143. löggjafarþing — 19. fundur
 11. nóvember 2013.
stækkun friðlandsins í Þjórsárverum.

[15:44]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Í bígerð var að stækka friðlandið í Þjórsárverum og baráttan fyrir því hefur staðið eins og kunnugt er í um 40 ár. Innan hins stækkaða friðlands var virkjunarhugmyndin Norðlingaölduveita í samræmi við samþykkta rammaáætlun í janúar sem leið en þá var hún flokkuð í verndarflokk.

Hæstv. umhverfisráðherra svaraði fyrirspurn frá hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur fyrir skemmstu. Fram kemur í svari ráðherrans að sá virkjunarkostur sé í friðlýsingarferli í samræmi við lögin. Í svarinu segir, með leyfi forseta:

„Umhverfisstofnun hefur unnið friðlýsingarskilmála fyrir stækkun á friðlandinu í Þjórsárverum í samræmi við náttúruverndaráætlun og taka þau áform til lögsögu átta sveitarfélaga þar sem fram kom tillaga um að friðlýsingin tæki m.a. yfir allan Hofsjökul. Gert er ráð fyrir að friðlýsing þessa virkjunarkosts verði hluti af þessu stóra friðlýsta svæði á miðhálendinu. Unnið er að endanlegri skilgreiningu svæðisins til samræmis við niðurstöðu verkefnisstjórnar rammaáætlunar og vonir bundnar við að niðurstaða fáist í það sem fyrst.“

Nú ber svo við, herra forseti, að ráðherrann hefur talað öðruvísi við fjölmiðla. Það er ekki samræmi í því sem hann hefur sagt við fjölmiðla og því sem hann segir í því skriflega svari sem dreift hefur verið á Alþingi. Það tel ég vera alvarlegt og í raun óskiljanlegt. Hæstv. ráðherra segir í fjölmiðlum að til standi að stækka friðlandið en það útiloki ekki Norðlingaölduveitu. Þar með er verið að minnka tillögu Umhverfisstofnunar og tillöguna í samþykktri náttúruverndaráætlun. Ef Norðlingaölduveita er ekki hluti af stækkuðu friðlandi Þjórsárvera er verið að ganga á svig við rammaáætlun og náttúruverndaráætlun og það stenst að sjálfsögðu ekki.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig telur umhverfisráðherra að það geti farið saman að svara þinginu einu en fjölmiðlum öðru? Og hafa auk þess uppi áform um að friðlýsa ekki virkjunarkostinn í samræmi við rammaáætlun og gildandi lög eins og hann hefur gefið til kynna í skriflegu svari til Alþingis.



[15:47]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið, m.a. á mjög öflugu umhverfisþingi á föstudaginn, hef ég lýst því yfir að það sé markmið mitt sem umhverfis- og auðlindaráðherra að ganga frá og klára undirritun að friðun Þjórsárvera og þar með stækkun friðlandsins þar.

Hins vegar hafa margir komið fram í fjölmiðlum og verið með túlkanir út og suður á því hvað það þýði að friðlýsa Þjórsárver, hvort það hafi áhrif á einhverja virkjunarkosti sem hugsanlega koma til sögunnar í framtíðinni, í framtíðarrammaáætlunum. Ég hef bent á að þetta sé tvenns lags að eðli, annars vegar sé hægt að ganga frá friðlýsingu Þjórsárvera og innan þess svæðis finnst mér mikilvægt að þar verði ekki neinn hugsanlegur virkjunarkostur. Ég tel mjög mikilvægt að mörkin verði skýr hvað það varðar. Á sama hátt kemur það ekki í veg fyrir að einhverjir virkjunarkostir verði utan þess friðlands. Eitt af því sem er síðan til skoðunar í ráðuneytinu er að mismunandi lagagrunnur stendur á bak við friðlýsingar annars vegar samkvæmt svokallaðri rammaáætlun um vernd og nýtingu orkukosta og hins vegar um friðlýsingar í samræmi við náttúruverndarlög. Þar er gjarnan talað um heildir á meðan í rammaáætlun er talað um virkjunarkosti sem síðan hafa ekki verið skilgreindir.

Þetta er vinna sem við þurfum að skilgreina betur. Ég hef lagt á það mikla áherslu að það að taka ekki á einhverjum virkjunarkostum sem verða teknir til umfjöllunar með faglegum hætti í rammaáætlun framtíðarinnar útilokar ekki að við getum gengið frá friðlýsingum Þjórsárvera hér og nú. Að því er unnið mjög hörðum höndum í ráðuneytinu og í stofnunum þess. Eins og ég hef áður sagt vonast ég til að það geti gengið sem best.



[15:49]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Í skriflegu svari umhverfisráðherra hér á Alþingi segir — og ég ítreka það sem ég sagði áðan, það segir þar, með leyfi forseta:

„Gert er ráð fyrir að friðlýsing þessa virkjunarkosts“ — þ.e. Norðlingaölduveitu — „verði hluti af þessu stóra friðlýsta svæði á miðhálendinu.“

Virðulegur forseti. Þetta er ekkert hægt að misskilja. Það stendur ekki til samkvæmt svarinu hér á Alþingi að Norðlingaölduveita — engin og ekki í neinu formi — verði innan þessa friðlýsta svæðis. Það er ekki hægt að skilja þetta öðruvísi. En það mátti skilja ráðherrann öðruvísi í fjölmiðlum.

Ég vil þess vegna spyrja hæstv. ráðherra eina ferðina enn eða nýrrar spurningar: Í hvaða flokki rammaáætlunar er virkjunarkosturinn Norðlingaölduveita og hvað segir í lögunum um rammaáætlun hvernig fara eigi með slíka kosti?



[15:50]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég get rifjað það upp með hv. þingmanni og við saman að svokölluð Norðlingaölduveita lenti í rammaáætlun 2, eftir umfjöllun hér á hinum pólitíska vettvangi, í verndarflokki. Í skoðanakönnun í faghópum verkefnisstjórnar rammaáætlunar 2 voru sex sem vildu nýta þann kost, enginn vildi setja hann í bið og sex vildu setja hann í verndarflokk. Kosturinn hefur augljóslega verið umdeildur, kosturinn er augljóslega einhver hagkvæmasti virkjunarkostur í endurnýjanlegri vatnsorku, í það minnsta hér á landi og þótt víðar væri leitað.

Ég hef hins vegar lagt á það áherslu, og ætla að gera það enn og aftur hér úr þessum ræðustól, að það að friðlýsa Þjórsárver kemur ekki í veg fyrir að einhverjir kostir komi til sögunnar seinna meir í rammaáætlunum framtíðarinnar. Það hefur aldrei verið meining mín og ég tel að 40 ára barátta fyrir stækkun og friðlýsingu Þjórsárvera per se, áður en nokkur maður (Forseti hringir.) fann upp á orðinu Norðlingaölduveita eða Kvíslárveitur, (Forseti hringir.) hafi ekki snúist um að koma í veg fyrir einhverja virkjunarkosti. Hún snerist um að vernda og (Forseti hringir.) friða Þjórsárver. Við það ætla ég að standa.