143. löggjafarþing — 34. fundur
 11. desember 2013.
lengd þingfundar.

[15:46]
Helgi Hjörvar (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við áttum hér umræður fram til miðnættis í gær. Það var ekki nema sjálfsagt að greiða fyrir þingstörfum og þeim mikla vanda sem skapast hefur vegna þess hversu seint stjórnarfrumvörp eru komin fram og standa vaktina til miðnættis. Reyndin varð þó einfaldlega sú að stjórnarmeirihlutinn, sem við vorum að reyna að hjálpa úr vanda sínum með því að halda áfram umræðum fram að miðnætti, lét ekki sjá sig við umræðuna og tók engan þátt í henni.

Fyrst stjórnarmeirihlutinn treystir sér ekki sjálfur til að mæta til þings á kvöldin og taka þátt í umræðum getum við auðvitað ekki lengur stutt það að hér séu kvöldfundir — nema þá að það komi afdráttarlaust fram af hálfu þingflokksformanna stjórnarflokkanna að þingmenn stjórnarflokkanna verði á þessum kvöldfundum og taki þátt í umræðunum.

Að öllu óbreyttu verðum við að hafna þessari beiðni virðulegs forseta fyrir okkar leyti. (Gripið fram í: Þetta var …)



[15:47]
Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að ég varð fyrir ákveðnum vonbrigðum með þá umræðu sem var hér í gær og ekki af því að hún væri eitthvað neikvæð eins og mér fannst hv. þingflokksformaður Framsóknarflokksins gefa í skyn í máli sínu áðan. Hér var einmitt sett fram málefnaleg gagnrýni. Ég velti til að mynda upp spurningum um það sem hv. þm. Árni Páll Árnason nefndi áðan, það hvernig á því stendur að í fjáraukalögum séu veittar heimildir til útgjalda sem þó eiga að fara fram á næsta ári, á sama tíma og fjárlög þessa árs eru í vinnslu, og að meiri hluti hv. fjárlaganefndar átelji þau vinnubrögð stórkostlega en ætli sér ekki að aðhafast meir.

Þó að vissulega hafi verið hér fulltrúar þingflokka Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks og hv. formaður fjárlaganefndar í húsi saknaði ég þess að fá ekki svör við því hvers vegna ekki væri til að mynda tekið á þessu máli sem hlýtur að vekja upp ýmsar spurningar um það hvernig við fylgjum eftir fjárreiðulögum. Ég tek því undir með hv. þm. Helga Hjörvar, það voru ákveðin vonbrigði að vera hér í umræðu í gærkvöldi (Forseti hringir.) og fá litlar skýringar af hálfu stjórnarflokkanna.



[15:48]
Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Okkur er nokkur vandi á höndum því að hér koma mál seint inn og þegar fyrst gefst tækifæri til að ræða þau er orðið áliðið þinghalds, komið fram í miðjan desember og þingdögum farið að fækka. Við ræðum þessi mál á kvöldfundi og erum rétt byrjuð að ræða þau efnislega þegar stjórnarliðar yfirgefa að stærstum hluta þingsalinn. Hér eru tveir, þrír fulltrúar stjórnarflokkanna í salnum (Gripið fram í.) og enginn svarar athugasemdum sem settar eru fram. Hér var enginn úr meiri hluta fjárlaganefndar sem svaraði vandaðri gagnrýni sem fram kom í gær og skýrði það hvernig í ósköpunum menn geta staðið að breytingartillögum sem þeir segja í hinu orðinu að brjóti gegn fjárreiðulögum.

Það er ekki hægt að eiga hér umræðu með þessum hætti. Hún var að sjálfsögðu góð og upplýsandi, ég fór í andsvar við hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur og við reyndum að komast til botns í málinu, (Forseti hringir.) en það hefði náttúrlega verið gott ef fulltrúar meiri hluta fjárlaganefndar hefðu séð sóma sinn í því að fylgja málinu úr hlaði og svara efnislegri gagnrýni. Til þess eru þingstörf.



[15:50]
Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Varðandi tillögu forseta um lengdan þingfund í kvöld vorum við hér lengi fram eftir í gærkvöldi í töluvert miklum pólitískum óróleika úti í samfélaginu. Maður þurfti að hafa sig allan við að grípa nýjustu fréttir af vendingum að því er varðaði nýjar tillögur og breytingar á breytingartillögur ofan um fjárlagafrumvarpið. Við lögðum okkur fram um að halda uppi málefnalegri umræðu án þess að fá botn í mál, spurðum alveg gríðarlega stórra og mikilvægra spurninga.

Það er tilgerð að halda uppi fundi í þingsal meðan stjórnarliðar eru ekki einu sinni tilbúnir að eiga samtal við stjórnarandstöðuna. Meðan engar væntingar eru uppi um að stjórnarliðar hyggist breyta því verklagi og þeirri nálgun sé ég enga ástæðu til að við höldum hér fund fram á kvöld — nema við fáum upplýst um að meiri hluti fjárlaganefndar ætli að taka þátt (Forseti hringir.) í samtalinu. Ég hef ekki séð nein merki um það.



[15:51]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég er nokkuð hrærður við að hlusta á þessi orð. Ég átti ekki von á því að þessir hv. þingmenn söknuðu mín svona eins og komið hefur fram, er komið í þingskjöl og verður væntanlega varðveitt í þingsögunni. Ég man eftir svipuðum tíma fyrir nákvæmlega ári og ég saknaði þá þessara hv. þingmanna.

Ég tók þátt í umræðunni í gær, augljóslega samt ekki nógu mikið þannig að ég skal bara upplýsa það að hv. þingmenn þurfa ekki að sakna mín í kvöld, ég verð hér og kannski einhverjir fleiri. Ég er mjög ánægður með að hv. þingmenn skuli taka upp það sem við lögðum upp með í nefndaráliti meiri hlutans. Það segir okkur að hv. þingmenn hafa lesið það og tekið mark á því og við erum bara sammála því sem þar kemur fram. Þessi samstaða er líka nokkuð sem við hljótum að fagna, virðulegi forseti. [Háreysti í þingsal.]



[15:52]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég mun bara segja já við þessari tillögu enda mælendaskráin löng. Ég vek athygli á því að varaformaður fjárlaganefndar, Guðlaugur Þór Þórðarson, er á þeirri mælendaskrá þannig að menn þurfa ekki að fara á límingunum yfir því að hann ætli ekki að taka þátt í umræðunni. (Gripið fram í.) Væntanlega munu allir komast að sem vilja fá að tjá sig.

Síðan þykir mér forsjárhyggja vinstri manna gengin ansi langt þegar þingflokksformaður Samfylkingarinnar krefst þess að menn setji sig á mælendaskrá og haldi ræðu. (Gripið fram í.) Það er svolítið sérkennilegt. Ég held að ég ráði því sjálf hvenær ég held ræðu og mun halda áfram að gera það. Ég tek ekki við neinum fyrirmælum frá þingflokksformanni Samfylkingar í þá veru. Ég er fullfær um að taka ákvörðun um það sjálf. Það er rangt sem fram kom í máli þingflokksformannsins að enginn stjórnarliði hafi verið í húsi fram eftir kvöldi, það er rangt, enda var það leiðrétt af formanni flokksins, Árna Páli Árnasyni.

Ég vona að umræðan verði gagnleg og góð og að við náum að komast í þau fjölmörgu mál (Forseti hringir.) sem hérna eru. Krakkar, finnst ykkur þetta ekki svolítið hjákátlegt? Það er (Forseti hringir.) ár síðan hlutverkin voru akkúrat öfug. [Háreysti í þingsal.]



[15:54]
Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Það er gaman að heyra hvað þingmenn stjórnarmeirihlutans eru vandir að virðingu sinni, [Hlátur í þingsal.] en við erum ekki öll búin að gleyma gærdeginum, ekki alveg. Ég fylgdist ágætlega með umræðunni hér í gærkvöldi í eins konar rafrænni fjarbúð og staðfesti það sem hér hefur komið fram, stjórnarandstöðuþingmenn höfðu orðið en engin andsvör komu frá stjórnarmeirihlutanum. Svo heyrum við þetta, mér liggur við að segja hjákátlega aðdáunarkvak í upphafi þingfundar þar sem menn dásama í símskeytastíl ágæti ríkisstjórnarinnar.

Áðan kom fram tillaga um að breyta dagskrá þessa þingfundar og taka mál sem brýnt er taka fyrir, frestun nauðungaruppboða. Það er ekki nóg að eiga orðastað við sýslumenn um frestun, þeir ráða í rauninni engu þar um. Það eru lánardrottnarnir sem verður að lögþvinga til að falla frá nauðungaruppboðum og um það snýst þetta mál. Ég skil ekki hvers vegna (Forseti hringir.) stjórn þingsins er ekki reiðubúin að fallast á þá sanngjörnu tillögu sem hér hefur komið fram. (Forseti hringir.) Þá væri annað hljóð í strokknum af hálfu stjórnarandstöðunnar leyfi ég mér að fullyrða.



[15:56]
Vigdís Hauksdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég er komin hingað til að gera grein fyrir atkvæði mínu því að ég samþykki það að fundur verði hér fram eftir kvöldi.

Ég vil aðeins slá á þær raddir sem hafa komið fram í dag um að formaður fjárlaganefndar hafi ekki verið staddur í þinghúsinu í gær. Ég var hér allt til loka fundarins. Það vill þannig til, virðulegi forseti, að í hádegisfréttum Stöðvar 2 og Bylgjunnar var spilað brot úr ræðu hv. þm. Helga Hjörvars þar sem hann kallaði eftir því að formaður fjárlaganefndar væri í þinghúsinu, en þegar myndbrotið er sýnt labba ég fram hjá púltinu þegar hv. þingmaður kallar eftir mér. Það er, virðulegi forseti, margt sem augað nemur ekki.

Ég kem að sjálfsögðu til með að fylgja þessu máli hér í allan dag og verð í þinghúsinu á meðan málið er á dagskrá. Stjórnarandstaðan þarf ekki að vera hrædd um annað, en það er ekki þar með sagt að ég verði á stöðugu spjalli eða í fyrirspurnatíma við (Forseti hringir.) stjórnarandstöðuna þó að ég sitji hér, hlusti og taki niður punkta frá stjórnarandstöðunni.



[15:57]
Guðbjartur Hannesson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við reynum að klára fjáraukalögin og koma þessu áfram í þinginu. Ég tek bara undir þær athugasemdir sem hér hafa komið, ég held að það skipti miklu máli að það eru einungis fjórar tillögur frá stjórnarandstöðunni sem hafa verið lagðar fram. Ein af þeim er um að borga þeim sem eru á atvinnuleysisbótum desemberuppbót. Mér finnst ekkert óeðlilegt að við ætlumst til þess að þeir sem eru í meiri hluta fjárlaganefndar geri hér grein fyrir afstöðu sinni og ræði við okkur um þetta mál. Það er tekið upp að nýju sem var áður hjá fyrri ríkisstjórnum Framsóknar og Sjálfstæðisflokks, að borga ekki þessar bætur. Hvenær eigum við sem ekki erum í nefndinni að fá tækifæri til að ræða slík mál ef ekki í þingsal?

Jafnframt tel ég að hreinlega sé verið að brjóta reglur þar sem fyrrverandi ríkisstjórn samþykkti formlega sérstaka greiðslu til Landspítalans upp á 125 milljónir vegna óvæntra uppákoma þar, mikils álags vegna veirusýkinga. Því er ekki sinnt í fjárauka. Mun þetta koma fyrir 3. umr., mun það ekki koma? Eigum við að eyða tíma hér í að ræða þetta (Forseti hringir.) dag eftir dag eða verður þetta leyst? (Forseti hringir.) Við erum bara að biðja um þessa hluti þannig að ég þakka það að varaformaður fjárlaganefndar ætli að vera hér í kvöld. Ég treysti á að formaðurinn (Forseti hringir.) verði það líka og eigi orðastað við okkur um þessar tillögur.



[15:59]
Þorsteinn Sæmundsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Í gærkvöldi fóru hér fram ágætar umræður að mörgu leyti og stóðu til að verða tólf. Þegar umræðu lauk voru, ef ég man rétt, tíu eða tólf þingmenn enn á mælendaskrá.

Það er hins vegar dapurlegt og bágt að menn skuli fara hér með þau ósannindi að fulltrúar fjárlaganefndar hafi ekki verið í húsi því að það voru þeir vissulega. Formaður nefndarinnar var allt til loka umræðunnar og fleiri nefndarmenn víðar í húsinu í rafrænu sambandi, eins og hér hefur komið fram, og fylgdust með umræðunum. Ég mótmæli því að fulltrúar stjórnarmeirihlutans úr fjárlaganefnd hafi ekki verið hér í gærkvöldi.



[16:00]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég sat þennan þingfund í gærkvöldi til miðnættis og hlustaði á ræður og andsvör stjórnarandstöðunnar í millum og fannst ég upplifa það sama og við gerðum á síðasta kjörtímabili, í fjárlögum síðasta árs þegar við stóðum hér ein og sér og ræddum fjárlögin og ýmis önnur mál. Stjórnarliðar voru fjarverandi og við nýttum tímann með þessum hætti. Svona var þetta, svona er þetta og það mun ekki breytast nema við ákveðum það sjálf.

Ég er ekki að kalla eftir því að þessu verði breytt núna af því að aðrir stjórnarflokkar eru við völd. Þetta segir bara meira um umræðuhefðina á Alþingi sem við tölum um oft og mörgum sinnum að við séum tilbúin að breyta en svo erum við ekki tilbúin að breyta neinu. Þá skulum við bara sætta okkur við að hlutirnir eru svona og þá væntanlega verða þeir svona, virðulegur forseti.

Ég tek undir að það er margt á dagskránni og mun samþykkja lengingu þingfundar.



[16:01]
Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég hef sem ráðherra og nefndarformaður borið ábyrgð á málum og rækt það hlutverk með því að sitja í þingsal og bregðast við í andsvörum við þingmenn ef hægt er að svara á tveimur mínútum og annars flutt lokaræðu í kjölfar umræðunnar og brugðist við athugasemdum. Við áttum þess ekki kost hér í gærkvöldi að eiga samtal við neina á þann veg. Það komu efnislegar spurningar sem hefði verið hægt að svara en þeim var ekki svarað.

Ég verð að segja varðandi athugasemd hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur áðan að hún var vissulega líkamlega viðvarandi hér með hléum í gær (RR: … dónaskap.) og það er auðvitað alveg heillandi fyrir okkur öll að fá að njóta flögrandi nærveru hennar hér um sali (RR: Dóni.) þegar hún kemur inn í salinn af og til og sest hér með tölvuna. Það er allt í lagi. Við fengum samt aldrei efnisleg svör við neinum spurningum sem við beindum til ábyrgðarmanna málsins. (Forseti hringir.) Það er okkar helgi réttur sem þingmanna, það er réttur sem (Forseti hringir.) forseti þingsins varði sérstaklega í setningarræðu sinni í haust og það er réttur (Forseti hringir.) sem ég áskil öllum þingmönnum að fá að njóta.



[16:03]
Róbert Marshall (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Mér finnst í sjálfu sér í fínu lagi að hafa kvöldfund en ég var viðstaddur umræðuna í gærkvöldi og það var sláandi hversu lítil þátttaka var af hálfu stjórnarþingmanna. Raunverulega mjög merkilegar upplýsingar komu fram í ræðum þingmanna, eins og hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur, sem hefði verið full ástæða til að bregðast við.

Um leið og ég styð það að hafa kvöldfund í kvöld skora ég á stjórnarþingmenn að vera við þessa umræðu. Ég man ekki betur en að á síðasta kjörtímabili hafi menn setið hér lengi oft á kvöldin og fram á nótt, rætt saman og verið fulltrúar frá stjórnarmeirihluta og stjórnarandstöðu. Að minnsta kosti gerði ég það alloft í þeim málum sem heyrðu til minna nefnda og skoraðist ekki undan því. Ég skora á hv. stjórnarþingmenn að vera hérna við umræðuna, a.m.k. fólk sem situr í fjárlaganefnd.



[16:04]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég kom í ræðustól í gær og ræddi fjáraukalagafrumvarpið. Ég tók sérstaklega til umræðu breytingartillögu frá minni hluta og þær áhyggjur sem ég hef af því að ekki eigi að bæta Landspítalanum þann kostnað sem skapaðist af neyðarástandi á spítalanum í upphafi árs.

Ég lýsti líka yfir mjög miklum áhyggjum af því að ekki ætti að tryggja desemberuppbót til þeirra sem hafa framfærslu af atvinnuleysistryggingum sem er, til þess að upplýsa þingmenn, rúmar 170 þús. kr. á mánuði. Þetta er hópur sem kannski þyrfti umfram aðra desemberuppbót.

Hvar sem þingmenn eru á meðan á þingfundi stendur varðar mig ekki mest um, en að hér sé enginn til andsvara við okkur þingmenn sem viljum fjalla málefnalega um fjáraukalög er óþolandi. Það er ekki ástæða til kvöldfunda þegar það ástand er í húsinu.



[16:05]
Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem hér er sagt, það hefur verið kallað eftir því að við bætum umræðuhefðina í stjórnmálunum. Við leggjum okkur mjög mörg fram um það eins og hefur komið fram í mörgum ræðum á undan minni. Hér voru í gær alvöru efnislegar umræður um fjáraukalög. Ég held að vandinn liggi í því að stjórnarliðar virðast vera búnir að ákveða að hlusta ekkert á það sem sagt er, þeir eru bara að keyra sitt prógramm algjörlega óháð öllum öðrum. Það er kannski það sem við stjórnarandstöðuþingmenn munum þurfa að búa við, en það breytir því ekki að þið munuð ekki slá okkur út af því spori að ætla að halda áfram málefnalegri umfjöllun um þau mál sem fyrir liggja. Ætli við verðum þá ekki bara að segja að okkur sé nokk sama um það hvort þið takið þátt í því með okkur eða ekki?

Það er samt ósanngjarnt gagnvart þeim sem kusu okkur hingað inn ef við förum í tvær blokkir sem ræðast ekki við. Það er fyrir neðan allar hellur, virðulegi forseti. Ég fagna því að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sagðist ætla að vera hér í kvöld og þess vegna mun ég (Forseti hringir.) styðja það að hér verði kvöldfundur, en spyr að sama skapi hversu langur hann gæti mögulega orðið þar sem maður gæti þurft að gera ráðstafanir.



[16:07]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Jafnréttisbaráttan stendur enn yfir. Konur í valdastöðum hafa hingað til oft rekið sig á það að karlmenn í valdastöðum sýna þeim lítilsvirðingu. Við urðum vitni að því áðan þegar formaður Samfylkingarinnar sýndi sitt rétta eðli með því að lýsa því yfir að formaður fjárlaganefndar, sem er kona, væri líkamlega viðstödd hér í salnum, og það væri mjög skemmtilegt, en ýjaði að því að hún væri andlega fjarverandi. Þetta finnst mér ekki par fínt og vek athygli á því að Samfylkingin er hér að sýna — ætli þetta sé hið rétta andlit Samfylkingarinnar?



[16:07]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér hafa staðið miklar vitnaleiðslur um fundarhaldið í gær og gærkvöldi. Ég tók þátt í þeirri umræðu og sat á forsetastóli lengstan partinn eftir kvöldmat og get vitnað um það sem hér hefur verið sagt, það var nokkur skortur á því að helstu aðstandendur málsins væru til staðar til þess að minnsta kosti að hlusta á sjónarmið og spurningar sem fram komu.

Það er rétt hjá hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur að menn ráða því sjálfir hvenær þeir fara í ræðustól. Engu að síður eru til ýmsar gamlar og góðar venjur sem almennt eru til bóta við slíkar umræður. Þær eru meðal annars fólgnar í því að helstu aðstandendur máls, formaður og varaformaður viðkomandi nefndar og ráðherrar viðkomandi málaflokks eða -flokka, séu við og greiði götu umræðunnar hafi þeir áhuga á að koma málunum áfram. Ein var sú tíð að það var bara litið á það sem hreina embættisskyldu ráðherra að mæta ef óskað var eftir honum í þingsal til að eiga skoðanaskipti um mál sem undir hann heyrði.

Sá sem hér stendur var einu sinni á hinni öldinni vakinn á þriðja tímanum að næturlagi vegna þess að ónefndur þingmaður uppi í hinni efri deild sálugu óskaði eftir viðveru minni. Ég fór að sjálfsögðu í fötin, dreif mig hingað niður eftir (Forseti hringir.) og mætti þingmanninum í dyrunum á leiðinni út, en það er önnur saga.

Þannig var þetta og ég vorkenni engum sem vill koma sínum málum áfram að mæta hingað og sinna þingskyldum sínum eins og öðrum.



ATKVÆÐAGREIÐSLA

[16:10]

Afbrigði um 4. mgr. 10. gr. þingskapa, um lengd þingfundar,  samþ. með 33 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ÁsF,  BÁ,  BjÓ,  EKG,  ElH,  ELA,  FSigurj,  GÞÞ,  HBK,  HarB,  HE,  HöskÞ,  JónG,  JÞÓ,  KaJúl,  LínS,  ÓP,  PVB,  PJP,  PHB,  REÁ,  RR,  RM,  SigrM,  SPJ,  SilG,  UBK,  ValG,  VilÁ,  VilB,  ÞorS,  ÞórE,  ÖS.
14 þm. (ÁPÁ,  ÁÞS,  BjG,  GuðbH,  HHG,  KJak,  KLM,  LRM,  OH,  SII,  SJS,  SSv,  VBj,  ÖJ) greiddu ekki atkv.
16 þm. (BirgJ,  BjarnB,  BP,  BN,  EyH,  GStein,  GBS,  HHj,  IllG,  JMS,  KG,  KÞJ,  SDG,  SIJ,  VigH,  WÞÞ) fjarstaddir.
1 þm. gerði svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[16:10]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla að sitja hjá við þessa atkvæðagreiðslu um kvöldfund. Ég ítreka það sem ég sagði áðan, mér finnst lítið unnið með því að vera hér í umræðum þegar enginn er til svara. Því hefur verið lofað að á því verði breyting í kvöld.

Ég velti hins vegar fyrir mér hvort það sé skynsamlegra að við tökum hraðútgáfur af ræðum okkar eins og við höfum gert í þessum umræðum um atkvæðagreiðsluna þar sem við höfum farið yfir helstu efnisatriði. Það er sorglegt að segja frá því að maður hefur fengið meiri viðbrögð núna en í þeim ágætu umræðum sem voru í gær.