu um kjördæmaskipan. Við erum hér fulltrúar þjóðarinnar en það eru mismörg atkvæði að baki hverju og einu okkar. Það hefur mjög mikil áhrif á þær ákvarðanir sem hér eru teknar að það er ójafnt atkvæðavægi á Íslandi. Á Íslandi gildir ekki sú sjálfsagða regla um þau borgaralegu réttindi að einn maður sé eitt atkvæði.

Á þingi eru svo margir sem búa við ójafnt atkvæðavægi að það er erfitt að fá þessar breytingar í gegn en ég ákalla þingheim og höfða til þess að þingmenn sameinist um að breyta þessu.

ÖSE gerir reglubundið athugasemdir við atkvæðavægi á Íslandi, segir að það eigi að vera að hámarki 10% munur. Munurinn er 50% á Íslandi og ég vil nota tækifærið í kjölfar orða hv. þm. Óttars Proppés og hvetja þingmenn til að fara nú í það að jafna atkvæðavægi þannig að allir (Forseti hringir.) Íslendingar eigi atkvæði sem vegur jafn þungt.