143. löggjafarþing — 35. fundur
 12. desember 2013.
fjáraukalög 2013, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 199. mál. — Þskj. 248, nál. 317 og 326, brtt. 318, 319, 320, 321 og 327.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[11:53]

[11:39]
Vigdís Hauksdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Nú greiðum við atkvæði um fjáraukalög fyrir árið 2013 eftir umræðu í fjárlaganefnd. Ég hef sjálf óskað eftir því sem formaður nefndarinnar að málinu verði eftir atkvæðagreiðsluna vísað inn í fjárlaganefnd að nýju til frekari umfjöllunar. Ég bendi á að hér er verið að gera upp eins og frekast er kostur rekstrarárið 2013 en eins og kom fram í framsöguræðu minni er rekstrarárið ekki að fullu gert upp fyrr en ríkisreikningur er birtur um mitt næsta ár.

Ég óska því eftir að þingmenn greiði atkvæði eftir sinni bestu sannfæringu og samvisku og málið verður aftur tekið fyrir á fundi fjárlaganefndar kl. 8 í fyrramálið.



[11:39]
Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Nú er að hefjast atkvæðagreiðsla um fjáraukalög fyrir árið 2013. Það er ánægjulegt að sjá að staðan reynist betri en upphaflega var gert ráð fyrir þegar frumvarpið var lagt fram. Munurinn er þó enn mikill, einkum á tekjuhliðinni, að langstærstum hluta, og þar munar ekki síst um þær ákvarðanir sem ný stjórnvöld tóku á sumarþingi og núna með haustinu.

Samfylkingin mun sitja hjá við þær tillögur sem eru hér á ábyrgð meiri hlutans en auðvitað styðja sínar eigin tillögur.



[11:40]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við í Bjartri framtíð teljum að það séu of margir liðir sem eiga ekki heima í fjáraukalögum og munum sitja hjá að mestu, ekki vegna þess að við höfum eitthvað sérstaklega á móti þessum fjárveitingum í sjálfu sér sem fara margar til góðra verka, en þær eiga ekki heima í fjáraukalögum. Ég vænti þess og vonast til þess að fjáraukalög næsta árs verði mun minni í sniðum.



[11:41]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Eftir ekki svo langa umræðu, hvorki í fjárlaganefnd né í þinginu, erum við að taka hér til afgreiðslu fjáraukalagafrumvarp fyrir árið 2013.

Hér var farið ágætlega yfir hvað hefur breyst til batnaðar. Það er svo kannski sýnu verra sem hefur fyrst og fremst að gera með þær ábyrgðir sem núverandi ríkisstjórn hefur tekið en við munum óska eftir sératkvæðagreiðslum á nokkrum stöðum þar sem við teljum að gera hefði mátt betur.

Að sjálfsögðu hvetjum við svo þingheim til að samþykkja þær breytingar sem minni hluti fjárlaganefndar leggur til á eftir.



[11:42]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum atkvæði um fjáraukalagafrumvarpið. Eins og hér hefur komið fram erum við að gera upp árið 2013. Við verðum að vera meðvituð um að staðan er þar miklu verri en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Hér var fullyrt að fjárlögin fyrir árið 2013 væru hallalaus. Því fer því miður víðs fjarri. Hallinn verður 30 þús. milljónir og ef menn eru að vísa til þess að það séu aðgerðir nýrrar ríkisstjórnar geta menn ekki komist að annarri niðurstöðu en að þær nái að hámarki 15% af þeirri upphæð.

Þetta er sú staða sem við búum við. Það er því sérstakt að þegar fyrrverandi ríkisstjórn skilur við með þessum hætti komi hún og segi að það vanti peninga hér og þar. Ef svo er, sem svo sannarlega er, er það vegna verka fyrri ríkisstjórnar.



[11:43]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að sjá að nefndin hefur lokið störfum. Í öllum meginatriðum er málið að klárast eins og upp var lagt með við framlagningu þess, enda mjög langt liðið á árið og ekki við því búast að mörg tilefni verði til að setja nýja hluti í fjáraukalög 2013 þegar örfáir dagar lifa af árinu.

Þó standa nokkur atriði upp úr við fjáraukalagagerðina að þessu sinni, í fyrsta lagi að það er óvenjulítið frávik á gjaldahliðinni miðað við það sem sagt var í fjárlagafrumvarpi ársins. Það segir okkur að ný ríkisstjórn hefur að minnsta kosti ekki fundið mörg ný tilefni til útgjaldaauka eftir að hún tók við á yfirstandandi ári. Í sögulegu samhengi eru frávikin í fjáraukalagafrumvarpinu að þessu sinni mjög lág en frávikin eru hins vegar mjög há á tekjuhliðinni. (Forseti hringir.) Það sem stendur upp úr, meginniðurstaða fjáraukalagafrumvarpsins, er að tekjuáætlun ársins er langt frá því að standast og það er ekki vegna ákvarðana nýju ríkisstjórnarinnar.



[11:45]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er dálítið sérkennilegt að hlusta á hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson tönnlast á 30 milljarða halla á ríkissjóði. Ég er hérna með í höndunum þingskjal, breytingartillögur meiri hlutans, meðal flutningsmanna er hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, og þar er gert ráð fyrir að hallinn á ríkissjóði verði 19,8 milljarðar. Samt hefur hv. þingmaður um það bil 20 sinnum undanfarna daga tuðað um þetta.

Hæstv. fjármálaráðherra kemur hingað og segir að tekjuáætlun sé víðs fjarri því að standast, en þá er ég aftur með skjal í höndum um greiðsluafkomu ríkissjóðs janúar–október 2013, tíu mánaða uppgjör ríkissjóðs á þessu ári. Hvað stendur þar? Innheimtar tekjur ríkissjóðs námu 447,5 milljörðum kr. á fyrstu tíu mánuðum ársins sem er 8,7% aukning frá sama tímabili í fyrra. Og áfram: Þetta er 0,9% undir áætlun.

Það eru mjög misvísandi upplýsingar í opinberum gögnum sem við erum með fyrir framan okkur annars vegar og hins vegar þeim (Forseti hringir.) rembingi stjórnarliða að draga hér alltaf upp ýtrustu dekkstu mynd í pólitísku skyni.



Brtt. 319 (liður 5.1.1.1) samþ. með 34 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ÁsF,  BÁ,  BjarnB,  EKG,  ElH,  ELA,  EyH,  FSigurj,  GÞÞ,  GBS,  HBK,  HarB,  HE,  HöskÞ,  IllG,  JónG,  LínS,  PJP,  PHB,  REÁ,  RR,  SDG,  SigrM,  SIJ,  SPJ,  SilG,  UBK,  ValG,  VigH,  VilÁ,  VilB,  WÞÞ,  ÞorS,  ÞórE.
24 þm. (ÁPÁ,  ÁÞS,  BirgJ,  BjG,  BjÓ,  BP,  GuðbH,  GStein,  HHG,  HHj,  JÞÓ,  KJak,  KaJúl,  KLM,  LRM,  OH,  ÓP,  PVB,  RM,  SII,  SJS,  SSv,  VBj,  ÖJ) greiddu ekki atkv.
5 þm. (BN,  JMS,  KG,  KÞJ,  ÖS) fjarstaddir.
4 þm. gerðu svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[11:49]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er tvennt sem ég vil benda á í sambandi við þessar tölur um virðisaukaskattinn. Þar er verið að sýna að neysluskattar hafa skilað sér betur inn síðari hluta ársins en gert var ráð fyrir. Fram eftir ári héldu menn vitanlega að sér höndum þar sem búið var að gefa út stór loforð og eftir kosningar biðu menn eftir að það loforð yrði uppfyllt. Sem betur fer er þetta aðeins farið að glæðast og það skilar sér í þessum tölum.

Einnig vantar inn í þessar tölur um virðisaukaskattinn 500 milljónir sem voru ákvörðun nýrrar ríkisstjórnar þegar hún ákvað að neysluskattur til þeirra sem nýta sér hótel- og gistiþjónustu skyldi vera á sama stað og matvæli.



[11:50]
Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseti vekur athygli á því að ekki er hægt að kveðja sér hljóðs með atkvæðaskýringu eftir að atkvæðagreiðsla er hafin um einstaka liði.



[11:50]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Fyrsta mál ríkisstjórnarinnar á sumarþingi var að falla frá hækkun á virðisaukaskatti á gistingu. Þetta eru 500 milljónir í ár og 1,5 milljarðar á næsta ári. Við erum mjög ósátt við þetta fyrsta verk og teljum að ganga þyrfti í að hækka virðisaukaskattinn upp í 14%, ef ekki hærra, til að fá meiri tekjur af ferðamönnum.



[11:51]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Liður 5.1.1.1 sem verið er að greiða atkvæði um hér er mínustala á þessu blaði upp á 3 milljarða. Það þýðir að það vantar 3 milljarða upp á virðisaukaskattstekjur ársins miðað við það sem við gerðum ráð fyrir í fjárlögum.

Það er hins vegar rétt sem hér hefur komið fram, að ný ríkisstjórn ákvað að hækka ekki virðisaukaskatt á ferðaþjónustu með sérstökum rökum sem fram komu í þeirri umræðu, en eftir situr að það vantar 3 milljarða upp á virðisaukaskattstekjur ársins. Sem betur fer urðu þetta ekki 5 milljarðar eins og við óttuðumst framan af fjárlagagerðinni en hærri virðisaukaskattstekjur á síðari hluta þessa árs eru merki um að skattstofninn sé að taka við sér og það mun hafa áhrif inn í næsta ár. Það eru jákvæð merki, munu sem sagt hafa jákvæð áhrif á næsta ári, en varðandi virðisaukaskattinn er mikilvægt að hafa í huga að við ætlum að taka þrepaskiptinguna til heildarendurskoðunar, vonandi í þverpólitískri sátt, þannig að dregið verði úr hinum mikla mun (Forseti hringir.) á milli þrepanna.



[11:52]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er að sönnu ánægjulegt að hér er breytt áætluðum tekjum af virðisaukaskatti til verulegra bóta frá því sem fjáraukalagafrumvarpið var. Þar var gert ráð fyrir lækkun tekna upp á rúma 5,5 milljarða. Hér er lögð til lækkun upp á 3 milljarða nokkurn veginn slétta og eru þá enn inni í þeirri tölu tapaðar virðisaukaskattstekjur vegna virðisaukaskatts á hótelgistingu og gistiþjónustu sem örugglega hefðu skilað meiru en þeim 500 milljónum sem gert var upphaflega ráð fyrir í ljósi mikillar aukningar á gistinóttum í tengslum við fjölgun ferðamanna á þessu ári.

Breytingarnar eru flestar í þessa átt. Þó að óbeinir skattar séu vissulega veikari en gert var ráð fyrir í fjárlögum eru þær tekjur að koma til baka þannig að svartsýnisáróðursupphlaup forustumanna ríkisstjórnarflokkanna í vor hefur sem betur fer að þó nokkru leyti reynst án innstæðu — enda pólitískt upphlaup.



Brtt. 319 (liður 8.3.8.5.10) samþ. með 34:16 atkv. og sögðu

  já:  ÁsF,  BÁ,  BjarnB,  EKG,  ElH,  ELA,  EyH,  FSigurj,  GÞÞ,  GBS,  HBK,  HarB,  HE,  HöskÞ,  IllG,  JónG,  LínS,  PJP,  PHB,  REÁ,  RR,  SDG,  SigrM,  SIJ,  SPJ,  SilG,  UBK,  ValG,  VigH,  VilÁ,  VilB,  WÞÞ,  ÞorS,  ÞórE.
nei:  ÁÞS,  BirgJ,  BjG,  BjÓ,  BP,  GStein,  HHG,  JÞÓ,  KJak,  LRM,  ÓP,  PVB,  RM,  SJS,  SSv,  ÖJ.
8 þm. (ÁPÁ,  GuðbH,  HHj,  KaJúl,  KLM,  OH,  SII,  VBj) greiddu ekki atkv.
5 þm. (BN,  JMS,  KG,  KÞJ,  ÖS) fjarstaddir.
3 þm. gerðu svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[11:54]
Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég kem upp fyrir hönd Bjartrar framtíðar. Okkur þykir ekki sýnt að veiðigjöld gætu ekki verið hærri. Það helgast auðvitað af því að forsendur fyrir útreikningi þeirra eru oft og tíðum ónægar og ófullkomnar og við köllum eftir breytingum á því.

Þingflokkur Bjartrar framtíðar segir nei.



[11:55]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hér birtist okkur tekjutap ríkissjóðs vegna ákvörðunar ríkisstjórnarinnar frá því í vor að lækka umtalsvert sérstakt veiðigjald. Hér fara út 3 milljarðar, 160 millj. kr. eða hátt í þá fjárhæð sem ríkisstjórnin og meiri hluti hennar er með alveg ótrúlegum æfingum að reyna að skrapa saman til að leggja inn í heilbrigðiskerfið með skerðingu á þróunaraðstoð og guð má vita hvað.

Nú vill svo vel til, herra forseti, alveg skínandi vel til að í gær kom á vefinn frá Hagstofunni yfirlit yfir hag veiða og vinnslu íslensks sjávarútvegs á árinu 2012. Hvað kemur í ljós? Framlegð sjávarútvegsins er fyllilega jafn góð og árið 2011 eða rétt tæpir 80 milljarðar kr. þrátt fyrir þá hækkun á veiðigjöldum sem kom til greiðslu á árinu 2012. Með öðrum orðum reyndust allar hrakspár um að afkoma sjávarútvegsins mundi hrynja eða versna til mikilla muna rangar hjá stjórnarandstöðunni á þeim tíma, (Forseti hringir.) hjá endurskoðunarfyrirtækjum, hjá bönkunum, hjá LÍÚ og hjá öllum áróðursklúbbnum sem orgaði næstum því af sér hausinn á síðasta ári.



[11:56]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Hér sjáum við afleiðingar sjálfskaparvítis ríkisstjórnarinnar. Hér sjáum við tölurnar sem eru samfara því að ríkisstjórnin tók meðvitaða ákvörðun um að létta byrðum af þeim sem best voru í færum til að borga þær og koma þeim á aðra þjóðfélagshópa. Við munum sjá frekar við afgreiðslu fjárlagafrumvarps og við afgreiðslu tillagna ríkisstjórnarinnar ótrúlegar tilraunir ríkisstjórnarinnar til að láta hina ýmsu hópa sem lakast standa í samfélaginu bera ríkari byrðar af samneyslunni en létta á þeim sem best eru í færum til að borga undan sínum byrðum. Það má sjá núna að arðsemin í sjávarútveginum hefði fyllilega staðið undir því veiðileyfagjaldi sem við lögðum til í sumar í minni hluta atvinnuveganefndar að yrði raunin, greinin hefði fyllilega staðið undir því gjaldi. Þetta er sorgleg stund (Forseti hringir.) hér fyrir þingheim að afsala sér þessum tekjum formlega.



Brtt. 319 (liður 15.2) samþ. með 34:3 atkv. og sögðu

  já:  ÁsF,  BÁ,  BjarnB,  EKG,  ElH,  ELA,  EyH,  FSigurj,  GÞÞ,  GBS,  HBK,  HarB,  HE,  HöskÞ,  IllG,  JónG,  LínS,  PJP,  PHB,  REÁ,  RR,  SDG,  SigrM,  SIJ,  SPJ,  SilG,  UBK,  ValG,  VigH,  VilÁ,  VilB,  WÞÞ,  ÞorS,  ÞórE.
nei:  BirgJ,  HHG,  JÞÓ.
21 þm. (ÁPÁ,  ÁÞS,  BjG,  BjÓ,  BP,  GuðbH,  GStein,  HHj,  KJak,  KaJúl,  KLM,  LRM,  OH,  ÓP,  PVB,  RM,  SII,  SJS,  SSv,  VBj,  ÖJ) greiddi ekki atkv.
5 þm. (BN,  JMS,  KG,  KÞJ,  ÖS) fjarstaddir.
2 þm. gerðu svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[11:58]
Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um lið 15.2 sem heitir Sala á réttindum. Til að útskýra það aðeins betur er það útboð Póst- og fjarskiptastofnunar á tíðniréttindum í 4G–kerfinu sem samkvæmt lögum fjarskiptasjóðs frá 2005 hefði átt að renna þar inn til að, eins og áform voru um, að nota það til að bæta fjarskiptasamband á landsbyggðinni. Í tillögum meiri hlutans er verið að taka þessar mörkuðu tekjur beint inn í ríkissjóð, eins og á svo mörgum öðrum stöðum, sem gerir það að verkum að á landsbyggðinni verður þessi peningur ekki notaður til að bæta fjarskiptasamband á þeim stöðum þar sem það er slæmt.

Ég vil vekja athygli á því og vekja athygli stjórnarþingmanna á landsbyggðinni sem hafa talað hátt um bætt fjarskipti á landsbyggðinni á því að með því að samþykkja þessa tillögu hér verður ekkert gert í því hvað það varðar.



[11:59]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hér er ekkert annað að gerast en það að peningar eru að fara í sameiginlegan sjóð landsmanna. Síðan er það hv. Alþingi sem ákveður hvernig þeim er útdeilt. Ef menn hafa áhuga á að bæta fjarskipti á landsbyggðinni eða annars staðar, sem ég held að sé mjög mikilvægt, þá skiptir máli að vanda vel til verka. Við höfum bæði séð það ganga vel á Íslandi en einnig höfum við séð áætlanir sem hafa engan veginn gengið eftir og fjármunir ekki nýst vel. Þannig að ég treysti því og veit að hæstv. ríkisstjórn mun vinna vel að því og undirbúa það mikilvæga mál vel. Hér erum við að fá sem betur fer pening í sameiginlegan sjóð okkar landsmanna sem við síðan ákveðum hvernig við útdeilum. Við skulum gera það vandlega og með góðum undirbúningi.



Brtt. 319 (liður 17.2.1) samþ. með 34:6 atkv. og sögðu

  já:  ÁsF,  BÁ,  BjarnB,  EKG,  ElH,  ELA,  EyH,  FSigurj,  GÞÞ,  GBS,  HBK,  HarB,  HE,  HöskÞ,  IllG,  JónG,  LínS,  PJP,  PHB,  REÁ,  RR,  SDG,  SigrM,  SIJ,  SPJ,  SilG,  UBK,  ValG,  VigH,  VilÁ,  VilB,  WÞÞ,  ÞorS,  ÞórE.
nei:  BjÓ,  BP,  GStein,  ÓP,  PVB,  RM.
18 þm. (ÁPÁ,  ÁÞS,  BirgJ,  BjG,  GuðbH,  HHG,  HHj,  JÞÓ,  KJak,  KaJúl,  KLM,  LRM,  OH,  SII,  SJS,  SSv,  VBj,  ÖJ) greiddu ekki atkv.
5 þm. (BN,  JMS,  KG,  KÞJ,  ÖS) fjarstaddir.
4 þm. gerðu svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[12:01]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það hefur svo sem ekkert upp á sig að greiða atkvæði með eða móti með þessum lið því þetta er afleiðing af ákvörðunum ríkisstjórnarinnar í Evrópumálum og um aðildarviðræður við Evrópusambandið. Ég lýsi því bara yfir að ég er algerlega á móti þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir í þeim efnum og vil nú kannski undra mig á að það komi fram í breytingartillögu við fjáraukalagafrumvarpið að þetta hafi ekki verið strax í fjáraukalagafrumvarpinu þar sem ljóst var að menn voru hættir — og þeir sem eru ábyrgir fyrir þessu hafa kallað þessa peninga, held ég, glerperlur og eldvatn eða eitthvað í þá áttina. Það hefur ekkert upp á sig að kvarta yfir öðru en framgöngu ríkisstjórnarinnar í Evrópumálunum yfirleitt og almennt.



[12:03]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég styð þessa tillögu eins og aðrar tillögur og atriði er koma fram frá ríkisstjórnarmeirihlutanum. Mig langar einfaldlega að vekja athygli á því að fram kom í allri umræðunni um þetta mál, bæði af hálfu Evrópusambandsins og eins í íslenskum fjölmiðlum, að sú aðlögun sem átti sér stað var aðlögun, verið var að aðlaga íslenskt samfélag að Evrópusambandinu. Það hefur komið fram í þessari umræðu og fullnaðarsigur hefur unnist í þeirri rökræðu sem átti sér stað í heil fjögur ár um hvort það væri rétt eða ekki.



[12:03]
Róbert Marshall (Bf):

Virðulegi forseti. Hér hverfa á einu bretti 550 millj. kr. styrkir frá Evrópusambandinu vegna aðildarumsóknar Íslands. Ég vildi gera grein fyrir afstöðu Bjartrar framtíðar í þessu máli. Við erum andvíg þessum lið vegna þess að um er að ræða pólitíska ákvörðun núverandi ríkisstjórnar. Það er nauðsynlegt að árétta að ekki er hægt að umgangast Evrópusambandið eins og veðrið eins og hæstv. ríkisstjórn stundum gerir þar sem menn eru sífellt hissa á því sem þaðan kemur. Það er pólitísk ákvörðun um að hætta aðildarviðræðunum og þess vegna segjum við: Nei, við erum á móti þessari ákvörðun.



[12:04]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Kosturinn við þá atkvæðagreiðslu sem við erum að fara í núna er sá, eins og hér hefur komið fram, að það er komin niðurstaða. Þetta eru aðlögunarstyrkir eins og allir hafa bent á, þetta gengur út á það að aðlaga ríki að regluverki Evrópusambandsins. Við þurfum ekki að ræða það lengur. Nokkrum milljörðum seinna erum við komin að niðurstöðu hvað það varðar.

Virðulegi forseti. Það útheimtir líka að við borgum á móti. Það er algerlega ljóst, og menn geta bara farið á vísindavefinn til að kanna það, að ef við förum í Evrópusambandið þá þurfum við að borga með okkur í því. Það er líka rétt, sem hæstv. utanríkisráðherra benti á, að þetta er þvert á það sem tollabandalagið sagði þegar stefnu var breytt hjá ríkisstjórninni, að þeir ætluðu að haga sér með öðrum hætti.

En kosturinn við þessa atkvæðagreiðslu er sá að nú þurfum við ekkert að ræða þetta lengur. Þetta eru aðlögunarstyrkir fyrir land sem vill ganga í Evrópusambandið en við höfum breytt um stefnu og þar af leiðandi falla þessir styrkir niður.



Brtt. 319 (aðrir liðir) samþ. með 33 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ÁsF,  BÁ,  BjarnB,  EKG,  ElH,  EyH,  FSigurj,  GÞÞ,  GBS,  HBK,  HarB,  HE,  HöskÞ,  IllG,  JónG,  LínS,  PJP,  PHB,  REÁ,  RR,  SDG,  SigrM,  SIJ,  SPJ,  SilG,  UBK,  ValG,  VigH,  VilÁ,  VilB,  WÞÞ,  ÞorS,  ÞórE.
24 þm. (ÁPÁ,  ÁÞS,  BirgJ,  BjG,  BjÓ,  BP,  GuðbH,  GStein,  HHG,  HHj,  JÞÓ,  KJak,  KaJúl,  KLM,  LRM,  OH,  ÓP,  PVB,  RM,  SII,  SJS,  SSv,  VBj,  ÖJ) greiddu ekki atkv.
6 þm. (BN,  ELA,  JMS,  KG,  KÞJ,  ÖS) fjarstaddir.

[12:07]
Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið er gert ráð fyrir að lögbundnar markaðar tekjur sem renna eiga í fjarskiptasjóð renni ekki þangað. Mörg sveitarfélög hafa komið fyrir hv. fjárlaganefnd og lýst áhyggjum sínum á skorti á netsambandi og slæmum áhrifum þess á búsetuskilyrði. Margir alþingismenn hafa talað um að lagfæring á þessu sé eitt mikilvægasta byggðamálið og tveir hæstv. ráðherrar Framsóknarflokksins hafa skrifað um þetta langar greinar. Þess vegna leggjum við mikla áherslu á að sjóðurinn fái þessar mörkuðu tekjur og geti sinnt þeim verkefnum sem sjóðurinn og stjórn hans er búin að leggja upp með í samvinnu við hæstv. innanríkisráðherra.



[12:08]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér leggur minni hluti fjárlaganefndar til að tekið verði inn aftur að fjarskiptasjóður fái þær mörkuðu tekjur vegna 4G-útboðs og þar með sé styrkt lögbundið hlutverk sjóðsins til að tryggja fjarskipti og netsamband um allt land og háhraðatengingar. Mér finnst þetta vera góð skilaboð frá minni hluta fjárlaganefndar, sem ég styð heils hugar þar sem ég hef flutt tillögu ásamt fleirum um að hraða háhraðatengingu um dreifbýli landsins og það verði kortlagt og klárað innan fjögurra ára. Ég satt að segja skil ekki þau skilaboð ríkisstjórnarinnar til landsmanna sem búa á þessum svæðum að draga það fjármagn úr fjarskiptasjóði og setja í ríkissjóð almennt og ætla þá með einhverjum hætti að gera eitthvað annað síðar meir. Ég trúi ekki öðru en menn bakki með þetta og haldi áfram að byggja upp háhraðatengingu um dreifbýli landsins. (HöskÞ: … stefna sem var mótuð á síðasta kjörtímabili.) (SJS: Nei.) (HöskÞ: Víst. Það var fjárlaganefnd.)(Gripið fram í.)(HöskÞ: Víst.) (Gripið fram í.)

(Forseti (EKG): Umræður eiga að fara fram úr ræðustól Alþingis, ekki úr þingsalnum.)



Brtt. 327,1 felld með 34:22 atkv. og sögðu

  já:  ÁPÁ,  ÁÞS,  BirgJ,  BjG,  BjÓ,  BP,  GuðbH,  GStein,  HHG,  HHj,  JÞÓ,  KJak,  LRM,  OH,  ÓP,  PVB,  RM,  SII,  SJS,  SSv,  VBj,  ÖJ.
nei:  ÁsF,  BÁ,  BjarnB,  EKG,  ElH,  ELA,  EyH,  FSigurj,  GÞÞ,  GBS,  HBK,  HarB,  HE,  HöskÞ,  IllG,  JónG,  LínS,  PJP,  PHB,  REÁ,  RR,  SDG,  SigrM,  SIJ,  SPJ,  SilG,  UBK,  ValG,  VigH,  VilÁ,  VilB,  WÞÞ,  ÞorS,  ÞórE.
7 þm. (BN,  JMS,  KG,  KaJúl,  KÞJ,  KLM,  ÖS) fjarstaddir.
4 þm. gerðu svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[12:10]
Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og hér hefur komið fram og kom fram í örstuttri atkvæðaskýringu hjá mér áðan þá eiga þessar 195 milljónir að koma inn vegna útboðs á tíðniréttindum í 4G-kerfinu sem á að nota til uppbyggingar samkvæmt lögum um fjarskiptasjóð. Hér er verið að taka þessa peninga og setja í ríkissjóð þannig að þeir verða ekki notaðir til að bæta fjarskiptasamband á landsbyggðinni eins og allir eru sammála um. Ég vil hins vegar trúa því að þrátt fyrir að ríkisstjórnarflokkarnir séu nú mest á jólalitnum, á rauðu, að á vegum nefndarinnar, þegar frumvarpið verður tekið aftur til vinnslu í fjárlaganefnd, verði þessu breytt fyrir 3. umr. og þessum peningum skilað í þetta verkefni þannig að vinna megi að bættu fjarskiptasambandi á landsbyggðinni á næsta ári með þessum 195 millj. kr.



[12:11]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Alltaf er maður að heyra eitthvað nýtt. Þegar hv. þingmaður, eðalkratinn Kristján Möller, kvartar undan rauða litnum og er aðeins með eitt slíkt merki í barminum þá er ýmislegt orðið öfugsnúið. En án alls gríns þá fer hv. þingmaður alveg hárrétt með að þetta fari í ríkissjóð. Síðan tökum við ákvörðun um hvað verður gert með það. (Gripið fram í.) Það er í rauninni algerlega í samræmi við þá ákvörðun hv. síðustu fjárlaganefndar, sem góð samstaða var um og ég vona að verði í hv. núverandi fjárlaganefnd, að við drögum úr mörkuðum tekjum. Þær eru ekki skynsamlegar. Við getum síðan lagt þess vegna tvöfalt meira í hið mikilvæga verkefni sem hv. þingmaður nefndi en við erum ekki með neinum hætti að koma í veg fyrir að við förum í það verk að ljósleiðaravæða eða styrkja fjarskipti á landsbyggðinni. (Gripið fram í.) Það er bara ekki rétt.(Gripið fram í.)



[12:12]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það að það er skringilegt að við séum með afmarkaða skatta eða svokallaðan nefskatt á hina og þessa stofna og það renni þá ekki óskipt til þeirra stofna eins og til dæmis nefskattur RÚV. Ég man eftir að ríkisstjórnin, eða í það minnsta Framsóknarflokkurinn, talaði mikið um ljós í fjós og ég hélt að þetta væri liður í því og ég skora á hv. þingmenn Framsóknarflokksins í fjárlaganefnd að efna loforðið. Ef gæta á einhvers konar jafnræðis og ef landsbyggðin á rétt á einhverju þá á hún rétt á jafnræði í að geta tekið þátt í gegnum netið í þeim fjölmörgu verkefnum sem verið er að berjast fyrir að gera og ekki síður allri þeirri þjónustu sem þar fer fram og er alltaf að verða í ríkari mæli í gegnum netið.



[12:13]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég held að það sé nauðsynlegt að rifja aðeins upp söguna og sérstaklega fyrir hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni.

Á síðasta kjörtímabili var lögum breytt og ákveðið að framlengja starfsemi fjarskiptasjóðs vegna þess að þörfin blasti við öllum mönnum. Sennilega hafa þau lög verið samþykkt hér í samkomulagi. Jafnframt var og um leið ákveðið að fjarskiptasjóður fengi tekjur af útboði fjarskiptarása til að sinna hlutverki sínu. Það er alveg ljóst að þar er mikið verk að vinna og ég spyr mig: Hvers konar skilaboð eru það, til dæmis til sveitarstjórnarmanna sem við þingmenn hittum í haust, þar sem á nánast hverjum einasta fundi komu upp vandamálin sem eru við ónógt fjarskiptasamband víða í dreifðum byggðum landsins, að taka þessar mörkuðu tekjur af fjarskiptasjóði?

Almenn stefnubreyting einhvern tíma inn í framtíðina um meðferð markaðra tekna er allt annað mál. Hér eru tekjur sem falla til innan sviðsins, innan fjarskiptasviðsins, og var ákveðið á Alþingi á síðasta kjörtímabili að eyrnamerkja fjarskiptasjóði. (Gripið fram í: Ómálefnalegt.) Það er nákvæmlega svona sem þetta er. Þetta eru staðreyndir málsins, hv. frammíkallandi.



[12:14]
Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseti vill árétta það sem fram kom áðan. Annars vegar geta hv. þingmenn gert grein fyrir afstöðu sinni til einstakra atkvæðagreiðslna og þegar því er lokið þá hefst atkvæðagreiðslan. Áður en hún hefst geta hv. þingmenn óskað eftir að gera grein fyrir atkvæði sínu varðandi einstaka liði og það var það sem verið var að gera núna.



[12:16]
Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við erum að fara að greiða atkvæði um það sem minni hluti fjárlaganefndar telur alveg einsýnt að sé ófyrirséður atburður sem veldur kostnaði. Óvenjuskæður faraldur gekk yfir á fyrri hluta þessa árs sem Landspítalinn þurfti að bregðast við, það var inflúensa, það voru nórósýkingar og það voru RSV-sýkingar. Marga þurfti að setja í einangrun og starfsfólk veiktist líka þannig að veikindi voru 30% yfir því sem er að meðaltali. Við leggjum til að kostnaðurinn lendi ekki á spítalanum sjálfum, enda hafði fyrri ríkisstjórn samþykkt á fundi sínum að lagt yrði til að þessi upphæð yrði samþykkt í fjáraukalögum. Það er mjög slæmt fyrir stofnanir að fá skilaboð um að þær þurfi ekki að hagræða fyrir óvæntum kostnaði sem síðan eru dregin til baka af næstu stjórnvöldum.



[12:17]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur og leggja til að þessi tillaga verði samþykkt. Eins og kemur fram í rökstuðningi með okkar tillögu urðu veikindaforföll um 30% tíðari en meðaltal ársins 2012. Hér hefur mikið verið rætt um hvað eigi heima inni í fjáraukalögum og hvað ekki og þetta getur tæplega talist annað en ófyrirséður atburður.

Það má líka velta því upp að starfstími ríkisstjórna er tiltekinn tími og ef slíkar ákvarðanir eru teknar ættu stofnanir ekki að þurfa að líða fyrir það og taka það úr rekstri sínum sem flokkast klárlega undir ófyrirséðan kostnað. Ég vona svo sannarlega að þingmenn sjái að sér og greiði Landspítalanum en þeir hafa mikið talað um að þeir séu að forgangsraða í þágu heilbrigðisþjónustunnar. Ef þetta er það ekki þá veit ég ekki hvað.



[12:19]
Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við höfum talað við yfirstjórn Landspítalans og þar hafa aðilar sagt skýrt við okkur að 2,5 milljarða þurfi fyrir Landspítalann. Við þingmenn Pírata munum því greiða atkvæði með öllum aukafjárveitingum til Landspítalans upp að því.

Ef við tökum þessa tölu, 2,5 milljarða, er það nákvæmlega sú upphæð sem útgerðin fékk í afslátt núna á sumarþinginu. Höldum því til haga.



[12:19]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Vandinn liggur í því að ýmsu hefur verið lofað sem ekki er hægt að standa við. Þess vegna erum við að tala um — (Gripið fram í.) Ég kem kannski aftur þegar hv. þingmenn Samfylkingarinnar eru búnir að jafna sig. Hér er um að ræða, stóra myndin er að ástæðan fyrir þessum mikla halla, 30 þús. millj. kr. halla á árinu 2013, þrátt fyrir að gengið hafi verið í ýmsar aðgerðir, er vegna þess að ýmsu var lofað sem ekki var innstæða fyrir. Við höfum hins vegar gengið í það, og út á það hefur fjárlagavinnan gengið, að hagræða fyrir heilbrigðisþjónustuna. Ég vonast til þess að við fáum góðan stuðning við það þegar þar að kemur.



Brtt. 327,2 felld með 34:23 atkv. og sögðu

  já:  ÁPÁ,  ÁÞS,  BirgJ,  BjG,  BjÓ,  BP,  GuðbH,  GStein,  HHG,  HHj,  JÞÓ,  KJak,  KaJúl,  KLM,  LRM,  OH,  ÓP,  PVB,  RM,  SII,  SSv,  VBj,  ÖJ.
nei:  ÁsF,  BÁ,  BjarnB,  EKG,  ElH,  ELA,  EyH,  FSigurj,  GÞÞ,  GBS,  HBK,  HarB,  HE,  HöskÞ,  IllG,  JónG,  LínS,  PJP,  PHB,  REÁ,  RR,  SDG,  SigrM,  SIJ,  SPJ,  SilG,  UBK,  ValG,  VigH,  VilÁ,  VilB,  WÞÞ,  ÞorS,  ÞórE.
6 þm. (BN,  JMS,  KG,  KÞJ,  SJS,  ÖS) fjarstaddir.
2 þm. gerðu svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[12:20]
Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við erum hér að fjalla um tillögu vegna máls þar sem Landspítalinn leitaði til velferðarráðuneytisins og sem fór inn í ríkisstjórn í janúar á þessu ári, út af ástandi sem skapaðist vegna sjúkdóma, inflúensufaraldurs og alls kyns sjúkdóma. Það var óvenjuvel að málinu staðið að því leyti að það var fyrir fram óskað eftir því að fá heimild til að ráðstafa meiri peningum til að bregðast við ástandinu. Ríkisstjórnin gaf grænt ljós á það. Síðan var farið mjög vandlega yfir öll útgjöldin og afgreitt í ríkisstjórn formlega í apríl að í þetta ættu að fara 125 millj. kr.

Hér eru skilaboðin þau til stofnana sem hafa treyst á stjórnvaldið á þeim tíma að ekki sé orð að marka stjórnvöld. Þetta finnst mér ekki boðleg afgreiðsla, ekki í neinu tilfelli. Þarna voru ófyrirséð útgjöld og farið fram með eins vönduðum hætti og hægt var og síðan ætla menn, sýnist mér, einnig nýir þingmenn, þegjandi og hljóðalaust að greiða atkvæði og auka hallann á Landspítalanum á þessu ári. Ég segi já við þessari tillögu. Ég tel okkur skylt að afgreiða hana með jákvæðum hætti og harma ef hún verður felld.



[12:22]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér er lagt til að varið verði 125 millj. kr. til Landspítalans vegna veikinda og mikils álags á fyrri hluta ársins á fjáraukalögum 2013. Hér verður að hafa í huga að Landspítalinn hafði 38,4 milljarða á fjárlögum ársins til ráðstöfunar. Hann fær til viðbótar samkvæmt fjáraukalagafrumvarpi 735 millj. út af jafnlaunaátaki. Hafi það gerst að fyrri ríkisstjórn hafi lofað 125 millj. kr. á ríkisstjórnarfundi verðum við að hafa í huga að ríkisstjórn fer ekki með fjárveitingavaldið og öllum slíkum loforðum hlýtur að fylgja sá fyrirvari (Forseti hringir.) að á endanum verði slík samþykkt ríkisstjórnar að fást samþykkt á Alþingi. Þetta er algerlega (Forseti hringir.)minni háttar frávik, 100 millj. kr. af 38 milljörðum og núna, eftir nýjustu breytingar, 39 milljarða framlögum til spítalans.



[12:24]
Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þessi tillaga minni hluta fjárlaganefndar er af svipuðum toga og sú sem var verið að afgreiða hér rétt áðan en hún fjallar um húsaleigu eða kostnað sem heilbrigðisstofnanir þurfa að bera vegna samninga um húsaleigu. Samskipti höfðu verið um þetta milli velferðarráðuneytis og fjármálaráðuneytis fyrr á þessu ári en þarna er um að ræða 140 millj. kr. Ef þess verður krafist af heilbrigðisstofnununum að greiða þessar 140 millj. kr. mun þetta fara yfir sem halli á næsta ári. Í rekstri sínum höfðu stofnanirnar gert ráð fyrir því að skera ekki niður þjónustu við íbúa út af þessu enda höfðu fyrirheit verið gefin um að það þyrfti ekki. Ef þetta verður ekki samþykkt erum við að tala um halla á heilbrigðisstofnunum, sem er þó nokkur fyrir, og við þurfum að hafa áhyggjur af vegna þjónustu við íbúa á næsta ári.



[12:25]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þessi röksemdafærsla kemur nokkuð á óvart því miðað við þær upplýsingar sem ég hef bestar var fallið frá því að setja húsaleiguna á heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni. Miðað við það kemur þetta ekki fram sem halli á þeim stofnunum.



Brtt. 327,3 felld með 34:22 atkv. og sögðu

  já:  ÁPÁ,  ÁÞS,  BjG,  BjÓ,  BP,  GuðbH,  GStein,  HHG,  HHj,  JÞÓ,  KJak,  KaJúl,  KLM,  LRM,  OH,  ÓP,  PVB,  RM,  SII,  SSv,  VBj,  ÖJ.
nei:  ÁsF,  BÁ,  BjarnB,  EKG,  ElH,  ELA,  EyH,  FSigurj,  GÞÞ,  GBS,  HBK,  HarB,  HE,  HöskÞ,  IllG,  JónG,  LínS,  PJP,  PHB,  REÁ,  RR,  SDG,  SigrM,  SIJ,  SPJ,  SilG,  UBK,  ValG,  VigH,  VilÁ,  VilB,  WÞÞ,  ÞorS,  ÞórE.
1 þm. (BirgJ) greiddi ekki atkv.
6 þm. (BN,  JMS,  KG,  KÞJ,  SJS,  ÖS) fjarstaddir.
1 þm. gerði svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[12:26]
Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Inni á hverri einustu heilbrigðisstofnun þ.e. utan Landspítala og Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, er reiknuð húsaleiga. Húsaleigan rennur inn í Fasteignir ríkisins og hún fer beint þar á milli og er notuð til að sinna viðhaldi á þessum stofnunum.

Nú gerist það á þessu ári að Fasteignir ríkisins eru að taka til baka niðurskurð sem var á síðasta ári og setur á hverja einustu stofnun hækkun sem ekki var í fjárlögum, allt upp í 20 millj. kr., eins og til dæmis á Suðurland, Austurland, Vesturland; og ef menn fá ekki tekjur á móti þá verða menn að skera niður fyrir þessari húsaleigu eða falla frá því að Fasteignir ríkisins taki þennan pening af stofnununum. Það hefur engin trygging verið gefin fyrir þessu þannig að eftir stendur að þessar stofnanir hafa allar fengið bréf um að þær muni fá fjárveitingu þannig að þær þurfi ekki að taka úr venjulegum heilbrigðisrekstri yfir í húsaleigu — því að þá er algerlega búið að eyðileggja hugmyndina með Fasteignum ríkisins. Þeir eru búnir að fá bréf um það en hér kemur Alþingi og gerir þveröfugt og setur forstöðumenn stofnananna aftur út á guð og gaddinn. Segir: Þið verðið að skera niður heilbrigðisþjónustu til að mæta húsaleigu. Það er algerlega nýtt í sögunni.



[12:27]
Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér liggur fyrir tillaga um að setja 240 milljónir inn í Atvinnuleysistryggingasjóð því að nú metur velferðarráðuneytið það svo að fjöldi atvinnulausra verði meiri en gert var ráð fyrir í fyrri spám. Ég lít svo á að í þessu máli dugi ekki að benda á einhverja sökudólga. Hér er bara þróun á ferð sem þarf að bregðast við. Hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra hefur bent á að þetta mál sé í höndum Alþingis, fjárveitingavaldsins, hvort atvinnulausir fái desemberuppbót í ár eins og verið hefur undanfarin ár. Ég hvet hv. þingmenn hér í ljósi þess að þetta mál er algjörlega í okkar höndum til að greiða þessari tillögu atkvæði í ljósi þess, eins og við öll vitum, að atvinnuleysisbætur eru ekki háar, jólahátíð fer í hönd og það skiptir miklu máli að þessi desemberuppbót skili sér til þeirra sem því miður eiga við það að stríða að hafa ekki atvinnu.



[12:29]
Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Áðan afsalaði þingheimur sér með glöðu geði 3 milljarða tekjum frá atvinnugrein sem hefur aldrei haft það betra en jafnvel eftir að hún fór að borga þessi voðalegu veiðigjöld. Nú heyrum við frá ríkisstjórninni að hún hafi ekki einu sinni metnað til þess að tryggja atvinnulausum desemberuppbót og segi ekki til peninga fyrir henni.

Við fundum peninga til þessa verkefnis meira að segja fyrir jólin 2009. Við gerðum það 2010, 2011 og 2012. (Fjmrh.: Þið tókuð allt að láni.) Á sama tíma, hæstv. fjármálaráðherra, drógum við úr hallarekstri ríkissjóðs, tókumst á við það hrun (Gripið fram í.) sem Sjálfstæðisflokkurinn skildi eftir sig, og Framsóknarflokkurinn. [Háreysti í þingsal.] Það var ósköp einfaldlega þannig. Og við bættum tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs og gerðum ríkinu mögulegt að standa undir útgjöldum. (Forseti hringir.) (Gripið fram í: Þú gleymir einu …) Það er lykilatriðið. (Gripið fram í: Þú gleymir …) Það er lykilatriðið (Forseti hringir.) sem þessi ríkisstjórn verður að horfast í augu við. Þetta er hennar val og þetta er val þessa stjórnarmeirihluta.



[12:30]
Birgitta Jónsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég mun svo sannarlega segja já við þessum lið. Ég efast um að nokkur maður hér inni hafi þurft að standa í biðröð hjá mæðrastyrksnefnd til að eiga fyrir mat um jólin. Það eru ekki margir hér inni sem hafa þurft aðstoð til að eiga fyrir jólagjöf handa börnunum sínum. Við eigum að passa upp á þá sem hafa það verst í samfélagi okkar.

Fyrst það er í höndum þingsins að taka þá ákvörðun hvort það eigi að vera jólabónus eða ekki eða smávægileg aukabúbót fyrir þá sem hafa verið í þeirri erfiðu stöðu sem atvinnuleysi hefur í för með sér skora ég á ykkur að sýna jólaandann í verki. Sýnum manngæsku því að maður veit aldrei hvað morgundagurinn ber í skauti sér.



[12:31]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég hef einu sinni í þessum stól komið með þá tillögu að sett yrði af stað opinber rannsókn á því hverjir voru með Sjálfstæðisflokknum í ríkisstjórn 2007–2009. Eftir ræðu hv. þm. Árna Páls Árnasonar er spurning hvort maður geri það ekki að sérstöku þingmáli.

Mér finnst að stjórnarandstöðuflokkarnir sem voru í ríkisstjórn og gerðu þá áætlun sem liggur fyrir í Atvinnuleysistryggingasjóði ættu ekki að tala með þessum hætti. Komið hefur fram við umfjöllun nefndarinnar að áætlunin var ónóg og sömuleiðis voru þeir fjármunir sem voru í Atvinnutryggingasjóði, sem voru verulegir, nýttir í annað á sumarmánuðum.

Við eigum við það hér, eins og í öllu öðru, að áætlanirnar stóðust ekki, því miður. Þess vegna erum við í halla. Menn eru að taka lán fyrir hlutum vegna þess að endar ná ekki saman. Það fólk sem borgar þau lán er fólkið í landinu.



[12:33]
Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við í minni hlutanum í fjárlaganefnd leggjum það til að Alþingi samþykki 240 millj. kr. framlag fyrir desemberuppbót fyrir atvinnuleitendur. Þetta mál hlýtur að vera hafið yfir pólitískar deilur og þras um það hverjum þetta og hitt var að kenna. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Við stöndum frammi fyrir því að ekki er gert ráð fyrir að atvinnuleitendur fái desemberuppbót. Hér hafa alþingismenn tækifæri til að taka af skarið, taka af allan vafa og gefa þeim sem eru sannarlega í erfiðri stöðu, atvinnulausu fólki, vissu og öryggi um að fá desemberuppbót og geti þá nýtt hana til að gera sér glaðan dag yfir hátíðarnar.



Brtt. 327,4 felld með 34:23 atkv. og sögðu

  já:  ÁPÁ,  ÁÞS,  BirgJ,  BjG,  BjÓ,  BP,  GuðbH,  GStein,  HHG,  HHj,  JÞÓ,  KJak,  KaJúl,  KLM,  LRM,  OH,  ÓP,  PVB,  RM,  SII,  SSv,  VBj,  ÖJ.
nei:  ÁsF,  BÁ,  BjarnB,  EKG,  ElH,  ELA,  EyH,  FSigurj,  GÞÞ,  GBS,  HBK,  HarB,  HE,  HöskÞ,  IllG,  JónG,  LínS,  PJP,  PHB,  REÁ,  RR,  SDG,  SigrM,  SIJ,  SPJ,  SilG,  UBK,  ValG,  VigH,  VilÁ,  VilB,  WÞÞ,  ÞorS,  ÞórE.
6 þm. (BN,  JMS,  KG,  KÞJ,  SJS,  ÖS) fjarstaddir.
6 þm. gerðu svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[12:34]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég hef sagt að það væri óskandi að heimild væri fyrir því og nægt fjármagn í Atvinnuleysistryggingasjóði til að hægt væri að greiða út desemberuppbót. Það er í höndum Alþingis að kanna hvort það er svigrúm til þess. Ég veit að hv. fjárlaganefnd hefur farið yfir þetta mál. Það er þröngt í búi og það er verið að setja fjármuni, eins og kemur fram í breytingartillögunum, í ýmsa þætti eins og menntakerfið, skuldamálin og ýmislegt annað.

Þingið ræður þessu. Ég virði þá niðurstöðu sem kemur frá meiri hluta fjárlaganefndar og hef skilning á henni. Málið fer síðan aftur inn í nefnd milli 2. og 3. umr. og ég mun að sjálfsögðu líka virða niðurstöðuna sem kemur þá. Ég mun greiða atkvæði gegn þessari tillögu.



[12:35]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Atvinnuleysi varð heldur meira á þessu ári en áætlað var og núna er verið að greiða atkvæði um að atvinnulausir beri sjálfir þann kostnað. Það er verið að hafna því að greiða sérstaka desemberuppbót eins og gert hefur verið frá hruni.

Það eru um 6.600 manns án atvinnu sem ættu að fá ef áætlanir hefðu gengið eftir rúmar 50 þús. kr. Ég skil vel að hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra sé ekki í þeirri aðstöðu að styðja tillögu okkar fyrst hún er ekki einu sinni með þingmennina í salnum með sér, en ég tek undir orð hennar að þetta verði skoðað á milli umræðna og það verði tryggt hér að þeir sem eru með framfærslu sína af atvinnuleysistryggingum fái desemberuppbót eins og aðrir. Við í Samfylkingunni munum ekki liggja á liði okkar.



[12:36]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að ekki hefur verið afgreidd tillaga um að greiða út desemberuppbót á atvinnuleysisbætur á þessu ári er sú að Atvinnuleysistryggingasjóður er tómur. Farið var í ýmis átök á þessu ári. Sjóðurinn hafði 17,3 milljarða til ráðstöfunar. Hann varði þeim í atvinnuleysisbætur með einum eða öðrum hætti, m.a. var ákveðið að fara í sérstakt atvinnuátak fyrir námsmenn. Það kostaði 250 milljónir. Nú er sjóðurinn í 150 milljóna mínus. Þessi ákvörðun mundi senda hann í mínus 400 milljónir. Peningurinn er ekki til. Við höfum sett 28 milljarða í vinnumarkaðsmál á þessu ári, í vinnumál, atvinnuleysismál og önnur, og yfir 100 milljarða á undanförnum árum. Þetta snýst ekkert um það hvort fólk er tilbúið til að gera vel við þá sem eiga um sárt að binda, eru að leita að atvinnu en finna ekki. (Gripið fram í: Víst.) Þetta snýst um að við vorum búin að ákveða hvaða fjármagn ætti að fara í málaflokkinn og fjármagnið er búið, um það snýst málið. Ef menn ætla alltaf að koma í lok árs (Forseti hringir.) og bæta við vegna þess að þeir vilja gera meira þá eru (Forseti hringir.) menn að tala fyrir agaleysi í ríkisfjármálum. (Gripið fram í.) (SII: … fjármálaráðherra.)



[12:38]
Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseti vill árétta það að ræðuhöld fara fram úr ræðustól Alþingis.



[12:38]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þegar kemur að fjármálaákvörðunum hef ég sjálfur mikla tilhneigingu til að hugsa með höfðinu en þegar ég var að velta þessu fyrir mér með höfðinu varð mér hugsað til skröggs nokkurs úr víðfrægri sögu og ég minntist þess að í þeirri sögu lærði hann ekki neina hugarfarslega lexíu aðra en þá að hugsa með hjartanu. Nú legg ég það ekki á hið háa Alþingi að hugsa með hjartanu heldur vil ég leggja það á hið háa Alþingi að hugsa með hausnum og gefa atvinnulausum færi á að hugsa með hjartanu. (ÖJ: Þeir hugsa með maganum, margir.)



[12:39]
Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég ætla að leyfa mér að vona að við björgum þessu fyrir 3. umr. fyrst þau ljós eru komin hér á töfluna að nýir þingmenn velja það að skera niður þennan þátt, þ.e. að sleppa því að láta fólk fá desemberuppbót. Það er verið að skrapa saman hjá mæðrastyrksnefnd, fjölskylduhjálp og öðru slíku, við erum að tala þar um 10–30 millj. kr., kannski 50 millj. kr. í heildina þegar allt er tekið saman. Við erum hér með 240 millj. kr. sem áttu að deilast á það fólk sem þarf mest á því að halda. Þingheimur segir nei.

Við erum búin að heyra í hæstv. ráðherra kalla eftir aðstoð þingsins. Hún er rekin til baka með þetta aftur og aftur. Ég ætla bara að biðja ykkur um að vanda ykkur núna fyrir 3. umr. Ástæðan fyrir því að við höfum ekki gert mikinn hávaða út af þessu fyrr er einfaldlega sú að ég hefði aldrei trúað því að við mundum guggna á þessu. Ég hefði aldrei trúað því eftir að hafa farið í gegnum mestu erfiðleikana og alltaf haft þetta í forgangi, jafnvel þótt bæta hafi þurft í peningum á lokaáföngunum. En nú er það rammi ráðuneytanna sem ræður því að atvinnulaust fólk fær ekki jólauppbót. Það finnst mér ekki boðlegt fyrir þingið.



[12:40]
Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil ekki trúa því að hæstv. félagsmálaráðherra láti í minni pokann varðandi desemberuppbót fyrir atvinnuleysingja. Ég trúi því ekki að nýir þingmenn stjórnarflokkanna ætli að stuðla að því að atvinnuleysingjar fái ekki desemberuppbót núna.

Ég bendi þingmönnum á að hlusta á viðtal á Bylgjunni í gær við fólk sem lýsti bágri stöðu sinni, fólk með 170 þús. kr. í atvinnuleysisbætur, hvernig það muni ekki geta haldið jólahátíðina, getur ekki veitt sér þann munað að gefa börnum sínum jólagjafir, hvað þá að halda upp á þessa miklu hátíð. Það er aumt að sjá að vegna 17 aðstoðarmanna þurfi hæstv. ríkisstjórn að fá mikla peninga til að borga þeim laun en á sama tíma nær hæstv. félagsmálaráðherra því ekki fram að fá þær 240 milljónir sem minni hlutinn (Forseti hringir.) leggur til að verði settar inn í desemberuppbót. (Forseti hringir.) Þetta er nýtt, þetta var gert á mesta krepputímanum. (Forseti hringir.) En þegar farið er að birta til, á það þá að vera verk núverandi ríkisstjórnar að svíkja þetta og koma ekki með þá peninga inn? (BirgJ: Minnum á að ráðherrar eru …)



Brtt. 318,1 samþ. með 34:6 atkv. og sögðu

  já:  ÁsF,  BÁ,  BjarnB,  EKG,  ElH,  ELA,  FSigurj,  GÞÞ,  GBS,  HBK,  HarB,  HE,  HöskÞ,  IllG,  JónG,  JÞÓ,  LínS,  PJP,  PHB,  REÁ,  RR,  SDG,  SigrM,  SIJ,  SPJ,  SilG,  UBK,  ValG,  VigH,  VilÁ,  VilB,  WÞÞ,  ÞorS,  ÞórE.
nei:  ÁÞS,  BjG,  KJak,  LRM,  SSv,  ÖJ.
15 þm. (ÁPÁ,  BirgJ,  BjÓ,  BP,  GuðbH,  GStein,  HHG,  KaJúl,  KLM,  OH,  ÓP,  PVB,  RM,  SII,  VBj) greiddu ekki atkv.
8 þm. (BN,  EyH,  HHj,  JMS,  KG,  KÞJ,  SJS,  ÖS) fjarstaddir.

Brtt. 318,2 samþ. með 33:7 atkv. og sögðu

  já:  ÁsF,  BÁ,  BjarnB,  EKG,  ElH,  ELA,  FSigurj,  GÞÞ,  GBS,  HBK,  HarB,  HE,  HöskÞ,  IllG,  JónG,  LínS,  PJP,  PHB,  REÁ,  RR,  SDG,  SigrM,  SIJ,  SPJ,  SilG,  UBK,  ValG,  VigH,  VilÁ,  VilB,  WÞÞ,  ÞorS,  ÞórE.
nei:  ÁÞS,  BjG,  HHG,  KJak,  LRM,  SSv,  ÖJ.
16 þm. (ÁPÁ,  BirgJ,  BjÓ,  BP,  GuðbH,  GStein,  HHj,  JÞÓ,  KaJúl,  KLM,  OH,  ÓP,  PVB,  RM,  SII,  VBj) greiddu ekki atkv.
7 þm. (BN,  EyH,  JMS,  KG,  KÞJ,  SJS,  ÖS) fjarstaddir.
1 þm. gerði svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[12:43]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hér verða greidd atkvæði um allmarga liði sem eru merktir 2, 3, 5, 6, 7 og 8 á þessu plaggi. Við gerðum mjög skýra grein fyrir því í umræðum að við hefðum mjög miklar efasemdir um þetta vinnulag þar sem verið er annars vegar að blanda saman ólíkum liðum og færa á milli liða og hins vegar að færa útgjöld sem lágu fyrir á þessu ári yfir á næsta ár á sama tíma og fjárlög eru opin. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum gert miklar athugasemdir við þetta vinnulag og mér skilst að málið verði tekið til skoðunar í hv. fjárlaganefnd og Ríkisendurskoðun komi á þann fund til að kanna hvort slíkt vinnulag standist. Meðan það liggur ekki fyrir leggjumst við gegn þessu mixi.



Brtt. 318,3 samþ. með 32:6 atkv. og sögðu

  já:  ÁsF,  BÁ,  BjarnB,  EKG,  ElH,  ELA,  FSigurj,  GÞÞ,  GBS,  HBK,  HarB,  HE,  IllG,  JónG,  LínS,  PJP,  PHB,  REÁ,  RR,  SDG,  SigrM,  SIJ,  SPJ,  SilG,  UBK,  ValG,  VigH,  VilÁ,  VilB,  WÞÞ,  ÞorS,  ÞórE.
nei:  ÁÞS,  BjG,  KJak,  LRM,  SSv,  ÖJ.
17 þm. (ÁPÁ,  BirgJ,  BjÓ,  BP,  GuðbH,  GStein,  HHG,  HHj,  JÞÓ,  KaJúl,  KLM,  OH,  ÓP,  PVB,  RM,  SII,  VBj) greiddu ekki atkv.
8 þm. (BN,  EyH,  HöskÞ,  JMS,  KG,  KÞJ,  SJS,  ÖS) fjarstaddir.

[12:45]
Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við erum hér allnokkrir þingmenn og þar á meðal þingmenn Bjartrar framtíðar sem trúum því að eitt stærsta verkefni ríkisfjármála og þjóðfélagsins sé að afla tekna og að ein besta leiðin til að afla tekna í náinni framtíð og til langrar framtíðar sé að setja fé í rannsóknir, nýsköpun og þróun. Þess vegna var blásið til fjárfestingaráætlunar á síðasta kjörtímabili.

Það hefur vakið eftirtekt mína og margra annarra að það er nánast orðin sérstök pólitísk stefna hjá ríkisstjórninni, stjórnarmeirihlutanum, að reyna að koma í veg fyrir þessa áætluðu sókn til nýsköpunar og þróunar. Sóknin hefur mestmegnis verið afturkölluð. Það stóð til að afturkalla þessa sókn til rannsókna og nýsköpunar í fjáraukalögum sem voru tíðindi. En hér er ljóstíra. Hér er ákveðið að hætta við að hætta við, hætta við að skera niður þessa aukningu til Rannsóknasjóðs. Hér er sem sagt ríkisstjórnin að sjá að sér smá; og ég vona að við sjáum fleiri þannig tíðindi. En við styðjum þetta.



[12:47]
Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin er ekkert að sjá að sér. Hún gerði mistök þegar hún skilaði inn fjáraukalagafrumvarpi vegna þess að búið var að ráðstafa þessu fé og þess vegna þarf þetta að koma til baka. Það er einfaldlega þannig.

Það þarf langtímahugsun inn í okkar samfélag til að byggja hér upp vöxt. Við sáum í fréttum í morgun að búið er að blása af álverið í Helguvík af forstjóra Century Aluminum þannig að tími stóru skyndilausnanna er liðinn. Þá þurfum við þingmenn að standa saman um að tryggja vöxt inn í langa framtíð sem er studd af rannsóknum, vísindum og tækniþróun. Hér er þessi ríkisstjórn búin að taka ákvörðun um að gera það ekki heldur lækka einhverja skatta og vona það besta.

Allar mælingar sýna að svona fjármagn inn í samkeppnissjóðina skilar sér margfalt til baka þannig að ég tel ríkisstjórnina vera á rangri braut þegar hún er búin að taka ákvörðun um að halda þessum niðurskurði (Forseti hringir.) á næsta ári þó að hún sé (Forseti hringir.) nauðbeygð til að …



[12:48]
Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ríkisstjórnin og meiri hluti í fjárlaganefnd Alþingis lagði til að framlag til Rannsóknasjóðs yrði skert um 221 millj. kr., til Tækniþróunarsjóðs um 150 millj. kr. og til Markáætlunar á sviði vísinda og tækni um 200 millj. kr. Þessu var mótmælt mjög harðlega víða í þjóðfélaginu af hálfu Samtaka iðnaðarins, af hálfu vísindamanna, ekki síst ungra vísindamanna, og bent var á að þetta bæri vott um skammsýni og skilningsleysi á mikilvægi nýsköpunar. Andófið, gagnrýnin og málefnaleg umræða utan þings og hér í þingsal hefur nú skilað nokkrum árangri því að fallið hefur verið frá skerðingunni í Rannsóknasjóðinn og í Tækniþróunarsjóðinn en eftir stendur (Forseti hringir.) skerðingin í Markáætlun á sviði vísinda og tækni.

Ég fagna (Forseti hringir.) þeim breytingum sem gerðar hafa verið en minni á að til (Forseti hringir.) stendur að ræða fjárlagafrumvarpið því þar standa (Forseti hringir.) enn tillögur um skerðingar.



[12:50]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil taka fram að þessum fjármunum hafði ekki verið ráðstafað endanlega heldur var tekin sérstök ákvörðun um það milli umræðna að draga úr skerðingum og forgangsraða þegar dregið var úr sparnaðartillögum ríkisstjórnarinnar vegna ársins 2013, forgangsraða í þágu þessara sjóða. Það ætti ekki að koma neinum á óvart. Afkoman skánaði aðeins á tekjuhliðinni milli umræðna og það var ekki neitt ánægjuefni að leggja til að fallið yrði frá fyrri áformum um úthlutun úr Tækniþróunarsjóði og Rannsóknasjóði en í millitíðinni teljum við að svigrúm sé að skapast sem réttlæti að falla frá þessu og þá verður vonandi hægt að úthluta í samræmi við væntingar vegna umsókna á árinu 2013. Þetta hefur hins vegar ekkert með það að gera að tími skyndilausnanna sé liðinn, eins og hér kemur fram. Ég læt það reyndar koma mér á óvart að þingmenn Samfylkingarinnar — [Háreysti í þingsal.] sem studdu fjárfestingarsamning vegna álversins í Helguvík fyrir rétt rúmum fjórum árum síðan skuli nota þingið (Forseti hringir.) sem vettvang til að fagna því að illa gangi að klára verkefnið.



[12:51]
Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við vitum það úr fræðunum að samkeppnisforskoti til lengri tíma er aðeins náð með þekkingu. Við getum náð tímabundnu samkeppnisforskoti með lágum launum en ef hugsa á til lengri tíma er því náð með þekkingu. Það er því mjög gleðilegt að lækkun til Rannsóknasjóðs sé tekin til baka. Ég vona svo í ljósi þeirrar umræðu sem er í samfélaginu og þess að á vettvangi umræðu um aukna hagsæld á Íslandi o.s.frv. er talað um að við þurfum, ef við ætlum að ná þeim markmiðum sem þar eru sett fram, að tryggja stækkun alþjóðageirans á tímabilinu um 20% — því verður aðeins náð fram með nýsköpun. Ég vona að ríkisstjórnin gefi í. Ef hún ætlar að vera með fjárfestingar almennt til að byggja upp atvinnulífið verður hún að setja peningana sína þangað. Það er hið besta.



Brtt. 318,4 samþ. með 49 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ÁÞS,  ÁsF,  BÁ,  BirgJ,  BjG,  BjarnB,  BjÓ,  BP,  EKG,  ElH,  ELA,  EyH,  FSigurj,  GÞÞ,  GStein,  GBS,  HBK,  HarB,  HE,  HHG,  HöskÞ,  IllG,  JónG,  JÞÓ,  KJak,  LRM,  LínS,  ÓP,  PVB,  PJP,  PHB,  REÁ,  RR,  RM,  SDG,  SigrM,  SIJ,  SPJ,  SilG,  SSv,  UBK,  ValG,  VigH,  VilÁ,  VilB,  WÞÞ,  ÞorS,  ÞórE,  ÖJ.
8 þm. (ÁPÁ,  GuðbH,  HHj,  KaJúl,  KLM,  OH,  SII,  VBj) greiddu ekki atkv.
6 þm. (BN,  JMS,  KG,  KÞJ,  SJS,  ÖS) fjarstaddir.

Brtt. 318,5 samþ. með 34:6 atkv. og sögðu

  já:  ÁsF,  BÁ,  BjarnB,  EKG,  ElH,  ELA,  EyH,  FSigurj,  GÞÞ,  GBS,  HBK,  HarB,  HE,  HöskÞ,  IllG,  JónG,  LínS,  PJP,  PHB,  REÁ,  RR,  SDG,  SigrM,  SIJ,  SPJ,  SilG,  UBK,  ValG,  VigH,  VilÁ,  VilB,  WÞÞ,  ÞorS,  ÞórE.
nei:  ÁÞS,  BjG,  KJak,  LRM,  SSv,  ÖJ.
16 þm. (ÁPÁ,  BirgJ,  BjÓ,  BP,  GuðbH,  GStein,  HHG,  HHj,  JÞÓ,  KaJúl,  KLM,  ÓP,  PVB,  RM,  SII,  VBj) greiddu ekki atkv.
7 þm. (BN,  JMS,  KG,  KÞJ,  OH,  SJS,  ÖS) fjarstaddir.

Brtt. 318,6–7 samþ. með 34:7 atkv. og sögðu

  já:  ÁsF,  BÁ,  BjarnB,  EKG,  ElH,  ELA,  EyH,  FSigurj,  GÞÞ,  GBS,  HBK,  HarB,  HE,  HöskÞ,  IllG,  JónG,  LínS,  PJP,  PHB,  REÁ,  RR,  SDG,  SigrM,  SIJ,  SPJ,  SilG,  UBK,  ValG,  VigH,  VilÁ,  VilB,  WÞÞ,  ÞorS,  ÞórE.
nei:  ÁÞS,  BjG,  HHG,  KJak,  LRM,  SSv,  ÖJ.
16 þm. (ÁPÁ,  BirgJ,  BjÓ,  BP,  GuðbH,  GStein,  HHj,  JÞÓ,  KaJúl,  KLM,  OH,  ÓP,  PVB,  RM,  SII,  VBj) greiddu ekki atkv.
6 þm. (BN,  JMS,  KG,  KÞJ,  SJS,  ÖS) fjarstaddir.
1 þm. gerði svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[12:53]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er að finna þessa undarlegu liði sem lúta að því sem hefur verið kallað skítabix af hálfu menntamálaráðuneytisins í umræðu um fjáraukalögin, þar sem verið er að flytja til fjárheimildir sem eiga að vera til verkefna á yfirstandandi ári yfir á næsta ár í allt önnur verkefni. Meiri hluti fjárlaganefndar átelur það harðlega en flytur samt þessa tillögu.

Það er auðvitað saga til næsta bæjar að meiri hlutinn skuli með þessum hætti setja ofan í við menntamálaráðherrann og það er ljóst af málatilbúnaði meiri hlutans að hér er gengið í það minnsta mjög nærri fjárreiðulögum ef þau eru ekki klárlega brotin því að verið er að flytja fjárheimildir milli ára sem er ekki heimilt að gera. Ráðherrann hefur ekki séð sóma sinn í að koma hingað inn í þingið og útskýra þau verkefni sem hann er að setja mörg hundruð milljónir í og (Forseti hringir.) hann hefur ekki heldur komið með formlegar fjárlagatillögur. Ég held að óhjákvæmilegt sé vegna þessa máls, fyrst stjórnarmeirihlutinn ætlar að samþykkja þetta, að málið verði kallað inn til nefndarinnar milli umræðna og fulltrúar Ríkisendurskoðunar — (Gripið fram í.) ég veit það — geti sagt álit sitt á þessu. (Gripið fram í.)Já, já og ég þakka það.



Brtt. 318,8 samþ. með 34:6 atkv. og sögðu

  já:  ÁsF,  BÁ,  BjarnB,  EKG,  ElH,  ELA,  EyH,  FSigurj,  GÞÞ,  GBS,  HBK,  HarB,  HE,  HöskÞ,  IllG,  JónG,  LínS,  PJP,  PHB,  REÁ,  RR,  SDG,  SigrM,  SIJ,  SPJ,  SilG,  UBK,  ValG,  VigH,  VilÁ,  VilB,  WÞÞ,  ÞorS,  ÞórE.
nei:  ÁÞS,  BjG,  HHG,  KJak,  LRM,  SSv.
15 þm. (ÁPÁ,  BirgJ,  BjÓ,  BP,  GuðbH,  GStein,  HHj,  JÞÓ,  KaJúl,  OH,  ÓP,  PVB,  RM,  SII,  VBj) greiddu ekki atkv.
8 þm. (BN,  JMS,  KG,  KÞJ,  KLM,  SJS,  ÖJ,  ÖS) fjarstaddir.

[12:56]
Vigdís Hauksdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um það að árið 2009 átti sér stað fjárdráttur í sendiráðinu í Vín upp á 50 milljónir. Ekkert hefur fengist upp í þær kröfur og viðkomandi aðili hefur lýst sig gjaldþrota. Tap ríkisins er því nú þegar 50 milljónir vegna þessa atburðar.

Í þessu frumvarpi er lagt til að utanríkisráðuneytið fái skaðann bættan af skattfé landsmanna upp á nýjar 47,5 milljónir. Samtals er því skaðinn fyrir skattgreiðendur 100 milljónir.

Við í meiri hluta fjárlaganefndar teljum að hér sé verið að skapa fordæmi fyrir því að fjárveitingavaldið samþykki að fjárdráttur hjá ríkinu sé í lagi. Því lögðum við til þessa breytingartillögu, að utanríkisráðuneytið sjálft beri þann kostnað eins og aðrar ríkisstofnanir sem hafa lent í áþekkum aðstæðum. Þetta er skýrt, virðulegi forseti, meiri hluti fjárlaganefndar lagði því fram þá breytingartillögu að þessi ósk yrði dregin til baka.



[12:57]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við erum á móti þessari breytingartillögu meiri hlutans. Þarna er um að ræða, mundi ég segja, raunverulega ófyrirsjáanlegt atvik, fjárdrátt, og það tók mörg ár að koma í ljós hvort eitthvað fengist upp í kröfuna. Miðað við þá ótal liði í þessu fjáraukalagafrumvarpi sem snúa að hefðbundinni íslenskri framúrkeyrslu finnst mér mjög skrýtið að meiri hlutinn hafni þessari beiðni utanríkisráðuneytisins.(Gripið fram í.)



[12:58]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér í þessari atkvæðagreiðslu að taka undir með hæstv. utanríkisráðherra sem tjáði sig um þetta mál í umræðum um málið og sagði að það hlytu að vera mistök hjá meiri hluta fjárlaganefndar að leggja þessa tillögu til. Hér er um mjög sorglegan atburð að ræða sem menn eiga kannski ekki að hafa mörg orð um. Þetta er skaði sem við verðum öll fyrir sem skattgreiðendur og það er lítið annað að gera en taka hann inn og láta hann ekki lenda á annarri starfsemi utanríkisráðuneytisins. Það er mjög sérkennileg meðferð og ég held að hún sé óvenjuleg.

Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði greiðum atkvæði gegn þessari tillögu og vonumst til þess að meiri hluti þingsins geri það sömuleiðis.



[12:59]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það sem þessi liður fjallar um er orðinn atburður. Í sjálfu sér kýs ég að líta þannig á að atkvæðagreiðslan snúist um það hvort við förum fram á við utanríkisráðuneytið að það, samhliða öðrum aðhaldsaðgerðum, leiti færa á því að hagræða þrátt fyrir það tap sem af þessum atburði leiðir.

Menn geta síðan haft ólíkar skoðanir á því á hvaða forsendum það er gert en með því að samþykkja tillögu nefndarinnar er farið fram á það við utanríkisþjónustuna almennt að menn leiti leiða til að jafna því tapi sem þarna á sér stað út á starfsemina í heild sinni. Í ljósi heildarumfangs utanríkisþjónustunnar á það alveg að vera mögulegt. En við höfum hins vegar reynslu af því úr fortíðinni að hafa þurft að safna saman og sópa upp fyrri aðhaldskröfum og tíminn verður þá bara að leiða í ljós hvernig til tekst með þetta tilvik.



Brtt. 318,9 samþ. með 36:12 atkv. og sögðu

  já:  ÁsF,  BÁ,  BjarnB,  EKG,  ElH,  ELA,  EyH,  FSigurj,  GÞÞ,  GBS,  HBK,  HarB,  HE,  HHG,  HöskÞ,  IllG,  JónG,  JÞÓ,  LínS,  PJP,  PHB,  REÁ,  RR,  SDG,  SigrM,  SIJ,  SPJ,  SilG,  UBK,  ValG,  VigH,  VilÁ,  VilB,  WÞÞ,  ÞorS,  ÞórE.
nei:  ÁÞS,  BjG,  BjÓ,  BP,  GStein,  KJak,  LRM,  ÓP,  PVB,  RM,  SSv,  ÖJ.
9 þm. (ÁPÁ,  BirgJ,  GuðbH,  HHj,  KaJúl,  KLM,  OH,  SII,  VBj) greiddu ekki atkv.
6 þm. (BN,  JMS,  KG,  KÞJ,  SJS,  ÖS) fjarstaddir.
2 þm. gerðu svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[13:00]
utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég sagði í gær að þetta hlyti að vera misskilningur eða mistök hjá meiri hluta fjárlaganefndar og ég held að enn sé það þannig og ítreka enn þá ósk mína um að fá að koma fyrir nefndina og fjalla um málið þar.

Ég mun samþykkja þetta í þessari atkvæðagreiðslu (Gripið fram í.) en ég óska eftir því að koma fyrir nefndina og fá skýringu hjá henni því það er alveg nýtt að fjárlaganefnd taki að sér að gerast líka dómsvald.



[13:01]
Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé algerlega fordæmalaust að ráðuneytið sé látið taka svona niðurstöðu inn í sinn rekstur. Ég velti því þá fyrir mér hvort hv. fjárlaganefnd þurfi ekki að setja einhverjar almennar reglur og almenn viðmið vegna þess að út um allt í okkar stofnunum lenda þær í dómsmálum og hafa stundum rangt fyrir sér fyrir dómi og þurfa að greiða bætur. Við erum með mörg nýleg dæmi, m.a. vegna gangagerða og fleira slíkt. Þess vegna tel ég eðlilegast, heiðarlegast og gagnsæjast, ef menn eru að fara að taka upp svona vinnubrögð og viðbrögð við svona vondum og leiðinlegum málum — og í raun og veru hafði ráðuneytið ekki mikið um þetta að segja — að fjárlaganefnd geri að minnsta kosti grein fyrir því hvernig hún ætli að taka á svona málum og sambærilegum málum til framtíðar litið þannig að menn hafi þá vitneskju um það fyrir fram.



Brtt. 318,10–11 samþ. með 39 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ÁÞS,  ÁsF,  BÁ,  BjG,  BjarnB,  EKG,  ElH,  ELA,  EyH,  FSigurj,  GÞÞ,  GBS,  HBK,  HarB,  HE,  HöskÞ,  IllG,  JónG,  KJak,  LRM,  PJP,  PHB,  REÁ,  RR,  SDG,  SigrM,  SIJ,  SPJ,  SilG,  SSv,  UBK,  ValG,  VigH,  VilÁ,  VilB,  WÞÞ,  ÞorS,  ÞórE,  ÖJ.
17 þm. (ÁPÁ,  BirgJ,  BjÓ,  BP,  GuðbH,  GStein,  HHG,  HHj,  JÞÓ,  KaJúl,  KLM,  OH,  ÓP,  PVB,  RM,  SII,  VBj) greiddu ekki atkv.
7 þm. (BN,  JMS,  KG,  KÞJ,  LínS,  SJS,  ÖS) fjarstaddir.

[13:03]
Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er aftur að gerast það sama með Rannsóknasjóð; þ.e. að menn gerðu mistök þegar þeir skiluðu inn fjáraukalagafrumvarpinu sem hér er verið að leiðrétta. Það er því verið að færa útgjöldin á þessu ári í sama horf og lagt hafði verið upp með vegna þess að úthlutunarferlið var farið af stað.

Ég verð að nefna það hér — vegna þess að það er engin stefnubreyting fólgin í þessu. Við sjáum að menn ætla að halda áfram af fullum krafti að skera niður Tækniþróunarsjóð á næsta ári. Það felur að mínu mati í sér fullkomna skammsýni og fullkomlega er verið að grafa undan framtíðarvexti í útflutningsgreinum á Íslandi.

Það kom frétt í gær sem sýndi okkur að hjá13 fyrirtækjum sem fengu úthlutað úr Tækniþróunarsjóði árið 2005 þá jókst heildarvelta þeirra frá þeim tíma frá 20 milljörðum upp í 118 milljarða kr. Tækniþróunarsjóður skiptir máli til að styðja við nýsköpun í landinu. Hann skiptir máli til að styðja við vöxt í samfélaginu til lengri tíma. Þess vegna tel ég að ríkisstjórnin sé á kolrangri braut með þessum niðurskurðarákvörðunum sínum.



[13:04]
Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég kýs að líta á þetta sem jákvæð teikn um leið og ég harma skort á frekari jákvæðum teiknum hvað varðar framlög til rannsókna, nýsköpunar og þróunar. Ég harma það mjög að það er verið að bakka nánast alfarið með fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar sem snerist um fjárfestingu í þessum greinum.

Við verðum að kunna að gera greinarmun á hefðbundnum útgjöldum, rekstrarútgjöldum, og fjárfestingum. Fjárfestingar geta verið skynsamlegar og óskynsamlegar. Ég held að það þyki alveg sýnt að fjárfestingar í Tækniþróunarsjóði, framlög ríkisins til hans, skili sér margfalt til baka í beinum framlögum í ríkissjóð og einnig í hálaunastörfum, fjölbreyttara atvinnulífi, meiri útflutningi — styrkari stoðum undir efnahagslífið. Þetta er skynsamleg fjárfesting.

Ég ætla að nota þetta tækifæri til að hvetja ríkisstjórnina til að setja fjárfestingaráætlunina (Forseti hringir.) aftur inn í fjárlög, þótt ekki væri nema bara varðandi þessa liði, framlög til rannsókna, nýsköpunar og þróunar.



[13:06]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég verð að leyfa mér að segja að það er undarlegt að hlusta á fyrrverandi hæstv. iðnaðarráðherra, Katrínu Júlíusdóttur, ræða um mikilvægi nýsköpunar, framþróunar og sýnar inn í framtíðina og sjá svo alla þingmenn Samfylkingarinnar sitja hjá þegar verið er að setja inn þessa fjármuni, sitja hjá og hafa ekki einu sinni döngun í sér til að styðja það sem þeir þó settu fram sjálfir. (Gripið fram í.) Það er eiginlega furðulegt (Gripið fram í: … breyta þessu.) að fylgjast með þessu.



[13:07]
iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég verð að taka undir með nöfnu minni, hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur, það er hálfhjákátlegt að sjá hæstv. fyrrverandi iðnaðarráðherra koma hingað og tala um að hæstv. ríkisstjórn sé á kolrangri braut þegar verið er að tryggja að þeir fjármunir sem gert hafði verið ráð fyrir í Tækniþróunarsjóði fyrir árið í ár verði þar. (Gripið fram í: Hvað ætlið …?) Svo vogar hv. þingmaður sér að bæta um betur með því að sitja hjá. Hún getur ekki einu sinni stutt þessa tillögu. Þetta finnst mér hræsni, virðulegur forseti. (Gripið fram í: Hvað ætlið þið að gera …?)

Eins og margoft hefur komið fram í mínu máli og fleiri ráðherra ríkisstjórnarinnar er Tækniþróunarsjóður afskaplega mikilvægur. Það er mikilvægt að við stöndum vel að baki honum. Við viljum gera það með fjármunum sem við eigum til. Það er ekkert fengið með því að taka fjármuni að láni til að styðja við fjárfestingu, sama hversu góð sem hún er. Ég get þó fullvissað hv. þingmann og þingheim um (Forseti hringir.) að það stendur ekki til að falla frá stuðningi við Tækniþróunarsjóð. (Forseti hringir.) Ég vek athygli á því að ef menn víkja frá útbólgnu árinu 2013 er verið að auka (Forseti hringir.) framlög til þessa mikilvæga málaflokks og það verður gert þegar við erum búin að koma rekstri ríkissjóðs fyrir vind.

(Forseti (EKG): Forseti vill árétta og biðja hv. þingmenn og hæstv. ráðherra að virða tímamörk í umræðunni.)



[13:09]
Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs munum að sjálfsögðu styðja þessa tillögu (Gripið fram í.) því að það skiptir gríðarlegu máli að við í þessum sal ræðum um það hvernig við viljum byggja upp atvinnu til framtíðar. Það skiptir gríðarlegu máli að við byggjum upp atvinnu sem ekki gengur um of á takmarkaðar auðlindir okkar. Það er lykilatriði ef við ætlum að byggja hérna sjálfbært samfélag og þess vegna skiptir fjárfesting í rannsóknum og nýsköpun öllu máli. Það þarf ekkert að leita víða fanga í þeim rannsóknum sem gerðar hafa verið, fjárfesting í rannsóknum og nýsköpun skilar sér beint í aukinni hagsæld fyrir samfélagið þannig að við styðjum þetta og vonumst til þess að breytingar verði líka gerðar á þeim breytingum sem eru lagðar til á markáætlun í þessu fjáraukalagafrumvarpi og vonumst til þess að þegar fjárlögin verða tekin til umræðu verði haldið áfram að efla rannsóknir og nýsköpun í fjárlögum næsta árs.



[13:10]
Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Nýsköpun og sprotafyrirtæki eru grundvallaratriði fyrir alþjóðlega geirann, þ.e. geira þeirra fyrirtækja sem eru ekki föst á Íslandi vegna auðlinda eða slíks. Þau geta flutt sig til útlanda. Það er gríðarlega mikilvægt að ný fyrirtæki komi upp og að við fjárfestum í nýsköpun.

Ég mun að sjálfsögðu greiða atkvæði með því að ekki verði skorið niður í Tækniþróunarsjóði.

Ég bendi Sjálfstæðisflokknum sérstaklega á að hann tók í sumar slæma efnahagsákvörðun. Sá geiri atvinnulífsins sem hvað best gæti staðið undir skattlagningu, sjávarútvegurinn, var ekki skattlagður, þ.e. fallið var frá þessum sérstöku veiðigjöldum, þannig að Sjálfstæðisflokkurinn hefur svolítið að vinna þegar kemur að góðum efnahagsákvörðunum. Þetta er skref í rétta átt og ég vona að Sjálfstæðisflokkurinn taki forustu í því að efla nýsköpun á Íslandi eins mikið og hægt er. Til frambúðar er þetta góð fjárfesting, (Forseti hringir.) jafnvel þótt taka þurfi svolítið lán fyrir henni. Það þarf að passa sig sérstaklega á því að (Forseti hringir.) pissa ekki í skóinn sinn hvað þetta varðar.



[13:11]
Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er engin ástæða til að greiða atkvæði með ríkisstjórnarmeirihlutanum í þessu máli því að hann er ekki að breyta um stefnu á nokkurn hátt. (Gripið fram í.) Hann er að hrekjast út í horn undan eigin mistökum (Gripið fram í: Rangt.) og það er engin ástæða til að verðlauna hann fyrir það. [Kliður í þingsal.]

Þessi ríkisstjórnarmeirihluti skilur ekki hugmyndina um fjárfestingar í framtíðinni. Hér heyrum við sönginn frá ráðherrunum aftur og aftur: Það eru ekki til peningar. Það eru ekki til peningar.

Það er ekki til neitt verkefni sem betra er til þess fallið að taka lán fyrir hjá framtíðinni en fjárveitingar í Tækniþróunarsjóð. Ef við horfum á fyrirtækin sem fengu framlög úr Tækniþróunarsjóði 2005 sést að starfsmannafjöldinn árið 2012 hefur farið úr 500 í 1.000. Framlög ríkisins hafa komið til baka 20- til 40-falt. (Gripið fram í: Frábært.) Það er ekkert verkefni betra en þetta. (Gripið fram í.) Þessi afstaða ríkisstjórnarinnar sýnir hins vegar að hún skilur ekki neitt annað en kyrrstöðu og fábreytni í atvinnulífi. (Gripið fram í: Og þess vegna sitjið þið hjá!)



[13:13]
Helgi Hjörvar (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það væri óskandi að hér væri stefnubreyting á ferð. Svo er ekki. Hér er stjórnarmeirihlutinn að leiðrétta sín eigin mistök vegna þess að hann kom einfaldlega ekki fram þeim niðurskurði sem hann ætlaði.

Að leiðrétta sín eigin mistök verður að vera á ábyrgð stjórnarmeirihlutans. Það er ákaflega fallegt af hluta stjórnarandstöðunnar að vilja hjálpa ríkisstjórninni við að leiðrétta mistök sín, en það teljum við að hún verði bara sjálf að gera (Gripið fram í: …tillögur.) og þeir sem samþykktu þessar fjárveitingar í upphafi sem stjórnarmeirihluti hér og samþykktu sóknaráætlun og samþykktu framlög til nýsköpunar þurfa ekkert að sanna hvar þeir standa í þessum málum með því að hjálpa ríkisstjórninni út úr vandræðum sínum. Við höfum staðið með nýsköpunar-, tækniþróunar- og rannsóknasjóðum alla tíð. [Háreysti í þingsal.] (Gripið fram í: Þar til nú.)



[13:14]
Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseti vekur enn á ný athygli á því að ræður eru fluttar úr ræðustólnum. Forseti hefur tekið eftir því að hv. þingmenn eru ákaflega duglegir að gera það í atkvæðaskýringum og ættu þess vegna ekki að þurfa að flytja ræður sínar úr þingsal. [Hlátur í þingsal.]



[13:14]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Mér finnst alltaf svolítið skrýtið þegar fólk er skammað fyrir að gera rétt, jafnvel þótt það hafi gert mistök þar áður, (Gripið fram í: Heyr, heyr.) þannig að ég ætla að láta það eiga sig að skamma hæstv. ríkisstjórn að þessu sinni. Ég vil bara nefna sérstaklega að þegar kemur að rannsóknum er svolítið erfitt að sjá fyrir fram nákvæmlega hvað muni koma út úr þeim. Það er eðli vísindarannsókna að maður veit ekki fyrir fram hvað gerist. Af þeirri ástæðu er ofboðslega mikilvægt að ríkið styðji við vísindarannsóknir umfram einkaaðila. Einkaaðilar þurfa að sjá fyrir fram hvað þeir ætla að gera og hvernig þeir ætla að hagnast. Þegar kemur að tækniþróun er það einfaldlega ekki alltaf sagan að verkefnið gangi upp og þess vegna er mjög mikilvægt að við styðjum við þennan mikilvæga málaflokk.

Því mun ég að sjálfsögðu greiða atkvæði með tillögunni og þakka hæstv. ríkisstjórn fyrir að sjá að sér.



Brtt. 318,12 samþ. með 47 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ÁÞS,  ÁsF,  BÁ,  BirgJ,  BjG,  BjarnB,  BjÓ,  BP,  EKG,  ElH,  ELA,  EyH,  FSigurj,  GÞÞ,  GStein,  GBS,  HBK,  HarB,  HE,  HHG,  HöskÞ,  JónG,  JÞÓ,  KJak,  LRM,  LínS,  ÓP,  PVB,  PJP,  PHB,  REÁ,  RR,  RM,  SigrM,  SIJ,  SPJ,  SilG,  SSv,  UBK,  ValG,  VigH,  VilÁ,  VilB,  WÞÞ,  ÞorS,  ÞórE,  ÖJ.
8 þm. (ÁPÁ,  GuðbH,  HHj,  KaJúl,  KLM,  OH,  SII,  VBj) greiddu ekki atkv.
8 þm. (BN,  IllG,  JMS,  KG,  KÞJ,  SDG,  SJS,  ÖS) fjarstaddir.

Brtt. 318,13–14 samþ. með 38 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ÁÞS,  ÁsF,  BÁ,  BjG,  BjarnB,  EKG,  ElH,  ELA,  EyH,  FSigurj,  GÞÞ,  GStein,  GBS,  HBK,  HarB,  HE,  HöskÞ,  IllG,  JónG,  KJak,  LRM,  LínS,  PJP,  PHB,  REÁ,  RR,  SigrM,  SIJ,  SPJ,  SilG,  UBK,  ValG,  VigH,  VilÁ,  VilB,  WÞÞ,  ÞorS,  ÞórE.
15 þm. (ÁPÁ,  BirgJ,  BjÓ,  BP,  GuðbH,  HHG,  HHj,  JÞÓ,  KaJúl,  KLM,  OH,  ÓP,  RM,  SII,  VBj) greiddu ekki atkv.
10 þm. (BN,  JMS,  KG,  KÞJ,  PVB,  SDG,  SJS,  SSv,  ÖJ,  ÖS) fjarstaddir.

Brtt. 318,15 samþ. með 34 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ÁsF,  BÁ,  BjarnB,  EKG,  ElH,  ELA,  EyH,  FSigurj,  GÞÞ,  HBK,  HarB,  HE,  HöskÞ,  IllG,  JónG,  LínS,  PVB,  PJP,  PHB,  REÁ,  RR,  SDG,  SigrM,  SIJ,  SPJ,  SilG,  UBK,  ValG,  VigH,  VilÁ,  VilB,  WÞÞ,  ÞorS,  ÞórE.
22 þm. (ÁPÁ,  ÁÞS,  BirgJ,  BjG,  BjÓ,  BP,  GuðbH,  GStein,  HHG,  HHj,  JÞÓ,  KJak,  KaJúl,  KLM,  LRM,  OH,  ÓP,  RM,  SII,  SSv,  VBj,  ÖJ) greiddu ekki atkv.
7 þm. (BN,  GBS,  JMS,  KG,  KÞJ,  SJS,  ÖS) fjarstaddir.

Brtt. 318,16 samþ. með 34:14 atkv. og sögðu

  já:  ÁsF,  BÁ,  BjarnB,  EKG,  ElH,  ELA,  EyH,  FSigurj,  GÞÞ,  GBS,  HBK,  HarB,  HE,  HöskÞ,  IllG,  JónG,  LínS,  PJP,  PHB,  REÁ,  RR,  SDG,  SigrM,  SIJ,  SPJ,  SilG,  UBK,  ValG,  VigH,  VilÁ,  VilB,  WÞÞ,  ÞorS,  ÞórE.
nei:  ÁÞS,  BjG,  BjÓ,  BP,  GStein,  HHG,  JÞÓ,  KJak,  LRM,  ÓP,  PVB,  RM,  SSv,  ÖJ.
9 þm. (ÁPÁ,  BirgJ,  GuðbH,  HHj,  KaJúl,  KLM,  OH,  SII,  VBj) greiddu ekki atkv.
6 þm. (BN,  JMS,  KG,  KÞJ,  SJS,  ÖS) fjarstaddir.

Brtt. 318,17–19 samþ. með 41 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ÁÞS,  ÁsF,  BÁ,  BjG,  BjarnB,  EKG,  ElH,  ELA,  EyH,  FSigurj,  GÞÞ,  GBS,  HBK,  HarB,  HE,  HöskÞ,  IllG,  JónG,  KJak,  LRM,  LínS,  PVB,  PJP,  PHB,  REÁ,  RR,  SDG,  SigrM,  SIJ,  SPJ,  SilG,  SSv,  UBK,  ValG,  VigH,  VilÁ,  VilB,  WÞÞ,  ÞorS,  ÞórE,  ÖJ.
16 þm. (ÁPÁ,  BirgJ,  BjÓ,  BP,  GuðbH,  GStein,  HHG,  HHj,  JÞÓ,  KaJúl,  KLM,  OH,  ÓP,  RM,  SII,  VBj) greiddu ekki atkv.
6 þm. (BN,  JMS,  KG,  KÞJ,  SJS,  ÖS) fjarstaddir.

Brtt. 318,20 samþ. með 40 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ÁÞS,  ÁsF,  BÁ,  BjG,  BjarnB,  EKG,  ElH,  ELA,  EyH,  FSigurj,  GÞÞ,  GBS,  HBK,  HarB,  HE,  HöskÞ,  IllG,  JónG,  KJak,  LRM,  LínS,  PJP,  PHB,  REÁ,  RR,  SDG,  SigrM,  SIJ,  SPJ,  SilG,  SSv,  UBK,  ValG,  VigH,  VilÁ,  VilB,  WÞÞ,  ÞorS,  ÞórE,  ÖJ.
15 þm. (ÁPÁ,  BirgJ,  BjÓ,  BP,  GuðbH,  GStein,  HHG,  JÞÓ,  KaJúl,  KLM,  OH,  ÓP,  PVB,  RM,  VBj) greiddu ekki atkv.
8 þm. (BN,  HHj,  JMS,  KG,  KÞJ,  SII,  SJS,  ÖS) fjarstaddir.

Brtt. 318,21–22 samþ. með 34 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ÁsF,  BÁ,  BjarnB,  EKG,  ElH,  ELA,  EyH,  FSigurj,  GÞÞ,  GBS,  HBK,  HarB,  HE,  HöskÞ,  IllG,  JónG,  LínS,  PJP,  PHB,  REÁ,  RR,  SDG,  SigrM,  SIJ,  SPJ,  SilG,  UBK,  ValG,  VigH,  VilÁ,  VilB,  WÞÞ,  ÞorS,  ÞórE.
23 þm. (ÁPÁ,  ÁÞS,  BirgJ,  BjG,  BjÓ,  BP,  GuðbH,  GStein,  HHG,  HHj,  JÞÓ,  KJak,  KaJúl,  KLM,  LRM,  OH,  ÓP,  PVB,  RM,  SII,  SSv,  VBj,  ÖJ) greiddu ekki atkv.
6 þm. (BN,  JMS,  KG,  KÞJ,  SJS,  ÖS) fjarstaddir.

Brtt. 318,23–24 samþ. með 41 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ÁÞS,  ÁsF,  BÁ,  BjG,  BjarnB,  EKG,  ElH,  ELA,  EyH,  FSigurj,  GÞÞ,  GBS,  HBK,  HarB,  HE,  HHG,  HöskÞ,  IllG,  JónG,  KJak,  LRM,  LínS,  PJP,  PHB,  REÁ,  RR,  SDG,  SigrM,  SIJ,  SPJ,  SilG,  SSv,  UBK,  ValG,  VigH,  VilÁ,  VilB,  WÞÞ,  ÞorS,  ÞórE,  ÖJ.
16 þm. (ÁPÁ,  BirgJ,  BjÓ,  BP,  GuðbH,  GStein,  HHj,  JÞÓ,  KaJúl,  KLM,  OH,  ÓP,  PVB,  RM,  SII,  VBj) greiddu ekki atkv.
6 þm. (BN,  JMS,  KG,  KÞJ,  SJS,  ÖS) fjarstaddir.
1 þm. gerði svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[13:18]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Sú var tíðin að menn ræddu ekki fjáraukalög. Það var eiginlega bara ég sem stóð hérna, jafnvel sem stjórnarþingmaður, og nuddaðist í því að ekki væri allt ófyrirséð í fjáraukalögunum en þar eiga bara að vera ófyrirséð atriði og hér fjöllum við einmitt um ófyrirséða hlutann. En við fjöllum líka um stóraukningu á vaxtagreiðslum ríkissjóðs. Það er ástæðan fyrir því að ekki er til peningur fyrir öll þessi feiknagóðu mál sem menn hafa verið að mæla með hérna. (Gripið fram í.)

Það vantar pening, það er bara þannig. Það vantar pening í ríkissjóð til að standa undir öllum þessum góðu málum og alveg sérstaklega vantar pening fyrir vaxtagreiðslunum. Við Íslendingar erum að borga gífurlegar fjárhæðir í vaxtagreiðslur á ári hverju, óþolandi mikið, og við verðum að taka okkur tak og reyna að halda aga í fjármálum, reyna að gæta að útgjöldunum og greiða eingöngu það allra nauðsynlegasta. Ég segi já við þessari tillögu. (ÖJ: Það var ríkisstjórnin sem var ófyrirséð.)



 Liðir 01-238 og 01-305 samþ. með 33:15 atkv. og sögðu

  já:  ÁsF,  BÁ,  EKG,  ElH,  ELA,  EyH,  FSigurj,  GÞÞ,  GBS,  HBK,  HarB,  HE,  HöskÞ,  IllG,  JónG,  LínS,  PJP,  PHB,  REÁ,  RR,  SDG,  SigrM,  SIJ,  SPJ,  SilG,  UBK,  ValG,  VigH,  VilÁ,  VilB,  WÞÞ,  ÞorS,  ÞórE.
nei:  ÁÞS,  BirgJ,  BjG,  BjÓ,  BP,  GStein,  HHG,  JÞÓ,  KJak,  LRM,  ÓP,  PVB,  RM,  SSv,  ÖJ.
7 þm. (ÁPÁ,  GuðbH,  HHj,  KaJúl,  OH,  SII,  VBj) greiddu ekki atkv.
8 þm. (BjarnB,  BN,  JMS,  KG,  KÞJ,  KLM,  SJS,  ÖS) fjarstaddir.
5 þm. gerðu svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[13:20]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er ríkisstjórnin að farga enn einu framfaramálinu með því að leggja af fjárveitingar til græna hagkerfisins sem er vel að merkja stefnumörkun sem var unnin hér á síðasta kjörtímabili í þverpólitískri samvinnu allra flokka og gerð verkáætlun með samhljóða samþykki allra viðstaddra þingmanna.

Þarna hefur legið fjárheimild á þessu ári upp á 280 millj. kr. í forsætisráðuneytinu sem hefði verið hægt að nýta fyrir ríkisstjórn sem hefði raunverulega haft áhuga á fjárfestingu en ekki kyrrstöðu.

Hér er síðan búinn til nýr fjárlagaliður, nafnið Græna hagkerfið hengt á nýjan fjárlagalið um verkefni tengd vernd sögulegra og menningartengdra byggða og fornleifa. Allir fjármunirnir á þeim lið eiga að fara í minjaverkefni af ýmsum toga. Ég græt ekki (Forseti hringir.) að gert sé vel við þau verkefni, en það sýnir kaldhæðnina að menn skuli (Forseti hringir.) hengja merkimiða græns hagkerfis á það þegar þeir ákveða að stúta því.



[13:22]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Þessi ráðstöfun þykir mér slæm, þ.e. í fyrsta lagi að fella niður fjárheimildir á liðnum Græna hagkerfið sem hér myndaðist mikil þverpólitísk samstaða um og er ekkert einsdæmi fyrir Ísland heldur er í umræðunni alls staðar á Norðurlöndum og í Evrópu hvernig við getum unnið að því að grænka atvinnulíf okkar og tengist því sem ég sagði áðan að byggja upp sjálfbæran vöxt.

Mér finnst líka einkennileg ráðstöfun að leggja til í raun aukafjárveitingar til Þjóðminjasafns Íslands og Minjastofnunar Íslands, sem ég skil mætavel þörfina á, en fela þær undir lið sem heitir Græna hagkerfið og verkefni tengd vernd sögulegra og menningartengdra byggða og fornleifa o.fl., eða Græna hagkerfið og alls konar eins og þessi liður er farinn að kallast í almennu máli.

Mér finnst þetta sérkennilegt. Ég hefði frekar viljað sjá þær fjárveitingar merktar fyrir það sem þær eru. Ég mundi styðja þær fjárveitingar en það væri miklu eðlilegra að hafa þær bara uppi á borðum.



[13:23]
Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Við í Bjartri framtíð greiðum atkvæði gegn þessum lið. Hér er verið að taka þriggja ára þverpólitískt verkefni með fjölmörgum góðum hugmyndum og kasta því út um gluggann og búa til nýjan lið sem heitir Græna hagkerfið og verkefni tengd vernd sögulegra og menningartengdra byggða og fornleifa o.fl., og það er akkúrat ekkert í því verkefni sem getur kallast grænt. Þetta er algerlega fáránleg aðgerð sem hér er verið að framkvæma, búa til húsafriðunarnefnd undir forsætisráðuneytið. Við megum þakka fyrir að hæstv. forsætisráðherra hefur ekki áhuga á veðri sérstaklega, þá mundi hann færa Veðurstofuna undir forsætisráðuneytið.

Þetta er ákaflega einkennileg stjórnsýsla sem hér er á ferð, að eitthvert sérstakt áhugamál hæstv. forsætisráðherra sé tekið og fært undir hans ráðuneyti. Hvers lags stjórnsýsla er það? Við segjum nei.



[13:24]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég er að reyna að átta mig á því hvar græna hagkerfið er í lið 01-305 og hef komist á þá skoðun að þetta hljóti að vera framsóknargræna hagkerfið því ég sé ekki neina samtengingu við græna hagkerfið sem var samþykkt hér af öllum þingmönnum, frábær þverpólitísk vinna sem átti sér stað í því verkefni sem var svo sannarlega skref fram á við. Við erum núna að stíga skref aftur á bak og það er miður.

Ég mundi vilja heyra hæstv. forsætisráðherra útskýra hvað er grænt í tengslum við grænt hagkerfi í lið 01-305 og af hverju ákveðið var að fara aftur á bak í staðinn fyrir fram og vera jafningjar frænda okkar á Norðurlöndum í nýfjárfestingum og nýrri sýn.



[13:25]
Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hér er dæmi um afar sjúskaða vinnu því hérna er felldur niður liðurinn Græna hagkerfið með þeim orðum, sem koma örugglega milli 200 og 300 sinnum fyrir í fjáraukalagafrumvarpinu, að forsendur um fjármögnun gangi ekki eftir, það vanti peningana. Svo kemur þessi furðuliður númer 01-305 sem er stærsta ráðherraskúffan í Stjórnarráðinu. Það er skúffa hæstv. forsætisráðherra utan um gæluverkefni hans og forgangsverkefni, mörg örugglega verðug en ég veit ekki um neinn annan ráðherra sem er með 165,5 millj. kr. skúffu í sínu ráðuneyti og svo er hér fjárlagaliður sem er eins og niðursoðin útgáfa af stefnuræðu forsætisráðherra.

Þessi vinnubrögð eru með algerum ólíkindum og ekki til marks um gagnsæi heldur einhverja algerlega furðulega nálgun sem er ekki sómi að og á ekkert skylt við þá mikilvægu (Forseti hringir.) og tímamarkandi þverpólitísku samstöðu sem hér náðist í í þinginu um grænt hagkerfi.



 Liður 02-235 samþ. með 28:13 atkv. og sögðu

  já:  ÁsF,  BÁ,  EKG,  ELA,  FSigurj,  GÞÞ,  HBK,  HarB,  HE,  IllG,  JónG,  LínS,  PJP,  PHB,  REÁ,  RR,  SDG,  SigrM,  SIJ,  SPJ,  SilG,  UBK,  ValG,  VigH,  VilB,  WÞÞ,  ÞorS,  ÞórE.
nei:  ÁÞS,  BirgJ,  BjG,  BjÓ,  BP,  GStein,  KJak,  LRM,  ÓP,  PVB,  RM,  SSv,  ÖJ.
10 þm. (ÁPÁ,  GuðbH,  HHG,  HHj,  JÞÓ,  KaJúl,  KLM,  OH,  SII,  VBj) greiddu ekki atkv.
12 þm. (BjarnB,  BN,  ElH,  EyH,  GBS,  HöskÞ,  JMS,  KG,  KÞJ,  SJS,  VilÁ,  ÖS) fjarstaddir.

 Liður 04-555 samþ. með 34:14 atkv. og sögðu

  já:  ÁsF,  BÁ,  BjarnB,  EKG,  ElH,  ELA,  EyH,  FSigurj,  GÞÞ,  GBS,  HBK,  HarB,  HE,  HöskÞ,  IllG,  JónG,  LínS,  PJP,  PHB,  REÁ,  RR,  SDG,  SigrM,  SIJ,  SPJ,  SilG,  UBK,  ValG,  VigH,  VilÁ,  VilB,  WÞÞ,  ÞorS,  ÞórE.
nei:  ÁÞS,  BirgJ,  BjG,  BjÓ,  BP,  GStein,  HHG,  KJak,  LRM,  ÓP,  PVB,  RM,  SSv,  ÖJ.
9 þm. (ÁPÁ,  GuðbH,  HHj,  JÞÓ,  KaJúl,  KLM,  OH,  SII,  VBj) greiddu ekki atkv.
6 þm. (BN,  JMS,  KG,  KÞJ,  SJS,  ÖS) fjarstaddir.

 Liður 06-591 samþ. með 34:6 atkv. og sögðu

  já:  ÁsF,  BÁ,  BjarnB,  EKG,  ElH,  ELA,  EyH,  FSigurj,  GÞÞ,  GBS,  HBK,  HarB,  HE,  HHG,  HöskÞ,  IllG,  LínS,  PJP,  PHB,  REÁ,  RR,  SDG,  SigrM,  SIJ,  SPJ,  SilG,  UBK,  ValG,  VigH,  VilÁ,  VilB,  WÞÞ,  ÞorS,  ÞórE.
nei:  ÁÞS,  BjG,  KJak,  LRM,  SSv,  ÖJ.
16 þm. (ÁPÁ,  BirgJ,  BjÓ,  BP,  GuðbH,  GStein,  HHj,  JÞÓ,  KaJúl,  KLM,  OH,  ÓP,  PVB,  RM,  SII,  VBj) greiddu ekki atkv.
7 þm. (BN,  JMS,  JónG,  KG,  KÞJ,  SJS,  ÖS) fjarstaddir.

 Liður 08-700 6.87 samþ. með 34:7 atkv. og sögðu

  já:  ÁsF,  BÁ,  BjarnB,  EKG,  ElH,  ELA,  EyH,  FSigurj,  GÞÞ,  GBS,  HBK,  HarB,  HE,  HöskÞ,  IllG,  JónG,  LínS,  PJP,  PHB,  REÁ,  RR,  SDG,  SigrM,  SIJ,  SPJ,  SilG,  UBK,  ValG,  VigH,  VilÁ,  VilB,  WÞÞ,  ÞorS,  ÞórE.
nei:  ÁÞS,  BjG,  JÞÓ,  KJak,  LRM,  SSv,  ÖJ.
16 þm. (ÁPÁ,  BirgJ,  BjÓ,  BP,  GuðbH,  GStein,  HHG,  HHj,  KaJúl,  KLM,  OH,  ÓP,  PVB,  RM,  SII,  VBj) greiddu ekki atkv.
6 þm. (BN,  JMS,  KG,  KÞJ,  SJS,  ÖS) fjarstaddir.

 Liður 14-212 samþ. með 34:6 atkv. og sögðu

  já:  ÁsF,  BÁ,  BjarnB,  EKG,  ElH,  ELA,  EyH,  FSigurj,  GÞÞ,  GBS,  HBK,  HarB,  HE,  HöskÞ,  IllG,  JónG,  LínS,  PJP,  PHB,  REÁ,  RR,  SDG,  SigrM,  SIJ,  SPJ,  SilG,  UBK,  ValG,  VigH,  VilÁ,  VilB,  WÞÞ,  ÞorS,  ÞórE.
nei:  ÁÞS,  BjG,  KJak,  LRM,  SSv,  ÖJ.
17 þm. (ÁPÁ,  BirgJ,  BjÓ,  BP,  GuðbH,  GStein,  HHG,  HHj,  JÞÓ,  KaJúl,  KLM,  OH,  ÓP,  PVB,  RM,  SII,  VBj) greiddu ekki atkv.
6 þm. (BN,  JMS,  KG,  KÞJ,  SJS,  ÖS) fjarstaddir.

 Liður 14-214 samþ. með 34:7 atkv. og sögðu

  já:  ÁsF,  BÁ,  BjarnB,  EKG,  ElH,  ELA,  EyH,  FSigurj,  GÞÞ,  GBS,  HBK,  HarB,  HE,  HöskÞ,  IllG,  JónG,  LínS,  PJP,  PHB,  REÁ,  RR,  SDG,  SigrM,  SIJ,  SPJ,  SilG,  UBK,  ValG,  VigH,  VilÁ,  VilB,  WÞÞ,  ÞorS,  ÞórE.
nei:  ÁÞS,  BjG,  HHG,  KJak,  LRM,  SSv,  ÖJ.
16 þm. (ÁPÁ,  BirgJ,  BjÓ,  BP,  GuðbH,  GStein,  HHj,  JÞÓ,  KaJúl,  KLM,  OH,  ÓP,  PVB,  RM,  SII,  VBj) greiddu ekki atkv.
6 þm. (BN,  JMS,  KG,  KÞJ,  SJS,  ÖS) fjarstaddir.

 Sundurliðun 2, svo breytt, samþ. með 34 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ÁsF,  BÁ,  BjarnB,  EKG,  ElH,  ELA,  EyH,  FSigurj,  GÞÞ,  GBS,  HBK,  HarB,  HE,  HöskÞ,  IllG,  JónG,  LínS,  PJP,  PHB,  REÁ,  RR,  SDG,  SigrM,  SIJ,  SPJ,  SilG,  UBK,  ValG,  VigH,  VilÁ,  VilB,  WÞÞ,  ÞorS,  ÞórE.
23 þm. (ÁPÁ,  ÁÞS,  BirgJ,  BjG,  BjÓ,  BP,  GuðbH,  GStein,  HHG,  HHj,  JÞÓ,  KJak,  KaJúl,  KLM,  LRM,  OH,  ÓP,  PVB,  RM,  SII,  SSv,  VBj,  ÖJ) greiddu ekki atkv.
6 þm. (BN,  JMS,  KG,  KÞJ,  SJS,  ÖS) fjarstaddir.

 Séryfirlit 1–6, svo breytt, samþ. með 34 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ÁsF,  BÁ,  BjarnB,  EKG,  ElH,  ELA,  EyH,  FSigurj,  GÞÞ,  GBS,  HBK,  HarB,  HE,  HöskÞ,  IllG,  JónG,  LínS,  PJP,  PHB,  REÁ,  RR,  SDG,  SigrM,  SIJ,  SPJ,  SilG,  UBK,  ValG,  VigH,  VilÁ,  VilB,  WÞÞ,  ÞorS,  ÞórE.
23 þm. (ÁPÁ,  ÁÞS,  BirgJ,  BjG,  BjÓ,  BP,  GuðbH,  GStein,  HHG,  HHj,  JÞÓ,  KJak,  KaJúl,  KLM,  LRM,  OH,  ÓP,  PVB,  RM,  SII,  SSv,  VBj,  ÖJ) greiddu ekki atkv.
6 þm. (BN,  JMS,  KG,  KÞJ,  SJS,  ÖS) fjarstaddir.

 1. gr., svo breytt, samþ. með 34 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ÁsF,  BÁ,  BjarnB,  EKG,  ElH,  ELA,  EyH,  FSigurj,  GÞÞ,  GBS,  HBK,  HarB,  HE,  HöskÞ,  IllG,  JónG,  LínS,  PJP,  PHB,  REÁ,  RR,  SDG,  SigrM,  SIJ,  SPJ,  SilG,  UBK,  ValG,  VigH,  VilÁ,  VilB,  WÞÞ,  ÞorS,  ÞórE.
23 þm. (ÁPÁ,  ÁÞS,  BirgJ,  BjG,  BjÓ,  BP,  GuðbH,  GStein,  HHG,  HHj,  JÞÓ,  KJak,  KaJúl,  KLM,  LRM,  OH,  ÓP,  PVB,  RM,  SII,  SSv,  VBj,  ÖJ) greiddu ekki atkv.
6 þm. (BN,  JMS,  KG,  KÞJ,  SJS,  ÖS) fjarstaddir.

Brtt. 320 samþ. með 34 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ÁsF,  BÁ,  BjarnB,  EKG,  ElH,  ELA,  EyH,  FSigurj,  GÞÞ,  GBS,  HBK,  HarB,  HE,  HöskÞ,  IllG,  JónG,  LínS,  PJP,  PHB,  REÁ,  RR,  SDG,  SigrM,  SIJ,  SPJ,  SilG,  UBK,  ValG,  VigH,  VilÁ,  VilB,  WÞÞ,  ÞorS,  ÞórE.
23 þm. (ÁPÁ,  ÁÞS,  BirgJ,  BjG,  BjÓ,  BP,  GuðbH,  GStein,  HHG,  HHj,  JÞÓ,  KJak,  KaJúl,  KLM,  LRM,  OH,  ÓP,  PVB,  RM,  SII,  SSv,  VBj,  ÖJ) greiddu ekki atkv.
6 þm. (BN,  JMS,  KG,  KÞJ,  SJS,  ÖS) fjarstaddir.

 2. gr., svo breytt, samþ. með 34 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ÁsF,  BÁ,  BjarnB,  EKG,  ElH,  ELA,  EyH,  FSigurj,  GÞÞ,  GBS,  HBK,  HarB,  HE,  HöskÞ,  IllG,  JónG,  LínS,  PJP,  PHB,  REÁ,  RR,  SDG,  SigrM,  SIJ,  SPJ,  SilG,  UBK,  ValG,  VigH,  VilÁ,  VilB,  WÞÞ,  ÞorS,  ÞórE.
23 þm. (ÁPÁ,  ÁÞS,  BirgJ,  BjG,  BjÓ,  BP,  GuðbH,  GStein,  HHG,  HHj,  JÞÓ,  KJak,  KaJúl,  KLM,  LRM,  OH,  ÓP,  PVB,  RM,  SII,  SSv,  VBj,  ÖJ) greiddu ekki atkv.
6 þm. (BN,  JMS,  KG,  KÞJ,  SJS,  ÖS) fjarstaddir.

 3. gr. samþ. með 34 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ÁsF,  BÁ,  BjarnB,  EKG,  ElH,  ELA,  EyH,  FSigurj,  GÞÞ,  GBS,  HBK,  HarB,  HE,  HöskÞ,  IllG,  JónG,  LínS,  PJP,  PHB,  REÁ,  RR,  SDG,  SigrM,  SIJ,  SPJ,  SilG,  UBK,  ValG,  VigH,  VilÁ,  VilB,  WÞÞ,  ÞorS,  ÞórE.
23 þm. (ÁPÁ,  ÁÞS,  BirgJ,  BjG,  BjÓ,  BP,  GuðbH,  GStein,  HHG,  HHj,  JÞÓ,  KJak,  KaJúl,  KLM,  LRM,  OH,  ÓP,  PVB,  RM,  SII,  SSv,  VBj,  ÖJ) greiddu ekki atkv.
6 þm. (BN,  JMS,  KG,  KÞJ,  SJS,  ÖS) fjarstaddir.

[13:35]
Vigdís Hauksdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er með mikilli ánægju að ég kem hingað upp og segi þingheimi frá því að hér hefur öll fjárlaganefnd komist að samkomulagi um að flytja þessa góðu tillögu. Hv. þm. Bjarkey Gunnarsdóttir frá Vinstri grænum hefur verið ötull baráttumaður fyrir fatlaða íþróttamenn. Samstarfið um þetta mál var ánægjulegt og gott og náðist mikil og góð sátt um það í nefndinni. Þessi fjárheimild kom ekki inn í frumvarp til fjáraukalaga og því gerir fjárlaganefnd öll tillögu um að heimila að endurgreiða virðisaukaskatt af sérhæfðum íþróttabúnaði fyrir fatlaða íþróttamenn.

Virðulegi forseti. Það er rétt að segja frá því hér að nú þegar er komin tillaga inn í fjárlög fyrir 2014 um að þessi lagagrein komi jafnframt inn þar.



[13:36]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góð orð í minn garð. Það er alveg rétt að ég er búin að tala svolítið fyrir þessu máli og fer að leggja fram frumvarp til laga um breytingu á virðisaukaskattslögum þar sem þetta kemur inn sem fast ákvæði þannig að ekki þurfi að setja heimildargrein á hverju einasta ári því að það er mjög leitt þegar svona lagað fellur niður, enda er ekki um stórkostlegar fjárhæðir að ræða. Rætt hefur verið að þetta gæti kannski slegið í milljón eða eitthvað slíkt en þetta skiptir hins vegar gríðarlega miklu máli fyrir þá sem um ræðir og þurfa að leggja út fyrir slíku. Ég hvet hv. þingmenn til að greiða málinu atkvæði þegar það kemur hingað inn.



Brtt. 321 samþ. með 54 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ÁPÁ,  ÁÞS,  ÁsF,  BÁ,  BirgJ,  BjG,  BjarnB,  BjÓ,  BP,  EKG,  ElH,  ELA,  EyH,  FSigurj,  GuðbH,  GÞÞ,  GStein,  GBS,  HBK,  HarB,  HE,  HHj,  IllG,  JónG,  KJak,  KaJúl,  KLM,  LRM,  LínS,  OH,  ÓP,  PVB,  PJP,  PHB,  REÁ,  RR,  RM,  SDG,  SII,  SigrM,  SIJ,  SPJ,  SilG,  SSv,  UBK,  VBj,  ValG,  VigH,  VilÁ,  VilB,  WÞÞ,  ÞorS,  ÞórE,  ÖJ.
1 þm. (JÞÓ) greiddi ekki atkv.
8 þm. (BN,  HHG,  HöskÞ,  JMS,  KG,  KÞJ,  SJS,  ÖS) fjarstaddir.

 4. gr., svo breytt, samþ. með 36:1 atkv. og sögðu

  já:  ÁPÁ,  ÁsF,  BÁ,  BjarnB,  BjÓ,  EKG,  ElH,  ELA,  EyH,  FSigurj,  GÞÞ,  GBS,  HBK,  HarB,  HE,  IllG,  JónG,  KLM,  LínS,  PJP,  PHB,  REÁ,  RR,  SDG,  SigrM,  SIJ,  SPJ,  SilG,  UBK,  ValG,  VigH,  VilÁ,  VilB,  WÞÞ,  ÞorS,  ÞórE.
nei:  KJak*.
19 þm. (ÁÞS,  BirgJ,  BjG,  BP,  GuðbH,  GStein,  HHG,  HHj,  JÞÓ,  KaJúl,  LRM,  OH,  ÓP,  PVB,  RM,  SII,  SSv,  VBj,  ÖJ) greiddu ekki atkv.
7 þm. (BN,  HöskÞ,  JMS,  KG,  KÞJ,  SJS,  ÖS) fjarstaddir.

[*Þm. óskar að geta þess að hann studdi á rangan hnapp í atkvgr.; ætlaði ekki að greiða atkvæði.]

Fyrirsögn samþ. án atkvgr.

Frumvarpið gengur til 3. umr. 

Frumvarpið gengur (eftir 2. umr.) til fjárln.