143. löggjafarþing — 42. fundur
 19. desember 2013.
leikskóli að loknu fæðingarorlofi, síðari umræða.
þáltill. SSv o.fl., 6. mál. — Þskj. 6, nál. m. brtt. 330.

[12:52]
Frsm. allsh.- og menntmn. (Elsa Lára Arnardóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um tillögu til þingsályktunar um leikskóla að loknu fæðingarorlofi, frá allsherjar- og menntamálanefnd.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ernu Reynisdóttur og Þóru Jónsdóttur frá Barnaheillum, Guðjón Bragason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Ídu Jensdóttur frá Samtökum sjálfstæðra skóla, Jóhönnu Einarsdóttur og Örnu H. Jónsdóttur frá menntavísindasviði Háskóla Íslands og Ingibjörgu Kristleifsdóttur frá Kennarasambandi Íslands og Félagi leikskólakennara.

Umsagnir bárust frá Barnaheillum, menntavísindasviði Háskóla Íslands, Hveragerðisbæ, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum sjálfstæðra skóla og Samtökum verslunar og þjónustu.

Í þingsályktunartillögunni er lagt til að ráðherra verði falið að skipa nefnd með þátttöku sveitarfélaganna, sérfræðinga, hagsmunaaðila og stjórnmálaflokka sem geri tillögu að áætlun um hvernig sveitarfélögin standi að því að bjóða leikskólaúrræði strax og fæðingarorlofi lýkur. Tillagan lýtur að samþættingu og samhæfingu þjónustu við barnafjölskyldur.

Álit nefndarinnar er að mikilvægt sé að koma á fót samráðsvettvangi sem meti kosti þess að bjóða leikskólavist strax og fæðingarorlofi lýkur. Ljóst er að þetta úrræði getur orðið kostnaðarsamt fyrir sveitarfélögin ef af verður og er það mat nefndarinnar að mikilvægt sé að sveitarfélögin komi að allri umræðu um málið frá upphafi. Leggur nefndin til breytingu á tillögunni þess efnis. Jafnframt telur nefndin brýnt að við skipun samráðshópsins verði horft til þeirra sem hafa sérfræðiþekkingu og reynslu í málaflokknum.

Fram kom í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga að nauðsynlegt væri að greina fagleg og fjárhagsleg sjónarmið að baki tillögunni og tekur nefndin undir það. Einnig kom fram á fundum nefndarinnar vilji til þess að hefja umræður um þessi mál. Nefndin telur einsýnt að verkefnið sé umfangsmikið og verði ekki unnið á þeim stutta tíma sem lagt er til í tillögunni.

Nefndin leggur því til að starfshópurinn skili tillögum til ráðherra fyrir 1. september 2014.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi breytingu. Með leyfi forseta, orðast tillögugreinin svo:

„Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga að skipa starfshóp til að meta kosti þess að bjóða leikskólavist strax og fæðingarorlofi lýkur. Starfshópurinn greini faglegar kröfur og fjárhagsleg sjónarmið sem taka þarf tillit til, þar á meðal varðandi mannafla- og húsnæðisþörf leikskóla miðað við áætlaða fjölgun leikskólabarna á aldrinum eins til tveggja ára, ásamt leiðum til fjármögnunar. Hópurinn kalli hagsmuna- og fagaðila til samráðs eftir því sem við á. Starfshópurinn skili tillögum til ráðherra fyrir 1. september 2014.“

Undir þetta skrifa hv. nefndarmenn í allsherjar- og menntamálanefnd, það eru hv. þingmenn Unnur Brá Konráðsdóttir, Elsa Lára Arnardóttir, Páll Valur Björnsson, Katrín Júlíusdóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson, Jóhanna María Sigmundsdóttir, Svandís Svavarsdóttir og Vilhjálmur Árnason.

Hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.



[12:56]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hér ræðum við afskaplega merkilega tillögu til þingsályktunar, sem hefur batnað mikið í meðförum nefndarinnar, en hún fjallar um það hvernig við búum nýja borgara undir lífið þegar fæðingarorlofi lýkur við níu mánaða aldur. Mér finnst vanta í þessa tillögu, það er eins og nefndinni hafi ekki verið kunnugt um í gildi eru lög um foreldraorlof, fyrir utan fæðingarorlof. Það er heimild foreldra til þess að taka ólaunað leyfi frá vinnu eftir að fæðingarorlofi lýkur. Mér finnst að það þurfi að taka það með inn í dæmið. Ég hafði nú ekki rænu á því að koma með breytingartillögu við þessa tillögu, það er sennilega orðið of seint, en ég hefði viljað segja „eftir að fæðingarorlofi og foreldraorlofi lýkur“. Jafnframt að talað hefði verið um heimgreiðslur, því sveitarfélögin borga 180 þús. kr. á hverjum mánuði með barni á fyrsta ári. Þau eru mjög dýr í vistun.

Ef menn tengja saman heimgreiðslur, fæðingarorlof og foreldraorlof og foreldrarnir verða á vöktum, vinna hálfan daginn hvor eða eitthvað slíkt, er hægt að lengja þennan tíma mikið þannig að barnið geti verið, ef foreldrarnir vilja, allt að tvö ár heima með því að nýta foreldraorlof, fæðingarorlof og þessar beingreiðslur eða heimgreiðslur sveitarfélagsins. Þær geta að sjálfsögðu verið skattfrjálsar þar sem þær eru skattfrjálsar í dag, þessar 180 þús. kr. sem sveitarfélagið borgar.

Ég vil spyrja hv. framsögumann sem flutti hér ágæta ræðu, Elsu Láru Arnardóttur, hvort þetta sjónarmið með foreldraorlofið hafi verið skoðað í nefndinni og eins að það er um að ræða heimgreiðslur frá sveitarfélaginu.



[12:58]
Frsm. allsh.- og menntmn. (Elsa Lára Arnardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir andsvarið. Ég verð að segja að þetta hefur ekki verið skoðað í nefndinni, þetta um … (PHB: Foreldraorlof.)Fyrirgefðu, foreldraorlof eða heimgreiðslur. Ég tel að það sé mjög nauðsynlegt að þessar athugasemdir eða tillögur fari inn í umræðu sem hluti af þessum málum, því ég tel að það sé öllum til hagsbóta ef foreldrar geta mögulega verið lengur heima með börnum sínum. Þannig að ég mun taka þetta til greina og koma þessu til skila.



[12:59]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka kærlega fyrir svarið. Eftir því sem ég best veit vega orð framsögumanns þungt í lögskýringu í málinu þannig að segja má að þetta sé komið inn í málið til skoðunar fyrir nefndina sem verður skipuð og það verði skoðað hvernig þetta gæti verið samanlagt með foreldraorlofi og eins að foreldrarnir ynnu hluta úr starfi, jafnvel 60% hvor, og þeir eiga rétt á því þannig að þeir geta væntanlega allt að því sagt launagreiðanda sínum hvernig þeir vilja hafa þetta. Síðan ef sveitarfélagið kæmi inn í dæmið með þennan mikla kostnað sem kostar að vista eitt barn á eins árs aldri, um 180 þús. kr. á mánuði. Það gæti jafnað upp það tekjutap sem foreldrarnir verða fyrir þegar þeir taka ólaunað foreldraorlof.

Mér finnst þetta skipta verulega miklu máli vegna þess að við erum að fjalla um það hvernig ungi borgarinn mætir lífinu. Mér finnst of snemmt að senda hann út í lífið níu mánaða, jafnvel eru mörg börn ekki nægilega þroskuð til að fara tveggja ára. En það er betra að þau séu heima í tvö ár ef foreldrarnir kjósa það, vegna þess að fyrstu árin er barnið að átta sig á umhverfi sínu sem er heimilið, mynda tengsl og annað slíkt. Ég tel mjög mikilvægt að foreldrarnir hafi þarna val til að vera jafnvel allt að einu ári lengur heima með barninu sínu.



[13:01]
Frsm. allsh.- og menntmn. (Elsa Lára Arnardóttir) (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni Pétri Blöndal aftur fyrir athugasemdirnar og ég mun koma þessu til skila. Síðan er það verkefni samráðshóps á vegum sveitarfélaganna og fleiri aðila að taka ákvarðanir í þessum málum. En ég er hjartanlega sammála honum um tengslamyndun og hvað þetta skiptir miklu máli fyrir ung börn og samskipti við foreldra og fleira.



[13:02]
Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér er komin til afgreiðslu tillaga til þingsályktunar um leikskóla að loknu fæðingarorlofi, tillaga sem hv. þm. Svandís Svavarsdóttir var talsmaður fyrir. Ég sit í hv. allsherjar- og menntamálanefnd og styð tillöguna heils hugar þótt ég hafi ekki haft tækifæri til að vera á nefndarfundinum þar sem þetta var tekið úr nefnd.

Ég vildi vekja sérstaka athygli á því hversu mikilvæg tillagan er einmitt núna en fyrr í dag var verið að lækka framlög til Fæðingarorlofssjóðs um helming og núverandi ríkisstjórn er að hverfa frá áformum um að lengja fæðingarorlofið, sem mér finnst mjög mikið miður. Núna þegar við erum að fara út úr þessari kreppu allri og bankahruninu og afleiðingum þess hefði verið mikilvægt að fylgja þeirri stefnumótun sem komin var um að stíga næstu skref hvað varðar fæðingarorlofið, fylgja þeim áformum eftir. Það hefði verið auðvelt ef menn hefðu látið Fæðingarorlofssjóðinn hafa sínar tekjur þannig að hann gæti staðið undir þessu á næstu árum. Þannig var það hugsað. Það hefði ekki komið til sérstakra skattgreiðslna frá almenningi vegna þess heldur hefðum við eingöngu þurft að tryggja að stoðir sjóðsins héldu.

Ég vildi vekja athygli á þessu um leið og ég fagna tillögunni og því að hér verður í samráði við sveitarfélögin, fyrst og fremst þau því að auðvitað verðum að leggja áherslu á að þau reka leikskólann, farið yfir hvernig er hægt að brúa bilið sem er á milli fæðingarorlofs og þess að börn komist inn á leikskóla.

Mig langar að heyra sjónarmið hv. þingmanns og talsmanns í þessu máli, Elsu Láru Arnardóttur, hvað varðar fæðingarorlofið og þær breytingar sem ríkisstjórnin er að gera (Forseti hringir.) á málinu.



[13:04]
Frsm. allsh.- og menntmn. (Elsa Lára Arnardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Guðbjarti Hannessyni fyrir andsvarið. Nú hefur ný ríkisstjórn tekið við. Það er breytt stefna í ýmsum málum. Ef ég á að svara þessu persónulega vill maður auðvitað alltaf gera betur. Ég ber hag barnafjölskyldna fyrir brjósti og allra fjölskyldna. Við fórum þá leið að hækka þakið varðandi greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. Mér fannst það kostur en töluvert af þeirri hækkun varð í fyrri ríkisstjórn. Mér þætti gaman að sjá það einhvern tímann gerast að fæðingarorlofið yrði lengt, það er mín persónulega skoðun. Ég ítreka að það er ný ríkisstjórn með breyttar áherslur í þessum málum. Í kjölfar þeirrar stefnu er mjög mikilvægt, og ekkert bara vegna þeirrar stefnu, að þessi tillaga fari á umræðugrundvöll hjá sveitarfélögunum því að þau hafa með þennan málaflokk að gera, þ.e. vistun leikskólabarna.



[13:05]
Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég efast ekki um vilja hv. þingmanns til þess að hlúa betur að barnafjölskyldum. Það er náttúrlega þannig að ríkisstjórn á hverjum tíma byggir á stuðningi hv. þingmanna og þar af leiðandi verða menn að bera ábyrgð á heildarniðurstöðunni.

Ég harma þessa stefnu núverandi ríkisstjórnar og vefengi það að hún vinnið mikið fyrir barnafjölskyldur. Þótt horft sé í henni á eignastöðu fólks er ekki síður mikilvægt að horfa á framfærslu og það hvernig fólki er búin aðstaða til þess að ala börn sín upp.

Hvað varðar að seinka lengingu á fæðingarorlofinu þar sem átti eingöngu að taka einn mánuð í fyrsta áfanga og síðan stig af stigi. Við verðum að átta okkur á því að tryggingagjaldið skiptist í tvennt; það fer annars vegar í almennar atvinnuleysistryggingar og síðan í félagslegan hluta sem er til að fjármagna fæðingarorlof og fleiri þætti og það er tekið úr þeim þætti og fært yfir í 0,1% lækkun á tryggingagjaldi hjá fyrirtækjum. Ég held að menn hefðu getað gert það án þess að taka af þessum sjóði. Ég harma það og vil að það komi fram í tengslum við tillöguna vegna þess að auðvitað hangir þetta saman.

Ég fagna tillögunni vegna þess að það er þó verið að nýta tímann til þess að horfa aðeins fram í tímann. Ég skora á hv. þingmann að koma í lið með okkur og taka aftur upp tillögurnar um lengingu á fæðingarorlofi. Það er einu sinni þannig að Íslendingar eru með stysta fæðingarorlof af Norðurlöndunum og flestum Norður-Evrópuríkjum. Þannig megum við ekki hafa það til langs tíma.



[13:07]
Frsm. allsh.- og menntmn. (Elsa Lára Arnardóttir) (F) (andsvar):

Herra forseti. Við erum alla vega sammála um það, ég og hv. þm. Guðbjartur Hannesson, að við erum ánægð með þessa þingsályktunartillögu og með að hún fari á samráðsvettvang sveitarfélaganna þar sem þarf að skoða ýmsa hluti. Ég vona að með tíð og tíma og auknu fjármagni og fleiru getum við mögulega aukið eða lengt fæðingarorlof, en það er mín persónulega skoðun á þeim málum.



[13:08]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mér finnst ástæða til að fagna afgreiðslu hv. allsherjar- og menntamálanefndar á þessari tillögu, um leikskóla að loknu fæðingarorlofi, sem flutt er af hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur og okkur öllum hv. þm. Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.

Auðvitað miðast tillagan við að fyrir liggi áætlanir um að lengja fæðingarorlofið upp í eitt ár, en það hefur líka orðið sameiginlegur skilningur okkar sem skipum ólíkar stjórnmálahreyfingar hér á Alþingi að á grundvelli samþykktar þessarar tillögu verði hægt að ræða framtíðarsýn um fæðingarorlof. Þó að þröngt sé í búi er líka stundum hægt að gera breytingar með því að breyta forgangsröðun. Við höfum mjög skýr dæmi um það í stjórnmálasögunni hvernig breytingar hafa orðið, jafnvel ekkert með miklum látum og í hljóði, á samfélagi okkar sem hafa skipt alveg óskaplegu máli fyrir líf fólksins í landinu. Ég get nefnt sem dæmi um það lögin um fæðingarorlof á sínum tíma sem breyttu algjörlega aðstöðumun kynjanna til að taka þátt í uppeldi barna sinna og lenginguna á fæðingarorlofi sem líka skipti gríðarlegu máli hvað varðar þátttöku kvenna og karla á vinnumarkaði.

Ég vil líka nefna á sveitarstjórnarstigi þegar Reykjavíkurlistinn á sínum tíma fór í það átak að fjölga leikskólum í Reykjavík. Þar komu saman vinstri og miðjuflokkarnir í Reykjavík og gjörbreyttu í raun aðstöðu foreldra og barna á þessum aldri til að fá rými inn á leikskóla. Þegar við skoðum þessar breytingar í sögulegu samhengi er það svo merkilegt að svona breytingar sem lúta að því að styrkja innviði almannaþjónustunnar, eins og að lengja fæðingarorlof, eins og að tryggja þátttöku beggja foreldra, eins og að tryggja leikskólarými — við sjáum þeirra stað beinlínis þegar við skoðum vinnumarkaðinn, hvernig til að mynda konum fækkaði marktækt í hlutastörfum í kringum breytingar á framboði leikskólarýma í Reykjavík svo að dæmi sé tekið, hvernig atvinnuþátttaka kvenna jókst í kringum þær breytingar. Þær ákvarðanir sem við getum tekið hér, stjórnmálamenn á vettvangi Alþingis og á vettvangi sveitarstjórna, geta því haft gríðarleg áhrif á lífskjör og tækifæri fólks í þessu landi.

Ég vil nú segja það að þó ég eldist hratt er ég enn á barneignaaldri og það skiptir alveg gríðarlegu máli fyrir ungt fólk í landinu, sem er á þessum aldri, að geta gengið að tryggri vistun vísri, að hafa ákveðið öryggi um það hvernig fyrstu mánuðum og árum í lífi barns verður nákvæmlega háttað. Það öryggi er alls ekki fyrir hendi í öllum sveitarfélögum eins og staðan er nú. Sums staðar hefur tekist að koma til móts við foreldra þannig að leikskóladvöl sé í boði frá um það bil eins árs aldri, annars staðar er það alls ekki svo. Ég get nú talað fyrir höfuðborgarsvæðið í því sambandi, það er alls ekki svo hér.

Það væri draumur minn að lengja fæðingarorlofið upp í eitt ár eins og samþykkt hafði verið og var því miður fellt brott, ég harma það mjög, og jafnvel að horft væri til Svíþjóðar þar sem möguleikar eru á að taka lengra fæðingarorlof, það er að einhverju leyti valkvætt, þannig að foreldrum stæði til boða að annaðhvort taka lengra fæðingarorlof eða eiga kost á leikskólarými. Það er nú vissulega svo að börnin eru misjöfn. Sumum hentar betur að vera aðeins lengur heima, öðrum síður, en það er mjög mikilvægt, finnst mér, að ákveðinn grunnur sé tryggður. Mér finnst að fyrsti áfangi þess eigi að vera eitt ár að lágmarki sem skiptist jafnt á milli kynjanna eins og lagt hafði verið til. Síðan finnst mér mikilvægt að ákveðinn sveigjanleiki sé innbyggður í kerfið.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta, bara það að mjúku málin sem stundum eru kölluð svo geta reynst miklu harðari en öll þau hörðu mál sem stundum eru rædd því þau hafa svo bein áhrif á það hvernig lífi okkar er háttað. Þetta skiptir líka máli, finnst mér og ég fagna þeim samræðum sem hafa farið fram, ekki bara út frá þessari velferðarpólitík sem ég hef hér rætt, heldur líka í menntapólitíkinni.

Það er umhugsunarefni hversu mikil ánægja fólks er með leikskólastigið, hversu mikið og gott faglegt starf fer fram á leikskólum víða um land sem hefur auðvitað tekið alveg stórkostlega stórstígum framförum á undanförnum árum og áratugum. Það hefur verið alveg sérstaklega áhugavert, fannst mér til að mynda, þegar ég átti því láni að fagna að gegna embætti menntamálaráðherra að kynnast ólíkum stefnum í leikskólastarfi víða um land og sjá allan þann faglega metnað sem þar er til staðar. Mér finnst því líka mikilvægt að við munum eftir því samhengi, því ég tel að með þessum breytingum og með því að geta tryggt foreldrum leikskólavist fyrir börnin sín erum við líka að styrkja menntakerfið okkar og veita börnunum þá menntun sem þar fram. Vissulega ekki, eins og menntun er í huga margra, svona á hefðbundinn hátt borð og stólar og allt það, heldur nám í gegnum leik sem skiptir auðvitað gríðarlegu máli. Við eigum að rifja þetta upp því að þó þetta séu mjúk mál eru þetta kannski mál sem hafa miklu meiri áhrif á líf okkar en sumt annað sem við eyðum meiri tíma í að ræða.

Ég fagna afgreiðslu hv. allsherjar- og menntamálanefndar, þeirri samstöðu sem þar hefur skapast og fagna þeim skilningi sem uppi er um að við ætlum að ræða saman og reyna að komast að sameiginlegri framtíðarsýn um fæðingarorlof og um lengd þess, um samstarf við sveitarfélögin um að tryggja leikskólarými fyrir börn og að við getum náð einhvern veginn saman um þetta. Þetta er svo stórt mál fyrir allar kynslóðir í landinu, leyfi ég mér að segja, fyrir þær kynslóðir barna sem eru að koma í heiminn, fyrir kynslóðir foreldra og fyrir samfélagið allt. Ég vil því ljúka ræðu minni á þessum jákvæðu nótum.



[13:14]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég kom aðallega upp til að leiðrétta það sem ég sagði áðan. Ég sagði að þetta gæti tryggt börnunum að vera eitt ár heima en það er mikið meira því að þau gætu verið allt að tvö ár heima. Það er kannski það sem skiptir mestu máli, eins og hv. þm. Katrín Jakobsdóttir kom inn á hér áðan þegar hún sagði að það væri mikilvægt að foreldrar hefðu val því að börn eru mjög mismunandi þroskuð. Sum eru tilbúin til að fara út í heim jafnvel eins og hálfs árs, ég hef nú ekki kynnst neinu barni sem er yngra en það sem er tilbúið til að fara út í heim, en önnur þurfa að vera heima allt til þriggja ára aldurs vegna þess að þau eru ekki búin að ljúka tengslamyndun heima hjá sér.

Það sem ég er að benda á er að það eru í gildi lög um foreldraorlof sem veita foreldrum heimild til að vera í 16 vikur í launalausu leyfi sem þau ákveða, þ.e. atvinnurekanda ber að fara eftir því sem foreldrarnir óska eftir. Ég sé fyrir mér að fyrst kæmi fæðingarorlof þar sem foreldrarnir skiptast á að vera heima, síðan tæki foreldraorlof við þar sem foreldrarnir væru kannski 40% heima og í 60% starfi hvort um sig, skiptust á um að vinna á vöktum. En þetta foreldraorlof er ólaunað. Með því að breyta lögum með heimgreiðslum sveitarfélaga þannig að í stað þess að borga 180 þús. kr. á mánuði fyrir eins árs barn á leikskóla væri þeim heimilt að borga skattfrjálst til foreldranna fyrsta árið 180 þús. kr. Þá gæti dæmið gengið að einhverju leyti fjárhagslega upp, þá fengju foreldrarnir rúmlega 200 þús. kr. frá sveitarfélaginu reiknað yfir á fullt starf og þótt þau væru bara í 60% starfi hvort um sig mundi það ríða baggamuninn. Þau gætu verið heima í allt að 19 mánuði og jafnvel lengt þann tíma upp í tvö ár með ákveðnum fjárhagslegum fórnum. Með þessu yrði miklu meira val hjá foreldrunum. Það sem skiptir máli er náttúrlega að heimila sveitarfélögum að greiða þennan kostnað, 180 þús. kr. á mánuði, fyrir fyrsta árið, það er dýrast. Það væri þá ekki skattskylt fyrir móttakanda, þ.e. foreldrunum.

Þetta finnst mér að nefndin megi skoða líka. Mér finnst of þröngt að líta bara á fæðingarorlofið, sem er eins og sumir segja ekki nægilega langt. Hér kom fram spurning frá hv. þm. Guðbjarti Hannessyni um stefnu ríkisstjórnarinnar í þeim efnum. Þá stöndum við því miður, herra forseti, frammi fyrir því að ríkissjóður borgar 75 milljarða í vexti á ári, það svarar til eins stykkis fullbúins spítala til viðmiðunar. Á hverju einasta ári erum við að borga þetta. Þetta er náttúrlega algjörlega óþolandi staða. Það eru 200 milljónir á dag sem ríkissjóður borgar og allar þær breytingar sem við höfum verið að gera á fjárlögum og fjáraukalögum eru u.þ.b. sú tala, þ.e. jólabónusinn var 280 milljónir og allar tölurnar sem við erum að tala um eru u.þ.b. vextir ríkissjóðs á dag.

Ef við lögum þetta ekki, herra forseti, hverjir taka þá við því? Börnin okkar, einmitt þau sem við erum að tala um hérna, þau munu þurfa að borga mikla skatta í framtíðinni ef við tökum ekki á skuldamálum okkar. Þess vegna finnst mér það vera allt að því barnamál hvernig okkur tekst að ná tökum á stöðu ríkissjóðs, fyrir utan það að þegar ríkissjóður er með halla eykur það verðbólgu sem kemur niður á framfærslu foreldranna, framfærslan er nefnilega verðtryggð. Ef það kemur verðbólga vex framfærsla heimilanna, afborganir af lánum vaxa líka, sem eru verðtryggð, þannig að það er orðið mjög brýnt að koma böndum á halla ríkissjóðs gagnvart heimilunum, gagnvart börnunum og gagnvart afborgunum af lánum, alveg sérstaklega gagnvart börnunum í framtíðinni. Ef við náum ekki að borga niður þessar skuldir þá verða þau að gera það.