143. löggjafarþing — 49. fundur
 14. janúar 2014.
jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku, 1. umræða.
stjfrv., 237. mál (jöfnunargjald). — Þskj. 366.

[15:00]
iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 98/2004, um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku, með síðari breytingum, á þskj. 366.

Um langt skeið hefur legið fyrir að kostnaður við dreifingu raforku er mun meiri í hinum dreifðu byggðum landsins en í þéttbýli. Þessi kostnaðarmunur endurspeglast í því að gjaldskrár fyrir dreifingu raforku í dreifbýli eru hærri en gjaldskrár fyrir dreifingu á raforku í þéttbýli. Því miður hefur þróun síðustu ára verið í þá veru að kostnaðarmunurinn milli dreifbýlis og þéttbýlis hefur aukist.

Raforkunotendum hefur fjölgað í þéttbýli og þar með hagkvæmni þess kerfis, m.a. með tilfærslu fiskimjölsbræðslna af olíu yfir á rafmagn. Á sama tíma hefur notendum fækkað í dreifbýli og því sífellt færri og færri sem standa undir raforkukostnaði þar. Hækkunarþörf á gjaldskrám hefur því farið vaxandi í dreifbýli og að óbreyttu þarf að hækka taxta í dreifbýli umtalsvert til þess að standa undir kostnaði við dreifingu raforku þar. Ekki þarf að fara mörgum orðum um það að háir taxtar á dreifikostnaði raforku í dreifbýli og sívaxandi munur milli raforkukostnaðar í dreifbýli og þéttbýli stuðlar í auknum mæli að fólksfækkun, samdrætti í atvinnurekstri og tilheyrandi neikvæðum byggðarlegum áhrifum.

Á vettvangi míns ráðuneytis var farið í það verkefni í byrjun vetrar í samráði við Orkustofnun og Samorku að leita leiða til að bregðast við þessari alvarlegu stöðu og reyna að tryggja betur raunverulega jöfnun á dreifikostnaði raforku í dreifbýli og þéttbýli. Niðurstaða þeirrar vinnu er það frumvarp sem ég mæli nú fyrir.

Með frumvarpinu eru lagðar til ákveðnar breytingar á lögum nr. 98/2004, um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku. Í þeim lögum er kveðið á um að greiða skuli niður kostnað við dreifingu raforku í dreifbýli sé hann umfram viðmiðunarmörk sem taki mið af hæstu gjaldskrá dreifiveitu í þéttbýli eftir því sem fé er veitt til á fjárlögum.

Frá árinu 2005 hefur á fjárlögum árlega verið varið 240 millj. kr. í jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku. Til að byrja með, árið 2005, nægði sú fjárhæð til að tryggja jöfnun raforkukostnaðar milli dreifbýlis og þéttbýlis í samræmi við markmið laganna. Þar sem fjárveitingin hefur hins vegar verið óbreytt frá árinu 2005 er nú svo komið vegna aukinnar raforkunotkunar og verðlagsþróunar að kostnaður við fulla jöfnun er áætlaður um 1 milljarður kr. Vantar því árlega um 760 millj. kr. á fjárlögum til að tryggja fulla jöfnun.

Með frumvarpi því sem hér er lagt fram er brugðist við þessu og lagt til að tekið verði upp sérstakt jöfnunargjald á þá raforku sem fer um dreifikerfið dreifiveitna. Til gangur gjaldtökunnar er að standa undir fullri jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku á grundvelli fyrrnefndra laga.

Dreifiveitur raforku í landinu, þ.e. Rarik, Orkubú Vestfjarða, Orkuveita Reykjavíkur, HS Veitur, Norðurorka og Rafveita Reyðarfjarðar, verða hinir gjaldskyldu aðilar samkvæmt frumvarpinu. Gjaldið er lagt á þá raforku sem fer um dreifikerfi þessara veitna, samtals um 3.400 GWst. Lagt er til að jöfnunargjaldið verði 30 aurar á hverja kWst en 10 aurar á ótrygga orku. Tekjur af gjaldinu eru áætlaðar um 915 millj. kr. á ári og munu tekjurnar renna í ríkissjóð og verða varið í jöfnun dreifikostnaðar raforku í samræmi við lög nr. 98/2004.

Lagt er til að jöfnunargjaldið verði tekið upp í jöfnum áföngum á þremur árum til að unnt verði að aðlaga gjaldskrár dreifiveitnanna. Á næsta ári er því gert ráð fyrir að tekjurnar verði þriðjungur af þessu, þ.e. um 305 millj. kr. Þessar nýju tekjur koma því til viðbótar við 240 millj. kr. framlag fjárlagaliðarins, en gert er ráð fyrir að þegar gjaldtakan verði að fullu komin fram á árinu 2016 muni það framlag falla niður. Hafa ber í huga að með aukinni raforkunotkun munu tekjur af jöfnunargjaldinu hækka.

Í frumvarpinu er kveðið á um að innheimta jöfnunargjaldsins verði með sama hætti og kveðið er á um í raforkulögum, nr. 65/2003, varðandi raforkueftirlitsgjald dreifiveitna. Samkvæmt frumvarpinu er því innheimta hins nýja jöfnunargjalds einföld og skilvirk og kallar ekki á aukinn kostnað.

Fyrir liggja útreikningar frá Orkustofnun um mat á áhrifum jöfnunargjaldsins á raforkunotendur. Frumvarpið hefur áhrif bæði á almenna raforkunotkun sem og rafhitun húsnæðis á köldum svæðum. Fyrst að því er almenna raforkunotkun varðar er áætlað að verði frumvarpið að lögum muni lækkun í dreifbýli verða á bilinu 7,6–8,1% sem nemur 720–790 kr. á mánuði. Að sama skapi er áætlað að hækkun í þéttbýli vegna almennrar notkunar verði á bilinu 0,5–2,5%, að meðaltali um 120 kr. á mánuði.

Upptaka jöfnunargjaldsins hefur sem áður segir einnig áhrif á þá notendur sem hita hús sín með rafmagni og njóta niðurgreiðslna á grundvelli laga nr. 78/2002, um niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar. Það er mat Orkustofnunar að jöfnunargjaldið muni leiða til þess að þörf á niðurgreiðslum til húshitunar í dreifbýli minnki. Það gefur svigrúm til hækkunar á niðurgreiðslum sem vegur á móti hækkun hjá íbúum í þéttbýli með rafhitun. Niðurstaðan er því sú að ekki verður um hækkun að ræða vegna rafhitunar húsnæðis í þéttbýli, lækkun á rafhitun húsnæðis í dreifbýli verður hins vegar á bilinu 9–9,5% sem nemur lækkun á raforkukostnaði upp á 21.000 kr. á ári.

Heildaráhrifin eru talsverð. Ef horft er á alla orkunotkun, bæði almenna raforkunotkun og rafhitun húsnæðis, hefur frumvarpið í för með sér um 8,8% lækkun á raforkukostnaði í dreifbýli og um 1% hækkun í þéttbýli.

Varðandi köldu svæðin vil ég árétta að ekki verður um hækkun að ræða vegna húshitunar í þéttbýli, en hins vegar um verulega lækkun í dreifbýli. Þetta samspil niðurgreiðslna dreifikostnaðar raforku og húshitunar er nokkuð flókið. Útreikningar Orkustofnunar um áhrif á einstaka notendur liggja, sem áður segir, fyrir og tel ég rétt og beini því til hv. atvinnuveganefndar að vel verði farið í gegnum þá sem og aðra þætti málsins í meðförum nefndarinnar.

Virðulegur forseti. Með frumvarpi þessu er sem sagt verið að taka ákveðin skref í þá átt að stuðla að jöfnun raforkukostnaðar og húshitunarkostnaðar í hinum dreifðu byggðum landsins. Með frumvarpinu er reynt að tryggja að til staðar verði fjármunir á fjárlögum sem gangi óskertir í að fjármagna lög nr. 98/2004 og tryggja að munur á dreifikostnaði raforku í þéttbýli og dreifbýli sé jafnaður. Er það markmið í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 22. maí í fyrra þar sem fram kemur að unnið verði að jöfnun raforku- og húshitunarkostnaðar.

Frumvarp þetta var unnið í samráði við Orkustofnun og Samorku og voru orkufyrirtæki landsins upplýst um málið á meðan á smíði frumvarpsins stóð sem og um markmið þess. Ég verð því að koma inn á að það voru mér nokkur vonbrigði að nánast allar dreifiveitur raforku tilkynntu um gjaldskrárhækkanir vegna dreifingar raforku undir lok síðasta árs þrátt fyrir að búið væri að boða frumvarp í þá veru sem lagt er hér fram og tryggir aukna fjármuni í niðurgreiðslur vegna raforkukostnaðar í dreifbýli og dregur þannig verulega úr áðurnefndri hækkunarþörf í dreifbýli.

Með vísan til nýlegra kjarasamninga er að mínu viti afar brýnt að dreifiveitur raforku sem og hitaveitur og flutningsfyrirtækið Landsnet gæti ýtrasta aðhalds við gjaldskrárbreytingar sínar. Til að stuðla að því hef ég þegar skrifað dreifiveitum raforku, Landsneti og hitaveitum bréf og hvatt orkufyrirtækin til varkárni við gjaldskrárbreytingar og jafnframt að þau fyrirtæki sem nýverið hafa samþykkt gjaldskrárhækkanir taki þær ákvarðanir til endurskoðunar.

Virðulegi forseti. Ég lít svo á að með frumvarpi þessu séum við að stíga ákveðin skref í átt að auknum jöfnuði landsbyggðar og þéttbýlis og að dreifbýlið hafi jöfn tækifæri og þéttbýli til atvinnuuppbyggingar og vaxtar. Ég tel því brýnt að frumvarp þetta fái góðan framgang í þinginu og tel að um það ætti að vera unnt að ná þverpólitískri sátt.

Ég legg því til, virðulegur forseti, að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. atvinnuveganefndar og 2. umr.



[15:08]
Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa hér langt mál. Ég óska hæstv. ráðherra til hamingju með frumvarpið. Það er gríðarlega mikið hagsmunamál að við förum að koma á jöfnunarsjóði þegar kemur að dreifingu raforku vítt og breitt um landið. Líkt og hæstv. ráðherra kom inn á er þetta stefna beggja stjórnarflokkanna, samþykkt á landsþingum flokkanna, og hluti af samþykktri stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að ráðast í uppbyggingu á slíkum jöfnunarsjóði.

Ég vil þó inna hæstv. ráðherra örstutt eftir því hvort það hafi komið til skoðunar við vinnslu frumvarpsins að sú upphæð sem áætlað er að innheimta með þessum jöfnunarsjóði taki sjálfkrafa breytingum líkt og gerist með flutningsjöfnunarsjóð olíuvara þannig að ef dreifikostnaður lækkar eða hækkar breytist gjaldið sjálfkrafa.



[15:10]
iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og fyrir góðar viðtökur í málinu. Varðandi spurningu hv. þingmanns þá veit ég ekki til þess að þetta hafi verið skoðað við smíði frumvarpsins. Ég hvatti hv. atvinnuveganefnd áðan til að fara vel yfir frumvarpið og það sem lagt er til grundvallar og beini því um leið til nefndarinnar að skoða hvort hyggilegt væri að taka þetta upp í þessu samhengi.



[15:10]
Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir þessar tillögur um jöfnun raforkukostnaðar og ekki hvað síst það sem ætti að verða næsta skrefið sem varðar húshitun. Starfshópur sem hafði starfað á vegum fyrrverandi ríkisstjórnar skilaði tillögum nú í desember og ein af tillögum hans gekk út á að ná ætti fullum jöfnuði í raforkukostnaði í dreifbýli og þéttbýli.

En mig langar aðeins að spyrja hæstv. ráðherra um fjármögnunina. Þar var tillaga um að jöfnunargjald yrði lagt á hverja framleidda kWst, sem hefði þýtt að stóriðjan og öll orkufyrirtækin hefðu greitt til jafns við heimilin, en nú er tillagan orðin sú að einungis verði tilfærsla milli heimilanna hvað varðar þessa niðurgreiðslu.

Þetta hefði þýtt að hægt hefði verið að ná fullum jöfnuði með 10 aurum á hverja kWst á heimilin, eða raunar á öll orkufyrirtæki, en hér er tillagan um að (Forseti hringir.) það verði 30 aurar af því að orkufyrirtækin eru undanskilin. Mig langar að inna hæstv. ráðherra eftir því hvers vegna þessi breyting var gerð.



[15:12]
iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og ég kom inn á í ræðu minni var ákveðið að leggja þetta gjald á þá raforku sem fer um dreifiveiturnar. Stóriðjan er með annars konar fyrirkomulag, notar ekki dreifiveiturnar. Það var þess vegna sem ákveðið var að jafna þetta innan þess kerfis þannig að notendur dreifiveitnanna beri kostnaðinn af þessu gjaldi.



[15:12]
Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta svarar í sjálfu sér ekki spurningunni vegna þess að þarna var starfshópur sem skilaði ákveðinni tillögu. Af hverju var ekki farið eftir þeirri tillögu? Jú, sagt er að það sé vegna þess að þeir noti dreifiveiturnar með öðrum hætti. En við erum í raun að tala um nýtingu á raforku, framleiddum einingum, og hvernig megi nota það til að jafna kjör í landinu. Þarna velur hæstv. ráðherra og ríkisstjórnin að færa eingöngu til innan hópsins, sem sagt heimilanna, og í sjálfu sér er það því íþyngjandi fyrir ákveðna aðila en hefði getað orðið miklu léttara ef menn hefðu farið hina leiðina sem viðkomandi hópur kom með.

Mig langar líka aðeins að inna hæstv. ráðherra eftir því — af því að einungis er tekið á dreifihlutanum, ef ég skil þetta rétt — hvort köldu svæðin sem eru í þéttbýli fái hækkun sem nemur 30 aurum í kWst inn í húshitunina, þ.e. 10 aura í byrjun og allt upp í 30 aura, þó að þeir fái svo lækkun á móti.

Fram kom í orðum hæstv. ráðherra að þarna væri ekki um að (Forseti hringir.) ræða lækkun hjá þessum aðilum. Þarna er stærsti kostnaðurinn í sambandi við raforkunotkun úti á landsbyggðinni (Forseti hringir.) og mig langar að heyra skoðun ráðherra á þessu.



[15:14]
iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og fram kom í máli mínu hefur frumvarpið jákvæð áhrif á þá sem eru í dreifbýli á köldum svæðum og þurfa að rafhita hús sín. Samkvæmt útreikningum Orkustofnunar hefur jöfnunargjaldið þau áhrif að kostnaður vegna rafhitunar í dreifbýli lækkar um 9–9,5%, eða um 21.000 kr. á ári eins og ég kom inn á.

Að sama skapi hefur frumvarpið ekki áhrif til hækkunar á raforkukostnaði þeirra sem notast við rafhitun og búa í þéttbýli, t.d. á Snæfellsnesinu þar sem hv. þingmaður þekkir vel til. Þeir koma út á sléttu hvað varðar húshitunina. Ástæða þess er sú að frumvarpið hefur í för með sér að þar sem raforkukostnaður í dreifbýli lækkar lækkar að sama skapi þörfin fyrir niðurgreiðslur til húshitunar. Það gefur svigrúm til að nota þá fjármuni til að vega á móti og jafna út hækkunina á raforkukostnaði í þéttbýli vegna húshitunar.

Vegna fyrri spurningarinnar ítreka ég það svar sem ég gaf áðan, að markmiðið með þessu er að jafna innan kerfisins, þess vegna var stóriðjan ekki tekin inn í þetta.



[15:15]
Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta mál er svo sem ekki nýtt af nálinni eins og hér hefur komið fram. Ég vil ítreka spurningu hv. þm. Guðbjarts Hannessonar. Nefndin sem hann vísar í var þverpólitísk og lögð var mikil vinna í að fá sem flesta að þeirri vinnu til að ná sátt um það með hvaða hætti við gætum tryggt jöfnun hvað varðaði raforkukostnað um land allt. Niðurstaðan varð sú að allir raforkukaupendur ættu að leggja í þennan jöfnunarpott. Hér er hæstv. ráðherra að þrengja þetta og færa þetta frá stórum efnahagslega stöndugum einingum í landinu og setja þetta á litlu fyrirtækin og heimilin.

Það er svolítið í anda ríkisstjórnarinnar sem hefur verið að leggja auknar álögur á þessa aðila. Ég vil spyrja: Hver eru rökin fyrir því að fara frá þverpólitísku sáttinni yfir í þessa nýju leið? Hér hefur verið haft afar þröngt samráð, samanber bls. 3 í frumvarpinu um það við hverja haft var samráð í þessu máli.



[15:16]
iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Áður en lengra er haldið ætti ég kannski að spyrja hv. þingmann hverjar skýringarnar eru á því að skýrslunni var skilað inn í ráðuneytið — ef mig misminnir ekki sat hún þar á þeim tíma, í desember 2011 — án þess að nokkuð væri gert með hana.

Ástæða þess að verið er að jafna innan kerfisins er sú að í þeirri skýrslu og í þeim tillögum sem starfshópurinn lagði til á þeim tíma var einnig verið að taka á húshituninni, niðurgreiðslu til húshitunar, og verið að leita fjármögnunar á öllu því kerfi. Við erum hér að lækka og jafna dreifingu raforku milli dreifbýlis og þéttbýlis. Þá var talið skynsamlegt og rétt, til að ná þeim markmiðum, að gera það innan kerfisins. Það er svarið við þeirri spurningu.



[15:18]
Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þá skil ég þetta svona: Farið er frá þverpólitísku samráði og þverpólitískri niðurstöðu, mjög víðtæku samráði, yfir í að taka ákvörðun byggða á samráði við Orkustofnun, Samorku og Hagstofu Íslands. Það er í raun breytingin hér og það er greinilega pólitísk ákvörðun að hlífa stærstu raforkukaupendunum og láta þá sem reka heimili og meðalstór fyrirtæki bera jöfnunarbyrðina. Það er pólitísk ákvörðun, það er þá ágætt að fá það hér fram.

Ég hefði viljað að menn fylgdu frekar hinu þverpólitíska samkomulagi sem náðst hafði. Ég minni líka á að hæstv. núverandi forseti Alþingis lagði fram tillögu á síðasta og þarsíðasta þingi um þetta mál sem hann byggði á nákvæmlega þeirri sátt.

Ég hefði því frekar viljað sjá að menn færu í þá átt. En gott og vel, hæstv. ráðherra lýsir því yfir að þetta sé hennar pólitíska niðurstaða. Þá er það þannig, í anda þeirrar pólitísku niðurstöðu sem þessi ríkisstjórn kemst gjarnan að, þ.e. breiðu bökin eru venjuleg heimili og lítil fyrirtæki hér á landi.



[15:19]
iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Með þessu frumvarpi er verið að taka pólitíska ákvörðun um að jafna kostnað við dreifingu rafmagns milli dreifbýlis og þéttbýlis. Í samræmi við málflutning hv. þingmanns var það væntanlega pólitísk ákvörðun síðustu ríkisstjórnar að gera ekki neitt í þessum málum; láta skýrsluna, láta allt samráðið (Gripið fram í.)fara með samráðið, fá skýrsluna, (Gripið fram í.)(Forseti hringir.) frú forseti, fá skýrsluna fram, fá allt samráðið og gera svo það sem sú ríkisstjórn gerði best af öllu, virða það að vettugi. Það er komin ríkisstjórn sem er með pólitíska áherslu og (Gripið fram í.)er með í stjórnarsáttmála að jafna kostnað við dreifingu raforku milli dreifbýlis og þéttbýlis og hér er komið frumvarp til að gera það.



[15:20]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Rétt til að byrja með vegna síðasta atriðisins þá voru auðvitað settir fjármunir í þetta af fyrri ríkisstjórn á fjárlögum síðasta árs.

Við erum öll sammála um markmið þessa máls, þangað sem útgjöldin eiga að fara í það að jafna kostnað fólks hér í landinu. Spurningin er hins vegar um fjármögnunina. Hér er ekki hægt að sjá annað en að hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra sé að koma inn með nýjan skatt, sé enn að flækja skattkerfið, meira að segja skatt sem á ekki að leggjast á alla, hann á bara að leggjast á suma. Ýmislegt getur bent til þess að hann sé líka til þess fallinn að draga úr hvata til hagræðingar og til þess að leita nýrra orkuöflunarkosta.

Ég hlýt að spyrja hæstv. ráðherra Ragnheiði Elínu Árnadóttur hvort þetta sé ekki í algerri andstöðu við það sem hún hefur nýverið boðað almenningi í nýafstöðnum þingkosningum þar sem ég hélt að málflutningurinn væri um að einfalda skattkerfið, hafa færri tekjupósta og stærri til þess að kosta okkar sameiginlegu (Forseti hringir.)



[15:21]
iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er kannski gagnrýnin sem ég á miklu erfiðara með að svara, hv. þingmaður, svo ég sé alveg ærleg. Þetta er jöfnunargjald sem samkvæmt frumvarpinu er skilgreint sem skattur, enda rennur það í ríkissjóð. Hins vegar er gætt að því að fyrirkomulag þessarar skattlagningar verði mjög einfalt en jafnframt skilvirkt og byggir á innheimtukerfi sem þegar er til staðar þannig að ekki er verið að flækja skattkerfið að því leyti.

Þetta eru að meðaltali 120 kr., eins og ég sagði í máli mínu, á hvern notanda í þéttbýlinu á móti 8% og 9% lækkun í dreifbýlinu. Ég lít svo á, og það er ástæða þess að ég legg þetta frumvarp fram, að hér sé um innviði að ræða. Þetta er nákvæmlega eins og kostnaðurinn við vegakerfið, við fjarskiptakerfið, við uppbyggingu innviða, þetta er kostnaður sem við þurfum sem samfélag að taka þátt í að greiða. Þess vegna legg ég frumvarpið fram.



[15:22]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það var eins og mig grunaði, ekki er betur hægt að sjá en hæstv. ráðherra sé að leggja fram frumvarp gegn því sem hún betur veit í skattamálum. Það yrði til að æra óstöðugan ef allir fagráðherrar ætluðu að koma hér inn með frumvörp og vísa til sinna eigin fagnefnda en ekki til efnahags- og viðskiptanefndar með sérstökum nýjum sköttum til þess að kosta þau verkefni sem þeir vilja gjarnan ráðast í. Þá stöndum við einfaldlega uppi með fjöldann allan af nýjum sköttum í landinu og sífellda flækingu skattkerfisins. Það er hins vegar þannig að allir borga auðlindagjald á kílóvattstund, líka stóriðjan, nú þegar. Það er til dæmis hægt að auka tekjuöflun, hefði ég haldið, af þeim skatti og verja til þessa góða verkefnis þannig að heimilin og fyrirtækin í landinu, almennu fyrirtækin, greiði mun minna en hér er gert ráð fyrir, stóriðjan taki sinn skerf og að við flækjum ekki skattkerfið. Ég hefði talið ákjósanlegt, virðulegur forseti, og rétt að (Forseti hringir.) þessu frumvarpi væri vísað til efnahags- og viðskiptanefndar sem á að hafa heildarsýn yfir tekjuöflun ríkisins og fjalla um öll skattamál hér í þinginu. Ég spyr hæstv. ráðherra hvers vegna hún leggi það ekki til.



[15:24]
iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að leiðrétta hv. þingmann. Ég er ekki að leggja hér fram þingmál gegn betri vitund þannig að það komi algjörlega skýrt fram.

Við erum að jafna kostnað á milli dreifbýlis og þéttbýlis með þeirri röksemd, eins og ég fór inn á hér áðan, að þetta eru innviðir í samfélaginu og við tökum þátt í því í sameiningu. Til þess að gera þetta sem einfaldast úr garði var notast við kerfi sem er fyrir. Orkustofnun annast innheimtu gjaldsins. Gjaldtakan er gegnsæ og einföld og eingöngu til þess fallin að jafna þann mun sem er á dreifingarkostnaði raforku í dreifbýli og í þéttbýli. Gert er ráð fyrir því að gjaldið komi fram á raforkureikningum landsmanna þannig að þeir sjái þetta svart á hvítu. Við skoðuðum aðrar leiðir að sama markmiði, meðal annars að taka þessa fjármuni sem upp á vantar af almennu skattfé, en þessi leið, eftir að hafa farið í gegnum þetta allt saman, var talin vænlegust til að ná þessum markmiðum.



[15:25]
Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér á fyrsta degi þingsins á nýbyrjuðu ári frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 98/2004, um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku, með síðari breytingum, sem hefur verið kallað jöfnunargjaldsfrumvarp.

Til að gera langa sögu stutta og fara yfir byrjunina og tilurðina var því lofað árið 2003 þegar Evróputilskipun um raforku var tekin inn í íslensk lög í tíð framsóknarmanna í iðnaðarráðuneytinu með Valgerði Sverrisdóttur í broddi fylkingar, ég sat þá í hv. iðnaðarnefnd, að setja inn pening sem mundi duga til niðurgreiðslu til þess að jafna húshitunar- og raforkukostnað í dreifbýli á móti þéttbýli. Í það voru settar 240 milljónir með loforði um að það mundi aukast. Við það hefur aldrei verið staðið. Aldrei. Það var ekki gert á þeim árum sem komu þar á eftir í tíð þeirrar ríkisstjórnar og það var ekki gert í þeim ríkisstjórnum sem tóku við eftir það, nema fyrir árið 2013 en þá var í fyrsta skipti stigið skref til að auka niðurgreiðslu á húshitunarkostnaði, ef ég man rétt um 150 millj. kr. af fjárlögum síðasta árs. Það var jafnframt tekið fram af þáverandi stjórnarmeirihluta að það væri fyrsta skrefið af þremur til að fara í þessa jöfnun. Það var í fyrsta skipti, virðulegi forseti, árið 2013 sem þetta var gert. Höfum það í huga.

Ég bið hæstv. ráðherra og aðra að halda sig til hlés meðan þessi ræða er flutt. Það er venja hér á Alþingi að sá sem er í þessum stól hafi orðið en ekki aðrir. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Tilurð þessa frumvarps má rekja til fundar ríkisstjórnarinnar síðustu sem haldin var á Ísafirði 5. apríl 2011 þar sem samþykkt var að unnið yrði að því með samtökum sveitarfélaga á köldum svæðum að leita leiða til að lækka og jafna húshitunarkostnað. Í kjölfar þess var skipaður starfshópur sem fékk það hlutverk sem ég gat hér um og er frekar kveðið á um í skipunarbréfi.

Þetta var hópur sem vann góða vinnu og skilaði tillögu til þáverandi iðnaðarráðherra. Ég get ekki séð að hópurinn hafi endilega verið pólitískur, og þó var hann töluvert pólitískur, og komu fulltrúar þar inn. Þeir skiluðu tillögum sínum í þrennu lagi, gerðu þrjár tillögur. Ein af þeim tillögum var að leggja 10 aura gjald á hverja selda kílóvattstund á Íslandi til þess að leggja í þennan jöfnunarsjóðspott sem ég ætla að fagna, þeirri ákvörðun fyrrverandi ríkisstjórnar, tillögum starfshópsins og því frumvarpi sem hér kemur fram þótt ég hafi ákveðnar athugasemdir við frumvarpið eins og það liggur fyrir nú, þ.e. hvernig á að fjármagna þennan jöfnunarsjóð. Við það gerir ég athugasemdir, eins og nokkrir hv. þingmenn, flokksbræður mínir tveir hafa gert í stuttum andsvörum.

Virðulegi forseti. Ég tók eftir því að hæstv. iðnaðarráðherra reyndi að svara af hverju ekki voru lagðir 10 aurar á alla notendur, eða 17 teravattstundirnar sem framleiddar eru á Íslandi, þar með talið stóriðjuna sem ég tel að sé hægt vegna þess að það er almenn aðgerð. Ég tók eftir því að hæstv. iðnaðarráðherra reyndi að útskýra af hverju það var ekki gert, en einungis á að leggja á almenna notendur og þá er gjaldið komið upp í 30 aura.

Virðulegi forseti. Það er allt satt og rétt sem kemur fram í greinargerð með frumvarpinu um lækkun hjá þeim sem búa í dreifbýli, sem er mjög gott, og hækkun hjá þeim sem búa í þéttbýli og eiga að fjármagna hana. En stóriðjan með sín 80% af framleiddri raforku á Íslandi á að sleppa. Ég er ósáttur við það.

Það var hæstv. iðnaðarráðherra líka ósátt við. Hæstv. núverandi iðnaðarráðherra, Ragnheiður E. Árnadóttir, vildi fara þá leið sem starfshópurinn lagði fram. Það kom fram í frumvarpi sem núverandi hæstv. forseti Alþingis, Einar K. Guðfinnsson, var fyrsti flutningsmaður að. Ég var á þeirri tillögu ásamt fleiri jafnaðarmönnum og þarna sé ég framsóknarmenn og vinstri græna o.s.frv. En hver skyldi hafa verið einn af sex flutningsmönnum sjálfstæðismanna, á því frumvarpi? (Gripið fram í.)Jú, hæstv. iðnaðarráðherra, Ragnheiður E. Árnadóttir, sem vildi fara þá leið sem ég tel miklu heillavænlegri, að leggja þetta á alla kaupendur að raforku á Íslandi, þ.e. að fara 10 aura leiðina á hverja kílóvattstund.

Einhverra hluta vegna gat, að mínu mati, hæstv. ráðherra ekki útskýrt það í stuttum andsvörum áðan hvers vegna við ætlum að sleppa stóriðjunni.

Ég hefði talið það farsælli leið að leggja þetta á alla kaupendur að raforku á Íslandi til að ná sem breiðastri sátt um jöfnunaraðgerðina sem er í takt við aðrar jöfnunaraðgerðir sem við erum með, sama hvort það er í fjarskiptakerfinu eða gagnvart jöfnunarsjóði olíuvara, eins og getið er um hér. Við getum tekið upp svona jöfnunaraðgerðir á fleiri sviðum.

Ég spyr hæstv. ráðherra og bið hana að svara því á eftir þegar þessari umræðu lýkur hver rök hennar eru fyrir því að sleppa stóriðjunni og þar með hækka um 20 aura á hverja kílóvattstund á þá kaupendur sem kaupa þær 5000 gígavattstundir sem hér er talað um að leggja á. 500 af þeim eru forgangsorka sem á bara að bera 10 aura, en hinar 2.885 kílóvattstundirnar eiga að bera 30 aura.

Virðulegi forseti. Mér finnst vera mikill munur, mjög mikill munur, á þeim frumvörpum sem hæstv. iðnaðarráðherra flytur núna sem iðnaðarráðherra og sem hún flutti sem óbreyttur þingmaður árið 2012 í framhaldi af því að hin pólitíska nefnd skilaði þessari tillögu.

Mér finnst þetta vera stóra spurningin og tek undir það með hæstv. ráðherra að ekki skal standa á því að á vegum okkar í atvinnuveganefnd verði farið vel í gegnum þetta frumvarp og ég mun meðal annars beita mér fyrir því að skoða verði hvers vegna stóriðjan á að sleppa.

Ég tel að það sé ekki sértæk aðgerð að leggja 10 aura á allar seldar kílóvattstundir í landinu. Ég tel að það sé almenn aðgerð og þar með erum við ekki að mismuna notendum, þ.e. stóriðju á móti einkaaðilum eða almenningi í landinu.

Grunnhugsunina tek ég algerlega undir og hún er mér að skapi, enda var þessari vinnu startað, eins og ég segi, í tíð síðustu ríkisstjórnar þó svo það hafi ekki tekist að ná nema fyrsta skrefinu, þeim 150 milljónum sem voru lagðar inn í þetta árið 2013, í fyrsta skipti frá árinu 2004. En þetta er það sem ég geri mestar athugasemdir við.

Í tíð síðustu ríkisstjórnar neyddumst við líka til þess, eins og varðandi svo mörg önnur atriði sem ég hef áður gert að umtalsefni. Það var ekki með neinni gleði sem menn studdu ýmsar hækkanir skatta, niðurskurð í heilbrigðismálum, öldrunarmálum o.s.frv., það var ill nauðsyn eftir að landið var nánast farið á hausinn á haustdögum 2008. Eitt af því sem við lögðum til var orkuskattur sem er um 12 aurar á selda kílóvattstund og áttu að gilda til 31. desember 2012. Við neyddumst hins vegar til vegna ástands í ríkisfjármálum að framlengja þann skatt um þrjú ár, ef ég man rétt, en það var alltaf hugsunin hjá okkur sem unnum að þeim málum í nefndum og annars staðar á vettvangi þingflokka að hluti af þeim orkuskatti mundi trappast niður og hluti af honum fara inn í niðurgreiðsluna, jöfnunarsjóðinn, eins og hér er verið að leggja til. Við vissum um þessa peninga. Þennan orkuskatt borga allir notendur. Hvers vegna skyldum við ekki geta lagt 10 aurana á alla notendur, ég tala nú ekki um ef hæstv. ríkisstjórn mundi kannski fara í þennan orkuskatt eins og hún er alltaf að hæla sér af og hæstv. forsætisráðherra kemur varla upp í ræðustól án þess að tala um að hann sé að betrumbæta allt sem gert var á síðasta kjörtímabili, taka af skatta og hækkanir o.s.frv?

Þess vegna spyr ég hæstv. iðnaðarráðherra: Er það stefna núverandi hæstvirtrar ríkisstjórnar að leggja af þennan orkuskatt? Ef svo er, hvenær mun það frumvarp koma fram? Ef við ætlum að trappa hann niður og miða við það sem ég sagði áðan sem var hugsun síðustu ríkisstjórnarflokka um að hann mundi smátt og smátt koma inn í niðurgreiðslurnar í samræmi við tillögur þessarar nefndar, er þar borð fyrir báru. Með öðrum orðum þurfum við ekki að hækka um 30 aura á alla almenna notendur raforku í landinu. Þetta er að mínu mati ekki flóknara en það.

Það er annað sem ég geri líka athugasemdir við og enginn má taka það þannig að ég sé að tala gegn þessari jöfnunaraðgerð. Ég skal vera síðasti maður til þess, ég hef oft talað um þetta ásamt með jöfnun flutningskostnaðar, sem líka var komið á í tíð síðustu ríkisstjórnar undir handleiðslu þáverandi viðskiptaráðherra, hv. þm. Árna Páls Árnasonar.

Hér er nefnilega smeygt inn einum þætti þar sem hæstv. ríkisstjórn ætlar að spara sér 240 milljónir í útlögðum kostnaði ríkissjóðs, þ.e. þær 240 milljónir sem lagðar eru árlega inn í niðurgreiðslujöfnunarsjóðinn, vegna þess að þessi skattheimta upp á 30 aura á að gefa það mikið að það fjármagnar algjörlega jöfnunarsjóðinn. Þá eiga 240 milljónirnar á síðasta ári að leggjast niður og renna inn í ríkissjóð.

Það er ein spurning mín til hæstv. ráðherra hvers vegna hún fer þá leið að ákveða að þær 240 milljónir sem eru búnar að vera þarna inni í 11–12 ár og hafa verið endurnýjaðar af öllum ríkisstjórnum, og sennilega fulltrúum allra flokka nema nýjustu flokkanna, eigi að renna til baka. Það hefur verið stefnumörkun um að setja þessar 240 milljónir árlega inn. Þær eru inni. Það er reiknað með þeim í útgjöldum ríkissjóðs. Af hverju eiga þær allt í einu að renna til baka núna?

Mér virðist við fljótan hugarreikning að ef 240 milljónirnar væru inni og ef sú leið hæstv. iðnaðarráðherra verður ofan á að leggja þetta eingöngu á almenning í landinu en ekki stóriðjuna mætti sá skattur lækka niður í 21 aur, um tæpa 10 aura. Ég vænti þess að hæstv. ráðherra útskýri fyrir okkur af hverju þessar 240 milljónir eiga að detta út árið 2016, þetta framlag ríkissjóðs, þessi litla upphæð sem þó hefur verið öll þessi ár, hefur hangið inni þrátt fyrir erfiðleika og hefur ekki verið hróflað við og staðfest af fjórflokknum, við skulum bara nota það orð, sem hefur setið á Alþingi.

Virðulegi forseti. Ég fagna því skrefi sem hér er verið að fara, að við ætlum að jafna raforkukostnað hjá 10% landsmanna sem búa í dreifbýli og búa við hvað hæstan raforkukostnað. Þetta er jöfnunaraðgerð sem jafnaðarmaður eins og ég get ekki annað en tekið undir þótt ég hafi fyrirvara og spurningar. Ég mun líka fara með spurningar mínar inn í atvinnuveganefnd og kalla eftir útreikningum og frekari skoðunum hvað þetta varðar.

Með öðrum orðum fagna ég þessu frumvarpi. Ég fagna því að við ætlum að stíga þetta skref. Það skerðir lífskjör fólks, 10% landsmanna sem búa í dreifbýli, að búa við þann háa raforkukostnað sem þar er. Það skekkir lífskjör. Það veldur búseturöskun og hefur gert. Í frumvarpi sem ég hef gert hér að umtalsefni og var flutt og hefur verið flutt síðan skýrslan kom út eru tekin dæmi um upphitunarkostnað í dreifbýli og í þéttbýli. Þar sjá menn þetta og í raun og veru ætti ekki að þurfa annað en þá töflu til að sannfæra alla alþingismenn um að sanngjarnt er að jafna kostnaðinn. Hvernig við fjármögnum það eru hins vegar skiptar skoðanir um og gæti orðið að deiluefni milli flokka hvaða leið á að fara hvað það varðar.

Ég ítreka spurningu mína til hæstv. ráðherra um hvaða breyting hefur orðið á afstöðu hæstv. ráðherra frá því að hún var óbreyttur þingmaður og lagði áðurnefnt frumvarp fram (Forseti hringir.) til þess að vera nú iðnaðarráðherra og stjórna þessum málaflokki og leggja það frumvarp fram sem við erum að ræða.



[15:40]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það frumvarp sem hér er flutt af hæstv. ráðherra er tvímælalaust skref í rétta átt og er til bóta. Það er í sjálfu sér ástæða til að staldra við og fagna því að þverpólitísk samstaða virðist vera um jöfnuð í þessum efnum. Við eigum ekki alltaf því láni að fagna að pólitískar fylkingar þvert yfir litrófið geti staðið saman að því að jafna út aðstöðumun sem landsmenn búa við, en það virðist nú sem betur fer vera á dagskrá í þessu tilviki. Það er fagnaðarefni. Svo má að sjálfsögðu ræða um og eftir atvikum deila um hvaða leiðir eru bestar til þess og hvernig á að fjármagna þá jöfnun.

Hér hafa menn þegar rætt það að hugmyndir voru uppi um það, og skýrslur og tillögur gengu út á það, að jöfnunin færi fram í gegnum gjaldtöku af allri seldri raforku og að sjálfsögðu nægja þá lægri fjárhæðir til að ná fram sambærilegum markmiðum um jöfnun. Ég er auðvitað þeirrar skoðunar að það væri að mörgu leyti hin eðlilega nálgun í þessum efnum. Það væri „meiri jöfnun“ og ekki bara bundið við almenna notendur raforku. Það má líka velta fyrir sér hvaða hugmyndafræði liggur þar til grundvallar og kemur inn á orkuskattinn eða það gjald sem tekið var upp á síðasta kjörtímabili á alla selda raforku og selt heitt vatn miðað við sambærileg gjöld miðað við orkuígildi. Þessir frægu 12 aurar á kílóvattstund.

Hugsunin þar er sú að þjóðin njóti einhverrar sameiginlegrar rentu af þeim verðmætu auðlindum sem orkuauðlindirnar eru. Það er mjög nærtækt að ráðstafa einhverjum hluta þeirra tekna til að gera almenning í landinu — alla — sem jafnast setta gagnvart þessum gæðum. Þannig að mér hugnaðist að sjálfsögðu langbest sú nálgun að horfa á uppsprettu verðmætanna sem eru orkuauðlindirnar, að koma þar við einhverri skattlagningu eða gjaldtöku og ráðstafa því síðan með skilvirkum hætti til að gera landsmenn alla sem jafnsettasta.

Telji menn þá leið ekki færa, að ekki sé pólitískur vilji til þess, er hér getum við sagt plan B sem er að sjálfsögðu betra en núverandi ástand. Það er alveg á hreinu. Ég endurtek að ég fagna því að minni pólitískar deilur virðast vera uppi núna um að jafna aðstöðumun að þessu leyti en hefur kannski stundum verið áður.

Ég er svo gamall í hettunni að ég man ítrekað tilraunir, til dæmis tiltekinna stjórnmálaafla, til að fella niður jöfnun á olíudreifingu, að leggja af jöfnunarsjóð olíuvara. Við vorum að framlengja líftíma hans með lögum núna hér fyrir jólin. Við vorum líka að festa í sessi það fyrirkomulag sem komst á á síðasta kjörtímabili að jafna nokkuð flutningskostnað í landinu. Settum þau lög held ég þannig að nú gilda þau til 2020. Þá hefur frekar áunnist en hitt í þeim efnum að jafna að einhverju leyti aðstöðumun landsmanna hvað þetta varðar.

Þetta ætti að vera okkur minna viðfangsefni en var hér áður fyrr, m.a. vegna þess að þrátt fyrir allt hefur hitaveituvæðingu miðað nokkuð áfram í landinu. Það lækkar sífellt, sem betur fer, það hlutfall landsmanna sem ekki hefur aðgang að þeim gríðarlegu hlunnindum sem það eru að hita upp hús sín með ódýru vatni og er sjálfsagt komið niður í 8–9% af íbúðarhúsnæði í landinu með hitaveitu á Skagaströnd og nokkrum minni hitaveitum sem hafa komið til sögunnar á síðustu missirum, ég tala nú ekki um ef nokkuð stórt þéttbýlissvæði eins og Höfn í Hornafirði bættist við einhvern tímann á næstunni, ætti það enn síður að standa í mönnum að jafna aðstöðumun þess litla minni hluta landsmanna sem ekki nýtur þeirra gríðarlegu hlunninda sem aðgangur að hitaveitu er.

Að sjálfsögðu er raforkukostnaðurin, orkukostnaðurinn, einnig mikilvægur þegar kemur að samkeppnisstöðu almenns atvinnulífs, iðnaðar o.s.frv., bæði hvað varðar verð og ekki kannski síður gæði og að eiga kost á frífösun rafmagns og flutningsgetu og flutningsöryggi sem fullnægi þörfum. En það vantar því miður talsvert upp á það. Við erum ekki að gera okkur allt það mat úr þessari auðlind, við Íslendingar, sem við gætum ef við tækjum á tilteknum flöskuhálsum sem enn standa okkur fyrir þrifum eins og til dæmis að ekki skuli vera hægt að rafvæða nokkrar af fiskimjölsverksmiðjunum í landinu vegna þess að flutningskerfið býður ekki upp á afhendingu á þeirri orku. Það er auðvitað alger synd og algjör sorg. Á því þarf að taka.

Ástandið í þessum efnum eins og það var hér áður — bara rétt til að rifja það upp — var nokkuð sérkennilegt satt best að segja. Það var þannig að í reynd niðurgreiddu notendur á veitusvæðum Rariks í þéttbýli flutningskostnaðinn í strjálbýlinu. Þetta var kannski ekki eins mikið tiltökumál á meðan stór og fjölmenn þéttbýlissvæði tilheyrðu því dreifikerfi, meðan til að mynda Suðurnes voru enn á veitusvæði Rafmagnsveitna ríkisins. Þegar þau urðu að sjálfstæðu veitusvæði og fleiri þéttbýlisstaðir heltust úr lestinni var um nokkurt árabil ástandið þannig að það voru tilteknir minni þéttbýlisstaðir á landsbyggðinni sem lentu þó á dreifuveitusvæði Rariks, þetta er fyrir tíma þéttbýlis- og dreifbýlisgjaldskráa, sem í reynd niðurgreiddu flutningskostnaðinn í hinu eiginlega strjálbýli. Höfuðborgarsvæðið, Suðurnes, Akureyri, Húsavík og nokkrir fleiri þéttbýlisstaðir voru komnir með sínar eigin veitur eða voru í öðrum veitum, þá sat eftir dreifisvæði Rariks og það var í reynd þannig að þéttbýli þar borgaði niður flutningskostnaðinn út á dreifbýlissvæði áður en gjaldskránni var skipt upp. Ekki mjög sanngjarnt fyrirkomulag það, enda kveinuðu menn og kvörtuðu mjög. Ég man eftir miklum umkvörtunum, t.d. á Dalvík og víða, þar sem Rarik kom við sögu, annaðhvort beint sem dreifiaðili eða sem milliliður í dreifingu.

Þannig að þetta er tvímælalaust til bóta. Hér er þá verið að setja upp það fyrirkomulag að almennir notendur taki sameiginlega á sig byrðarnar af þessari jöfnun.

Ég held engu að síður að nauðsynlegt sé að fá einhverja vitneskju um það, ef ekki hér við umræðuna þá áður en Alþingi lýkur umfjöllun um þetta mál, m.a. í ljósi sögunnar. Ég heyri nú að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson er að stinga orði að hæstv. ráðherra sem flutti hér gagnmerkt frumvarp eins og vitnað hefur verið til um að fara aðra leið, að láta alla kaupendur raforku taka þetta á sig sameiginlega áður en niðurstaða fæst um hvað eigi að gera með orkugjaldið.

Nú hefur núverandi ríkisstjórn ekki hróflað við þeirri framlengingu sem ákveðin var hér á árinu 2012, að það skyldi framlengt um einhver ár í viðbót. Hv. þm. Kristján L. Möller hefur rifjað það upp alveg réttilega að menn sáu það alltaf fyrir sér að þar væri kominn til sögunnar tekjustofn sem gæti að hluta breyst í tekjustofn fyrir jöfnun innan kerfisins þegar ríkissjóður væri orðinn betur aflögufær um að missa einhverjar tekjur út úr þeim tekjupósti. Á meðan ákvað fyrri ríkisstjórn á árinu 2012 að auka í áföngum framlög til niðurgreiðslu á húshitunarkostnaði. Fyrsta skrefið í þeim efnum var, eins og kunnugt er, tekið í fjárlögum ársins 2013 þegar þær greiðslur voru hækkaðar um 175 milljónir, eins og dæmið stóð á því ári hefði þurft þrjá slíka áfanga til að ná nokkurn veginn aftur markmiðunum um jöfnun varðandi húshitunarkostnaðinn með raforkukyndingu sem slíkan. En dreifingarkostnaðurinn skiptir hér miklu máli. Það er að sjálfsögðu til mikilla bóta að taka á honum líka og jafnframt, því það er almenn ráðstöfun sem tekur til allrar raforkunotkunar, ekki bara til húshitunar.

Varðandi frumvarpið hefði ég viljað í allri vinsemd benda á að mér fyndist að greinargerð frumvarpsins hefði mátt vera ítarlegri og gera betur grein fyrir forsögu málsins í heild sinni og þar á meðal þeim skýrslum og þeim tillögum sem áður höfðu komið fram, jafnvel þó að hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórn hafi ákveðið að fara að einhverju leyti aðra leið í þessum efnum.

Eins er það athyglisvert að sjá það hér listað að samráðinu við gerð frumvarpsins hafi verið þannig háttað að það hafi verið við Orkustofnun, við Samorku og Hagstofu Íslands. Punktur. Ég hefði nú haldið að það væru nú ýmsir fleiri sem eðlilegt hefði verið að hafa þarna til samráðs svo sem eins og fulltrúa notendanna og á ég þá til dæmis við sveitarfélög og landshlutasamtök og eftir atvikum neytendasamtök og aðra slíka.

Herra forseti. Ég held að ég hafi komið þeim sjónarmiðum að sem ég vildi á þessu stigi málsins gera varðandi þetta mál. Þetta er að sjálfsögðu skref í rétta átt og ber að fagna því að vilji er til þess að jafna aðstöðumun í þessum efnum og um það virðist ekki þurfa að deila pólitískt. En að sjálfsögðu má skoða bestu færar leiðir í þeim efnum. Ein leið gæti að sjálfsögðu verið sú að notast við þetta jöfnunargjald á almenna notendur raforku á meðan ríkissjóður teldi sig þurfa á orkuskattinum í heild sinni að halda, en færa svo fjáröflunina í áföngum yfir í það að framlengja tilvist þess tekjustofns þannig að allir notendur orku í landinu, bæði raforku og heits vatns, tækju sameiginlega á því að jafna þennan aðstöðumun á grundvelli þeirrar hugmyndafræði að í reynd væri þar um auðlindagjald eða auðlindarentu að ræða sem þjóðin tæki til sín með þessum hætti og endurráðstafaði svo að hluta til, eða þess vegna að öllu leyti, í það verkefni að jafna aðstöðumun landsmanna. Hann er gríðarlegur í þessum efnum.

Jafnvel þó kostnaður sé að verulegu leyti eða öllu leyti jafnaður gleymast oft þau miklu hlunnindi önnur sem því eru samfara t.d. að búa á svæðum sem hafa aðgang að hitaveitu varðandi svo marga aðra hluti sem ekki eru þó alltaf teknir með í reikninginn. Við getum tekið sem dæmi frístundabyggðir og það að hafa aðgang að heitu vatni í þeim, möguleika til iðnaðaruppbyggingar og iðnaðarþróunar og ótal margt annað sem menn fá ekki búandi á köldum svæðum þó svo kannski kyndingarkostnaður þeirra eða raforkukostnaður verði í auknum mæli jafnaður. Það er alveg nóg að búa í sjálfu sér við þann aðstöðumun fyrir hin köldu svæði að eiga ekki alla þá möguleika sem tengjast aðgangi að heitu vatni þó svo að ekki sé um verulegan kostnaðarmun að ræða líka.



[15:53]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er áhugavert að fylgjast með þessari umræðu. Hingað koma hv. þingmenn og keppast við að eigna sér málið. Það verður líka að teljast nokkur frétt í það minnsta að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon tók af allan vafa um orkuskattinn sem átti að vera tímabundinn, að það stóð ekki til að hafa hann tímabundinn heldur átti að nota hann í þessa niðurgreiðslu. Ég skildi hv. þm. Kristján Möller þannig að hann ýjaði að hinu sama og það þykir mér nokkuð áhugavert.

Hér hafa menn líka sagt að þessar niðurgreiðslur hafi fyrst verið á fjárlögum 2013. Nú liggur alveg fyrir, klippt og skorið, hver afkoman var fyrir árið 2013, í það minnsta fyrstu 11 mánuðina, og öllum má vera ljóst að þau voru gúmmítékkafjárlög, fjárlög þar sem menn lofuðu fjármunum og gerðu ráð fyrir fjármunum sem engin innstæða var fyrir. Það þarf enginn að deila um það. Sú niðurstaða liggur nú fyrir, þ.e. fyrir fyrstu 11 mánuði ársins, og niðurstaða er komin í þær deilur sem voru um það mál á síðasta ári. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Mér sýnist ég vera ósammála öllum hv. þingmönnum sem hér hafa talað. Ég vara við því að við förum þessar leiðir. Hér eru menn að setja nýjan skatt til að auka niðurgreiðslur fyrir þá sem bera háan raforkukostnað á ákveðnum stöðum á landinu og það er gert í nafni jöfnunar. Ég hvet fólk til að hugsa aðeins þá hugsun til enda. Útgjöld heimila eru meira en bara það sem snýr að þessu og ef við ætlum að jafna allan kostnað á milli landsvæða er af mörgu að taka. Ég vek athygli á því að sem betur fer er á flestum þeim svæðum þar sem á að greiða niður raforkukostnað sérstaklega mun lægri kostnaður við að kaupa eða leigja sér húsnæði, svo að dæmi sé tekið. Ég tel ekki vilja fyrir því, hvað þá að það sé framkvæmanlegt að jafna þann kostnað. Það er markmið í sjálfu sér að lækka orkukostnað landsmanna allra og það er mikilvægt að við leitum allra leiða til að það sé gert en við munum aldrei ná, alveg sama hvað við reynum, að jafna allan kostnað á milli landshluta eða jafnvel milli hópa fólks í landinu. Oftar en ekki hafa þær leiðir sem við höfum farið til að svo megi verða ýtt undir ákveðið ójafnræði.

Ég beini því sérstaklega til virðulegs forseta, vegna þess að allt sem gert er hefur fordæmisgildi, að athuga að hér er um að ræða skattamál og sömuleiðis ríkisútgjöld eins og kemur skýrt fram í frumvarpinu og athugasemdum við það. Það skiptir því máli að þær hv. þingnefndir sem fjalla um þau mál í þinginu fari yfir þetta mál.

Þegar fulltrúar Byggðastofnunar komu fyrir hv. fjárlaganefnd og ræddu þessi mál og önnur þá hafði ég áhuga á að sjá einhvern samanburð á milli einmitt kostnaðar við húsnæðiskaup, sömuleiðis leigukostnað og fasteignagjöld á milli landsvæða og spurðist því fyrir um það. Þær upplýsingar lágu ekki fyrir en mér var lofað ég fengi þær mjög hratt og vel en hef ekki fengið þær enn þá. Ég hef aflað mér einhverra upplýsinga hjá Þjóðskrá, sem er með stóran hluta af fasteignamati, og það verður að segjast eins og er að aðstöðumunur og munur fasteignaverðs á milli landshluta er mjög mikill. Munurinn er vart marktækur í prósentum en ef hann væri reiknaður þannig væri um að ræða þúsundir prósentna.

Ég efast ekki um afskaplega góðan ásetning eins og er svo oft hjá hv. þingmönnum og í þessu tilfelli hæstv. ríkisstjórn. Ég held að kerfi sem þetta muni frekar flækja hlutina en ná tilætluðum árangri, fyrir utan að við munum ekki að taka alla hluti fyrir varðandi jöfnun á aðstöðumun milli fólks. Þetta er bara einn þáttur þess máls. Það er svo sannarlega um að ræða margs konar útgjöld hjá venjulegum fjölskyldum á Íslandi.

Ég er hins vegar algjörlega meðvitaður um að í þessu máli er ég í miklum minni hluta í þinginu. Það er bara þannig. Það breytir ekki skoðun minni. Stundum er maður í minni hluta en það er mikilvægt, að mínu áliti, að fleiri sjónarmið komi fram í þessu máli.

Ef þetta frumvarp verður að lögum, sem ég tel góðan meiri hluta fyrir í þinginu, tel ég afskaplega mikilvægt að við vöndum til lagasetningarinnar og skoðum þessi mál vel. Ég nefndi hér að það skipti máli að við skoðuðum aðstöðumuninn á milli svæða. Ef maður les frumvarpið má skilja það þannig að fyrst og fremst sé um að ræða niðurgreiðslu til svæða í dreifbýli og miðað við sumar skilgreiningar þarf alla jafna svæði sem í umræðunni er talað um sem dreifbýli ekki að uppfylla þau skilyrði, jafnvel þótt um sé að ræða litla staði sem eru tengdir við dreifbýli. Ýmislegt bendir til þess við lestur frumvarpsins að fyrst og fremst sé um að ræða dreifbýli, þ.e. sveitir, en lítil kauptún og þorp muni ekki heyra undir niðurgreiðslu samkvæmt lögunum. Eftir eftirgrennslan og eftir að hafa skoðað frumvarpið veit ég ekki hvort það sé rétt. Ég efast ekki um að það verði skoðað vel í meðförum nefndarinnar eins og hæstv. ráðherra vísaði sérstaklega til og hvatti til þess að vel yrði farið yfir málið og tek ég undir með hæstv. ráðherra hvað það varðar. En ef málið fer fram í anda laganna er um að ræða sérstakan skatt á þá íbúa landsins sem bera lægri raforkukostnað og er þá væntanlega fyrst og fremst um að ræða höfuðborgarsvæðið og Reykjanes. Hins vegar verður sá skattur nýttur til niðurgreiðslu til hinna dreifðu byggða. Það væri skynsamlegt að skoða sérstaklega hvaða svæði mundu heyra þar undir.

Virðulegi forseti. Ég vildi bara vekja athygli á þessum sjónarmiðum í umræðunni og segja mína skoðun. Þrátt fyrir að það sé mjög mikilvægt og ég taki undir það markmið að lækka orkukostnað allra landsmanna þá held ég að slíkar leiðir verði oftar en ekki til þess að draga úr nýsköpun og hvata til leiða til að lækka orkukostnað hjá hinum dreifðu byggðum. Því miður getum við ekki náð að jafna aðstöðumun milli svæða þótt við ætlum okkur það og þótt við leggjum okkur öll fram munum við ekki geta það. Það sem ég veit að er mjög aðkallandi núna, ef við erum að tala um aðstöðumun og slæma aðstöðu fólks, og vek athygli á að er eitt brýnasta vandamálið, er ástandið á leigumarkaði á höfuðborgarsvæðinu. Ég veit að þar er ástandið mjög alvarlegt (Gripið fram í.) og held að þótt við séum öll sammála um að gera eitthvað til að bæta hag þeirra sem eru núna á leigumarkaði eða eru að leita sér að leiguhúsnæði felist lausnin ekki í því að setja gjöld eða skatta á aðra landsmenn sem búa við betri aðstæður annars staðar í landinu. Það held ég að sé ekki leiðin. Við getum leyst þann vanda en við gerum það örugglega ekki með því.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra, virðulegi forseti, en vil þó að lokum hvetja til þess að menn hugsi það vandlega hvaða hv. þingnefndir fjalla um þetta mál. Hér er bæði um að ræða skattamál og ríkisútgjaldamál. Það er mikilvægt að mínu áliti að þær hv. þingnefndir sem eiga að fjalla um slík mál fari yfir þetta mál.



[16:04]
Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 98/2004, um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku. Eins og fram hefur komið fyrr í umræðunni er ástæða til að fagna því að hér sé reynt að stíga frekari skref til að jafna stöðu þeirra sem búa í dreifbýli og þeirra sem búa í þéttbýli, þ.e. jafna þann mismun sem þar er víða á varðandi þjónustu.

Það er líka búið að fara ágætlega yfir söguna að hluta til en næst á undan mér í ræðustól var hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson og hafði miklar efasemdir um að jöfnun með þessum hætti ætti rétt á sér. Ég ætla að vona að hann hafi mælt rétt þegar hann sagði að hann væri væntanlega í litlum hópi ef ekki einn sem talar gegn þeirri viðleitni að jafna kostnað. Það eru mörg fordæmi um að jafna kostnað. Menn settu sérstök gjöld og eru með það við dreifingu á olíuvörum. Menn voru meira að segja með það á sementsflutningum á sínum tíma og á verði á sölu á sementi. Menn hafa farið í aðgerðir til þess að reyna að jafna stöðu dreifbýlis og þéttbýlis varðandi nettengingar og alla slíka þjónustu. Nú nýjast er að menn hafa verið að styrkja almenningssamgöngur til að reyna að tryggja möguleika þeirra sem búa í dreifbýli og dreifðum byggðum til að nýta sér almenningssamgöngur umfram það sem verið hefur. Það eru fordæmi fyrir því og það var náttúrlega gríðarlega mikið skref á sínum tíma, þegar menn jöfnuðu símkostnað og hættu að borga símkostnað eftir því hvar þeir bjuggu. Á móti kemur að aftur hefur komið upp mismunun hvað varðar nettengingar og kostnað við þær.

Talandi um hvort þetta borgar sig eða ekki er það líka þannig að menn hafa meira að segja gripið inn í í allri Evrópu þar sem menn hafa sett reglur til að hindra að einstakir milliliðir, eða þeir sem komast í yfirburðastöðu eða geta verslað sín á milli, geti lagt á kostnað eins og varðandi notkun á farsímum eða farsímaþjónustu í Evrópu. Þetta eru allt saman dæmi um þá viðleitni að jafna kostnað og búsetuskilyrði í landinu í heild.

Við sem búum utan Reykjavíkur, og ég tala ekki um þá sem búa enn þá lengra, getum auðvitað séð ótal kosti við að búa í dreifbýlinu. Auðvitað verður þetta aldrei jafnað að fullu en ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að hér sé stigið skref til að bæta búsetuskilyrðin hvað varðar raforkukostnað, hvort sem er til húshitunar eða almennrar starfsemi úti á landi eða reksturs heimilisins.

Í þessu frumvarpi hefur verið valin sú leið að setja jöfnunargjald vegna dreifingar á raforku, en eins og hér hefur líka verið rifjað upp voru gerð skil á milli hjá raforkufyrirtækjum. Annars vegar er um að ræða dreifingaraðila og hins vegar söluaðila og því miður tókst okkur ekki að ganga þannig frá því að dreifiaðilarnir væru þá að minnsta kosti þannig að það væri þá opinbert kerfi sem tryggt væri um allt land en á sama tíma væri þá samkeppnin í sambandi við þjónustuna og notkunina, þ.e. sölu í gegnum það kerfi. Þetta hafa sjálfsagt verið mikil mistök og ég tel það hafa verið á þeim tíma, en við búum við þessi lög í dag og það hefur verið augljóst, af því að menn hafa líka verið með þær reglur að ekki mætti færa til kostnað þá hafa menn þurft að borga há dreifingargjöld á ákveðnum svæðum langt umfram það sem eðlilegt er. Og það hefur gert búsetuskilyrðin mun verri en ella.

En þarna er aðeins verið að taka á þessum þætti. Það er svolítið fróðlegt að skoða það í samhengi við þá niðurstöðu sem varð í vinnu sem við vorum að ræða um hér fyrr í andsvörum, að í framhaldi af fundi fyrrverandi ríkisstjórnar á Ísafirði í apríl á árinu 2011 þar sem var einmitt verið að ræða við Vestfirðinga, sveitarfélögin á svæðinu og íbúa, um það hvað brynni helst á þessum aðilum, þá kom í það minnsta mjög skýrt fram að þetta er eitt af því sem brennur mjög á Vestfirðingum, þ.e. kostnaðurinn við raforku og húshitun en ekki síður líka raforkuöryggið, það að geta tryggt að þjónusta sé á viðkomandi svæðum. Síðan var auðvitað rætt líka um samgöngurnar sem skipta gríðarlega miklu máli og nettengingar og aðgang að háhraðaneti.

Í framhaldi af þessu var skipaður sérstakur starfshópur þar sem fjalla átti um breytingar á niðurgreiðslum til húshitunar og skoða hvernig lögin hefðu virkað frá því að þau voru sett árið 2004, hvernig hefði tekist að jafna þennan kostnað. Illu heilli hefur komið í ljós að sett var ákveðin upphæð í upphafi, um 240 milljónir ef ég man rétt, og síðan hefur sú tala nánast verið óbreytt þangað til á síðasta ári þegar bætt var í af fyrrverandi ríkisstjórn.

Þessi hópur gerði tillögur um þrjú atriði í meginatriðum, fyrst og fremst þrjú atriði. Í fyrsta lagi var lagt til, svo að ég lesi bara upp úr skýrslunni, með leyfi hæstv. forseta:

„Í fyrsta lagi er lagt til að grundvallarbreyting verði gerð á niðurgreiðslukerfinu þannig að flutningur og dreifing á raforku til hitunar íbúðarhúsnæðis verði niðurgreidd að fullu. Kerfið verður þá sjálfvirkt þar sem öllum breytingum á verði á raforkudreifingu yrði mætt með sjálfvirkum hætti án þess að sérstök ákvörðun þurfi að liggja þar að baki.“

Þarna er sett háleitt markmið um að það verði jafnað fullkomlega þarna á milli. Ég fór til dæmis fram með það í síðustu kosningum og sagði: Þarna er komin tillaga um það með hvaða hætti er hægt að gera þetta. Förum nú fram öll saman, allir stjórnmálaflokkar, og fylgjum þessu eftir. Látum þetta rætast loksins, að það verði full jöfnun hvað varðar kostnað við flutning, dreifingu og sölu á rafmagni til húshitunar á þessum svæðum.

„Í öðru lagi er gerð tillaga að breyttri fjármögnun niðurgreiðslna. Tillaga hópsins er að jöfnunargjald verði sett á hverja framleidda kWst sem næmi þeim kostnaði sem nauðsynlegur er á hverjum tíma til að niðurgreiða að fullu flutning og dreifingu raforku til upphitunar íbúðarhúsnæðis.“

Þarna hafa menn verið að setja spurningarmerki við það af hverju horfið er frá þessari hugmynd. Það kemur fram í skýrslunni mjög skýrt vegna þess að stórnotendurnir eru með allt upp í 80% af notkuninni, að með því að leggja þetta á alla þurfi miklu lægri upphæðir til að ná þessum jöfnuði en ella. Er talað þar um 10 aura sem hefði dugað á hverja framleidda kílóvattstund, en það hefur síðan í þessu frumvarpi verið val hæstv. ráðherra að fara aðra leið og leggja þetta eingöngu á millifærslu innan notendahópsins, þ.e. heimila og minni fyrirtækja, sleppa stóru notendunum sem þrátt fyrir allt eru þá með 80% af framleiðslunni.

Ég vænti þess að þetta verði skoðað í hv. þingnefnd sem tekur frumvarpið til umræðu og meti hvort ekki er hægt að breyta þessu aftur í samræmi við tillögu þessa starfshóps sem skipaður var og var þverpólitískur.

Það er líka forvitnilegt þriðja atriðið sem hópurinn gerir tillögu um:

„… sem snúa að frekari jarðvarmaveituuppbyggingu og bættri orkunýtni, þar ber hæst að starfshópurinn leggur til að jöfnunargjald verði lagt á hitaveitur, svipað og á raforkuframleiðslu, sem geti ávallt tryggt viðgang og vöxt jarðvarmaveitna“.

Þar sem menn hafa verið að taka í notkun nýjar hitaveitur og hafa borgað stofnstyrkjaframlag til margra ára fram í tímann og þar með tryggt að þeir þurfi ekki að borga jöfnun á húshitun til lengri tíma, nú síðast á Skagaströnd, hafa menn lagt á það áherslu að það þarf að fjármagna þetta, tryggja að það sé til fjármagn til að standa við þessi styrkjaframlög. Starfshópurinn vekur athygli á þessu og bendir á það.

Ég held að það sé mikilvægt að við stöndum vörð um þá lausn því að áfram verður að berjast í því að reyna að nýta ódýrustu orkugjafana.

Það eru fleiri forvitnilegar tillögur í þessari vinnu. Þar er víða verið að tala um niðurgreiðslu líka á húshitunarkostnaði hvað varðar olíunotkunina og verið að mæta jöfnun á þeim kostnaði. Menn hafa vakið athygli á því að nú er hægt að hita hús með umhverfisvænna eldsneyti. Þeir hafa bent á grisjunarvið, kurl og jafnvel svokallaðar viðarpillur sem þýðir þá að menn geta gert þetta með öðrum hætti en að nota olíu og það kemur fram í niðurstöðu nefndarinnar að ástæða sé til að skoða hvort ekki er hægt að greiða niður slíkar hitaveitur eða húshitun til jafns við olíuna.

Ég fagna því mjög að menn skuli vera að stíga hér þessi skref og hvet núverandi ríkisstjórn og heiti stuðningi við það að við göngum áfram veginn til að ná þessum jöfnuði. Það verður auðvitað auðveldara ef við dreifum þessu á fleiri aðila en það er þá ekki stærsta málið. Málið er að við náum þeim markmiðum sem sett eru hér fram hvað þetta varðar.

Á sama tíma þurfum við að leggja áherslu á það að á öðrum sviðum — eins og ég sagði áður þegar við vorum að ræða samgöngumálin sem skipta gríðarlega miklu máli hvað varðar kostnað og líka möguleika á að reka starfsemi. Ég gleymdi að nefna hér áðan, þegar við vorum að ræða um jöfnun, að jöfnun flutningskostnaðar hefur líka komið inn og viðleitni fyrrverandi ríkisstjórnar til að fara út í að bjóða út strandsiglingar varð til þess að stóru fyrirtækin fóru að sigla á ströndina sem hefur breytt mjög samkeppnisstöðu ákveðinna fyrirtækja á landsbyggðinni til hins betra.

Ég treysti á að þetta mál verði unnið vel í nefndinni. Það var eitt sem vakti forvitni mína og hefði verið gaman að heyra betri umræðu um, þ.e. þegar menn fara þá leið sem hér er áætlað, að lagðir verði 30 aurar á alla raforkunotkun, síðan greiddur niður sá hluti sem snýr að dreifikerfunum, þá sýnist mér, og það hefði verið gaman að skoða — af því að hæstv. ráðherra nefndi Snæfellsnesið — hvernig þetta kemur út hjá þeim aðilum sem í raunveruleikanum fá hækkun á húshitunarkostnaði. Í heildina kemur mikil hækkun, það er svo mikil notkun varðandi húshitun, svo stór hluti af raforkunotkuninni er vegna húshitunar. Þar verður hækkun um 30 aura en á sama tíma lækkar dreifihlutinn með niðurgreiðslu, hann er misjafn eftir því hvar maður er staddur og hversu mikill tilkostnaður hvað varðar dreifingu á ákveðnum svæðum. Það verður fróðlegt að sjá það í umfjöllun nefndarinnar og í framhaldi umræðunnar hvernig þetta skiptist á ákveðin landsvæði miðað við þessi köldu svæði sem við höfum verið að glíma við. Þar eru stóru tölurnar, þegar við erum að skoða húshitunina á þessum köldu svæðum, þar eru stóru tölurnar. Við sögðum oft, bara þegar maður var sjálfur að borga gríðarlega háan húshitunarkostnaðinn á Akranesi á sínum tíma, þegar við borguðum niður Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar, sem sagt mjög dýra fjárfestingu, í umhverfi sem um margt var mjög skrýtið vegna þess að á þeim tíma sem var lögð 60 kílómetra lögn frá Deildartunguhver var ekki felldur niður söluskattur á lögninni en á sama tíma var byggt stóriðjuver á járnblendið á Grundartanga þar sem allur söluskattur var felldur niður. Þá sjáum við hvernig hugsunin var á þeim tíma.

Við vorum að borga á þeim tíma sem við bjuggum á Akranesi oft margfalda upphæð á við Reykvíkinga. Ég ætla ekki að lýsa breytingunni þegar Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar fór inn í Orkuveitu Reykjavíkur og þau gjöld komu í staðinn. Áður var þetta nánast þannig að þegar menn fluttu í blokkir, ef þeir fengu reikninginn fyrir húsfélagið, héldu þeir að þeir væru að borga fyrir sína eigin íbúð og töldu það svipað og áður hafði verið. Þetta er ástandið sem mörg sveitarfélög búa enn þá við. Þess vegna hvet ég hæstv. ráðherra til að stíga næstu skref, vinna áfram að því að ná þessum jöfnuði og heiti stuðningi við hann í þeirri viðleitni. Ég held að ef við ætlum að halda áfram jafnri byggð í landinu, eða réttara sagt hindra fólksflótta og breytingar hvað varðar byggðirnar, verðum við að reyna að skapa eins gott, sambærilegt umhverfi og mögulegt er í hinum dreifðu byggðum á móti þéttbýli.



[16:18]
Haraldur Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil gera eins og fleiri þingmenn, sem áður hafa talað hér, fagna framkomnu frumvarpi iðnaðarráðherra sem hún mælti hér fyrir og einungis segja að þetta frumvarp er eitt af þeim mörgu litlu málum, sem í sjálfu sér er stórt mál, sem við þurfum að hafa í lagi til að við getum talað um að við séum að jafna búsetuskilyrði í landinu og ættum með einhverju móti að segja að sé hluti af okkar byggðastefnu að hafa slíka hluti í lagi.

Það er nefnilega oft talað um byggðamál og byggðastefnu sem einhverja dýra og flotta hluti. Ég vil meina að byggðamál og byggðastefna snúist líka bara um ákveðið jafnræði og einfaldleika í því að við jöfnuðum ákveðnum þáttum í samfélagi okkar á milli okkar, að við séum ekki að láta fólk í dreifbýli eða á landsbyggð bera óeðlilega byrði umfram aðra og svo öfugt. Við eigum ekki að demba endilega á þéttbýlisbúana einhverjum byrðum sem eru þá léttar í dreifbýlinu af þeim þáttum sem samfélag okkar er að fást við og það á til dæmis við um að virkja og vinna rafmagn og dreifa því um landið.

Við tölum mjög oft um að þetta sé sameiginleg auðlind þjóðarinnar og sannarlega er raforkan auðlind þjóðarinnar. Þess vegna hefur mér sem íbúa í dreifbýli löngum sviðið það að þurfa að greiða sérstakt gjald fyrir að dreifa henni aftur út í sveitir því að með nokkurri einföldun má segja að rafmagnið sé sótt út í sveitirnar að stórum hluta.

Þess vegna fagna ég þessu frumvarpi sérstaklega og ég er mjög ánægður að heyra marga sem hér hafa talað á sömu nótum. Við eigum þannig að geta náð hér í þinginu breiðri samstöðu um þetta.

Síðan má nefna fleiri þætti eins og hv. þm. Guðbjartur Hannesson gerði áðan, eins og samgöngur og fjarskiptamál, sem ég er honum algjörlega sammála um. Þetta eru þættirnir sem við eigum að huga að þegar við ræðum um byggðamál og jöfn skilyrði til búsetu.

Auðvitað er það þannig að við jöfnum aldrei alla hluti í okkar heimi. Það á að sjálfsögðu ekkert að vera þannig en okkur tekst samt ágætlega til með þá marga. Þetta frumvarp er aðeins fyrsta skrefið, hæstv. forseti, og ég skora á hæstv. iðnaðarráðherra að líta þannig á, í að ná fleiri mikilvægum sigrum til að jafna dreifikostnað á raforku og húshitunarkostnað eins og tíundað hefur verið hér.

Ég bind góðar vonir við að við getum unnið úr þessu frumvarpi hið mikla framfaramál sem við þurfum á að halda.

Ég vil undir lok þessarar stuttu ræðu minnar taka undir með hæstv. iðnaðarráðherra þegar hún nefnir boðaðar hækkanir dreifiveitna í dreifbýli. Mér finnst það ekki gott og tek undir með ráðherranum þar sem hún segir að hún hafi með bréfi til dreifiveitnanna óskað skýringa því að við getum einfaldlega ekki sætt okkur við þessar hækkanir með þeim hætti sem þær birtast okkur í fjölmiðlum og því megum við ekki heldur gera lítið úr því að hér ætti að vera góð samstaða um að takast á við þá umræðu og hrinda þá þessum boðuðu hækkunum til baka svo mögulegt sem það er. Ég skil vel þröngan kost dreifiveitna og kostnað við að byggja upp dreifiveitur í dreifbýli og að það hafi að einhverju leyti verið svelt á undanförnum árum. Það hefur verið rakið í þessari umræðu, við erum að gera stöðugt meiri kröfur um aukið afhendingaröryggi á rafmagni, við sjáum það einfaldlega í fréttum þessa dagana þar sem línumenn, hetjur þessa lands þessa dagana, eru að berjast við ísingu uppi á heiðum.

Auðvitað kostar þetta allt sitt en við þessa umræðu vil ég einfaldlega mótmæla boðuðum hækkunum á raforku í dreifbýli.



[16:22]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að blanda mér stuttlega í umræðu um frumvarp um breytingu á lögum um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku, með síðari breytingum, um jöfnunargjald, sem hér hefur farið fram. Ég tel að sjálfsögðu mikilvægt að þessi mál séu rædd og að leitað sé leiða til að jafna sem best búsetuskilyrði í landinu, bæði á þessu sviði og ýmsum öðrum sviðum.

Hér hefur verið haft á orði af ýmsum, m.a. síðustu tveimur ræðumönnum í þessu máli, að aldrei verði hægt að jafna búsetuskilyrði að fullu. Það kann vel að vera rétt en að sjálfsögðu þarf þá að velta fyrir sér hvar það sé gert og á hvaða sviðum, og hvaða sviðum ekki, og hvar menn búa við mismunandi skilyrði. Hvernig vilja menn þá taka á því?

Ég tel ástæðu til þess að það mál sem hér er til umfjöllunar fái ítarlega umfjöllun og vinnu í nefnd. Um leið og ég segi að ég sé sammála því meginmarkmiði að jafna sem mest má búsetuskilyrðin, m.a. að því leyti sem hér er til umræðu, segir mér svo hugur um að til dæmis sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu muni mörg hver og kannski öll hafa ýmsar athugasemdir fram að færa við útfærsluna í þessu frumvarpi.

Það blasir við, og kannski á það heima hér í umræðunni í kjölfar ummæla síðasta hv. ræðumanns um hækkanir á opinberum gjaldskrám, að frumvarpið mun eins og það er útfært þýða gjaldskrárhækkanir eða hækkanir á álögur hjá íbúum, m.a. hér á höfuðborgarsvæðinu. Það verður fróðlegt að skoða hvaða áhrif það hefur þá á kaupmátt þeirra sem hér búa. Það er hlutur sem þarf að sjálfsögðu að horfa á í samhengi við annað.

Mér finnst mikilvægt að í þeirri vinnu sem nefndin mun inna af hendi verði reynt að greina hvaða verðjöfnun er nú þegar í gangi í raforkukerfinu og hvernig hún kemur út. Meðal annars má benda á að Orkuveita Reykjavíkur rekur háspennukerfi innan höfuðborgarsvæðisins sem er annars staðar á landinu rekið af Landsneti. Kostnaðurinn við það háspennukerfi er borinn af íbúum höfuðborgarsvæðisins, þeim sem eru á svæði Orkuveitunnar, en kostnaðurinn við Landsnetið er hins vegar borinn af öllum raforkunotendum, þar með talið þeim sem bera jafnframt kostnað af háspennukerfi Orkukveitunnar hér á höfuðborgarsvæðinu.

Það eru hlutir sem mér finnst mikilvægt að við höldum til haga í umræðunni. En eins og ég segi er ég að sjálfsögðu sammála því meginmarkmiði að reyna að jafna búsetuskilyrði, að bæta og jafna kostnað við dreifingu raforku eins og kostur er. Að sjálfsögðu verður að skoða hvað það hefur í för með sér að gera það eins og gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi og er tilefni til þess að ræða hvernig að jöfnunaraðgerðum verður staðið, hvort það verður gert með sértækum hætti, ég vil leyfa mér að kalla það, eða hvort það verður gert almennt í gegnum skattkerfið. Við þekkjum að ýmsar leiðir eru farnar. Við þekkjum að í Noregi til dæmis hafa menn farið þá leið að vera með mismunandi skattprósentu eftir því hvar fólk býr í landinu til þess að jafna búsetuskilyrði. Það er ákveðin jöfnunaraðgerð sem fer fram í gegnum hið almenna skattkerfi. Það má að sjálfsögðu velta fyrir sér í þessu efni líka hvort það væri skynsamlegri leið. Ég tel að minnsta kosti mikilvægt að þessi sjónarmið komi inn í umræðuna á vettvangi þeirrar nefndar og þeirra nefnda sem fjalla munu um þetta mál og að leitað verði eftir viðhorfum orkufyrirtækja og sveitarfélaga sem hlut eiga að máli og þeim gefinn kostur á því að koma sínum sjónarmiðum á framfæri gagnvart því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar.



[16:28]
Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að ég hafði ekki hugsað mér að fara í aðra ræðu við 1. umr. þessa frumvarps, en eftir ræðu hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, 7. þm. Reykv. s., sá ég mig knúinn til að koma í ræðustól aftur og ræða málið frekar. Svo virðist vera sem eini maðurinn sem í raun og veru hefur miklar athugasemdir við frumvarpið, þ.e. jöfnunina, sé hv. þingmaður, það er þá einn stjórnarþingmaður móti þessu stjórnarfrumvarpi.

Ég ítreka það sem ég sagði áður, ég fagna frumvarpinu og þeirri leið sem er verið að fara þó svo að ég hafi fyrirvara um hvar á að sækja peningana, að það skuli ekki vera sótt til allra sem kaupa raforku, þ.e. 10 aurar á kílóvattstund þegar stóriðjan er með, eins og ég gerði grein fyrir í fyrri ræðu minni.

Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson var meðal annars að ræða að úti á landi væri ódýrara húsnæði og ódýrari húsaleiga. Nú veit ég ekki hvað hann hefur fyrir sér í því, hvaða staði á hann við, en ég held að ekki sé hægt að alhæfa svona vegna þess að að sjálfsögðu eru til staðir á landsbyggðinni þar sem er húsnæðisskortur og þar af leiðandi hátt leiguverð eða hátt íbúðaverð, þar sem uppsveifla er og uppgangur, atvinnulíf gengur vel. Auðvitað má finna svæði sem eru í miklum vandræðum þar sem atvinna er lítil og íbúðaverð lágt. Að leggja þetta saman á móti því, eins og mér fannst hv. þingmaður vera að gera í umræðu um frumvarpið, er náttúrlega algjörlega út í hött.

Hv. þingmaður sneiddi fram hjá því að ræða einn þátt sem er að búseta á landsbyggðinni, sama hvort það er í dreifbýli eða þéttbýli á landsbyggðinni, hefur mikinn aukakostnað í för með sér vegna flutningskostnaðar, sem er sífellt hækkandi og hefur hækkað mikið á undanförnum árum, bæði flutningskostnaður til landsins og svo frá aðaluppskipunarhöfninni á höfuðborgarsvæðinu og út á land. Til að bíta höfuðið af skömminni er það þannig að til viðbótar við flutningskostnaðinn leggst svo í langflestum ef ekki öllum tilfellum virðisaukaskattur til ríkisins ofan á vöruverð þegar flutningskostnaðurinn er kominn inn. Það má því segja að landsbyggðarbúar sem kaupa vörur, sambærilegar vörur og keyptar eru á höfuðborgarsvæðinu, leggi miklu meiri virðisaukaskatt til ríkisins en íbúar höfuðborgarsvæðisins gera af sömu vörutegund. Þetta ræddi hv. þingmaður ekki, sem betur fer.

Sá sem hér talar og fagnar þeirri leið að jafna eigi raforkukostnað á íbúum dreifbýlis og þéttbýlis fagnaði því mjög og hefur barist fyrir því alla sína þingtíð, ég byrjaði 1999, að tekin verði upp flutningsjöfnun á vörum innan lands. Það var eitt af því góða sem síðasta ríkisstjórn kom á, eins og ég gat um áðan. Flutt var frumvarp af þáverandi hæstv. viðskiptaráðherra, Árna Páli Árnasyni, samþykkt af ríkisstjórn og samþykkt af stjórnarflokkunum um að taka upp flutningsjöfnunarsjóð. Í það var varið 200 milljónum og sem betur fer verður það gert áfram. Það voru einhverjar upplýsingar í byrjun þessarar hæstv. ríkisstjórnar um að það ætti að leggja sjóðinn af en þeim áhyggjum hefur verið eytt með því að framlengja lögin sem flutt voru í tíð síðustu ríkisstjórnar til ársins 2020.

Það hefur líka borist í tal önnur jöfnun, eins og ég gat um, í fjarskiptum, og er talað um það í því frumvarpi sem ég flutti með hæstv. núverandi starfandi iðnaðarráðherra árið 2012, þar var getið um jöfnun í fjarskiptum og jöfnun í olíuvörum o.s.frv. Ef við því tökum umræðu um almenn lífskjör í landinu, sem ég hef gert á þessum fimm mínútum núna og andmælt þeirri framsetningu sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson setti fram, þá hef ég verið þeirrar skoðunar og er enn að við eigum á sem flestum sviðum í þessu litla landi, þótt það sé dreifbýlt, að geta jafnað lífskjör landsmanna meira.

Virðulegi forseti. Það væri gaman að fjalla um það sem kom fram nýlega þegar samið var um það einu sinni í kjarasamningum allra landsmanna að byggja upp Breiðholtið. Ég minnist þess ekki að í þeim kjarasamningum hafi verið gerð samþykkt um að byggja upp leiguhúsnæði (Forseti hringir.) eða ódýrt íbúðarhúsnæði fyrir lágtekjufólk annars staðar á landinu.



[16:33]
iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa umræðu sem hefur verið mjög góð og málefnaleg. Á þessu máli eru auðvitað skiptar skoðanir. Það er rétt, sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði, að það er meiri samhljómur um að fara út í að jafna kostnað við dreifingu raforku milli dreifbýlis og þéttbýlis en oft hefur verið. Það var svo sem fróðleg söguskýring og sagnfræðiyfirferð hv. þingmanns sem man þessi mál lengra aftur en við mörg hér í þinginu.

Það er alveg rétt og þetta er ekki einfalt. Hér hafa komið ýmis sjónarmið, þ.e. sjónarmið þeirra sem eru í þéttbýlinu, sem andmæla því að á þéttbýlisbúa séu lagðar auknar álögur til að standa undir kostnaði við þessa jöfnun. Ég skil það mætavel. En þetta varð niðurstaðan eftir mikla yfirlegu.

Hv. þm. Kristján Möller spurði hver sinnaskipti mín hefðu verið frá því að ég var meðflutningsmaður við ágætt frumvarp samflokksmanns míns, Einars K. Guðfinnssonar, þar sem önnur leið var farin. Við því er einfalt svar eins og þingmaðurinn þekkir: Með því að gerast meðflutningsmaður á þingmannamálum er maður í meginatriðum að lýsa stuðningi við þá stefnu sem þar kemur fram þó að þar séu kannski einstök ákvæði eða atriði sem maður kysi að hafa öðruvísi. Ég hef verið fylgjandi því að jafna þennan aðstöðumun, eins og ég kýs að kalla það, milli dreifbýlis og þéttbýlis. Það var helsta ástæða þess að ég var meðflutningsmaður á því ágæta frumvarpi.

Í þessu frumvarpi er tekið á mismun á kostnaði við dreifingu rafmagns á milli dreifbýlis og þéttbýlis. Aðgerðin er þannig tilfærsla á fjármunum á milli dreifiveitna vegna viðskiptavina dreifiveitnanna frá þéttbýli yfir í dreifbýli. Stóriðjan er ekki viðskiptavinur dreifiveitnanna og er þar að auki með orkusölusamninga til langs tíma sem ég hef ekki áhuga á að fara inn í, hvað svo sem síðasta hæstv. ríkisstjórn gerði með orkuskattinum sem hér hefur komið til tals. Vegna spurninga um afdrif þess skatts get ég vitnað í það sem fjármálaráðherra hefur sagt opinberlega að ekki standi til að framlengja þann skatt, hann verði látinn renna sitt skeið á enda. Mér þótti reyndar áhugavert að heyra að þessi tímabundni skattur, sem var kynntur þannig á sínum tíma, var það kannski ekki í huga fyrrverandi hæstv. fjármálaráðherra miðað við það sem fram kom hér áðan vegna þess að þá greindi hv. þingmaður frá því að fyrirætlanir hefðu verið um að nota þann skattstofn í það sem við erum að fara í hér núna. En það er önnur saga.

Í skýrslunni sem hefur verið hér til umræðu og var ágæt var lögð til leið sem hefur verið farið í ítarlega, 10 aura á alla notendur, þar var húshitunin líka tekin inn í, sem er annað viðfangsefni. Hér erum við að fjalla um kostnaðinn við dreifinguna á rafmagninu. Húshitunin og niðurgreiðsla húshitunar er annað mál þó að auðvitað séu mörkin óljós, vegna þess að þetta kerfi er allt óskaplega flókið. Þegar ein stærð er færð til hefur það áhrif á aðra stærð. Í þessu máli hefur það þau áhrif á húshitunina að þörfin fyrir niðurgreiðslu lækkar þannig að kostnaðurinn við niðurgreiðslu til húshitunar gæti lækkað en það gefur svigrúm til að nota þá fjármuni til að vega á móti annarri starfsemi sem hreyfist til í þessu sem er þeir rafmagnsnotendur í þéttbýli sem eru líka á köldum svæðum. Þeir fá þá aukaniðurgreiðslu til þess að þeir komi út á sléttu hvað raforkukostnaðinn varðar. Síðan er húshitunin annað viðfangsefni og ég get greint frá því að við erum að vinna að þeim málum til framtíðar. Besta leiðin til að draga úr þörf á niðurgreiðslu til húshitunar er að fjölga hitaveitum og þess vegna er ánægjulegt að sjá Hitaveitu Skagastrandar vera nýtekna til starfa. Eins og þingmenn hafa komið hér inn á í umræðunni er vinna við leit að heitu vatni að sjálfsögðu í gangi og það mundi muna miklu, eins og hér kom fram, ef þéttbýlisstaður eins og Höfn í Hornafirði kæmi inn í það kerfi.

Auðvitað er það besta leiðin, en það er önnur umræða.

Ég veit að þetta er mál sem nefndin mun taka til gagngerrar skoðunar. Ég vona að hægt verði að vinna þetta tiltölulega hratt vegna þess að það væri gott að fá niðurstöðu í þetta mál. Ég treysti því að kallað verði eftir ólíkum sjónarmiðum og ef nefndinni sýnist svo að gera þurfi breytingar á frumvarpinu vona ég að þær verði allar til bóta þannig að við getum fengið sem mesta sátt um þetta. Ég fagna því að almenni tónninn í þessari umræðu var jákvæður og vonast til þess að við getum séð breytingar á þessum lögum innan tíðar hér á Alþingi.



[16:40]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil aðeins ganga betur eftir útskýringum hæstv. ráðherra á því sem ég kallaði sinnaskiptum eða þeirri miklu stefnubreytingu sem kemur fram í þessum tveimur frumvörpum, annars vegar þessu og svo hinu sem hún flutti sem þingmaður. Hún sagði að það að gerast meðflutningsmaður að frumvarpi til laga, í þessu tilfelli frumvarpi nokkurra þingmanna úr flestöllum flokkum, væri stuðningur við þá stefnu sem þar kæmi fram. Það er alveg rétt. Sú stefna sem kemur fram í því frumvarpi sem ég var meðflutningsmaður að var að taka tillögu nefndarinnar um 10 aura á hverja selda kílóvattstund og setja sem skatt á til þess að jafna kostnað í dreifbýli. Mér finnst hæstv. ráðherra ekki hafa skýrt sjónarmið sitt um hvað hafi breytt afstöðu hennar hvað þetta varðar þannig að núna ætlar hún að leggja 30 aura á almenning í landinu, þá sem kaupa raforku fyrir utan stóriðjuna. Hvað hefur breyst? Ég er sammála hæstv. ráðherra, virðulegi forseti, um að það er ákveðin stefna sem maður sýnir og sjónarmið með því að gerast flutningsmaður að frumvarpi til laga. Það kom sannarlega fram í frumvarpi sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson er fyrsti flutningsmaður að og hæstv. ráðherra Ragnheiður E. Árnadóttir skrifaði ásamt mér og ýmsum fleirum þar undir.



[16:42]
iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get einungis ítrekað það sem ég hef sagt áður í þessari umræðu. Sú stefna sem ég studdi með því að vera meðflutningsmaður á fyrra frumvarpi var að jafna bæri kostnaðinn á milli dreifbýlis og þéttbýlis þegar kemur að dreifingu á rafmagni. Í því tilfelli var líka verið að fjalla um húshitun. Ég er líka hlynnt því, (Gripið fram í.) en það er ekki í þessu máli eins og ég fór yfir í ræðu minni.

Ég vona að hv. þingmaður fyrirgefi mér þó að við yfirlegu yfir þessu máli hafi ég komist að þeirri niðurstöðu að þetta væri betri leið til að taka á raforkudreifingunni. Ég útiloka ekki að komið verði fram með breytingar hvað varðar niðurgreiðslu á húshitun. Það er eins og ég segi til skoðunar í ráðuneytinu, en það er ekki til umræðu í þessu frumvarpi.



[16:43]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í seinna andsvari mínu við seinni ræðu hæstv. ráðherra langar mig að inna hana eftir svörum við þeim spurningum sem ég setti fram í fyrri ræðu minni um 240 millj. kr. sem eiga eins og kemur fram í fylgigögnum með frumvarpinu að falla niður árið 2016 þegar öll áhrif frumvarpsins eru komin fram, þ.e. að fara í þessa 30 aura á kílóvattstund á þremur árum. Þá verður kominn svo og svo mikill peningur í þennan jöfnunarsjóð til að jafna, en þá á ríkissjóður að sleppa með þær 240 milljónir sem eru inni núna. Hvers vegna er það gert, virðulegi forseti?



[16:44]
iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég bið hv. þingmann velvirðingar, ég var með þessa fyrirspurn skrifaða hér á blaði. Mér láðist að fara yfir það í ræðu minni. Stefnan er, þegar þetta hefur tekið gildi að fullu, að kerfið verði þannig úr garði gert að það sjái um þessa jöfnun sjálft. 240 milljónirnar eru til þess að greiða niður mismuninn. Gangi þetta eftir verður ekki þörf á að taka fjármagn úr ríkissjóði sérstaklega í þessar niðurgreiðslur því að kerfið fjármagnar þá jöfnunina sjálft. Það er hugsunin á bak við þetta. Ég held að við hv. þingmaður getum verið sammála um að við getum fundið góð not fyrir þær 240 milljónir þegar þar að kemur.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til atvinnuvn.