143. löggjafarþing — 15. fundur
 4. nóvember 2013.
um fundarstjórn.

ósk um fund í fjárlaganefnd.

[15:39]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Í 15. gr. laga um þingsköp Alþingis stendur að formanni nefndar sé skylt að boða til fundar ef ósk berist um það frá að minnsta kosti fjórðungi nefndarmanna og taka á dagskrá þau mál sem tilgreind eru. Einnig kemur þar fram að formaður skuli þá gefa viðhlítandi skýringar ef það dregst umfram þrjá virka daga að halda fund í nefndinni.

Í hv. fjárlaganefnd höfum við haldið nokkra fundi um málefni Íbúðalánasjóðs og samkvæmt dagskrá nefndarinnar átti að halda slíkan fund 11. nóvember, en eftir yfirlýsingar hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur, formanns fjárlaganefndar, við fréttastofuna Bloomberg um ríkisábyrgð á Íbúðalánasjóði fannst okkur þremur fulltrúum í fjárlaganefnd mikilvægt að halda fund og koma því á hreint hvert viðhorf hæstvirtra ráðherra væri til málsins, ráðherra fjármála, félags- og húsnæðismála, vegna þess að við höfum áhyggjur af því að standi yfirlýsingin órædd geti hún dregið dilk á eftir sér.

Nú vill svo til að formaður fjárlaganefndar hafnar þessari beiðni og ég bið forseta að fara yfir þingsköp með (Forseti hringir.) hv. þingmanni og sjá til þess að við þau sé staðið.



[15:40]
Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseti þekkir ekki til málsatvika í fjárlaganefnd en vekur eingöngu athygli á því sem segir í 15. gr. þingskapa Alþingis:

„Formanni nefndar er skylt að boða til fundar ef ósk berst um það frá a.m.k. fjórðungi nefndarmanna og taka á dagskrá þau mál sem tilgreind eru. […] Fundur skal haldinn svo fljótt sem við verður komið eftir að ósk berst. Formaður skal gefa viðhlítandi skýringar ef dregst umfram þrjá virka daga að halda fund í nefndinni.“



[15:40]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla að taka undir með hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur þar sem hún sendi fyrir hönd okkar þriggja, sjálfrar sín, mín og Brynhildar Pétursdóttur, beiðni um að fundur yrði haldinn. Hún var send í tölvupósti á fimmtudaginn og óskað eftir því að fundurinn yrði haldinn á föstudegi, í síðasta lagi á mánudegi.

Við því hefur ekki verið orðið og ég vek athygli hæstv. forseta á því að það er bókað í fundargerð fjárlaganefndar að þessu sé mótmælt. Við teljum að þetta sé brot á þingskapalögum og stemmir við það sem hér var lesið rétt áðan. Ég ætlast til þess að hæstv. forseti hlutist til um það að fundur verði haldinn á morgun með þeim aðilum sem hér um ræðir. Það eru mjög alvarlegar yfirlýsingar að ríkissjóður beri ekki neina ábyrgð á Íbúðalánasjóði, eins og haft var eftir hv. formanni fjárlaganefndar.