143. löggjafarþing — 32. fundur
 4. desember 2013.
Orkuveita Reykjavíkur, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 178. mál (heildarlög). — Þskj. 218, nál. 285.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[16:39]

[16:33]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þingflokkur Vinstri grænna telur að hvorki raforkulögin né Evróputilskipunin sem þau byggja á taki mið af íslenskum veruleika. Þar sem ekki er í raun virkur samkeppnismarkaður af þeim sökum hefðum við ekki þurft að uppfylla þessa EES-raforkutilskipun á sínum tíma og hefðum átt að sækja um undanþágur miðað við íslenskar aðstæður.

Þar sem önnur orkufyrirtæki í landinu hafa nú þegar uppfyllt viðkomandi Evróputilskipun um aðskilnað framleiðslu og dreifingu á orku hefur verið þessi mikla krafa á uppskiptingu Orkuveitu Reykjavíkur, en mikil andstaða hefur verið af eigendanefnd Orkuveitunnar. Við teljum að innleiðingin hafi verið mikið óheillaspor í upphafi og viljum skoða þetta mál með það í huga hvort hægt sé að endurskoða hana og skoðum það að flytja breytingartillögu þess efnis þegar málið fer inn í nefnd við 3. umr.

Við sitjum hjá, þingflokkur Vinstri grænna, í þessu máli.



[16:35]
Óttarr Proppé (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Fyrir hönd þingflokks Bjartrar framtíðar vil ég gera reikning fyrir því að fulltrúar eigenda Orkuveitu Reykjavíkur gengu á fund ráðherra þar sem þeir fóru fram á frekari frest til þessarar uppskiptingar. Eins og ráðherra fór yfir í 1. umr. var ekki vilji til þess að verða við því, enda hafa verið gefnar undanþágur áður. Stjórnendur og eigendur Orkuveitunnar hafa verið meðvitaðir um þetta og unnið vel undirbúning að uppskiptingunni.

Að því sögðu er rétt að geta þess að margt er gott í þessu frumvarpi. Það er vel unnið og í góðu samráði við neytendur og stjórnendur. Hér er hnykkt á almannahlutverki og almannaeign fyrirtækisins og starfssviðið þrengt og er það vel.



[16:36]
Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég tel mjög mikilvægt að enn verði frestað um sinn að lögþvinga Orkuveitu Reykjavíkur inn í aðskilnaðarferli með rekstur sinn og það eigi að nota tímann til endurmats á öllu regluverkinu með tilvísun í undanþáguheimildir ESB. Eigendur Orkuveitunnar voru gagnrýnir á þetta fyrirkomulag þótt þeir hafi, eins og við vorum upplýst um hér, lagst á hnén núna og undirgengist þvinganir ríkisvaldsins. Við vorum upplýst um það í umræðunni í gær að orkuveitur almennt í landinu eða veitustofnanir væru þess fýsandi að Orkuveitu Reykjavíkur yrði gert eins erfitt fyrir og þeim hefði verið gert í rekstri sínum. Með öðrum orðum á jafnræðið að felast í því að gera öllum jafn erfitt fyrir. Hvers konar rugl er þetta eiginlega? Á ekki að hafa hagsmuni notenda og greiðenda að leiðarljósi frekar en þessi sjónarmið?

Eins og hér hefur komið fram munum við í þingflokki VG (Forseti hringir.) sitja hjá við atkvæðagreiðsluna, en það geri ég einvörðungu með þá von (Forseti hringir.) í hjarta að atvinnuveganefnd sjái að sér og (Forseti hringir.) fallist á að fresta þessari framkvæmd um sinn sem allir eru í raun á móti enda stríðir hún gegn hagsmunum notenda.



[16:37]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Án mikils undirbúnings var lögum um Orkuveitu Reykjavíkur breytt á sínum tíma með þeim hætti að Orkuveitunni var heimilt að fara í alls óskyldan rekstur. Síðan eru margir milljarðar farnir sem munu aldrei koma aftur. Ég hef áhyggjur af því að við séum ekki að laga þetta hér. Í frumvarpinu eins og það liggur fyrir eiga dótturfélög Orkuveitu Reykjavíkur að stunda gagnaveitu sem er til dæmis samkeppnisrekstur og sömuleiðis eru þarna mjög opin ákvæði. Til dæmis getur starfsemin nýtt rannsóknir í þekkingu og búnað fyrirtækjanna. Af því að hugmyndaauðgin er stundum mikil geta menn væntanlega nýtt risastórt eldhús Orkuveitunnar í samkeppnisrekstri um mat á höfuðborgarsvæðinu og jafnvel víðar á landinu. Ég segi þetta af gildri ástæðu, ég hef séð mjög mikla hugmyndaauðgi í því að nýta fjármuni Orkuveitunnar í allra handa óskyldan rekstur. (Forseti hringir.)

Hv. atvinnuveganefnd ætlar að skoða þetta mál á milli (Forseti hringir.) umræðna. Ég treysti því að bragarbót verði gerð á þessu og þetta lagað. Þess vegna styð ég að þetta fari áfram. (Gripið fram í.)



 1. gr. samþ. með 41 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ÁPÁ,  ÁsF,  BÁ,  BjÓ,  BP,  EKG,  ElH,  GuðbH,  GÞÞ,  GStein,  HBK,  HarB,  HE,  HHj,  HöskÞ,  JMS,  JónG,  KG,  KaJúl,  KÞJ,  KLM,  LínS,  OH,  ÓP,  PVB,  PJP,  PHB,  RM,  SII,  SigrM,  SIJ,  SPJ,  SilG,  VBj,  ValG,  VilÁ,  VilB,  WÞÞ,  ÞorS,  ÞórE,  ÖS.
12 þm. (BirgJ,  BjG,  ELA,  FSigurj,  HHG,  JÞÓ,  KJak,  LRM,  SJS,  SÞÁ,  SSv,  ÖJ) greiddu ekki atkv.
10 þm. (BjarnB,  BN,  EyH,  GBS,  IllG,  REÁ,  RR,  SDG,  UBK,  VigH) fjarstaddir.

 2.–7. gr. og ákv. til brb. I–V samþ. með 41 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ÁPÁ,  ÁsF,  BÁ,  BjÓ,  BP,  EKG,  ElH,  FSigurj,  GuðbH,  GÞÞ,  GStein,  HBK,  HarB,  HE,  HHj,  HöskÞ,  JMS,  JónG,  KG,  KaJúl,  KÞJ,  KLM,  LínS,  OH,  ÓP,  PVB,  PJP,  PHB,  RM,  SigrM,  SIJ,  SPJ,  SilG,  VBj,  ValG,  VilÁ,  VilB,  WÞÞ,  ÞorS,  ÞórE,  ÖS.
11 þm. (BirgJ,  BjG,  ELA,  HHG,  JÞÓ,  KJak,  LRM,  SJS,  SÞÁ,  SSv,  ÖJ) greiddu ekki atkv.
11 þm. (BjarnB,  BN,  EyH,  GBS,  IllG,  REÁ,  RR,  SDG,  SII,  UBK,  VigH) fjarstaddir.

Fyrirsögn samþ. án atkvgr.

Frumvarpið gengur til 3. umr. 

Frumvarpið gengur (eftir 2. umr.) til atvinnuvn.