143. löggjafarþing — 49. fundur
 14. janúar 2014.
samstarf við Færeyjar og Grænland vegna fækkunar kvenna á Vestur-Norðurlöndum, síðari umræða.
þáltill. ÍVN, 39. mál. — Þskj. 39, nál. 347.

[19:09]
Frsm. utanrmn. (Vilhjálmur Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um samstarf við Færeyjar og Grænland um samantekt um orsakir fækkunar kvenna á Vestur-Norðurlöndum. Álitið er á þskj. 347, það er 39. mál þingsins.

Utanríkismálanefnd tók málið til umfjöllunar og fékk á sinn fund formann Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins og framkvæmdastjóra Vestnorræna ráðsins. Nefndin bað jafnframt um kostnaðarmat frá mennta- og menningarmálaráðuneyti.

Með tillögunni er lagt til að Alþingi skori á ríkisstjórnina að efna til samstarfs við stjórnvöld Færeyja og Grænlands um gerð samantektar yfir kannanir og rannsóknir sem lúta að orsökum þess að konum fækkar hlutfallslega meira en körlum meðal íbúa Vestur-Norðurlanda. Teknar verði saman niðurstöður slíkra rannsókna og kannana en einnig lagðar fram tillögur og stefnumörkun sem miða að því að snúa þessari þróun við.

Við umfjöllun málsins kom fram að um útgjaldalitla tillögu væri að ræða þar sem ætlunin væri að safna saman og gera yfirlit yfir gögn sem þegar liggja fyrir. Í kostnaðarmati mennta- og menningarmálaráðuneytis til nefndarinnar kemur fram að verði útfærslan á þá lund sem Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins hefur gert ráð fyrir megi búast við óverulegum kostnaði, en verði verkið falið sérfræðingum megi gera ráð fyrir allt að 5 millj. kr. kostnaði. Nefndin telur að mennta- og menningarmálaráðuneytið muni geta beitt sér fyrir því að framkvæmd tillögunnar verði með ráðdeild og hagsýni að leiðarljósi, eins og tillöguhöfundar gera ráð fyrir, og að kostnaður verði óverulegur.

Tillagan byggist á ályktun nr. 3/2013, sem samþykkt var á ársfundi Vestnorræna ráðsins 20. ágúst 2013 í Narsarsuaq á Suður-Grænlandi, en þar er áskorun þessa efnis beint til ríkisstjórnar Íslands og landsstjórna Færeyja og Grænlands.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.

Hv. þingmenn Guðlaugur Þór Þórðarson, Óttarr Proppé og Össur Skarphéðinsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið rita þann 10. desember 2013 hv. þingmenn Birgir Ármannsson formaður, Vilhjálmur Bjarnason framsögumaður, Árni Þór Sigurðsson, Frosti Sigurjónsson, Sigurður Páll Jónsson og Silja Dögg Gunnarsdóttir.

Ég tel óþarfa að gera frekari grein fyrir þessu nefndaráliti.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.



[19:13]
Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessu áliti utanríkismálanefndar, þessu jákvæða áliti. Þetta áhyggjuefni í Færeyjum og Grænlandi er dálítið athyglisvert, altsvo á meðan ein helsta áskorunin í Færeyjum er fólksfækkun, einkum fækkun kvenna. Það sama gildir um Grænland en síður um Ísland. Á sama tíma setjum við lög hér á Íslandi og höfum áhyggjur af lítilli þátttöku kvenna í félagsstörfum, stjórnum og þess háttar.

Að mínu mati er þetta talsvert áhyggjuefni þó að menn geti kannski brosað út í annað með þetta mál, en kannski á þetta við víðar, kannski getum við átt von á sama vandamáli og kannski er það nú þegar til staðar á sumum stöðum hjá okkur, á Íslandi, þar sem dreifbýlið er sem mest. Ef til vill þurfum við að fara að hafa áhyggjur og velta því fyrir okkur.

Þess vegna held ég að við ættum að taka þessa tillögu alvarlega því að til er fjöldi rannsókna og kannana sem hafa verið gerðar í Noregi, Danmörku og Vestur-Norðurlöndum um slíka þróun. Hins vegar er sú þekking, eins og segir hér í tillögunni, sem er til staðar og nýta mætti til grundvallar tillögum og stefnumörkun hvers markmið væri að snúa þessari þróun við, ekki nægilega vel kynnt eða aðgengileg einstaklingum og hópum með stefnumótunar- og ákvörðunarvald, ekki síst stjórnmálamönnum.

Ég held að við ættum að taka þetta svolítið alvarlega og gera samantekt á rannsóknum og þeirri þekkingu sem til er og reyna að mynda okkur skoðun og koma með einhverja stefnumörkun til að forðast að það sama hendi hér í náinni framtíð.



[19:16]
Frsm. utanrmn. (Vilhjálmur Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins bæta við ummæli hv. þm. Páls Jóhanns Pálssonar. Ég hef hér í höndum yfirlit yfir fólksfjölda í íslenskum sveitarfélögum. Þar kemur fram strax uppi í Mosfellsbæ verulegur ójöfnuður milli kvenna og karla, þ.e. þar sem hallar á konur. Það eru færri konur strax þegar komið er í Mosfellsbæ en verulega fleiri konur í Reykjavík, Kópavogi, Seltjarnarnesi, Garðabæ og Hafnarfirði. Þetta ójafnvægi milli kvenna og karla, þess sér merki hér á landi á jaðarsvæðum alveg eins og Færeyjar og Grænland mundu flokkast undir jaðarbyggðir á Vestur-Norðurlöndum.

Ég held að þetta sé ekkert gamanmál, þetta er full alvara. Ég hef mínar skýringar á þessari þróun. Ég ætla ekki að rekja þær hér í stuttu máli, en ég vænti þess að þegar gögn liggja fyrir verði kannski hægt að segja örlítið meira. Þetta snýr í stuttu máli að atvinnutækifærum fyrir alla.

Ég hef lokið máli mínu að sinni.



[19:17]
Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hélt reyndar að ég þyrfti að fara aðeins lengra en upp í Mosfellsbæ til þess að finna þennan ójöfnuð. Ég hélt að jaðarsvæðin væru lengra í burtu, að ég þyrfti jafnvel að fara í verulega afskekktar byggðir til að finna þennan mismun. Ég tek undir með framsögumanni að þetta er ekkert gamanmál og ítreka og lýsi því aftur yfir að það er full þörf á að skoða þessi mál og gera það af festu.