143. löggjafarþing — 27. fundur
 27. nóvember 2013.
síldarútvegsnefnd og sjóðir í þágu síldarútvegsins, 2. umræða.
stjfrv., 146. mál (síldarrannsóknasjóður). — Þskj. 164, nál. 205.

[15:52]
Frsm. atvinnuvn. (Haraldur Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti atvinnuveganefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 43/1998, um stofnun hlutafélags um síldarútvegsnefnd og stofnun sjóða í þágu síldarútvegsins. Nefndin fékk á sinn fund starfsmenn atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, Baldur Erlingsson, Hinrik Greipsson og Sigríði Norðmann, og fór yfir stöðu síldarsjóðsins.

Í frumvarpinu er lagt til að við lög nr. 43/1998 bætist tímabundið ákvæði til bráðabirgða þar sem veitt er heimild til að greiða 31 millj. kr. úr síldarrannsóknasjóði á árinu 2013. Markmið frumvarpsins er að fjármagna rannsókn á síldardauða í Kolgrafafirði í árslok 2012 og byrjun árs 2013 sem hefur nú þegar valdið talsverðum kostnaði hjá Hafrannsóknastofnun. Einnig hefur verið ákveðið að mæla strauminn í og við Kolgrafafjörð til að rannsaka enn frekar mögulegar skýringar og undirbúa aðgerðir til að fyrirbyggja að slíkir atburðir endurtaki sig.

Fram kemur í frumvarpinu að beinn heildarkostnaður vegna síldardauðans nemi nú um 34 millj. kr. Gert er ráð fyrir að umhverfis- og auðlindaráðuneyti greiði hluta kostnaðarins, um 3 milljónir, en það sem upp á vantar verði fjármagnað úr síldarrannsóknasjóði. Sjóðurinn er starfræktur á grundvelli 8. gr. laganna en þar er kveðið á um að á hverju ári megi greiða úr sjóðnum sem nemur vöxtum en að eigið fé hans skuli haldast stöðugt. Til að mögulegt sé að greiða 31 millj. kr. úr sjóðnum þarf því að breyta lögunum en heimild frumvarpsins er tímabundin, þ.e. hún nær einungis til útgreiðslunnar á árinu 2013.

Nefndin gerði engar efnislegar breytingar á frumvarpinu sem fyrir lá og leggur eindregið til að það verði samþykkt óbreytt. Undir nefndarálitið skrifa allir nefndarmenn.