143. löggjafarþing — 39. fundur
 17. desember 2013.
fjárlög 2014, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 1. mál. — Þskj. 1, nál. 350, 358, 360 og 363, brtt. 349, 351, 352, 353, 354, 359, 361, 362, 364, 372, 374 og 380.

[20:01]
Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla að halda áfram umfjöllun minni um fjárlögin og byrja á að ræða aðeins þann fund sem ég var á áðan með Bandalagi íslenskra listamanna, sem var afar áhugaverður, en fulltrúar þess buðu allsherjar- og menntamálanefnd ásamt fjárlaganefnd á sinn fund vegna þess að þeir fengu synjun á fundi með fjárlaganefnd, sem þeir sögðu að hefði ekki gerst í 30 ár, sem er mjög miður þar sem heildarsamtök hafa alla jafnan fengið áheyrn, að mér skilst, hjá fjárlaganefnd hafi þau óskað eftir því. Þarna er um að ræða samtök með 14 önnur smærri samtök innan borðs. Eins og við þekkjum hér úr umræðunni hefur sá niðurskurður sem þar er undir verið töluvert ræddur og sérstaklega niðurskurðurinn hjá myndlistarsjóði og öðrum sjóðum sem settir eru á núll, þ.e. fá ekkert. Áhyggjur þeirra lúta fyrst og fremst að því að ef það stendur, að niðurskurðurinn verður þannig að liðirnir verða settir á núll, þá verði það til þess að verkefni sem eru nú þegar komin af stað fái ekki framgang og leggist í rauninni bara niður. Við höfum rætt töluvert hvað það þýðir, þ.e. hvað greinin er að gefa af sér, þessar skapandi greinar og sú margföldun sem skilar sér inn í ríkissjóð vegna þeirra. Eðli málsins samkvæmt, þar sem fulltrúarnir voru jú að verja sinn hag, bentu þeir á skýrsluna frá 2010 þar sem skapandi greinum voru gerð góð skil af utanaðkomandi aðilum og í raun sýnt fram á hversu miklu greinin skilar. Það voru um 189 millj. kr. minnir mig, það árið, sem kom fram í þeirri skýrslu.

Bandalag íslenskra listamanna bendir á að rúmar 700 milljónir kr. vantar, þ.e. niðurskurðurinn, miðað við það og í rauninni færðu þau í bandalaginu ljómandi góð rök fyrir því sem þau voru að gagnrýna, þetta var kannski frekar hvatning en gagnrýni. Þau vildu eiga þetta samtal og hvetja okkur. Þarna mættu fulltrúar flokka bæði úr stjórnarmeirihluta og minni hluta sem var alveg ágætt. Ég held að allir hafi verið ánægðir með þetta samtal en hvatningin var sem sagt til okkar um að reyna að bregðast við þessu þannig að við gætum séð greinarnar halda áfram að vaxa og dafna. Þau bentu líka á að þrátt fyrir að þau óskuðu eftir að framlögin væru ekki skert þá gerðu þau sér vel grein fyrir því að þröngt væri í búi og hægt væri að komast af með minna en óskuðu þess að liðirnir yrðu ekki teknir alfarið af. Ég held að við eigum að reyna hvað við getum til að bæta úr því að einhverju leyti. Við gerum ráð fyrir að þurfa að leggja út ákveðna fjármuni til styrkja ef við göngum út frá því að það skili sér margfalt í ríkissjóð og ekki bara til langs tíma. Það kom skýrt fram á fundinum, og kom líka fram í þeirri skýrslu sem ég vitnaði til áðan, að ekki er um það að ræða að þetta skili sér í ríkissjóð eftir langan tíma. Sumt af þessu kemur mjög fljótt í kassann. Ég held því að við eigum að leggja þessum greinum lið og bæta í aftur af því að ef við göngum út frá því að fara hugsanlega með minni rekstrarafgang inn í næsta ár þá getum við hugsanlega gengið út frá auknum tekjum líka miðað við þessar forsendur.

Mig langar líka aðeins að ræða sóknaráætlanir landshluta. Ég hef miklar áhyggjur af þeim verkefnum, menningarsamningunum og slíkum verkefnum. Ég átta mig ekki alveg á þeirri viðbót sem er verið að bæta við núna, 85 millj. kr., sem er góðra gjalda verð, en ég sé ekki að hún verði til skiptanna á marga staði. Áður var gert ráð fyrir að gera skýrslu um stöðuna eins og hún væri og hvernig ætti að gera þetta betur eða eitthvað slíkt en fram kom í fjárlaganefnd að öll sveitarfélög sem fjölluðu um sóknaráætlanir landshluta voru ánægð með framkvæmdina, ánægð með verklagið og óskuðu eindregið eftir því að áfram yrði haldið á sömu braut. Þess vegna var það svolítið sérstakt að þeir litlu fjármunir sem þarna voru inni voru ætlaðir til þess að taka þetta eitthvað sérstaklega út eða finna betri leiðir. Það var svona ekki alveg í takti við það sem þeir sem vinna með þetta sögðu.

Hér er hins vegar verið að bæta við 85 millj. kr. Það er ánægjulegt en gert hafði verið ráð fyrir 400 millj. kr. Það er náttúrlega heilmikill niðurskurður út frá því og mörg verkefni hafa verið færð til. Mikilvægt er að átta sig á því að verkefni sem voru hjá fjárlaganefnd, hjá nefndunum og á mörgum stöðum, voru sett í þennan farveg, m.a. inn í sóknaráætlanirnar, menningarsamninga og þess háttar til þess í rauninni að beita frekar faglegum rökum við úthlutun þessara peninga í staðinn fyrir að það væri pólitíkin eingöngu sem tæki slíkar ákvarðanir í nefndunum og koma í veg fyrir þetta „maður þekkir mann“ sem hafi þess vegna fengið úthlutað. Eða jafnvel eins og vitnað var til að hringt var í einhverja og spurt hvort þeir hefðu gleymt að senda inn erindi.

Það þarf líka að horfa á það, þegar við erum að skera niður í þessum verkefnum, að þau voru mjög víða annars staðar í kerfinu. Þetta átti að gera það gagnsærra, að vera með þetta á einni hendi eða í svona sértækum verkefnasjóðum. Ég veit að það er mjög miður að þetta skuli hafa farið í þennan farveg og því má segja að þetta skipti líka miklu máli varðandi búsetu á landsbyggðinni. Mörg þessara verkefna hafa skapað störf, sum þeirra hafa orðið til og þurfa örlítið meira til að geta haldið áfram og viðhaldið sér til að komast betur upp úr þeim sprota og orðið að alvörugrein.

Önnur eru tímabundin og ná yfir skemmri tíma en það kom þó samt fram, t.d. í kjördæmavikunni hjá okkur í Norðausturkjördæmi, að flest þessara verkefna voru rædd á íbúafundum, eins og gert var ráð fyrir að verkefnin færu fram og flest þeirra miðuðu að því að þau væru til lengri tíma, þau sköpuðu atvinnu og störf, ekki bara í einhverja ótilgreinda mánuði heldur væri það komið til að vera. En eins og ég sagði vantar örlítið meira hjá einhverjum og svo hlýtur það auðvitað að vera í okkar verkahring að aðstoða þær byggðir sem eiga undir högg að sækja mjög víða varðandi fjölbreytni í atvinnulífinu. Það kemur líka inn á það sem ég talaði um áðan með skapandi greinarnar, þ.e. fjölbreytni í atvinnulífi sem er úti um allt land og það skiptir máli þar. Það er ekki bara Sinfóníuhljómsveitin eða RÚV. Þetta snýst um svo margt annað. Eða um myndlistarmenn sem nenna ekki að vinna, eins og sagt var. Þetta snýst ekki um það, heldur snýst þetta um fjölbreytni í störfum úti um allt land.

Mig langar líka að ræða aðeins niðurskurðinn varðandi Jafnréttisstofu. Við höfum fengið erindi frá Jafnréttisstofu þar sem gerð er grein fyrir því hvað í rauninni gerist ef niðurskurðurinn verður, sá sem fyrirhugaður er. Þau eru í afar dýru húsnæði á Borgum á Akureyri. Fram kom hjá velferðarráðuneytinu á fundi í fjárlaganefnd að til stæði að finna út úr því að losa þau undan því en það liggur ekki fyrir. Og nú förum við að klára að vinna fjárlagafrumvarp og óþægilegt er að fara inn í árið og ætla að samþykkja þennan niðurskurð án þess að niðurstaða hafi fengist í það mál. Af því að fram kom í máli hæstv. félagsmálaráðherra, þegar ég lagði fram fyrirspurn í þinginu, að hún hygðist frekar styrkja Jafnréttisstofu með fjölbreyttari verkefnum þá er svolítið sérstakt að á sama tíma sé verið að skera niður til Jafnréttisstofu.

Verkefni sem Jafnréttisstofa fer með, af því að kannski vita ekki allir um hvað það snýst, er meðal annars verkefni sem kostar 9 millj. kr. eða gert er ráð fyrir því, og heitir Karlar til ábyrgðar, þar sem körlum sem beita maka sína ofbeldi er boðið upp á meðferð. Það verkefni verður skorið niður um rúma milljón ef fjárlögin fara óbreytt í gegn og þá standa eftir fjárhæðir sem duga að sögn framkvæmdastýrunnar hvergi nærri fyrir launum. Á Jafnréttisstofu starfa átta starfsmenn í sjö stöðugildum og þeim er líka ætlað að afla sértekna, sem þau þar hafa efasemdir um að gangi eftir aðallega vegna þess að verkefni eru nýlega hafin eða eru að hefjast, og það gangi kannski ekki eftir miðað við fjárhæðina sem þeim er ætlað að afla.

Það er líka mikilvægt í ljósi þeirrar umræðu um hvaðan tekjurnar koma að stærsti hluti þeirra sértekna, þ.e. Jafnréttisstofu, kemur úr Progress-sjóði Evrópusambandsins en af því að við sem Evrópuþjóð borgum í þann sjóð eigum við líka rétt á styrkjum úr honum, en þau gerðu grein fyrir því að þá verður auðvitað að vera til fólk á Jafnréttisstofu til að sinna þeim verkum. Þau telja að miðað við þetta þurfi að fækka um eitt, jafnvel tvö störf og benda á að allir nema einn eru háskólamenntaðir sem þar starfa og kannski ekki um auðugan garð að gresja fyrir fólk með háskólamenntun að fá starf fyrir norðan. Þess vegna er mikilvægt að reyna að halda í þau störf sem við mögulega getum miðað við kannski tilflutning verkefna eins og félagsmálaráðherra benti á. Jafnréttisstofa benti á að við förum með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni sem þýðir að Jafnréttisstofa sinnir mörgum verkefnum því tengdu, t.d. undirbúningi, eins og segir í erindi þeirra, vegna fundar kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna í New York sem verður haldinn í mars og við fengum kynningu á í fjárlaganefnd.

Íslendingar stýra þessu norræna samstarfi. Ráðstefnur verða í Færeyjum og Reykjavík, þær verða þrjár, og svo er önnur ráðstefna sem heitir Kynni af norðurslóðum, sem verður haldin á Akureyri næsta haust. Ekki er um stórar fjárhæðir í ríkisbúskapnum að ræða en þarna sér maður akkúrat hvað þetta skiptir miklu máli fyrir eina svona stofnun, eins og á Akureyri, við erum að tala um 7 millj. kr. Þetta eru tvö störf háskólamenntaðra á Akureyri. Ég hvet því hv. þingmenn til að endurskoða þetta og velta fyrir sér hvort við eigum ekki að breyta þessu, nú eða að fá tryggingu fyrir því að verði skipt um húsnæði og sparnaður náist með þeim hætti þá liggi það fyrir staðfest áður en við samþykkjum fjárlög. Annars finnst mér ótækt að samþykkja þennan niðurskurð og auðvitað hefði verið áhugavert að fá að vita nákvæmlega hvort og hvenær ráðherrann hygðist flytja þau verkefni sem hún nefndi að væri hægt að flytja á Jafnréttisstofu.

Mig langar aðeins að fjalla um Fæðingarorlofssjóðinn. Ég fór á fund velferðarnefndar sem varamaður í gær og var það áhugavert þar sem maður hefur setið í fjárlaganefnd og fær kannski öðruvísi sýn, annan vinkil á hlutina en það sem nefndarmenn þar voru að hugsa. Þau voru kannski ekki beint að hugsa um krónur og aura heldur annars konar áhrif. En þar var fullt af gestum, 20 manns eða ég veit ekki hvað, það var alla vega mjög margt. Fram komu hjá Samtökum atvinnulífsins og fleiri aðilum áhyggjur af því að gengið yrði um of á eigið fé Fæðingarorlofssjóðsins miðað við óbreytt ástand, þ.e. að útgreiðslur úr honum yrðu með svipuðum hætti og áður. Líklega yrðu það um 2 milljarðar kr. á fjárlagaárinu næsta.

Það var líka annað sem þau frá Samtökum atvinnulífsins ræddu, áhyggjur af því að þegar sjóðurinn yrði kominn verulega langt niður, búinn að ganga afar mikið á eigið fé sem tekur kannski tvö ár að þeirra sögn, það kom fram hjá ráðuneytunum líka, kom fram hjá velferðarráðuneytinu í gær að innan tveggja ára yrði eigið fé sjóðsins líklega uppurið ef þessi prósenta yrði látin halda sér. Það sem Samtök atvinnulífsins höfðu áhyggjur af var að ef framlag í sjóðinn yrði ekki hækkað á næsta ári mundi það þýða mikla hækkun þegar sjóðurinn væri að verða blankur og þeir höfðu áhyggjur af því að það mundi allt saman lenda á atvinnulífinu en ekki verða dregið úr framlaginu til Tryggingastofnunar. Tryggingastofnun fær sem sagt mismuninn í dag og þá er ég hrædd um að heyrðist hljóð úr horni ef þeir verða krafðir um það, það hlýtur að þurfa að hækka prósentuna töluvert ef ná á inn viðunandi fjárhæðum.

Sjúklingagjöld voru líka rædd, sem við höfum svo sem tekið töluverða umræðu um hér. Það sem kom helst fram hjá Landspítalanum hvað það varðaði, og mér var fannst í sjálfu sér gott innlegg í þá umræðu, var að þau tóku ekki beina afstöðu til pólitíkurinnar sem fylgir því eðlilega að leggja á einhver gjöld til eða frá, þó að þau hefðu auðvitað áhyggjur af því að þeim tækist ekki að innheimta þau gjöld. Það eru um 10% sem innheimtast ekki í dag af því sem þeim er gert að innheimta og því fannst þeim þetta ótímabært ef ekki lægi fyrir niðurstaða nefndar sem kennd hefur verið við hv. þm. Pétur Blöndal og er að endurskoða alla þessa þætti. Þau töldu að þá yrði væntanlega hrært í þessu fljótlega eftir áramótin og töldu það ekki gott vinnulag. Ég get nú verið því sammála að það sé ekki eins og við vildum hafa það, að minnsta kosti hef ég þá skoðun. Það er auðvitað líka bagalegt að gera ráð fyrir einhverjum tilteknum gjöldum eða sértekjum vitandi það að þær innheimtast ekki nema að litlu leyti. Það kom líka fram hjá þeim á Landspítalanum að færst hefði í aukana að fólk kæmi inn sem væri í erfiðari fjárhagslegri stöðu en oft hefur verið áður. Við þekkjum það og þá umræðu og þess vegna töldu þau jafnvel að það yrði enn erfiðara en verið hefði að innheimta gjöldin. Það eru 60% af innlögnum sem eru ekki fullgreidd — eða af þeim sem koma. Það hefur komið fram í staðfestu svari við fyrirspurn sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson lagði fyrir velferðarráðherra.

Ég stikla á stóru og reyni að draga svolítið saman það sem maður hefur heyrt í umræðunni. Nú er verið að boða að taka niður VIRK-sjóðinn, það er verið að taka niður Nám er vinnandi vegur, ríkið hefur ákveðið að taka ekki þátt í eða fylgja fordæmi sveitarfélaganna með lækkun á verðlagsbreytingum eða öllu heldur að láta þær ekki ná fram að ganga og við erum augljóslega að fara inn í þungar kjaraviðræður sem ég held að ríkið þurfi með einhverju móti að koma inn í. Ég veit ekki nákvæmlega hvað það ætti að vera nema ef vera skyldi þetta. Fram hefur komið hjá formanni Starfsgreinasambandsins og fleiri aðilum að þeir hafi áhyggjur af því að ef við förum inn í nýtt ár án þess að vera búin að semja þá séu fram undan lausir kjarasamningar, líka hjá hinu opinbera, sem geri það að verkum að hér gæti orðið ískalt ástand allt næsta ár og það er auðvitað afar erfitt.

Mig langar líka aðeins að nefna eitt enn. Við fjárlaganefndarmenn höfum fengið bréf frá óbyggðanefnd þar sem rætt hefur verið um að niðurskurðurinn sem boðaður er þar upp á 20 milljónir kr. geri það að verkum að þar þurfi að segja upp fólki og verkefni komi til með að dragast og við hvert ár sem við drögum verkefni muni verða mikill kostnaðarauki. Það að halda úti eðlilegri starfsemi með lágmarksfjárheimildum þýðir 80 millj. kr. kostnaðaraukningu árið 2019, það er fjórföldun á þeim 20 millj. kr. sem mundu sparast 2014, þ.e. ef verkefnið dregst. Það eru framkvæmdastjóri, lögfræðingur, landfræðingur og lögfræðingur sem starfa þar og þetta þýðir að uppkvaðning úrskurðar tefst um eitt ár og í raun er þetta sanngirnismál. Það er ekki sama staða á öllu landinu. Það er held ég um það bil 1/4 sem á eftir að fara í, þetta snýst um þjóðlendumál og hér er ekki búið að ganga frá þeim hluta af landinu þannig að hvorki íbúar né aðrir sem þar eiga heima eða gætu átt jarðir eða lönd, nú eða ríkið — það er óeðlilegt að ekki sé gengið frá því þannig að allt landið sé undir sama hatti hvað þetta varðar.

Þeir segja í stuttu máli að þá væri í flestum tilfellum óhagkvæmt, hvað varðar gagnaöflun og undirbúning úrskurða, að kljúfa þetta niður í smærri einingar í gagnaleit í einstökum sýslum, sveitarfélögum eða svæðum og telja að við það glatist talsvert af þeirri hagkvæmni sem felst í því að fjalla um svæðin í tiltölulega stórum einingum, t.d. vettvangsferðum og samnýtingu aðila á lögmannsaðstoð, en lögmannskostnaður málsaðila annarra en ríkisins er greiddur af óbyggðanefnd.

Þetta er eitthvað sem við þurfum að skoða líka. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir þessu fyrr en við fengum þetta erindi inn og með ágætisskýringum um það í rauninni hvernig þetta vindur upp á sig af því að stundum kostar að spara, eins og sagt er.

Í lokin langar mig að rifja aðeins upp það vinnulag sem hefur verið hjá okkur í nefndinni. Af því að boðað hefur verið að milli 2. og 3. umr. í fjárlögum komi 20 milljarða kr. tilfærslutilkynning og hugsanlega eitthvað meira varðandi þingsályktunartillöguna sem samþykkt var af ríkisstjórninni í sumar, þá upplifi ég pínulítið að manni sé stillt upp við vegg ef maður á að taka ákvörðun á mjög skömmum tíma um svo stórar fjárhæðir sem verða þar undir. Ég hef því töluvert miklar áhyggjur. Við getum hugsanlega ekki kallað til þá gesti sem við mundum vilja fá til skrafs og ráðagerða og fá nánari útskýringar hjá. Við erum að renna inn í helgina, dagarnir eru fljótir að líða og við eigum eftir 2. umr., klára þessa umræðu, 3. umr. í fjárlögum og fjáraukalögum, við eigum eftir bandorminn, 2. og 3. umr. í síðari bandormi þannig að það er ótrúlega mikið eftir. Fyrir utan öll önnur mál auðvitað sem hér eru undir þá held ég að afar langt sé síðan að fjárlögin hafi verið rædd svona seint. Það hefur vissulega komið fyrir en ég held að það sé afar langt síðan 2. umr. hefur farið fram svona seint.

Frumvarpið kemur til okkar í fjárlaganefnd aftur og þar sem töluvert margar hugmyndir hafa vaknað er augljóst að við þurfum að fá fólk til okkar til að útskýra og ræða margt, fá að vita hvaða áhrif eitt og annað hefur o.s.frv. Ég held að við séum því miður runnin út á tíma fyrir jólin með að klára öll þessi mál sem fyrir okkur liggja en auðvitað vonar maður að við náum einhverri lendingu í þessu. En ef við erum að tala um ábyrg, gegnsæ vinnubrögð þá hlýtur það líka að kosta tíma. Ef við ætlum að vinna þetta mjög hratt þýðir það meiri hættu á alls konar yfirsjón og öðru sem annars væri kannski ekki til staðar, þ.e. ef við hefðum nægan tíma til að ræða þessi mál.



[20:31]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu og góða innsýn í starf fjárlaganefndar og eins yfirferð velferðarnefndar yfir einstaka þætti í fjárlögunum. Ég vildi fá að inna þingmanninn eftir því hvort það hafi komið fram hjá fulltrúum Landspítalans — af því að ég heyrði ekki fyrsta hluta ræðu hennar — hvernig þeir mætu rekstrarframlögin til spítalans eins og þau standa núna eftir þær breytingar sem meiri hluti fjárlaganefndar gerði á föstudaginn var.

En aðallega vildi ég inna hv. þingmann eftir því hvernig hann sér þetta verklag í fjárlögunum. Nú veitti stjórnarandstaðan hæstv. fjármálaráðherra sérstakan byrjendafrest þar sem ákveðið var að falla frá lögákveðnum framlagningardegi fjárlagafrumvarpsins sem jafnan er mál nr. 1 hér á dagskrá þingsins. Þingið hefði jú átt að hefjast annan þriðjudag í september en var frestað til 1. október svo að hæstv. fjármálaráðherra næði að vinna sína heimavinnu. Síðan kemur þetta frumvarp inn og jafnharðan er því lýst yfir að það sé svo meingallað að fjárlaganefnd þurfi að vinna mikið í því að laga málið. Þær tillögur birtast okkur svo ekki fyrr en föstudaginn 13. desember og enn eiga eftir að koma viðamiklar breytingartillögur á milli umræðna. Hvaða úrbætur sér hv. þingmaður helst að hægt sé að gera á þessu fjárlagaferli þannig að vandaðri vinnubrögð séu við fjárlagagerðina? Það er algjör grundvöllur að því að framkvæmd ríkisfjármála sé með þeirri festu sem nauðsynleg er að vandað sé til fjárlagagerðarinnar.



[20:33]
Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kom nú ekki fram hjá Landspítalanum hvað varðaði rekstrarframlagið. Það er augljóst að sú viðbót sem verið er að setja inn núna, 1.600 millj. kr., er sett bæði í rekstur og viðhald og annað því um líkt. Fram hefur komið að það stefnir í 1,5 milljarða halla á þessu ári þannig að það er augljóst að þrátt fyrir yfirlýsingar hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra um að 2/3 af eldri skuld Landspítalans verði afskrifaðir kemur spítalinn til með að sitja uppi með töluvert mikinn halla áfram. Ekki veit ég hvort þeir verða virkjaðir aftur þessir samningar sem kveða á um að halda sér innan ramma fjárlaga í þrjú ár til þess að þetta geti endurtekið sig en þá þýðir það auðvitað að ef framlögin í reksturinn verða ekki aukin enn frekar þá veltir hann miklum halla á undan sér.

Varðandi verklag og framlagningu fjárlagafrumvarpsins þá höfum við gagnrýnt það töluvert mikið og ég held að það sé málefnaleg gagnrýni. Það er rétt að frestur var lengdur og þingsköpin kveða á um annan þingsetningardag, hann var færður til aftur. Vel má vera að ný ríkisstjórn þurfi aukið svigrúm á kosningaári en ég held að það geti bætt ferla í þessu samhengi. Ég vona að ákvæði í nýju fjárreiðulögunum, um að leggja þurfi fram á næsta ári útgjaldaramma í apríl, geti orðið til þess að einhver mynd komist að minnsta kosti á það sem við getum svo frekar unnið með, allt til að flýta fyrir.



[20:36]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Viðvaningsbragur, byrjendamistök, fúsk og handarbakavinnubrögð. Það eru svona í aðalatriðum þær einkunnir sem hægt er að gefa fyrstu fjárlögum þessarar ríkisstjórnar. Þeir þurftu ekki bara frestun á þingsetningunni sjálfri til að geta komið saman frumvarpi sem þeim fannst þó jafnharðan vera alveg ómögulegt heldur er stendur hér nefndarmaður í fjárlaganefnd Alþingis, samviskusamur og málefnalegur nefndarmaður, sem leggur sig fram um að sinna störfum sínum og kynna sér þau efni sem fyrir eru í nefndinni, og 17. desember liggur það ekki fyrir og hefur ekki komið fram fyrir nefndinni hvort þær breytingar sem gerðar voru á fjárveitingum Landspítalans föstudaginn 13. desember séu fullnægjandi fyrir rekstur spítalans á komandi ári.

Það þýðir að við stöndum hér í umræðum að kveldi dags 17. desember og þyrftum helst að ljúka fjárlögum eigi síðar en hinn 19. desember, þ.e. daginn eftir morgundaginn, og það hefur bara engin umfjöllun farið fram um það. Ekki eru komnar fram skriflegar umsagnir spítalans um það hvaða áhrif þessar breyttu fjárveitingar hafi og hvort þær nægi til þess að halda uppi lágmarksþjónustustigi á kjarnaheilbrigðisstofnun þjóðarinnar þar sem spurningarnar eru um líf og dauða á hverjum degi.

Virðulegi forseti. Þetta er náttúrlega slíkt fúsk, slíkur viðvaningsháttur í fjárlagagerð og svo óvönduð vinnubrögð um lykilstofnanir í íslensku samfélagi sem mest má vera og auðvitað stórkostleg öfugmæli að kalla slík handarbakavinnubrögð þjóðarsátt.



[20:38]
Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir það að mér fannst töluverður byrjendabragur á framlagningu fjárlagafrumvarpsins; þetta eru jú ekki nýir menn í pólitík í sjálfu sér þó að þeir hafi ekki setið á ráðherrastólum áður. Það var nú pínulítið skondið að hæstv. fjármálaráðherra stóð varla með sínu eigin frumvarpi í sólarhring. Þá var farið að draga úr því og tala á þann veg að þetta væru bara einhverjar tillögur og eitthvað slíkt og það kemur frá honum sjálfum. Auðvitað fannst manni það svolítið sérkennilegt, ég játa það alveg.

Þegar ég byrjaði að lesa fjárlagafrumvarpið þá fannst mér strax að þetta væri svolítið embættismannslegt, eða ég hafði það á tilfinningunni að þetta væri svolítið þannig. Þrátt fyrir að þingið eigi að hafa aðkomu að — og það á að gera það — slíku frumvarpi þá finnst manni sérstakt að það sé ekki gert fyrr en á síðari stigum. Mér fyndist betri bragur á því að það væri fyrr. En vissulega er það þannig að þegar menn segja í kosningabaráttu að þetta sé allt klárt, hvernig eigi að gera þetta — það megi helst ekki ljóstra því upp af því að þá geti einhverjir aðrir tekið hugmyndirnar o.s.frv.; það var það sem ég heyrði í kringum mig í minni kosningabaráttu — þá einhvern veginn kom þetta mjög mikið á óvart.

Það kom líka á óvart hversu gríðarlega miklar breytingar er verið að gera við 2. umr. Háar fjárhæðir og mér segir svo hugur að það sé ekki allt búið enn, að enn eigi eftir að gera töluvert miklar breytingar fyrir utan þessi skuldamál sem tillaga á eftir að koma fram um.



[20:40]
Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar og innlegg í umræðuna. Það er áhugavert að heyra hvað hún hefur að segja um þessi mál þar sem hún situr í nefndinni og þess vegna langar mig að spyrja hana nokkurra spurninga. Það er lögð töluverð áhersla á það í breytingartillögum meiri hlutans að skera niður í ráðuneytunum og þar er miðað við 5% flatan niðurskurð fyrir utan að bætt er allverulega í gagnvart utanríkisráðuneytinu og þeir fá dálítið hærri kröfu á sig.

Af því að ég starfaði í ráðuneytum á síðasta kjörtímabili veit ég að þau voru skorin mjög hressilega niður þá. Það var ekki skorið flatt heldur tóku flestir ráðherrarnir ákvörðun um að skera fyrst niður á skrifstofum ráðuneytanna áður en farið var í verkefnin utan þeirra. Til dæmis í iðnaðarráðuneytinu gamla held ég að við höfum farið í hátt í 30%, uppsafnað, í niðurskurði.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort eitthvað hafi verið rætt í nefndinni hvaða áhrif niðurskurðurinn muni hafa, í fyrsta lagi á mannafla. Mun þetta þýða uppsagnir á fólki og þá hversu miklar? Hefur það verið rætt að ef til þess kemur hvaða áhrif það hafi þá á einstök verkefni og hvernig þetta geti allt saman farið fram? Er þetta gerlegt vegna samninga sem starfsmenn í ráðuneytunum hafa og hvaða áætlanir eru uppi um í hvað skuli höggva? Í ofanálag er þetta er býsna stór biti miðað við það sem á undan er gengið og því hlýtur það að hafa verið kynnt fyrir nefndinni. Ég trúi ekki öðru en að meiri hluti nefndarinnar taki ákvörðun byggða á vitneskju um hvernig þetta er gerlegt.



[20:42]
Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Það er rétt, eins og við vitum, að töluverður niðurskurður hefur verið undanfarin ár í kjölfar hrunsins. Þegar staðan var 216 milljarðar kr. í mínus var eðlilega ekki annað hægt. Við höfum ekki fengið öll ráðuneyti á fund okkar í fjárlaganefnd en fengum þau nokkur. Það er rétt að það er töluvert mikið höggvið í utanríkisráðuneytið, það er ekki nóg með þann niðurskurð sem er þar undir heldur sjáum við hér tillögu upp á tæplega 48 millj. kr. sem hæstv. utanríkisráðherra kallaði eftir og biðlaði til meiri hluta fjárlaganefndar að reyna að bæta ráðuneytinu það upp. Það er því höggvið sérstaklega mikið skarð, held ég, í utanríkisráðuneytið.

Það sem kom fram hjá fulltrúum þeirra ráðuneyta sem komu til okkar var að launakostnaður er, eins og við þekkjum, stærsti pósturinn í öllum ráðuneytum. Þetta þýðir að einhver verkefni halda ekki áfram, einhver verkefni sem fyrirhuguð voru komast ekki á koppinn og ef þetta væri eingöngu mælt í mannskap væru það á bilinu 4–5 starfsmenn í hverju ráðuneyti. Þetta kom flatt upp á starfsmenn og maður fann að þetta var sumum sem komu til okkar áfall, það var erfitt. Ég upplifði það að minnsta kosti þannig, að svoleiðis væri tilfinningin fyrir þá. Mér er minnisstætt að úr menntamálaráðuneytinu kom til dæmis PISA, eða eitthvað undir, og maður fer að hugsa að þegar talað er um læsi eða ekki gott læsi er eitt af því sem við höfum notað til að miða okkur við þátttaka í PISA.



[20:44]
Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef ég skil hv. þingmann rétt er það þannig að ráðuneytunum sjálfum er gert að greiða úr þessu. Það þykir mér, verð ég að segja, mjög undarlegt vegna þess að þegar farið er að höggva svona mikið í starfsemi ráðuneytanna eru spurningarnar um hvaða verkefni þurfa að víkja að mínu mati orðnar pólitískar.

Það er þá eitthvað sem við hér eigum að minnsta kosti að fá upplýsingar um fyrir fram áður en endanlegar ákvarðanir um það eru teknar. Af því að hv. þingmaður nefndi utanríkisráðuneytið er þetta náttúrlega töluvert mikið högg þar, ég held að það fái 7–8% í staðinn fyrir 5% plús það að fá þessar 47 milljónir sem því er ætlað að taka á sig vegna hins sorglega máls þar sem fjárdráttur varð innan eins sendiráðsins. Þetta er því töluvert högg fyrir það ráðuneyti og ég er ekkert viss um að ef menn þurfa til dæmis að fara í uppsagnir þar sé það gerlegt á einu ári. Það er eitthvað sem mér finnst að þingið og nefndin þurfi að skoða vel.

Annað sem mig langar að nefna er að það kemur líka fram í tillögum nefndarinnar að tekin hafi verið ákvörðun um að loka skrifstofu rannsóknastofnana atvinnuveganna og þar er fjármagnið helmingað af því að hún á að vinna eitthvað inn í árið en svo á að leggja hana niður. Ég veit að verkefnin sem eru unnin þar hverfa ekki. Fékk nefndin einhverjar upplýsingar um hvað yrði um þau verkefni? Ég ætla að taka sem dæmi Tækniþróunarsjóð, af því að okkur hefur orðið tíðrætt um hann, en þessi skrifstofa hefur séð um alla umsýslu fyrir sjóðinn. Þýðir þetta þá að taka verður fjármuni úr sjóðnum hér eftir til að bjóða þessa starfsemi út eða hvernig ætla menn að koma þeim verkefnum fyrir? (Forseti hringir.) Ég held að mjög margar tillagnanna séu gríðarlega vanhugsaðar en mér þætti vænt um að heyra um þetta frá hv. þingmanni.



[20:47]
Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum spurningarnar. Það kom ekki fram að öðru leyti en því að þegar ráðuneytin ræddu þetta, og þau ræddu það ekkert formlega, kom það, eins og ég sagði, mjög flatt upp á þau. Þetta gerist alveg á síðasta augnablikinu áður en málið er tekið út úr nefndinni og maður hafði það á tilfinningunni að verið væri að redda þarna aurum eða búa til eitthvert gott útlit, yfirbragð, að skera niður í Stjórnarráðinu eða einhverju slíku, yfirstjórn. Ég veit það eiginlega ekki alveg, ég held að það sé engin stefnumörkun. Það virkar að minnsta kosti þannig á mann. Þetta er ekki útpælt og það liggur ekki fyrir, við höfum að minnsta kosti ekki séð það. Ég get sagt svo mikið að við höfum ekki séð neitt sem segir að þetta verði svona og svona, þessi 5% þýði þetta eða við erum búin að leggja þetta niður fyrir okkur og það verður svona.

Þetta er auðvitað í ofanálag við það sem áður var boðað. Það má ekki gleyma aðhaldskröfunni sem kemur fram í frumvarpinu sjálfu. Þetta er ofan á hana og ég tek undir það að ef fella á niður verkefni, t.d. PISA, mundi ég vilja fá að hafa skoðun á því, ef það væri tillaga ráðherra eða embættismannanna í staðinn fyrir að segja upp einhverjum að hætta við þetta eða hitt verkefnið sem við sem þing erum búin að samþykkja eða þeir sem voru hér á undan okkur. Ég held að klárlega sé hægt að segja að gengið væri fram hjá þinginu með því ef það væri niðurstaðan.

Nei, það kom nefnilega ekki fram með rannsóknastofnanir atvinnuveganna og ég er ekki viss um að allir hafi gert sér grein fyrir því með hvaða hlutverk hún fer, hvað það er sem þarna er undir. Það er akkúrat þetta sem hv. þingmaður nefnir; eigum við að taka fjármuni úr Tækniþróunarsjóði (Forseti hringir.) sem þó hefur verið skorinn mikið niður nú þegar?



[20:49]
Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Ef við viljum meiri sátt um tekjur og útgjöld ríkisins þarf minni hluti þingsins að hafa einhver önnur verkfæri til að stöðva meiri hlutann í því að ganga gegn vilja meiri hluta þjóðarinnar en að halda langar ræður, hverja á fætur annarri í 2. umr. um frumvörp. Það er eina verkfærið í dag sem minni hlutinn hefur til þess að stöðva meiri hlutann í því að leggja fram lagafrumvörp eða hafa ákvæði í lagafrumvörpum sem ganga klárlega gegn vilja meiri hluta þjóðarinnar.

Eitt slíkt verkfæri væri að 1/3 hluti þingmanna gæti vísað málum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Nú styttist í að við fáum rafrænar kosningar á Íslandi, það var í fréttum að Þjóðskrá væri að undirbúa slíkt, þannig að kostnaðurinn við slíkar þjóðaratkvæðagreiðslur væri þar af leiðandi ekki mikill. Það sem þetta mundi líka þýða er að þriðjungur þingmanna mundi ekki vísa málum í þjóðaratkvæðagreiðslu ef hann teldi að meiri hluti þjóðarinnar mundi fella málin, væri ekki sammála minni hlutanum. Það er ekkert sérstaklega skynsamlegt að senda slík mál en óumdeild atriði væri hægt að senda.

Þetta þýddi líka að menn ynnu í meiri sátt á þinginu. Ef meiri hlutinn vissi að hann gæti ekki bara valtað yfir minni hlutann og þjóðarviljann ynni hann hlutina í meiri sátt og líka náttúrlega af meiri fagmennsku. Það hefur ekki verið haldið nógu vel á spöðunum við gerð þessa fjárlagafrumvarps. Ítrekað hefur verið kvartað yfir því hversu lítið hafi verið fundað í til að mynda fjárlaganefnd. Þetta hefur allt komið fram í ræðum síðustu daga, á þessum síðustu þingfundum. Staðan er því sú núna að það eru ákvæði í fjárlögum sem minni hlutinn er ósammála og vill fá felld út og önnur atriði sem hann vill fá sett inn, og sum af þessum atriðum eru klárlega eitthvað sem meiri hluti þjóðarinnar er ekki með, eins og því að taka komugjöld af sjúklingum sem þurfa að leggjast inn á spítala. Það er nokkuð sem klárlega meiri hluti þjóðarinnar er ekki hlynntur.

Þá er það spurningin: Hvað er í gangi núna? Nú er það í gangi sem kallast málþóf þannig séð til þess að skapa grundvöll fyrir þeim samningum sem eru í vinnslu. Formennirnir eru búnir að reyna að semja um þinglokin fyrir jólin og nú langar mig að lesa tíu reglur um svoleiðis samningaviðræður úr athyglisverðum lista, um hvað er í gangi þannig að fólk geti skoðað þessar grunnreglur samningatækni og ímyndað sér hvað er að gerast á fundum formannanna.

Byrjum á reglu nr. 2. Þar segir, með leyfi forseta:

„Importance of Aiming High. The slogan „aim high“ has a great deal of relevance for successful negotiators because the expectation level of negotiators is closely related to the outcome of the negotiations.“ (ÁÞS: Þingmálið er íslenska.)

Með leyfi forseta, getur forseti úrskurðað hvort ekki megi vitna í enskan texta? Ég held að það sé rétt.

(Forseti (ValG): Forseti ætlar að þessu sinni að leyfa hv. þingmanni að vitna í ensku en hann kannski fer yfir það í stuttu máli á íslensku.)

Þakka þér fyrir, frú forseti. Það sem er verið að tala um hérna er það að í „aim high“, með leyfi forseta, felist að koma með miklar kröfur í upphafi. Ef við horfum á gerð þessa fjárlagafrumvarps og hvernig stjórnarliðar leggja það fram vita þeir auðvitað af því að þetta gerist í hvert einasta skipti við fjárlagagerð að menn reyna að ná einhverjum samningum í restina og þá er þessu verkfæri beitt, að tala út í hið óendanlega við 2. umr. þangað til samningar nást. Þegar maður veit þetta leggja stjórnarliðar inn í fjárlagafrumvarpið og tekjuöflunarfrumvarpið ákvæði sem þeir vita að minni hlutinn getur ekki sætt sig við, að sjálfsögðu, eins og það að taka út þetta hótelgjald á sjúkrahúsunum og setja komugjald í staðinn. Þetta er alveg klassískt dæmi, að sjálfsögðu vita þeir að minni hlutinn getur ekki sætt sig við það og það verður eitt af því sem þeir geta þá notað sem svona „bargaining chip“, með leyfi forseta, til að geta sagt: Ókei, við tökum þá þetta út, og vita náttúrlega að þetta er það sem er verið að semja um sem og önnur atriði. Stjórnarliðar væru náttúrlega ekkert að vinna vinnuna sína ef þeir gerðu þetta ekki.

Ég bendi aftur á að þetta er leikurinn sem er í gangi. Þá er verið að setja inn alls konar aðra hluti, eins og það að fólk sem er á atvinnuleysisbótum fái ekki jólabónusinn. Með því eru stjórnarliðar að reyna að skapa sér svigrúm en það er samt frekar ógeðfellt að láta það bitna á fólki sem hefur búist við þessu og hefur raunhæfar væntingar til þess að fá jólabónusinn þegar þeir skapa sér samningsstöðu með því að hóta því eða leggja til að þessi jólabónus komi ekki. Það er frekar ógeðfellt, ef maður hugsar það, rétt fyrir jólin að bjóða fólki upp á það óöryggi. Og aftur bendi ég á að það þurfa að vera einhver önnur úrræði fyrir minni hlutann en að standa í þessu málþófi hérna, geta þá kannski vísað málum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ef stjórnin ætlaði að setja inn einhver svona ákvæði sem klárlega flestir eru á móti þyrfti hún að sitja uppi með það að þjóðin hafnaði því.

Ég reyni bara að þýða þessi atriði hérna.

(Forseti (ValG): Forseti biður þingmanninn að halda sig við íslensku.)

Já, sagði ég eitthvað á ensku núna, frú forseti? Ég spyr.

(Forseti (ValG): Nei.)

Nei, ókei. Ég var að segja að ég ætlaði að þýða.

(Forseti (ValG): Já, fínt.)

Ókei, já. Þú hlustaðir kannski ekki nógu vel.

Gefðu sjálfum þér rými til málamiðlunar. Málamiðlun er grundvallaratriðið til að ná árangursríkri niðurstöðu í samningaviðræðum. Jafnvel hinir færustu samningamenn verða að miðla málum að einhverju leyti til að ná árangursríkri niðurstöðu.

Þarna komum við aftur að því sama. Menn vita að viðsemjandinn setur markið hátt, setur inn atriði sem hann getur síðan samið um og svo semur hann um þau. Þannig fær hann þá niðurstöðu sem hann vildi raunverulega alltaf fá. Vitanlega er þetta í gangi, annars væru menn ekki að vinna vinnuna sína.

Svo er regla nr. 4, að setja pressu á hinn samningsaðilann. Vegna þeirrar pressu sem er innifalin í hverjum einustu samningaviðræðum næst árangur af þeim að miklu leyti vegna getu samningsaðila til að auka pressuna á hinn aðilann og minnka pressuna á sjálfan sig á sama tíma.

Þá er spurningin: Hvaða pressa er núna í gangi? Báðir aðilar eru að pressa á hinn aðilann, minni hlutinn hefur þá pressu að halda málþófinu gangandi, vera hérna frá kl. 10.30 á morgnana fram á nótt. Menn geta skipt með sér verkum og þetta er ekkert mikil pressa. Það er kannski meiri pressa þegar dregur nær jólum. Þá vill fólk komast heim og vera með fjölskyldunum sínum. Þarna mundi ég segja að pressan væri þá meiri á minni hlutann af því að meiri hlutinn og stjórnarherrarnir sem vilja ná fram sínu geta sent nokkra, þeir þurfa ekki að hafa marga þingmenn á svæðinu og geta þá flestir fengið að halda jól ef þetta mundi halda fram yfir aðfangadag. Á sama tíma kemur pressan á stjórnarherrana að vera ekki algjörlega óbilgjarnir. Það held ég að sé stóra pressan því að þeir hafa í rauninni öll vopn í sínum höndum hvað þetta varðar. En það væri frekar óbilgjarnt af þeim að vera með þetta fram á aðfangadagskvöld og þá mundu einhverjar raddir heyrast úr samfélaginu.

Þá komum við að reglu nr. 5, ekki sýna veikleikana. Nú er ég að greina þessa stöðu og er ekkert í þessu karpi sjálfur þannig séð. Hérna kemur: Aldrei gefa upp upplýsingar um veikleika eða styrkja samningsstöðu hins aðilans.

Þessi regla er sjálfsögð en þó að hún sé það er oft horft fram hjá þessu og menn gleyma þessum lið.

Regla nr. 6 er að nota eftirgjöfina af skynsemi. Málamiðlun er lykilatriði við samningaviðræður og árangursríkir samningamenn eru meistarar í því að vita hvenær á að stíga til baka, hvenær á að gefa eftir til að ná sem mestum árangri.

Svo heldur þetta hérna áfram, regla nr. 9, notaðu — ég bara man ekki þetta orð í svipinn, því er stolið úr mér. Ég fer þá á næsta lið. Nei, nú ætla ég að gera annað. Mig langar að fara yfir fjárlagatillögur ungra sjálfstæðismanna til að sjá hvort það er ekki eitthvert svigrúm sem stjórnvöld geta nýtt sér til að verða við einhverjum af þessum kröfum frá minni hlutanum og sjá hvar þetta svigrúm er að finna. Þetta er gott plagg ungra sjálfstæðismanna, Fjárlagatillögur SUS 2014, með leyfi forseta, Stöndum vörð um grunnstarfsemina.

Það er nú eitt, að standa vörð um grunnstarfsemina, eins og grunnheilbrigðisstarfsemi sem einmitt meiri hluti er sammála um að setja í forgang. Ætli 95% þjóðarinnar séu ekki sammála um það?

Hérna segir í 1. lið: Samantekt og kynning, með leyfi forseta:

„Í fyrsta fjárlagafrumvarpi nýrrar ríkisstjórnar, sem kynnt var þann 1. október síðastliðinn, er gert ráð fyrir afgangi af heildarjöfnuði sem nemur 0,5 milljörðum króna árið 2014. Ungir sjálfstæðismenn telja ástæðu til að fagna því, enda hefur ríkið verið rekið með tapi síðustu sex ár.

Ungir sjálfstæðismenn hvetja jafnframt ríkisstjórnina til að samþykkja ekki breytingar á fjárlögunum sem verða þess valdandi að 0,5 milljarða króna afgangurinn verði að tapi. Þá er mikilvægt að ný ríkisstjórn herði þegar í stað á aga við framkvæmd fjárlaga.

Fjárlagafrumvarp næsta árs gerir ráð fyrir 458,7 milljóna króna afgangi á rekstri ríkissjóðs. Heildartekjur ríkissjóðs eru áætlaðar 587,6 milljarðar króna, skatttekjurnar 534,3 milljarðar króna og heildarútgjöld 587,1 milljarður króna.

Gert er ráð fyrir að frumjöfnuður, það er afkoma ríkissjóðs án vaxta- og fjármunagjalda, verði um 56 milljarðar króna. Jákvæður frumjöfnuður gefur vissulega til kynna að hreinn rekstur ríkisins, tekjur á móti rekstrarútgjöldum, sé jákvæður. Vinstri stjórnin, sem hrökklaðist frá völdum seinasta vor, lagði til dæmis mikla áherslu á þann hátt fjárlaga. Slík útskýring er þó með öllu tilgangslaus. Þeir sem bera ábyrgð á rekstri ríkissjóðs geta ekki látið eins og vaxtagjöld séu ekki til. Ekki frekar en að heimili geti látið eins og afborganir skulda séu ekki til.

Í raun mætti segja að vaxtagjöld ríkissjóðs væru næststærsta ráðuneytið. Gjöldin nema tæpum 76 milljörðum króna á næsta ári en sem dæmi nema útgjöld mennta- og menningarmálaráðuneytisins 66,7 milljörðum króna. Forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar er að greiða niður skuldir og draga þar með úr þessari miklu vaxtabyrði. Vaxtakostnaðurinn verður ekki lækkaður nema með hraðari uppgreiðslu skulda en áður var gert ráð fyrir.

Skuldir ríkisins eru um 1.950 milljarðar króna. Það gefur augaleið að þörf er á mun meiri afgangi í rekstri ríkissjóðs en gert er ráð fyrir á næsta ári. Rétt eins og heimilin þurfa að hafa stjórn á útgjöldum til að ná endum saman verða stjórnmálamenn að hafa dug í sér til að draga með verulegum hætti úr ríkisútgjöldum. Það er ánægjulegt að ríkisstjórnin stefni að hallalausum rekstri á næsta ári en afgangurinn er því miður allt of lítill. Ríkisstjórnin verður að leggja megináherslu á lækkun skulda ríkissjóðs á kjörtímabilinu. Það þýðir að hún verður að forgangsraða rétt og marka nýja braut í skipulagi ríkisins. Ef haldið verður áfram í fari ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur er hætt við því að framtíðarkynslóðir Íslendinga muni festast í skuldafjötrum sem sér ekki fyrir endann á.

Samband ungra sjálfstæðismanna (SUS) telur sem fyrr að vel sé hægt að spara í rekstri ríkisins og leggur hér til að útgjöld ríkisins verði lækkuð í það minnsta um 83,5 milljarða króna. Verði farið að tillögum SUS, sem bitna ekki á mennta-, heilbrigðis- og velferðarkerfinu, má gera ráð fyrir hallalausum rekstri ríkissjóðs auk þess sem hægt væri að lækka skatta og hefja niðurgreiðslu á skuldum ríkissjóðs.“

Svo er 2. liður í þessum tillögum, Sparnaðartillögur ungra sjálfstæðismanna, með leyfi forseta:

„Í fjárlagafrumvarpi næsta árs má, líkt og fyrri ár, finna fjöldamörg verkefni sem eiga ekki að vera á borði hins opinbera. Þar er ýmist um að ræða óþarfaverkefni eða verkefni sem væru betur komin í höndum einstaklinga.

Hér á eftir fara ítarlegar sparnaðartillögur ungra sjálfstæðismanna. Eins og áður koma þær ekki niður á velferðar-, heilbrigðis- eða menntakerfinu. Tillögurnar eru settar fram á hugmyndafræðilegum grunni í þeim tilgangi að benda á hvernig ríkisreksturinn gæti verið betri og einfaldari en hann er í dag. Þannig er tillögunum ætlað að gefa mynd af því hvernig haga mætti ríkisfjármálum betur.

Þá er rétt að minna á að skatttekjur ríkisins verða ekki til af sjálfu sér. Fjármagn er tekið úr vösum vinnandi manna og því varið í fjölmörg verkefni sem eru, oft á tíðum, aðeins stjórnmálamönnum hverju sinni að skapi.

Ungir sjálfstæðismenn hafa farið yfir hvert ráðuneyti fyrir sig ásamt æðstu stjórn ríkisins. Í töflum má finna þau atriði sem ýmist má leggja niður eða færa úr höndum hins opinbera í hendur einstaklinga. Nánari skýringar fylgja í greinargerð með hverju ráðuneyti. Allar tölur eru í milljónum króna.

Í eftirfarandi töflu má sjá samantekt á sparnaðartillögum SUS flokkað eftir ráðuneytum. Lagt er til að útgjöld ríkisins verði lækkuð um 85,4 milljarða króna. Eins og sjá má í töflunni eru tillögurnar misviðamiklar. Þannig er lagt til að nær öll útgjöld atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins falli niður (92%) og stór hluti af umhverfis- og auðlindaráðuneytinu (73%). Hins vegar er lítið hreyft við velferðarráðuneytinu (1%).“

Fyrir æðstu stjórn ríkisins eru greiddar úr ríkissjóði 4.007,8 milljónir. Sparnaðartillögur SUS eru 0 og sparnaður af beinum útgjöldum þar af leiðandi 0%.

Fyrir forsætisráðuneytið er greidd úr ríkissjóði 2.959,1 milljón. Sparnaðartillögur SUS hljóða upp á 1.386,3 milljónir og er sparnaður þá af beinum útgjöldum fyrir forsætisráðuneytið upp á 47%.

Fyrir mennta- og menningarmálaráðuneytið eru greiddar úr ríkissjóði 64.304,9 milljónir. Sparnaðartillögur SUS hljóða upp á 24.800,9 milljónir. Þá er sparnaður af beinum útgjöldum upp á 39%.

Fyrir utanríkisráðuneytið er greidd úr ríkissjóði 11.508,1 milljón og sparnaðartillögur SUS hljóða upp á 4.085,4 milljónir og sparnaður þá af beinum útgjöldum til utanríkisráðuneytisins er 36%.

Fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti eru greiddar úr ríkissjóði 25.644,4 milljónir og sparnaðartillögur SUS 23.584,7 milljónir og þá er sparnaður af beinum útgjöldum 92%.

Fyrir innanríkisráðuneyti eru greiddar úr ríkissjóði 54.974,9 milljónir og sparnaðartillögur SUS hljóða upp á 22.831 milljón. Sparnaður þá af beinum útgjöldum hjá innanríkisráðuneytinu hljóðar upp á 42%.

Fyrir velferðarráðuneyti eru greiddar úr ríkissjóði 174.923,2 milljónir og sparnaðartillögur SUS hljóða upp á ekki nema 1.982,7 milljónir og þá er sparnaður af beinum útgjöldum 1%.

Fyrir fjármála- og efnahagsráðuneyti eru greiddar úr ríkissjóði 50.686 milljónir, sparnaðartillögur SUS eru 963,8 milljónir. Þá er sparnaður af beinum útgjöldum til fjármála- og efnahagsráðuneytisins 2%.

Fyrir umhverfis- og auðlindaráðuneytið eru greiddar 5.341,3 milljónir, sparnaðartillögur SUS eru 3.909,7 milljónir og þá er sparnaður af beinum útgjöldum 73%.

Samtals eru greiddar úr ríkissjóði 394.349,7 milljónir og sparnaðartillögur SUS hljóða upp á 83.544,5 milljónir og þá hljóðar sparnaður af beinum útgjöldum upp á 21%.

„2.1 Æðsta stjórn ríkisins.

Undir liðinn Æðsta stjórn ríkisins fellur meðal annars embætti forseta Íslands, Alþingi, ríkisstjórn Íslands, Ríkisendurskoðun og Hæstiréttur. Heildarútgjöld ríkisins undir þessum lið nema um 4 milljörðum króna. Athygli vekur að útgjöld ríkisins til æðstu stjórnar hafa aukist á milli ára, þvert á væntingar ungra sjálfstæðismanna. Vissulega má draga úr útgjöldunum en aðeins fimm prósenta sparnaður mundi, svo dæmi sé tekið, nema um 200 milljónum króna.

Endurskoða má hlutverk Ríkisendurskoðunar. Einkaaðilar væru betur til þess fallnir að endurskoða reikninga ríkisins og vinna að úttektum. Engar forsendur liggja þó fyrir um það hversu mikið fjármagn mundi sparast við slíkan tilflutning.“

Í lið 2.2 um forsætisráðuneytið leggja ungir sjálfstæðismenn til að nokkrir liðir verði teknir af fjárlögum.

Hinu íslenska fornritafélagi eru á fjárlögum 2014 ætlaðar 10 milljónir og tillaga SUS er að það verði allt saman tekið út.

40 milljónir sem eru áætlaðar í efnahagsrannsóknir verði ekki veittar. 9,8 milljónir verði ekki veittar í Jafnréttissjóð.

Það er einfaldara bara að segja að allt sem er nefnt verði bara tekið af fjárlögum, svo sem samhæfingarnefnd um siðferðileg viðmið fyrir stjórnsýsluna 3,2 milljónir, ýmis verkefni 43 milljónir, ráðstöfunarfé 2,5 milljónir, Vest-norrænt menningarhús í Kaupmannahöfn 12,1 milljón, óbyggðanefnd 82,7 milljónir, atvinnuuppbygging og fjölgun vistvænna starfa 86 milljónir, græna hagkerfið og verkefni tengd vernd sögulegra og :menningartengdra byggða og fornleifa o.fl. 190 milljónir, Þjóðminjasafn Íslands 501,3 milljónir, Minjastofnun Íslands 127,7 milljónir, Fornminjasjóður 31,6 milljónir, húsafriðunarsjóður 45,1 milljón og Þjóðgarðurinn á Þingvöllum 201,3 milljónir.

Við þessi verkefni og stofnanir sem heyra undir forsætisráðuneytið hljóða sparnaðartillögur SUS upp á 1.386,3 milljónir kr.

„Eins og sjá má leggja ungir sjálfstæðismenn til tæplega 1,4 milljarða króna beinan sparnað hjá forsætisráðuneytinu. Það er heldur meira en seinustu ár í krónutölum sem helgast af því að ýmsar stofnanir, svo sem Þjóðminjasafn Íslands og Minjastofnun Íslands, hafa verið færðar á milli ráðuneyta.

Það er ekki hlutverk hins opinbera að starfrækja söfn. Söfn eiga að vera rekin af einkaaðilum sem fjármagna þau með styrkjum frá einstaklingum og aðgangsgjaldi. Á þessu eru engar undantekningar. Þá er rétt að vekja athygli á því að sértekjur Þjóðminjasafns Íslands hafa stóraukist síðastliðin ár samhliða aukinni fjölgun ferðamanna hingað til lands.

Hvað Þjóðgarðinn á Þingvöllum varðar er, líkt og fyrri ár, ekki lagt til að hann verði lagður niður heldur að rekstur hans verði tekinn af fjárlögum. Þjóðgarðurinn fær um 65 milljónir króna í aðrar tekjur og hafa þær farið vaxandi síðustu ár. Réttast væri að rekstur hans yrði sjálfbær með eigin tekjum.

Heildarsparnaður ráðuneytisins getur samkvæmt tillögum SUS verið um 47% af beinum útgjöldum ráðuneytisins.“

Í lið 2.3 er fjallað um mennta- og menningarmálaráðuneytið. Ungir sjálfstæðismenn leggja til að upptaldir liðir verði teknir af fjárlögum, verkefni og stofnanir, svo sem hér segir:

Ráðstöfunarfé 6 milljónir, Tilraunastöð Háskólans að Keldum 205,2 milljónir, Raunvísindastofnun Háskólans 1.315,1 milljón, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum 309,6 milljónir, Rannsóknamiðstöð Íslands 275,1 milljón, Markáætlun á sviði vísinda og tækni 192,5 milljónir, Rannsóknasjóður 1.135 milljónir, Innviðasjóður 106 milljónir, Nýsköpunarsjóður 49,5 milljónir, Námsgagnastofnun 475,8 milljónir, Lánasjóður íslenskra námsmanna 8.358 milljónir, Þjóðskjalasafn Íslands 297,7 milljónir, Landsbókasafn Íslands 792,5 milljónir, Listasafn Einars Jónssonar 17,5 milljónir, Listasafn Íslands 201,8 milljónir, Kvikmyndasafn Íslands 53,2 milljónir, Hljóðbókasafn Íslands 87,4 milljónir, Náttúruminjasafn Íslands 23,8 milljónir, Gljúfrasteinn 31,9 milljónir, Safnasjóður 120,1 milljón, söfn og menningarminjar 43,9 milljónir, fjölmiðlanefnd 47,3 milljónir, Harpa 667,6 milljónir, viðhald menningarstofnana 103,1 milljón, Ríkisútvarpið 3.514 milljónir, Íslenski dansflokkurinn 127,5 milljónir, Þjóðleikhúsið 748,9 milljónir, Sinfóníuhljómsveit Íslands 762,4 milljónir, Launasjóðir listamanna 523,4 milljónir, Listskreytingasjóður 1,5 milljónir, Kvikmyndamiðstöð Íslands 735,3 milljónir, listir 951,1 milljón, ýmis fræðistörf 92 milljónir, norræn samvinna 17 milljónir, rammaáætlanir ESB um menntun, rannsóknir og tækniþróun 1.536 milljónir, æskulýðsmál 172,4 milljónir, ýmis íþróttamál 521,5 milljónir og ýmislegt 182,3 milljónir.

Sparnaðartillögur SUS hljóða því upp á 24.800,9 milljónir kr.

„Bein útgjöld mennta- og menningarmálaráðuneytisins nema um 64,3 milljörðum króna. Eins og gefur að skila rennur stór hluti þess fjármagns til menntastofnana, það er framhaldsskóla, háskóla og endurmenntunarstofnana.

Ungir sjálfstæðismenn fagna því að til standi að stytta nám til stúdentsprófs þannig að þrjú ár verði eðlilegur tími til að ljúka námi til stúdentsprófs. Þannig væri hægt að ná fram hagræðingu í menntakerfinu.

Þrátt fyrir að ungir sjálfstæðismenn leggi ekki til að hreyft verði við menntakerfinu að sinni telja þeir að draga megi verulega úr útgjöldum ráðuneytisins.

Eins og áður kom fram telur SUS það ekki vera hlutverk ríkisins að starfrækja söfn — hvað þá að skattgreiðendur séu látnir greiða fyrir þau.

Þá er það ekki hlutverk ríkisins, heldur fólks og fyrirtækja, að styrkja menningu. Ríkisvaldið á ekki að ákveða hvað sé góð menning og vond menning, líkt og nú er gert, með því að mismuna einum menningarhópi umfram annan. Þess vegna á ríkið að láta af styrkjum til tónlistarhússins Hörpu, Þjóðleikhússins, Sinfóníuhljómsveitarinnar, Íslenska dansflokksins og annarra skyldra málaflokka. Það þarf ekki að þýða að þessar stofnanir verði lagðar niður, heldur að þær verði fjármagnaðar með öðrum hætti.

Það eru gríðarleg vonbrigði að framlög skattgreiðenda til tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu skuli nema tæpum 670 milljörðum króna á næsta ári og að þau muni hækka um meira en 100 milljónir á milli ára. Framlög til Hörpu hafa hækkað mikið á undanförnum árum, þrátt fyrir innantómar yfirlýsingar um annað, og lítur allt út fyrir að þau muni hækka enn meira á næstu missirum.

Hvað Ríkisútvarpið (RÚV) varðar, þá hefur það verið stefna ungra sjálfstæðismanna í áraraðir að einkavæða fyrirtækið. RÚV hefur verið skattgreiðendum þung byrði í áranna rás ásamt því að hafa komið í veg fyrir heilbrigða samkeppni margra einkarekinna fjölmiðla. Rétt er að stíga skrefið til fulls sem fyrst og koma fyrirtækinu úr höndum ríkisins.

Heildarsparnaður ráðuneytisins getur samkvæmt tillögum SUS verið um 39% af beinum útgjöldum ráðuneytisins.“

Nú á ég eftir eina mínútu. Eigum við ekki bara að húrra okkur í gegnum utanríkisráðuneytið og geyma atvinnu-, nýsköpunar- og fleiri ráðuneyti til næstu ræðu sem ég þarf kannski að halda? Við sjáum til hvernig þeim tekst að semja um þetta allt saman.

Ungir sjálfstæðismenn leggja til að eftirfarandi liðir utanríkisráðuneytisins verði teknir af fjárlögum: Ýmis verkefni 78,7 milljónir, ráðstöfunarfé 3,5 milljónir, Þróunarsamvinnustofnun Íslands 1.777,5 milljónir, þróunarmál og alþjóðleg hjálparstarfsemi 2.225,7 milljónir.

Sparnaðartillögur SUS hljóða þá upp á 4.085,4 milljónir.

„Ungir sjálfstæðismenn leggja til að útgjöld utanríkisráðuneytisins verði skorin niður um tæpa 6 milljarða króna. Það munar mestu um tillögur SUS um að Þróunarsamvinnustofnun verði lögð niður og að öll útgjöld til þróunarmála verði lögð af.

Rétt er að endurhugsa öll atriði er varða þróunaraðstoð áður en stjórnmálamenn taka sig til og verja stórfelldu skattfé, í þessu tilfelli um fjögur þúsund milljónum króna, í þróunarmál. Stefna allra ríkja ætti að vera að auka alþjóðaviðskipti enda hefur það sýnt sig að besta þróunaraðstoðin er frjáls viðskipti.“

Ég kemst ekki í gegnum meira núna og tek þetta síðar.



[21:29]
Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að þakka hv. þingmanni fyrir ræðu sína og spyrja hann aðeins út í málaflokk sem mig grunar að sé honum hugleikinn, en það er niðurskurður til Vinnumálastofnunar, sem er töluvert mikill og ég hef áhyggjur af. Ég vil spyrja hvort hann telji að Vinnumálastofnun geti sinnt þeim fjölmörgu sem eru atvinnulausir og þurfa á aðstoð að halda og utanumhaldi til að komast aftur út í atvinnulífið. Sífellt fleiri eru búnir að vera lengi á atvinnuleysisskrá. Ég mundi vilja vita hvað hv. þingmanni finnst um þennan mikla niðurskurð til Vinnumálastofnunar, sem er rökstuddur þannig að atvinnulausum fækki en niðurskurðurinn er miklu meiri en nemur fækkun atvinnulausra.



[21:31]
Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst desemberuppbótin vera spurning um væntingar. Fólk hefur gert ráð fyrir að fá þessa desemberuppbót, það hafði væntingar til þess, það hefur gert ráðstafanir um fjárhag sinn í samræmi við það.

Þá vil ég í því ljósi vitna í einn hægri sinnaðasta þingmann Bandaríkjanna, Ron Paul, en ég er mikill aðdáandi hans. Hann er mikill málsvari frelsis og vill að fólk fái tækifæri til að velja sjálft, þ.e. hvort það vill taka þátt í velferðarkerfinu. Samt sem áður segir hann að það sé ekki hægt að klippa á það einn, tveir og þrír, og talar þá um gamla fólkið til dæmis sem er búið að vinna að því að byggja upp þetta kerfi og hefur væntingar til þess. Það sé ekki hægt að kippa því burt. Þetta kemur frá einum hægri sinnaðasta þingmanni Bandaríkjanna, honum finnst ekki heldur að það megi taka svona af fólki bara einn, tveir og þrír, af því að fólkið hefur réttmætar væntingar til þess. En hann vill gefa unga fólkinu tækifæri til þess að ákveða sjálft hvort það vill taka þátt í kerfinu.

Í þessu tilfelli eru réttmætar væntingar atvinnulausra, þeirra sem eru á atvinnuleysisbótum, um að fá uppbótina og Ron Paul mundi ekki vera sammála því að kippa henni burt einn, tveir og þrír.



[21:33]
Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Takk fyrir svarið, við erum greinilega sammála um það að desemberuppbótin ætti að vera inni og að atvinnulausir hafi gert ráð fyrir henni, hún skiptir máli núna í desembermánuði.

Það sem ég var líka að velta upp áðan var þessi niðurskurður til Vinnumálastofnunar sem mun koma niður á því hvernig er hægt að aðstoða atvinnulausa, hjálpa þeim að sækja um starf og halda utan um þá, beina þeim í ýmis úrræði og þar fram eftir götunum. Mig minnir að það sé verið að tala um 30% niðurskurð á Vinnumálastofnun. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður deili þeim áhyggjum með mér að þetta sé fullmikill niðurskurður og muni bitna á þeim sem þurfa á þjónustu Vinnumálastofnunar að halda.



[21:34]
Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki nægar upplýsingar, ég hef ekki getað sett mig nægilega mikið inn í þetta mál sérstaklega til að geta metið hvaða áhrif þessi tiltekni niðurskurður muni hafa á starfsemi Vinnumálastofnunar. Ég er ekki nógu vel inni í því, ég hef ekki upplýsingar til að geta sagt til um það.

En ég ætla aftur að ítreka að það eru réttmætar væntingar sem fólk á atvinnuleysisbótum hefur til þess að fá desemberuppbót. Ef ríkisstjórnin ákveður sem svo að það skuli ekki gert á næsta ári, að ári, þegar við ræðum fjárlög aftur á næsta ári þá á bara segja það: Ókei, þetta sleppur í gegn núna en á næsta ári verður það ekki, og það er okkar stefna. Þá hefur fólk ekki þessar réttmætu væntingar til þess að fá uppbótina.

Ég vil aftur koma inn á, eins og ég kom inn á í ræðu minni, að það er hálfógeðfellt að setja þetta inn til þess að skapa sér einhvern samningsgrundvöll. Stjórnarflokkarnir vita alveg og stjórnarherrarnir vita að þetta er eitthvað sem minni hlutinn mun ekki geta sætt sig við, þannig að þetta er eitt af því sem verður dregið til baka, geri ég ráð fyrir. Það er hálfógeðfellt að nota sér fjárhagsöryggi fólks yfir hátíðarnar til þess að skapa sér samningsstöðu í umræðu um það hvenær eigi að ljúka þingi fyrir jól þannig að þingmenn geti farið heim og haldið gleðileg jól.



[21:36]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að rifja upp fyrir okkur stefnu ungra sjálfstæðismanna í ríkisfjármálum. Það er frekar hrollvekjandi á að hlýða en því miður erum við að feta okkur svolítið inn á þá braut. Hann vitnaði líka í það þegar SUS eða Samband ungra sjálfstæðismanna taldi ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur vera að festa Íslendinga í skuldafjötra, sem er náttúrlega í besta falli kómískt því að það náðist hér gríðarlegur árangur í ríkisfjármálum svo að eftirtektarvert varð langt út fyrir landsteinana. Það náðist vissulega með hækkun skatta og nýjum sköttum, með miklum niðurskurði en síðast en ekki síst fjárframlögum í alls kyns sjóði, áætlanir, framkvæmdir til þess að efla vöxt í landinu.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að það fjárlagafrumvarp sem við ræðum nú fyrir árið 2014 gefi okkur von um að við munum ná betri árangri í ríkisfjármálum á næstunni en okkur tókst á síðastliðnum fjórum árum. Er einhver markviss stefnubreyting? Sér þingmaðurinn fyrir sér að þetta séu raunhæf fjárlög, þau muni skila okkur hallalausum ríkissjóði og við séum í raun að byrja að greiða niður skuldir? Telur þingmaðurinn þetta frumvarp gefa fyrirheit um það?



[21:38]
Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Það eru náttúrlega mismunandi áherslur þarna, en ég held að þegar öllu sé á botninn hvolft sé þannig séð ekki stefnubreyting.

Síðasta ríkisstjórn erfði hrunið og þurfti að gera það sem hún gerði og hún hélt vel á efnahagsmálum, mundi ég segja. Nú erum við komin á þann stað að það er í spilunum að hægt er bjóða upp á hallalaus fjárlög í orði en ég sé það ekki gerast í raunveruleikanum. Þetta eru 500 milljónir, hálfur milljarður, sem fjárlögin eiga að vera í plús og ekki hægt að ætla að ekki komi einhver falinn kostnaður, að sjálfsögðu kemur einhver falinn kostnaður sem mun þýða að fjárlögin koma út í halla. Ég veit ekki í hversu miklum halla en líklega ekki mjög miklum. Ég held að það sé til mikils að vinna fyrir Sjálfstæðisflokkinn þegar kemur að því að byggja aftur upp ímynd flokksins sem efnahagslega ábyrgur flokkur. Það er kjarninn í sérhæfingu þeirra og þeir vilja hafa samkeppnisforskot á aðra á því sviði. Ég held að þeir muni reyna sitt besta til að hafa fjárlögin hallalaus því að ef þeim tekst það væri það að sjálfsögðu svakaleg fjöður í þeirra hatt. Ég veit ekki hvort þeim tekst það en mér þykir það ólíklegt miðað við að hálfur milljarður eigi að vera í plús samkvæmt fjárlagafrumvarpinu eða tillögunum.



[21:40]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég heyri að ég og hv. þingmaður deilum áhyggjum af þessu. Ég held líka að 500 milljónir séu lítið borð fyrir báru. Það er svo margt sem er óraunhæft þarna inni, óraunhæfar áætlanir og svo þegar í þokkabót er verið að eyðileggja, að því er virðist einungis af því að það var ákveðið af fyrri ríkisstjórn, alls kyns áform um fjárfestingarverkefni, sóknaráætlanir og samkeppnissjóði sem sýnt hefur verið fram á að skila gríðarlegum arði inn í þjóðarbúið er þetta náttúrulega ekki mjög sjálfbær stefna til frambúðar.

Mig langar í seinna andsvari mínu að nefna við hv. þingmann vegna hugmyndafræðinnar sem nú er komin inn — sem er svolítið hláleg samhliða því að við ætlum að ná hallalausum fjárlögum, það er ekki góð leið að draga mikið úr skattlagningu heldur þarf það að gerast á tímapunkti þegar við erum komin á betra ról með ríkisfjármálin — en verið að lækka skatta víða. Veiðigjöld á útgerðina eru að sjálfsögðu umfangsmest þar og svo er það á ferðaþjónustuna, gistinguna, augljósir tekjustofnar þarna, það er ekki verið að framlengja auðlegðarskattinn og svo er einhver tekjuskattur til almennings.

Hvað gerist? Hvað er skýrasta dæmið um tilfærslu þá á skattheimtu? Að ég fæ að borga örlítið lægri skatt en gamalt fólk og langveikt og fólk sem lendir í því að veikjast borgar í staðinn sjúklingaskatt. Það er þá fært úr hinu almenna skattkerfi yfir í þjónustugjöld og sjúklingaskatta í þessu tilfelli. Telur þingmaðurinn þetta ekki vera blekkingaleik (Forseti hringir.) varðandi skattalækkanir?



[21:42]
Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Við erum að tala um efnahagsstefnu Sjálfstæðisflokksins og það að þeir vilja vera sá flokkur sem er þekktur fyrir og treyst fyrir að halda vel á efnahagsmálunum. Ég hef sagt það áður í þessum ræðustól að það á náttúrlega að skattleggja eitthvað á Íslandi. Við erum með allt of háa skatta en það þarf að skattleggja eins og staðan er.

Hvar á þá að taka þennan skatt? Eins og hv. þingmaður nefnir var ekki haldið áfram með þá hugmynd að hækka sérstök veiðigjöld á sjávarútveginn og svo gistináttagjaldið á ferðaþjónustuna. Það eru akkúrat þau svið efnahagsins sem hafa fengið hvalreka á sínar fjörur í formi lægri krónu — sem hefur skaðað alla hina — þannig að ef skattleggja á einhvers staðar á að sjálfsögðu að skattleggja þar sem hvalinn rak á land.

Þetta er því ekki skynsamleg efnahagsstefna, þetta er ekki skynsamleg skattstefna, bara alls ekki. Þetta er kosningaloforðsdæmi, það er verið að hugsa um þá hagsmunaaðila sem Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn hafa hugsað um alla tíð, það er það sem þetta er. Þetta er kosningaloforð. En þetta er slæm efnahagsstefna.

Ég hlakka til að sjá Sjálfstæðisflokkinn fara að vinna í því að halda betur á spöðunum þegar kemur að efnahagsstefnu landsins. Það á eftir að gerast, held ég, en þetta er ekki góð byrjun.



[21:45]
Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í fyrri ræðu minni um þetta stóra mál, fjárlög íslenska ríkisins á árinu 2014, bar ég fram fjöldann allan af spurningum sem ég hef ekki enn þá fengið nein svör við vegna þess að það er með ólíkindum hversu lítinn þátt stjórnarliðar taka í þessari umræðu. Það er mjög undarlegt ef við fáum ekki svör við spurningum sem við leggjum fram í umræðunni. En ég ætla að vona að úr því verði bætt núna og ég ætla að spyrja nokkurra spurninga til viðbótar og leggja fram vangaveltur sem ég tel að skipti máli og vekja vonandi einhverja til umhugsunar en jafnframt vil ég taka undir með öðrum sem hér hafa talað í dag.

Það sem var rætt í síðasta andsvari milli hv. þingmanna Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur og Jóns Þórs Ólafssonar er algert grundvallaratriði. Stefnubreytingin sem ríkisstjórnin sýnir með þessum fjárlögum felur akkúrat í sér að verið er að flytja fjármögnun ríkissjóðs af þeim sem eru í millitekjuhópunum og efri tekjunum — það má eiginlega kannski frekar segja efri tekjum í millitekjuhópum vegna þess að millitekjuþrepið er breytt þrep — yfir á lífeyrisþega og aðra slíka sem þurfa t.d. að nota þjónustu sjúkrahúsanna, það er verið að leggja gjöld á breiðu bökin sem þessi ríkisstjórn telur sig hafa fundið. Það er með hreinum ólíkindum hvernig menn telja sig geta haldið því fram að þeir séu að lækka skatta þegar þeir eru ekki að gera neitt annað en að flytja til fjármögnun ríkissjóðs frá einum hópi og yfir á námsmenn, yfir á sjúklinga og þá hópa sem kannski síst geta borið það. Það er að mínu mati röng stefna og ég er alfarið á móti henni vegna þess að þegar svona skattheimta, sem þetta er í raun og veru, er flutt út úr almenna skattkerfinu gilda engir persónuafslættir eða neitt slíkt heldur borga allir sömu krónutölu. Þá er gefið að það leggst hlutfallslega þyngst á þá sem lægstar hafa tekjurnar. Það er stefna þessarar ríkisstjórnar. Ég mundi frekar vilja að menn væru heiðarlegir og kæmu fram og segðu það en væru ekki í svona feluleik eða beittu svona bellibrögðum með gjaldtöku þar sem skattar eru lækkaðir á einum stað en lauma svo inn gjaldtöku á ákveðna hópa annars staðar.

Það hefur verið töluvert í umræðunni hér og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hefur haldið því fram og réttlætt sjúklingaskattinn með því að á undanförnum árum hafi hlutdeild sjúklinga í kostnaði í heilbrigðiskerfinu verið að aukast. Mér finnst þetta mjög undarleg röksemdafærsla. Ég hefði frekar talið að við ættum sameiginlega að fara í gegnum það hvernig væri hægt að létta álögum á þá sem þurfa að nota heilbrigðisþjónustuna á Íslandi en ekki að ræða það hvernig við getum fundið enn eina matarholuna fyrir ríkissjóð hjá sjúklingum og seilst í vasa þeirra.

Mér hefur þótt þetta mjög sérkennileg umræða og ég er algerlega andsnúin því að við förum inn á braut sjúklingagjalda vegna þess að ég tel að þar séum við komin inn á afar hálan ís. Yfirleitt er þar um að ræða fólk sem hefur þurft að nota heilbrigðiskerfið í þó nokkurn tíma á undan og það er algert neyðarbrauð þegar það er lagt inn á sjúkrahús og algjört lágmark að það þýði ekki aukinn kostnað fyrir þetta fólk.

Virðulegi forseti. Annað atriði sem ég vil nefna og spyrja líka um snertir skrásetningargjöld. Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson flutti mjög áhugaverða ræðu fyrr í dag um hækkun á skrásetningargjöldum í opinberu háskólana og þar birtist enn eina ferðina skattstefna ríkisstjórnarinnar. Ég hélt að þetta snerist bara um að menn væru að nota skrásetningargjöldin til að sækja sér fjármuni í vasa námsmanna til að reka ríkissjóð en svo er bara miklu meira á ferðinni þegar maður fer að lesa saman skjöl frá ólíkum nefndum sem fjalla um ólíka þætti málsins. Ef maður les nefndarálit sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson benti á í dag, nefndarálit meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2014, þ.e. um bandorminn sem byggir undir fjárlagafrumvarpið, er sagt þar að meiri hlutinn telji að hækkun skólagjalda kunni að hvetja námsmenn til að nýta betur það nám sem opinberir háskólar bjóða upp á. Hérna er ekki verið að tala um skrásetningargjöld heldur skólagjöld.

Í 24. gr. laga um opinbera háskóla segir mjög skýrt um skrásetningargjöld, sem nemendur greiða við skráningu í nám, allt að 60 þús. kr. fyrir hvern nemanda á ársgrundvelli, að álögð gjöld samkvæmt þessu „skulu eigi skila háskóla hærri tekjum en sem nemur samanlögðum útgjöldum háskólans vegna nemendaskráningar og þjónustu við nemendur sem ekki telst til kostnaðar við kennslu og rannsóknastarfsemi.“

Lögin eru skýr. En út í hvað erum við þá komin hér, bæði þegar horft er til nefndarálits meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar og þeirrar staðreyndar að verið er að sækja aukna fjármuni í gegnum skrásetningargjöld til námsmanna en háskólarnir fá þá ekki að fullu til sín? Stenst það þessa grein? Ég ætla að leyfa mér að efast um það.

Ég óska eftir því að meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar komi hingað í þessa umræðu og geri grein fyrir því hvað þessi orð um skólagjöld í nefndarálitinu fela í sér. Þar er líka gengið lengra því talað er um að sumir hafi talið að hækkun skrásetningargjalda væri of lítil og að nemendur opinberra háskóla greiddu of lítinn hluta námskostnaðar. Nemendur mega samkvæmt lögum ekki greiða hluta námskostnaðar. Menn þurfa aðeins að gæta sín á hvaða stefnubreyting getur falist í því sem gert er í fjárlögum. Þetta er ekki eina dæmið, en ég nefni þetta vegna þess að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson vakti á því athygli og hér erum við kominn á mjög hálan ís. Ég óska eftir því að einhver sem til málsins þekkir í meiri hluta fjárlaganefndar eða efnahags- og viðskiptanefndar komi í umræðuna og skýri hvað er nákvæmlega þarna á ferðinni.

Það eru líka þó nokkrar fleiri spurningar sem vakna. Ég talaði um það áðan að ríkisstjórnin hefði aldeilis fundið „breiðu bökin“ — innan afar áberandi gæsalappa — hjá námsmönnum eins og ég var að fara yfir og hjá sjúklingum, en ég komst ekki yfir í fyrri ræðu að nefna þróunarsamvinnuna. Mér finnst til háborinnar skammar hvernig menn fara hér í þróunarsamvinnuna. Ástæðan er einfaldlega sú að við erum meðal ríkustu þjóða heims. Við erum að tala um stuðning sem er afar lítill í því stóra samhengi vandamála sem til eru í veröldinni fyrir utan og við eigum að sjálfsögðu að taka þátt í því að styðja við þjóðir sem geta ekki einu sinni boðið börnum eða barnshafandi konum upp á hreint vatn sem eru lágmarksgæði, grundvöllur lífs, hreint vatn. Við segjum: Nei, við ætlum að bora okkur svo djúpt ofan í naflann á okkur sjálfum að við tökum ekki þátt í því. Þetta er til skammar.

Ég ætla ekki að halda ræðuna um það aftur, ég gerði það í fyrri ræðu, en við vitum vel hvert er verið að setja þá fjármuni sem teknir eru úr þróunarsamvinnunni, fjármuni sem fást með sjúklingagjöldum, auknum kostnaði námsmanna við háskólanám o.s.frv. Þessir fjármunir eiga að fjármagna auðlindagjöld sem menn afþökkuðu. Þetta þykir mér röng stefna og ég hef svo sem tíundað það áður og ætla ekki að gera það aftur. En að finna breiðu bökin þarna, ja svei, ég hélt að ég hefði séð margt í pólitíkinni en þessu bjóst ég ekki við.

Virðulegu forseti. Það eru fleiri þættir sem ég vil nefna og mig langar að fara aðeins í gegnum nokkur atriði í breytingartillögum meiri hlutans við frumvarpið af því að tíminn flýgur. Ég hef ekki fengið svör við því hvernig menn ætla að útfæra þann aukna niðurskurð í ráðuneytunum sjálfum sem lagður er til í breytingartillögum meiri hlutans. Mér skildist á hv. þm. Bjarkeyju Gunnarsdóttur sem ég spurði að þessu fyrr í dag að þetta væri algerlega óútfært og í raun og veru ættu ráðuneytin sjálf að útfæra þetta. Það þykir mér sérkennilegt vegna þess að nú þegar hafa skrifstofur ráðuneytanna verið skornar mjög mikið niður. Ég tók sem dæmi iðnaðarráðuneytið af því að það er nærtækt fyrir mig sem var þar ráðherra. Við vorum komin langt að 30% í niðurskurði á sjálfri skrifstofu ráðuneytisins á síðasta kjörtímabili. Þarna er verið að bæta enn í. Það hlýtur að leiða af sér uppsagnir í einhverjum ráðuneytum. Hvernig ætla menn að gera það? Er hægt að láta það ganga í gegn á þessu eina ári, er þetta raunhæft? Ef það kemur til uppsagna þá hljóta menn líka að þurfa að hætta við einhver verkefni. Og þegar menn eru komnir inn að beini fyrir og síðan er bætt við 5% niðurskurði almennt á ráðuneytin er orðið stórpólitískt mál hvernig skorið er niður. Það getur þýtt gríðarlega breytingu á verkefnum og áherslum innan ráðuneytanna. Við segjum ekki bara: Okkur vantar nokkra aura til að pappírarnir hjá okkur líti örlítið betur út, best að setja 5% á ráðuneytin, og höldum svo að það hafi engar afleiðingar, látum það bara útfærast einhvern veginn. Þetta er pólitískt mál. Menn geta ekki kastað svona til höndum. Þetta er ofsalega óvandað og ófaglegt og ég held að menn geti lent í miklum vandræðum með þetta.

Ég hef ekki heldur fengið svör við því hvað menn eiga að gera í utanríkisráðuneytinu sem verður mjög harkalega fyrir barðinu á meiri hluta fjárlaganefndar, þeir fá á sig meira en þau 5% sem önnur ráðuneyti fá, ég man ekki hvað það var, kannski 7, 7,5% eða eitthvað slíkt, alla vega töluvert meira. Í ofanálag þarf það að bera eitthvað sem ekkert ráðuneyti hefur þurft að gera nokkurn tíma svo ég muni til. Það þarf að bera skaða vegna fjárdráttar í starfsemi þess. Þetta gerir samtals nærri því 150 millj. kr. á ráðuneytið á næsta ári. Hafa fengist einhver svör við því hvernig þetta á að gerast, hvaða verkefnum verður hætt, hvernig á að draga saman í starfsemi skrifstofu ráðuneytisins? Nei, menn hafa ekki gefið neitt upp um það.

Þarna geta verið meiri háttar pólitísk tíðindi á ferðinni þegar menn byrja að reyna að ná þessum fjármunum niður. Mér finnst menn ekki geta unnið svona, mér finnst þetta rangt. Það er að minnsta kosti lágmark að menn skýri út hvernig niðurskurðinum verður framfylgt.

Og vegna þess að við erum farin að ræða um þessar 47 millj. kr. sem ráðuneyti utanríkismála þarf að bera vegna sorglegs atburðar innan þeirra vébanda, fjárdráttar, vil ég spyrja: Ætlar meiri hluti fjárlaganefndar að setja einhverjar reglur og viðmið um það hvenær stofnunum eða ráðuneytum er skylt að bera skaðann ef svona gerist? Eða gildir það bara um utanríkisráðuneytið núna vegna þess að meiri hluti fjárlaganefndar er með það í sigtinu, þetta sé popúlísk ákvörðun um að taka utanríkisráðuneytið niður? Við höfum alveg heyrt það, það þykir smart í einhverjum hópum. Er það þess vegna sem ráðuneytið er látið bera þennan kostnað núna? Þetta eru engin vinnubrögð.

Hvað um þegar Vegagerðin fékk nýlega á sig dóm vegna þess að það höfðu verið einhverjir gallar í útboði? Á hún þá að bera kostnaðinn af því? Þessu þarf fjárlaganefnd að svara. Ef hún byrjar að láta stofnanir eða ráðuneyti bera skaða sem þær höfðu sannarlega ekki stjórn á — í þessu tilfelli verður ráðuneytið fyrir skaða vegna einbeitts brotavilja einstaklings — erum við komin út á ansi hálar brautir. Mér finnst algert lágmark, fyrst nefndin tók þessa ákvörðun, að hún gefi út einhverja línu um það hvenær menn eigi að bera svona skaða til framtíðar litið. Er það bara þegar einstaklingur dregur sér fé eða á það líka við um galla í útboðum? Hvernig ætla menn að gera þetta til lengri tíma litið? Svona er þetta, virðulegi forseti. Mér finnst menn ekki vanda sig og mér finnst ofsalega tilviljanakennt hvernig þessi niðurskurður á sér stað.

Annað sem ég vil nefna og ég nefndi í andsvari áðan er skrifstofa rannsóknastofnana atvinnuveganna. Hér er tekin ákvörðun um það af meiri hluta fjárlaganefndar, ekki ráðuneytinu, að starfsemin verði því sem næst lögð niður og sameinuð að einhverju leyti Fjársýslu ríkisins. Ég átta mig ekki alveg á því hvernig þetta á að fara fram. Hverfur kostnaðurinn af starfseminni með því? Verkefnin eru þarna áfram. Ég tek sem dæmi að skrifstofan sér um alla umsýslu fyrir Tækniþróunarsjóð. Verður kostnaður við að sjá um þá umsýslu eitthvað minni hjá Fjársýslunni en hjá skrifstofu rannsóknastofnana atvinnuveganna eða þarf Tækniþróunarsjóður núna að fara að borga úr sínum sjóðum fyrir þessa vinnu? Hafa komið svör við þessu? Nei, af því að það veit enginn hvernig þeir ætla að gera þetta, þeir hafa ekki hugmynd um það. Þeir hafa ekki skýrt það fyrir neinum af því að þeir hafa ekki hugmynd um það. Þetta er bara gert til að ná sér í aura til að pappírarnir líti vel út en við eigum eftir að sjá þetta í praxís.

Af hverju er Lögregluskóli ríkisins skorinn niður? Það var ekki há tala en hún stakk mig. Sagt er að þetta sé gert til að fjármagna að hluta breytta forgangsröðun verkefna í málaflokkum innanríkisráðuneytisins. Ég veit ekki betur en Lögregluskólinn hafi verið í fjárþörf fyrir, hvað þýðir þetta fyrir hann? Það væri gott að fá svör við því líka.

Virðulegi forseti. Að lokum ætla ég að segja að mér þykir þessi ríkisstjórn ansi grimm í því að sniðganga þá sem hafa lægstu tekjurnar í samfélaginu. Sá hópur heyrir að litlu leyti undir tillögur um skuldaniðurfellingu. Leigjendur eru t.d. ekki með í þeim tillögum og þetta mun skila sér að litlu leyti til þeirra sem eru með kannski lægstu tekjurnar. Skattbreytingin, lækkunin á milliþrepið gerir það ekki heldur, þeir fá ekkert út úr því. Breytingar á lögum um lífeyrisþega í sumar skiluðu tekjulægstu lífeyrisþegunum ekki neinu. Það eina sem þeir fá er að greiða nefskatta að fullu vegna Ríkisútvarpsins en þeir fá ekki þjónustuna sem menn eru að greiða fyrir. Svo eru sjúklingaskattar fram undan og stór hluti af þeim sem eru í tekjulægstu þrepunum er einmitt því miður sá hópur sem þarf hvað mest á heilbrigðisþjónustu að halda oft og tíðum.

Mér finnst þessi stefna röng og þegar maður reynir að horfa á stóru myndina þá er hópurinn sem er með tekjur undir 300 þús. kr. mestmegnis skilinn eftir í tillögum ríkisstjórnarinnar. Mér finnst það vera umhugsunarefni fyrir þingmenn stjórnarmeirihlutans hvort þeir geti ekki reynt að finna það hjá sér í þeirri vinnu sem fram undan er næstu daga hvort þetta sé rétt og hvort ekki þurfi að gera eitthvað í því, þó ekki væri nema með því að atvinnulausir fengju desemberuppbót eins og þeir hafa fengið síðustu þrjú ár. Það er enn þá tími og ég vona að menn sjái að sér og reyni að koma til móts við tekjulægstu hópana í samfélaginu. Það er hægt að gera það með margvíslegum hætti og við í Samfylkingunni munum ekki liggja á liði okkar við að styðja slíkar tillögur, komi þær fram.



[22:05]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil aðeins bregðast við því sem hv. þingmaður nefndi um skólaskrásetningargjöldin. Ég þyrfti helst meira en tvær mínútur til að fara yfir það, eins og ég sé það mál fyrir mér eftir veru í efnahags- og viðskiptanefnd, þar sem við vorum með þann þátt málsins sem snýr að heimild til hækkunar. Í raun þarf að lesa saman frumvarpið og nefndarálit meiri hlutans og skýringar í fjárlagafrumvarpinu, sem er að finna á bls. 279, og reyna að fá botn í hvernig þetta er.

Í fyrsta lagi eiga skrásetningargjöld að endurspegla raunkostnað háskólanna við skrásetningu og þau eru gjaldtaka af því tagi og það liggur einhvers staðar í nágrenni við 70 þúsund ef tekið er meðaltal af Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri. Það er eðlilegt að ætla að skrásetningargjöld séu þá innifalin í skólagjöldum skólanna sem hafa heimild til að taka skólagjöld og gera það enda skilst mér að LÍN meðhöndli málið á þann veg að draga frá lánshæfi skólagjaldanna þá fjárhæð sem nemur innritunargjöldum í opinberu háskólana til að jafnræðis sé gætt í því að ekki sé lánað fyrir innritunargjaldsþættinum. Það er því afar óheppilegt, svo að ekki sé fastar að orði kveðið, að meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar skuli rugla þessum hugtökum saman og tala um hækkun skólagjalda þegar í reynd er á ferðinni hækkun skráningargjalda. Maður veltir auðvitað fyrir sér þeirri hugmyndafræði sem glittir í og er nauðsynlegt að taka fram að djúpur ágreiningur er í nefndinni um það orðalag sem meiri hlutinn setur hér í umfjöllun sína um skólagjöld, að þau séu góð til að menn tolli frekar í námi.

En ef ég staldra svo við fjárlagafrumvarpið á bls. 279 fæ ég ekki betur séð en háskólarnir séu skertir um hverja einustu krónu sem skráningargjöldin eru hækkuð um á nemendur. Það stendur ofarlega á bls. 279 en síðan fá þeir svolítið meiri tekjur, sem þeir fá að halda, vegna fleiri nemenda sem er annar hlutur. Mér sýnist þetta því vera hreinn skattur á nemendur í viðbót, opinber framlög til opinberra háskóla skert um hverja einustu krónu á móti.



[22:07]
Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að koma hingað upp og skýra þetta svona út fyrir mér. Ég var farin að týnast svolítið í þessum skjölum, þetta er orðið mjög ruglingslegt allt saman. Ég hef helst áhyggjur af því að menn séu hér að skapa einhvers konar fordæmi sem námsmenn gætu hugsanlega látið reyna á. Í nefndaráliti um frumvarp til laga um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2014 kemst nefndin að þeirri niðurstöðu sem tekin er saman hér, með leyfi forseta:

„… sumir töldu hækkun skrásetningargjalda of litla og að nemendur opinberra háskóla greiddu of lítinn hluta námskostnaðar.“

Lögin eru algerlega skýr með það að skrásetningargjöld á ekki að greiða fyrir nám eða rannsóknarstarf heldur eingöngu skrásetningu og þjónustu. Mér finnst það orðið afar óskýrt á hvaða leið menn eru hér.

Í þessu sama nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar segir líka:

„Að mati meiri hlutans er hækkunin studd sterkum rökum. Brýnt virðist orðið að koma til móts við fjárþörf opinberra háskóla.“

Svo er hv. þingmaður að fara yfir það hér að ekkert af þessu skilar sér til háskólanna. Ég spyr bara: Veit einhver hvað verið er að gera? Hafa þeir einhverja hugmynd um hvað þeir eru að gera? Greinilega ekki. Þeir líta svo á að með þessu séu þeir að mæta aukinni fjárþörf háskólanna en svo sýna fjárlagafrumvarpið og tillögurnar okkur eitthvað allt annað. Þetta á bara að fara í það að fjármagna ríkissjóð, heyrist mér.

Áfram segir:

„Telur meiri hlutinn að hækkun skólagjalda kunni að hvetja námsmenn til að nýta betur það nám sem opinberir háskólar bjóða upp á.“

Ég ætla þá að spyrja hv. þingmann, sem er nú eldri en tvævetur, hvort hann telji að þarna sé komið efni í að námsmenn láti á þetta reyna gagnvart LÍN og þá hugsanlega fyrir dómstólum.



[22:10]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Á bls. 279 stendur, með leyfi forseta:

„Í fimmta lagi er gert ráð fyrir að ríkistekjur aukist um 137,3 millj. kr. og að greiðsla úr ríkissjóði lækki á móti um sömu fjárhæð.“

Þetta er í samræmi við áform um að háskólunum verði heimilað að hækka skrásetningargjald sem nemendur greiða o.s.frv. Það er erfitt að skilja þetta öðruvísi en þetta sé algerlega króna fyrir krónu.

Varðandi spurninguna um lögmæti hækkunarinnar þá er fróðleg umfjöllun um þetta í greinargerð bandormsfrumvarpsins, 3. mál. Þar kemur fram að samkvæmt bókhaldi Háskóla Íslands var raunkostnaður þar 69.600 kr. og í Háskólanum á Akureyri um 80 þús. kr., hvort tveggja á árinu 2012. Ef meðaltalið er tekið og miðað við verðlag ársins 2013 ætti það að vera um 72.400 en svo taka menn 4% verðhækkun á þetta umfram verðuppreikning annarra liða í fjárlagafrumvarpi og koma því þannig upp í 75 þús. kr. og telja það vera hæfilegt gjald á árinu 2014. (Forseti hringir.) Ég tel að hér sé farið á ýtrasta vað gagnvart því að hækkun gjaldsins sé ólögleg því hún fari umfram það sem bókhaldsgögn opinberu háskólanna benda til að raunkostnaðurinn sé.



[22:11]
Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta og það er spurning hvort menn í efnahags- og viðskiptanefnd hafi fengið einhverja til að svara til um lögmæti þessarar gjaldtöku, þessarar hækkunar. Ég sé ekki betur en að anda nefndarálits meiri hlutans megi skilja á þann veg að menn séu lagðir af stað í skólagjaldaupptöku á Íslandi. Það er bara svoleiðis. Það er alla vega viljinn samkvæmt þessu. Ekki er því hægt að túlka hækkun skrásetningargjalda og andann að baki henni öðruvísi en með orðum meiri hlutans sjálfs: Skólagjöld til þess að stýra nemendum í námi. Það er bannað samkvæmt lögum.

Virðulegi forseti. Ég tel að námsmannahreyfingarnar hljóti að láta á þetta reyna og mér finnst að efnahags- og viðskiptanefnd ætti að kalla til sín sérfróða menn til að fara yfir þessa stöðu.



[22:12]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður flutti hér góða ræðu og kom inn á stöðu lágtekjufólks í landinu gagnvart ríkisvaldinu. Það blæs nú ekki byrlega þar og má kannski segja að lágtekjufólk í landinu hafi fengið kartöflu í skóinn frá ríkisstjórninni. Það er niðurskurður víða eins og hjá Vinnumálastofnun og desemberuppbótin er ekki inni. Ýmsir nefskattar hækka sjálfkrafa eftir verðlagsuppfærslu og skattalækkanir nýtast ekki lágtekjufólki.

Hvað telur hv. þingmaður að ríkisvaldinu gangi til? Er það að efna til ófriðar að fyrra bragði gagnvart þeim kjarasamningum sem eru nú undir og eru komnir til ríkissáttasemjara eða telur hv. þingmaður að ríkisvaldið hafi eitthvað uppi í erminni til að spila út þegar þeir sem eru að semja um kaup og kjör og lágtekjufólk í landinu hefur fengið þessa blautu tusku í andlitið? Er eitthvað í þessu fjárlagafrumvarpi sem hv. þingmaður telur að sé jákvætt innlegg í þær kjaraviðræður sem nú standa yfir? Ef hún leggur sig alla fram um að vera jákvæð gagnvart ríkisvaldinu í anda jólanna fram undan finnur hún þá eitthvað annað en kartöflu í skóm þess fólks sem þarf að lifa við lægstu laun í landinu, frá 191 þús. kr., sem er því miður fjöldinn allur? Það er eins og hv. ríkisstjórn haldi að slíkar upphæðir séu bara tölur á blaði og enginn búi við slík kjör. Mér þætti vænt um ef hv. þingmaður gæti bent á eitthvað í þessu frumvarpi sem væri sérstaklega ætlað lágtekjufólki í landinu.



[22:15]
Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Stórt er spurt. Ég hef hlustað á hv. þingmann og reynt að vera jákvæð og skapandi og alla vega, en ég finn ekki neitt í fljótu bragði, ekki neitt, enda hefur það komið fram hjá aðilum á vinnumarkaði, verkalýðshreyfingunni, að það sé ekkert í þessu fjárlagafrumvarpi sem sé til þess fallið að skapa þjóðarsátt eins og formaður fjárlaganefndar talaði um eða til þess að liðka til í kjarasamningum.

Sá hópur sem er undir 250 þús. kr. fær ekki neina lækkun á sköttum — og ég vil jafnvel fara aðeins ofar vegna þess að skattalækkanir ríkisstjórnarinnar skila sér ekki að fullu nema til hópsins sem er efst innan millitekjuþrepsins, þ.e. þegar maður er kominn upp í 700 þús. kr. er maður í raun og veru farinn að fá skattalækkunina að fullu, það eru þingmannalaun. Sagt er við hópinn undir 250 þús. kr.: Heyrið, það eru engar skattalækkanir til ykkar en þið fáið hins vegar að bera sjúklingagjöld af fullum þunga.

Námsmenn eru einnig í lágtekjuhópunum, lifa af litlu. Við þá er sagt: Þið ætlið að fjármagna ríkissjóð með hækkun á skráningargjöldum. Í sumar var sagt þegar ákveðið var að gera breytingar og koma með hækkanir til lífeyrisþega að þær færu ekki til þeirra sem hafa lægsta lífeyrinn vegna þess að fráfarandi ríkisstjórn hefði gert svo mikið fyrir þá, nú væri komið að lífeyrisþegum sem væru í efri tekjuþrepunum að fá eitthvað fyrir sinn snúð.

Þetta er meðvituð stefna. Ég spurði hvort menn væru meðvitað að breikka aftur bilið milli ólíkra tekjuhópa og svarið var einfaldlega: Já. Það sem við erum að sjá hér er bara hægri stefnan í verki, (Forseti hringir.) auknar álögur á þá sem minnst hafa og álögum létt af þeim sem mest hafa.



[22:17]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það var slæmt að hv. þingmaður gat ekki bent á neitt sem gagnaðist láglaunafólki í þessu frumvarpi. Ég held að þeir sem hafa lúslesið frumvarpið geti það varla heldur.

Ég vil spyrja hv. þingmann út í þann blóðuga niðurskurð hjá Vinnumálastofnun sem hefur komið fram og veldur auðvitað miklum áhyggjum víða. Ég nefni stað eins og Skagaströnd þar sem 20 manns vinna hjá Vinnumálastofnun. Verði af niðurskurðinum munu 5% íbúa Skagastrandar missa vinnuna, sem svarar til 6 þús. manna í Reykjavík. Verið er að skera niður hjá Vinnumálastofnun um 340 millj. kr., það er niðurskurður upp á 30%. Hvaða áhrif telur hv. þingmaður að það hafi á vinnumarkaðsaðgerðir síðustu ríkisstjórnar sem hafa skilað gífurlegum árangri? Atvinnuleysið er komið niður í 4–5% en samt er þörf á að halda áfram eftirfylgni (Forseti hringir.) við þau verkefni sem hafa verið í gangi.



[22:18]
Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á síðasta kjörtímabili þurftum við að kljást við atvinnuleysi hér á landi sem var mjög mikið í okkar sögulega samhengi. Þá skipti sterk Vinnumálastofnun og vinnumarkaðsúrræðin þar öllu máli til að ná atvinnuleysi niður. Það var gríðarlega mikil og góð vinna unnin innan þeirra raða til að atvinnuleysi gæti minnkað hér með alls kyns úrræðum. Ég hef áhyggjur af þeim núna þegar menn hafa tekið þessa ákvörðun. Fyrir utan auðvitað hvað þetta er gríðarlegt högg fyrir bæjarfélagið sem hér er nefnt. Ég held að við ættum að hafa miklar áhyggjur af því. Mér finnst að nefndin ætti að fara dálítið yfir það atriði og fara líka yfir hvaða áhrif þetta mun hafa á þau vinnumarkaðsúrræði sem Vinnumálastofnun hefur verið að vinna að og þá í framhaldi hvaða áhrif þetta hefur á atvinnuleitendur. Ég lít svo á að nefndin hljóti enn að hafa verk að vinna að fara yfir áhrifin af þessum niðurskurði.



[22:20]
Karl Garðarsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur fyrir áhugaverða ræðu. Hún minntist aðeins á þróunaraðstoð í ræðunni og varðandi hana þá vilja að sjálfsögðu flestir að mun meiri fjármunum sé varið í slíka aðstoð en er í þessu frumvarpi. Það var líka gerð á sínum tíma metnaðarfull áætlun um að auka þessa aðstoð og ná þeim markmiðum sem Sameinuðu þjóðirnar hafa sett á nokkrum árum. Það breytir því samt ekki að í tíð síðustu ríkisstjórnar, árið 2011, voru settir um 3 milljarðar kr. í þróunaraðstoð, 0,21% af vergum þjóðartekjum sem er náttúrlega mjög langt frá þeim 0,7% eða hvað það er sem Sameinuðu þjóðirnar hafa mælt með. Árið 2012 var það sama prósentutala, 0,21%.

Maður hlýtur því að spyrja ef hv. þingmanni blöskrar það sem er verið að gera núna hvað hún geti þá sagt um það sem hennar eigin ríkisstjórn gerði á sínum tíma. Af hverju beitti hún sér ekki fastar í þessum málum?



[22:21]
Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég beitti mér svo sannarlega í þessum málum á síðasta kjörtímabili þegar ég sagði já ásamt þingheimi öllum — fyrir utan einn þingmann, hv. þm. Vigdísi Hauksdóttir sem núna er formaður fjárlaganefndar — við því að gera áætlun um hvernig við gætum aukið hlutfallið. Við samþykktum það öll sem vorum hér inni á þeim tíma og ástæðan var einföld: Við þurftum að setja okkur það markmið af því að við vorum farin að sjá til sólar í fjárlögum ríkisins. Það sem er verið að gera hér er allt annað en fráfarandi ríkisstjórn gerði nokkurn tíma. Hér koma tillögur frá ríkisstjórninni og þingmenn í meiri hluta fjárlaganefndar eru að taka ákvörðun um að skera niður þróunaraðstoðina sem gengur þvert gegn þeirri áætlun sem þingmenn höfðu sameiginlega gert í þessum þingsal um aukningu á framlögum til þróunarmála til lengri tíma.

Virðulegi forseti. Mér finnst þetta grátlegt, ekki síst í ljósi þess að með því að taka fjármuni úr þróunaraðstoð er verið að fjármagna lækkun á veiðigjaldi til þeirra sem eru með einkaleyfi á því að nýta auðlindir þjóðarinnar. Það er þess vegna, í því samhengi, sem þetta er svo grátlegt. Fráfarandi ríkisstjórn gat sett sér markmið um hvernig ætti að auka hlutfallið. Við jukum það á þessu ári í samræmi við þá áætlun og núna eru menn að skera það niður. Það er verið að skera niður tillögur ríkisstjórnarinnar sem komu fram þannig að maður hefði haldið að menn gerðu ráð fyrir því að eiga fyrir þessu og það eru þingmenn í meiri hluta fjárlaganefndar sem ákveða að skera þróunaraðstoðina niður. Það er ekki síst grátlegt af því að tillögurnar voru komnar fram. Hv. þingmaður, sem situr í fjárlaganefnd, segir okkur kannski hvað býr þarna að baki og af hverju (Forseti hringir.) þingmenn ákveða að breyta svona.



[22:23]
Karl Garðarsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið eða svarið við spurningu minni sem hún svarar þó ekki vegna þess að ég spurði hana um árin 2011 og 2012. Af hverju beitti hún sér ekki fyrir því að meiri fjármunir yrðu settir í þróunaraðstoð? Hv. þingmaður svaraði ekki þeirri spurningu. Ég ítreka spurninguna.



[22:24]
Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal vera skýrari. Árið 2011 var tekin ákvörðun hér í þingsal um að samþykkja þingsályktun um aukin fjárframlög til þróunarmála. Ég tók þátt í því ásamt þingheimi öllum að undanskildum einum þingmanni sem treysti sér ekki til að taka þátt í því. Sá þingmaður stendur núna fyrir því, fer fremstur í flokki þeirra sem eru að skera niður tillögur fjármálaráðherrans um framlög til þróunarmála. Við stóðum í blóðugum niðurskurði á öllum sviðum ríkisins á síðasta kjörtímabili og ég vona að það hafi ekki farið fram hjá neinum að fráfarandi ríkisstjórn tók við gati upp á 216 milljarða kr. Þegar fórum að sjá til sólar í því verkefni fórum við að leggja drög að því hvernig mætti auka í þar sem helst þyrfti á að halda til lengri tíma, þar á meðal til þróunarmála, og við gerðum það á þessu ári þegar við gátum það.

Menn gátu það aftur núna. Ríkisstjórnin lagði það til en þingmenn í meiri hluta fjárlaganefndar (Forseti hringir.) ákváðu að sækja þessa peninga og færa öðrum. Það er það sem við erum að mótmæla hér.



[22:25]
Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Það er ágætt að ég hefji ræðu mína í framhaldi af lokaorðum hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur áðan vegna þess að það skiptir nefnilega mjög miklu máli þegar við skoðum stöðuna hvaðan við erum að koma og hvað það þýðir og hvernig jöfnuður sem á að ná á árinu 2014 — og ég held ekki að nokkur maður hafi mótmælt að mikilvægt sé og verðmætt fyrir ríkissjóð að ná jöfnuði og geta sem fyrst komist á þann stað að mögulegt sé að greiða niður skuldir — og sá árangur byggir á því sem gerðist á síðasta kjörtímabili. Við tókum við erfiðu búi og ég held að allir átti sig á því. Við ákváðum að fara blandaða leið; skera niður í ríkisrekstri, hækka skatta en passa okkur á því þegar við vorum að skera niður að ganga ekki svo hart að stofnunum ríkisins að þeir sem þurfa helst á þjónustu þeirra að halda mundu þurfa að bera þyngstu byrðarnar af hruninu og að ganga ekki svo harkalega að fyrirtækjum og einstaklingum í skattheimtu að þeir gætu ekki borið þær.

Skattar voru ekki aðeins lagðir á til að auka tekjur ríkissjóð heldur einnig til að auka jöfnuð í samfélaginu því að það ná upp auknum jöfnuði í samfélagi er eftirsóknarvert. Það hafa margar lærðar greinar og bækur verið skrifaðar um hvernig samfélagið er og hvernig íbúunum líður þar sem meiri jöfnuður ríkir samanborið við samfélag þar sem ójöfnuður er. Þar sem jöfnuður er mestur eru glæpir fæstir. Þannig er, svo undarlega sem það hljómar, og þó er það kannski ekki svo undarlegt þegar við förum að skoða það nánar, að í þeim samfélögum er fólk líka heilbrigðara bæði á sál og líkama og það ríkir aukin sátt í þeim. Þetta eru allt saman mjög eftirsóknarverðir þættir. Það að eftir síðasta kjörtímabil hafi jöfnuður aukist í íslensku samfélagi er því mjög jákvætt en á árunum fyrir hrun hafði ójöfnuður hins vegar vaxið í samfélaginu og vaxið mest á Íslandi af vestrænum ríkjum.

Á þeim árangri sem fyrri ríkisstjórn náði byggir árangur um jákvæðan heildarjöfnuð í ríkisfjármálum sem ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar ætlar sér að ná á árinu 2014.

Hv. formaður fjárlaganefndar talaði um í ræðu sinni fyrir stuttu að með breytingartillögum og fjárlagafrumvarpinu væri að nást þjóðarsátt og ég geri ráð fyrir því að hv. þingmaður hafi þar verið að vísa í að minni hlutinn hafði kallað hátt eftir auknum framlögum til heilbrigðiskerfisins og meiri hluti fjárlaganefndar gerir breytingartillögu þar um. Á síðasta kjörtímabili höfðum við séð að ekki yrði lengra gengið í heilbrigðiskerfinu og gerðum ekki kröfu um það á árinu 2013. Hins vegar er með fjárlagafrumvarpinu eins og það var lagt fram 1. október hafinn niðurskurður í heilbrigðiskerfinu að nýju. Sem betur fer í meðförum þingsins, í umræðum í samfélaginu og fyrir þingnefndum hefur meiri hlutinn ákveðið að draga þarna í land og það er vel og við getum verið sátt við þær tillögur. Aftur á móti eru aðrar tillögur sem meiri hluti fjárlaganefndar leggur fram sem rjúfa þverpólitíska sátt sem náðist á síðasta kjörtímabili. Breytingartillögurnar tvær þar sem sáttin er rofin eru um jöfnun húshitunar og um þróunaraðstoð.

Herra forseti. Á síðasta kjörtímabili starfaði hér starfshópur sem átti að koma með tillögur um hvernig væri hægt að jafna húshitun í landinu og starfshópurinn lagði fram tillögu. Hópurinn er stofnaður 2011 og í framhaldinu, eftir mikla vinnu, leggur hann fram tillögu sem gengur út á að þeir sem kaupa rafmagnið borgi ákveðið gjald sem gengur síðan til jöfnunar á dreifikostnaði og þannig jafnist kostnaður á húshitun. 10% landsmanna búa við mjög háan húshitunarkostnað og sá hái kostnaður hefur stuðlað að búseturöskun og veikt samfélögin og þessi þungi kostnaður hefur haft áhrif á lífskjör fólks og val á búsetu á þessum svæðum. Það var því eftir miklu að slægjast að finna leiðir til þess að jafna kostnaðinn og starfshópurinn sagði: Við skulum leggja hóflegt gjald á hverja keypta kílóvattstund og það gengur síðan til þess að jafna kostnaðinn.

Á 140. löggjafarþingi var lagt fram samhljóða frumvarp. Frumvarp sem fylgdi tillögum starfshópsins eftir og það var með þverpólitískum stuðningi. Reyndar var það hæstv. forseti Alþingis, sem þá var þingmaður, sem var 1. flutningsmaður á því frumvarpi og með honum voru flutningsmenn úr öllum flokkum. Raforkuskattur sem nú er innheimtur er tekinn af hverri keyptri stund. 80% af notendum rafmagns á Íslandi eru, eins og kunnugt er, stóriðjufyrirtæki þannig að þau fyrirtæki bera 80% af þessum raforkuskatti sem er tímabundinn og ný ríkisstjórn hefur sagt að verði ekki framlengdur. Ný ríkisstjórn hefur talað um að framlengja ekki þennan raforkuskatt sem að stærstum hluta álverksmiðjur og stóriðjan í landinu bera, auðvitað heimili einnig en að stærstum hluta stóru fyrirtækin, þessir stórnotendur.

Ríkisstjórnin nýja boðar núna með breytingartillögum við fjárlög að það eigi að koma nýtt frumvarp sem leggur kostnað á þá sem nota dreifikerfin. Markmiðið með þessu hlýtur þá að vera að sleppa stóriðjunni við þetta gjald. Leggja allan jöfnunarkostnaðinn á heimili í þéttbýli til þess að sneiða hjá því að stórkaupendur raforku sem ekki nýta dreifikerfin þurfi að greiða til þessara mála.

Virðulegur forseti. Mér finnst mjög undarlegt að verið sé að koma hér með tillögu um hvernig eigi að jafna húshitunarkostnað, sem allir vilja stefna að, sem er algjörlega úr takti við það sem lagt var til á síðasta kjörtímabili og meira að segja núverandi hæstv. forseti Alþingis lagði fram frumvarp um ásamt fleiri þingmönnum úr öðrum flokkum.

Ég skil ekki hvað þetta á að þýða nema þá að hæstv. ríkisstjórn sé svona mikið í mun að létta kostnaði af stórnotendum, af stóriðjunni í landinu, en finnist í lagi að leggja aukinn kostnað á heimilin hvað þetta varðar. Þarna er verið að rjúfa sátt.

Um hitt málið var ekki aðeins sátt hér á Alþingi, fyrir utan einn hv. þingmann sem greiddi atkvæði á móti þingsályktunartillögunni um þróunarsamvinnu, heldur í samfélaginu öllu. Allar kannanir sýna að Íslendingar vilja leggja sitt af mörkum til þróunarsamvinnu og það kom skýrt fram í umræðum hér og í þingsályktunartillögunni sem samþykkt var árið 2011 á Alþingi en síðan var uppfærð áætlun vorið 2013. Þar er markmið þróunarsamvinnunnar tekið skýrt fram: Að leggja íslensk lóð á vogarskálar baráttunnar gegn fátækt og fyrir bættum lífskjörum í fátækustu hlutum heims. Með virkri þátttöku á því sviði leitast Ísland við að uppfylla pólitískar og siðferðilegar skyldur sínar sem ábyrg þjóð í samfélagi þjóðanna og er alþjóðleg þróunarsamvinna ein af meginstoðum íslenskrar utanríkisstefnu. Því er slegið föstu í ályktuninni að barátta gegn fátækt, félagslegu ranglæti, misskiptingu lífsgæða og hungri í heiminum sé áfram þungamiðja í stefnu Íslands á sviði alþjóðlegrar þróunarsamvinnu og að lögð verði rík áhersla á mannréttindi, jafnrétti kynjanna, réttindi barna, frið og öryggi og leitast verði við að tryggja innbyrðis samræmi í utanríkisstefnu Íslands með tilliti til hnattrænna efnahags-, umhverfis- og öryggismála. Íslensk þróunarsamvinna endurspegli þannig þau gildi sem íslenskt samfélag stendur fyrir: Virðingu fyrir lýðræði og mannréttindum, fjölbreytni mannlífs, umburðarlyndi, réttlæti og samstöðu.

Hv. meiri hluti fjárlaganefndar kemur síðan með þá tillögu að skera niður í þróunaraðstoð núna þegar Ísland er á þeim stað að sjá fram úr þeim vanda sem blasti við haustið 2008. Þegar við sjáum fram á jákvæðan heildarjöfnuð á árinu 2014 og erum komin á þann stað að við getum farið að skipuleggja til framtíðar er það forgangsverkefni að skera niður þróunaraðstoð. Þetta er með ólíkindum og eins og ég sagði áðan er verið að rjúfa sátt alþingismanna um þróunaraðstoð og sáttina í samfélaginu sem er um að Ísland, hið ríka Ísland gefi með sér og styrki þau gildi sem íslenskt samfélag stendur fyrir. Ég vil endurtaka að gildin eru virðing fyrir lýðræði og mannréttindum, fjölbreytni mannlífs, umburðarlyndi, réttlæti og samstöðu og í þeim anda eigum við að standa við þingsályktunartillöguna og þær áætlanir sem þar voru gerðar og stefna að því að ná markmiðum Sameinuðu þjóðanna í áföngum og vera stolt af því.

Þegar hv. þm. Vigdís Hauksdóttir talar um þjóðarsátt geri ég ráð fyrir að hún sé að vísa til heilbrigðismálanna og þeirra breytingartillagna sem meiri hluti fjárlaganefndar leggur fram í þeim málaflokki en varla er hún að tala um frumvarpið í heild eða breytingartillögurnar í heild því að þar á meðal, eins og ég hef bent á, eru að minnsta kosti tvær sem rjúfa sátt sem var búið að ná, þverpólitíska sátt.

Virðulegur forseti. Ég vil nefna hér menntamál því að ég hef virkilegar áhyggjur af rekstrarstöðu framhaldsskólanna. Þannig var statt í framhaldsskólunum þegar hrunið varð að árin fyrir hrun var búið að hagræða mjög mikið í þeim. Búið var að taka upp reiknilíkan og fjölga í hópum og hagræða heilmikið þegar hrunið varð og þá þurfti að fara að draga saman og skera niður aftur vegna þess að brúa þurfti stórt gat. Það var gert en samt sem áður lagði fyrri ríkisstjórn á það mikla áherslu að skólarnir væru opnir öllum og lögðu fé til þess að gera skólunum kleift þrátt fyrir niðurskurð að taka á móti öllum þeim sem óskuðu þar eftir skólavist. Framhaldsskólarnir tóku ríkan þátt í aðgerðum sem voru settar af stað vegna ungs atvinnulauss fólks enda þegar við litum til annarra landa og vildum læra af reynslu þeirra við að koma sér í gegnum kreppu voru þetta helstu skilaboðin: Ekki loka skólunum fyrir ungu atvinnulausu fólki. Ekki vísa ungu fólki frá menntunartækifærum.

Ég hef áhyggjur af því að nú sé rekstrarstaða skólanna þannig, eftir að þróunarfé er skorið niður eins og tillögur eru um í þessu frumvarpi, að skólarnir þurfi að vísa nemendum frá. Í mínum huga væri það stór skaði. Það væri stór skaði. Það er alveg sama hvernig við lítum á málið, það er skaði fyrir unga fólkið og það er skaði fyrir samfélagið. Ég tala nú ekki um þegar um leið eru skorin niður verkefni sem eiga að aðstoða ungt atvinnulaust fólk. Ef þetta verður að veruleika, sem má í rauninni aldrei verða heldur á að halda skólunum opnum og sjá til þess að það verði mögulegt, og vísa þarf ungu fólki frá framhaldsskólanámi mun það hafa aukaverkanir sem munu vara og hafa áhrif á líf ungmennanna langt fram eftir ævi þeirra. Þetta þekkjum við frá öðrum löndum. Ef við viljum í alvöru tryggja hagvöxt til framtíðar eigum við að leggja áherslu á menntamálin og raða framhaldsskólunum framar.

Nú er það svo að hæstv. menntamálaráðherra hefur talað um skipulagsbreytingar í framhaldsskólum og ég er sammála honum í því að fara eigi í þá vinnu en framhaldsskólakerfið er stórt kerfi og það þarf að huga að hag nemenda og það þarf að huga að hag starfsmanna. Það þarf einnig að huga að aðgengi til náms og góðri byggðastefnu þar sem menntastofnanir eru hornsteinar í hverju samfélagi. Slík stór skipulagsbreyting verður ekkert gerð á örfáum vikum en þó er lagt til hér með breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar að 6. gr. heimild — það er óskað eftir 6. gr. heimild til að taka á leigu viðbótarhúsnæði fyrir framhaldsskóla og háskóla í tengslum við sameiningar, breytingar og hagræðingu á starfseminni og í skýringu með heimildarbeiðninni segir að verið sé að fara yfir rekstrarumhverfi skólanna með tilliti til hugsanlegrar sameiningar eða annarra breytinga í starfsemi þeirri og að ráðuneytið telji mikilvægt að hafa svigrúm til að takast á við þær með stuttum fyrirvara.

Við hljótum að spyrja, eins og væntanlega allt skólafólk í landinu, af hverju hæstv. menntamálaráðherra þarf svona opna víðtæka heimild fyrir hvaða skóla sem er, hvar sem er á árinu 2014. Af hverju er það? Á að þvinga í gegn skipulagsbreytingu á framhaldsskólunum á vorönninni þannig að framkvæmdin fari fram í haust? Það væri mikill skaði og ég í sjálfu sér trúi því varla en einhverra hluta vegna telja menn nauðsynlegt að hafa slíka opna heimild. Það væri allt öðruvísi að biðja um þess háttar heimild fyrir ákveðinn skóla, eitthvert afmarkað landsvæði en það er allt undir. Með stuttum fyrirvara gæti þurft að gera ráðstafanir í húsnæðismálum vegna fyrirhugaðra skipulagsbreytinga.

Virðulegur forseti. Í lögum um framhaldsskóla er ekki settur lágmarkseiningafjöldi þannig að í sjálfu sér þarf ekki að breyta lögunum ef lækka á einingafjöldann sem dugir til stúdentsprófs eða til starfsnámsprófa, en varla á það að nægja, ein reglugerðarbreyting og skólarnir mega síðan sjálfir ráða því hvað einingarnar eru margar og hvort þeir hafi umgjörðina til stúdentsprófs þrjú ár … (Forseti hringir.).

(Forseti (KLM): Forseti biður þingmann að afsaka að hann þurfi að grípa inn í ræðu hv. þingmanns en þannig háttar til að óskað hefur verið eftir að hlé verði gert á þessum fundi til að tóm gefist til að halda þingflokksfundi hjá einhverjum þingflokkum. Ég þarf því vinsamlegast að biðja hv. þingmann að fresta ræðu sinni nú. Það er 6,5 mínútur eftir og nokkur andsvör.)

Sjálfsagt.

(Forseti (KLM): Takk. Þá verður þessum fundi frestað til kl. 23.15. Fundinum er frestað.)