143. löggjafarþing — 30. fundur
 2. desember 2013.
um fundarstjórn.

kynning á tillögum ríkisstjórnarinnar fyrir stjórnarandstöðuna.

[15:04]
Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Á vettvangi þingsins hefur ekki farið fram nein kynning á fyrirætlunum ríkisstjórnarinnar í þingflokkum minni hlutans. Það er leitt að sá góði siður sem hefur verið í þinginu skuli ekki hafa verið haldinn nema það eigi eftir að kynna hér einhverja sérstaka áætlun af hálfu ríkisstjórnarflokkanna í því augnamiði að gefa þingflokkum minni hlutans, þar á meðal þingflokki Bjartrar framtíðar sem studdi þingsályktun sem þær tillögur sem nú hafa litið dagsins ljós eru grundvallaðar á, færi á umfjöllun. Ég geri athugasemd við það á þessum vettvangi og undir þessum lið að engar meldingar hafa borist um það hvort slík kynning standi til. Það er mjög eðlilegt og til bóta fyrir alla umræðuna um stærsta mál núverandi ríkisstjórnar að slík kynning fari fram. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)



[15:05]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Eins og þingmenn tóku eftir var kynning á tillögum sérfræðingahópsins birt opinberlega í beinni útsendingu u.þ.b. sólarhring eftir að hún hafði verið afhent ráðherranefnd. Það er eiginlega ekki hægt að halda á málunum með opnari og gegnsærri hætti en einmitt þannig og bjóða fréttamönnum í landinu upp á að koma fram með spurningar.

Í millitíðinni hefur liðið einn sólarhringur og ég fagna því ef stjórnarandstöðuflokkarnir vilja nú fá dýpri kynningu á niðurstöðum sérfræðingahópsins og ræða við stjórnarflokkana um það hver verða næstu skref. En það getur varla hafa verið þannig að stjórnarandstöðuflokkarnir, þingflokkarnir í minni hlutanum, hafi gert ráð fyrir því að fá einhverja sérstaka kynningu á niðurstöðum sérfræðingahópsins eða yfir höfuð á fyrirætlan stjórnarflokkanna í þessu máli áður en niðurstöðurnar (Forseti hringir.) urðu opinberar.



[15:06]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég verð að viðurkenna að ég er mjög hissa og hugsi yfir því að þingflokkar minni hlutans hafi ekki fengið kynningu á þessu fyrir blaðamannafundinn út af því að við fengum öll beiðni um að svara fyrir afstöðu okkar til málsins strax í kjölfar blaðamannafundarins og höfðum margar áleitnar spurningar. Ég mætti á staðinn til að vera alveg örugglega vel inni í málunum en það voru margar spurningar sem ég fékk ekki heimild til að spyrja á þessum blaðamannafundi — því að þetta var blaðamannafundur. Til að tryggja að það verði samvinna um þessi mál þarf ríkisstjórnin að sýna eitthvað annað en að væna okkur um lygar og það að við ætlum að bregða fæti fyrir þessar tillögur áður en þær eru lagðar fram. Síðan þegar búið er að leggja þær fram er okkur ekki einu sinni boðið að fá kynningu á þeim.



[15:07]
Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir að upplýsa mig um að haldinn hefði verið blaðamannafundur á laugardaginn. En það hefur verið til siðs hér í þinginu að þingflokkum hefur verið boðið upp á sérstaka kynningu í aðdraganda slíkra mála. Þetta er risavaxið mál sem kemur hér inn á vettvang þingsins. Ég er ekki að tala um annað en það að menn hefðu getað fengið að kynna sér málið, fengið sérstaka kynningu, fengið að spyrja forsvarsmenn sérfræðingahópsins út úr klukkutíma eða tveimur fyrir þennan svokallaða blaðamannafund.

Það er meðal annars fjallað um það á opinberum vettvangi núna að forseti Íslands hafi fengið sérstaka kynningu á þessu máli í lok síðustu viku sem maður getur svo sem haft ýmsar skoðanir á, hvort það hafi verið nauðsynlegt. Ég held að það sé bara gott fyrir umræðuna og sjálfsögð kurteisi að koma fram við minni hlutann með þeim hætti. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[15:08]
Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mér finnst svolítið leiðinlegt, verð ég að segja, að þurfa að koma hingað upp undir þessum lið eftir að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra gerir grein fyrir því að engin áform séu uppi um að stjórnarflokkarnir ætli sér að hafa skipulega kynningu fyrir minni hlutann. Ég satt að segja trúi því ekki að svo sé. Ég hefði haldið að ríkisstjórnin, sem talað hefur fyrir góðum samskiptum og samráði, vildi gera það þegar um væri að ræða svo stóra aðgerð sem hér er undir.

Ég ætla ekki að vera svo viðkvæm að tala um lítilsvirðingu en mér finnst ekki góður svipur á þessu. Hér er stórt mál og menn hafa meira að segja talað um heimsmet í þessu efni og væntanlega vilja menn að samtalið sé sem best upplýst, eða hvað? Ég vil leyfa mér að trúa því enn þá að einhver samstarfs- og samráðsáætlun sé í gangi hjá stjórnarflokkunum í þessu efni. Eða hvað?



[15:09]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hafði reyndar gert ráð fyrir því að þegar stærstu efnahagsaðgerðir hæstv. ríkisstjórnar til þessa kæmu fram yrðu þær kynntar fyrir þingmönnum. Ég er mjög undrandi á orðum hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra þegar hann telur að það að blaðamenn hafi fengið kynningu og þeir hafi fengið möguleika á að spyrja sé nægilegt fyrir okkur hv. þingmenn. Það er náttúrlega af og frá. Auðvitað þurfa hv. þingmenn að fá tækifæri til að spyrja hæstv. ríkisstjórn út í stærstu efnahagsaðgerð hennar til þessa. Eins og ég segi gerði ég ráð fyrir því að sú kynning færi hér fram, að það þyrfti ekki að vera einhver uppákoma undir liðnum um fundarstjórn forseta um þetta. Ég er ákaflega óánægð með þetta, virðulegur forseti.



[15:11]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það er dálítið dapurlegt að fylgjast með því hvað stjórnarandstaðan er eitthvað í sárum eftir helgina. Það er eins og helgin hafi verið alveg sérstaklega erfið og þungbær. Síðan hvenær var það þannig að ríkisstjórnin kallaði sérstaklega til minnihlutaflokkana til að kynna sín helstu mál áður en þau mega fara út í opinbera umræðu? Síðan hvenær var það þannig? Var það þannig með veiðigjöldin? Var það þannig að við héldum hér sérstakan fund með minnihlutaflokkum þess tíma til að fá leyfi fyrir því að fara með málið út í opinbera umræðu?

Ég ætla hins vegar að taka hitt fram, ég fagna þeim mikla áhuga sem málið fær hér í þinginu. Það er sjálfsagt að allir þingflokkar fái rækilega kynningu á niðurstöðum sérfræðingahópsins og á þeirri skýrslu sem sérfræðingahópurinn skilaði af sér til ráðherranefndarinnar á föstudaginn. Það var á föstudaginn sem það gerðist. Við erum að halda á þessu máli eins opið og gegnsætt og mögulegt er með því að hafa opinn blaðamannafund í beinni útsendingu og núna á fyrsta þingdegi eftir að skýrslunni var skilað kalla menn eftir því að fá kynningu. (Forseti hringir.) Að sjálfsögðu verður orðið við því, en það er eitthvað einkennilegt (Forseti hringir.) við það að menn hafi gert ráð fyrir því að minni hlutinn í þinginu mundi fá sérstaka kynningu á þessu stefnumáli ríkisstjórnarinnar vegna þess að það hefur alltaf legið fyrir og stendur í stjórnarsáttmálanum hvað stóð til að gera. (Gripið fram í.)



[15:12]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég er svolítið undrandi líka á því að menn tali hér um einhverjar hefðir um hvernig þetta sé kynnt. Það rifjaðist bara upp fyrir mér þegar hv. þingmenn voru að tala um þetta að þegar við fengum kynningu á Icesave þá var það á lokuðum fundum. Við fengum ekki gögnin afhent fyrr en eftir dúk og disk og þjóðin fékk engan aðgang að því, hvorki stjórnarandstöðuþingmenn né aðrir. Hér var þó talsvert annar háttur hafður á.

Ég ætla ekki að hrósa því verklagi sem hér var viðhaft á síðasta kjörtímabili og við getum svo sannarlega bætt okkur. Ef það er eindregin ósk frá stjórnarandstöðuþingmönnum að fá slíka kynningu hljótum við að skoða það. En ég vil bara minna á (Gripið fram í.) að þetta var kynnt fyrir opnum tjöldum frammi fyrir alþjóð og öll gögn liggja á netinu og allir geta kynnt sér málið. Vilji menn ítarlegri kynningu og óska eftir því munum við án efa skoða það með mjög jákvæðu hugarfari.



[15:14]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með þeim fulltrúum minni hlutans sem hér hafa tjáð sig og undrast það að okkur hafi ekki verið kynnt málin. Lögð var fram sérstök þingsályktunartillaga um þetta meginstefnumál ríkisstjórnarinnar, sem þurfti í sjálfu sér enga þingsályktun fyrir, en það var til að leita sérstaks samráðs við Alþingi. Það náði þá ekki lengra en þetta. En að sjálfsögðu er nauðsynlegt að minni hlutinn fái kynningu á þessu því að ef hæstv. meiri hluta hér í þinginu tekst að afgreiða fjárlagafrumvarpið til 2. umr. gerum við ráð fyrir því, samkvæmt þessum tillögum, sem við sáum á blaðamannafundinum, að veita eigi sérstakt fjárframlag úr ríkissjóði til að þetta geti orðið að veruleika. En það kannski varðar minni hlutann ekkert um. Það er mjög áhugavert hvaða snúningar eru að verða í þessu máli. Það er þá bara ágætt að það fari að komast á hreint hver þáttur minni hlutans á að vera hér í þingstörfunum.



[15:15]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Mér finnst alger óþarfi að búa til svona drama um þetta. Mér finnst eiginlega svolítið skringilegt að hæstv. ríkisstjórn finnist furðulegt að við viljum setja okkur betur inn í þetta mál. Það er ekki gert af illum hug, það er ekki gert af löngun til að eyðileggja eitthvað fyrir heldur er það nokkuð sem ég man eftir að hafa rætt um við marga stjórnarliða þegar þeir voru ekki í stjórn að vantaði upp á síðast. Af hverju á að halda áfram með það sem fólk gagnrýndi að væru ekki nógu góð vinnubrögð? Ég skil ekki svona lagað.

Ég hef tekið þá afstöðu prívat og persónulega að tjá mig sem minnst um þetta mál út af því að ég veit ekki nógu mikið, ég veit ekki hvort ég get stutt það eða hvort ég eigi að fara í vörn. Til að ég geti stutt þetta verð ég að vita meira.



[15:16]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég held að virðulegur forseti ætti að hafa áhyggjur af því sem hér fór fram undir liðnum Fundarstjórn forseta. Hér var dregið fram með skýrum hætti viðhorf stjórnarliða til stjórnarandstöðunnar og raungerast þar óskir hæstv. forseta þar sem hann, í upphafi þessa þings, talaði um mikilvægi þess að bæta starfsanda, að auka virðingu þingsins og samskipti á milli stjórnarliða og stjórnarandstæðinga. Ég hvet hæstv. forseta til að fara yfir þetta með forustumönnum flokkanna því hér er greinilegt að markmið hæstv. forseta, um betri vinnubrögð, samtal og vinnulag í þinginu, ætlar aldeilis ekki að ná fram að ganga.



[15:17]
Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseti vill vekja athygli á því, m.a. að gefnu tilefni með síðustu ræðu, að bæði hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafa nefnt að það sé meira en sjálfsagt að slík kynning fari fram. Það er auðvitað ljóst mál að hún getur ekki úr þessu hafa farið fram á laugardaginn, en fyrir liggur að það er vilji forustumanna ríkisstjórnarflokkanna að þessi kynning fari fram. Eftir því var kallað hér og forseti telur þess vegna að við þeirri ósk hafi sannarlega verið brugðist.



[15:18]
Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Það er ánægjulegt að heyra orð hæstv. forseta í þessum efnum. Ég tek undir orð þeirra sem hér hafa talað og lýst yfir áhyggjum af því hvernig sú uppákoma sem hér er að verða endurspeglar afstöðu stjórnarmeirihlutans til samskiptanna í þinginu og hvernig það er á skjön við það sem sagt hefur verið, bæði af hálfu forseta þingsins og svo á tyllidögum af fulltrúum ríkisstjórnarinnar.

Ég held að það sé algjörlega fyrirliggjandi að þær aðgerðir sem kynntar voru um helgina skilji eftir mjög margar spurningar. Þar er alls ekki öllum spurningum svarað. Ég verð að segja, virðulegur forseti, alveg í fullri einlægni að ég taldi ótrúlegt annað en að ríkisstjórnarflokkarnir væru með plan, væru með einhver áform eða áætlun um kynningu og umræðu hér innan þingsins. Það kom mér verulega á óvart og enn meira komu mér á óvart varnarræður hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra og umhverfis-, auðlinda- og fleiri málaflokka ráðherra (Forseti hringir.) um þetta mál. Það kemur á óvart en ég vil taka viljann fyrir verkið og ef hæstv. forseti er talsmaður ríkisstjórnarinnar í því (Forseti hringir.) að við ætlum að eiga þessa kynningu og þetta opna lýðræðislega samtal þá fagna ég því.



[15:19]
Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég beini því til hæstv. þingforseta að skoða þetta mál með stjórnarflokkunum. Það var samþykkt hér á sumarþingi þingsályktunartillaga eftir töluvert mikla umræðu sem skapaði forsendur fyrir þeirri skýrslu sem var afhent fyrir helgi. Þá var sérstaklega óskað eftir því af minnihlutaflokkunum að eiga fulltrúa í þeirri vinnu. Sagt var þegar það var borið upp að þetta væri sérfræðingavinna en að sjálfsögðu yrðu minnihlutaflokkarnir hafðir með í ráðum eða upplýstir um hvað væri að gerast.

Gott og vel, það var gert á blaðamannafundi. Þá hefði maður haldið að það yrði fyrsta mál hér eftir helgina að menn kynntu niðurstöðurnar þannig að við gætum tekið þátt í upplýstri umræðu sem hingað til hefur falist í því að segja að allt sem við segjum sé misskilningur eða lygi eða fyrirsjáanlegt vegna þess að við hefðum tekið einhverja afstöðu. Þetta er málefnalega umræðan. Síðan á þetta að vera eitthvað sem við fáum ekki einu sinni tækifæri til að spyrja um. Þetta gengur auðvitað engan veginn svona og er ekki í neinu samræmi við þau fyrirheit sem gefin voru.

Ég bið bara hæstv. forseta að beina því til stjórnarflokkanna að upplýsa ekki bara okkur heldur (Forseti hringir.) líka sína eigin menn. Mér skilst að þeir hafi fengið klukkutíma til að skoða þetta til að geta svo farið að bera boðskapinn út. (Forseti hringir.) Aðeins voru tveir þingmenn tilgreindir sem komu fyrir nefndina sem samdi skýrsluna.



[15:21]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er ánægjulegt að ráðherrar koma svona vel undan helginni, telji sig núna hafa efni á höggunum. Það er spurning hvort sannast eftir á hið fornkveðna, að skamma stund verður hönd höggi fegin. Vonandi eru hæstv. ráðherrar ekki að taka út hinn glæsta sigur í of miklum mæli fyrir fram.

Það er munur á blaðamannafundi þar sem tiltölulega áróðurskennd framsetning þessara tillagna fer fram og verið að selja mönnum ágæti þeirra og hinu að fá kost á því að ræða við sérfræðinga og spyrja þá spurninga og fara yfir smáa letrið í þessu með þeim, þar á meðal frádráttarliði. Það er ýmislegt sem fór að koma í ljós daginn eftir og daginn þar á eftir en lítið var hampað á blaðamannafundinum. Það fór ein og ein fjöður að fjúka strax daginn eftir og daginn þar á eftir.

Ég hef engan áhuga á hinni áróðurskenndu framsetningu heldur hinu að komast í gögn og láta til dæmis sannfæra mig um að innstæða sé fyrir fullyrðingu um að þessar aðgerðir muni taka til 80% heimila í landinu. Ég fæ það engan veginn til að ganga upp, en ég er tilbúinn að hlusta á og fá fram rökin. Satt best að segja (Forseti hringir.) datt mér ekki frekar en öðrum annað í hug en að ríkisstjórnin mundi sjálf, að eigin frumkvæði, óska eftir því að kynna þessar tillögur sínar vandlega, hvort sem hún gerði það rétt fyrir eða rétt eftir blaðamannafundinn, þannig að ég undrast líka viðbrögð ráðherranna í því.



[15:22]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég hef ekkert við fundarstjórn forseta að athuga en vonast til þess að við förum að komast í þann lið á dagskránni er heitir fyrirspurnir til ráðherra. Þá væri hægt að beina nokkrum fyrirspurnum til ráðherranna um þau málefni sem brenna á þingmönnum.

Ég fagna því að það er kominn fram hér vilji til að upplýsa þingmenn. Það er alltaf gott, upplýsingar eru lykillinn að árangri. Það er ekkert ólíklegt að þær tillögur sem litu dagsins ljós um helgina frá sérfræðingahópnum muni leiða af sér nokkur þingmál. Þá munum við í þinginu hafa fullt tækifæri til að skoða þau og velta þeim fyrir okkur, fá til liðs við okkur alla þá sérfræðinga og gesti á fundi nefnda sem okkur fýsir að ræða málin við. Það væri ekki amalegt ef menn mundu taka fullan og virkan þátt í þeim leiðangri öllum með vonandi smájákvæðni að leiðarljósi. Það veitir ekki af að koma smájákvæðni inn í umræðuna.

Ég fagna þessum tillögum, það er gott að þær eru komnar fram og við skulum nú hefjast handa við að vinna úr þeim, öllum Íslendingum til góða.



[15:23]
Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði bara að taka undir með hv. þm. Birgittu Jónsdóttur sem sagði hér að það væri alger óþarfi að vera með eitthvert drama. Þá minnist maður þess kannski hversu hófstillt og sanngjörn stjórnarandstaðan var á síðasta kjörtímabili.

Það sem maður veltir fyrir sér er að stjórnarandstæðingar skuli koma hingað upp og hafa ekkert annað út á þetta mál að setja en hvernig það var kynnt. Ég veit ekki yfir hverju verið er að kvarta þegar allri þjóðinni er kynnt þetta á opnum blaðamannafundi og eftir atvikum (Gripið fram í.) munum við þingmenn fá kynningu á þessu. Ég missti af kynningunni, hv. þingmaður, ég var veðurtepptur fyrir norðan en fagna því sérstaklega að halda eigi aðra kynningu og þá fæ ég kannski að fljóta með.



[15:25]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hún er eiginlega með ólíkindum, þessi uppákoma hér ef svo má segja. Ég hélt að allir sem horfðu á þessa miklu og flottu útsendingu og með miklum fréttum sem var á laugardaginn — að það byggjust allir við að nánar yrði farið í þetta hér í þingsal, að við fengjum t.d. að vita, eins og hér hefur komið fram, að ýmis þingmál fylgja í kjölfarið og eitthvað svoleiðis. Hvaða þingmál eru það? Er þetta bara nóg, þessi laugardagsfundur? Skiptum við engu máli hér? Er það ekki þingið sem á að fjalla um þessi mál? Finnst hæstv. ríkisstjórn það kannski engu máli skipta hvort þetta er kynnt fyrir þinginu?

Ég segi nú eins og amma hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur, ég held að þetta sé einhver misskilningur hjá ríkisstjórninni.



[15:26]
Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil taka fram að ég fagnaði því að þessar hugmyndir væru komnar fram, og er ekkert að fýlupokast út af því. Aftur á móti er alveg gríðarlega mikilvægt að við fáum að ræða þær. Það eru nokkur atriði sem ég vil til dæmis vita: Var þetta hugmynd eða var þetta tillaga? Þetta fór í gegnum ríkisstjórn, þetta fór í gegnum þingflokka stjórnarflokkanna, er búið að samþykkja þetta?

Þá langar mig líka að vita — það er nú umræða sem tengist því sem fram kom hjá hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni, það var talað um leyndarhyggju og að menn mættu ekki koma að málum. Eruð þið að segja mér að allir stjórnarþingmenn hafi fengið kynningu eftir ríkisstjórnarfund á föstudaginn í hálftíma, klukkutíma, og þeir séu allir búnir að samþykkja endanlega allt það sem þar er? (Gripið fram í.)Það er út af yfir sig merkilegt, sérstaklega með tilliti til þess þegar menn eru að rifja upp hvernig hlutirnir voru áður.

Ég bara bið ykkur um að taka því vel að það er ekkert verið ergja sig yfir öðru; en þegar beðið er um málefnalega umræðu verður maður að hafa upplýsingar. Mörgum spurningum er ósvarað í umræddum tillögum og óskað er eftir því, eða menn hafa bara gert ráð fyrir því, að þær verði lagðar á borðið þar sem forsendurnar eru frá þinginu.



[15:27]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Það er í fyrsta lagi afar sérstakt að standa hér sem þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins og hlusta á hv. þm. Guðbjart Hannesson segja frá því sem gerist á þingflokksfundum Sjálfstæðisflokksins. (GuðbH: Ég spurði.)

Í öðru lagi var rætt á fundi þingflokksformanna í morgun, þar sem sátu fulltrúar allra þingflokka, að þessar tillögur yrðu kynntar, ekki yrði komið til móts við óskina heldur væri einfaldlega, eins og einn þingflokksformaðurinn sagði, sjálfsagt að þessar hugmyndir yrðu kynntar. Þess vegna kemur það mér verulega á óvart að menn skuli eyða hátt í hálftíma undir liðnum um fundarstjórn forseta í að ræða það sem þingflokksformönnum allra flokka var kunnugt í hádeginu í dag.



[15:28]
Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Ég hef svo sem ekkert við fundarstjórn forseta að athuga, ég tel hana prýðilega. Ég vil þó byrja á að óska okkur öllum, þinginu og almenningi í landinu til hamingju með þær tillögur sem voru kynntar um helgina er varða skuldavanda heimilanna og Lilja Mósesdóttir, fyrrverandi formaður efnahags- og viðskiptanefndar, sagði að væru vel í anda hinnar norrænu velferðar.

Ég vil líka segja að það er svolítið sérstakt að heyra menn gagnrýna það hér að einhver leyndarhyggja eða eitthvað annað sé yfir þessu — ég hef ekki heyrt annað en ráðherrar hafi lýst því yfir að það sé sjálfsagt að kynna þetta mál, enda var haldinn blaðamannafundur, öll gögn sem málinu tengjast hafa verið sett inn á netið o.s.frv. — þegar þessi sama stjórnarandstaða ætlaði á sínum tíma að keyra Icesave-samninga í gegnum þingið án þess að sýna þá nokkrum manni. Þessi umræða er því allverulega sérstök. En ég hlakka til, virðulegi forseti, þegar þessi mál koma inn til þingsins til umfjöllunar, og ég vil aftur óska okkur öllum til hamingju með að tillögurnar skuli vera komnar fram.



[15:30]
Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Umræða þessi hófst með ósk um að fram færi kynning á efnisatriðum þessarar tillögu. Fulltrúar beggja stjórnarflokka hafa lýst einlægum vilja sínum til að slík kynning fari fram þannig að forseti sér ekki betur en ágætur árangur hafi orðið af þessari umræðu.



[15:30]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Mér finnst athyglisvert að hæstv. forsætisráðherra hafi, í ljósi þessara tillagna, ekki farið yfir það með forseta Alþingis hvernig fara ætti með málið í meðförum Alþingis. Ég tel eðlilegt að hæstv. forseti eigi samtöl við hæstv. forsætisráðherra um það hvernig halda eigi á svona málum.

Ég ætla að minna á að fjárlög eru til meðhöndlunar hér í þinginu þó það sé um það bil að gleymast því að ekki eru haldnir fundir í fjárlaganefnd og verið að seinka umræðum um fjárlög. Ég tel fjárlagagerðina í uppnámi ef hér verður ekki rætt ítarlega um þessa tillögu. Það liggur fyrir, úr munni hæstv. forsætisráðherra, að þetta sé stærsta efnahagsaðgerð ríkisstjórnarinnar en í efninu kemur fram að áhrif séu hverfandi á efnahagslífið og það kemur fram að fjárheimildir þurfi úr ríkissjóði til að tillögurnar geti orðið að veruleika. (Forseti hringir.)

Herra forseti. Ég óska eftir því að þú eigir samtöl við hæstv. forsætisráðherra og ég tel að við séum að nálgast það að fjárlagagerðin hér sé í fullkomnu uppnámi.



[15:31]
Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Í ljósi lausnamiðaðrar og upplýstrar umræðu langar mig að spyrja hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hvort hann geti ekki beðið þennan sérfræðingahóp um að mæta á fundi hjá þingflokkunum þar sem við gætum fengið að spyrja efnislegra spurninga. Ég er búinn að renna í gegnum þessa glærukynningu og þessar tillögur. Það er margt pólitískt mjög flott upp sett en ég átta mig ekki alveg nógu vel á efnahagsvinklinum. Ég er búinn að spyrja nokkra þingmenn stjórnarflokkanna hvort ríkisábyrgð sé á þessum sjóði sem nota á til að veita lán sem niðurgreiðir lán fólks og er síðan niðurfært á þessum fjórum árum. Ég hef ekki fengið afgerandi svör, menn eru ekki alveg vissir. Það er eitt atriði. Það vantar greinilega meiri upplýsingar og það væri alveg frábært, til að við gætum tekið málefnalega afstöðu, að fá aðgang að sérfræðingahópnum. Mig langar að spyrja fjármálaráðherra hvort ekki sé hægt að verða við því.



[15:33]
Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Nú háttar svo til að samkvæmt þingsköpum hefur hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra ekki tækifæri til að tala oftar í þessari umræðu, undir liðnum um fundarstjórn forseta. Forseti vill vekja athygli á því, sem hann hefur áður nefnt, að við því hefur verið brugðist af hálfu beggja stjórnarflokka að slík kynning, sem hv. þingmaður kallar eftir, fari fram í þingflokkum stjórnarandstöðuflokkanna. Er sannarlega vel að þessi niðurstaða er orðin hér af ítrekuðum óskum og síðan ítrekuðum yfirlýsingum af hálfu ríkisstjórnarinnar um að slík kynning fari fram.