143. löggjafarþing — 35. fundur
 12. desember 2013.
um fundarstjórn.

framhald þingfundar.

[20:00]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir góða fundarstjórn á fundinum og það góða samkomulag sem hér hefur verið. Nú er komið fram á kvöld og var út af fyrir sig samkomulag um að funda eitthvað fram eftir degi, en nú hafa verið boðaðir nefndarfundir snemma í fyrramálið og fram undan á morgun er mikilvægasta og þýðingarmesta umræða á þingi á hverju ári, 2. umr. fjárlaga sem gefinn er sérstaklega góður tími. Það er auðvitað mikið af gögnum, m.a. nýjum gögnum sem þingmenn þurfa að kynna sér áður en að þeirri umræðu kemur. Mig fýsir því að vita hjá forseta hversu lengi ætlunin er að halda umræðum áfram í kvöld.



[20:01]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með formanni þingflokks Samfylkingarinnar, hv. þm. Helga Hjörvar, að það var enginn sem hreyfði andmælum við því að fundað yrði eitthvað fram í kvöldið, en nú væri gott að fá upplýsingar um það hvað stjórn þingsins hyggst fyrir í þeim efnum. Ég held að það hljóti að vera einsýnt að við förum ekki lengra með fundarhald en eitthvað fram undir miðnættið í hæsta lagi. Það væri gott að fá um þetta upplýsingar hið fyrsta.



[20:02]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er náttúrlega ekkert óeðlilegt að við þurfum að vera hérna eitthvað fram eftir kvöldi, þau voru núna fyrst að streyma inn öll þau mál sem nauðsynlegt er að klára fyrir áramótin.

Ég vil hins vegar taka undir með þeim sem hér hafa talað að ég vona að fundurinn standi ekki lengur en svona upp undir miðnætti. Fyrir utan að mikilvægasta umræðan er fram undan, eins og komið hefur fram, þá eru gögnin sem fylgja henni ekki mjög árennileg, eins og ég hef sagt tvisvar eða þrisvar hér í ræðustól. Þess vegna þurfum við tíma og þurfum að vera svona sæmilega útsofin til að geta lesið þetta og púslað þessu öllu saman, því að allt kemur þetta svolítið hvert úr sinni áttinni.



[20:03]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég hef einmitt akkúrat ekkert út á fundarstjórn forseta að setja og hvet forseta til að halda áfram með fundinn, því að ég bíð í óþreyju eftir því að halda ræðu og hlýða áfram á ágæta umræðu um forsendur frumvarps til fjárlaga.

Hins vegar eru þær ræður sem hér eru haldnar nánast orðréttar ræðum sem stjórnarandstæðingar fluttu fyrir síðustu jól og þarsíðustu jól og þarþarsíðustu jól nema þá voru þær haldnar klukkan hálftólf enda úthaldið meira.



[20:04]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil bara minna á að mjög miklar breytingar hafa orðið á fjárlagafrumvarpinu frá 1. umr. og fram í 2. umr. og við þurfum tíma til að setja okkur inn í þær breytingar, glöggva okkur á þeirri þjóðarsátt sem formaður fjárlaganefndar tilkynnti okkur í kvöldfréttunum að hefði verið sköpuð með þessum tillögum og til að vera í stakk búin til að umfaðma hana hér af kærleika í sönnum jólaanda í fyrramálið. Því hvet ég til þess að við fáum að vita það sem fyrst hvernig forseti hyggst hafa framhald fundar hér áfram í kvöld.



[20:05]
Forseti (Þorsteinn Sæmundsson):

Forseti getur upplýst að það er óráðið hversu lengi verður haldið áfram, en það ræðst nokkuð af því hvernig mál ganga fram. En forseti telur rétt að við hefjumst handa við fund og reynum að þoka málum hér fram. Það skýrist svo væntanlega þegar á líður kvöldið hversu lengi fundi verður fram haldið.



[20:05]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er eðlilegt að hæstv. forseti þurfi að hafa eitthvert samráð við samstarfsmenn sína um forsetaembættið hér í þinginu, um það hvenær fundinum verður lokið í kvöld. Það tókst ágætlega í gærkvöldi, á góðum fundi forseta með formönnum þingflokka, að ljúka umræðum og þetta hefur gengið ágætlega vel síðan þá.

Ég tel mikilvægt að við reynum að halda því þannig og það eru eðlileg og málefnaleg sjónarmið sem liggja að baki því að fyrir umræðuna á morgun þurfa þingmenn bæði að fá tækifæri til að hvílast og eins að fara yfir þau gögn sem fram eru komin í dag. Ég hvet hæstv. forseta til að upplýsa það sem allra fyrst hér úr forsetastólnum, þó að hann sé ekki í færum til þess núna, þá helst bara þegar næsti ræðumaður hefur lokið máli sínu, hvenær fundum verður slitið í kvöld.



[20:06]
Forseti (Þorsteinn Sæmundsson):

Forseti mun gera sitt besta til þess að verða við þeim tilmælum hv. þingmanns að reyna að upplýsa það innan hálftíma, klukkutíma hversu lengi við höldum áfram hér í kvöld.