143. löggjafarþing — 44. fundur
 20. desember 2013.
ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014, frh. 3. umræðu.
stjfrv., 3. mál (verðlagsbreytingar o.fl.). — Þskj. 368, nál. 445, brtt. 444 og 446.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[10:51]

Brtt. 444 felld með 37:21 atkv. og sögðu

  já:  ÁPÁ,  ÁÞS,  BirgJ,  BjG,  BjÓ,  BP,  GuðbH,  GStein,  HHG,  HHj,  JÞÓ,  KJak,  KLM,  LRM,  OH,  ÓGunn,  ÓP,  PVB,  RM,  SII,  SJS.
nei:  ÁsF,  BjarnB,  BN,  EKG,  ElH,  ELA,  EyH,  FSigurj,  GÞÞ,  GBS,  HBK,  HarB,  HE,  HöskÞ,  IllG,  JMS,  JónG,  KG,  KÞJ,  LínS,  PJP,  PHB,  REÁ,  RR,  SDG,  SigrM,  SIJ,  SPJ,  SilG,  UBK,  ValG,  VigH,  VilÁ,  VilB,  WÞÞ,  ÞorS,  ÞórE.
5 þm. (BÁ,  KaJúl,  SSv,  VBj,  ÖS) fjarstaddir.
3 þm. gerðu svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[10:48]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Við leggjum til að þessi kafli, þessi grein, falli brott úr frumvarpinu. Hér er verið að stórhækka innritunargjöld í opinbera háskóla, en það er staðið þannig að því af hálfu stjórnarmeirihlutans að framlög til háskólanna eru skert um nokkurn veginn sömu upphæð á móti. Með því er í reynd verið að breyta þessum innritunargjöldum í hreinan nefskatt á námsmenn í ríkissjóð. Þannig kemur málið út fjárhagslega.

Auk þess er gengið mjög langt í hækkun skattsins miðað við raunkostnað háskólanna við innritun sem var á síðasta ári samkvæmt bókhaldsgögnum Háskóla Íslands 66 þús. kr. (Gripið fram í.) þannig að það er gengið lengra en að hækka þann raunkostnað sem nemur áætluðu verðlagi á árinu 2014. (Menntmrh.: Þetta er rangt.) Þar með tel ég að skatturinn sé orðinn — (Menntmrh.: Rangt með farið.) þar með tel ég að skatturinn sé orðinn ólöglegur, hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra. (Gripið fram í.) Skyldi nú ekki vera að stúdentaráð ætti eftir að leggja hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra aftur á klofbragði. (Menntmrh.: Þetta er rangt með farið.)



[10:49]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er mjög mikilvægt að greiða atkvæði gegn þeirri hækkun á innritunargjöldum í háskóla sem ríkisstjórnin hefur lagt til vegna þess að hér er um að ræða sérstakan skatt á einn þjóðfélagshóp, námsmenn, því að peningarnir eiga að drýgstum hluta að renna í ríkissjóð. Þetta er hluti af stefnubreytingu hæstv. ríkisstjórnar sem felst í því að taka æ ríkari hluta samneyslunnar í gegnum nefskatta, burt úr hinu almenna tekjujöfnunarkerfi, burt úr hinu almenna tekjuskattskerfi, til þess að auka á ójöfnuð og láta þá sem minnst hafa milli handanna bera þyngri byrðar af samneyslunni en ella. Þetta er pólitísk aðför að jöfnuði í landinu. (Gripið fram í.)



[10:50]
Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Það ræður úrslitum um okkar afstöðu til þessa að það er ljóst að skráningargjöldin — sem svo óheppilega eru kölluð á stöku stað í frumvörpum stjórnarmeirihlutans skólagjöld en ég held að það hafi verið leiðrétt, þetta eru skrásetningargjöld — renna ekki að fullu til háskólans. Þar með er þetta skattur á stúdenta. Það er svo einfalt og við erum á móti því.



Brtt. 446,1–2 samþ. með 57 shlj. atkv.

Brtt. 446,3 samþ. með 58 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ÁPÁ,  ÁÞS,  ÁsF,  BirgJ,  BjG,  BjarnB,  BjÓ,  BP,  BN,  EKG,  ElH,  ELA,  EyH,  FSigurj,  GuðbH,  GÞÞ,  GStein,  GBS,  HBK,  HarB,  HE,  HHG,  HHj,  HöskÞ,  IllG,  JMS,  JónG,  JÞÓ,  KG,  KJak,  KÞJ,  KLM,  LRM,  LínS,  OH,  ÓGunn,  ÓP,  PVB,  PJP,  PHB,  REÁ,  RR,  RM,  SDG,  SII,  SigrM,  SIJ,  SPJ,  SilG,  SJS,  UBK,  ValG,  VigH,  VilÁ,  VilB,  WÞÞ,  ÞorS,  ÞórE.
5 þm. (BÁ,  KaJúl,  SSv,  VBj,  ÖS) fjarstaddir.
3 þm. gerðu svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[10:52]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Hér eru greidd atkvæði um þá tillögu sem er flutt í framhaldi af samkomulagi formanna flokkanna við þinghlé um að fá ríkisstjórnina til að falla frá því hámarki á endurgreiðslu þróunarkostnaðar sem hún hugðist setja á og var hluti af aðför hennar að rannsóknum og þróun í íslensku atvinnulífi. Það er fagnaðarefni að við skulum hafa náð þessum árangri.



[10:52]
Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Það er mikið ánægjuefni að þessi grein frumvarpsins er felld brott nú í atkvæðagreiðslu. Hér hugðist stjórnarmeirihlutinn minnka endurgreiðslur til nýsköpunarfyrirtækja vegna kostnaðar við rannsóknir og þróun. Það er hætt við það og það er gott. Ég vil líka vekja athygli á nefndaráliti meiri hlutans, loksins er formlega fallist á það grundvallarsjónarmið að séu framlög til nýsköpunarfyrirtækja skynsamleg skili þau sér til baka. Í nefndarálitinu segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Einnig var talið að áhrif gildandi ákvæða laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki á greiðslustöðu ríkissjóðs væru í raun jákvæð …“

Þetta er lykilatriði. Þessari meginreglu verðum við að beita þegar við fjöllum líka um Tækniþróunarsjóð, Rannsóknasjóð og Kvikmyndasjóð. Framlög til þessara mála skila jákvæðri niðurstöðu fyrir ríkissjóð. Ég fagna því að það sé fallist á þau rök í atkvæðagreiðslu.



[10:54]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég fagna mjög sinnaskiptum þingmanna vegna þessa máls því að sambærileg tillaga var felld við 2. umr. Það er ástæða til að vekja athygli á því að lagaumgjörðin um endurgreiðslu rannsóknar- og þróunarkostnaðar til nýsköpunar- og sprotafyrirtækja hefur ekki útgjaldaáhrif að þessu leyti á árinu 2014 þar sem það er tilfallandi rannsóknarkostnaður á því ári sem er endurgreiddur eða gerður upp á árinu 2015. Hér hefðu menn fyrst og fremst verið að senda afar neikvæð skilaboð inn í framtíðina um að þetta nýsköpunarumhverfi færi versnandi eins og hæstv. ríkisstjórn lagði upp með þetta í haust, reyndar á mörgum sviðum. Það er því miður ekki bara hér sem var vegið að starfsumhverfi rannsókna, þróunarstarfs og nýsköpunar með mikilli skerðingu á framlögum til rannsóknasjóða o.s.frv.

Þótt í litlu sé eru þetta ákaflega gleðileg tíðindi. Ef eitthvað er ættu menn að setjast yfir það á næstu mánuðum að skoða hvort ekki væri skynsamlegt að rýmka þann ramma sem er um þennan stuðning í staðinn fyrir að (Forseti hringir.) skerða hann eins og til stóð.



Brtt. 446,4 samþ. með 44 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ÁÞS,  ÁsF,  BjG,  BjarnB,  BN,  EKG,  ElH,  ELA,  EyH,  FSigurj,  GÞÞ,  GBS,  HBK,  HarB,  HE,  HöskÞ,  IllG,  JMS,  JónG,  JÞÓ,  KG,  KJak,  KÞJ,  LRM,  LínS,  ÓGunn,  PJP,  PHB,  REÁ,  RR,  SDG,  SigrM,  SIJ,  SPJ,  SilG,  SJS,  UBK,  ValG,  VigH,  VilÁ,  VilB,  WÞÞ,  ÞorS,  ÞórE.
14 þm. (ÁPÁ,  BirgJ,  BjÓ,  BP,  GuðbH,  GStein,  HHG,  HHj,  KLM,  OH,  ÓP,  PVB,  RM,  SII) greiddu ekki atkv.
5 þm. (BÁ,  KaJúl,  SSv,  VBj,  ÖS) fjarstaddir.
2 þm. gerðu svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[10:55]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er gert ráð fyrir tilteknum breytingum til að gera Ríkisútvarpinu kleift að þola þá vængstýfingu sem ríkisstjórnin stefnir að á þeirri stofnun. Til þess er komið með hugmyndir og tillögur sem fela í sér að fresta því að setja samkeppnisrekstur stofnunarinnar í sérstakt félag.

Það kom fram við vinnslu nefndarinnar að ekkert liggur fyrir um það að Eftirlitsstofnun EFTA muni samþykkja þessar tillögur. Þvert á móti liggur fyrir úr langri vinnu íslenskra stjórnvalda með Eftirlitsstofnun EFTA á undanförnum árum að þeim leiðum sem hæstv. ríkisstjórn segist núna ætla að fara til þess að bjarga sér í fjárlagagerðinni hefur verið hafnað. Ekkert sýnir betur hversu vanhugsaðar þessar aðgerðir eru.



[10:56]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Hér er gerð sú krafa að í stað 215 milljóna verði 150 milljónir teknar af Ríkisútvarpinu. Samhliða er samþykkt að áður boðaður niðurskurður á auglýsingatíma Ríkisútvarpsins úr tólf mínútum í átta verði áfram tólf mínútur á hverjum klukkutíma. Ég styð þessar aðgerðir, virðulegur forseti, og við í þingflokki Sjálfstæðisflokksins eins og sjá má á grænum takka.

Það er þó hálfdapurlegt að hlusta á fráfarandi ríkisstjórnarflokka harma allan niðurskurð á Ríkisútvarpinu sem nú kemur til þegar þeir stóðu að ekki minni niðurskurði á síðustu árum.



Brtt. 446,5 samþ. með 37 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ÁsF,  BjarnB,  BN,  EKG,  ElH,  ELA,  EyH,  FSigurj,  GÞÞ,  GBS,  HBK,  HarB,  HE,  HöskÞ,  IllG,  JMS,  JónG,  KG,  KÞJ,  LínS,  PJP,  PHB,  REÁ,  RR,  SDG,  SigrM,  SIJ,  SPJ,  SilG,  UBK,  ValG,  VigH,  VilÁ,  VilB,  WÞÞ,  ÞorS,  ÞórE.
21 þm. (ÁPÁ,  ÁÞS,  BirgJ,  BjG,  BjÓ,  BP,  GuðbH,  GStein,  HHG,  HHj,  JÞÓ,  KJak,  KLM,  LRM,  OH,  ÓGunn,  ÓP,  PVB,  RM,  SII,  SJS) greiddi ekki atkv.
5 þm. (BÁ,  KaJúl,  SSv,  VBj,  ÖS) fjarstaddir.
1 þm. gerði svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[10:58]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Starfsendurhæfingarsjóðirnir voru settir í gang til þess að auka starfsendurhæfingu, eins og nafnið bendir til. Það er hins vegar mjög erfitt að gera það þegar við búum enn þá við 75% örorkumat sem gerir okkur mjög erfitt um vik að endurhæfa fólk. Tillagan hér um að þeir fái ekki tekjur á árunum 2013 og 2014 tekur mið af því.

Hins vegar er unnið að því að koma með starfsgetumat og þá mun ekki veita af miklum fjárhæðum í starfsendurhæfingu, þegar búið er að setja kerfið inn í svona rökrétt samhengi, að það sé hægt að endurhæfa fólk. Þetta er mjög mikilvægt.

Hins vegar er í sjóðunum töluvert mikið fé sem endist örugglega vel út árið 2014, en eftir það þurfum við að taka okkur á og veita meira fé í þessa sjóði.

Ég segi já við þessu.



Brtt. 446,6 samþ. með 56 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ÁPÁ,  ÁÞS,  ÁsF,  BirgJ,  BjG,  BjÓ,  BP,  BN,  EKG,  ElH,  ELA,  EyH,  FSigurj,  GuðbH,  GÞÞ,  GStein,  GBS,  HBK,  HarB,  HE,  HHG,  HHj,  HöskÞ,  IllG,  JMS,  JónG,  KG,  KJak,  KÞJ,  KLM,  LRM,  LínS,  OH,  ÓGunn,  ÓP,  PVB,  PJP,  PHB,  REÁ,  RR,  RM,  SDG,  SII,  SigrM,  SIJ,  SPJ,  SilG,  SJS,  UBK,  ValG,  VigH,  VilÁ,  VilB,  WÞÞ,  ÞorS,  ÞórE.
1 þm. (JÞÓ) greiddi ekki atkv.
6 þm. (BÁ,  BjarnB,  KaJúl,  SSv,  VBj,  ÖS) fjarstaddir.

[11:03]
Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseti biður um að haft sé hljóð í þingsalnum. List frammíkallanna er sú að þau eigi sér að minnsta kosti stað meðan ræðan stendur yfir.



Brtt. 446,7 samþ. með 57 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ÁPÁ,  ÁÞS,  ÁsF,  BirgJ,  BjG,  BjÓ,  BP,  BN,  EKG,  ElH,  ELA,  EyH,  FSigurj,  GuðbH,  GÞÞ,  GStein,  GBS,  HBK,  HarB,  HE,  HHG,  HHj,  HöskÞ,  IllG,  JMS,  JónG,  JÞÓ,  KG,  KJak,  KÞJ,  KLM,  LRM,  LínS,  OH,  ÓGunn,  ÓP,  PVB,  PJP,  PHB,  REÁ,  RR,  RM,  SDG,  SII,  SigrM,  SIJ,  SPJ,  SilG,  SJS,  UBK,  ValG,  VigH,  VilÁ,  VilB,  WÞÞ,  ÞorS,  ÞórE.
6 þm. (BÁ,  BjarnB,  KaJúl,  SSv,  VBj,  ÖS) fjarstaddir.
4 þm. gerðu svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[10:59]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er með sérstakri ánægju sem ég greiði þessari tillögu atkvæði. Hér er verið að fella niður sjúklingaskatta ríkisstjórnarinnar. Hún hóf vegferð sína í fjárlagafrumvarpi í haust með því að ætla að leggja sérstakt gistináttagjald á veikt fólk. Þessi ríkisstjórn sem treysti sér ekki til að leggja gistináttagjald á útlenda ferðamenn ætlaði sér sem sagt að leggja gistináttagjald á veikt fólk. Hún hrökklaðist svo undan gagnrýni á þessar hugmyndir að hæstv. forsætisráðherra afneitaði þeim í beinni útsendingu að kvöldi stefnuræðudags, áður en fjárlagafrumvarpið var lagt fram.

Síðan höfum við beðið eftir að sjá hvaða útfærslu hæstv. ríkisstjórn mundi finna á því að rukka sjúklinga sérstaklega fyrir veikindi sín. Niðurstaðan var innritunargjald. Það gat enginn útskýrt hvernig ætti að innheimta það, hvar ætti að innheimta það, hvort ætti að vísa frá fólki sem ekki væri í ástandi til að taka ákvörðun um hvort það ætlaði að borga gjaldið eða ekki.

Okkur tókst nú blessunarlega í samningum um þinglok að fá ríkisstjórnina ofan af þessu. Það er heillaskref að við skulum áfram hafa gjaldfrjálst (Forseti hringir.) spítalakerfi eins og við höfum haft frá upphafi alþýðutrygginga í þessu landi. (Gripið fram í.)



[11:01]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er sérstakt ánægjuefni að þessi kafli falli brott úr frumvarpinu. Það er hluti uppskerunnar sem þó varð hér í samkomulagi um þinglokin að stjórn… (HöskÞ: … jákvæður.) — ég legg til að hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni verði gefið orðið, honum líður illa þarna aftur í salnum og (HöskÞ: Nei, mjög vel, þakka þér fyrir.) er órólegur. (Forseti hringir.)

(Forseti (EKG): Forseti leggur eingöngu til að hv. þingmenn sem ekki eru að halda ræðu hafi hljótt um sig.)

Ég skil svo sem vel að ýmsum stjórnarliðum líði illa yfir þessu. Til stóð, eins og kunnugt er, að leggja á sérstök legugjöld á sjúkrahúsum. Það breyttist svo í vandræðagangi ríkisstjórnarinnar í áformuð innritunargjöld en er nú að hverfa út. Það er mikið fagnaðarefni. Almennt er það fólk sem þarf að leggjast inn á sjúkrahús veikasta fólkið í landinu. Það hefur verið tiltekin víglína í þessum málum, velferðarmálum, að þar stæði mönnum gjaldfrjáls þjónusta til boða þegar inn á sjúkrahúsin væri komið. (Gripið fram í.) Menn færu ekki með sjóðvélarnar, (Gripið fram í: Yfirleitt …) menn færu ekki með rukkarana inn á sjúkrahúsgangana, (Forseti hringir.) en þangað langaði auðvitað stjórnarliða. (Gripið fram í.)

Herra forseti. Við heyrum það á því hvað mönnum líður illa (Forseti hringir.) að það er greinileg eftirsjá hjá þingmönnum (Forseti hringir.) meiri hlutans að þeir skyldu (Forseti hringir.) ekki mega fara (Forseti hringir.) inn á spítalagangana (Forseti hringir.) eftir áramótin (Forseti hringir.) að rukka sjúklinga. (Forseti hringir.) [Háreysti í þingsal.]



[11:03]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Það er undarlegt að heyra tal manna, það er eins og þeir hafi ekki áttað sig á þeim breytingum sem hafa orðið. Á göngum spítalanna eru nefnilega sjóðvélar í gangi. Allir sem fara í kviðsjáraðgerðir sem standa yfir hálfan dag borga, þeir borga meira að segja fyrir aðgerðina. Þeir borga fyrir sérfræðingana, hjúkrunina og allar rannsóknir. Þetta er búið að vera í gangi núna í mörg ár, líka þegar síðasta ríkisstjórn var, hún bara tók ekki eftir þessu. Það eru sjóðvélar í gangi í ferliverkum og þvílíku hjá spítölunum. Þessi heilaga kýr er ekki eins heilög og hún sýnist. (Gripið fram í: Rétt.) (Gripið fram í: Akkúrat.)

Núna er verið að vinna að nýju greiðsluþátttökukerfi sem tekur væntanlega á þessu eins og öðru. Ég vonast til að sú breyting komi fram þannig að sjúklingar séu jafn settir. Ég geti ekki séð, herra forseti, að krabbameinssjúlingur sem fer í kviðsjáraðgerð sé minna veikur en annar sem fer í krossbandaaðgerð og liggur inni. [Kliður í þingsal.]



[11:04]
Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Við fögnum því að sjálfsögðu að komugjöld, eða legugjöld eftir atvikum, eftir því hvað menn ætluðu sér, séu felld brott. Við höfum alltaf lagt áherslu á það í málflutningi okkar að við ljúkum heildarendurskoðun á fyrirkomulagi gjaldtöku af sjúklingum á spítölum.

Við þurfum að horfast í augu við það að víða er tekið gjald af sjúklingum. Það er ekki réttlátt hvernig það skiptist. Okkur fannst alltaf einkennilegt að koma með þessa tillögu inn í þingið til hliðar við þá vinnu alla saman.

Stundum er í stjórnmálum talað um reyksprengjur og ég held að við sjáum þær oft í okkar stjórnmálamenningu. Þá er eitthvað sett fram sem líklegt deilumál til að geta bakkað með það síðar. Mér finnst þetta líta dálítið út eins og möguleg reyksprengja. Þetta var allan tímann óútfært og nú er bakkað með þetta, en það er í öllu falli gott.



Brtt. 446,8 samþ. með 36 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ÁsF,  BN,  EKG,  ElH,  ELA,  EyH,  FSigurj,  GÞÞ,  GBS,  HBK,  HarB,  HE,  HöskÞ,  IllG,  JMS,  JónG,  KG,  KÞJ,  LínS,  PJP,  PHB,  REÁ,  RR,  SDG,  SigrM,  SIJ,  SPJ,  SilG,  UBK,  ValG,  VigH,  VilÁ,  VilB,  WÞÞ,  ÞorS,  ÞórE.
21 þm. (ÁPÁ,  ÁÞS,  BirgJ,  BjG,  BjÓ,  BP,  GuðbH,  GStein,  HHG,  HHj,  JÞÓ,  KJak,  KLM,  LRM,  OH,  ÓGunn,  ÓP,  PVB,  RM,  SII,  SJS) greiddi ekki atkv.
6 þm. (BÁ,  BjarnB,  KaJúl,  SSv,  VBj,  ÖS) fjarstaddir.

Frv., svo breytt, samþ. með 37 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ÁsF,  BN,  EKG,  ElH,  ELA,  EyH,  FSigurj,  GÞÞ,  GBS,  HBK,  HarB,  HE,  HöskÞ,  IllG,  JMS,  JónG,  KG,  KÞJ,  LínS,  PVB,  PJP,  PHB,  REÁ,  RR,  SDG,  SigrM,  SIJ,  SPJ,  SilG,  UBK,  ValG,  VigH,  VilÁ,  VilB,  WÞÞ,  ÞorS,  ÞórE.
20 þm. (ÁPÁ,  ÁÞS,  BirgJ,  BjG,  BjÓ,  BP,  GuðbH,  GStein,  HHG,  HHj,  JÞÓ,  KJak,  KLM,  LRM,  OH,  ÓGunn,  ÓP,  RM,  SII,  SJS) greiddu ekki atkv.
6 þm. (BÁ,  BjarnB,  KaJúl,  SSv,  VBj,  ÖS) fjarstaddir.
1 þm. gerði svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[11:06]
Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Það er ekki góður bragur að því að hérna verði málþóf til að reyna að fá fellda einhverja ákveðna hluti út úr þessum tekjuaðgerðum ríkisstjórnarinnar. Þegar ríkisstjórnin veit þetta setur hún að sjálfsögðu ákvæði inn í frumvarpið, eins og komugjöld á sjúkrahús og desemberuppbótina fyrir atvinnulausa, og svo er vitað að í samningum er þetta notað til að bakka aftur með.

Þetta þýðir að verið er að auka áhyggjur sjúks fólks sem veit að það er að fara á spítala og atvinnulauss fólks sem heldur að það fái ekki desemberuppbótina sína. Á kostnað þess fólks er verið að skapa ákveðið leikspil í þinginu. Við verðum að finna einhverja aðra leið til að lenda tekjufrumvarpinu (Forseti hringir.) en þessa. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) (Gripið fram í.)