143. löggjafarþing — 31. fundur
 3. desember 2013.
mannanöfn, 1. umræða.
frv. ÓP o.fl., 200. mál (mannanafnanefnd, ættarnöfn). — Þskj. 251.

[20:05]
Flm. (Óttarr Proppé) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um mannanöfn og með breytingum á mannanafnanefnd og ættarnöfnum. Frumvarpið er lagt fram af þingflokki Bjartrar framtíðar eins og hann leggur sig. Björt framtíð er nýtt stjórnmálaafl og við höfum kennt okkur við frjálslyndi. Það höfum við ekki gert bara til að skilgreina okkur á einhverjum hægri/vinstri skala heldur vegna þess að við trúum því að heimurinn sé fjölbreyttur og eigi að vera það og að einstaklingurinn eigi að ráða sínum einkahögum eins og mögulegt er.

„Maður er nefndur“. Þannig byrja ansi margar sögur og mannkynið á það sameiginlegt, a.m.k. síðustu aldirnar, að við heitum nöfnum og skírum okkur nöfnum. Íslensk mannanafnahefð er að mörgu leyti einstök og stórmerkileg en í seinni tíð höfum við stofnað til laga og reglna um hvað Íslendingar megi kalla sig og hvað þeir megi skíra börnin sín sem við teljum óþarfa þar sem einstaklingarnir séu fullkomlega færir um að velja sér og börnum sínum nöfn.

Í frumvarpinu er lagt til að gerðar verði breytingar á lögum um mannanöfn þar sem við lítum ekki svo á að þau séu óþörf. Í lögunum eru mjög góðar greinar um þær skyldur að nefna börn o.s.frv. en lagt er til að allar tilvísanir til mannanafnanefndar, lykilhlutverks hennar sem er mannanafnaskrá, viðhald og reglur í kringum hana, verði felldar burt og að þessi mikilvægi þáttur sjálfsímyndar manna og fjölskyldna sé eftirlátinn þeim.

Einnig er lagt til að brott falli greinar úr lögunum sem skilyrða rétt einungis sumra Íslendinga til að bera ættarnöfn. Samkvæmt lögunum er löglegt að bera ættarnafn á Íslandi svo fremi sem það sé ættarnafn sem til er fyrir og sem verið hefur til í ættum viðkomandi barns eftir sérstökum reglum. Upptaka nýrra ættarnafna hefur verið skilgreind ólögleg nema um sé að ræða ættarnöfn sem fólk ber frá öðrum löndum þegar það flytur til landsins. Við teljum að þarna sé í raun verið að mismuna þegnunum um möguleika til að nefna sig og börn sín, þ.e. að sumir Íslendingar hafi rétt til að bera ættarnafn en aðrir ekki. Við teljum að það eigi að vera jafn réttur allra.

Sá sem hér stendur ber óvenjulegt nafn og ættarnafn sem er upprunalega af erlendu bergi brotið en fluttist til Íslands áður en við fórum að setja reglur og lög um mannanöfn og telst því íslenskt í dag. Fyrir gráglettni örlaganna hlaut ég þetta nafn í arf frá langalangafa mínum og hending ein réð því að ég er kominn af honum í karllegg og hef þar af leiðandi haft rétt til að bera þetta nafn.

Í minni fjölskyldu hafa mannanafnalögin verið fyrirferðarmikil, ekki þannig að fjölskyldan hafi staðið í miklu stríði við mannanafnanefnd eða lögin en það að bera erlent ættarnafn hefur verið stór hluti af tilveru okkar. Sumir í ættinni eru mjög stoltir af því en öðrum hefur þótt þetta til trafala og ég er viss um að við könnumst flest við það að hafa fengið af nafninu talsverða stríðni og alls konar kerskni vina okkar og óvina. Það hefur ýmist hert okkur eða verið okkur til ama. Í minni ætt hafa einstaklingar haft þann rétt að taka ákvörðun um hvort við berum þetta ættarnafn eða hvort við trillum okkur niður í Þjóðskrá og látum skrá ættarnafnið af okkur. Þetta er ekki réttur sem aðrir Íslendingar hafa endilega haft. Í minni ætt eru fleiri ættarnöfn sem vill svo til að hafa ekki borist mér í gegnum karllegg og ég hef því ekki rétt til að taka upp eins og lögin eru í dag. Við teljum það óþörf afskipti hins opinbera að veita sumum þennan rétt en ekki öðrum.

Eins er í frumvarpinu lagt til að það verði fellt brott úr lögunum að óheimilt sé að taka upp nýtt ættarnafn hér á landi og hugsunin þar er ekki síst að jafna rétt Íslendinga, þ.e. þeirra Íslendinga sem eru fæddir hér á landi og mega samkvæmt núgildandi lögum ekki taka upp ættarnöfn og hinna sem eru fæddir í öðrum löndum þar sem þeir hafa rétt á að taka upp önnur nöfn og mega svo flytja þau með sér þegar þeir flytja hingað.

Í lögunum í dag er gert ráð fyrir því að mannanafnanefnd haldi úti svokallaðri mannanafnaskrá. Nefndin hefur komið sér upp vinnureglum um það hvernig ný mannanöfn eru samþykkt eða þeim synjað og er þá miðað við íslenska málvenju, að nöfnin geti fallbeygst, innihaldi einungis stafi sem viðurkenndir eru í íslensku stafrófi o.s.frv. Þetta hefur orðið til þess að nú eru dæmi um að nöfnum hafi verið hafnað, jafnvel þótt þau eigi sér langa sögu í íslensku samfélagi og íslenskri tungu og þótt þau hafi jafnvel tíðkast innan sömu fjölskyldu í margar kynslóðir. Aftur vísa ég til eigin reynslu, en fyrra nafn mitt er óvenjulegt eða var það að minnsta kosti í minni æsku. Ég er svo heppinn að heita eftir afa mínum sem fæddist áður en reglur voru hertar. Á þeim tíma, á fyrri hluta 20. aldar, var talsverð tíska á Íslandi, ekki síst reyndar meðal Íslendinga sem höfðu nýlega flust til Íslands frá Danmörku og öðrum löndum, að taka upp þjóðleg nöfn og endurlífga nöfn úr íslenskum fornbókmenntum eða sögum. Er Óttarr eitt þeirra, en þessi nöfn höfðu gjarnan legið í láginni og ekki verið notuð jafnvel í fleiri aldir á Íslandi. Þarna var um þjóðlega tísku að ræða, að endurnýta arfinn ef svo má segja, auka fjölbreytni í íslenskum nöfnum og það er vel að þessi tíska komst á áður en reglur voru þrengdar.

Þar sem ég heiti óvenjulegu nafni var eiginnafnið mér oft hugleikið sem barni. Stundum var ég montinn af því en stundum var mér líka á því strítt og veit ég að það sama á við um fleiri börn sem hafa heitið óvenjulegum nöfnum. Þá höfðu foreldrar mínir vissulega það val að breyta nafninu eða ég að kalla mig öðrum nöfnum eða breyta stafsetningu eins og frændi minn einn gerði til að þóknast því sem algengara var. Það var í raun val mitt og foreldra minna að hafa þetta svona og ég kvarta ekki undan því sjálfur.

Það er gjarnan í umræðu vegna þess að nú hafa mannanafnalög og verk mannanafnanefndar verið til umræðu og milli tannanna á fólki í íslenskri umræðu, a.m.k. síðustu áratugina svo ég hafi tekið eftir og eflaust lengur, og oft verið hneykslast á þeim tilfellum þar sem mannanafnanefnd hefur ekki samþykkt ný nöfn. Líka hefur verið hneykslast á því að mannanafnanefnd hafi séð ástæðu til að hafna nöfnum sem sótt hefur verið um sem þykja fjarstæðukennd og óviðurkvæmileg og til þess fallin að auka líkur á að börnum yrði strítt og líf þeirra á einhvern hátt eyðilagt.

Í nafni frjálslyndis og ákveðinna grundvallarmannréttinda Íslendinga til að haga einkahögum sínum teljum við að þetta eigi ekki að vera meira vandamál en ýmislegt annað í einkahögum fólks. Á Íslandi höfum við góða og sterka barnaverndarlöggjöf sem tryggir bæði eftirlit og eftirfylgni með því að börnum sé búið gott líf, þau verði ekki fyrir ofbeldi eða búi við slæmar aðstæður. Ónefni af versta tagi ætti mögulega að geta fallið undir þetta. En samkvæmt tillögunni gerum við ráð fyrir því að í staðinn fyrir sérstaka mannanafnanefnd og mannanafnaskrá sem farið verði eftir verði hægt að skjóta alvarlegum málum til ráðherra ef þörf þykir á og ráðherra hafi þá eitthvert dæmi um.

Hér á Íslandi búum við við nokkuð frjálst og fjölbreytt samfélag og að mörgu leyti eykst fjölbreytni og frelsi í þessu samfélagi með hverjum deginum. Ég finn stóran mun á samfélaginu sem ég lifi í í dag og því samfélagi sem ég ólst upp í sem barn fyrir ekkert svo allt of löngu. Á þessu landi hefur löggjafinn og hið opinbera veitt einstaklingunum margvíslegt vald um eigin hagi. Við treystum fólki til að velja sér klippingar og klæða sig sjálft eftir sínum smekk og höfum ekki af því afskipti nema stórkostleg hætta sé á því að af því hljótist skaði fyrir almenning annan eða að augljóst sé að fólk valdi í einhverri örvinglan eða vanvitaskap sjálfu sér stórkostlegu tjóni. Við teljum að það sama eigi við um það hvað fólk vill láta kalla sig. Við höfum séð það og erum, held ég, öll hér sammála um að það er mikilvægt að einstaklingurinn hafi rétt til að ákvarða um til dæmis klæðnað sinn eða kynvísun. Það er undarleg hyggja að það traust til einstaklingsins eigi ekki við um það hvað hann heitir.

Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu lengri. Með frumvarpinu fylgir nokkuð ítarleg greinargerð. Ég vona og treysti að frumvarpið fái góða meðferð í þinginu. Ef á því finnast einhverjir hnökrar eða eitthvað sem geti bætt tillöguna mun ég fagna því sömuleiðis og læt hér við sitja að sinni.



[20:21]
Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um mannanöfn. Eins og fram kom í framsögu hv. þm. Óttars Proppé mun frumvarpið væntanlega fara til meðferðar í nefnd og verða rætt og fá á sig þá dýpt og þær víddir sem því ber sem svo mikilvægu máli.

Mig langar því í þessari 1. umr. málsins að varpa fram nokkrum vangaveltum kannski miklu frekar en að vera hér með einhverja endanlega afstöðu í málinu. Þá langar mig kannski í fyrsta lagi að velta upp efasemdum — af því að hv. þingmanni verður tíðrætt um rétt einstaklingsins, fjölbreytt samfélag og þessa nálgun alla saman, sem er mikilvæg og ég tek undir það, og hann ræðir nafnahefðir í samhengi við aðrar ákvarðanir einstaklingsins um það hvernig hann kýs að koma fram gagnvart samfélaginu.

Það sem mig langar að varpa fram til umhugsunar er það að hér er í raun um það að ræða að gefa eftir ákveðin sérkenni þar sem íslensk nafnahefð sker sig frá því sem víðast er í heiminum. Ég vil biðja fólk að velta því fyrir sér: Kann að vera að með meintri fjölbreytni í íslenskri nafnahefð séum við að nálgast meiri einsleitni gagnvart samfélagi þjóðanna, þ.e. að við gætum misst tökin á íslensku nafnahefðinni sem er sú að kenna sig til föður og móður í ríkari mæli eftir því sem nútíminn tekur yfir; sem er sérkenni fyrir Ísland og var sú norræna nafnahefð sem var við lýði á Norðurlöndum lengi en lifir eiginlega bara eftir hér á Íslandi og í íslenskri tungu. Maður upplifir það iðulega að þetta er „kúríósa“, ef svo má að orði komast, þegar maður er í samskiptum við fólk af öðrum þjóðernum, að svona skulum við hafa þetta. Að því leytinu til er hver og einn einstakari en þegar fjölskyldan og stórfjölskyldan kennir sig til sama nafns. Þetta segi ég ekki vegna þess að ég sé komin að niðurstöðu, mig langar bara til að varpa þessu fram sem vídd í þessa umræðu.

Við vorum hér fyrr í dag aðeins að tala um stöðu íslenskrar tungu og það er alltaf þessi togstreita sem maður stendur frammi fyrir, annars vegar sú að tungumálið lýtur sínum lögmálum og breytist eftir því sem samfélagið breytist og það á að gera það. Hins vegar höfum við tilhneigingu til að vilja halda einhverju sögulegu samhengi í tungumálinu. Við viljum sjá það breytast og þróast og við viljum fagna því að nýyrði koma inn í það og það er frjótt og öflugt. En um leið segjum við að það sé eftirsóknarvert að geta lesið gamla texta o.s.frv. Þetta vísar svolítið hvort í sína áttina. Ekki viljum við gera íslenskuna að einhverjum safngrip, við viljum hafa málið lifandi. En um leið viljum við ekki sjá eftir því, við viljum ekki sjá það hverfa. Einhvern veginn þurfum við að geta bæði látið reka á reiðanum en samt verið undir stýri, það er eiginlega þessi kúnst.

Mér finnst mikilvægt að það mál sem hér er til umræðu sé hluti af þessari heildarmynd, þ.e. heildarmyndinni um stöðu og þróun íslenskrar tungu. Íslenska nafnahefðin er partur af því hvernig málið þróast og hvernig það hefur þróast.

Í öðru lagi langar mig að nefna það sem vekur mig til umhugsunar. Ég skil, og mér finnst ágætlega farið yfir það hjá hv. þingmanni, markmiðin að baki, hvað það er sem drífur þingmanninn og aðra flutningsmenn áfram, mér finnst vera gerð vel og skýr grein fyrir því. En ég velti fyrir mér þeirri nálgun sem er hér í frumvarpinu sem er sú að leggja niður mannanafnanefnd en halda lögunum annars óbreyttum að verulegu leyti. Tilteknir og afmarkaðir þættir eru ætlaðir ráðherra í frumvarpinu eins og það er lagt fram og þar er ég sannfærðari en í hinni vangaveltunni um að það er ekki góð leið.

Ef við viljum vera með einhvern ventil, ef við viljum ekki bara leggja niður lög um íslensk mannanöfn, sem gæti verið leið, ef við viljum ekki lög um mannanöfn; ef við viljum hafa einhver lög um mannanöfn yfir höfuð þá er ég sannfærð um að það er mjög vond leið að ætla ráðherra að skera úr ágreiningsmálum. Af hverju segi ég það? Hér er að vísu gert ráð fyrir því að þau verði mun færri. Ekki er gert ráð fyrir að ráðherrann sé með langa lista af nöfnum heldur að þessi ágreiningsmál verði færri.

Hvaða forsendur ætli ráðherra hafi til að taka afstöðu til ágreiningsmála, skera úr um málfræðileg álitamál eða hvað eina annað sem upp kynni að koma? Hann gæti haft ríkar og gæti haft engar forsendur til þess. Þar værum við alltaf komin með einhvers konar bakdyramannanafnanefnd sem væri ráðgjafahópur eða sérfræðingar eða einhver sem ráðherrann mundi kalla sér til fulltingis. Ég held að sú nálgun sé ekki leið að þessu markmiði. Ég held að það sé alltaf betra, ef við viljum hafa einhvern ventil og ég gef því bara möguleika að það geti farið hvorum megin sem er, sem flutningsmenn leggja til þá tel ég betra að það sé einhvers konar sérfræðingahópur frekar en að það sé ráðherra.

Hins vegar eru álitamál uppi, og það kom fram í framsögunni og líka í greinargerðinni, um verksvið og vinnureglur mannanafnanefndar. Það kann að vera að það þurfi að skoða. Mannanafnanefnd hefur raunar verið að þróa vinnureglur sínar í gegnum tíðina og hefur ekki verið blýföst í gömlum kennisetningum hvað það varðar og hefur verið í takti við breytingar dagsins. Ekki gengið nógu langt finnst sumum, gengið of langt finnst öðrum o.s.frv. En ég er samt þeirrar skoðunar að þá eigi maður að horfa frekar á rammann að vinnureglurnar sem mannanafnanefnd setur sér og hvernig þær endurspegla þessa sýn og markmið löggjafans eftir þá breytingu sem hér er lögð til ef hún nær fram að ganga.

Aðeins aftur út frá þróun íslenskrar tungu sem ég held að við getum ekki rofið frá þessari umræðu, af því að þetta er ein sneið af þróun íslenskunnar; breyting af þessu tagi hefði áhrif á það hvernig þessi geiri tungunnar mundi þróast. Það er einn af þeim þáttum sem hefur verið undir, eða hefur verið viðmið, að nafnið hafi eignarfallsmynd, þ.e. að það falli að fallakerfinu. Þetta hefur líka verið útgangspunktur að því er varðar nýyrðasmíð að við höfum viljað gæta að þessu fallakerfi og þess vegna hafa meira að segja sumir gengið svo langt að segja að „þágufallssýki“ sé af hinu góða vegna þess að hún styrki fallakerfið, þágufallið er yfirleitt fyrsta fallið sem gefur eftir í fallatungumálum. Það ætti því að vera fagnaðarefni fyrir málfræðisinna þegar þágufallið styrkist og nú hrylla menn sig hér, einhverjir, í salnum. En ef maður er bara að hugsa um kerfið í heild þá ætti það að vera fagnaðarefni. En þetta var útúrdúr. En að nafnið hafi eignarfallsmynd hefur verið viðmiðun.

Annað hefur verið viðmiðun, og það finnst mér frekar vera umhugsunarefni, þ.e. að nafnið sé stafsett samkvæmt málkerfi þjóðtungu. Það hefur verið nálgun sem mannanafnanefnd hefur byggt á samkvæmt lögunum að hafna nöfnum sem stafsetjast ekki samkvæmt íslensku málkerfi.

Þetta er alls ekki ætlað til að botna þessa umræðu með nokkrum hætti og alls ekki að draga þróttinn úr málinu. Ég tel mikilvægt að þingið taki málið til skoðunar, að nefndin fari yfir það, fái umsagnir o.s.frv. Mínar efasemdir, eins og hér hefur komið fram, lúta kannski fyrst og fremst að þessum úrskurðarfarvegi eða einhvers konar leið til að vísa ágreiningsmálum í og svo hins vegar mikilvægi þess að skoða þessa breytingu í samhengi við málkerfið almennt.

Ég geri ráð fyrir að hv. flutningsmaður — hann notaði orðalagið hér áðan „óþarfleg afskipti hins opinbera“ og lagði það að jöfnu við afskipti af klæðaburði og hárklippingum en mér finnst mikilvægt að við horfum á þessi „afskipti“. Þarna erum við að tala um hluta af málstefnu og það kann að verða niðurstaða málstefnu að hætta að hafa málstefnu og segja: Málið bjargar sér sjálft og það þróast eftir sínum lögmálum, breytist eins og það vill. Það eru þjóðir sem hafa gert það. Hollendingar eru mjög nálægt því og Danir eru mjög nálægt því líka, taka tökuorð mjög öflugt inn og málið tekur miklu hraðari breytingum en mál þar sem höfð eru uppi íhaldssamari sjónarmið; hvort tveggja er leið en þetta er hluti af stefnu og stefnumótun samfélaga til langs tíma og þess vegna finnst mér mikilvægt að þetta mál sé líka skoðað í því ljósi.



[20:32]
Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar rétt aðeins að blanda mér í þessa umræðu og þá sérstaklega hvað varðar þau atriði sem hv. þingmaður nefnir. Í fyrsta lagi með íslensku mannanafnahefðina — nú er ég sjálfur, eins og 1. flutningsmaður þessa frumvarps, með ættarnafn sem er ættað frá Skotlandi, Edinborg. Faðir minn er Skoti og ég ber nafn hans og hef gert alla mína ævi. Ég á hins vegar fjögur börn sem eru Róbertsbörn, heita samkvæmt hinni íslensku mannanafnahefð. Ég er sammála hv. þingmanni um að það er auðvitað mun sérstakari hefð en ættarnafnahefðin.

Það sem við leggjum áherslu á í þessu máli — nú er það þannig með mín börn að þau hafa rétt til þess, kjósi þau svo, að taka upp mitt ættarnafn eða ættarnafn fjölskyldunnar sem er umfram það sem aðrir hafa. Í því felst ákveðið ranglæti sem við viljum leiðrétta. Við segjum að þetta sé dæmi um það frjálslyndi sem við í Bjartri framtíð kennum okkur við sem frjálslyndur flokkur; við tilheyrum bandalagi frjálslyndra flokka á alþjóðavettvangi og þá tölum við um frjálslyndi sem mótvægi við stjórnlyndi, þ.e. við treystum einstaklingnum til að taka ákvörðun í þessum efnum fyrir sjálfan sig og hann getur að sjálfsögðu líka gert það fyrir þessa hefð eins og ég sjálfur er ágætt dæmi um. Ég þekki fjölmörg dæmi þess, og meðal annars hér úr þinginu, þar sem fólk hefur einmitt réttinn til að nota ættarnafn en kýs að gera það ekki.



[20:34]
Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er full ástæða til að nákvæmlega þau sjónarmið sem koma fram í máli hv. þingmanns rati inn í nefndina; þetta er slagkrafturinn í frumvarpinu, ástæðan fyrir því að það er lagt fram. Það er þá þeirra sem fyrir því mæla að sannfæra þingheim um að það sé góð og skynsamleg nálgun.

Ég velti fyrir mér merkimiðunum, frjálslyndi versus stjórnlyndi. Almennt erum við hér í löggjafarþinginu að vinna að því af bestu yfirsýn að setja samfélaginu einhvers konar ramma. Það er náttúrlega lýðræðið að setja ramma og stundum er einhvers konar stjórnlyndi falið í því. Ég nefni sem dæmi þegar við erum að vinna með umferðarreglur eða skatta, það er ekkert „líbó“ við það, það er ekkert frjálslyndi við það hvort maður borgar skattinn eða ekki þó að sumir mundu gjarnan vilja hafa það þannig.

Mér finnst mikilvægt að fara ekki í þann farveg með þetta mál, að gera úr þeim sem vilja fara varlegar einhvers konar miðstýrðar stjórnlyndistýpur en hina einhvern veginn opnari og nútímalegri, af því að þetta snýst ekki um það. Þetta snýst ekki um fortíð og nútíð, þetta snýst um það að við getum tekið þessi sjónarmið og rætt þau og borið þau saman.

Það sem ég vildi draga fram áðan í ræðu minni var mikilvægi þess að við sæjum það samhengi að mannanafnalöggjöfin er hluti af íslenskri málstefnu. Ég sagði í kjölfarið: Það kann að vera að við viljum breyta málstefnunni en þá er þetta partur af því. Það er mikilvægt að við áttum okkur á því að þetta snýst ekki bara um val einstaklingsins, klippingu eða fatnað, heldur líka um málstefnu.



[20:37]
Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til að árétta það þá er ég ekki að hengja neinn stjórnlyndismerkimiða á hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur. En mér finnst þetta sérstaka mál vera ágætisdæmi um mál sem við getum aðhyllst mjög róttækt traust og treyst fólki til að fara vel með þegar kemur að íslensku mannanafnahefðinni.

Hitt sem ég vildi nefna og er það sem hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni varðar kaflann um ráðherra, sem ég er alveg sammála um að þarf að ræða sérstaklega í þinginu og í störfum nefndarinnar og var m.a. mikið ræddur innan þingflokks Bjartrar framtíðar. Þar er reynt að fara með svolítið varfærnislegri nálgun í málið þannig að þar sé einhvers konar öryggisventill innbyggður en það er auðvitað búið að gera málið þannig úr garði að mun færri vafaatriði eiga að koma upp. Þau sjónarmið sem ráðherra þyrfti að horfa til væri eitthvað sem t.d. væri æskilegt að kæmi fram í nefndaráliti eða jafnvel breytingartillögum við frumvarpið við meðferð þess í þinginu. Ég teldi líka koma til greina að þetta væri einhvers konar tímabundið fyrirkomulag, eitthvað sem við mundum velta fyrir okkur að hafa fyrst um sinn en það er auðvitað bara umræðum háð í þinginu hvernig menn mundu vilja sjá þetta fyrir sér.



[20:38]
Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna viðbrögðum hv. þingmanns og heyri að það hafi verið lending að setja þetta fram með þessum hætti en kannski ekki alveg sannfæring um að þetta væri nákvæmlega eina leiðin til að koma á einhvers konar öryggisventli í þessu ferli. Ég skil hv. þingmann á þann veg að flutningsmenn séu opnir fyrir því að skoða aðrar útfærslur á þessari leið og ég held að það sé vel.



[20:39]
Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að koma inn á það sem hv. þm. Svandís Svavarsdóttir sagði um að komnar væru einhverjar mannanafnanefndarbakdyr með því að ráðherrar tæki ákvörðun um þetta. Það er að sjálfsögðu þannig að þegar er nefnd eins og mannanafnanefnd sem er að vinna í þessu og engu öðru og setur rammann um það í staðinn fyrir að einstökum tilfellum, einhverjum algerum ónefnum, sé vísað til ráðherra eða hvaða aðila sem það væri — það er náttúrlega stór munur á þessu tvennu. Í samhengi við þetta væri kannski vert að skoða hvað mundi sparast með því að leggja mannanafnanefnd niður en þar gætu peningar fengist í mikilvægari verkefni.

En svo varðandi það að verja málhefðina sem hv. þingmaður nefnir, það er vissulega ákveðið gildi sem margir setja ofarlega og aðrir neðar. En þetta kom samt sem áður mjög vel fram hjá 1. flutningsmanni, hv. þm. Óttari Proppé, hvernig hann tengdi þetta við það hvernig fólk vill koma persónu sinni á framfæri við heiminn, hvernig það vill koma fyrir og hvað það vill kalla sig, hvort sem það snýr að kynhneigð, kynvitund eða hvað. Til eru lönd í heiminum þar sem reglur eru til um að bannað sé að kalla sig homma eða lesbíu eða að nota annað orð um kyn sitt en líffræðilegt kyn, það eru bara lög um að það skuli bannað.

Finnst hv. þingmönnum vera stigsmunur eða eðlismunur á því að stjórnvöld grípi inn og segi: Þú mátt ekki kalla þig það sem þig lystir, þegar kemur að kynhneigð eða þegar kemur að nafni? Ekki er langt síðan skömm fylgdi því á Íslandi, og enn fylgir því einhver skömm, að merkja sig þannig annarri kynhneigð en gert er samkvæmt hefðinni. Ég spyr hvort þingmanninum finnist þarna um eðlismun eða stigsmun að ræða.



[20:42]
Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst það ekki vera stigsmunur eða eðlismunur, mér finnst þetta bara allt annað mál og ekki tengjast á nokkurn hátt. (Gripið fram í.)

Af því að hv. þingmaður var sérstaklega að velta fyrir sér þessum öryggisventli og af því að ég orðaði það sem svo að ráðherra væri kominn með hálfgildingsmannanafnanefnd sér við hlið, vegna þess að hann þarf einhverja sérfræðinga til að ráðfæra sig við, þá varðaði það ekki fjölda tilvika heldur bara einfaldlega hvers eðlis öryggisventillinn er.

Ef við gerum ráð fyrir því að frumvarp hv. þingmanna nái fram að ganga þ.e. efnislega að því er varðar hvað telst í lagi og hvað ekki, mundum við ætla að það væri miklu sjaldgæfara að það kæmi til kasta mannanafnanefndar en er nú. Það sem ég er að segja er að mannanafnanefnd gæti eftir sem áður haft það hlutverk að fara yfir álitamál. Að mínu mati tryggir það ákveðið gagnsæi að mannanafnanefnd sé fyrir hendi, að hún sé með skýrari skilgreiningar eða þrengra starfssvið eða hvað það er. Verklagsreglur og vinnureglur þurfa að vera skýrari fyrir alla sem að málum koma, þá sem leita ásjár nefndarinnar með ágreiningsmál heldur en að ráðherrann hafi samkvæmt lögunum verkefnið og finni svo bara út úr því í hvert skipti til hverra hann leitar án þess að þar séu einhverjar sérstakar vinnureglur eða eitthvað slíkt.

Ég held að þetta sé umræða sem við botnum alls ekki hér því að það hefur verið greinilegt í umræðunum um þetta mál að menn telja það snúast miklu frekar um að ná tilteknu markmiði frekar en að festa sig í þeirri útfærslu sem hér er lögð til þannig að ég vænti þess að þetta verði sérstaklega tekið fyrir í nefndinni og sjónarmið reifuð (Forseti hringir.) til að nálgast farsæla niðurstöðu.



[20:44]
Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ef við höldum aðeins áfram að tala um þessar bakdyr er mjög mikilvægt að inn í þessa umræðu komi skilningur á því að frumvarp liggur fyrir þessu þingi, eða hvort það var lagt fram á sumarþinginu, varðandi líffæragjafir. Staðreyndin er sú að í þeim ríkjum þar sem líffæragjafir eru getur fólk merkt við það: Ég vil gefa líffæri mitt við dauða minn o.s.frv. Ef merkja þarf við það er miklu ólíklegra að fólk gefi líffæri. Ef það er aftur á móti sett í lög að allir gefi líffæri — nema þeir skrái sig út eða merki við að þeir vilji það ekki — þá eru menn miklu líklegri til að gefa líffæri.

Ég las einhvern tíma frétt um þetta í Evrópu. Menn áttuðu sig ekki á því hvers vegna þetta væri svona mismunandi milli landa. Þeir voru að reyna að átta sig á því hvaða parametrar þetta væru? Er það hvað löndin eru vinstri sinnuð, hvað þau eru hægri sinnuð eða hvað þau eru samfélagslega þenkjandi, eða hvað? En niðurstaðan var að þetta var lykilatriðið um það hvað margir gáfu líffæri í löndunum.

Við sjáum þetta líka hjá Vodafone með SMS-skilaboðin. Þar var hakað fyrir fólk: Ég vil láta geyma upplýsingarnar. Við þekkjum þetta prinsipp.

Það sem þetta lagafrumvarp leggur til er að í grunninn geta allir nefnt það sem þeir vilja. Aftur á móti ef einhver sér að það er algert ónefni og vill gera eitthvert mál úr því þá þarf sá hinn sami að hafa frumkvæði að því að vísa því áfram. Það finnst mér mjög gott prinsipp svo við höldum því til haga, það er betrumbótin meðal annars.



[20:46]
Þórunn Egilsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessu frumvarpi og þeim umræðum sem hafa átt sér stað, ég held að þær séu mjög þarfar. Það er margt í þessu sem vekur áhuga minn. Ég vil trúa því að mannskepnan sé nú þannig að henni sé fyllilega treystandi fyrir því að velja nöfn á afkvæmi sín eða fjölskyldumeðlimi. En því miður eru undantekningar á því þannig að ég held að varnaglinn þurfi að vera inni. Þá velti ég líka fyrir mér — ég veit að við eigum eftir að ræða það betur, við klárum ekki þessa umræðu hér — hvort leiðin sé sú að ráðherra hafi það vald. Ég staldra aðeins við það. Hvernig á að fara með það? Svo er það bara sú umræða hvort við eigum yfir höfuð að hafa einhver lög um það, mér finnst líka þurfa að ræða það út frá þeim sjónarhóli. En þá er eitthvað inni í mér sem bendir á hefðina sem við höfum hérna, þessa sérstöku íslensku hefð, sem mér persónulega þykir vænt um. Þetta er sérstaða okkar og við höfum örugglega flest lent í því að ræða um hana þegar við erum stödd annars staðar í heiminum og útskýra hana.

Sú hefð er gegnsæ. Þegar konur ganga í hjónaband hverfa þær ekki eins og gerist í sumum löndum. Það er erfitt að finna konur af því að þær skipta um nafn víða. En svo kemur þetta inn á réttlætismál, að sumir hafi meiri rétt en aðrir.

Nú er ég ekki í þeirri stöðu að hafa getað valið mér ættarnafn en ég get alveg trúað ykkur fyrir því að ég hef velt því fyrir mér hvernig það væri og hvað ég mundi þá velja mér. Eitt mjög sterkt nafn hefur komið upp í huga minn. Þá fer ég að velta þessu fyrir mér: Verður mér strítt á því? Kannski verður það tengt við vaxtarlag mitt, við geðslag mitt eða eitthvað í umhverfinu þar sem ég á heima. Þá mundi ég heita Þórunn Þverdal, það væri dálítið skemmtilegt að geta valið það.

En ég fagna þessu máli og ég hef haft gaman af þessari umræðu. Ég vona að við höldum áfram að ræða þetta þarfa mál.



[20:49]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Óttari Proppé fyrir framsögu í þessu máli. Ástæða þess að ég freistast til að koma hér upp er að ég er íslenskufræðingur, fyrrverandi íslenskukennari í unglingadeild í mörg ár, og mér rann eiginlega blóðið til skyldunnar. Íslenskan er okkar mál og þess vegna fyrst og síðast þurfa nöfn að mínu mati að geta fallið að beygingarhefðinni. Við eigum að geta fallbeygt nöfn samkvæmt íslensku málkerfi.

Ég hef hins vegar oft velt fyrir mér að foreldrar gleyma að fallbeygja nöfnin saman áður en þau gefa börnum sínum eitt eða fleiri nöfn. Stundum er það þannig að börn hafa tvö nöfn og þegar þau eru fallbeygð hljóma þau skelfilega. Örugglega hafði þá enginn velt því fyrir sér í upphafi.

Til eru tvö falleg karlmannsnöfn, þau Leifur og Arnar. En svo er spurt: Kemurðu með Leif Arnar? Það er undir svona kringumstæðum sem mér finnst að einhver eigi að leiðbeina fólki þegar það velur falleg nöfn á börnin sín.

Um tíma var tíska að stúlkur hétu Mist og síðan komu nöfnin Mist Líf og Mist Eik. Fyrir gamlan og fyrrverandi íslenskukennara er þetta ekki alveg að gera sig, eins og börnin segja í dag. Ekki má lengur heita Erling, barnið verður að vera skírt Erlingur, en í stað þess að banna að skíra þessum nöfnum ætti frekar að vera hægt að leiðbeina fólki um það með hvaða hætti það velur nöfn á börnin sín sem þessi börn eiga síðan að bera í náinni framtíð.

Sjálf heiti ég Ragnheiður. Mér fannst það ekkert sérstakt þegar ég var krakki. Ef ég hefði getað ráðið því að skipta hefði ég kannski gert það, en mér finnst þetta mjög gott nafn í dag. Mér finnst nafnið mitt hljóma vel, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, en þegar ég var sex ára var það ekki gott. Á unglingsaldri var það frekar hallærislegt. Það er kannski frekar í þessa veru sem við ættum að velta fyrir okkur hvernig og hvar verður einhver stöð sem ákveður að þetta má eða má ekki.

Unglingur klippir á sig hanakamb og litar hann bláan. Hann gerir það kannski ekki fimmtugur, þó veit maður aldrei. Hann gæti alveg breytt um nafn með bláan hanakamb en hann hefði ekki þar með viljað hafa það nafn líka þegar hann er fimmtugur. Kannski eru þetta bara skemmtilegar pælingar, umhugsunarvert samt, og það verð ég að segja að stundum hefur mér þótt mannanafnanefnd taka ótrúlega sérkennilegar ákvarðanir um heimild í þessa nafnaskrá. Sumt af því hefur mér þótt hreint og klárt ónefni en ekki foreldrum þess barns sem sóttu um.

Virðulegur forseti. Mig langaði aðeins að koma upp til að leggja áherslu á að það er kannski að ýmsu að huga, m.a.s. með þessi góðu, elskulegu nöfn sem við öll þekkjum og erum ekki í neinum vandræðum með að beygja þegar þau eru sett saman. Mig langar hins vegar að taka undir með þeim sem hafa nefnt þennan ráðherra sem yrði væntanlega kirkjumálaráðherra eða menntamálaráðherra — eða hvaða ráðherra ætti að úrskurða um hvort barn mætti heita þessu nafni eða ekki? Ég er sammála því sem hér hefur komið fram. Hvað mundi þá ráða för? Smekkur ráðherrans? Viðhorf hans til tungumálsins eða að hann þekkti kannski í æsku mann sem hét þessu nafni og þótti það ljótt — eða hvað réði för? Ef skjóta á máli til úrskurðar tel ég alltaf skynsamlegra að fleiri en einn ráði þar för.

Nálgunin hjá hv. frummælanda Óttari Proppé var hins vegar skemmtileg og hvernig hann nálgaðist málið út frá sínu eigin nafni þar sem hann ber ættarnafn og eiginnafnið hans er líka sérstakt. Mér finnst þetta þörf umræða og hið besta mál að nefndin fái þetta frumvarp til skoðunar og umræðu og þá er ég allt í einu komin að spurningunni: Hvert fer frumvarpið? Fer það til allsherjar- og menntamálanefndar? Er það þá menntamálahlutinn sem tekur það eða allsherjarnefndarhlutinn, eða fer það kannski bara til velferðarnefndar? Hvert fer slíkt mál í raun? Mannanafnanefnd er skipuð af hæstv. menntamálaráðherra sem tenging við tunguna og söguna og annað í þeim dúr þannig að væntanlega fer þetta frumvarp til allsherjar- og menntamálanefndar, en þá er eins og það sé hugsanlega beggja aðila innan þeirrar nefndar, hvort heldur er innanríkisráðuneytið annars vegar og menntamálaráðuneytið hins vegar, vegna þess að þó að börn séu ekki skírð heldur nefnd fer það í gegnum ákveðnar bækur í ákveðnum hlutum. Það er Þjóðskrá. Væntanlega heyrir hún undir allsherjarnefnd eða kannski bara efnahags- og viðskiptanefnd.

Virðulegi forseti. Þetta er skemmtilegt frumvarp. Það mun örugglega kalla á fjörugar umræður og margar og skrautlegar umsagnir þannig að það verður spennandi að fylgjast með framvindu málsins í þeirri nefnd sem það fer til.



[20:56]
Flm. (Óttarr Proppé) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka kærlega fyrir góða og gagnlega og skemmtilega umræðu um frumvarpið. Hér hafa komið fram mjög margar góðar ábendingar og gagnlegar hugleiðingar sem ég treysti að fylgi málinu væntanlega til allsherjar- og menntamálanefndar. Það er kannski ákveðin heppni eða jafnvel merki um að málið eigi sér ákveðið karma, ef svo má segja, að hér í þinginu séum við með nefnd sem hefur það hlutverk að fjalla bæði um innanríkismál og menntamál og væntanlega verður kallað eftir umsögnum úr öllum áttum.

Umræðuna um ventilinn svokallaða, eða leiðir til að vísa málinu til ráðherra, tel ég mjög gagnlega og ég held að mikilvægt sé að ræða það áfram.

Hugleiðingarnar um íslenska nafnahefð og íslenska málhefð kveikir kannski ákveðna fortíðarþrá eða nostalgíu í þeim sem hér stendur en af einhverri ástæðu fór ég að hugsa um rifflaðar franskar kartöflur og illa bakaðar pítsur úr æsku. Þegar ég var ungur voru erlendar matarhefðir að ryðja sér til rúms á Íslandi og miklar áhyggjur voru af því að við mundum hratt og örugglega færast til þess að borða bara kjúklinga, franskar kartöflur og drekka kókómjólk og íslensk matarhefð mundi hverfa. En það var nú eiginlega alveg „omvent“ ef svo má segja, með leyfi forseta. Við það að fjölbreytnin jókst og erlendar matarhefðir bárust til landsins vaknaði líka mikill vilji og áhugi á íslenskum matarhefðum sem mörgum þótti kannski orðnar dálítið klénar áður. Við Íslendingar fórum aftur á fullt í að háma í okkur svið og hrútspunga og skola því niður með eldsúrri mysu og þótti og þykir það frábært. Ég hef enga trú á öðru en að Íslendingar sjái hversu dýrmæt íslensk nafnahefð er og við munum jafnvel frekar fylkja okkur um hana og gerast þjóðleg þegar við megum gera það og það er enginn sem skipar okkur að gera það.

Ég vil þakka hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrir skemmtilega umræðu og upprifjun á upplifun sinni af því að bera venjulegt nafn, ef svo má segja, eða algengara nafn en ég hef sjálfur reynslu af. Hún minntist á áhyggjur af því og kannski með þakklæti að hún hefði ekki haft greiða leið til að skipta um nafn í æsku eða á unglingsárum og ég get svo sem tekið undir það. Ég sjálfur berandi óvenjulegra nafn hafði oft drauma um að breyta nafninu mínu í Jón eða eitthvað algengara [Hlátur í þingsal.] en þá var ég líka svo heppinn að eiga foreldra sem höfðu að einhverju leyti vit fyrir mér og möguleika til þess eftir að ég varð stálpaður að breyta um nafn og þá breyta jafnvel aftur til baka. Ég hafði á tímabili mikinn áhuga á íslenska nafninu Stáli, sem er ótrúlegt en satt löglegt nafn á Íslandi, og hefði þá getað kallað mig Stála Proppé og verið kallaður Stáli Propp og mér fannst það mjög töff. Ég á það kannski inni einhvern tíma í ellinni að breyta nafninu. Ég hef engar áhyggjur af því að Íslendingar séu almennt svo vitlausir að þeir taki svona afdrifaríkar ákvarðanir nema að vel og vandlega íhuguðu máli.

Ég vil þakka kærlega fyrir mjög góða umræðu og hlakka til að fylgjast með málinu áfram.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til allsh.- og menntmn.