143. löggjafarþing — 26. fundur
 20. nóvember 2013.
Orkuveita Reykjavíkur, 1. umræða.
stjfrv., 178. mál (heildarlög). — Þskj. 218.

[20:12]
iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi á þskj. 218, frumvarpi til laga um Orkuveitu Reykjavíkur.

Forsaga þessa máls er sú að árið 2001 voru sett lög um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur. Með þeim lögum var veitt heimild til að Orkuveita Reykjavíkur, Akranesveita, Andakílsárvirkjun og Hitaveita Borgarness yrðu sameinaðar og að stofnað yrði sameignarfyrirtæki um reksturinn. Í dag rekur Orkuveita Reykjavíkur sem sérleyfisstarfsemi raforkudreifingu, hitaveitu, vatnsveitu og fráveitu, en sem samkeppnisstarfsemi framleiðslu og sölu raforku. Eigendur Orkuveitunnar eru Reykjavíkurborg, Akraneskaupstaður og Borgarbyggð.

Um áramót verða grundvallarbreytingar á rekstri Orkuveitu Reykjavíkur. Þá verður rekstri fyrirtækisins skipt upp í aðskilda samkeppnis- og sérleyfisþætti til samræmis við kröfur í raforkulögum, nr. 65/2003. Ljóst hefur verið um nokkurt skeið að sú aðgerð kallar á breytingu á núgildandi lögum um Orkuveitu Reykjavíkur, nr. 139/2001. Að höfðu samráði við Orkuveituna og eigendur hennar þótti heppilegast við þessi tímamót að fella brott núgildandi lög og leggja fram frumvarp til nýrra heildstæðra laga um Orkuveitu Reykjavíkur.

Það frumvarp sem hér er lagt fram gerir því Orkuveitu Reykjavíkur kleift að aðgreina samkeppnis- og sérleyfisþætti í rekstri sínum frá og með áramótum auk þess sem nokkrar breytingar eru lagðar til á lögunum frá 2001 til einföldunar.

Um aðgreiningu samkeppnis- og sérleyfisþátta í rekstri orkufyrirtækja er fjallað í 1. mgr. 14. gr. raforkulaga, nr. 65/2003. Það ákvæði kom inn í lögin með breytingalögum árið 2008, en gildistöku þess hefur í fjórgang verið frestað með vísan til aðstæðna á fjármálamörkuðum. Ákvæðið kemur hins vegar til framkvæmda 1. janúar næstkomandi þar sem ekki þykir ástæða til að fresta því í fimmta sinn. Fyrir þann tíma þurfa fyrirtæki á þessum markaði, þar með talin Orkuveita Reykjavíkur, að vera búin að aðgreina samkeppnis- og sérleyfisstarfsemi sína í aðskilin fyrirtæki.

Að undanskilinni Orkuveitu Reykjavíkur hafa frá 2008 orkufyrirtæki á Íslandi sem sinna bæði vinnslu og dreifingu raforku þegar framkvæmt aðgreiningu samkeppnis- og sérleyfisþátta í sínum rekstri. Þannig eru HS Orka og HS Veitur aðskilin fyrirtæki í rekstri og sama á við um Rarik og Orkusöluna annars vegar, Norðurorku og Fallorku hins vegar.

Sem áður segir þykir ekki ástæða til að fresta gildistöku 1. mgr. 14. gr. raforkulaga í fimmta sinn og hefur Orkuveita Reykjavíkur því unnið að undirbúningi uppskiptingar fyrirtækisins um nokkurt skeið og miðað sinn undirbúning við að uppskiptingin taki gildi um áramót samhliða gildistöku umrædds ákvæðis raforkulaga.

Eins og áður greinir var talið rétt við þau tímamót sem verða um áramót að fella brott gildandi lög frá 2001 og setja ný heildarlög um Orkuveitu Reykjavíkur. Það frumvarp sem hér er lagt fram kemur því í stað núgildandi laga nr. 139/2001, um stofnun Orkuveitu Reykjavíkur. Í grunninn byggir frumvarpið á texta laga nr. 139/2001.

Helsta nýmæli frumvarpsins er að skýrt er tekið fram að Orkuveitu Reykjavíkur sé heimilt að eiga dótturfélög og framselja til þeirra tilgreind sérleyfi eða einkaleyfi, enda er fyrirtækinu það nauðsynlegt til að uppfylla skilyrði raforkulaga um aðskilnað sérleyfis- og samkeppnisstarfsemi. Skýrt er tekið fram í frumvarpinu að aðgreining í starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur skuli vera í samræmi við ákvæði laga hverju sinni og að þess skuli gætt að samkeppnisrekstur sé ekki niðurgreiddur af sérleyfisstarfsemi. Allt er það í samræmi við kröfur áðurnefndrar 14. gr. raforkulaga.

Í 2. gr. frumvarpsins er fjallað um þá starfsemi sem Orkuveitu Reykjavíkur er heimilt að stunda. Vert er að geta þess að með frumvarpinu er heimildin þrengd frá gildandi lögum, en í núgildandi lögum er gert ráð fyrir að hluti verkefna fyrirtækisins geti verið viðskipta- og fjármálastarfsemi samkvæmt ákvörðun stjórnar hverju sinni. Lagt er til að sú heimild verði felld út. Þannig er með frumvarpinu kveðið á um að Orkuveita Reykjavíkur og dótturfélög skuli stunda vinnslu, framleiðslu og sölu raforku og heits vatns og gufu og rekstur grunnkerfa, svo sem dreifiveitu rafmagns, hitaveitu, vatnsveitu, fráveitu og gagnaveitu. Einnig gerir frumvarpið ráð fyrir eins og er í núgildandi lögum að undir Orkuveituna geti fallið starfsemi sem nýtt getur rannsóknir, þekkingu eða búnað Orkuveitunnar sem og iðnþróun og nýsköpun.

Í frumvarpinu er að öðru leyti með sambærilegum hætti og í gildandi lögum nr. 139/2001 kveðið á um eigendur Orkuveitu Reykjavíkur, rekstrarform, tilgang og markmið fyrirtækisins, ábyrgðir og skuldbindingu fyrirtækisins, heimildir til gjaldtöku og skipan í stjórn. Ákvæði um stjórn fyrirtækisins, aðalfund, ráðningu og hlutverk forstjóra og fleira er snýr að daglegum rekstri fyrirtækisins er einfaldað nokkuð frá gildandi lögum og í frumvarpinu vísað til þess að um þau atriði skuli kveðið á í sameignarsamningi eigenda eða samþykktum viðkomandi fyrirtækja.

Í frumvarpinu eru ákvæði til bráðabirgða sem ætlað er að tryggja að uppskipting Orkuveitu Reykjavíkur muni ein og sér ekki hafa í för með sér skattalegar skuldbindingar sem ella hefðu ekki fallið til. Í bráðabirgðaákvæðunum felast ekki neinar skattalegar ívilnanir fyrir Orkuveitu Reykjavíkur eða fyrirhuguð dótturfélög, heldur er þeim ætlað að koma í veg fyrir fjárhagslegt óhagræði eða tjón af uppskiptingunni.

Sú framkvæmd sem lögð er til í bráðabirgðaákvæðum er í samræmi við þann hátt sem hafður var á við uppskiptingu annarra orkufyrirtækja hérlendis og er ekki til þess fallin að gera stöðu fyrirtækjanna sem verða til við skiptinguna sterkari en hún hefði ella verið.

Það frumvarp sem hér er lagt fram byggir því sem áður segir í grunninn á núgildandi lögum frá árinu 2001, en felur í sér nýmæli sem gerir Orkuveitu Reykjavíkur kleift að aðgreina samkeppnis- og sérleyfisþætti í rekstri sínum frá og með áramótum með því að stofna dótturfélög og kveður á um að aðgreining í starfsemi fyrirtækisins skuli vera í samræmi við ákvæði laga hverju sinni.

Við gerð frumvarpsins var haft náið samráð við Orkuveitu Reykjavíkur og eigendur fyrirtækisins. Jafnframt var haft samráð við Orkustofnun sem og fjármála- og efnahagsráðuneytið vegna skattalegra atriða í tengslum við uppskiptinguna. Í kostnaðarumsögn með frumvarpinu kemur fram að ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið hafi fjárhagsleg áhrif í för með sér fyrir ríkissjóð.

Ég lít svo á að með þessu frumvarpi sé verið að horfa til framtíðar og treysta undirstöður Orkuveitu Reykjavíkur á gegnsæjan hátt og jafnframt tryggja að öll orkufyrirtæki á Íslandi starfi á sama grundvelli í samræmi við þær kröfur sem okkar raforkulög gera til fyrirtækja á þessum markaði. Við skulum hafa í huga að eitt af markmiðum raforkulaga á sínum tíma var að efla samkeppni í raforkuframleiðslu neytendum til hagsbóta og er hér um mikilvægt skref að ræða í þá átt meðal annars í þá veru að tryggt er að sérleyfisstarfsemi sé ekki að niðurgreiða samkeppnisstarfsemi. Ég tel því að hér sé um afar brýnt og jákvætt mál að ræða sem undirbúið hefur verið í góðri sátt við fyrirtækið og fellur vel að framtíðarsýn þess.

Hæstv. forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. atvinnuveganefndar og 2. umr.



[20:19]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. iðnaðarráðherra fyrir þessa yfirferð. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um ákvæði til bráðabirgða nr. V þar sem getið er um að þinglýsing eignarheimilda þeirra fasteigna sem færast yfir til hinna nýju rekstrarfélaga skuli ekki vera stimpilskyld á grundvelli laga nr. 36/1978, um stimpilgjald. Um bráðabirgðaákvæðið segir í greinargerð að það sé enda talið að slíkur lögþvingaður aðskilnaður eigi ekki að leiða til meiri fjárútláta en nauðsyn krefji.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hægt sé að tala í raun um lögþvingaðan aðskilnað þegar í fimmta sinn er fallið frá að veita Orkuveitunni frest til að aðskilja samkeppnis- og sérleyfisþætti.

Mig langar að spyrja líka hæstv. ráðherra hvort staðið hafi verið að stimpilgjöldum með sama hætti þegar öðrum fyrirtækjum var skipt upp hvað þetta varðar.



[20:20]
iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessar spurningar. Já, þetta er lögþvingaður aðskilnaður með sama hætti og önnur orkufyrirtæki hafa farið í gegnum síðan raforkulögin tóku gildi. Jafnvel þótt búið sé að fresta gildistöku laganna eða þessa ákvæðis fjórum sinnum áður er þetta aðskilnaður sem er byggður á lagasetningu og er til kominn vegna lagasetningar þannig að hann er lögþvingaður.

Já, það var eins farið með stimpilgjöld og meðferð þeirra þegar hinum orkufyrirtækjunum var skipt.



[20:21]
Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Mig langar að velta upp nokkrum sjónarmiðum um það frumvarp sem hæstv. ráðherra mælir hér fyrir sem er í raun og veru nýr heildarlagabálkur um Orkuveitu Reykjavíkur. Mig langar kannski að biðja hæstv. ráðherra að bregðast við í lokaræðu sinni þar sem það verða greinilega ekki miklar umræður hér um þetta mál.

Ég geri ráð fyrir því að hv. þingnefnd skoði málið ítarlega og þau sjónarmið sem uppi eru, en ég vil biðja hæstv. ráðherra fyrir það fyrsta að reifa með frekari rökum en hún gerði í framsögu sinni hvaða forsendur liggja því til grundvallar að þessi leið sé farin, þ.e. að setja saman alveg nýjan lagabálk um Orkuveitu Reykjavíkur. Rætt er um að verið sé að einfalda tiltekna þætti án þess að gerð sé bein grein fyrir því í greinargerð og maður veltir því kannski fyrst og fremst fyrir sér hvaðan frumkvæðið kemur um þær einfaldanir og hvaða sjónarmið verið er að koma til móts við. Svo virðist sem verið sé að þrengja heimildir félagsins til að mynda varðandi fjármögnun.

Svo spyr ég líka um það hver staða dótturfélaga sé eftir breytinguna, hvort staða skylduverkefna Orkuveitu Reykjavíkur sé breytt. Það er margt hér í frumvarpinu sem kallar á ákveðnar spurningar og vangaveltur. Það kann að vera að þessu sé öllu vel fyrir komið. En vegna þess að tilefnið er fyrst og fremst þessi uppskipting en farin er leið heildarendurskoðunar kallar það kannski á aðeins dýpri umfjöllun af hendi ráðherra.

Ég spyr um þau sjónarmið sem snúa að ábyrgð eiganda, þ.e. að hámark þeirra opinberu ábyrgða sem hægt sé að leggja upp með sé 80%. Ég spyr hvort verið sé að gera ráð fyrir einkafjármögnun að einhverju leyti og hvort verið sé að breyta inntaki sameignar fyrirtækisins. Orkuveita Reykjavíkur er náttúrlega mjög dýrmætt fyrirtæki og hefur lotið sérstökum lögum. Það skiptir fyrirtækið gríðarlega miklu máli hvort inntaki þess sem slíks sé breytt eða hvort það sé hið sama.

Mig langar líka til að spyrja sérstaklega um samráð við eigendur og hvernig því hefur verið háttað, bæði væntanlega í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur og síðan í hópi eigendanna beinlínis.

Við höfum auðvitað verið þeirrar skoðunar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði að það sé óráð að skipta þessu fyrirtæki upp sem og öðrum orkufyrirtækjum. Við höfum raunar verið þeirrar skoðunar frá upphafi að „dírektívið“ hafi gengið of langt í íslenskri innleiðingu, að það hafi í sjálfu sér verið nóg að um bókhaldslegan aðskilnað fyrirtækjanna væri að ræða og ekki þyrfti að ganga svo langt að stofna ný fyrirtæki. Sem fyrrverandi stjórnarmaður í Orkuveitu Reykjavíkur hef ég áhyggjur af þeirri viðkvæmu stöðu sem fyrirtækið sannarlega hefur verið í. Því hefur verið stýrt af festu undanfarin ár og stjórnendur fyrirtækisins hafa náð miklum árangri í að sigla því inn í meira jafnvægi en verið hefur um langt árabil. Velti ég því líka upp hvort farið hafi verið nægilega vel yfir það hvort tímasetningin gæti verið afdrifarík og erfið fyrir fyrirtækið nákvæmlega í ljósi þessa, þ.e. að fara í þetta mikla uppskiptingarferli undir slíkum kringumstæðum.

Það er auðvitað ekki tekið á rekstrarforminu í lögunum sjálfum, ég átta mig á því, en það væri gott ef hæstv. ráðherra gæti farið aðeins yfir það hvernig samspilið hefur verið við eigendur og stjórnendur Orkuveitunnar.

Ég geri mér grein fyrir því og hef orðið þess áskynja að töluverður undirbúningur þessara breytinga hefur orðið í starfi Orkuveitunnar sjálfrar og starfsfólk er væntanlega upplýst um það sem er í pípunum. Það skiptir auðvitað máli að vafa sé eytt hvað það varðar og maður hefur skilning á því að það þurfi að liggja fyrir.

Ég vil í þessari stuttu ræðu í fyrsta lagi viðra þessar efasemdir um tímasetninguna, í öðru lagi að spyrja um samráð og í þriðja lagi hvað liggur beinlínis þarna undir.

Virðulegur forseti. Ég geri mér grein fyrir því að ég er eiginlega búin að búa til allnokkuð langt andsvar sem var nú kannski ekki meiningin með því að koma hér upp í ræðustól, en þar sem mér skilst að ekki séu margir á mælendaskrá ættum við væntanlega að geta átt um þessi mál einhver skoðanaskipti, sú sem hér stendur og hæstv. ráðherra.



[20:28]
iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Þetta hefði orðið efni í ansi langt andsvar þannig að ég ákvað að nota síðari ræðu mína til að fara yfir að minnsta kosti einhverjar af þeim spurningum sem hv. þingmaður beindi til mín og þakka henni fyrir innlegg hennar í þessa umræðu.

Í fyrsta lagi biður þingmaðurinn mig um að reifa forsendurnar fyrir því að sett séu grundvallarheildarlög en ekki gerð breyting á lögunum. Eins og ég fór yfir í ræðu minni er um ákveðin tímamót að ræða. Upprunalegu lögin um Orkuveitu Reykjavíkur voru sett árið 2001 við stofnun sameignarfyrirtækisins og nú eru ákveðin tímamót í starfsemi fyrirtækisins. Það þótti hreinlega heppilegast í þessari frumvarpssmíð og varð að niðurstöðu á milli ráðuneytisins og starfsmanna og stjórnenda Orkuveitunnar, sem þetta frumvarp er unnið í nánu samráði við, að fara þessa leið, það þótti hreinlegra að það kæmi ný löggjöf sem lyti að uppskiptingunni. Það er verið að þrengja heimildir, ekki vegna fjármögnunar heldur til að hnykkja á þeirri grunnstarfsemi sem Orkuveitunni er ætlað að sinna í veitustarfsemi og raforkuframleiðslu. Í ljósi reynslunnar af Orkuveitu Reykjavíkur var talin ástæða til að takmarka þær heimildir.

Þingmaðurinn spurði um það hvort verið væri að breyta skyldum og inntaki sameignarfélagsins. Það er ekki. Það er óbreytt.

Spurt var um samráð við eigendur og stjórnendur fyrirtækisins. Frumvarpið hefur verið eins og ég sagði áðan unnið í nánu samráði og samstarfi milli ráðuneytisins og fyrirtækisins.

Í aðdraganda lagasetningar eins og ég rifjaði upp áður hefur gildistöku þessa ákvæðis verið frestað fjórum sinnum. Síðast þegar eigendur Orkuveitunnar komu að máli varð úr að forveri minn í starfi, þáverandi iðnaðarráðherra, lagði fram frumvarp til frestunar á gildistöku í fjórða sinn. Því var tekið þannig á hinu háa Alþingi að hv. atvinnuveganefnd sagði: Nei, þið fáið ekki frestun um eitt ár á þessu ákvæði, þið fáið frest í tvö ár. Svo voru skilaboðin eiginlega: Þá viljum við heldur ekki sjá ykkur aftur.

Það hefur legið fyrir í langan tíma að þessi uppskipting stæði til. Önnur orkufyrirtæki eins og ég fór yfir hafa lokið henni. Ef sú tilskipun sem raforkulögin byggðu á átti við um eitthvert fyrirtæki var það um Orkuveitu Reykjavíkur. Þannig að þegar þessu hefur verið frestað áður hefur það verið ekki síst vegna aðstæðna á fjármálamarkaði. Eins og hv. þingmaður benti á hefur tekist ágætisárangur í rekstri Orkuveitunnar á liðnum árum og hefur orðið viðsnúningur þar þannig að þær aðstæður sem áður þóttu réttlæta frestun eru ekki lengur til staðar. Og í samtölum mínum og ráðuneytisins í sumar við starfsmenn og stjórnendur fyrirtækisins voru þau skilaboð gefin að að uppskiptingu fyrirtækisins væri unnið og engar ástæður væru til að breyta út af því. Menn gerðu ráð fyrir því að uppskiptingin yrði núna um áramót.

Ég get greint frá því að eigendanefnd Orkuveitunnar kom á minn fund í byrjun október og lét í ljós þeirra sjónarmið og óskaði eftir því að þessu yrðu frestað eina ferðina enn. Beiðnin var skoðuð í ljósi þess hver skilaboð Alþingis voru síðast þegar slík beiðni kom fram og ýmissa upplýsinga, til að mynda frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. Að beiðni eigendanefndarinnar árið 2011 fékk iðnaðarráðuneytið Hagfræðistofnun til að gera úttekt á því hvort sá fyrirtækjaaðskilnaður sem mælt er fyrir í raforkulögum eigi að öllu leyti við um markaðsaðstæður á Íslandi og hvort hann sé til þess fallinn að skapa samkeppnisumhverfi sem sé neytendum raforkuþjónustu til hagsbóta.

Til að gera langa sögu stutta er niðurstaða skýrslunnar sú að samkeppni hefur myndast á raforkumarkaði og að rekstrarkostnaður raforkufyrirtækjanna virðist ekki hafa aukist meira en verðlagsbreytingar. Það bendir til þess að ávinningur hafi orðið af því að búa til samkeppnisvænni umgjörð raforkumála með þessum aðskilnaði.

Þannig að þegar allt var tekið til var niðurstaða mín að hafna beiðni eigendanefndar Orkuveitunnar, enda fannst mér hún mjög seint fram komin. Það var í byrjun október sem beiðnin kom fram. Þing hafði þegar komið saman. Það hafði legið fyrir í tvö ár að þetta yrði lagt fram. Mér þótti ekki ástæða, að öllum gögnum skoðuðum og eins og ég ítreka eftir samtöl við stjórnendur fyrirtækisins sem höfðu unnið að þessu um langa hríð, til að breyta þeim áformum. Því er þetta frumvarp fram komið.

Viðkvæm staða, segir hv. þingmaður. Ég er ekki sammála því. Ég held að staðan sé ekkert viðkvæmari nú en áður. Þetta eru lög sem önnur orkufyrirtæki hafa þurft að sæta og hlíta á undanförnum árum. Hvað sem mönnum finnst um þau lög eru þau lög. Ég tel ekki líklegt og það er mat ráðuneytisins að ekki yrði auðsótt að fá breytingar á þeirri tilskipun eða undanþágu á þessu stigi máls, við erum komin fram yfir þann punkt. Þannig að tímasetningin er að mínu mati ágæt.

Það var spurt um starfsfólkið, hvort það væri upplýst — það er vel upplýst um þetta. Og ég ítreka gott samstarf og samvinnu við starfsfólk Orkuveitu Reykjavíkur við samningu þessa frumvarps og ég fullvissa hv. þingmann að þetta er gert í góðu samráði og samstarfi við það.



[20:36]
Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra þessa yfirferð.

Nokkrar spurningar koma upp í hugann. Í fyrsta lagi: Telur ráðherra möguleika á því að búa þannig um löggjöfina að unnt sé að hverfa frá aðskilnaði varanlega eða að án uppskiptingar varanlega, að það gæti haldið gagnvart tilskipuninni? Telur ráðherra það vera fullrýnt að fara slíka leið?

Í öðru lagi kom fram að ráðherrann hefði ekki áhyggjur af tímasetningunni. Ég saknaði þess að fá skýrar fram í máli hennar hvernig hún rökstyður að hafna beiðni eigendanefndar og tala í sömu andrá um gott samstarf við eigendur. Má ég skilja það svo að eigendur komi til með að senda inn neikvæða umsögn gagnvart frumvarpinu í meðförum nefndarinnar og beita sér gegn þessari lagasmíð?

Í þriðja lagi langar mig að heyra hvort ráðherrann hefur einhverjar upplýsingar um það á hvaða stað eigendur eru eftir samþykkt þessara laga, þ.e. hvaða breytingar á samþykktum þarf að gera varðandi samþykktir Orkuveitunnar, og þá er ég að tala bæði um stjórn Orkuveitunnar, borgarráð og bæjarráð, eigendur og eigendanefndina. Hvaða verkefni er fram undan og hvaða efnislegu atriði koma til álita við slíka endurskoðun?



[20:38]
iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þingmaðurinn spyr fyrst um mat mitt á því hverjir möguleikarnir séu á að hverfa frá þeirri tilskipun sem þessi uppskipting leiðir af. Ég veit ekki hvort það sé fullreynt — ég vil ekki taka svo sterkt til orða vegna þess að ég veit ekki hvort það hefur verið reynt af öðrum — en ég tel litlar líkur á því að það fengist í gegn. Ég vil einnig benda á að þegar eigendur Orkuveitunnar fóru þess á leit við iðnaðarráðuneytið, eins og ég greindi frá hér áðan, að gerð væri úttekt á því hvort skynsamlegt væri að hverfa frá því og hvort uppskiptingin og löggjöfin sem þetta byggir allt saman hafi verið skynsamleg var það niðurstaða Hagfræðistofnunar á sínum tíma að svo hefði verið og að þetta hefði leitt til bættrar samkeppni og skilvirkari raforkumarkaðar hér á landi. Ég sé því ekki ástæðu til þess að fara út í slíkar tilraunir.

Tímasetningin varðandi það hvort eigendur Orkuveitunnar muni senda inn neikvæða umsögn — ég ætla að eftirláta þeim að skrifa umsögn sína. Ég vil ítreka að samstarfið, aðallega við forstjóra fyrirtækisins og hans starfsfólk, varðandi uppskiptinguna hefur verið mjög gott. Eigendanefndin kom til mín, eins og ég rakti, og óskaði eftir að þessu yrði frestað. Ég ítreka að ég í ljósi þeirra gagna sem lágu til grundvallar og í ljósi þess að önnur fyrirtæki (Forseti hringir.) hafa farið í slíka uppskiptingu og þetta eru lög í landinu, sá ég ekki ástæðu til að verða við þeirri beiðni.



[20:40]
Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra þessi svör.

Það sem stendur kannski svolítið út af í þessum efnum er sú staðreynd að eigendanefndin leitar ásjár ráðherra í upphafi hausts, í október, með rökstuddri beiðni um að fyrirtækið yrði ekki látið fara í þetta uppskiptingarferli og að frumvarpið yrði ekki lagt fram eins og hér var gert. Eigendanefndin leitar ásjár ráðherra og fékk synjun þrátt fyrir ítarleg efnisleg rök sem ég geri ráð fyrir að eigendanefndin hafi fært fyrir beiðni sinni. Ráðherrann komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri ástæða til að verða við henni með þeim rökum sem ráðherrann hefur rakið hér og meðal annars með tilvísun til fyrri afgreiðslu þingnefndarinnar og þingsins.

Virðulegur forseti. Ég held að ekki verði hjá því komist að staldra við að það getur ekki talist farsælt upphaf samstarfs við eigendur fyrirtækisins ef þeir byrja á því að leita ásjár ráðherra og biðjast undan frumvarpi sem ráðherrann síðan setur fram óháð þeirri ósk. Væntanlega þarf þingnefndin svo að leita eftir sömu sjónarmiðum sem leiddu eigendur á fund ráðherra á sínum tíma og væntanlega þarf þingnefndin að taka afstöðu til þess hvort rök ráðherrans fyrir því að fara fram eigi að síður haldi eða hversu sterk þau séu.

Ég vonast auðvitað til að hv. þingnefnd leggi við hlustir og vinni málið vel og skynsamlega og að það (Forseti hringir.) fái farsælar lyktir.



[20:43]
iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni. Ég vona svo sannarlega að málið fái farsæla lúkningu hér og að það verði fyrirtækinu til góðs, þetta snýst allt saman um það, og að íslenskur raforkumarkaður uppfylli þær skyldur sem á hann eru lagðar.

Ég vil benda á að þegar öðrum fyrirtækjum var gert að uppfylla þessi lagaákvæði voru þau ekki endilega sátt fyrir fram og komu væntanlega hingað til þingsins með sín sjónarmið. Á þau var ekki fallist, en ég get fullvissað hv. þingmann um að ekki hefur borið á kvörtunum þeirra fyrirtækja til mín eftir að ég tók við embætti mínu og þau fyrirtæki eru öll í góðum rekstri í dag.

Það er rétt að eigendanefndin leitaði ásjár, eins og hv. þingmaður orðaði það, en eftir að hafa vitað að þetta stæði til í tvö ár þótti mér sú bón afar seint fram komin, einungis þremur mánuðum áður en þetta á að taka gildi því að hafði verið öllum ljóst og því hafði þegar verið frestað fjórum sinnum. Þrátt fyrir ítarleg gögn segir hv. þingmaður — nei, þetta voru sömu gögn og höfðu verið lögð til grundvallar áður, þar á meðal að óvissa ríkti gagnvart lánardrottnum en lánardrottnarnir hafa vitað þetta allan tímann. Ég, eftir samtöl við stjórnendur fyrirtækisins, var algjörlega fullvissuð um að þetta hafði verið í undirbúningi og fyrirtækið hafði ekki gert ráð fyrir neinu öðru en að uppfylla þessar lagaskyldur, enda skyldur. Þegar það var skoðað eftir þau samtöl þótti mér þessi bón of seint fram komin og ekki studd nægjanlega sterkum rökum til þess að á hana yrði fallist.

Nú fer málið til meðferðar í þingnefndinni. Ég hvet hv. nefnd til þess að fara rækilega yfir gögnin. Nefndin þekkir málið vel hafandi haft það til (Forseti hringir.) afgreiðslu nokkrum sinnum. Ég treysti því og trúi að málið verði unnið vel (Forseti hringir.) en vonandi líka nokkuð hratt vegna þess að lögin þurfa að taka gildi 1. janúar.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til atvinnuvn.