143. löggjafarþing — 12. fundur
 30. október 2013.
sérstök umræða.

staða kvenna innan lögreglunnar.

[15:39]
Björt Ólafsdóttir (Bf):

Herra forseti. Nýverið var lögð fram skýrsla unnin af Finnborgu Salome Steinþórsdóttur, þessi hérna stóra skýrsla [Hv. þingmaður réttir upp skýrsluna.], undir leiðsögn Gyðu Margrétar Pétursdóttur hjá Háskóla Íslands fyrir tilstuðlan eða í samvinnu við ríkislögreglustjóra.

Í skýrslunni er fjallað um vinnumenningu og kynjatengsl innan lögreglunnar og er varpað ljósi á bága stöðu lögreglukvenna hjá henni. Staða lögreglukvenna var kortlögð með gögnum frá lögregluembættum og var spurningalisti lagður fyrir alla lögreglumenn í maí síðastliðnum. Auk þessa voru stöðluð viðtöl tekin við lögreglukonur sem höfðu farið úr starfi og kynja- og valdatengsl sett í fræðilegt og kenningarlegt samhengi.

Niðurstöður könnunarinnar eru sláandi svo ekki sé meira sagt og varð tilefni umtalsverðs fréttaflutnings þegar skýrslan kom út. Ég ætla að tæpa á nokkrum niðurstöðum.

Konur voru tæp 13% lögreglumanna þann 1. febrúar 2013 þrátt fyrir að hafa verið 17–33% brautskráðra nemenda frá Lögregluskóla ríkisins frá því 1999. Við sjáum því að brotthvarf kvenna frá lögreglunni er verulegt. Nær engar konur eru í efstu starfsstigum lögreglunnar og hefur óánægja hvað varðar framgang í starfi aukist mikið á síðustu árum. Rúmur þriðjungur lögreglukvenna tjáir að á sér hafi verið brotið með kynferðislegri áreitni af hendi karlkyns yfirmanns eða karlkyns samstarfsmanns.

Viðhorf til kvenna eru fremur neikvæð innan lögreglunnar. Konurnar treysta sér og öðrum konum til að sinna öllum verkefnum lögreglunnar en karlar gera það síður. Það sem er kannski alvarlegast er að þessi viðhorf er helst að finna í hópi yngstu lögreglumannanna, þeirra frá 20–29 ára. Viðhorf þeirra eru íhaldssömust sem gefur til kynna að jafnrétti innan lögreglunnar muni ekki aukast sjálfkrafa með komandi kynslóðum.

Það skal tekið fram að þetta slæma vinnuumhverfi hefur ekki aðeins áhrif á konur. 18% allra karlkyns lögreglumanna segjast hafa orðið fyrir einelti af hendi samstarfsmanns eða yfirmanns og 4% þessara karlmanna, lögreglumanna, tjá að þeir hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi.

Þessi skýrsla, herra forseti, er erfið en holl lesning. Það sem mér finnst erfiðast að kyngja er að það erum við, ríkisvaldið og framkvæmdarvaldið, sem bjóðum upp á þessi starfsskilyrði. Það erum við sem leyfum þessari menningu að blómstra sem ungt lögreglufólk gengur inn í, nær ekki að breyta og verður jafnvel samdauna. Þeir sem verða það ekki hætta oft og tíðum.

Það er alveg ljóst að vítahringurinn og þessi valdahringur brýtur sig ekki upp sjálfur. Það gerist aldrei með menningu sem samþykkir undirokun og kúgun. Hún fæðir sjálfa sig á því sama ár eftir ár og það er ástæðan fyrr því að lítið sem ekkert hefur breyst. Staðan hefur verið lögreglu og ráðuneytum ljós lengi, að minnsta kosti síðan 2002. Við sjáum það skýrast á því að þá voru gerðar breytingar á lögum með það að markmiði að auka hlut kvenna í stéttinni. Þau lög hafa ekki borið tilskilinn árangur, því miður.

Svo ég vitni í skýrsluna, herra forseti, hefur á síðustu tíu árum konum fjölgað úr 8,6% í tæplega 13% allra lögreglumanna. Miðað við sams konar þróun verða konur orðnar 30% lögreglumanna 2056, eftir 43 ár, og um 40% lögreglumanna árið 2081, eftir 68 ár.

Við sjáum að þetta gengur ekki svona, þessi löggjöf hafði lítil áhrif en sýndi þó vilja löggjafans sem mikilvægt er að framkvæmdarvaldið virði og fylgi. Því biðla ég til hæstv. innanríkisráðherra að beita sér í málinu.



[15:44]
innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Björt Ólafsdóttur sérstaklega fyrir að taka þetta mál upp hér á þingi enda mikilvægt mál sem ég held að við getum öll verið sammála um að við lítum alvarlegum augum.

Það er rétt að taka það fram sem kom reyndar fram í máli hv. þingmanns, að könnunin um vinnumenningu meðal starfandi lögreglumanna var gerð að frumkvæði ríkislögreglustjóra í samstarfi við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands. Ég held að sú staðreynd skipti máli. Það skiptir máli að frumkvæðið að þessu hafi komið frá lögreglunni sjálfri og að þeir sem þar fara fyrir og eru í stjórn átti sig á stöðunni.

Hv. þingmaður fór vel yfir tilgang könnunarinnar, sem var m.a. sá að skoða af hverju lögreglukonur eru nú svo fáar, því að þær eru fáar, aðeins 12,6% starfandi lögreglumanna eru konur þrátt fyrir, eins og hv. þingmaður benti á, að hlutfall þeirra af brautskráðum nemendum Lögregluskólans sé umtalsvert hærra. Þetta hlutfall starfandi lögreglukvenna, til þess að halda því lifandi og vakandi gagnvart okkur, er hærra í flestum löndum sem við berum okkur saman við. Þetta er ekki staðreynd sem öll lönd glíma við, við erum með mun lægra hlutfall en mörg lönd í kringum okkur. Þetta er líka alvarlegt í ljósi þess, sem hv. þingmaður nefndi einnig, að skýr vilji löggjafans liggur fyrir og hefur legið fyrir frá árinu 2002 þegar lögum var breytt, sem m.a. hafa það að markmiði að fjölga konum við lögreglustörf. Þess vegna er brottfall kvenna úr lögreglunni alvarlegt og hefur verið mikið áhyggjuefni í nokkur ár, m.a. hjá lögreglunni sjálfri. Það er ástæðan fyrir því að þetta er sérstaklega skoðað.

Það er líka margt annað, virðulegur forseti, sem kemur fram í skýrslunni sem vekur og á að vekja okkur öll til sérstakrar umhugsunar. Eitt er það sem við höfum nefnt hér, þ.e. brottfallið. Annað er að það virðist vera sem fáar konur af þessum litla hluta nái þeirri stöðu að vera í forustu innan lögreglunnar. Afar lágt hlutfall kvenna nær þeim árangri innan lögreglunnar. Síðan er ekki síður alvarlegt og reyndar afar alvarlegt að um 30% kvenna í lögreglunni telja sig vera þolendur kynferðislegrar áreitni, sem er auðvitað óþolandi og verður að vinna bug á.

Síðan eru það viðhorfin sem var komið hér inn á áðan, viðhorf yngstu kynslóðarinnar, þ.e. yngstu karlmannanna til kvenna í lögreglunni. Ég verð reyndar að viðurkenna það sem kona í stjórnmálum, hafandi tekið þátt í stjórnmálum ansi lengi, að þessi niðurstaða kom mér ekki sérstaklega á óvart. Mér finnst stundum í sambandi við viðhorf yngri karla til kvenna sem taka þátt í atvinnulífinu til jafns við karla að erfiðara sé að sannfæra unga karlmenn um að það sé eðlilegt og rétt en eldri karlmenn. Kannski er það í þessum málum eins og svo mörgum öðrum að það kallar á nokkurn þroska að átta sig á því að það er samfélaginu til góðs og heilla að við skiptum með okkur verkum með sanngjörnum hætti.

Allar þessar staðreyndir og staða kvenna innan löggæslunnar almennt eiga skilið fulla athygli æðstu manna innan lögreglunnar og þeirra sem fara með lögreglumál í landinu. Þar er ég, ráðherra málaflokksins, ekki undanskilin. Þess vegna mun ég leggja mitt af mörkum til þess að tryggja að brugðist verði við niðurstöðum skýrslunnar. Ríkislögreglustjóri hefur þegar kynnt hvernig embættið hyggst gera það markvisst. Sú vinna verður hafin strax og þegar er byrjað að skipa í starfshópa er lúta að því. Ég vil lýsa sérstakri ánægju með það hversu hratt var tekið á málinu og af hve miklu öryggi lögreglan ætli að takast á við málið enda er það mikilvægt. Sú vinna fer því í gang.

Ég vil einnig upplýsa þingheim um að ég hef rætt málið. Ráðuneytið hefur fengið kynningu á þessari stöðu og eins hef ég átt fund með konum innan lögreglunnar til að fara yfir þessa staðreynd, fékk tækifæri til að hitta þær fyrir helgi og mun síðan í lok vikunnar hitta ríkislögreglustjóra sérstaklega til þess að fara yfir málið og tryggja að það sé í eins góðum farvegi og mögulegt er.

Ég bendi þingheimi líka á það til upplýsingar að frammi fyrir svipuðum vanda og svipaðri skýrslu og svipaðri stöðu stóðu Svíar ekki alls fyrir löngu. Þeir tókust á við það verkefni með mjög afdráttarlausri aðgerðaáætlun til þess að tryggja að á þessu yrði unnið með öðrum hætti og þar er talið að náðst hafi góður árangur.

Ég hvet okkur öll til þess að vinna saman að þessu. Ég hvet lögregluna sérstaklega til þess og hef notað hvert það tækifæri sem ég hef fengið til að minna hana á mikilvægi þess. Ég minni þingmenn sem sitja í nefndum um það hvernig eigi að útdeila auknu fjármagni til lögreglunnar á að horfa sérstaklega til kvenna þegar kemur að viðbótarráðningum sem vonandi verða að veruleika á næsta ári. Ég veit að þannig tekst okkur í sameiningu að tryggja að konur og karlar gangi til þeirra verka sem lögreglufólk gengur til á hverjum degi og almenningur njóti þjónustu beggja kynja frá þeirri (Forseti hringir.) mikilvægu starfsstétt sem lögreglan er.



[15:49]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er vissulega ánægjulegt að á þessu sé tekið. Þetta er grafalvarlegt mál en þetta er ekki bara einkamál lögreglunnar vegna þess að þetta getur endurspeglast út um þjóðfélagið. Karlar eru ríkjandi innan lögreglunnar. Þeir eru þar í meiri hluta, rúmlega 87% starfsmanna þar eru karlar. Alþjóðlegar rannsóknir sýna að það er tilhneiging til að starfsmenn á slíkum vinnustöðum haldi uppi menningu sem kalla má kvenfjandsamlega.

Úr niðurstöðum skýrslunnar ætla ég að geta um nokkur atriði. Þrjár af hverjum tíu lögreglukonum hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni oftar en tvisvar sinnum á undangengnum sex mánuðum, m.a. af hálfu yfirmanns. Ekki er brugðist við ítrekuðu einelti af hálfu karlkyns yfirmanna og upplifun kvenkyns lögreglumanna er að karlar og konur hafi ekki jafna möguleika og að komið sé öðruvísi fram við þær en karla og gengið fram hjá þeim við skipun í ábyrgðarstöður.

Eins og ég sagði er þetta ekki einkamál lögreglunnar. Ég ætla að leyfa mér að vitna til greinar sem formaður og varaformaður kvennahreyfingar Samfylkingarinnar, þær Heiða Björg Hilmisdóttir og Margrét Lind Ólafsdóttir, rituðu í tilefni af birtingu könnunarinnar undir fyrirsögninni „Ógn við réttaröryggi íslenskra kvenna“. Með leyfi forseta:

„Það er grafalvarlegt mál að innan lögreglunnar, útvarðar réttarvörslukerfisins, viðgangist víðtækt kynbundið ofbeldi og kvenfjandsamleg viðhorf eins og könnunin sýnir.“

Og síðan, með leyfi forseta:

„Ástandið innan lögreglunnar er alvarleg ógn við réttaröryggi kvenna á Íslandi og því miður er óhjákvæmilegt að setja það í samhengi við ótrúlegt getuleysi réttargæslukerfisins í viðbrögðum við kynferðisofbeldismálum. Fáar kærur og dómar vegna nauðgana, vændiskaupa og annars kynferðisofbeldis tala þar sínu máli.“

Virðulegi forseti. Ég er ánægð með að (Forseti hringir.) hæstv. innanríkisráðherra ætlar að bregðast við þessu og ég styð hana eindregið til góðra verka í því en ég vil endurtaka að þetta er ekki (Forseti hringir.) einkamál lögreglunnar. Hættan er að þetta endurspeglist út í allt þjóðfélagið.



[15:52]
Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Björt Ólafsdóttur fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga máli. Það er rétt sem hér hefur komið fram að þetta er partur af miklu stærra viðfangsefni, þetta er partur af kynjakerfi sem er kvenfjandsamlegt. Þetta er enn ein birtingarmynd þess af mjög mörgum sem við sjáum því miður mjög víða í samfélaginu. Ég held að að hluta til endurspegli skýrslan bakslag. Ég held að hún endurspegli ekki bara vilja lögreglunnar til að skoða þessi mál af gagnrýni og ábyrgð, sem er mjög mikilvægur og ég fagna sérstaklega, heldur einnig þá staðreynd að það er ákveðið bakslag í samfélaginu sem endurspeglast í skýrslunni, að ungir karlar eru með fjandsamlegri viðhorf til kvenna en þeir eldri.

Það er eitthvað sem þyrfti að skoða betur. Eins og komið hefur fram í máli hæstv. ráðherra er mikill vilji til þess að taka þetta viðfangsefni föstum tökum og ég treysti hæstv. ráðherra til þess. En þetta er auðvitað miklu meira en áhyggjuefni, þetta er óþolandi, það er svo einfalt. Það er algerlega óþolandi staða sem upp er komin og ég tel að það þurfi meira en afstöðu framkvæmdarvaldsins í þessu efni. Það þarf eyrnamerkt fjármagn inn í þá aðgerðaáætlun sem hér er kynnt til sögunnar.

Ég heyri það á hæstv. ráðherra að hún telur að forgangsraða eigi fjármagninu að einhverju leyti í þágu þessarar aðgerðaáætlunar en ég held að það þurfi að tala miklu skýrar í þeim efnum. Talað er um að hér þurfi að koma á miklu öflugri og reglulegri fræðslu um jafnréttismál til stjórnenda og starfsfólks lögreglunnar, að það þurfi jafnréttisfulltrúa í fullt starf o.s.frv. Við þurfum að taka á þessu máli einmitt þar sem rót vandans liggur. Þetta er, eins og bent hefur verið á, hluti af miklu stærri mynd og það er gríðarlega mikilvægt að taka vel á því. Ég hvet fólk til að lesa þessa skýrslu og skoða sérstaklega beinar tilvitnanir í þær konur sem eru í raun rannsóknarefni í þessari rannsókn m.a. vegna þess að þær setningar sem þar koma fram eru þyngri en tárum taki og endurspegla stöðu þessara kvenna innan lögreglunnar.



[15:54]
Þórunn Egilsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Um leið og vil byrja á að þakka málshefjanda, hv. þm. Björt Ólafsdóttur, fyrir að vekja máls á því sem við ræðum hér vil ég lýsa því yfir að mér finnst leitt að þessi umræða skuli þurfa að eiga sér stað.

Þegar við skoðum þær aðgerðir sem lögreglan hefur farið í varðandi jafnréttismál innan sinna raða má segja að þar hafi töluvert verið gert. Í anda jafnréttislaga, nr. 10/2008, hefur verið komið á jafnréttisstefnu innan lögreglunnar. Lögð hefur verið áhersla á að fjölga konum innan stéttarinnar með því að fjölga þeim í Lögregluskólanum en þær skila sér ekki til áframhaldandi starfa innan stéttarinnar.

Það er þekkt staðreynd að á vinnustöðum þar sem kynjahlutföll eru jöfn líður fólki betur en þar sem það er ekki. Þegar fólki líður vel þarf það ekki að angra aðra. Því miður er þetta ástand ekki eingöngu bundið við lögregluna. Í samfélaginu okkar viðgengst ofbeldi sem við eigum ekki að sætta okkur við, ofbeldi sem bæði karlar og konur verða fyrir.

Hæstv. forseti. Nú ætla ég að leyfa mér að segja eins og sagt er í minni sveit þegar mikið liggur við: Hvers lags er þetta eiginlega? Viljum við hafa þetta svona? Nei, við viljum það ekki. En þrátt fyrir allar lagasetningar, átaksverkefni og yfirlýsingar erum við á óásættanlegum stað. Eina ráðið sem ég kann við þessu er að við hvert og eitt tökum okkur til og ræðum í okkar hópum hvernig við viljum haga samfélagi okkar. Hvað samþykkjum við og hvað ekki? Hjálpum hvert öðru og fáum já áður en lengra er haldið.



[15:56]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Herra forseti. Ég þakka þessa góðu umræðu. Ég vona að þessi skýrsla endi ekki ofan í skúffu eins og allt of margar skýrslur gera og að ekki verði stofnaður hver vinnuhópurinn á fætur öðrum eða hver nefndin á fætur annarri heldur verði einfaldlega gengið í málið. Það er í sjálfu sér ekki eftir neinu að bíða.

Það hefur komið fram að afar fáar konur ná framgangi innan lögreglunnar og það er ekki endilega hvetjandi að vinna í umhverfi þar sem körlum er hyglað umfram konur þar sem minna hæfir menn komast áfram en hæfum konum er ekki gert kleift að ná framgangi. Þá getur maður spurt sig: Af hverju ættu konur yfir höfuð að sækja í þannig starfsumhverfi? Það hlýtur að vera skýring á því hversu fáar konur sækja í lögreglustörf.

Ég held að það sé alltaf varhugavert þegar hallar verulega á annað kynið. Oftast eru það konur og Hæstiréttur er kannski besta dæmið um það.

Ég þakka þessa góðu umræðu og treysti því að hæstv. ráðherra gangi í þetta mál.



[15:58]
Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka kærlega fyrir þessa mikilvægu umræðu. Það kemur á óvart að hingað til hefur aðeins kvenmönnum verið treyst fyrir umræðunni en hér er bætt úr.

Það hlutverk sem við erum hér með er mjög mikilvægt, þ.e. að fjölga konum í lögreglunni. Á því hafa stjórnvöld áttað sig fyrir svolitlu síðan með því að breyta lögum og reglum fyrir Lögregluskólann til að fjölga konum. Þess vegna er mikilvægt fyrir okkur að nota niðurstöðu þessarar skýrslu til að halda því markmiði til streitu og nálgast það hraðar, nota skýrsluna til að greina hvað er vandamál og af hverju hefur ekki tekist betur til. Það má lesa margt út úr skýrslunni og eitt það sem ég tel að geti verið ástæðan er menningin sem hefur byggst upp á vinnustaðnum þar sem karlmenn hafa verið í miklum meiri hluta frá upphafi og skapað vissa menningu. Það þarf að breyta menningunni með nýjum aðstæðum, bæði nýjum störfum innan lögreglu og annarri samsetningu. Í það þarf að ganga núna strax og þar held ég að yfirstjórn lögreglunnar eigi að grípa boltann. Löggjafinn er búinn að setja jafnréttislög, breyta lögreglulögum og annað. Nú þarf yfirstjórnin að taka við og setja á fót jafnréttisáætlanir og annað. Þess vegna er ánægjulegt það frumkvæði ríkislögreglustjóra að stofna starfshóp til að taka á verkefninu. Hann hefur nú þegar óskað eftir tilnefningum sem ég held að séu komnar.

Vandamálið við framgang innan lögreglunnar er kannski meira en bara gagnvart konum. Það er jafn mikil óánægja með framgang innan lögreglunnar hjá körlum og konum eins og kemur fram í skýrslunni. Eitt vandamálið í lögreglunni er að maður þarf að fá stöðuhækkun til að komast áfram.

Ég tel jákvætt (Forseti hringir.) að það séu frekar ungir en eldri lögreglumenn sem treysta konum síður af því að þeir eldri vita hvað konurnar geta eftir starfsreynsluna og vita betur út á hvað starfið gengur.



[16:00]
Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka umræðuna sem er vel við hæfi í jafnréttisviku. Það er forvitnilegt að skoða þessa skýrslu með tilliti til þess að við erum að ræða um lögregluna sem nýtur hvað mest trausts allra stofnana í íslensku samfélagi þar sem 77% treysta lögreglunni. Það er líka forvitnilegt að skoða skýrsluna í samhengi við það að við erum nýbúin að fá þann úrskurð fimmta árið í röð að Ísland sé það land í heiminum þar sem jafnrétti er hvað mest. En við vitum af veikleikunum. Það er kynbundinn launamunur, sem er enn mikið vandamál hjá okkur, og kynbundið ofbeldi.

Því til viðbótar er kynskiptur vinnumarkaður líka mjög áberandi á Íslandi og það birtist meðal annars hjá lögreglunni þar sem ekki hefur tekist á undanförnum árum að breyta kynjahlutfallinu og lægra hlutfall kvenna er í lögreglunni hér en annars staðar.

Samkvæmt skýrslunni sem er til umfjöllunar, og það er athyglisvert, er vinnuumhverfið þeim konum sem eru í lögreglunni raunverulega fjandsamlegt og möguleikar á framgangi í starfi minni hjá þeim en körlunum.

Það er líka sláandi að einelti og kynferðisleg áreitni er mun algengari innan lögreglunnar en á öðrum stöðum. Það er því gríðarlega mikið verk að vinna og ánægjulegt að fram hefur komið í umræðunni að menn taki það mjög alvarlega og muni gera allt sem hægt er til að breyta því.

Ég sagði í upphafi að traust til lögreglunnar væri mikið og það er gríðarlega mikilvægt í samfélagi eins og okkar, vestrænu samfélagi, að traustið sé mikið. Þá er erfitt að sætta sig við að fá fullyrðingar um að í þessari stétt sé karllægur mórall byggður á gamaldags staðalímyndum um hlutverk kynja, að karlar í lögreglunni telji konur sér síðri til starfsins, þar vanti líkamlega burði o.s.frv. Það eru viðhorf sem maður hefur ástæðu til að óttast að smitist út í samfélagið ef þau eru hjá lögreglunni. Þeim mun mikilvægara er að við tökum á því strax, reynum að tryggja (Forseti hringir.) að lögreglan njóti áfram trausts en það getur hún eingöngu gert með því að vinna á þessum vandamálum innan eigin stéttar.



[16:02]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum stöðu kvenna innan lögreglunnar. Eins og minnst var á áðan kom það fram í fréttum að Ísland er í fyrsta sæti yfir þau lönd þar sem jafnréttið er mest í heimi samkvæmt könnun World Economic Forum. Það virðist því miður ekki eiga við þegar horft er til stöðu kvenna innan lögreglunnar samkvæmt nýlegri skýrslu um meðal annars vinnumenningu innan lögreglunnar. Þar má lesa um hluti sem engum er til sóma hvað varðar gagnkvæma virðingu og jafnrétti innan lögreglustéttarinnar.

Ég ætla að grípa niður í nokkra kafla sem vekja athygli.

Ljóst er að hlutur kvenna í lögreglunni hefur ekki aukist sem skyldi og því er mikilvægt að skoða hugsanlegar ástæður þess. Framgangur kvenna hefur verið lítill sem enginn síðustu árin og er mikið áhyggjuefni hvað veldur því. Konur upplifa að þær fái ekki framgang í starfi líkt og karlar og nefna flestar lögreglukonur það sem eina af ástæðunum fyrir því að þær hætta í lögreglunni.

Af lestri skýrslunnar má sjá að mikið er um einelti í lögreglunni. Ein af hverjum fjórum konum telur sig hafa orðið fyrir einelti. Einnig kemur fram að sjö af hverjum tíu gerendum hafi verið karlkyns yfirmaður. Tæplega þriðjungur kvenna í lögreglunni hefur orðið fyrir kynferðislegri áreitni í starfi sínu og kynferðisleg áreitni virðist sjaldnast vera aðeins eitt tilvik heldur gerist það oft.

Hér eru aðeins nefnd nokkur atriði sem þarf að hafa verulegar áhyggjur af og ekki er líðandi að viðgangist í lögreglustéttinni frekar en annars staðar í samfélaginu. Við eigum greinilega langt í land með að ná raunverulegu jafnrétti kynjanna á þessum vettvangi sem annars staðar.

Það er því verk að vinna og treysti ég því (Forseti hringir.) að hæstv. innanríkisráðherra skoði þessi mál gaumgæfilega og komi með tillögur til úrbóta.



[16:05]
Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Nýútkomin skýrsla um lögregluna er að mörgu leyti áhyggjuefni. Hún ber það með sér að starfsumhverfi lögreglunnar er erfitt — náttúrlega fólks af báðum kynjum en þó sérstaklega lögreglukvenna. Það er mjög bagalegt að konur upplifi það innan lögreglunnar að þeim sé ekki treyst, það er mikið áhyggjuefni og einnig þessar tölur um kynferðislega áreitni sem eru óþolandi.

Ég gleðst mjög yfir að heyra viðbrögð ráðherra við skýrslunni. Hún tekur verulega alvarlega það sem í skýrslunni segir. Ljósglætur eru í skýrslunni, samanber það að heldur hefur fjölgað síðustu 10 ár. Það er heldur ekki tilviljun, finnst mér, að það embætti sem ég þekki best til — ég starfaði um árabil með lögreglunni sem var mjög ánægjulegt — embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum, hefur sett sér jafnréttisáætlun, framkvæmdaáætlun á sviði jafnréttismála. Það harmónerar mjög vel við það — þó að nokkuð langt sé um liðið síðan ég starfaði þarna — að konur voru þó fleiri í því embætti en annars staðar. Kannski ættu menn að líta þangað sem skár hefur til tekist til að byggja ofan á og gera betur.

Það er reyndar líka athyglisvert, sem ég hef samkvæmt áreiðanlegum heimildum, að 65% lögreglukvenna fá starf sem þær sækja um en 55% karlmanna. Þá er spurningin: Eru lögreglukonur ekki nógu duglegar að sækja um þau störf sem losna? Það er ein spurning. En auðvitað hljótum við öll að taka þessa skýrslu mjög alvarlega og vinna að því að bæta hér úr sem allra fyrst.



[16:07]
Björt Ólafsdóttir (Bf):

Herra forseti. Ég þakka umræðuna og lýsi ánægju minni yfir undirtektum allra þingmanna og auðvitað helst hæstv. innanríkisráðherra sem ég trúi og treysti að taki á málinu af myndugleik. Ég var ánægð að heyra að hún hefur hugmyndir um aðgerðaáætlun og stefnu í þessum málum. Það er til góðs, en það er oftast þannig í svona málum og eins stefnu fyrirtækja og hvar sem er þar sem við höfum háleitar hugmyndir og ætlum að ganga til góðs að innleiðingin verður stóra vandamálið. Það er það sem ég hef áhyggjur af. Ég vil því brýna hæstv. ráðherra, hún er með framkvæmdina í sínum höndum, til að vera beitt því að þetta lagast ekkert af sjálfu sér. Allir virðast vera sammála en samt sem áður er staðan svona.

Þetta er erfitt mál út af því að lögreglan er auðvitað eins og aðrir vinnustaðir kunningjasamfélag, fólk er þar lengi í störfum sínum og það þarf mikið til að brjóta hlutina upp.

Til að bregðast við því sem hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson velti fyrir sér, hvort konur sæktust í þessi efri stig, þá kemur það einmitt fram í skýrslunni að jafnt hlutfall karla og kvenna vill fá stöðuhækkun eða um það bil, þ.e. (Forseti hringir.) 55,8% karla og 50% kvenna, þannig að sú mýta þar sem oft er látið í veðri vaka að konur sæki ekki um og vilji ekki fara hærra á ekki við hér.



[16:09]
innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil í lokin þakka þessa umræðu. Ég þakka þingmönnum sérstaklega fyrir mjög afdráttarlausar skoðanir og stuðning við þær breytingar sem nauðsynlegar eru. Það skiptir líka máli fyrir framkvæmdarvaldið að ljóst sé til hvers hugur þingheims stendur í þessu máli og ég held að hann sé alveg skýr. Skilaboð okkar allra til lögreglunnar eru alveg skýr, að við viljum sjá þetta hlutfall breytast og við viljum sjá breytingar verða þannig að almenningur, eins og ég sagði áðan, njóti jafnt karla og kvenna við þessa mikilvægu þjónustu.

Ég held nefnilega að það sem margir hafa nefnt hér sé ríkari þáttur en við viljum horfast í augu við og það eru viðhorf okkar allra, viðhorf lögreglunnar og viðhorf karlmanna í þessari stétt en líka viðhorf almennings í kannski of miklum mæli sem lítur á störf í lögreglu sem störf sem henti karlmönnum betur en konum. Það er ímyndin á lögreglustarfinu sem gerir það að verkum að einhverjir telja að það sé farsælla og vitna þá t.d. til líkamsburða eins og það sé eiginleikinn sem skipti mestu máli í lögreglustarfinu. Þá held ég að menn vanmeti mjög mikið og leggi jafnvel rangt mat á það hvað felst í því að sinna þessari þjónustu og hvað það er mikilvægt að að henni komi fjölbreyttur hópur fólks og ólíkir einstaklingar, ég tala nú ekki um bæði kvenkyns og karlkyns. Ég held að það sé atriði sem við eigum öll að staldra við og líta í eigin barm hvað það varðar.

Ég treysti því að lögreglunni sé mikil alvara með því að taka á þessu máli. Ég veit það líka að lögreglan, eins og var komið inn á hér áðan, nýtur mikils trausts og til að viðhalda því trausti er mikilvægt að þessu verði breytt. Ég held að við hljótum öll að geta verið sammála um það.

En í lokin vegna þess að nefnt var að viðhorfin væru til staðar en við hefðum ekki tækifæri þá höfum við tækifæri núna. Ef Alþingi samþykkir 500 millj. kr. viðbótarframlag til löggæslunnar á Íslandi þá er það tæki til að ráða fleiri lögreglumenn og fleiri lögreglukonur. Það er tæki sem menn eiga að líta á núna og nýta til að fjölga konum í lögreglunni og bæta um leið þjónustuna sem almenningur nýtur af hálfu lögreglunnar.