143. löggjafarþing — 18. fundur
 7. nóvember 2013.
um fundarstjórn.

fjarvera umhverfisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[11:08]
Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ef umhverfisráðherra lætur svo lítið að vera til svara í næstu viku verður komið á fjórðu viku síðan hann var hér til svara, en það var semsé í óundirbúnum fyrirspurnatíma 16. október. Þetta er sérstakt og full ástæða til að vekja athygli á því.

Enn þá merkilegra er að á meðan á þessum óundirbúna fyrirspurnatíma stóð sat ráðherrann hér frammi. Ég vek athygli forseta á þessu og spyr hvort ekki sé rétt að bregðast við því þar sem ekki er eins og ekki hafi verið tilefni til að eiga orðastað við hæstv. ráðherra.

Ég bið hæstv. forseta að skoða málið og bregðast við ef hann telur rétt að gera það.



[11:09]
Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Í upphafi hverrar viku er gefin út tilkynning um viðveru hæstv. ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatímum. Það geta auðvitað verið mismunandi aðstæður eins og gengur sem koma í veg fyrir að hæstv. ráðherrar geti tekið þátt í slíkum umræðum, en vitaskuld verður leitað eftir því af hálfu þingsins að ráðherrar geti almennt átt þess kost að vera viðstaddir umræður til að taka þátt í þeim og bregðast við ábendingum og fyrirspurnum hv. þingmanna.



[11:09]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í tilefni af orðum forseta finnst mér þetta orðið ansi stíft á þinginu ef það á að gefa út í upphafi hverrar viku hverjir sitja fyrir svörum. Ég held að ráðherrar verði að vera aðeins liprari en svo, ég tala nú ekki um ef svo vill til að þeir þurfa ekki að sinna öðrum erindum sem þeir gerðu ráð fyrir í upphafi vikunnar og sitja hérna frammi.

Virðulegi forseti. Reynum nú að vera aðeins liðlegri en kemur fram í orðum forsetans.



[11:10]
Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Það er vandlifað í þessum heimi því að mikið er kallað eftir því að fyrirsjáanleiki sé nokkur í störfum þingsins.

Forseti vill eingöngu vekja athygli á því að kveðið er á um það bókstaflega í lögum um þingsköp Alþingis að fyrir hádegi á föstudegi skuli liggja fyrir frá hálfu ríkisstjórnarinnar hvaða ráðherrar geti verið viðstaddir óundirbúinn fyrirspurnatíma.

Hins vegar höfum við gert breytingar þegar aðstæður breytast og tilkynningar geta gefið tilefni til þess. Forseti vill t.d. vekja athygli á því að þegar fyrsta tilkynning var gefin út um viðveru hæstvirtra ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatímum í þessari viku var til að mynda ekki gert ráð fyrir því að hæstv. fjármálaráðherra yrði viðstaddur. Þegar í ljós kom að hæstv. fjármálaráðherra gat verið viðstaddur slíka umræðu var þegar gerður reki að því að gera breytingar á þessu með góðum fyrirvara. Það er því verið að reyna að gera þetta í fyrsta lagi auðvitað í samræmi við þingsköp Alþingis og í öðru lagi með það fyrir augum að bregðast við ef aðstæður breytast í vikunni.



[11:11]
Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Við höfum einmitt rætt um þetta, eins og forseti man, í þingskapanefnd. Spurningin er hvort ekki sé hægt að gera þetta formfastara. Eftirlitshlutverk þingsins er gríðarlega mikilvægt. Það yrðu sett einhver skilyrði um að ráðherrar yrðu að sitja fyrir svörum alla vega á hálfs mánaðar fresti, þannig að aðra hverja viku að minnsta kosti yrðu þeir að koma fyrir þingið og sitja undir óundirbúnum fyrirspurnum þingmanna. Er það ekki eitthvað sem forseta líst bara vel á og mun mæla fyrir í þingskapanefnd?