143. löggjafarþing — 19. fundur
 11. nóvember 2013.
Saurbær í Eyjafirði.
fsp. KLM, 131. mál. — Þskj. 146.

[16:40]
Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Eins og kom fram í kynningu forseta hef ég leyft mér að leggja svohljóðandi fyrirspurn fyrir hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra um Saurbæ í Eyjafirði: Hvað er því til fyrirstöðu að samið sé við Eyjafjarðarsveit um ráðstöfun á húsnæði á jörðinni Saurbæ, samanber heimild í fjárlögum?

Virðulegi forseti. Tilefni þessarar fyrirspurnar kemur úr kjördæmaviku þar sem sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar kom til fundar við okkur þingmenn og bar upp erindi sitt. Þetta heimildarákvæði er í fjárlögum, bæði frá árinu 2012 og 2013, í grein 7.7 um Ýmsar heimildir: „Að semja við Eyjafjarðarsveit um ráðstöfun á húsnæði á jörðinni Saurbæ í Eyjafjarðarsveit í þágu safnastarfsemi.“

Ég vek athygli á því að í greininni stendur „að semja við“, ekki að „ganga til samninga við“.

Virðulegi forseti. Eyjafjarðarsveit hefur byggt upp myndarlegt smámunasafn sem heitir Smámunasafn Sverris Hermannssonar og varð það tíu ára í sumar. Það er rekið í húsnæði sem heitir Sólgarður í Eyjafjarðarsveit og er staðsett á jörðinni Saurbæ. Þetta er mikið og gott safn, mjög merkilegt, sem Sverrir Hermannsson húsasmíðameistari á allan heiður af. Sverrir fór aldrei leynt með að söfnunaráhugi hans var mikill í gegnum líf hans sem og starf við að gera upp gömul hús og kirkjur þar sem hann hefur safnað saman allt að þúsund hlutum hvert ár í heil 50 ár. Smámunasafnið, eins og það hefur verið nefnt, hefur þá sérstöðu að vera ekki safn einhverra ákveðinna hluta heldur allra mögulegra hluta. Hversdagslegir hlutir eru þar mitt á meðal afar óhefðbundinna hluta. Því hefur safnið stórkostlegt menningarlegt gildi fyrir okkur og komandi kynslóðir.

Á jörðinni er líka Saurbæjarkirkja sem er ákaflega merkileg torfkirkja, sem var byggð árið 1858 og er ein örfárra torfkirkna sem enn standa hér á landi, en að innan er hún þiljuð í hólf og gólf.

Þetta snýst ekki um kirkjuna að þessu sinni heldur um jörðina. Ég hef lagt fram þá fyrirspurn sem ég las í upphafi til hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra vegna þess að heimildin hefur verið í tvennum fjárlögum, en ekki hefur gengið að ná þessu fram.

Virðulegi forseti. Ég vil segja að þeim tveimur fyrirspurnum sem ég lagði fram áðan hefur verið svarað. Önnur var um Dettifossveg og sagði hæstv. innanríkisráðherra að verkið yrði boðið út í vetur og byrjað í vor og hin var um fjölgun löggæslumanna í Fjallabyggð og Dalvíkurbyggð þar sem svarið var að þeim yrði fjölgað. Ég trúi ekki öðru en að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra komi og segi að þetta mál verði klárað á morgun eða kannski í þessari viku, að hann verði jafn röggsamur og hæstv. innanríkisráðherra sem hefur (Forseti hringir.) svarað tveimur fyrirspurnum mínum.



[16:43]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir fyrirspurnina. Við verðum að sjá hvernig málinu vindur fram, það mun koma í ljós við lok ræðu minnar í hvaða farveg ég beini málinu. Ég ítreka þakkir mínar til sveitunga míns og hv. þingmanns fyrir fyrirspurnina.

Fyrirspurnin var: Hvað er því til fyrirstöðu að samið sé við Eyjafjarðarsveit um ráðstöfun á húsnæði á jörðinni Saurbæ, samanber heimild í fjárlögum?

Þá er til að taka að það mál sem hv. alþingismaður spyr um á sér aðdraganda allt til ársins 2003 og gengur út á að bæjarstæði jarðarinnar Saurbær í Eyjafjarðarsveit verði menningarsetur þar sem torfkirkjan, safn í bæjarhúsum Saurbæjar og gamli þingstaðurinn gegni aðalhlutverki.

Í fyrirspurn hv. alþingismanns er vísað til þess að í fjárlögum 2013 er svonefnd 6. gr. heimild fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið til að semja við Eyjafjarðarsveit um ráðstöfun á húsnæði á jörðinni Saurbær í Eyjafjarðarsveit, eins og kom skilmerkilega fram í fyrirspurn og ræðu hv. þingmanns. Í samræmi við þá heimild hefur fjármála- og efnahagsráðuneytið lagt til við mennta- og menningarmálaráðuneytið að það taki að sér umsjón með umræddri 7,6 hektara lóð og þeim byggingum sem á henni standa og hefur sent ráðuneytinu drög að samkomulagi þess efnis.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur átt fund um málið með fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Á þeim fundi lýstu embættismenn mennta- og menningarmálaráðuneytisins því viðhorfi að það hefði ekki forsendur til að taka að sér forræði jarðarinnar Saurbær. Til skýringar á þeirri afstöðu skal bent á að markvisst hefur verið unnið að því á undanförnum árum að flytja umsýslu með jörðum og mannvirkjum frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, eins og öðrum fagráðuneytum, til Fasteigna ríkissjóðs og fjármála- og efnahagsráðuneytis. Góð reynsla hefur fengist af þeim breytingum og af því að jarðaumsjón og viðhald og umsýsla mannvirkja sé í höndum sérfræðinga á því sviði hjá Fasteignum ríkissjóðs.

Í annan stað er rétt að benda á að með forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands nr. 69/2013, sem gefinn var út 23. maí 2013, sem er nú forsetaúrskurður nr. 71/2013, gefinn út 24. maí sama ár, færðust málefni minjasafna, þar með talin málefni Þjóðminjasafn Íslands, frá mennta- og menningarmálaráðuneyti til forsætisráðuneytisins. Í því samhengi vísa ég til c-liðar 2. töluliðar 1. gr. Í sama forsetaúrskurði færðist umsýsla með fasteignum og jörðum í eigu ríkisins til fjármála- og efnahagsráðuneytisins og þess má sjá stað í a- og e-lið 3. töluliðar 2. gr.

Með hliðsjón af framangreindri skiptingu málaflokka milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands og í ljósi þeirrar staðreyndar að gamla torfkirkjan á Saurbæ tilheyrir húsasafni Þjóðminjasafnsins og að engin mannvirki á jörðinni falla undir forræði mennta- og menningarmálaráðuneytisins liggur fyrir að möguleg samningsgerð við Eyjafjarðarsveit um umsýslu jarðarinnar Saurbær er á hendi fjármála- og efnahagsráðuneytis og mögulega forsætisráðuneytisins vegna þeirra mannvirkja sem þar eru á forræði Þjóðminjasafns Íslands.

Virðulegi forseti. Ég vona að hv. þingmaður sé nokkru nær um hver afstaða mín er til þessa máls.



[16:47]
Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka ráðherra fyrir svarið sem gerir málið eilítið flóknara en það var fyrir. Nú blandast inn í þetta forsetaúrskurður nr. 69/2013 og jafnvel 71/2013 frá 24. maí sl. ef ég hef tekið rétt eftir í ræðu hæstv. ráðherra.

Hæstv. ráðherra lýsti því hvernig þessu væri farið og búið væri að breyta um þannig að einhver ákveðin umsýsla er komin í forsætisráðuneytið en umsjón með sölunni til fjármála- og efnahagsráðherra.

Virðulegi forseti. Ég verð því að fyrirgefa hæstv. ráðherra, sveitunga mínum, að hafa ekki komið með skýrt og skorinort stutt svar um að þetta væri allt saman að fara að gerast, eins og ég nefndi hér varðandi innanríkisráðherra í sambandi við þær tvær fyrirspurnir sem ég var með áðan. En ég verð þá að halda áfram með málið og greinilega að beina fyrirspurn til hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, og jafnvel forsætisráðherra.

Ég hvet til þess að hæstv. ráðherra fylgi málinu eftir um leið og hann gerir grein fyrir því við þá tvo ráðherra að hann hafi svarað þessari spurningu þannig að ráðuneyti hans hafi ekki lengur með þetta að gera. Það væri ekki verra ef tekið yrði aðeins til í skúffunum og málið fært ofar. Ég held að það sé til mikilla hagsbóta fyrir ríkissjóð að Eyjafjarðarsveit taki við jörðinni eins og menn hafa talað um að heimild sé fyrir í fjárlögum, vegna þess að að mínu mati er þessu miklu betur fyrir komið heima í héraði en í ráðuneytum suður í Reykjavík.

Ég þakka hæstv. ráðherra samt fyrir greinargott svar þó að það hafi ekki verið mjög skýrt.



[16:49]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Hvernig sem fer með forræði á málunum verður jörðin auðvitað alltaf heima í héraði, það má nú heita augljóst. Ég get vel skilið allan þann málatilbúnað sem hv. þingmaður hefur haft hér um mikilvægi starfseminnar sem fer fram þar. Hluti af því er uppbygging á menningartengdri ferðaþjónustu sem skiptir verulega miklu máli. Það er því til mikils að vinna að þarna blómstri starfsemi sem best, bæði það safn sem hv. þingmaður nefndi sérstaklega og gerði ágæt skil og eins önnur starfsemi sem um er að ræða, sú starfsemi á ekki að líða fyrir verkaskiptingu á milli ráðuneyta.

Þetta er þó augljóslega hluti af þjóðmenningunni, af því að oft er úr þessum ræðustóli kallað eftir einhvers konar skilgreiningum á henni. Þegar litið er til þeirrar ræðu sem hv. þingmaður flutti má ljóst vera að forsetaúrskurðurinn sem vitnað var til nær augljóslega yfir þetta mál þannig að forræðið er að hluta til komið inn í forsætisráðuneytið. Hvað varðar aðra umsýslumeðferð á jörðinni sjálfri, sölu hennar o.s.frv., er hún hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

Ég get tekið undir það með hv. þingmanni að þegar maður les yfir þennan ræðutexta þarf að hugsa sig eilítið um áður en maður áttar sig á því hvað nákvæmlega er átt við. Ég get alveg játað að það tók mig pínulítinn tíma að lesa mig í gegnum textann, en þegar menn hafa farið í gegnum hann er það alveg skýrt; þetta er verkaskiptingin.

Ég óska hv. þingmanni alls hins besta í framhaldi málsins og að honum gangi vel með að koma fyrirspurnum til þeirra ráðherra sem málið varðar.