143. löggjafarþing — 27. fundur
 27. nóvember 2013.
sameiningar heilbrigðisstofnana.

[15:26]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að bera upp fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra. Ég er að hugsa um sameiningar heilbrigðisstofnana og hvort einhver stefnubreyting hafi orðið hjá hæstv. ráðherra varðandi þær. Nú veit ég að hæstv. ráðherra hefur átt fund með ýmsum og í mínu kjördæmi veit ég að það voru miklar hugmyndir uppi um að sameina heilbrigðisstofnunina við félagsþjónustu sveitarfélagsins í Vesturbyggð. Heimamenn höfðu áhuga á því að vera tilraunasveitarfélag í því efni og veit ég að hæstv. ráðherra hefur fundað með þeim. Einnig veit ég að hæstv. ráðherra hefur fundað með flokksmönnum sínum á Sauðárkróki þar sem mótmælt hefur verið niðurskurði og sameiningu heilbrigðisstofnana.

Ég hef líka áhyggjur af bakdeild sjúkrahússins í Stykkishólmi og svona er þetta vítt og breitt um landið. Mig langar að heyra frá hæstv. ráðherra hvort rök heimamanna hafi haft áhrif á hann varðandi þessar sameiningar og hvaða samlegðaráhrif hann sjái til dæmis á Vestfjörðum við sameiningu Heilbrigðisstofnunarinnar Patreksfirði við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Ísafirði. Telur hann að það þjóni þessum dreifðu byggðum að fara út í svo víðtæka sameiningu eins og þar um ræðir? Er ekki skynsamlegt að hlusta á rökstuddar tillögur heimamanna og áhuga þeirra á að brjóta upp það sem fyrir er og nýta samlegðaráhrif í heilbrigðisþjónustu og félagsþjónustu?



[15:28]
heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég ítreka fyrst af öllu að með þeim áformum sem kynnt eru í fjárlagafrumvarpinu er að því stefnt að styrkja grunn fyrir heilbrigðisþjónustu við íbúa þeirra svæða sem þar um ræðir. Það er markmiðið með því sem að er stefnt.

Það er rétt, ég hef fundað með heimamönnum í Vesturbyggð, Patró og Tálknafirði, og Skagafirði, ekki bara flokksmönnum heldur var líka mjög fjölmennur og góður fundur á Ljósheimum í Skagafirði síðastliðinn laugardag. Það voru málefnalegar og góðar umræður heilt yfir. Heimamenn hafa áhyggjur af þessu, sérstaklega því sem lýtur að uppbyggingu stofnana, setja fram sín rök, sérstaklega til varnar opinberum störfum heima í héraði sem full ástæða er til að gefa gaum. Ég vil þó leggja áherslu á að mitt hlutverk, mín ábyrgð og skylda liggur fyrst og fremst til þess að tryggja landsmönnum heilbrigðisþjónustu.

Ég er sannfærður um að þau þrjú heilbrigðisumdæmi sem út af standa, Vestfirðirnir, Norðurland og Suðurland, þurfa að ganga í gegnum skipulagsbreytingu á stofnanastrúktúr. Ég er sannfærður um það. Ég skal fúslega viðurkenna að nálgast má þetta með öðrum hætti en gert hefur verið, efna til víðtækara samráðs við heimamenn og ég vænti góðs af því. Ég legg jafnframt áherslu á að þær óskir sem komið hafa fram frá sveitarfélögum þar sem hv. þingmaður kallaði tilraunaverkefni — þetta eru ekki nein tilraunaverkefni lengur. Þetta er alvöruþjónusta og ef gerðir verða samningar við sveitarfélög um einstaka þætti heilbrigðisþjónustu ber að gera þá til lengri tíma. Tilraunaverkefnin voru hafin 1996, þeim lauk um árið 2000 ef ég man rétt. Það er ekki lengur um þau að ræða. Ég lýsi yfir fullum vilja til að skoða ákveðna þætti í heilbrigðisþjónustunni sem sveitarfélögin geta sinnt en mér ber hins vegar að vekja athygli á því að landlæknir hefur metið það svo (Forseti hringir.) í skýrslum sínum að sveitarfélög eigi (Forseti hringir.) … vandræðum með að taka að sér slíka þjónustu.



[15:30]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Get ég skilið svar hæstv. ráðherra þannig að enn séu til skoðunar þær hugmyndir sem heimamenn í Vesturbyggð hafa um möguleika á samlegðaráhrifum Heilbrigðisstofnunarinnar Patreksfirði og félagsþjónustu sveitarfélagsins? Eins og ég hef skilið heimamenn og forsvarsmenn sveitarfélagsins hefur því ekki verið tekið vel og beinlínis hafnað.

Ég vil minna hæstv. ráðherra á að þessu hefur verið mótmælt, ekki bara í Vesturbyggð af bæjaryfirvöldum þar heldur líka af bæjarstjórn Bolungarvíkur og Ísafjarðar. Menn sjá ekki samlegðaráhrif á þessu svæði þar sem er meira og minna ófært í fimm, sex mánuði á ári og milli þessara staða. Þess vegna ítreka ég spurningu mína við hæstv. ráðherra, hvort hann telji ekki skynsamlegt að ganga í þessi verk með heimamönnum, með þeirra hugmyndir og tillögur, (Forseti hringir.) en fara ekki þvert á vilja þeirra og knýja þessi mál í gegn.



[15:31]
heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Sveitarfélög bera ekki ábyrgð á heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Það gerir ríkið og ber að axla alla þá ábyrgð og þær skyldur. Varðandi það sem hv. þingmaður minntist á um samgöngurnar og erfiðleikana við að tryggja mönnun heilsugæslu Patreksfjarðar frá Ísafirði þá vil ég bara minna hv. þingmann á að á Patreksfirði er ein læknisstaða. Enginn þeirra lækna þriggja sem sinna því á árinu býr á viðkomandi stað. Þeir þurfa ýmist að sækja frá Keflavík, frá Ísafirði eða Bolungarvík til að veita þá góðu læknisþjónustu sem á Patreksfirði er veitt. Þannig að samgöngur hamla því ekki. Ég er sannfærður um að þetta verkefni snýst fyrst og fremst um stjórnun og skipulag. Ég hef þá trú og allar faglegar athuganir styðja það að með sameiningu sé meiri trygging fyrir því að við getum veitt betri og öruggari sérfræðiþjónustu meðal annars út á þessi dreifbýlissvæði.

Ég hef aldrei lokað á það að taka upp viðræður við sveitarfélög um einstaka þætti. Tíminn mun leiða í ljós (Forseti hringir.) með hvaða hætti það verður gert.