143. löggjafarþing — 12. fundur
 30. október 2013.
aðskilnaður viðskiptabanka og fjárfestingarbanka, fyrri umræða.
þáltill. ÁÞS o.fl., 18. mál. — Þskj. 18.

[17:57]
Flm. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli hérna fyrir tillögu til þingsályktunar um aðskilnað viðskiptabanka og fjárfestingarbanka. Flutningsmenn tillögunnar eru, ásamt mér, hv. þingmenn Helgi Hjörvar, Bjarkey Gunnarsdóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Ögmundur Jónasson. Tillagan hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að skipa nefnd er kanni hvort og þá með hvaða hætti megi aðskilja viðskiptabanka og fjárfestingarbanka með það að markmiði að lágmarka áhættuna af rekstri banka og áföllum í starfsemi þeirra fyrir þjóðarbúið. Nefndin skoði stefnumótun nágrannaríkja í þessu sambandi og skili tillögum sínum fyrir 1. október 2014.“

Það er rétt að taka það fram að þingsályktunartillaga þessi kemur nú fyrir Alþingi í rauninni í fjórða sinn því að hún var fyrst flutt á 140. þingi og síðan á hverju þingi síðan og á þinginu sl. vor kom fram góður stuðningur við tillöguna í efnahags- og viðskiptanefnd. Hún var afgreidd frá nefndinni með orðalagsbreytingu. Ég hef að þessu sinni tekið tillit til þeirrar orðalagsbreytingar í tillögunni sem efnahags- og viðskiptanefnd lagði til í vor. En ég tel hins vegar að þörf samfélagsins fyrir að láta kanna það mál sem þingsályktunartillagan fjallar um sé enn hin sama og þess vegna finnst mér mikilvægt að endurflytja hana, enda fékk tillagan, eins og ég segi, ágætar viðtökur í efnahags- og viðskiptanefnd í vor þó að ekki hafi tekist að ljúka málinu fyrir kosningar.

Bankastarfsemin sem hér um ræðir, annars vegar rekstur fjárfestingarbanka og hins vegar starfsemi almennra viðskiptabanka, er að mörgu leyti gjörólík þannig að mikið álitamál er hvort þessi rekstur geti átt farsæla samleið í einu og sama fyrirtækinu ef mat á því fer fram á forsendum almannahagsmuna eingöngu en ekki sérhagsmuna þeirra sem eiga og starfrækja fjármálafyrirtækin.

Almenn viðskiptabankastarfsemi byggist á inn- og útlánum og því sem kalla má hefðbundna fjármálaþjónustu við einstaklinga og fyrirtæki og nýtur sem slík sérstakrar verndar hins opinbera sem baktryggir þessa starfsemi að ákveðnu marki með innlánavernd. Fjárfestingarbankar fást hins vegar við fjármögnun ýmiss konar fjárfestinga; viðskipti með verðbréf, hlutabréf, ráðgjafarstarfsemi og eignastýringu og rekstur þeirra er að jafnaði til muna áhættusæknari og áhættusamari en starfsemi hinna almennu viðskiptabanka. Með því að blanda saman almennri bankastarfsemi og hinum áhættusækna fjárfestingarbankarekstri skapast hætta á að tjón vegna fjárfestinga sem farið hafa í súginn lendi á almenningi í stað þess að það hafni allt og óskipt hjá þeim sem gerðu hinar áhættusömu ráðstafanir.

Það er til að draga úr líkunum á slíkum óförum almennings af völdum áhættusækinna og stundum dómgreindarlausra aðila sem þessi þingsályktunartillaga er flutt.

Allt síðan efnahagshrunið gekk yfir víða um lönd haustið 2008 hefur verið til umræðu hvort aðskilja skuli almenna bankastarfsemi og fjárfestingarbankastarfsemi til fulls. Er þá gjarnan rifjað upp að meðal viðbragðanna í Bandaríkjunum við efnahagskreppunni sem leiddi af fjármálahruninu árið 1929 var einmitt bann við samþættingu almennra viðskiptabanka og fjárfestingarbanka, svokölluð Glass-Steagall löggjöf. Þetta bann var í gildi fram til síðustu aldamóta en var þá afnumið. Raunar er það svo að sú ráðstöfun er, a.m.k. af sumum, talin vera helsta orsök þess að sú efnahagsbóla myndaðist sem sprakk svo eftirminnilega haustið 2008. Um það má áreiðanlega deila.

Starfsemi fjárfestingarbanka er ekki umfangsmikil hér á landi sem stendur en miklu skiptir þó að um hana gildi skýrar reglur og þær reglur séu með þeim hætti að starfsemin feli ekki í sér ógn fyrir fjármálakerfi landsins í heild. Þó er rétt að geta þess að samkvæmt frétt í Ríkisútvarpinu 20. ágúst sl. er gert ráð fyrir að eignir fjárfestingarsjóða verði um 110 milljarðar króna í árslok á þessu ári og hafa þær þá fimmfaldast á fimm árum. Árið 2007, fyrir hrun voru eignir fjárfestingarsjóða hins vegar um 538 milljarðar króna en hrundu við fall bankanna niður í um 20 milljarða á árinu 2009.

Eins og ég segi er starfsemi fjárfestingarbanka ekki umfangsmikil hér á landi sem stendur eins og þær tölur sem ég gat um bera með sér en mikilvægt er að skýrar reglur gildi um þessa starfsemi. Sömuleiðis er mikilvægt að tryggt sé að starfsemin feli ekki í sér ógn fyrir fjármálakerfi landsins í heild sinni og geti þannig orðið til þess að óréttmætar fjármálabyrðar lendi á almenningi.

Það er vitað mál að nokkur ágreiningur er um það meðal þeirra aðila sem fást við fjármál og bankastarfsemi hér á landi hvort rétt sé að aðgreina starfsemi fjárfestingarbanka og almenna viðskiptabanka að fullu. Þess er þó vert að minnast að í skýrslu sérfræðinganefndar Evrópusambandsins um framtíðarskipan fjármálakerfis Evrópu, sem skilaði niðurstöðum sínum haustið 2012, var lagður til aðskilnaður hefðbundinnar bankastarfsemi og starfsemi fjárfestingarbanka með þeim hætti að síðarnefnda starfsemin verði ávallt á vegum sérstaks lögaðila eða félags sem getur verið innan sömu samsteypu engu að síður. Þessar tillögur eru um margt líkar þeim tillögum eða reglum sem gilt hafa í Bandaríkjunum undanfarin ár og kenndar eru við Paul Volcker, fyrrverandi seðlabankastjóra Bandaríkjanna, og takmarka heimildir fjármálafyrirtækja til áhættusamrar starfsemi með ýmsu móti.

Þróun á Vesturlöndum eftir efnahagshrunið haustið 2008 hefur gengið í þá átt að þróa haldbærar leiðir til þess að draga úr kerfisbundinni fjármálaáhættu með því að finna leiðir sem hindra eða milda verstu afleiðingar óskynsamlegs athæfis í fjármálum og hagar svo til að þegar miður fer lendi afleiðingar fyrst og fremst á þeim sem stofnuðu til áhættunnar en ekki á öðrum. Meðal þess sem gert hefur verið er að reisa múra milli almennrar bankastarfsemi og starfsemi fjárfestingarbanka. Mikilvægt er fyrir Íslendinga að fylgjast grannt með framvindunni á þessum vettvangi og móta reglur í þessa veru sem ekki gefa erlendu regluverki eftir á neinn hátt.

Virðulegur forseti. Hér er lagt til að á þessu stigi verði fjármála- og efnahagsráðherra falið að skipa nefnd sem kanni hvort og þá með hvaða hætti megi skilja að starfsemi viðskiptabanka og fjárfestingarbanka þar sem meginmarkmið á að sjálfsögðu að vera að lágmarka áhættuna af rekstri banka og áföllum í starfsemi þeirra fyrir þjóðarbúið í heild. Ég hygg að það geti verið nokkuð góð samstaða um það en menn getur að sjálfsögðu greint á um hvaða leiðir á að fara, hvort það eigi að gera með fullkomnum aðskilnaði þessara tegunda bankastarfsemi eða hvort það eigi að gera með einhverjum öðrum hætti. Það er þá opið fyrir það miðað við það orðalag sem tillagan gerir ráð fyrir.

Virðulegur forseti. Ég vonast til þess að tekist geti sambærileg samstaða um málið og varð á vettvangi efnahags- og viðskiptanefndar síðastliðið vor. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og síðari umræðu.



[18:05]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu sérstaklega. Ég ætla að þakka 1. flutningsmanni málsins, hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni, fyrir endurflutninginn. Ég hef staðið að þessari tillögu held ég í hverjum einasta flutningi hingað til enda tel ég mikilvægt að við förum að efni tillögunnar. Ég vildi árétta það í þingsal að mikil samstaða var um málið í efnahags- og viðskiptanefnd þegar það var afgreitt þaðan á 141. þingi að mig minnir. Það voru eingöngu fundaskapalegar, tæknilegar pólitískar brellur sem komu í veg fyrir að ýmis mál færu á dagskrá. Það var ekki sérstök pólitísk andstaða við tillöguna. Því tel ég mikilvægt að þingið afgreiði hana sem fyrst.

Hér er talað um að skila eigi tillögum fyrir 1. október 2014 og það er mikilvægt þegar verið er að vinna tillögur sem þessar að nægur tími sé til vinnunnar. Það eru liðin fimm ár frá hruni og bankakerfið sem við ætlum að vera með til framtíðar þarf að fara að taka á sig mynd. Því er mjög mikilvægt að við afgreiðum þessa þingsályktunartillögu sem fyrst og ég vildi koma hér upp til að hvetja til þess að gengið verði hratt og örugglega í það enda er þingið búið að fjalla ítarlega um málið og komast að sameiginlegri niðurstöðu í nefnd. Þó að hér séu komnir nýir þingmenn að málinu og þeir vilji eðlilega kynna sér málið en ekki láta þingmenn sem jafnvel eru farnir af þingi taka ákvarðanir fyrir sig, finnst mér gangur málsins til vitnis um að engin alvarleg átök eru um tillöguna og það ætti að vera hægt að afgreiða hana hratt og vel, fjármálakerfinu og þar með samfélaginu öllu til heilla.



[18:07]
Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ég tók þátt í félagsskap sem er kallaður IFRI, Icelandic Financial Reform Initiative. Fyrir tveimur árum síðan kom hópurinn saman, hópur úr grasrótinni, og fór að skoða hvernig hægt væri að gera endurbætur á fjármálakerfinu. Vinnunni miðaði gríðarlega vel, ofboðslegur áhugi og sett voru fram þau grunngildi sem fólki fannst að fjármálakerfið yrði að byggja á. Fyrsta grunngildið var sjálfbærni, kerfið þyrfti að vera sjálfbært.

Í Icesave-deilunni sáum við að þjóðin vill ekki að ríkið, skattgreiðendur, beri ábyrgð á fjárhagslegri áhættu einkaaðila. Þessi þingsályktunartillaga leiðir til þess að dregið verði úr þeirri áhættu sem skattgreiðendur þurfa að bera þegar kemur að einkarekstri fjármálastofnana.

Þessi félagsskapur, grasrótarhópurinn sem kom saman, skoðaði hvaða úrbætur mætti gera á fjármálakerfinu og tók saman tíu atriði sem honum fannst vera mikilvægust. Við enduðum með aðskilnað fjárfestingar- og viðskiptabanka sem það atriði sem við vildum setja í forgang. Það væri það atriði sem hvað einfaldast væri að koma í framkvæmd af þeim úrbótum sem við komum okkur saman um. Ég styð því heils hugar þessa þingsályktunartillögu og mun greiða atkvæði með henni.

Tíu tillögur IFRI má finna á IFRI.is og mig langar til að lesa þessa fyrstu tillögu um aðskilnað fjárfestingar- og viðskiptabanka, með leyfi forseta:

„Aðskilnaður er lykilatriði, þar sem áhætta er annars vegar og öryggi hins vegar. Hér er verið að vísa til svokallaðra Glass-Steagall laga, sem samþykkt voru í Bandaríkjunum árið 1933, í kjölfar hrunsins árið 1929. Í raun er tilgangurinn sá að aðskilja áhættuna af þessum rekstrarformum, fjárfestingarbanka annars vegar og viðskiptabanka hins vegar.

Umbætur á þessu sviði eru að okkar mati nauðsynlegar á Íslandi, ekki bara með vísan til þessara bandarísku laga, heldur er það grundvallaratriði að skilgreina og aðgreina bankastarfsemi af þessu tagi. Umbætur í þessa veru verða að eiga sér stað með aðkomu almennings og verða að vera fyrir opnum tjöldum. Markmiðið ætti að vera að takmarka ábyrgð skattgreiðenda á bankakerfinu. Starfsemi fjárfestingarbanka og viðskiptabanka þarf að skilgreina með tilliti til fjárfestingarstefnu, söfnun innlána og stærð bankanna, svo eitthvað sé nefnt. Jafnvel mætti lagskipta fjármálakerfinu eftir áhættu, þar sem greiðslumiðlun er neðsta lagið, viðskiptabanki næsta lag og fjárfestingarbanki rekur lestina.

Þess má að lokum geta að Glass-Steagall lögin svokölluðu voru afnumin í Bandaríkjunum þann 12. nóvember árið 1999. Sumir telja að afnám þessara laga hafi átt stóran þátt í því hruni sem varð haustið 2008.“

Ég þakka kærlega fyrir þessa þingsályktunartillögu og mun greiða atkvæði með henni.



[18:11]
Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka flutningsmönnum fyrir að þessi tillaga skuli vera komin fram. Ég ætla í umræðunni að benda á nokkur atriði þar sem mér finnst gæta nokkurs misskilnings. Þar er kannski fyrst og fremst að í allri umfjöllun um aðskilnað viðskiptabanka og fjárfestingarbanka er gjarnan ruglað saman fjárfestingarbankastarfsemi og fjárfestingarstarfsemi. Það er alveg ljóst að í lögum um fjármálafyrirtæki sem tóku gildi árið 2002, lög nr. 161/2002, voru lagðar hömlur við því að fjármálafyrirtæki stunduðu fjárfestingarstarfsemi, þ.e. bönkum og fyrirtæki er gefin heimild til þess að stunda ákveðna starfsemi sem er talin upp í 14 töluliðum, ef ég man rétt og nokkrum stafliðum þar inni á milli og síðan kemur þar á eftir heimild til að yfirtaka eignir, þ.e. fullnustueignir, fyrirtæki til fullnustukröfu.

Þessi heimild var notuð nokkuð frjálslega og með fullu samþykki Fjármálaeftirlitsins á þeim tíma þannig að ekki var um fjárfestingarbankastarfsemi að ræða heldur hreinlega fjárfestingarstarfsemi. Bankar töldu eðlilegt að þeir tækju á sig rekstraráhættu viðskiptavina sinna með því að fjárfesta í slíkri starfsemi. Með fullkomnum aðskilnaði fjármálastarfsemi og annarrar starfsemi — sem við getum kallað almennan iðnað eða almennan atvinnurekstur sem var og er ætlast til með núverandi löggjöf, það var aðeins hert á þessu árið 2011 ef ég man rétt — vil ég því meina að hér sé gengið dálítið langt með því að fullyrða að það sem gerðist hafi stafað af því að bankarnir hafi verið í fjárfestingarstarfsemi innan um viðskiptabankastarfsemi sína. Þessi lína — fjárfestingarbankastarfsemi, viðskiptabankastarfsemi — er ekki bein, hún er dálítið flókin.

Það var hins vegar þannig og það hefur komið í ljós, eins og ég sagði áðan, að bankarnir stunduðu alveg skýlausa fjárfestingarstarfsemi. Einstakir starfsmenn bankans ráku einkavogunarsjóð fyrir sjálfa sig innan bankanna. Bankarnir stunduðu markaðsmisnotkun með því að verja verð á eigin hlutabréfum og vísa ég þar til dómsmáls ef um það verður spurt. Mér finnst stundum þegar ég les þessa tillögu í gegn að verið sé að blanda saman tveimur hlutum, fjárfestingarstarfsemi og fjárfestingarbankastarfsemi. Það er alveg klárt að ekki er heimild til fjárfestingarstarfsemi. Ég get hins vegar tekið undir það eftir það sem hefur gengið á hér á undanförnum tíu árum skulum við segja, frá árinu 2003, að Ísland getur varla hafnað því að þetta mál sé skoðað. Þegar ekki ómerkari menn en Paul Volcker, Vickers lávarður og Finninn Erkki Liikanen hafa skoðað þetta hver á sínu svæði held ég að ágætt sé að líta í eigin rann.

Við megum ekki fara svo bratt á milli kantanna í þessu landi að allt sem við leyfðum áður og var látið afskiptalaust, eigi að fara að banna allflesta hluti þótt þeir séu í fullkomlega eðlilegu samhengi við eðlilega fjármálastarfsemi. En hins vegar, og ég get tekið undir það, þegar glæpsamlegt innræti er komið inn í fjármálastarfsemi er erfitt að taka þar á. Ég get að mörgu leyti tekið undir að þetta sé skoðað en er ekki jafn bjartsýnn og flutningsmenn að þetta leysi allan vanda. Ég hef lokið máli mínu að sinni.



[18:16]
Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Mig langar að spyrja hv. þingmann, hann svaraði því eiginlega hérna undir lokin, hvort hann sé ekki samþykkur því að Alþingi álykti að fela fjármála- og efnahagsráðherra að skipa nefnd sem kanni — kanni — hvort og þá með hvaða hætti megi aðskilja viðskiptabanka og fjárfestingarbanka með það að markmiði að lágmarka áhættuna af rekstri banka o.s.frv., eins og kveðið er á um í þessari þingsályktunartillögu, og hvort hann komi ekki að því starfi að enn frekar verði hægt að skjóta loku fyrir að starfsmenn viðskiptabanka reki fjármálastofnanir eins og vogunarsjóði, eins og hv. þingmaður nefndi.



[18:17]
Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sagði, eins og þingmaðurinn tók fram í lokin, að ég teldi ekkert athugavert við að skoða þetta. Ég vil líka minna á það að á undanförnum árum hefur farið fram mjög víðtæk endurskoðun á löggjöf um fjármálastarfsemi. Löggjöfin um fjármálafyrirtæki hefur verið endurskoðuð ef ég man rétt tvisvar, þrisvar sinnum með viðbótum þar sem hefur verið hert á þessum ákvæðum um fjárfestingarþáttinn, þ.e. að heimilt er að stunda fjármálastarfsemi sem er talin upp í þessum stafliðum og hert á því að ekki er heimilt að stunda aðra starfsemi. Landsbankanum er til dæmis ekki heimilt að reka skipafélag. Það er algjörlega óskyld starfsemi. Íslandsbanka er ekki heimilt að reka flugfélag o.s.frv.

Það sem ég ætlaði mér í rauninni að gera með minni ræðu var að vekja athygli á því að fjárfestingarstarfsemi banka og fjárfestingarbankastarfsemi er ekki sami hluturinn. Ég tel rétt rétt eins og aðrar þjóðir sem stunda fjármálastarfsemi, eins og Bretar og Bandaríkjamenn og Evrópusambandið, að þessi könnun fari fram á Íslandi. Það voru eiginlega mín lokaorð og ég vona að þau hafi komist til skila.

Ég hef lokið máli mínu, virðulegi forseti.



[18:19]
Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Gott að heyra. Þá spyr ég aftur fyrst svo er að skilja að það sé gott að þessi könnun fari fram hvort hún megi ekki fara fram í forminu sem lagt er til í þingsályktunartillögunni, þá sé bara farið í þá vinnu þannig og ekkert beðið með það. Þingsályktunartillagan er komin og við keyrum á þetta dæmi.

Þingmaðurinn hefur greinilega áhuga á þessu máli, að ekki sé verið að reka viðskiptabanka sem vogunarsjóði, þ.e. starfsmenn bankans virðast hafa gert það eins og þingmaðurinn nefndi. Vill hann ekki koma sérstaklega að þessari vinnu og bæta jafnvel inn einhverjum greinum sem takmarkar þetta enn frekar?



[18:20]
Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði mér ekki að lengja þessa umræðu. Ég hef tekið þátt í endurskoðun á þessari löggjöf allar götur frá árinu 2010 og það verulega. Reyndar kom ég harkalega að sams konar máli árið 2003 þegar Landsbankinn yfirtók Eimskipafélagið og benti á að fjármálafyrirtæki væri þetta ekki heimilt. Þá benti ég á að Landsbankinn væri ekki fjárfestingarfyrirtæki, Landsbankinn væri fjármálafyrirtæki sem hefði ekki þá starfsheimild að reka skipafélag í dótturfélagi. Þáverandi stjórnendur Fjármálaeftirlitsins töldu þetta allra eðlilegasta hlut, a.m.k. gat ég ekki skilið þá öðruvísi. Ég hef reyndar komið þessu að í greinaskrifum í fyrra starfi mínu sem háskólakennari. Þar hef ég talið það vera upphafið að því sem hér gerðist að menn fóru á svig við lög um fjármálafyrirtæki. Hér varð siðrof sem ég leyfði mér að dagsetja.

Eins og ég sagði áðan að fyrst Bandaríkjamenn töldu ástæðu til að skoða þetta, fyrst Bretar telja ástæðu til að skoða þetta og Evrópusambandið þá ætla ég ekki að banna Íslendingum að skoða þetta. Hafi ég verið beðinn um aðstoð við að bjarga íslenskum fjármálamarkaði hef ég ekki legið á liði mínu. Ég vona að þetta svari spurningu … (Gripið fram í.) Ha? (Gripið fram í.) Ég sagði áðan í innleggi mínu að ég mundi styðja þetta að öðru óbreyttu. Þetta er orðin löng spurning. (JÞÓ: Takk fyrir.) Ég hef lokið máli mínu.



[18:22]
Flm. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Herra forseti. Bara rétt örstutt í lokin á þessari umræðu, ég vil þakka hv. þingmönnum sem hafa tekið til máls í þessari umræðu ágætar undirtektir. Sérstaklega vil ég þakka hv. þm. Vilhjálmi Bjarnasyni fyrir að lýsa því yfir — og þeir sem eru læsir á það sem menn segja hér í ræðustóli hafa skilið það þannig — að hann mundi vilja ljá þessu þingmáli einhvers konar stuðning á vettvangi efnahags- og viðskiptanefndar, geri ég ráð fyrir.

Ég vek athygli á því og undirstrika að hér er fyrst og fremst verið að leggja til að ráðherra skipi nefnd til að fara yfir þetta mál, skoða kosti og galla og hvernig menn eiga að meðhöndla þetta mál þar sem markmiðið sé að lágmarka áhættuna af rekstri banka og áföllum í starfsemi þeirra fyrir þjóðarbúið. Um það hljótum við öll að geta verið sammála.

Svo vil ég vekja athygli á því að í greinargerð með þessari tillögu er m.a. fjallað um umræðuna sem varð á 138. löggjafarþingi þegar fjallað var um breytingar á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Þá var sérstaklega rætt um það hvort fara ætti í þennan beina, klára aðskilnað á milli viðskiptabanka og fjárfestingarbanka. Niðurstaðan á þeim tíma var sú, má segja, að bíða og sjá, fylgjast með því sem aðrir væru að gera og sjá til. En menn voru engu að síður meðvitaðir um að þetta væri vandi sem þyrfti að skoða og fylgjast með.

Ég vonast til þess að Alþingi samþykki þessa þingsályktunartillögu og hún komist út úr efnahags- og viðskiptanefnd, m.a. fyrir tilstilli hv. þingmanna Vilhjálms Bjarnasonar og Jóns Þórs Ólafssonar, sem báðir sitja þar að ég hygg.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til efh.- og viðskn.