143. löggjafarþing — 51. fundur
 16. janúar 2014.
útlendingar, 1. umræða.
stjfrv., 249. mál (EES-reglur og kærunefnd). — Þskj. 457.

[12:43]
innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um útlendinga. Með frumvarpinu er lagt til að almenn kæruleið í málum samkvæmt lögunum verði færð til sjálfstæðrar úrskurðarnefndar sem mun hafa sömu valdheimildir og ráðherra hefur nú til að úrskurða í kærumálum samkvæmt 30. gr. laganna. Ráðherra mun skipa kærunefnd útlendingamála til fimm ára í senn samkvæmt fyrirliggjandi frumvarpi.

Endurskoðun ákvarðana Útlendingastofnunar hefur verið í umræðu um nokkurt skeið hér á landi. Núverandi fyrirkomulag er með þeim hætti að innanríkisráðuneytið endurskoðar ákvarðanir stofnunarinnar í samræmi við ákvæði 30. gr. laganna. Þessi framkvæmd íslenskra stjórnvalda hefur verið gagnrýnd. Hún hefur verið gagnrýnd á þeim forsendum að ráðuneytið geti ekki talist óháður og óhlutdrægur úrskurðaraðili í málum þar sem undirstofnun þess tekur hina kæranlegu ákvörðun. Gagnrýnin hefur komið frá umdæmisskrifstofu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna fyrir Norður-Evrópu bæði árin 2009 og 2012 og hefur svo verið ítrekuð af hálfu Evrópunefndarinnar gegn kynþáttafordómum og umburðarleysi. Þá hafa svipuð sjónarmið verið sett fram af hálfu Rauða krossins á Íslandi.

Ég tek undir þá gagnrýni og tel þess vegna að brýnt sé að skipuð verði úrskurðarnefnd sem starfar óháð innanríkisráðuneytinu. Þá tel ég jafnframt mikilvægt að mannréttindasamtök eigi aðild að nefndinni til að tryggja enn frekar sjálfstæði hennar.

Í þessu sambandi er einnig vert að geta þess að innanríkisráðuneytið réðst í mikið átak til styttingar málsmeðferðartíma hælisumsókna vorið 2013 í tíð forvera míns í starfi. Í tengslum við átakið hefur verið unnið að tillögum til úrbóta á lagaumhverfi og verklagi í öllum málaflokknum. Í því skyni var m.a. leitað fanga hjá Norðmönnum enda byggja gildandi íslensk lög um útlendinga að meginstefnu til á eldri lögum um útlendinga í Noregi. Ég átti þess kost ásamt embættismönnum innanríkisráðuneytisins að hitta dómsmálaráðherra Noregs og þá aðila sem aðallega koma að þessum málum í Noregi. Og hvar sem komið er í heiminum, og spurt um hverjir standi best að þessum málum og hverjir séu með þá stefnu sem hægt væri að kalla farsælasta í þessum málefnum er Noregur nefndur. Við vildum auðvitað leita til þeirra sem taldir eru gera þetta best og þess vegna höfum við leitað til Noregs. Allt það sem fram kemur í þessu frumvarpi byggir á því að við breytum löggjöf okkar til samræmis við metnaðarfulla löggjöf Norðmanna í þessu máli. Það felur m.a. í sér að stofna sjálfstæða kærunefnd sem tæki til meðferðar kærur á úrskurðum Útlendingastofnunar. Við teljum að það sé heillaspor fyrir málaflokkinn og bendum á að Noregur, Svíþjóð, Finnland og Danmörk eru öll með slíka sjálfstæða úrskurðarnefnd eða úrskurðardómstól vegna mála er varða komu, dvöl eða hælisumsókn útlendinga.

Við undirbúning þessa frumvarps hefur því, eins og ég sagði áðan, verið litið til reynslu þessara nágrannaþjóða okkar með það að markmiði að bæta úr og tryggja að við gerum eins vel og við getum varðandi mannréttindi, málshraða og jafnframt varðandi kostnað.

Í öðru lagi miðar frumvarpið að því að innleiða tvær tilskipanir Evrópusambandsins. Annars vegar er um að ræða tilskipun Evrópuþingsins og Evrópuráðsins 2004/38, um rétt borgara sambandsins og aðstandenda þeirra til frjálsrar farar og dvalar á yfirráðasvæði aðildarríkjanna. Tilskipunin var innleidd að hluta til með lögum nr. 86/2008 og með lögum nr. 83/2012, en frumvarp þetta miðar að því að innleiða tilskipunina að fullu og koma til móts við athugasemdir frá Eftirlitsstofnun EFTA, ESA um að Ísland hafi ekki innleitt tilskipunina með fullnægjandi hætti. ESA hefur gert athugasemdir við innleiðingu tilskipunarinnar og gaf stofnunin út rökstutt álit í desember 2012 þar sem íslenskum stjórnvöldum var veittur ákveðinn frestur til að ljúka innleiðingunni.

Til að komast hjá málshöfðun fyrir EFTA-dómstólnum og tryggja fullan rétt þeirra einstaklinga sem tilskipunin nær til er afar brýnt að sá kafli frumvarpsins sem hefur að geyma ákvæði til innleiðingar á tilskipuninni nái fram að ganga og verði að lögum.

Hins vegar er um að ræða tilskipun um brottvísun útlendinga í ólögmætri dvöl, þ.e. tilskipun Evrópuþingsins og Evrópuráðsins 2008/115, um sameiginleg viðmið og skilyrði fyrir brottvísun ríkisborgara utan EES sem dveljast ólöglega á svæði aðildarríkjanna. Tilskipunin öðlaðist gildi 24. desember 2010 og var Ísland bundið af henni frá þeim tíma vegna þátttöku sinnar í Schengen-samstarfinu. Ísland er hins vegar eina ríkið sem ekki hefur enn innleitt tilskipunina. Tilskipunin hefur að geyma sameiginleg viðmið og málsmeðferðarreglur vegna útlendinga sem dveljast í ólögmætri dvöl, þar á meðal reglur um í hvaða tilvikum skuli brottvísa útlendingi í ólögmætri dvöl.

Auk ákvæða í frumvarpinu sem leiðir af þeim skuldbindingum sem hér hafa verið nefndar er lögð til ein minni háttar breyting á lögunum vegna nýrrar Dyflinnar-reglugerðar sem margir þekkja í þessum sal, sem tók gildi í upphafi þessa árs. Afar brýnt er að ljúka innleiðingu þeirrar gerðar sem ég hef getið hér svo ekki komi til frekari eftirmála fyrir íslensk stjórnvöld hvað það varðar.

Virðulegi forseti. Til að fara aðeins yfir söguna í þessum málaflokki þá var í byrjun síðasta árs hröð og nokkuð óvænt fjölgun umsókna um pólitískt hæli hér á landi. Í kjölfar hennar samþykkti fyrrverandi ríkisstjórn tillögu þáverandi innanríkisráðherra um að efna til tímabundins átaks í stjórnsýslu- og búsetumálum hælisleitenda. Ég er þeirrar skoðunar að það átak hafi verið mjög mikilvægt og að það skili okkur ákveðinni grunnhugsun inn í það verkefni sem við verðum að vinna áfram með. Á þeim tíma var ráðinn verkefnisstjóri, skipuð sérstök verkefnisstjórn og starfsmönnum fjölgað tímabundið hjá Útlendingastofnun og innanríkisráðuneytinu til að takast á við þá áskorun sem stjórnvöld stóðu þá frammi fyrir, sem var stóraukinn fjöldi umsókna og afgreiðslutími sem í engu samhengi getur talist viðunandi. Þess vegna var lagt upp með tvíþætt markmið á þeim tíma, annars vegar að vinna niður þann mikla fjölda mála sem var til meðferðar hjá stjórnvöldum og hins vegar að setja fram tillögur um skilvirkara fyrirkomulag við afgreiðslu hælismála til framtíðar, fyrst og síðast skilvirkara fyrirkomulag að því leyti að forgangsraðað verði í þágu þeirra sem taldir eru þurfa á pólitísku hæli að halda og geta ekki beðið við þær aðstæður sem þeir búa við vegna þess langa afgreiðslutíma sem er á þessum málum.

Markmið okkar er það sama; að stytta þann tíma sem hælisleitendur þurfa að bíða eftir niðurstöðu í máli sínu hér á landi en einnig að lækka kostnað ríkisins við umönnun hælisleitanda sem hlýst af svo löngum biðtíma. Eins og áður hefur verið rætt um í þessum sal var sá kostnaður á síðasta ári um 600 millj. kr. Við viljum ráðstafa því fjármagni vel og kröftuglega í þágu þeirra sem hafa þennan rétt og það verður best gert með því að stytta málsmeðferðartímann.

Ég vil líka ítreka það sem ég hef nokkrum sinnum sagt áður í þessum ræðustól að í innanríkisráðuneytinu er nú unnið af miklum og umfangsmiklum úrbótum í þessum málaflokki. Sú vinna er nú leidd af Ernu Kristínu Blöndal, lögfræðingi hjá ráðuneytinu og sérfræðingi í málefnum flóttamanna. Vinnan er nú á lokastigum og má vænta þess að frekari tillögur verði kynntar seinni partinn í febrúar. Markmiðið er að einfalda til muna bæði móttöku- og meðferð þeirra sem sækja um alþjóðlega vernd hér á landi, auka gæði í málsmeðferð hælisumsókna og jafnframt tryggja aukið upplýsingaflæði og skilvirkni í kerfinu. Við viljum klárlega öll og eigum að nálgast þessi mál af mannúð, sinna þeim eins vel og við mögulega getum og vera jákvæð gagnvart því að taka inn til landsins þá einstaklinga sem sannarlega þurfa á alþjóðlegri og pólitískri vernd að halda. Það er mín skoðun og hefur verið lengi og ég hef áður viðrað hana úr þessum ræðustóli að við getum lagt meira af mörkum til þessa málaflokks.

Síðustu ár hafa verið stigin ýmis framfaraskref en betur má ef duga skal. Það er enn svigrúm til úrbóta og við eigum að hlúa betur að þeim sem sannarlega þurfa á slíkri vernd að halda. Ég hef þegar rætt það við félagsmálaráðherra og við erum sammála um að það sé mikilvægt að við Íslendingar skoðum vel t.d. að taka í auknum mæli á móti svokölluðu kvótaflóttafólki, þ.e. einstaklingum sem hafa fengið viðurkenningu á stöðu sinni sem flóttamenn og hafa mikla þörf og sannarlega þörf fyrir að fá landvist í öðru ríki. Við höfum góða reynslu af þessum verkefnum hér. Við vitum að við höfum innviði sem geta tekist á við það og við eigum að vera hugrökk hvað þetta varðar. Þetta eru einstaklingar og fjölskyldur sem þurfa sannarlega á vernd að halda en komast ekki til að sækja um hana í formi pólitísks hælis heldur bíða þess að þeim verði boðin slík vernd. Við eigum þess vegna að huga að því að skoða það að fjölga þessum einstaklingum sem kallaðir eru kvótaflóttafólk. Rauði krossinn og önnur mannúðarsamtök hafa ítrekað bent á þetta atriði, að það sé erfitt fyrir þá sem hafa þörf fyrir slíka vernd að koma þessa leið og sækja um hæli þannig að við eigum að sýna frumkvæði í því sambandi. Skilvirkasta leiðin er auðvitað sú, eins og menn þekkja hér, að hjálpa því fólki með því að auka samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna um móttöku kvótaflóttamanna og auka þannig fjölda þeirra einstaklinga sem tekið er á móti hér á hverju ári.

Íslensk stjórnvöld og íslenskt samfélag hefur forgangsraðað í þágu þessa og við þekkjum öll mörg falleg og góð dæmi um það hversu vel hefur tekist til, sérstaklega þegar Ísland hefur t.d. forgangsraðað í þágu kvenna og barna sem eru föst í flóttamannabúðum víða um heim og komast hvergi. Ég tel að okkur beri skylda til að huga að því vandlega hvernig við getum gert betur hvað þetta varðar.

Síðan eru það auðvitað önnur málefni sem tengjast málefnum innflytjenda í þessu landi. Það er bæði það sem fjallað er um í þessu frumvarpi, sem lýtur aðallega að því að tryggja að sá mikli fjöldi sem sækir um að fá hér pólitískt hæli eða að vera hér í skjóli alþjóðlegrar verndar, fái svör skýrt og örugglega. Það þýðir því miður ekki að við getum svarað öllum þeim beiðnum jákvætt. Þar búum við við alþjóðlega löggjöf og íslenska löggjöf og það er ákveðinn rammi í kringum þá alþjóðlegu vernd sem felst í pólitísku hæli. Við verðum auðvitað að virða það og vinna það þannig enda er markmið allra alþjóðlegra stofnana sem koma að því einungis það að forgangsraða í þágu þeirra sem mest eru taldir þurfa á slíkri hjálp að halda. Við verðum að forgangsraða í þágu þess og þess vegna er svo mikilvægt að koma á fót kærunefnd útlendingamála til að tryggja að það gerist eins hratt og eins örugglega og mögulegt er.

Virðulegi forseti. Ég vil einnig nýta þetta tækifæri til að hvetja okkur til að hugsa ekki alltaf um þessi mál í ákveðnum hólfum. Við tölum um kvótaflóttamennina, við tölum um hælisleitendur, sem eru auðvitað sérstakt viðfangsefni og við erum bundin af mjög ríkri og sterkri alþjóðlegri löggjöf og innlendri löggjöf hvað það varðar að forgangsraða í þágu þeirra sem þurfa og eiga rétt á slíkri hjálp.

Síðan eru það innflytjendamálin almennt. Ég vil nota þetta tækifæri til að hvetja þingheim til að vinna sameiginlega að þeim málum og hugsa þau mál með aðeins öðrum hætti en við höfum oft gert. Ég hvet okkur til að hugsa ekki um innflytjendur sem einn hóp. Þeir eru jafnólíkir og við sem búum í þessu landi. Ég hvet okkur líka til að gera það sem er sérstaklega mikið í umræðunni núna víða í Evrópu, að hugsa um innflytjendur sem tækifæri, ekki nálgast verkefnið sem ógn heldur að nálgast það sem tækifæri. Það er tækifæri fyrir íslenskt samfélag að fá fólk af af ýmsu tagi, frá ýmsum stöðum til að setjast að á Íslandi. Við eigum að vera umburðarlynd gagnvart því. Við eigum að halda okkur við reglur, að sjálfsögðu. Regluverkið á að vera skýrt en við eigum að taka þeim opnum örmum sem vilja búa og starfa hér og vera hluti af samfélagi okkar og eiga rétt á því. Ég hvet okkur til að nálgast verkefnið þannig. Þannig vil ég nálgast það og ég held að það sé mikilvægt að við sem samfélag gerum það.

Ég hef áður sagt það í þessum ræðustóli að ég hef setið marga fundi frá því ég varð innanríkisráðherra með ráðherrum sem takast á við sömu verkefni, sérstaklega á vettvangi Evrópusambandsins og Evrópusamstarfsins. Þar hefur komið fram að ráðherrarnir líta nú á það sem eina helstu ógnina við Evrópu, hagfræðilega og efnahagslega, að innflytjendur fari nú fram hjá álfunni. Ég hvet okkur til að tryggja að hér sjái fleiri en bara við sem hér búum, tækifæri til að búa, lifa og starfa. Þannig vil ég beita mér í þessum málaflokki innan þess skýra ramma sem við höfum, þ.e. að það sé forgangsraðað í þágu þeirra sem þurfa á hjálp að halda, en þegar umræðan snýst um innflytjendur almennt, dvalarleyfi og atvinnuleyfi, þá reynum við að sýna umburðarlyndi, skilning og líta á það sem tækifæri.

Þetta eru þau sjónarmið sem eru áberandi í því frumvarpi sem hér er lagt fram og ég vona að við vinnum að því sameiginlega og tryggjum að við gerum eins vel og við getum í þessum málum.

Það er líka rétt að geta þess að innan innanríkisráðuneytisins er unnið að breytingum er varða útlendinga almennt og þá er með ríkari hætti tekið á þeim viðfangsefnum er nálgast búsetuóskir, dvalarleyfi, atvinnuleyfi o.s.frv. Við erum að skoða það allt í stóru samhengi en það er stærra mál en fjallað er um í þessu frumvarpi sem lýtur aðallega að því að tryggja að málsmeðferðarhraðinn verði meiri, að svörin verði skýrari, að svörin berist fyrr og að þeir sem eiga rétt á alþjóðlegri vernd fái þá vernd eins fljótt og mögulega er hægt og að þeir sem ekki eiga rétt á þeirri alþjóðlegu vernd fái líka svar fljótt og örugglega. Það mun virka best að mínu mati fyrir íslenskt samfélag og tryggja að við nálgumst þessi mál með þeim hætti sem við helst viljum.

Ég hef nú gert grein fyrir meginatriðum frumvarpsins. Ég legg til að að þessari umræðu lokinni verði frumvarpinu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar sem ég hef haft tækifæri til að ræða um þessi mál við á fyrri stigum. Ég veit að málið kemur til góðrar meðferðar hér á þinginu eftir það.



[12:58]
Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir að leggja þetta frumvarp fram en kannski fyrst og fremst fyrir þann tón sem hæstv. ráðherra sló í framsögu sinni með málinu áðan. Hann er allt annar en sá sem hefur heyrst frá talsmönnum ríkisstjórnarinnar á undanförnum vikum og mánuðum. Ég heiti á hæstv. ráðherra að halda þessum tóni áfram, halda áfram að tala um mannúð, umbætur, réttláta meðferð, jákvæðni gagnvart því fólki sem hingað kemur, að líta á innflytjendur sem tækifæri en ekki ógn. Allt eru þetta hlutir sem mér finnst vera þóknanlegir og líka að forgangsraða og standa við okkar skuldbindingar hvað varðar kvótaflóttamenn og ekki síst að horfa til ákveðinna hópa eins og barna og mæðra.

Það sem mig langar aðeins að spyrja um og hefði auðveldað umfjöllun um málið, þótt það sé í sjálfu sér að einhverju leyti aukaatriði og hægt að svara því í nefndinni þar sem ég fæ tækifæri til þess að fjalla um málið, er við hverja hefur verið haft samráð. Í einum kafla greinargerðarinnar er minnst á samráð en svolítið kæruleysislega farið með, það má skilja það þannig að þarna hafi eingöngu komið að sjálft ráðuneytið og síðan Útlendingastofnun, lögreglan og einhverjir aðrir. Ég geri ráð fyrir að samráðið hafi verið miklu víðtækara. Ég held að það sé mikilvægt að það komi fram hverjir hafa þegar fjallað um málið. Þetta er gríðarlega viðkvæmur málaflokkur og skiptir mjög miklu máli að við vöndum okkur, förum vel yfir þetta og reynum að tryggja skilvirknina og hraðann í kerfinu en um leið mannúð og það réttlæti sem við viljum öll sjá þegar fjallað er um þessi mál.



[13:00]
innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni hvatninguna til að gera vel í þessum málum. Ég er þeirrar skoðunar og hef lengi verið og hef margítrekað sagt það bæði hér á þessum vettvangi og þegar ég var í borgarstjórn Reykjavíkur, að Reykjavíkurborg nálgast að mínu mati málefni innflytjenda með umburðarlyndum og farsælum hætti.

Það sem ég hef orðið eilítið vör við í störfum mínum sem innanríkisráðherra er að mér finnst eins og þessi mál séu flokkuð eftir ákveðnum hólfum en svo þegar það hentar kjósum við að rugla öllum hólfunum saman.

Málefni hælisleitenda eru eitt og þar þarf klárlega að forgangsraða mjög ákveðið og skýrt enda getum við ekki öðruvísi staðið við alþjóðlegar skuldbindingar. Það verður að gerast. Í því felst auðvitað að ákveðnir aðilar fái ekki slíka vernd en það þýðir ekki að sömu reglur þurfi að gilda eða skuli gilda um beiðnir um að setjast að í landinu, vinna hér og búa hér. Það er tvennt ólíkt. Mér finnst eilítið að í umræðunni sé þessu öllu ruglað saman og ég hvet okkur til að nálgast málin öðruvísi.

Hvað varðar samráðið hefur verið haft ansi víðtækt samráð við mjög marga, bæði í tíð fyrrverandi innanríkisráðherra og á undanförnum mánuðum. Þetta hefur verið rætt á vettvangi Rauða krossins. Þetta hefur verið rætt við Mannréttindastofnun Háskóla Íslands, við ákveðin mannréttindasamtök o.s.frv. Hins vegar er það líka skilið eftir í höndum nefndarinnar að fara betur yfir það. Ég skal hins vegar með mikilli ánægju láta taka saman ítarlegri lista ef listinn er ekki nægilega greinargóður í greinargerð með frumvarpinu og koma honum til þingmanna.



[13:02]
Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég treysti á það, ég held að ágætt sé að fá upplýsingar um hverjir hafa komið að málinu, líka til að auðvelda nefndinni að fylgja því eftir sem þegar hefur verið rætt. Ég tek undir með hæstv. ráðherra að auðvitað getum við ekki flokkað fólk í hópa en þó verðum við að viðurkenna að hælisleitendur hafa sérstöðu um margt. Þau mál kalla á öðruvísi vinnubrögð hvað varðar afgreiðslu og hraða og við vitum líka að það er til fólk sem er jafnvel sent nánast á milli landa til að reyna að komast til annarra landa í gegnum Ísland o.s.frv.

Það sem mig langaði aðeins að nefna í seinna andsvari var ábending sem kom fram í fyrri umræðunni um innflytjendur og þann auð sem við eigum í því fólki sem hingað hefur flutt en samtímis það vandamál sem hefur einmitt verið hluti af umræðunni. Menn áttu, undarlegt nokk, einhvern veginn ekki von á því að þeir sem fluttust hingað sem vinnuafl þegar þenslan var hvað mest fyrir hrun, yrðu um kyrrt en það vissu allir sem höfðu fylgst með sömu þróun á Norðurlöndunum og víðar í Norður-Evrópu að þessi hópur mundi ekki fara til baka heldur kæmu fjölskyldur þeirra hingað í framhaldi og búsettu sig hér. Ég tek undir það sem kom fram í ræðu hæstv. ráðherra að líta á það sem styrkleika fyrir íslenskt samfélag, bæði menningarlega, atvinnulega og félagslega, að fá þessa fjölbreytni inn í samfélagið.



[13:04]
innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek undir það sem hv. þingmaður nefnir um sérstöðu hælisleitenda. Það er mjög klár og skýr sérstaða vegna þess alþjóðlega lagaramma sem í kringum þau mál er og við verðum að tryggja að við vinnum þau með eðlilegum hætti.

Öll þessi mál eru erfið, þau eru viðkvæm, þau eru persónuleg og það tekur á að vinna með þau fyrir alla sem að þeim koma. Þess vegna er einmitt svo mikilvægt og ég veit og treysti því að við höfum þann þroska, íslenskt samfélag að ræða þessi mál án þess að gera það með mjög öfgafullum hætti í aðra hvora áttina. Málefni innflytjenda, málefni hælisleitenda, málefni flóttafólks eru erfið mál vegna þess að þau eru persónuleg og viðkvæm og öfgarnar í aðra hvora átt eru aldrei til góða. Ég hvet okkur til að ræða þau málefnalega, ekki í upphrópunarstíl, fara faglega yfir þau, tryggja að þau séu ekki í pólitískum farvegi og tryggja að það gerist ekki á Íslandi eins og hefur því miður gerst í sumum samfélögum að þessi mál verði eldfim og erfið. Þau eiga ekki að þurfa að vera það, ef við nálgumst þau út frá þeim reglum sem við búum við, því alþjóðlega regluverkið sem við höfum skuldbindur okkur til að forgangsraða í þágu ákveðinna aðila þegar kemur að hælisleitendum og að forgangsraða með umburðarlyndið að sjónarmiði, líka þegar um er að ræða innflytjendur sem ég ítreka að eru ekki hælisleitendur. Þegar við tölum um innflytjendur sem hafa áhuga á að setjast hér að, færa inn í íslenskt samfélag ákveðinn auð, ákveðna fjölbreytni eigum við ekki að taka því eins og ógn heldur líta á það sem tækifæri, tækifæri sem það er. Ég vonast til þess og veit að við höfum burði og þroska til að nálgast verkefnið þannig.



[13:06]
Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra framsöguna og fagna framlagningu málsins. Ég tek undir þau meginsjónarmið sem hafa komið fram í andsvörum og samtali hæstv. ráðherra við hv. þm. Guðbjart Hannesson varðandi tóninn í umræðunni og þá meginafstöðu sem er að taka þeirri miklu samfélagsbreytingu sem viðvarandi er og fram undan er í enn ríkari mæli með opnu hjarta og með opin augun og fyrst og fremst með mannúðarsjónarmið að leiðarljósi.

Mig langar aðeins að spyrja hæstv. ráðherra vegna þeirrar umræðu sem hefur verið uppi í tengslum við flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna og það að hve miklu leyti okkar framkvæmd samræmist þeim samningi. Hér er aðeins um stutt andsvar að ræða og við eigum auðvitað eftir að fara betur yfir þetta mál og þessi mál í nefndinni en mig langar að spyrja um þá framkvæmd að saksækja og dæma þá umsækjendur um alþjóðlega vernd sem koma til landsins með fölsuð skilríki, hver staða þeirra verði. Ég heyrði ekki í framsögu ráðherrans að það væri sérstakt efni til skoðunar en þetta er afar mikilvægur punktur sem flóttamannasamningurinn tekur á, þ.e. hver staða þessar aðila er, því að framkvæmdin hefur verið með mjög afgerandi hætti á Íslandi en er sannarlega ekki hafin yfir vafa að því er varðar þann ramma sem flóttamannasamningurinn setur sér.

Svo vildi ég líka spyrja hæstv. ráðherra um viðmiðunartímamörk varðandi málsmeðferðartímann. Það kom kannski fram í framsögunni en málsmeðferðartíminn hefur auðvitað sætt gagnrýni og ég spyr hvort það sé klárt í þessu frumvarpi (Forseti hringir.) hver málsmeðferðartíminn megi verða að jafnaði í þessum málum.



[13:08]
innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Helstu athugasemdir sem við höfum fengið vegna afgreiðslu okkar er lýtur að þessum málum er of löng málsmeðferð. Það er heilt yfir gagnrýnin sem við stöndum frammi fyrir og það er í samræmi við það sem ég sagði áðan og er auðvitað ekki boðlegt, að hvorki þeir sem eiga réttinn né þeir sem eiga hann ekki fái ekki slíkt svar. Það hefur verið stærsta gagnrýnin, til að halda henni til haga.

Hvað varðar fölsuðu skilríkin og sérstaka þætti er lúta að þeim hópum hefur verið og var hluti af þeirri heildarendurskoðun útlendingalaga sem var í gangi af hálfu fyrrverandi innanríkisráðherra — og ég ákvað, eins og ég hef upplýst þingheim um áður, að fá lengri tíma og aukið rými til að fara yfir þau eftir að ég kom inn í ráðuneytið vegna þeirra breytinga sem við töldum að þyrfti að fara í strax vegna gagnrýninnar um málsmeðferðina — að fara sérstaklega yfir það sem hv. þingmaður nefndi. Ég get því fullvissað hv. þingmann um að málið er í mikilli skoðun, hefur verið rætt af fulltrúum Sameinuðu þjóðanna, og þeir hafa komið til fundar í ráðuneytinu, og er hluti af þeirri vinnu sem ég nefndi að væri í gangi í ráðuneytinu. Einnig er til skoðunar hvort hægt er að fara inn í það verkefni með einhverjum hætti gegnum reglugerð. Þetta get ég upplýst þingheim um betur þegar þeirri vinnu lýkur, eins og ég sagði áðan, í lok febrúar og nákvæmlega hvaða skref við þurfum að taka næst.

Hvað varðar málsmeðferðarhraðann erum við í þeirri vinnu allri saman að miða við í orði en það er kannski erfiðara að gera það í frumvarpinu. Við erum að vinna út frá þeirri hugsun sem er í Noregi um að viðkomandi fái svar um hvort hann eigi rétt á umsókn um pólitískt hæli eða ekki innan 48 tíma. Það er hugsunin á bak við sérstaka kæruleið og að fullu starfandi og stöðugt starfandi teymi. Það gengur út á að viðkomandi fái svar um hvort hann eigi ekki rétt á pólitísku hæli og eigi samkvæmt Dyflinnar-samningnum að fara annað s o.s.frv. eða eigi fara í málsmeðferðina. Það þýðir hins vegar ekki að viðkomandi fái já innan þess tíma heldur tekur endanlegt jáyrði lengri tíma.



[13:10]
Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Hún vísar hér til heildarendurskoðunarvinnunnar og að þar verði tekin afstaða til þeirra mikilvægu spurninga sem er staða þeirra hælisleitenda sem koma með fölsuð skilríki til landsins. Mig langar að leita eftir afstöðu ráðherrans til þess máls sérstaklega og þá kannski líka þeirrar hugmyndar sem raunar kom fram í frumvarpi fyrrverandi innanríkisráðherra, hv. þm. Ögmundar Jónassonar, þar sem gert var ráð fyrir að leiða í lög að taki meðferð máls lengri tíma en 18 mánuði skuli viðkomandi umsækjandi eiga rétt á að fá dvalarleyfi af mannúðarástæðum þótt niðurstaðan verði á endanum neikvæð, að því gefnu að tafirnar séu á ábyrgð stjórnvalda en ekki umsækjandans sjálfs.

Þetta eru ákveðin mannúðarsjónarmið sem eru þarna undir og það má segja að þá snúist sú nálgun um að hagsmunir hælisleitandans séu svo ríkir að ekki verði við það unað að hann verði dreginn um svar eða niðurstöðu í sínu máli svo lengi öðruvísi en að lagabókstafurinn eða löggjafinn í raun og veru grípi inn í með þeim hætti að dvalarleyfið sé einfaldlega í hendi eftir þann tíma. Þetta er róttæk nálgun en ég hefði áhuga á því að heyra afstöðu hæstv. ráðherra til að skoða þau sjónarmið líka. Auðvitað var þetta í frumvarpi fyrrverandi innanríkisráðherra og þá geri ég ráð fyrir að þetta sé undir í skoðun þeirrar nefndar sem hæstv. ráðherra nefndi, en það væri áhugavert að heyra hvort ráðherrann hefur mótaða afstöðu til þessara þátta.



[13:12]
innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hvað varðar þennan einstaka þátt er það alveg rétt sem kemur fram í máli hv. þingmanns, alveg hárrétt eins og hún lýsir upplegginu sem var í frumvarpi fyrrverandi innanríkisráðherra um ákveðna nálgun í því. Við erum hins vegar með áherslubreytingu okkar, með innleiðingu á 48 tíma reglunni, með hraðari málsmeðferð að vonast til þess, og í því felst sú rýni sem við erum í núna og ég upplýsti hér áðan að lyki vonandi í lok febrúar, við gerum auðvitað ráð fyrir því að þessir 18 mánuðir verði aldrei 18 mánuðir, að við stöndum aldrei frammi fyrir 18 mánuðum.

Reynsla Norðmanna er sú að þrátt fyrir að þeir séu með 48 tíma regluna sé ákveðinn hópur sem tekur alltaf lengri tíma. Það getur verið að á endanum sé það einmitt sá hópur þannig að við þurfum einhverjar sérstakar leiðir hvað það varðar, en við vonumst að sjálfsögðu til þess að standa aldrei frammi fyrir því. Vegna þess vil ég ekki fella dóma um hvort ég sæi það fyrir mér nákvæmlega með þeim hætti sem hv. þingmaður lýsti, enda hef ég áður sagt að ég teldi rétt að fara aðeins betur yfir frumvarpið eins og það lá fyrir og þetta er eitt af því sem er verið að skoða af sérfræðingum og öðrum aðilum í ráðuneytinu og víðar. Við erum vonandi að fara inn í mjög öflugt samráð og samstarf við Rauða krossinn um þessi mál og erum að leita í smiðjur þeirra líka, bæði alþjóðlega og hér á landi, og ég vona innilega að við getum að einhverjum tíma liðnum sagt: Hér þarf enginn að bíða eftir svari í 18 mánuði.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til allsh.- og menntmn.