143. löggjafarþing — 27. fundur
 27. nóvember 2013.
málefni RÚV.

[15:05]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Í skugga hótana formanns fjárlaganefndar fá nú 39 starfsmenn Ríkisútvarpsins uppsagnarbréf. Þrátt fyrir að verið sé að hækka útvarpsgjaldið sem við greiðum öll á næsta ári vantar Ríkisútvarpið 500 millj. kr. upp á að endar nái saman. Þrátt fyrir að við höfum hér á Alþingi samþykkt lagafrumvarp um að útvarpsgjaldið eigi að skila sér til útvarpsins tekur hæstv. fjármálaráðherra hundruð milljóna af því í ríkissjóð með þessum skelfilegu afleiðingum fyrir starfsemi útvarpsins. Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra hvort hann sé ekki tilbúinn til að endurskoða fjárlagafrumvarpið þannig að Ríkisútvarpið fái útvarpsgjaldið sem við greiðum.

Sannarlega var gripið til þess í neyðinni eftir hrunið að taka í ríkissjóð hluta þeirra tekna, en sem betur fer tókst að standa vörð um starfsemi Ríkisútvarpsins þannig að þar fækkaði þó aðeins um fjóra tugi starfsmanna á erfiðustu tímum Íslandssögunnar. Núna þegar við sjáum til lands, þegar við sjáum fram á jafnvægi í ríkisfjármálum getur það ekki gengið þannig fram í forgangsröðun ríkisfjármála að 60 starfsmenn Ríkisútvarpsins missi vinnuna, að 1/4 hluti kjarnastofnunar þjóðmenningar á Íslandi sé skorinn burtu án þess að nokkur pólitísk umræða hafi farið fram um það hér í þinginu.

Ég treysti því að hæstv. fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins hafi af því áhyggjur og sé tilbúinn til þess við 2. umr. fjárlaga sem hefst á þriðjudaginn kemur að gera nauðsynlegar breytingar á fjárlagafrumvarpinu þannig að hægt sé að forða þessu slysi og líka því að sjálfstæður fjölmiðill sem við borgum öll þurfi að sæta því að fjárlagavaldið hóti því og refsi og umbuni með fjárveitingum frá ári til árs. Við verðum að standa þannig að að sú stofnun hafi sjálfstæðan tekjustofn, geti (Forseti hringir.) flutt sjálfstæðar fréttir og gætt hagsmuna almennings (Forseti hringir.) en sé ekki undir hælnum á ríkisstjórnarflokkum á þingi.



[15:08]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ríkisútvarpið er eins og aðrar stofnanir í ríkisrekstrinum — reyndar erum við hér að tala um opinbert hlutafélag — í þeirri stöðu að þurfa að hagræða og það er ekki nema eðlilegt. Í tíð síðustu ríkisstjórnar var annars vegar sagt upp 30 starfsmönnum árið 2009 og hins vegar 20 árið 2010. Þannig að í tíð síðustu ríkisstjórnar var 50 starfsmönnum sagt upp.

Varðandi ráðstöfun gjaldsins sem sérstaklega er lagt á landsmenn var það einmitt þannig í tíð síðustu ríkisstjórnar að það var tekið í ríkissjóð. Í fjárlagafrumvarpinu, eins og hv. þingmaður kann að hafa tekið eftir, gerði ég grein fyrir því í sérstakri greinargerð hvernig ég sæi fyrir mér að við mundum hætta að taka þetta gjald í ríkissjóð smám saman.

Ástandið er vissulega alvarlegt og það er alvarlegur hlutur þegar tugir starfsmanna fá uppsagnarbréf. Við hugsum til þeirra sem í þeirri stöðu eru í þessu félagi alveg eins og annars staðar þar sem þrengingar eru. En við getum ekki litið undan þegar ríkissjóður er rekinn með rúmlega 30 milljarða halla á árinu 2013 og hljótum að þurfa að grípa til ráðstafana. Í meðferð fjárlagafrumvarpsins verður að horfa til allra þátta ríkisrekstrarins, líka þeirra fjármuna sem eru til ráðstöfunar til að halda úti ríkisfjölmiðlinum.



[15:10]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Svör hæstv. fjármálaráðherra valda sannarlega vonbrigðum. Ég hafði vonað að ráðherrann mundi boða að hann hefði áhyggjur af stöðunni; að hann vildi setjast yfir 500 millj. kr. fjárvöntun, sem verður ekki mætt öðruvísi en með fjöldauppsögnum af þessu tagi; að hann teldi mikilvægt að Ríkisútvarpið hafði sjálfstæðan fjárhag eins og menn sameinuðust um í lagasetningunni í vor; að hann væri tilbúinn til að gera breytingar við 2. umr. Og sérstaklega vonaði ég þetta í ljósi þess, eins og ég gat um hér í upphafi, að formaður fjárlaganefndar hefur haft í hótunum við Ríkisútvarpið, á þá leið að ef það gerði ekki þetta eða hitt þá fengi það að sjá það í fjárlögunum. Ég batt satt að segja vonir við að Sjálfstæðisflokkurinn hefði aðrar hugmyndir um sjálfstæði fjölmiðla og samskipti við Ríkisútvarpið í þessum efnum og harma það að hæstv. fjármálaráðherra sé þarna genginn í björg.



[15:11]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Prinsippið um sjálfstæði fjölmiðilsins var brotið af síðustu ríkisstjórn án þess að gerð væri grein fyrir því hvernig menn ætluðu að vinda ofan af þeirri stöðu. Við hverfum frá þeirri stefnumörkun í nýja fjárlagafrumvarpinu og tökum sérstaklega á málinu og útskýrum hvernig við, á sama tíma og við fórnum ekki markmiðinu um jöfnuð í ríkisfjármálum, náum því markmiði að útvarpsgjaldið renni óskipt þegar upp er staðið til Ríkisútvarpsins.

Það sem hv. þingmaður er í reynd að segja hér í umræðunni, án þess að vilja kannast við það, er að við eigum að taka lán. Við eigum að taka lán til þess að halda úti óbreyttri dagskrá, óbreyttri starfsemi Ríkisútvarpsins, við eigum sem sagt að fara með ríkissjóð í halla. Það er sú stefna sem á næsta ári mundi bæta við vaxtabyrðina, auka á vanda okkar til framtíðar litið, en á næsta ári borgum við litla 30 milljarða í vexti af 400 milljarða hallarekstri undanfarinna ára. Mitt sjónarmið er að við verðum að hætta skuldasöfnuninni.