143. löggjafarþing — 57. fundur
 27. janúar 2014.
veðurfarsrannsóknir og markáætlun.
fsp. KJak, 180. mál. — Þskj. 222.

[16:54]
Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra sem gegnir einnig því hlutverki að vera formaður Vísinda- og tækniráðs, þar sem lagðar eru línurnar í stefnumótun hvað varðar rannsóknir og nýsköpun og hvað varðar hvert eigi til að mynda að stefna í markáætlun og öðrum slíkum tækjum sem stjórnvöld hafa til að hafa áhrif á rannsóknastefnu stjórnvalda. Ástæða þess að ég spyr er sú að Ísland liggur norðarlega og við fáum sífellt og ítrekaðar fréttir af áhrifum loftslagsbreytinga sem fáir efast um lengur. Nú síðast kynnti vísindanefnd Sameinuðu þjóðanna nýja skýrslu í haust. Hún sýndi þá þróun frá síðustu skýrslu þar á undan, sem kom árið 2007, að jöklar hafi bráðnað hraðar en áður var gert ráð fyrir, að yfirborð sjávar hafi hækkað hraðar og við vitum alveg hvað hækkun sjávarborðs þýðir fyrir íbúa á láglendari svæðum.

Þessar breytingar geta líka haft þau áhrif að sjálfsögðu að veðurfar verði öfgakenndara og síðan eru ýmsar afleiðingar sem eru kannski ekkert ræddar í daglegu tali eins og til að mynda súrnun sjávar sem við höfum tekið til umræðu í hv. umhverfis- og samgöngunefnd í sambandi við losun á koldíoxíði. Að sjálfsögðu erum við yfirleitt að hugsa um gróðurhúsaáhrif í andrúmslofti þegar við ræðum um aukna losun á koldíoxíði, en talsvert af koldíoxíðinu finnst líka í sjó og getur haft veruleg áhrif á lífríki sjávar og ekki síst hér á norðurslóðum þar sem hafið er jafnvel talið viðkvæmara en önnur svæði, það er ferskvatnsblandaðra en önnur hafsvæði og þá er sjórinn viðkvæmari fyrir sýrustigsbreytingum. Við getum því verið að horfa fram á miklar vistkerfisbreytingar hér á næstu árum og áratugum.

Það sem skiptir mestu í þessum málum er að við þurfum að hafa gögn og við þurfum að hafa rannsóknir til að byggja alla okkar ákvarðanatöku á. Þegar við horfum til að mynda til súrnunar sjávar skiptir þar mjög miklu máli að standa að reglulegri vöktun, því að þar tekur það ekki eitt kjörtímabil að fá niðurstöður, þar þurfum við að horfa til lengri tíma og fylgjast með. Þetta er auðvitað ein af undirstöðum fyrir okkar efnahag, þ.e. lífríki sjávar hér í kringum okkur, fyrir utan hinar hnattrænu afleiðingar sem ég hef ekki tíma til að fjölyrða um hér, en vænti þess að hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar séu vel heima í.

Mér finnst við hæfi að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji ástæðu til þess að Íslendingar leggi með einhverjum hætti sérstaka áherslu á að kanna loftslagsbreytingar, sýrustig sjávar og fleiri veðurtengda þætti í rannsóknum á Íslandi, til að mynda í tengslum við gerð markáætlana. Það er þó ekkert eina leiðin. Við höfum horft til að mynda á nágrannalönd okkar fara þær leiðir í vísindarannsóknum að þar eru settar á laggirnar ákveðin öndvegissetur í rannsóknum sem þykja þjóðhagslega (Forseti hringir.) og samfélagslega mikilvægar. Þannig að ég spyr hæstv. forsætisráðherra hvert hans sjónarmið sé í þessu máli.



[16:57]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni nokkuð áhugaverða fyrirspurn um mikilvægar rannsóknir.

Í nóvember síðastliðnum samþykkti Vísinda- og tækniráð nýja stefnu ársins 2016. Meðal verkefna samkvæmt stefnunni er að skilgreina sérstaklega þau viðfangsefni sem krefjast langtímafjármögnunar og leita leiða til að tryggja fjármögnun þeirra og hagnýtingu til rannsókna og nýsköpunar. Þau rannsóknarverkefni sem hér er spurt um sérstaklega og lúta að vöktun og mælingum á íslensku lífríki eru dæmi um verkefni sem krefjast langtímafjármögnunar. Slík verkefni þarf, eins og áður segir, að skilgreina vel og forgangsraða í samræmi við stefnu Vísinda- og tækniráðs.

Á vegum forsætisráðuneytisins vinnur nú starfshópur að aðgerðaáætlun á grundvelli hinnar nýju stefnu Vísinda- og tækniráðs. Sú vinna er í fullum gangi og verða drög að aðgerðaáætluninni kynnt fyrir ráðinu á næsta fundi sem haldinn verður í mars. Íslenskir vísindamenn vinna að margvíslegum rannsóknarverkefnum sem beinast að loftslagsbreytingum, sem sagt verkefnum innan rammaáætlunar ESB, og ekki síst verkefni sem forsætisráðherrar Norðurlandanna komu af stað og nefnist Toppforskningsinitiativet — TFI, og beinist að loftslagsbreytingum, umhverfi og orkumálum þar sem t.d. Veðurstofan og Háskóli Íslands eru virkir þátttakendur. Þá hafa íslenskir vísindamenn að auki verið í samstarfi við vísindamenn í Bandaríkjunum og Kína á þessu sviði.

Rannsóknir á loftslagsbreytingum, sýrustigi sjávar og öðrum veðurtengdum þáttum, eru að mínu mati í flokki mikilvægra rannsóknarverkefna sem brýnt er að huga að. Hvert vægi og forgangur slíkra rannsóknarverkefna á að vera gagnvart öðrum mikilvægum verkefnum er hins vegar sérstakt úrlausnarefni sem leysa þarf úr á hverjum tíma með hliðsjón af því takmarkaða fjármagni sem er til reiðu, en þessi vinna stendur sem sagt yfir í samræmi við þá yfirferð sem Toppforskningsinitiativet hefur lagt í.



[16:59]
Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Hér hefur ekki verið mikið fjármagn í samkeppnissjóðum á sviði vísindarannsókna og við höfum rætt það talsvert oft í þessum sal. Það var svo aukið og svo dregið úr því, ég ætla ekkert í þá umræðu hér og nú. En ég þykist vita að það sé nokkur einhugur almennt um að efla eigi þátt samkeppnissjóða við fjármögnun vísindarannsókna. Eins og hæstv. forsætisráðherra kom réttilega inn á gilda önnur lögmál um langtímaverkefni eins og hér um ræðir sem skila ekki endilega árangri strax. Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvert mat hans sé á því. Telur hann koma til greina að stjórnvöld í samráði við rannsóknarsamfélagið og í samráði við Alþingi skilgreini einhver sérstök þjóðhagslega mikilvæg verkefni á sviði rannsókna sem sé annaðhvort ástæða til að leggja áherslu á í markáætlun eða kanna eitthvert nýtt fyrirkomulag?

Ég nefndi áðan fyrirkomulag í nágrannalöndum okkar. Ég get nefnt Noreg sem dæmi þar sem sett hafa verið á laggirnar tíu öndvegissetur í rannsóknum sem stjórnvöld meta þjóðhagslega mikilvæg. Þau eru að vísu á milli ólíkra fræðasviða og við vitum að Norðmenn hafa haft úr talsverðu fjármagni að spila, þannig að ekki þarf endilega að horfa til tíu setra. En ég nefni þetta í ljósi þess hversu mikilvægt það hlýtur að vera fyrir okkur sem þjóð að geta tekið ákvarðanir í framtíðinni sem byggjast á rannsóknum og gögnum og að geta tekið mjög virkan þátt í þeirri umræðu sem er fram undan á alþjóðavettvangi.

Við ræðum hér til að mynda talsvert um norðurslóðamál. Þetta tengist auðvitað mjög þeim málum. Til að mynda bara það að þegar skipaleiðin opnast og við sjáum fram á aukna skipaflutninga eftir þeirri leið sem nú er verið að horfa til, má líka búast við aukinni staðbundinni mengun á (Forseti hringir.) norðurslóðum. Þá skiptir mjög miklu máli að mínu viti að Ísland gangi fram fyrir skjöldu sem mjög virkur aðili í öllum (Forseti hringir.) þeim umræðum og byggi sjónarmið sín á rannsóknum.



[17:02]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég get svo sem tekið undir flest eða allt í mati hv. þingmanns. Ég held að æskilegt sé að skilgreina hvaða verkefni eru þjóðhagslega mikilvægust eða varða okkur sérstaklega, þar sem við erum stödd hér í heiminum, og eðli samfélags okkar. Það er liður í því sem Vísinda- og tækniráð er að gera í yfirferð sinni. Ég tek reyndar sérstaklega undir það sem hv. þingmaður spyr um, það er nátengt norðurslóðamálum, raunar hluti af norðurslóðamálum. Þar af leiðandi er alveg eðlilegt að við, Íslendingar, sem erum núna að huga sérstaklega að þeim málaflokki og ný ríkisstjórn leggur á það mikla áherslu, hugum að rannsóknum sem því tengjast um leið.

Það er að ýmsu að hyggja og eitt af því sem er alltaf nefnt sem mikilvægt atriði í undirbúningi þeirra breytinga sem eru að eiga sér stað á norðurslóðum eru umhverfismálin, að koma í veg fyrir að breytingarnar leiði til óæskilegrar þróunar í umhverfismálum umfram það sem óhjákvæmilega fylgir, t.d. aukinni skipaumferð. Ég get því ekki annað en tekið undir mat hv. þingmanns.

Af því að hv. þingmaður nefndi sérstaklega markáætlanir og öndvegissetur og klasa er slík markáætlun í gildi núna, þriðja markáætlunin sem ráðist hefur verið í frá 2001, þ.e. markáætlun 2009–2015 um öndvegissetur og klasa. Framkvæmt var mat á stöðu verkefna árið 2011 af hópi erlendra sérfræðinga og öll verkefnin fengu að halda áfram og eru enn í gangi en eitt verður skoðað nánar á þessu ári vegna athugasemda frá árinu 2011. Svoleiðis að markáætlun varðandi öndvegissetur og klasa hefur gengið held ég ágætlega og bara prýðilega.