143. löggjafarþing — 23. fundur
 18. nóvember 2013.
fjárveiting vegna vetrarólympíuleika fatlaðra.

[15:12]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Mig langar að ræða við hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra um fjárveitingar vegna Ólympíumóts fatlaðra í vetraríþróttum. Það fer fram í Rússlandi 7.–16. mars á næsta ári. Að þessu sinni hefur Ísland fengið tækifæri til þess að senda tvo keppendur, eina konu, Ernu Friðriksdóttur frá Egilsstöðum, og karl sem heitir Jóhann Þór Hallgrímsson og er frá Akureyri. Þau munu taka þátt í alpagreinum.

Næsta haust eða um miðjan september eru svo Evrópuleikar fatlaðra í Antwerpen í Belgíu sem bera yfirskriftina Leikar hjartans.

Það sem mig langar til að ræða við hæstv. ráðherra er mismunur á framlögum. Fyrir árið 2014 er 20 millj. kr. hækkun til ÍSÍ vegna ólympískra verkefna en Íþróttasamband fatlaðra, sem fer í rauninni í sömu verkefni fyrir fatlað afreksfólk, fær ekki sambærilega hækkun. Íþróttasamband fatlaðra hefur hingað til fengið viðbótarfjárveitingu þegar ólympíumót eru fram undan enda fylgir töluverður aukakostnaður þátttöku í þeim, fararstjórar, þjálfarar og aðstoðarfólk er gjarnan fleira vegna margs konar fötlunar keppenda. Því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún muni ekki sjá til þess að viðbótarstuðningur verði tryggður. Ég hygg að ekki sé um stórar fjárhæðir að ræða í þessu sambandi, gæti hlaupið á 2–3 milljónum.



[15:14]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Gunnarsdóttur fyrir fyrirspurnina og um leið hvatninguna til að styðja vel við íþróttastarf fatlaðs fólks. Ég get tekið undir þá hvatningu. Ég held að mjög brýnt sé að styðja við íþróttastarf fatlaðra einstaklinga og ófatlaðra og mikilvægt að tryggja að ekki sé verið að mismuna hvað varðar stuðning þegar kemur að þátttöku í stórum alþjóðlegum mótum, og sérstaklega þar sem fatlaðir einstaklingar hafa staðið sig mjög vel fyrir íslensku þjóðina þegar þeir hafa tekið þátt í þessum stóru mótum.

Það sem ég get líka svo sem bent á er að margt snýr að málefnum fatlaðs fólks sem við þyrftum meiri fjármuni í, mörg verðug verkefni. Ég vil hvetja þingheim allan til að taka undir með mér og samfélagi fatlaðra að tryggja það að við getum haldið áfram að vinna að því að bæta stöðu þeirra og aðstöðu.



[15:15]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég mundi gjarnan vilja fá fyrir þeirra hönd staðfestingu á því að þetta verði framkvæmt, að það verði efnt. Eins og ég sagði áðan fékk Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands viðbótarstuðninginn og ég vil trúa því að einfaldlega hafi gleymst við gerð fjárlagafrumvarpsins 2014 að setja þetta inn. Ég hvet því bæði mennta- og menningarmálaráðherra og félags- og húsnæðismálaráðherra til að sjá til þess að framlagið fari inn. Það skiptir höfuðmáli að viðunandi stuðningur fylgi fólkinu þegar það keppir erlendis því að eins og hér kom réttilega fram hefur það staðið sig afskaplega vel, eins og svo margur annar sem hefur farið frá okkur á Ólympíuleika. Þetta skiptir mjög miklu máli í félagslegu tilliti, sérstaklega fyrir fatlað fólk.



[15:16]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka enn á ný fyrir hvatninguna sem ég tel felast í orðum hv. þm. Bjarkeyjar Gunnarsdóttur. Þetta er að mínu mati mjög mikilvægt og ég mun án efa eiga samtal við ráðherra íþróttamála. Ég tel jafnframt mjög mikilvægt að menn hafi það í huga að þeir sem standa að íþróttastarfi almennt í landinu horfi til þess að ekki sé verið að mismuna milli ólíkra hópa og að hugað sé að því að það fjármagn sem fer í íþróttastarf fari ekki bara til ófatlaðra heldur líka fatlaðra einstaklinga.