143. löggjafarþing — 59. fundur
 29. janúar 2014.
staðgöngumæðrun, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra, ein umræða.

[17:29]
heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Alþingi samþykkti ályktun 18. janúar 2012 þar sem velferðarráðherra er falið að skipa starfshóp til að undirbúa frumvarp til laga sem heimili staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Í ályktuninni sagði, með leyfi forseta:

„Við vinnuna verði m.a. lögð áhersla á að tryggja í fyrsta lagi hag og réttindi barnsins, að tryggja í öðru lagi rétt, sjálfræði og velferð staðgöngumóðurinnar og fjölskyldu hennar, og að tryggja í þriðja lagi farsæla aðkomu hinna verðandi foreldra. Skýrt verði kveðið á um traustan lagaramma, ströng skilyrði og skýrar verklagsreglur við framkvæmd og eftirlit staðgöngumæðrunar sem og hvernig best verði stuðlað að upplýstri umræðu um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni í samfélaginu. Við vinnuna verði faglegt mat og þekking, alþjóðlegar rannsóknir og reynsla annarra vestrænna þjóða lögð til grundvallar.

Frumvarpið verði lagt fram svo fljótt sem verða má.“

Fyrrverandi hæstv. velferðarráðherra Guðbjartur Hannesson skipaði þriggja manna starfshóp haustið 2012 en tilkynnti um leið að ekki væru forsendur til að afgreiða frumvarp fyrir alþingiskosningarnar.

Ég fékk málið í hendur sem heilbrigðisráðherra og á grundvelli stöðuskýrslu í júní 2013 á síðasta ári ákvað ég að styrkja vinnu nefndarinnar, m.a. með aðkomu sérfræðinga frá innanríkisráðuneyti. Um leið var sett áætlun um vinnu nefndarinnar en hana skipuðu Kristrún Heimisdóttir lögfræðingur, sem var formaður nefndarinnar, Hrefna Friðriksdóttir lögfræðingur og Sigurður Kristinsson heimspekingur.

Liður í þessari áætlun er sú mikilvæga umræða sem við efnum til hér í dag. Staðgöngumæðrun er ekki hversdagslegt viðfangsefni stjórnmála. Þess vegna taldi ég rétt og eðlilegt að gefa nýju Alþingi, þar sem óvenjumikil endurnýjun hefur orðið, tækifæri til að ræða og meta hvaða leiðir best sé að fara þegar og ef Alþingi telur rétt að setja lög um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Það er einnig von mín að umræða okkar í dag verði til þess að almenningur fái betri innsýn í viðfangsefnið þannig að opin, fordómalaus umræða eigi sér stað meðal landsmanna.

Ályktun Alþingis um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni felur í sér ákvörðun af hálfu þjóðþingsins um stefnubreytingu stjórnvalda á sviði sem er til mikillar umræðu hvarvetna í heiminum. Sífellt fleiri ríki og ýmsar alþjóðastofnanir fjalla nú af meiri alvöru en áður og þunga um hvaða stefnu skuli marka um staðgöngumæðrun. Ekkert ríki á Norðurlöndum leyfir staðgöngumæðrun í lögum eða viðurkennir hana með stuðningi opinberrar félags- eða heilbrigðisþjónustu. Stjórnvöld ríkja þar sem staðgöngumæðrun er ekki leyfð standa frammi fyrir því að tryggja verði börnum sem fædd eru af staðgöngumóður í fjarlægu landi sömu réttindi og öðrum, aðgang að velferðarþjónustu og önnur borgaraleg réttindi.

Stefnubreyting á Íslandi á þessu sviði er því vandaverk þar sem taka verður tillit til ýmissa þátta. Í fyrsta lagi hafa afar takmarkaðar rannsóknir verið gerðar á afstöðu og þroska og tengslum barna sem hafa orðið til við staðgöngumæðrun.

Í öðru lagi er ekki hægt að tryggja að löggjöf skili þeim árangri sem að er stefnt vegna flókinna félagslegra þátta, ekki síst vegna staðgöngumæðrunar yfir landamæri.

Í þriðja lagi er hér um að ræða leið til að eignast barn sem læknisfræðileg þekking gerir sífellt aðgengilegra fyrir fleira fólk. Sú þróun er, eins og allir þekkja, löngu hafin á Íslandi með lögum um tæknifrjóvganir, fjölbreyttari lögmæt sambúðarform einstaklinga en áður var og almenna og ófrávíkjanlega viðurkenningu velferðarþjónustunnar þar á. Staðgöngumæðrun er þó enn ólík öðrum leiðum og umdeildari út frá ýmsum siðferðilegum viðmiðum. Þetta á ekki síst við þegar horft er til áhrifa á velferð og heilsu barnsins, staðgöngumóður og tilvonandi fjölskyldu, hugsanlegrar markaðsvæðingar, misbeitingar vegna ójafnrar efnahagslegrar stöðu, hugsanlegs afsals mannréttinda staðgöngumóður með samningi við tilvonandi foreldra o.s.frv. Staðgöngumæðrun sem almenn og sjálfsögð þjónusta sem studd er af hinu opinbera með lagaumgjörð er mjög byltingarkennd stefnubreyting og hefur oft kallað á mikla og harða umræðu.

Í fjórða lagi yrði Ísland fyrst Norðurlanda til að stíga það skref að móta lagaumgjörð um staðgöngumæðrun sem almennan valkost barnlausra til að eignast börn. Nýjar samanburðarrannsóknir stofnunar Evrópusambandsins á löggjöf Evrópulanda sýna að lagaleg umgjörð staðgöngumæðrunar er mjög ólík og ekki samræmd, hvort sem í gildi er bann eða ekki eða hvernig reglum er háttað sem taka við eftir fæðingu barnsins. Umgjörðin virðist ráðast af menningarlegum og félagslegum þáttum í hverju landi. Á sama tíma er einnig vaxandi þungi í umræðunni um nauðsyn alþjóðasamvinnu og alþjóðlegra reglna vegna staðgöngumæðrunar yfir landamæri.

Sú stefnubreyting sem Alþingi ályktaði um 18. janúar 2012 er að íslensk lög mæli fyrir um að staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni skuli heimil hér á landi. Í þessu felst að staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni er bönnuð en innan ramma velgjörðar sé hún hluti af íslenskri heilbrigðisþjónustu. Kostnaði við hana verði mætt af hinu opinbera og framkvæmd af heilbrigðisstofnunum sem hafi til þess leyfi. Það markmið Alþingis sem skýrast er fram sett er að með því að setja skýrar reglur um staðgöngumæðrun hér á landi dragi úr líkum á því að pör leiti til úrræða erlendis sem hugsanlega geti brotið í bága við alþjóðasáttmála um vernd barna eða fallið undir misnotkun á líkama og sál konu sem gengur með barn.

Bent var á í nefndaráliti meiri hlutans að þegar hafi íslensk pör leitað til staðgöngumæðra í öðrum löndum, t.d. á Indlandi. Með stefnubreytingu yrði hægt að tryggja af Íslands hálfu skilyrðislausan rétt staðgöngumóður til að ráða yfir eigin líkama og því ekki lengur gert ráð fyrir að foreldrar og staðgöngumóðir geri með sér bindandi samning þar eð ekkert samkomulag getur tekið frá konu þann skýlausa rétt að ráða yfir eigin líkama. Þá voru og skilgreind markmið sem bersýnilega er ætlað að takmarka umbreytingaráhrif nýrrar stefnu og lagasetningar og ein skýrasta yfirlýsingin er um móðurhlutverkið þar sem segir að frumvarp um staðgöngumæðrun skuli ekki hrófla við grunnskilgreiningu móðurhugtaksins.

Þá var einnig kveðið á um að það skyldi verða skilyrði aðgengis að staðgöngumæðrun að læknisfræðilegar ástæður hindruðu móður í að eignast barn. Meiri hlutinn taldi mikilvægt að það yrði sett sem skilyrði fyrir tilvonandi foreldra að þeir geti eingöngu nýtt sér staðgöngumæðrun ef kona getur ekki eignast barn af læknisfræðilegum ástæðum.

Alþingi taldi einnig nauðsynlegt að setja viðurlög við brotum á banni við staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni en að staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni verði, eins og segir í nefndaráliti meiri hlutans, „fundinn staður innan hins opinbera heilbrigðiskerfis en ekki utan þess svo að kostnaði verði mætt af kerfinu en ekki komi til sérstakar greiðslur tilvonandi foreldra til staðgöngumóður.“

Forsendur umsóknar um staðgöngumæðrun verði ítarlega skoðaðar en einnig aðstæður parsins sem óskar eftir barninu sem og staðgöngumóður og fjölskyldu.

Virðulegi forseti. Segja má að Alþingi hafi með ályktun sinni árið 2012 brugðist við þeim veruleika að íslenskir ríkisborgarar sæki þegar þjónustu staðgöngumæðra til fjarlægra landa. Á Íslandi getur löggjafarvaldið illa hindrað slíkt, hvort heldur er fyrir fram með einhvers konar banni eða eftir á með því að hindra flutning barna til Íslands sem á sama hátt getur brotið gegn réttindum barnsins. Þess vegna verðum við að horfast í augu við nýjan veruleika, bregðast við honum og innleiða þetta úrræði í íslensk lög. Markmið Alþingis er að leyfa einungis staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni en banna staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni. Þarna er samspil skilyrða um aðgang, bæði staðgöngumóður og verðandi foreldra, að lögmætu ferli lykilatriði. Því þrengri sem sá aðgangur er því ólíklegra er að staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni sé fær hér á landi enda sé framkvæmdin einungis möguleg á heilbrigðisstofnun sem hafi til þess leyfi.

Við eigum að sjálfsögðu eftir að svara ótal spurningum, m.a. um aðgang fleiri en foreldra, þar sem móðirin er læknifræðilega ófær um að eignast barn, að staðgöngumæðrun. Spyrja má hvort sú afmörkun sé raunhæf og réttlát í ljósi meginreglna laga og mannréttinda. Skýrar reglur geta tryggt lögformlegt sjálfstæði staðgöngumóðurinnar, þ.e. að hún ráði öllum ákvörðunum sem varða eigin heilsu og barnsins, þ.e. að staðgöngumóðir geti tekið allar sömu ákvarðanir og aðrar mæður á meðgöngu og eftir fæðingu allt þar til hún tekur ákvörðun um að afsala sér þessum rétti.

Markmið Alþingis um góð samskipti, velferð barnsins og góð tengsl staðgöngumóður og fjölskyldu hennar og tilvonandi foreldra og fjölskyldu þeirra er erfitt að uppfylla. Skilgreiningaratriði staðgöngumæðrunar í öllum réttarkerfum er fyrir fram yfirlýsing hennar um að afhenda barnið nánast um leið og það er fætt öðru fólki sem foreldrum. Eitt erfiðasta lögfræðilega og siðfræðilega úrlausnarefnið sem tengist staðgöngumæðrun er hvenær og hvernig eigi að ganga frá afsali á foreldrastöðu. Er hægt að gera bindandi samninga fyrir fæðingu barns? Í þinglegri meðferð sinni árin 2011 og 2012 svaraði Alþingi þessari spurningu neitandi. Samkvæmt hefðbundnum íslenskum sjónarmiðum í samningarétti rúmast samningar af þessu tagi ekki innan réttarverndar samninga, hvorki samkvæmt meginreglum laga né settum samningalögum. Um leið er ljóst að einhvers konar persónulegt samkomulag er forsenda ferlisins. Afstaða til gjörningsins verður að vera sameiginleg án þess þó að vera bindandi afsal á foreldrarétti.

Að lokum vil ég hér í fyrri hluta minnar munnlegu skýrslu varpa fram þeirri hugsun til Alþingis að áður en endanleg ákvörðun liggur fyrir í þessum efnum þarf að svara mörgum spurningum en þó er þar ein sérstaklega brýn, spurningin um hvernig hin góðu tengsl barns og staðgöngumóður og fjölskyldu hennar og væntanlegra foreldra verði best tryggð. Þetta er sennilega sú spurning sem Svíar hafa m.a. glímt við í allnokkurn tíma þar sem spurt er hvort rétt sé að þau byggi á þegar orðnum tengslum, svo sem frændsemi eða vináttu, en í þá átt vísar t.d. niðurstaða meiri hluta sænska siðfræðiráðsins um staðgöngumæðrun sem kunngerð var á síðasta ári.

Að lokum þessa fyrri hluta skýrslu minnar vænti ég þess að við munum eiga málefnalega og góða umræðu í dag sem skilar okkur góðu veganesti inn í þá vinnu sem nú stendur yfir og lýkur væntanlega með framlagningu frumvarps um þetta mál þegar fram líða stundir og vonandi innan tíðar.



[17:43]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst af öllu í upphafi máls míns þakka hæstv. ráðherra fyrir þau vinnubrögð sem hann viðhefur í þessu máli. Sú munnlega skýrsla sem hann hefur hér flutt er góður grunnur til samtals og hinn skriflegi grunnur hennar sömuleiðis. Það er fagnaðarefni að fá svona vandaðan og yfirvegaðan grunn til umræðu um jafn flókið og vandasamt mál og það sem hér er til meðferðar.

Ég vil í fyrsta lagi minna á að í flokkssamþykkt Samfylkingarinnar er andstaða við að heimila staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Ég var sjálfur andvígur þeirri tillögu sem var grunnur þessarar vinnu sem hér um ræðir og efasemdir mínar í þessu máli hafa ekki minnkað.

Ég vil í fyrsta lagi nefna að mér finnst grunnhugmyndin um að tilvist alþjóðlegs markaðar, þjónustumarkaðar að þessu leyti, kalli á einhvers konar breytingar á reglum um staðgöngumæðrun af velgjörð ekki ganga upp. Það er engin sérstök ástæða fyrir því að alþjóðlegur þjónustumarkaður að þessu leyti þurfi að kalla á breytingar á reglum um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

Þau eru auðvitað margrædd sjónarmið kvenfrelsis sem skipta lykilmáli í þessu máli um að konur ráði líkama sínum, en það er ekki síður mikilvægt að varpa kastljósinu á þá staðreynd að með staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni verður til nýr einstaklingur sem hefur réttindi. Honum fylgja skyldur þeirra sem að honum standa og honum fylgja tilfinningar, væntingar og þrár, sem ekki er hægt að gera að fullu ráð fyrir eða leggja grunn að eða sjá fyrir í löggjöf.

Í hinni ágætu greiningu sem ráðherra hefur lagt fram er t.d. fjallað um að ekki sé hægt að leggja til grundvallar meginviðhorf samningsréttar að þessu leyti og því er ég sammála. Það sé heldur ekki hægt að binda móður fyrir fram. Það þýðir þá líka að hún hlýtur að hafa eitthvert svigrúm til þess að skipta um skoðun, og hver er réttur hennar til þess að skipta um skoðun eftir að barnið er fætt? Og hvernig er hægt með bindandi hætti að krefjast þess að manneskja afneiti tilfinningum sínum fyrir fram, ef menn gefa sér það, og ég er sammála því mati, að hin almennu viðmið samningsréttar eins og samningsfrelsisins gildi ekki á þessu sviði?

Það er heldur ekki einfalt að gera þennan greinarmun á hagnaðarskyni og velgjörð. Hvað með fólk í félagslega mun lakari stöðu? Hvað með fólk í mun lakari stöðu efnalega? Hvað með fólk sem á alls kostar, félagslega og efnalega, til þess að fara fram á ýmislegt af vinum og ættingjum? Þar færast auðvitað til mörkin milli velgjörðar og hagnaðarskyns. En það er líka þannig að um leið og við mundum festa í lög almennar reglur um staðgöngumæðrun af velgjörð færum við til markalínurnar um möguleika fólks á að standa gegn slíku og við breytum þrýstingnum á þær konur sem koma til greina sem staðgöngumæður. (Forseti hringir.) Við segjum að þetta sé ásættanlegt með ákveðnum hætti en það er staða sem ég er ekki farinn að sjá rök fyrir að geti byggt á siðferðilega sterkum grunni.



[17:47]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir skýrsluna og fyrir að taka þetta stóra mál til umfjöllunar. Hæstv. ráðherra leitar eftir umræðu um staðgöngumæðrun sem er, eins og hann bendir á, sannarlega ekkert hversdagslegt viðfangsefni í stjórnmálum.

Í skýrslu sinni fór hæstv. ráðherra yfir þau fjölmörgu álitamál sem enn eru ekki nægilega rædd eða útkljáð. Vandséð er hvernig mögulegt er að tryggja það sem segir í þingsályktunartillögunni, með leyfi forseta, „í fyrsta lagi hag og réttindi barnsins, að tryggja í öðru lagi rétt, sjálfræði og velferð staðgöngumóðurinnar og fjölskyldu hennar, og að tryggja í þriðja lagi farsæla aðkomu hinna verðandi foreldra.“

Starfshópur var skipaður um málið í janúar 2009 og í skýrslu sem hann skilaði í júní 2010, segir í lokaorðum að helstu rökin fyrir að leyfa staðgöngumæðrun séu þau að hún geti verið farsæl lausn á vanda þeirra sem eiga við ófrjósemisvanda að stríða. Helstu rök gegn staðgöngumæðrun séu að hætta sé á að litið sé á staðgöngumóðurina sem hýsil utan um barn.

Að undangenginni faglegri og ítarlegri skoðun lagðist sá starfshópur gegn því að heimila staðgöngumæðrun að svo stöddu. Í svo stóru siðferðilegu álitamáli er mikilvægt að áætlaður sé góður tími til rannsókna og umræðu og það gleymist ekki samhengið við rétt kvenna til yfirráða yfir eigin líkama og ekki má gleyma heldur rétti barna. Málið er ekki bara siðferðilegt heldur vakna í tengslum við það einnig lagalegar og læknisfræðilegar spurningar. Meðganga er ekki áhættulaus. Tekur velgjörðarkonan áhættuna og ber allan kostnað ef illa fer eða verður gerður samningur um slíkt? Hver er þá staða mála orðin? Ekki er hægt að gera bindandi samninga fyrir fæðingu barns eða hvað?

Ég tel mikilvægt að svo flókið málefni sem snertir einnig marga fleti mannréttinda þróist í takt við breytingar hjá okkar helstu nágrannaþjóðum, en eins og fram hefur komið leyfir ekkert Norðurlandanna staðgöngumæðrun né viðurkennir hana með stuðningi opinberrar félags- og heilbrigðisþjónustu. Einnig þarf að hafa í huga að málið getur varðað skuldbindingar og afstöðu Íslands til núverandi og væntanlegra alþjóðareglna á sviði mannréttinda.

Þó að mörk hafi verið máð og viðmið breyst um getnað barns, móðerni og faðerni með tæknifrjóvgun og fjölbreyttari sambúðarformum gengur staðgöngumæðrun langtum lengra og er, eins og hæstv. ráðherra bendir á, ólík og umdeildari frá siðferðilegum viðmiðum. Langt er í land að staðgöngumæðrun sem almenn og sjálfsögð þjónusta sem studd er af hinu opinbera með lagaumgjörð geti talist sjálfsögð og eðlileg. Spurningunni t.d. um hvernig koma megi í veg fyrir markaðsvæðingu og misbeitingu er fjarri því að vera svarað með fullnægjandi hætti.

Í þingsályktunartillögunni sem hæstv. ráðherra vinnur nú eftir er gert ráð fyrir frumvarpi um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. En hver eru mörkin á milli velgjörðar og hagnaðar? Hvernig getum við verið viss um að meint velgjörð sé veitt af fúsum og frjálsum vilja? Hætta er á að þrá fólks eftir því að ala upp barn verði sett ofar réttindum og hag staðgöngumóðurinnar. Ég tel alls ekki tímabært að setja lög sem heimila staðgöngumæðrun.

Hæstv. ráðherra lýsir í skýrslu sinni nokkuð vel vandanum við að uppfylla þær skyldur sem þingið hefur lagt á hann með þingsályktunartillögunni. Ég tel reyndar að ómögulegt sé að smíða lagafrumvarp sem tekur tillit til alls þess sem þingsályktunin segir að gæta þurfi að. En ég óska hæstv. ráðherra góðs gengis í glímunni við þetta stóra og krefjandi verkefni.



[17:51]
Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir yfirferð hans og ræðu og þakka honum raunar líka fyrir það verklag sem hann kynnir hér til sögunnar, þ.e. að við fáum afhenta ræðu hans áður en umræðan á sér stað til þess að tryggja betur dýpt og málefnalega nálgun í henni. Ég tel það vera til sérstakrar fyrirmyndar.

Eins og komið hefur fram er þetta kannski eitt af flóknustu umfjöllunarefnum samtímans og ég tek undir þau sjónarmið sem koma fram hjá hæstv. ráðherra, að full ástæða sé til þess að nýtt Alþingi fái að koma að málinu í ljósi þess hversu umdeilanlegt og umdeilt það er og að um það sé fjallað sérstaklega á grundvelli þess nýja umboðs sem nýtt Alþingi hefur.

Hæstv. ráðherra fór sérstaklega yfir ákveðin álitamál, til að mynda takmarkaðar rannsóknir, flókna félagslega þætti, siðferðileg álitamál o.s.frv. Í ræðu sinni segir hann, með leyfi forseta:

„Eitt erfiðasta lögfræðilega og siðfræðilega úrlausnarefnið sem tengist staðgöngumæðrun er hvenær og hvernig eigi að ganga frá afsali á foreldrastöðu. Er hægt að gera bindandi samninga fyrir fæðingu barns?“ Nei, segir Alþingi í þinglegri meðferð árin 2011 og 2012.

Þetta er, virðulegur forseti, ekkert smámál. Það er ekkert smámál að tala um samninga í kringum manneskjur. Þar koma inn slík mannréttinda- og siðferðissjónarmið að því verður í raun ekki líkt við neitt annað sem við fjöllum um hér á hinu háa Alþingi.

Það er fyrir það fyrsta stórkostlega varasamt og vafasamt út frá jafnréttis- og kvenfrelsissjónarmiðum að það sé hægt að halda því fram að konur séu einhvers konar vettvangur réttinda annarra einstaklinga. Í umsögn Femínistafélags Íslands um þingsályktunartillögu um staðgöngumæðrun á fyrra þingi segir, með leyfi forseta:

„Í áratugi hafa femínistar og aðrir mannréttindasinnar barist fyrir því að konur séu ekki settar í þá stöðu að þurfa að gefa frá sér barn. Það er hins vegar veruleiki sem hefur blasað við fátækari og/eða félagslega lægra settum konum í árhundruð og gerir enn víða um heim. Tilkoma fóstureyðinga og uppbygging velferðarkerfisins hafa leitt til þess að fáar konur hér á landi þurfa að standa í þeim sporum. Sé staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni heimiluð með lögum er verið að heimila fólki að biðja konur, sem standa þeim nærri, um að ganga með barn til að gefa það frá sér.“

Það er stórkostlega varasamt að ganga út frá því yfir höfuð að það séu réttindi fólks að eignast börn með hvaða ráðum sem er og að þar með sé litið á konur sem eins konar vettvang fyrir annarra vilja, að konur, æxlunarfæri þeirra og líkami séu verkfæri í þeim tilgangi til að tryggja öðrum sín markmið.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð er femínískur flokkur og hefur ítrekað fjallað um þetta vandasama mál á sínum vettvangi. Hann hefur komist að þeirri niðurstöðu að þetta sé óráð. Flokkurinn sem slíkur hefur sett sig gegn staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Reynsla annarra þjóða hefur líka sýnt okkur að það er erfitt að koma í veg fyrir að þær aðstæður skapist að velgjörðarskyn breytist í hagnaðarsjónarmið. Það verður að hafa í huga að öllum meðgöngum og fæðingum geta fylgt óþægindi, kvalir og mikil áhætta. Það er því erfitt að sjá hvernig hægt er að koma í veg fyrir kúgun eða þvingun þegar kemur að staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni, sérstaklega þar sem staða kvenna er í raun og veru veikari en staða karla í öllu tilliti. Konur sem afhenda líkama sinn tímabundið til æxlunar fyrir markmið annarra eru í þeirri stöðu að vera í raun hlutgerðar.

Eins og komið hefur fram er staðan í fátækari ríkjum enn alvarlegri þar sem skortur er á regluverki, fátækt og veik staða kvenna gerir það að verkum að konur í stórum stíl ganga með börn fyrir barnlaus hjón af Vesturlöndum sem greiða fyrir það, oft þriðja aðila. Þar koma inn enn þá flóknari siðferðileg sjónarmið sem varða þá forréttindastöðu sem við erum í hér á Vesturlöndum gagnvart fátækari hlutum heimsins.

Virðulegur forseti. Mig langar í lok máls míns að vitna í grein eftir Kajsu Ekis Ekman, sem er blaðakona og femínisti. Drífa Snædal þýddi grein eftir hana undir heitinu Við erum ekki vélar, við erum ekki náttúruauðlindir. Þessi grein er fylgiskjal við umsögn Femínistafélags Íslands.

Í lok greinar Kajsu segir, með leyfi forseta:

„Er þetta einfalt mál? Nei. Látum við undan þrýstingi? Já, statt og stöðugt. Markmiðið á samt alltaf að vera hið sama, annars getum við jarðað jafnréttisbaráttuna strax. Er það ekki annars grunnurinn að jafnréttisbaráttunni, að konur eigi ekki að vera verkfæri í höndum annarra, hvort sem það eru feður, makar, Vatíkanið, einmana karlar, karlar með völd, valdalausir karlar eða ófrjóar konur? Við eigum að lifa kynlífi þegar við viljum sjálfar og eignast börn þegar við þess óskum. Við erum ekki vélar, við erum ekki náttúruauðlindir. Andstaðan við staðgöngumæðrun snýst einfaldlega um rétt okkar til að vera heilar manneskjur.“



[17:58]
Jóhanna Kristín Björnsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir skýrsluna.

Fjölskyldan er hornsteinn samfélagsins. Að tilheyra fjölskyldu hefur fylgt mannkyninu frá örófi alda. Grunninn að hugtakinu fjölskylda má rekja allt til Biblíunnar. Í Mósebók kemur fram áherslan á að stofna til hjúskapar og að maður og kona eigi að vera frjósöm og fjölga mannkyninu. Aristóteles er talinn vera einna fyrstur þeirra sem skrifaði um hugtakið fjölskyldu. Hann fjallaði um hin stöðluðu hlutverk fjölskyldunnar sem mynda saman grunneiningu samfélagsins. Flestir vilja eignast fjölskyldu en sumir geta það ekki sökum veikinda eða líffræðilegra orsaka og þurfa því að leita annarra leiða.

Undanfarin ár hefur verið þó nokkur umræða um staðgöngumæðrun á Íslandi. Í dag er staðgöngumæðrun bönnuð hér á landi samkvæmt lögum. Hugtakið staðgöngumæðrun, eins og það er skilgreint í lögum nr. 55/1996, um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna, felur í sér að tæknifrjóvgun er framkvæmd á konu sem hyggst ganga með barn fyrir aðra konu og að staðgöngumóðirin hafi fallist á það fyrir meðgönguna að láta barnið af hendi strax eftir fæðingu til væntanlegrar ættleiðingar og uppeldis hjá þeim foreldrum sem tækju við barninu.

En hverjir þurfa á staðgöngumæðrun að halda? Það eru konur sem misst hafa legið vegna sjúkdóma eða áverka og konur sem fæðst hafa án legs, konur sem mega ekki ganga með barn sjálfar vegna sjúkdóma, konur sem hafa leg en þrátt fyrir góð gæði fósturvísa ná þeir ekki haldi. Legið sjálft er vandamálið.

Aðstæður staðgöngumæðra geta verið mismunandi. Staðgöngumóðir í velgjörðarskyni er sú sem gengur með barn fyrir aðra og gerir það eingöngu vegna mannúðarsjónarmiða og löngunar annarrar manneskju til að láta þann draum rætast að eignast barn. Staðgöngumóðir fær enga greiðslu en foreldrar barnsins greiða allan útlagðan kostnað vegna meðgöngunnar.

Staðgöngumóðir í hagnaðarskyni er sú kona sem gengur með barn fyrir aðra konu og gerir það eingöngu vegna þóknunar. Sú aðferð er oftar en ekki notuð af efnuðu fólki sem þráir að eignast barn og er oft og tíðum örvæntingarfullt og gerir nánast hvað sem er til að ná markmiði sínu. Þessi aðferð er lögleg í nokkrum löndum og virðist vera framkvæmd vegna fátæktar staðgöngumóðurinnar.

Við þingmenn þurfum að horfa á þetta út frá siðferðilegu sjónarhorni. Flestir eru sammála um neikvæða þáttinn vegna staðgöngumæðrunar í hagnaðarskyni. Hefur staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni verið líkt við vændi, að kona sé tilbúin að nota líkama sinn í annarlegum tilgangi. Oft eiga þær konur við mikla fátækt og þröngar félagslegar aðstæður að etja.

Hæstv. forseti. Ég er á þeirri skoðun að skoða þurfi þetta mál gaumgæfilega. Málið er umdeilt út frá siðferðilegum rökum. Ég er þó jákvæð með framhaldið og niðurstöðu þingsins. Það eru vankantar á þessu máli eins og öðrum. Ég spyr: Er möguleiki að setja reglur um staðgöngumæður, þ.e. að sérhver staðgöngumóðir megi einungis ganga með barn fyrir aðra konu einu sinni? Með því væri jafnvel hægt að draga verulega úr líkum á að staðgöngumóðirin geri slíkt í hagnaðarskyni en ekki í velgjörðarskyni. Þar að auki þyrfti staðgöngumóðirin að vera búin að ganga í gegnum að minnsta kosti eina fæðingu áður, en auk þess þyrfti auðvitað að kanna bakgrunn staðgöngumæðra.

Hæstv. forseti. Málið þarf að þróast í umræðunni hér á landi áður en tekin er ákvörðun um að lögleiða staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Margir hafa bent á að við þyrftum að vera í samfloti með hinum Norðurlöndunum í svo stóru siðferðilegu máli. Ég fagna að umræðan fari fram hér á landi því að eftir því sem mál eru betur krufin með umræðu opnast augu fólks fyrir þeim möguleika, en eins og ég sagði í upphafi er fjölskyldan hornsteinn samfélagsins.



[18:04]
Björt Ólafsdóttir (Bf):

Herra forseti. Við ræðum hér um undirbúning á frumvarpi sem heimilar staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Ég vil byrja á því að þakka ráðherra fyrir að lýsa yfir vilja sínum við að breyta og bæta og laga alla hluta verksins að óskum, áhyggjum og vonum þessa þings, sem hefur málið nú til meðferðar.

Margir bera von í brjósti um að þetta verði að veruleika, en ég verð að segja, herra forseti, að ég hef af þessu talsverðar áhyggjur og legg áherslu á að við flýtum okkur hægt. Þessi umræða er margslungin og vekur upp margar siðferðilegar spurningar.

Eins og kom fram í máli ráðherrans er staðgöngumæðrun hluti af hnattrænu umhverfi. Í löndum eins og Indlandi er kominn markaður þar sem vestrænir, vel stæðir foreldrar leita til indverskra kvenna og leigja af þeim líkama þeirra til þess að ala sér barn.

Við stefnumörkun í velferðarmálum höfum við Íslendingar mikið til fylgt Norðurlöndunum og höfum með stolti kennt velferðarmódel okkar við hið norræna. Ekkert Norðurlandanna leyfir staðgöngumæðrun í lögum sínum.

Eins og fram kom í máli ráðherra hér að framan eru álitaefnin mörg og ég ætla að tæpa á nokkrum þeim helstu eins og þau koma fram í máli Ástríðar Stefánsdóttur, læknis og heimspekings, sem er jafnframt dósent í hagnýtri siðfræði við menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Hún skrifar svo í Fréttablaðinu þann 29. janúar árið 2011:

„Staðgöngumæðrun hefur tilhneigingu til að markaðsvæðast — taka að lúta lögmálum framboðs og eftirspurnar. Þá myndast verð fyrir barnið og konan sem gengur með barnið gerir það að einhverju leyti fyrir greiðslu jafnvel þó um velgjörð sé að ræða (greiðsla er þá hugsuð sem uppbót fyrir miska eða vinnutap). Nú þegar eru til stór fyrirtæki erlendis sem annast milligöngu um slíka þjónustu og á undanförnum árum hefur orðið til iðnaður á þessu sviði sem veltir stórum fjárhæðum. Það sem þetta þýðir í raun er að barnið og líkami konunnar verður að söluvöru.

Sé staðgöngumæðrun leyfð á annað borð er mikilvægt að það leiði ekki til kúgunar staðgöngumóðurinnar. Það að taka að sér að ganga með barn sem maður hyggst gefa frá sér til annarra einstaklinga að meðgöngu lokinni getur skapað viðkvæma árekstra. Þeir sem munu taka við barninu hafa tilhneigingu til að vilja stjórna lífi konunnar á meðgöngunni þar sem konan gengur með „þeirra barn“. Mikilvægt er að viðurkenna að þungi konu á meðgöngu er ávallt hluti af líkama hennar og hver kona ræður sjálf líkama sínum. Ef vikið er frá þessu er stutt í þá túlkun að meðgöngumóðirin sé ekki persóna sjálf heldur sé hún fremur hluti af líkama barnsins sem hún gengur með. Staðgöngumóðir verður því að ráða sjálf yfir líkama sínum á meðgöngu. Enginn annar en hún ákveður hvort hún lýkur við meðgönguna eða ekki ef álitamál koma upp. Það eru því engar forsendur fyrir að gera við hana bindandi samning sem kvæði á um að hægt væri að stefna henni ef henni snerist hugur í ferlinu. Slíkur samningur væri brot á mannréttindum hennar. Slíkir samningar eiga heima í viðskiptum en ekki á sviðum sem varða mannhelgi einstaklinga og málefni fjölskyldna.“

Ástríður Stefánsdóttir heldur áfram:

„Það er vandmeðfarið hvernig á að afmarka þann ramma sem ákvarðar hverjir eigi að hafa aðgang að þjónustu staðgöngumæðra. Spurningar um mismunun einstaklinga og hópa vakna mjög auðveldlega. Ef einungis er miðað við gagnkynhneigð pör og tilvik þar sem konan hefur ekki leg má gera ráð fyrir að mörgum þætti það óréttlát niðurstaða. Til eru aðrir sjúkdómar hjá konum sem gera það að verkum að þær geta ekki gengið með barn en eiga engu að síður enga ósk heitari en að fá barn. Einnig er það í algeru ósamræmi við lög okkar að binda þessa þjónustu einvörðungu við gagnkynhneigða einstaklinga og pör. Jafnframt er líklegt að erlend pör hefðu hug á að nýta þá þjónustu sem hér væri boðið upp á.“

Hér kemur Ástríður að mikilvægum punkti.

„Við erum aðilar að samningi um opinn aðgang að heilbrigðisþjónustu á Evrópska efnahagssvæðinu. Það er því ekki ljóst hvernig við getum meinað einstaklingum þaðan aðgang að þjónustunni. Með víðan og opinn aðgengisramma er erfiðara að koma í veg fyrir algera markaðsvæðingu á ferlinu.“

Herra forseti. Mér þótti ræða ráðherra mjög góð og hann tæpti á mörgum þeim málum sem við verðum að fá að skoða saman yfir lengri tíma. Þegar þessi þingsályktunartillaga var afgreidd minnir mig að ég hafi séð einhvers staðar að í henni væri gert ráð fyrir að þessi lög kæmu fram eigi síðar — einhvern tíma í fortíðinni sem sagt — en árið 2011, held ég. Það má ekki afgreiða þessa hluti, svona ofboðslega viðkvæma siðferðilega hluti svona hratt. Við verðum að fá rými til að tala um hlutina og vera viss um það að samfélagið vilji þetta og sé tilbúið í svona drastíska breytingu.

Við verðum að byrja á að svara grunnspurningunum. Eru það mannréttindi allra að eignast börn? Ég get ekki svarað því, mér finnst það stór spurning. Það er réttur allra barna að eiga foreldra en ég er ekki viss um að það sé réttur allra að eignast börn. Við þurfum að byrja á þessu, taka skrefin hægt og rólega vegna þess að lagafrumvarp um staðgöngumæðrun er svo stórt mál að við afgreiðum það ekki með hraði og við þurfum að gera það að vel ígrunduðu máli. Annars getur komið upp sú staða að við, jafnréttislandið Ísland sem fær fyrir það verðlaun úti í heimi, erum komin á ískyggilegt svæði ef við vöndum okkur ekki afskaplega vel.



[18:12]
Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að gefa okkur færi á að ræða um þetta mikla álitaefni.

Nú er það svo að innst í okkur öllum blundar einhver vörnuður gegn því að þessi leið sé valin. Hins vegar geta fjölmargir ekki eignast börn, ýmissa hluta vegna. Í gegnum söguna hafa átt sér stað barnsgjafir, getum við sagt, við þekkjum sjálfsagt öll dæmi um það að systur hafa gefið börn sín á milli vegna þess að önnur gat ekki eignast barn eða að börn hafa verið ættleidd erlendis frá. Það má segja að þetta sé angi af því þó að við séum þarna komin með hlut sem er meiri hætta á að sé misnotaður.

Eins og kom fram í máli hv. þm. Jóhönnu Björnsdóttur felur staðgöngumæðrun í sér, eins og hugtakið er skilgreint í lögum, að tæknifrjóvgun er framkvæmd á konu sem hyggst ganga með barn fyrir aðra konu og hefur fallist á það fyrir meðgönguna að láta barnið af hendi strax eftir fæðingu.

Þegar þetta hefur verið rætt hefur líka verið lögð áhersla á það að eggin séu ekki úr staðgöngumóðurinni, að eggið komi annaðhvort frá móðurinni sem á að taka við barninu ef hún getur framleitt egg, en eins og fram hefur komið geta verið ýmsar ástæður fyrir því að hún getur ekki haldið fóstri í legi, eða að eggið komi frá einhverjum öðrum en staðgöngumóðurinni. Í fræðilegri umræðu er lögð áhersla á það að fruman, kynfruman, þ.e. annaðhvort sæði eða eggfruman komi frá öðru hvoru verðandi foreldri, sáðfrumur frá karlinum eða egg frá móðurinni. Það er væntanlega hugsað þannig að tengslin við barnið geti orðið meiri og menn þekkja það auðvitað að tengsl við eigið hold og blóð eru mjög sterk.

Hins vegar erum við þá komin að því að kona sem gengur með barn binst því mjög sterkum böndum við allar eðlilegar aðstæður. Þegar kona tekur að sér að ganga með barn fyrir aðra konu getur hún vel búist við því að eiga mjög erfitt með að láta það barn frá sér í fyllingu tímans. Það er kannski ekki hægt að sjá fyrir hvaða tilfinningar muni bærast í brjósti staðgöngumóðurinnar þegar hún stendur frammi fyrir veruleikanum.

Við höfum þá stöðu að við erum hugsandi verur og það á líka við um væntanleg börn. Við sem hugsandi verur höfum öll þessa innbyggðu þrá að vilja vita hver uppruni okkar er, einnig barn sem er til komið á þennan hátt þegar það vex upp. Börn sem hafa verið ættleidd vilja iðulega komast að því hver uppruni þeirra er í raun og veru. Eins og lögin um tæknifrjóvgun eru núna getur gjafinn, hvort sem það er eggjagjafi eða sæðisgjafi, farið fram á að óheimilt sé að gefa upp hver hann er. Það er því að mjög mörgu að hyggja og ég held að það þurfi á allan hátt að vanda mjög til (Forseti hringir.) lagasetningarinnar ef við förum þá leið að heimila staðgöngumæðrun.



[18:17]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra alveg sérstaklega fyrir þá málsmeðferð sem við tökum þátt í, sem sagt að hæstv. ráðherra hefur lagt fram munnlega skýrslu, eins og hann kallar sína fyrri skýrslu, en við þingmenn höfum reyndar þegar fengið hana skrifaða í hendur fyrir fram. Ég vil þakka honum alveg sérstaklega fyrir þá málsmeðferð. Eins og hæstv. ráðherra sagði í ræðu sinni þá er staðgöngumæðrun ekkert hversdagslegt viðfangsefni í stjórnmálum.

Það er skemmst frá því að segja að fyrir tveimur árum þegar þingsályktunartillagan var til meðferðar hér þá greiddi ég atkvæði gegn henni. Ég taldi að við værum alls ekki komin á þann stað að við gætum samþykkt að semja skyldi frumvarp um þetta mikla efni. Við vorum fjögur sem lögðum fram breytingartillögu við þingsályktunartillöguna, hv. þingmenn Árni Þór Sigurðsson, Birgitta Jónsdóttir, Eygló Harðardóttir og ég. Breytingartillagan var þess efnis að starfshópurinn skyldi skoða álitamál um staðgöngumæðrun, sem mér sýnist þessi starfshópur hafa gert, auk þess hefur hópurinn sett fram hugmyndir að því að hann hyggist leggja fyrir lagafrumvarp, en það er það sem þingið samþykkti að yrði gert.

Hæstv. ráðherra segir réttilega: Það er vandasamt ef leyfa ætti staðgöngumæðrun. Í fyrsta lagi er líðan barnsins alltaf í fyrirrúmi. Í öðru lagi er það spurningin um hvort yfirleitt er hægt að uppfylla markmiðið um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Í þriðja lagi er nefnd réttarstaða barnsins ef staðgöngumæðrun fer fram án milligöngu hins opinbera. Í fjórða lagi eru nefndar til siðferðilegar spurningar sem varða velferð og heilsu barnsins, staðgöngumóður og tilvonandi fjölskyldu. Við þurfum að velta fyrir okkur hugsanlegri markaðsvæðingu, misbeitingu vegna ójafnrar efnahagslegrar stöðu og ýmsu sem margir þingmenn hafa farið yfir í máli sínu hér. Í fimmta lagi er nefnt að Ísland yrði fyrst Norðurlandanna til að leyfa staðgöngumæðrun, ef við gengjum svo langt.

Það er það atriði sem ég hef minnstar áhyggjur af í þessu. Samt sem áður væri það nægileg ástæða fyrir mig til að segja nei, við eigum að bíða. Þó að það sé það sem ég hef minnstar áhyggjur af þá mundi það nægja mér til að greiða atkvæði gegn því að við leyfðum hér staðgöngumæðrun.

Starfshópurinn hefur sett fram hvernig hann hyggist semja frumvarp eins og fyrir hann var lagt. Þar koma fram ýmis álitaefni. Við getum t.d. sagt, eins og þar kemur fram: Er ekki réttlátara að allir þeir sem ekki geta eignast börn af einhverjum ástæðum geti þá notað staðgöngumæðrun frekar en bara þær konur sem ekki geta það af því að þær vantar leg eða annað? Það er út af fyrir sig mjög réttmæt spurning og ég er sammála því sem fram kemur hjá hópnum að það væri þá réttara að allir hefðu tækifæri. En það nægir samt ekki. Vissulega þarf að ræða allar þær spurningar sem þar koma fram en í mínum huga er það grundvallaratriði að það verður aldrei hægt að setja nein lög sem mundu verja konu gegn því að verða hugsanlega fyrir þrýstingi, jafnvel frá sínum nánustu, um að ganga með barn (Forseti hringir.) og nota líkama sinn til að ganga með barn sem hún þyrfti að gefa frá sér. Það eru engin lög sem geta varið rétt konunnar í því efni (Forseti hringir.) og þess vegna eigum við ekki að leggja út á þá braut.



[18:22]
Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum skýrslu hæstv. heilbrigðisráðherra, munnlega skýrslu sem hann flytur á Alþingi vegna undirbúnings lagafrumvarps um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni, eins og það heitir hér.

Ég vil fyrir það fyrsta fagna því þó að seint sé miðað við þingsályktunartillöguna og þann tíma sem liðinn er að skýrslan sé flutt og sú umræða eigi sér stað sem hefur verið kallað eftir á hinu háa Alþingi til að fá fram, enn einu sinni, ólík sjónarmið, virðingu fyrir sjónarmiðum hver annars, að sjónarmiðin komi fram, því að eins og hæstv. ráðherra segir er það ekki hversdagslegs eðlis hjá stjórnskipuninni eða Alþingi að fjalla um að setja lög um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

Það er rétt sem kemur fram í skýrslunni að Alþingi ályktaði um staðgöngumæðrun 18. janúar 2012, fyrir tveimur árum síðan, og sú þingsályktun er auðvitað í fullu gildi. Í þeirri þingsályktun, sem samþykkt var með miklum meiri hluta, kom fram vilji þingsins. Þar stóð að frumvarpið yrði lagt fram svo fljótt sem verða mætti. Það varð að vera samkomulag um að hafa það orðalag en ekki dagsetningu eins og sett var fram í tillögunni sjálfri þegar hún kom frá nefnd.

Þess vegna fagna ég því að skýrslan sé komin fram, að umræðan fari fram, að ólík sjónarmið komi fyrir hæstv. ráðherra til frekari vinnu þeirrar nefndar eða starfshóps sem hæstv. fyrrverandi velferðarráðherra Guðbjartur Hannesson skipaði haustið 2012, þriggja manna nefnd. Eins og hér hefur komið fram hefur verið bætt við sérfræðingi frá innanríkisráðuneytinu og vinnan hefur átt sér stað. Í þessari stuttu skýrslu ætla ég ekki að fara yfir þau atriði sem hæstv. ráðherra leggur fram sem hluti sem munu verða í frumvarpi.

Það er gott mál að þetta skuli vera rætt vegna þess að í millitíðinni hefur verið kosið til Alþingis og hefur orðið töluverð breyting á skipun þingmanna á Alþingi, það hafa orðið töluverðar mannabreytingar og maður veit svo sem ekki neitt hvernig staðan er í dag. Eins og við vissum þegar við ræddum þingsályktunina á sínum tíma haustið 2011, sem lauk með samþykktinni eins og áður sagði 18. janúar 2012, eru mörg siðferðileg álitamál og félagar innan flokka skiptust á að vera með og á móti sem er ekkert óeðlilegt, verður þetta aldrei flokkspólitískt mál, þarna eiga menn eingöngu við sína sannfæringu. Ég vísa í þær ræður sem ég flutti um málið þá, vinnu mína í þáverandi heilbrigðisnefnd, ég held ég muni það rétt, hún var ekki orðin að velferðarnefnd að mig minnir, sem fór fram þar og var sett fram í þessari þingsályktunartillögu og þeirri miklu greinargerð sem var lögð fram. Eins og kemur fram hér yrðum við fyrst Norðurlanda til þess ef Alþingi samþykkir lög um staðgöngumæðrun. Það er jafnframt svolítið vandamál vegna þess að okkar litla stjórnsýsla hefur oft notað reynslu annarra þjóða sem við berum okkur saman við, t.d. Norðurlandaþjóða, til að semja frumvarp og setja í lög það sem við viljum hafa þar og við höfum nýtt okkur reynslu annars staðar frá. Hér erum við því í raun og veru að ryðja brautina og þess vegna get ég ekki gagnrýnt það mjög að þetta skuli ekki ganga hraðar.

Ég lýk máli mínu með því að fagna þessari skýrslu, vísa í fyrri ræður mínar og hvet til þess að áfram verði unnið markvisst að frumvarpi sem kæmi hingað til Alþingis og Alþingi gæti þá lýst vilja sínum.



[18:26]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir þá aðferð sem hann notar til að ræða þetta mál. Það eru orð að sönnu að hér er ekki einfalt verkefni á ferðinni, álitamálin alveg gríðarlega mörg og umræðan flókin, alveg sama hvaða skoðun menn kunna að hafa á efninu. Það er alveg á hreinu.

Það er mjög mikilvægt í þessu máli að við berum virðingu fyrir skoðunum hvers og eins og reynum eftir fremsta megni að hlusta af athygli á þær röksemdir sem koma fram, burt séð frá því úr hvaða átt þær kunna að koma. Ég fyrir mitt leyti hef ekki myndað mér neina endanlega skoðun á því hvernig ég lít á málið en er engu að síður mjög hugsi yfir því hvort þetta sé hreinlega tímabært, hvort sem við komumst að þeirri niðurstöðu eða ekki á einhverjum tímapunkti að við eigum að fara af stað og semja lög.

Það ber fyrst að nefna að það er ákaflega mikilvægt í því samhengi að ef og þegar við förum þessa leið þá má alls ekki ganga á rétt staðgöngumóðurinnar til umráða yfir eigin líkama. Það er mikilvægt að hafa í huga að á meðgöngunni eins og á öðrum tímum hefur hún allan umráðarétt yfir líkama sínum. Það verður líka að muna að í því sambandi er í rauninni erfitt að gera einhvers konar samkomulag um hvernig staðgöngumóðirin á haga lífi sínu meðan á meðgöngunni stendur vegna þess að það sé í þágu foreldra verðandi barns. Þetta er ekki einfalt.

Það er líka hægt að velta því upp hver sé réttur þeirra einstaklinga sem „lána“ erfðaefni sitt til staðgöngumóðurinnar að ganga með í þeirri von að niðurstaðan verði barn sem tveir einstaklingar eignast. Þá erum við að nálgast álitaefni úr hinni áttinni vegna þess að réttarstaða beggja aðila sem koma að þessu getur verið býsna flókin. Við þurfum að treysta okkur til að svara þessum spurningum áður en við göngum þennan veg. Við verðum í allri lagasetningu að tryggja eða alla vega reyna að tryggja að félagslegur þrýstingur verði ekki til þess að kona ákveði að ganga með barn annarra aðila og við verðum að hafa í huga að það er kannski ekki mjög auðvelt að setja í lög hvernig við getum hindrað, hvað má segja, hugtak eins og „félagslegan þrýsting“. Það er ekkert einfalt mál.

Við verðum líka að hugleiða hvernig við getum tryggt að um velgjörð sé að ræða. Ef við getum ekki með nokkru móti tryggt það má spyrja hvor við séum tilbúin til að stíga skrefið eða hvort okkur finnist á hinn bóginn að málefnið sé svo mikilvægt að við verðum að reyna. Það getur líka verið.

Við skulum hafa í huga að jafnvel þar sem staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni hefur verið leyfð hefur því miður, alla vega í sumum tilfellum, orðið til einhvers konar verð. Hvaða afstöðu tökum við til þess og hvernig ætlum við að taka afstöðu til þess? Hvernig getum við gert það?

Menn hafa velt mikið fyrir sér að undanförnu, og eru raunar farnar að birtast um það allnokkrar fræðigreinar, tengslum heilsu barns og hegðunar, líðanar og lifnaðarhátta móður á meðgöngunni. Hvað vitum við til að mynda um líðan staðgöngumóður sem veit að hún mun ekki eignast barnið sem hún fæðir heldur einhverjir aðrir? Vitum við eitthvað möguleg áhrif þeirrar líðanar og hugsunar á ófætt barnið? Hér er ég ekki að tala einhverja bábilju heldur eru menn þegar farnir að birta fræðigreinar um þetta og mikilvægt að menn hafi það í huga.

Ég vil að lokum hvetja ráðherra eindregið til að halda áfram að vinna með málið. Ég hvet hann jafnframt til að gefa sér ekkert fyrir fram í þessum efnum, reyna með öllum tiltækum ráðum að dýpka umræðuna eins og hægt er og taka sér allan þann tíma sem þarf.



[18:32]
Jóhanna María Sigmundsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Það hefur aldrei farið leynt að ég hef verið frekar hlynnt því að leyfa staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni hérlendis. Eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra þá var lagt upp með mjög ströng vinnuskilyrði fyrir vinnu skýrslunnar sem hann fór hér fyrir. Helstu mótmælaraddir tala um réttindi barnsins en sérstaklega var tekið fram að fyrst og fremst ætti að tryggja réttindi og hag barnsins. Hér hafa margir talað um að verið sé að fara illa með þá konu sem tæki að sér að vera staðgöngumóðir og hin hörðustu rök hafa talað um að verið væri að nota hana sem geymslu og þetta jaðri við vændi eða mansal.

Við skulum hafa eitt á hreinu. Það er enginn sem vill leggja upp í lögleiðingu á frjálsri staðgöngumæðrun án þess að hafa rökstuðning, strangan lagaramma eða samráð við sérfræðinga. Við skulum því passa okkur á að tala skýrt um að hér er aðeins verið að kynna skýrslu um undirbúning á lagafrumvarpi sem skuli leyfa staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

Þegar talað er um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni er átt við mannúðarsjónarmið, að þau ráði því að eingöngu ákveðnum konum verði ráðlagt að verða staðgöngumæður. Konan er að ganga með barn fyrir aðra einungis vegna löngunar til að hjálpa öðrum að láta draum um barn rætast. Hún fær enga greiðslu en verðandi foreldrar greiða kostnað er tengist meðgöngunni. Þessi aðferð er leyfð í mörgum löndum en þá er staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni oftast bönnuð.

Í allri vinnu við þessa skýrslu hefur það verið haft að leiðarljósi að réttindi, hagur og velferð barnsins og staðgöngumóður skuli tryggð. Að geta eignast barn og að eignast barn eru forréttindi. Ekki eru allir það heppnir að geta eignast barn og margt getur spilað þar inn í. Kannski getur konan ekki gengið með barn, kannski er hún ófrjó og kannski eru tilvonandi foreldrar báðir karlmenn o.s.frv. Auðvitað á staðgöngumóðir að vera eitt af lokaúrræðum tilvonandi foreldra. En umræðan snýst ekki um að það sé sjálfsagður réttur allra að eignast barn og það sé því sama hvernig farið sé að því heldur er einungis verið að tala um jafnan rétt til mögulegra úrræða. Ég get ekki ímyndað mér að neinn sem fæðst hefur með hjálp staðgöngumóður vilji frekar hafa sleppt því að fæðast út af því að foreldrar hans fengu hjálp við að búa hann til.

Hæstv. heilbrigðisráðherra kom áðan inn á vandamál sem hrjá frekar börn sem hafa orðið til með hjálp staðgöngumæðra og ég væri alveg til í að heyra það ef hann vissi hver þau vandamál eru. En í dag er ástandið þannig að jafnræði er ekki tryggt milli íslenskra kvenna hvað varðar lausnir á ófrjósemisvanda þeirra, hvort sem það varðar gagnkynhneigðar eða samkynhneigðar konur. Lögin eru til dæmis þannig að kona sem er án legs en með eggjastokka sem framleiða heilbrigð egg má ekki láta búa til fósturvísa til að geyma en hún má hins vegar gefa annarri konu eggin sín í velgjörðarskyni, t.d. konu sem vantar í eggjastokka, og eggþeginn má því fæða og eiga líffræðilegt barn þeirrar konu sem ekki er með leg en hefur heilbrigðar eggfrumur. Konur sem vantar eggjastokka fá alla þá læknisfræðilegu hjálp sem mögulegt er að veita í dag á meðan konur sem ekki eru með leg og geta af öðrum ástæðum ekki gengið með barn fá enga hjálp. Eru það réttlætanleg rök að meina íslenskum konum að taka að sér staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni vegna þess að maður er mótfallinn því að fátækari konur í þróunarlöndunum gerist staðgöngumæður í hagnaðarskyni?

Að flétta umræðuna við önnur norræn lönd er sjálfsagt í því ljósi að erlendar konur mundu kannski vilja sækja þessa þjónustu til Íslands ef hún væri leyfð hérlendis. Því er spurning um hvort tala eigi skýrt um það að aðeins íslenskar konur verði staðgöngumæður fyrir aðrar íslenskar konur og við erum að horfa til þess. Við leysum ekki neinn vanda með því að taka ekki umræðuna um staðgöngumæðrun heldur erum við að hunsa vandann og ýta honum út á kantinn og vonast til að hann hverfi. En í stað þess að vandamálið hverfi þá finnur fólk sér leið fram hjá kerfinu, fram hjá lögunum.

Í dag fara margir sem búa í löndum sem viðurkenna ekki staðgöngumæðrun til útlanda og semja um staðgöngumæðrun þar til að eignast börn. Eins og kom fram í máli hæstv. heilbrigðisráðherra þá er það skylda stjórnvalda í hverju landi að tryggja börnum sem fædd eru af staðgöngumóður í fjarlægu landi sömu réttindi og öðrum.

Þeir sem búa á Íslandi og berjast fyrir því að leyfa staðgöngumæðrun eru að berjast fyrir því að kona taki upplýsta ákvörðun upp á sitt eindæmi um að verða staðgöngumóðir. Hún fer í rannsóknir og fær viðtöl hjá læknum, sálfræðingum og öðrum er málaflokkurinn varðar og sú kona þarf að fylgja ströngum reglum sem settar eru fram af sérfræðingum. Tilvonandi foreldrar eru svo settir í samband eða koma sér í samband við viðkomandi konu og þau gera með sér samning sem felur í sér að skilgreint er hvernig samband þeirra skuli vera og aðkoma, bæði fyrir meðgöngu, meðan á henni stendur og svo eftir meðgöngu. Allt þetta verði gert eftir reglum sem smíðaðar yrðu kringum ferlið og litið til allra málsaðila.

Margir sem eru á móti staðgöngumæðrun benda á ættleiðingar og segja það vera þá lausn sem fólk eigi að nýta sér ef það langar að eignast börn en getur það ekki með eðlilegum hætti. Ættleiðing er ekki bara þannig að þú skrifir undir eitthvert plagg og fáir barn afhent og engin vandkvæði fylgi. Ættleiðing er bæði langt og strangt ferli. Þú þarft að uppfylla ströng skilyrði sem á einum degi geta breyst og komið þér í þá stöðu að þú getir ekki ættleitt þrátt fyrir að aðstæðurnar séu ekki þannig að þær geri þig á nokkurn hátt að vanhæfu foreldri. Þú verður til að mynda að vera orðinn að minnsta kosti 25 ára, mátt ekki vera eldri en 45 ára, þú þarft að vera andlega og líkamlega hraustur, geta framfleytt fjölskyldunni með góðu móti og mátt ekki vera á sakaskrá. Þetta hljómar allt voðalega eðlilega.

Það eru nokkrir gullpunktar þarna. Ef fólk í sambúð sækir um ættleiðingu þá þarf sambúð að hafa varað í að minnsta kosti þrjú ár og þar af hjúskapur í eitt ár. Fólk í óvígðri sambúð þarf að hafa verið í að minnsta kosti fimm ár í sambúð. Ef þú skuldar húsnæðislán getur þú dottið út af ættleiðingarbiðlistanum og bara sem dæmi þá var fyrsta samkynhneigða parið sem ættleiddi barn á Íslandi að gera það núna síðasta sumar. Það er ekki lengra síðan. Svo er það öðrum sem hugnast ekki að ganga í gegnum fimm til átta ára bið upp á von og óvon með ströngu eftirliti á persónulegum högum til þess jafnvel að detta út af listanum einn daginn vegna óviðráðanlegra aðstæðna sem gera fólk óhæft til að sækja um. En ef foreldrar sem eignast barn með náttúrulegum hætti lenda í sömu aðstæðum dytti engum í hug að þeir væru óhæfir foreldrar.

Þessi umræða, að allir eigi jafnan rétt og möguleika á að vera foreldri, gefur okkur líka ástæðu til að endurskoða ættleiðingarlögin og athuga hvort hægt sé að einfalda það kerfi. Þeir sem geta eignast barn á náttúrulegan hátt eru alls ekki allir í sömu stöðu. Við erum að tala um 15 ára stúlkur upp í fimmtug hjón, fólk sem á engin börn fyrir, fólk sem á sex börn fyrir, fólk sem hittist í gær, fólk sem hefur skilið þrisvar sinnum, fólk sem á enga peninga og fólk sem á fullt af peningum. Þetta fólk þarf ekki að uppfylla nein skilyrði eða sanna sig mánaðarlega fyrir ókunnugu fólki frá yfirvöldum. En þeir sem ætla að ættleiða þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði og þannig yrði það einnig með fólk sem vildi nýta sér staðgöngumæðrun en það væri samt styttra ferli en ættleiðing. Málið snýst fyrst og fremst um réttindi kvenna til að taka ákvörðun um að vera staðgöngumæður ef þær svo óska og um jafnan rétt til mögulegra úrræða, ef úrræði eru læknisfræðilega möguleg og kona vill hjálpa; og þetta er allt persónulegt val.

Það eru engin rök fyrir því að segja að staðgöngumæðrun innan lagaramma væri til þess fallin að verið væri að nota konurnar sem ákveða að vera staðgöngumæður eða misnota aðstæður þeirra eða andlegt ástand. Réttur lagarammi mundi koma í veg fyrir að konur í ójafnvægi væru að taka að sér þessi hlutverk og erfitt væri að misnota aðstæður konu sem væri að gera þetta í velgjörðarskyni. Það hefur verið skoðað hverjir ættu að geta nýtt sér staðgöngumæðrun og ég tel að auðvelt sé að koma í veg fyrir að konur sem geta eignast börn með eðlilegum hætti en vilja það ekki af einhverjum ástæðum notfæri sér þessa leið. Við erum að tala um konur sem gætu ekki gengið með barnið sjálfar, t.d. ef þær væru algerlega ófrjóar, hafa ekki leg annaðhvort frá fæðingu, vegna aðgerðar eða út af einhverjum sjúkdómum.

Til að mega nýta sér staðgöngumæðrun þyrftu konurnar að láta staðfesta það af viðkomandi læknum og sérfræðingum að þær gætu ekki gengið með barnið sjálfar. Það kom fram í skýrslu vinnuhóps velferðarráðuneytisins um staðgöngumæðrun að allt upp í fimm konur þurfi á þessu úrræði að halda árlega svo að framkvæmd og eftirfylgni væri síður en svo umfangsmikil. Og hver erum við að geta sagt að konur séu ekki nógu gáfaðar eða rökrétt hugsandi og heilbrigðar til að taka þá ákvörðun sjálfar að ganga með barn jafnvel þó að það sé handa einhverjum öðrum? Í kynlífs- og frjósemisréttindum Amnesty International er skýrt tekið fram að hver kona á að geta tekið ákvarðanir er varða heilsu hennar og einnig ákveða hvort og hvenær hún vill eignast börn. Af hverju á hún þá ekki að geta tekið ákvörðun um að eignast barn fyrir einhvern annan?

Eins og fram hefur komið í vinnu Alþingis þá viljum við miða við að staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni sé bönnuð. Við viljum að hún verði hluti heilbrigðisþjónustu hérlendis sé hún í velgjörðarskyni Við viljum byggja upp lagaramma og sjá til þess að sérfræðingar sem hafa þekkingu á málinu séu með eftirlit með því frá byrjun. Við viljum reyna að koma í veg fyrir að fólk sé að finna sér smugu fram hjá lögunum til að geta gert þetta í gegnum önnur lönd. Auðvitað getum við ekki bundið viðkomandi staðgöngumóður við samning þar sem hún afsalar sér rétti á eigin líkama því að ófyrirsjáanleg vandamál geta verið mörg og mismunandi. Því væri ekki hægt að segja staðgöngumóður að hún verði að ganga alla leið með barnið ef það fæli í sér þá hættu að skaða hana á einhvern hátt, t.d. hvað varðar heilsufar.

Margir setja fram þá spurningu í svona máli: Hvert er foreldrið? Ef komið er fyrir sæði úr tilvonandi föður og eggi úr tilvonandi móður í staðgöngumóður þá eru tilvonandi foreldrar blóðforeldrar barnsins. Það er meðal annars það sem á að leggja upp með í þessari vinnu. Og það er gott að styðjast við ættleiðingarlög þegar við erum að skoða hvernig lagaramma skuli byggja upp í kringum staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni því þegar þú ættleiðir barn þá ertu að fá barn sem einhver annar eignaðist og gat einhverra hluta vegna ekki alið það upp og vildi því að einhver annar gerði það þrátt fyrir að hafa gengið með það í níu mánuði.

Þegar þú nýtir þér staðgöngumæðrun þá ertu að fá barn sem einhver annar eignaðist og vildi að þú mundir ala upp, barn sem þú ættir sem blóðforeldri þrátt fyrir að hafa ekki gengið með það í níu mánuði. Við getum tryggt lögformleg réttindi staðgöngumóður á meðan á meðgöngu stendur og þangað til barnið er fætt og hún afsalar sér barninu til tilvonandi foreldra. En við erum samt sem áður að takast á við málaflokk þar sem lögfræðileg sjónarmið koma á móti siðferðilegum sjónarmiðum og þetta er einn erfiðasti málaflokkur sem hægt er að takast á við. Í ljósi þess — að kona sem vill vera staðgöngumóðir í velgjörðarskyni segir: Já, ég vil taka þátt í þessu ferli; og tilvonandi foreldrar segja: Já, við viljum ganga í gegnum þetta með þessari konu — yrðu tveir til þrír aðilar að gefa samþykki sitt í máli þar sem ekki er bara erfitt að sjá fyrir hvað mundi gerast næstu níu mánuðina heldur ómögulegt því að við getum aldrei sagt fyrir hvaða vandamál geta komið upp. Það er rosalega mikil vinna eftir áður en við fáum endanlegt svar. Það verður að athuga hvernig hægt er að tryggja réttindi allra aðila í hverju máli en ávallt með hag barnsins að leiðarljósi. Staðgöngumæðrun getur verið raunverulegur valmöguleiki fólks sem ekki getur eignast barn með náttúrulegum hætti. Ég tel að við séum ekki komin það langt í umræðunni að við getum bara sagt nei.

Það sem stefnt er að í vinnu við frumvarpið, og hæstv. heilbrigðisráðherra fór yfir hér áðan, er ég mjög ánægð með. Í nokkrum punktum komu fram hugmyndir um hvernig girða eigi fyrir helstu vandamálin. Það er að afnema bann við staðgöngumæðrun, setja ströng skilyrði, fá skýrt samþykki, næst hvernig frjóvgun fari fram, hvernig meðgöngu verði háttað, að tryggja verði eftirlit frá byrjun, að sömu lög muni gilda fyrir barnið um að vita uppruna sinn eins og til dæmis er í ættleiðingarlögum, þar sem þú verður að segja barninu frá uppruna þess þegar það hefur náð vissum aldri eða þroska, og hvernig skuli staðið að því að tryggja tilvonandi foreldrum fullan foreldrarétt og koma í veg fyrir greiðslu á nokkurn hátt. Tækniframfarir auk framfara í læknavísindum og breytinga á samsetningu og skoðunum í þjóðfélaginu gefur okkur ekki lengur tækifæri til að hunsa þennan möguleika.

Við viljum oft horfa til annarra norrænna þjóða til samanburðar. Í Finnlandi, þar sem staðgöngumæðrun var leyfð til lengri tíma, var gerð rannsókn á staðgöngumæðrum á tímabilinu janúar 1991 til maí 2001. Tæknifrjóvgun var reynd hjá 17 konum og fæddust 11 börn í velgjörðarskyni. Þar urðu til níu einburar, eitt sett af tvíburum og eitt fósturlát varð. Öll pörin komu frá Norðurlöndunum og fundu staðgöngumæðurnar sjálf. Allar staðgöngumæður nema þrjár voru skyldar eða nátengdar pörunum. Bæði staðgöngumóðir og tilvonandi foreldrar fengu góða ráðgjöf. Aðeins tvær staðgöngumæður fengu fæðingarþunglyndi sem er frekar eðlileg tala ef litið er til viðmiða kvenna sem fæða sín eigin börn og ala þau upp sjálfar en fá samt sem áður fæðingarþunglyndi. Allir aðilar fengu aðgengi að ráðgjöf á meðan meðganga stóð yfir og einnig á eftir. Niðurstaða rannsóknarinnar var sú að staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni gæti með góðri ráðgjöf og vönduðum vinnubrögðum farið vel fram og verið farsæl lausn á ófrjósemi.

Ég tel til bóta að búa til lagalega umgjörð um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Með því erum við að tryggja fólki sem ætlar sér að nýta þennan möguleika sem og börnum þeirra öruggt líf því raunveruleikinn er sá að þeir sem ætla sér að nýta þennan möguleika gera það. Þeir gera það bara ekki hér innan lands og við vitum örugglega flest um að minnsta kosti eitt ef ekki fleiri dæmi þess.

Með góðum samningum, lögum og reglum trúi ég statt og stöðugt að mikil vinna geti skilað því að tilvonandi foreldrar komi nákvæmlega eins að málinu og þau væru bara tvö, þ.e. þau skilja það einnig á pappírum að hvað sem er getur komið upp á meðgöngu og hvað sem er getur verið að barninu til að koma í veg fyrir, þar sem fólk notar þessa hræðslusögu oft, að fólk stingi af frá barninu ef það kemst að því að eitthvað sé að því eða þá að það vilji lögsækja staðgöngumóðurina ef hún missir fóstrið o.s.frv. Ef barn fæðist með náttúrulegum hætti þá gerir parið sér fyllilega grein fyrir því að hvað sem er getur komið fyrir. Því tel ég og trúi fast að hægt sé að koma því þannig fyrir í samningnum sem gerður væri í kringum staðgöngumæðraferlið að hægt væri að setja niður á blað að parið mundi sem sagt heita því að standa við það að verða foreldrar barnsins sama hvað gengur á eða láta kyrrt liggja ef eitthvað alvarlegt kemur upp á.

Ég er mjög ánægð með að við skulum vera að ræða þessi mál hér á Alþingi og ég er mjög ánægð með þá stefnu sem hefur verið tekin í málinu. Ég er ánægð með að við alþingismenn fáum að heyra hvar vinnan er stödd. Ég kallaði eftir því síðasta sumar og ég er mjög ánægð með að við fáum frekari upplýsingar um málið eftir því sem á líður vinnuna. Við þurfum að ræða þetta mál og finna einhverja framkvæmdalausn og það verður aðeins gert með góðu samráði og rökum á báða bóga. Við verðum að spyrja erfiðu spurninganna og við verðum að finna svör sem stundum eru kannski ekki endilega þau sem við viljum heyra, hvort sem við erum með eða á móti staðgöngumæðrun. En vonandi verður þessi umræða hér í dag enn meira stefnumótandi um þá vinnu sem var sett fyrir Alþingi að búa til frumvarp sem muni lögleiða notkun staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni því að þennan möguleika vantar. Við getum ekki talað um málið eins og þeir sem ekki geta eignast börn á náttúrulegan hátt séu óhæfir foreldrar, við megum ekki fara niður á það plan. Því miður heyrum við það allt of oft að fólk sem er á móti þessu segir bara að það sé ekki réttur neins að geta eignast barn og því eigi ekki að ræða það frekar ef þú getur það ekki og þú eigir bara að nota ættleiðingu. Oft er talað um ættleiðingu eins og það sé það eina sem fólk eigi að horfa til.

Við verðum að passa í komandi vinnu að allir séu jafnir, að barnið gangi fyrir og að við komumst að lokum að niðurstöðu. Beðið hefur verið eftir niðurstöðu allt of lengi og eins og ég hef tekið fram í nokkrum ræðum þá yrði Ísland leiðandi í þessum málum. Ísland hefur verið leiðandi í jafnréttismálum, við höfum verið leiðandi í nýsköpun og af hverju eigum við ekki að vera leiðandi líka í velgjörðarmálum?

Ég vil minna á brot úr ræðu minni frá því í sumar þegar fyrsta samkynhneigða parið á Íslandi ættleiddi barn. Þá sagði annað foreldrið: „En sem betur fer ætla stjórnvöld að lögleiða staðgöngumæðrun. Ef þetta hefði ekki gengið hér þá hefðum við farið til Indlands eða annað til að finna okkur staðgöngumóður. Það er alveg ljóst.“

Við heyrum á þessu að það eru fleiri þarna úti sem eru tilbúnir að ganga í gegnum það að fara til útlanda, finna sér staðgöngumóður, fara í gegnum allt ferlið og koma barninu til Íslands til að geta eignast barn ef þeir geta það ekki á eðlilegan hátt. Það sem ég sé í málinu er einfalt. Annaðhvort gerum við eitthvað í málinu eða fólk heldur áfram að bjarga sér á annan hátt. Það er alveg ljóst.



[18:50]
Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Mér dettur ekki í hug að halda því fram að þetta sé einfalt mál. Ég sat í velferðarnefnd á síðasta kjörtímabili þegar þingsályktunartillaga um málið var til umræðu og var mjög upplýsandi og fróðlegt að taka þátt í því öllu saman.

Það var t.d. mjög fróðlegt að heyra hve margar leiðir fólk hefur í raun til að efna til staðgöngumæðrunar eins og staðan er núna. Það var líka mjög fróðlegt og upplýsandi að hitta tvær konur sem höfðu ákveðið og vildu ganga í gegnum ferli staðgöngumæðrunar eftir vandlega íhugun og kölluðu eftir því að hægt væri að gera það á Íslandi á löglegan hátt þannig að allt væri uppi á borðum. Mér fannst mjög merkilegt að heyra þau sjónarmið.

Ég hef líka fullan skilning á hinum sjónarmiðunum, varfærnissjónarmiðunum um að við megum ekki skapa hér kerfi þar sem konur eru neyddar til að leigja líkama sinn í þágu annarra kvenna eða para. Mér finnst mjög mikilvægt í svona flóknu máli að menn átti sig á hvar samhljómurinn er. Ég fann það eftir umfjöllun í velferðarnefnd á síðasta kjörtímabili og eins við það að hlýða á umræðuna og lesa og hlusta á skýrslu hæstv. ráðherra sem hann flutti áðan, að það er þó mjög ríkur samhljómur um að leyfa ekki frjálsa staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni. Það er enginn að tala um það. Mér heyrist allir vera að tala um að móðurrétturinn verði aldrei tekinn frá móðurinni þannig að það eigi alltaf að virða rétt þeirrar konu sem ákveður að ganga með barn fyrir annað fólk til að skipta um skoðun og vera móðirin þegar barnið er fætt og líka réttinn til að vera móðirin á meðgöngutímanum.

Mér finnst líka vera alger samhljómur um að það á að vera refsivert að greiða fyrir staðgöngumæðrun þannig að við ætlum að reyna að leita leiða ef við leyfum staðgöngumæðrun til að tryggja algjörlega að kona verði ekki sett í þá stöðu að ganga með barn annarra í hagnaðarskyni eða út úr neyð. Mér heyrist líka vera samhljómur um að það sé hægt núna. Mér heyrist flestir átta sig á því. Þá er þetta bara spurning um hver ágreiningurinn er, hvort það sé skynsamlegt að viðurkenna það með því að opna fyrir löggjöf um málið. Mér heyrist undirliggjandi rökræður vera: Er mögulegt að gera svona í velgjörðarskyni? Setjum við konur í erfiða stöðu bara með því að búa til löggjöfina?

Ég hallast að því að það sé a.m.k. einnar messu virði að reyna að smíða löggjöf sem gerir velgjörðarstaðgöngumæðrun mögulega og að tvær fullorðnar manneskjur, og raunar fleiri, geti komist að þeirri upplýstu niðurstöðu. Ég sagði áðan að þetta væri hægt núna, fólk getur farið til útlanda í þessum erindagjörðum. Það var rakið ágætlega í meðferð velferðarnefndar. Svo er gripið til orðalagsins „hefðbundin sæðing í heimahúsi“ í skýrslu hæstv. ráðherra. Það er tiltölulega einföld aðgerð, hefðbundin geri ég ráð fyrir. (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Sæðið.) Já. Ég geri ráð fyrir að menn geti stuðst við ýmsar hefðbundnar aðferðir í þessum efnum í heimahúsum og í raun og veru geta tvær manneskjur einfaldlega tekið þá ákvörðun að efna til slíkra athafna í heimahúsi eða annars staðar og gert einhvers konar samning sín á milli um að barnið verði síðan ekki barn móðurinnar heldur annarrar konu eða pars.

En hvað vantar inn í þetta ferli allt saman? Þetta er hægt, það er hægt að gera þetta. Það sem vantar þarna er að tekin sé afstaða til réttinda barnsins. Það sem vantar þarna er að tekin sé afstaða til þess hvað þessi samningur þýðir. Er hann æðri móðurréttinum? Hvaða stöðu hefur þessi samningur? Þetta er eflaust mjög erfitt ferli, rosalega miklar tilfinningar. Ég mundi segja að það vantaði í svona ferli teymi fagmanna til að halda utan um það, halda utan um að samþykkið sé upplýst og tryggja að allir aðilar séu á sömu blaðsíðunni. Er réttur móðurinnar tryggður? Getur hún skipt um skoðun? Hvað gerist ef upp koma veikindi á tímabilinu? Það vantar allan ramma.

Ég upplifi umræðuna þannig að uppi sé krafa um að búinn sé til rammi utan um málið. Það er á þeim forsendum sem ég er jákvæður gagnvart þessu máli. En það er vandasamt verk og sú umræða kemur oft upp um hversu langt við eigum að fara í frelsisátt þegar kemur að ákvörðunarrétti konu yfir eigin líkama, eins og það er stundum orðað. Rökræðan kemur oft upp um að við eigum ekki að fara of langt vegna þess að of mikið frelsi í þessum efnum geti opnað fyrir það að konur séu misnotaðar. Mér finnst alveg full ástæða til að hafa skilning á því sjónarmiði og fara varfærnislega. En það eru líka mjög veigamikil rök fyrir ákvörðunarrétti yfir eigin líkama og það eru einhver mörk fyrir því hversu langt er hægt að fara með þessi misnotkunarsjónarmið ef þau hefta frelsi okkar. Ég held að það séu ríkar röksemdir fyrir því að fara mjög varlega. Ég minntist á tvær konur áðan sem voru búnar að komast að þeirri niðurstöðu eftir vandlega yfirlegu að þær vildu gera þetta. Önnur vildi hjálpa hinni. Þá verðum við að íhuga hvaða röksemdir höfum við til að neita þeim að gera það, ef við viljum gera það. Þetta snýst líka einfaldlega um frelsi fullorðinna einstaklinga til að hjálpa hver öðrum.

Ég hef farið vítt og breitt yfir málið. Mér finnst mikilvægt átta sig á að þetta snýst auðvitað ekki um að ef við ákveðum að setja ekki löggjöf um staðgöngumæðrun þá verði engin staðgöngumæðrun. Stundum finnst mér við tala þannig um lög. Lög ákveða ekki alveg veruleikann. Staðgöngumæðrun verður samt sem áður áfram til. Það er spurningin um hvort við viljum hafa ramma utan um hana eða ekki.

Mér finnst yfirferðin hjá hæstv. ráðherra mjög vönduð. Mér finnst spurningarnar þar vera vel settar fram og öll þessi álitamál og það róar mig í þessum efnum vegna þess að mér finnst þetta engan veginn einfalt mál. Ég hvet til þess að áfram sé farið varlega og ég vona að niðurstaðan verði réttlát, sanngjörn og mögulega framsækin. Ég býst við að hún verði framsækin vegna þess að við erum eina þjóðin á Norðurlöndum sem ætlar hugsanlega að gera þetta. Ég vona að það verði niðurstaðan úr þessari vinnu og svo ræðum við þetta sérstaklega þegar kemur að því setja löggjöf um málið. Það getur vel verið að við sjáum þá að það gangi ekki upp, en við skulum reyna.



[19:00]
iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir í upphafi máls míns þakka hæstv. ráðherra fyrir að leggja fram þessa skýrslu, þó svo — og það er kannski ekki honum um að kenna — að hún hefði mátt koma fyrr. Það eru rétt nýliðin tvö ár síðan umrædd þingsályktun sem við erum að ræða framhaldið á var samþykkt á Alþingi. Til að rifja það upp þá sögðu 33 þingmenn já og 13 greiddu atkvæði gegn þannig að hún var samþykkt með yfirgnæfandi meiri hluta þáverandi þings. Það er alveg rétt sem hér hefur komið fram að í millitíðinni hefur verið kosið og er ekkert óeðlilegt við það að nýtt þing þurfi ráðrúm til að ræða þetta mál.

Hér hefur mikið verið rætt um að í þessu séu mörg álitamál, þetta þurfi að ræða, við þurfum að gefa okkur tíma. Það er allt rétt. Þá langar mig svolítið til að rifja upp hversu lengi þetta mál hefur verið til umræðu hér, bara hér á hinu háa Alþingi, og síðan hvernig umræðan hefur verið úti í þjóðfélaginu.

Það var fyrir rúmum fimm árum, í september 2008 sem ég lagði fram fyrstu fyrirspurnina til þáverandi heilbrigðisráðherra, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, um staðgöngumæðrun. Ég man dagsetninguna mjög vel vegna þess að ég átti tvær vikur í að eignast yngri son minn og hann er að verða 6 ára núna í september. Ég hef því haft afskipti af þessu máli á þingi núna á sjötta ár og þá var það ekki í fyrsta sinn sem málið var rætt á þingi heldur hafði það komið til umræðu áður.

Á þessum sex árum við hverja fyrirspurn, við hverja skýrslu, í hvert sinn sem þingsályktunartillagan var lögð fram og rædd gaus að jafnaði upp í samfélaginu mikil umræða. Umræðan varð um tíma miklu almennari en mig óraði fyrir að hún gæti nokkurn tíma orðið vegna þess að þetta er mál sem maður er kannski ekki að hugsa um nema þegar það er akkúrat í umræðunni, nema þetta sé mál sem snertir mann persónulega.

Ég verð að hrósa ræðu hv. þm. Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur sem fór afar vel yfir þau sjónarmið sem eru mikilvæg í þessu máli. Ég ætla því að nota tækifærið og vísa í ræðu hennar og aðrar sem ég hef flutt um þetta mál áður í staðinn fyrir að endurtaka það. Mig langar að taka þetta dálítið út frá því sjónarmiði að það þurfi meiri umræðu, það þurfi fleiri sérfræðinga, það þurfi málþing, það þurfi samtal. Eins og ég segi er það allt rétt. En hvenær er komið nóg?

Hér á árum áður, daginn fyrir samþykkt þingsályktunartillögunnar við síðari umr., reiknaðist mér svo til, þá hafði ég tekið það saman — ég hef ekki tekið saman tölurnar fyrir þau tvö ár sem hafa liðið síðan þá — að á 18 mánuðum þar á undan höfðu verið haldin 15 málþing um staðgöngumæðrun og ég tók þátt í umræðum í velflestum þeirra. Allir fjölmiðlar landsins höfðu fjallað ítarlega um staðgöngumæðrun. Kastljós, Ísland í dag, síðdegisútvarp Ríkisútvarpsins, Reykjavík síðdegis, Ísland í býtið, Návígi, meira að segja Simmi og Jói, Fréttablaðið, Fréttatíminn, Nýtt líf og Morgunblaðið fyrir utan hefðbundnar fréttir á RÚV og Stöð 2.

Talað var um að almenningur þyrfti að vera upplýstur og gerðar hafa verið skoðanakannanir meðal almennings. Áður en þingsályktunartillagan var samþykkt voru í kringum 80% fylgjandi staðgöngumæðrun. Í síðustu könnun sem ég hafði séð þá, frá maí 2012, hafði þessi tala farið upp í 87,3%. Svo margir voru hlynntir staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Ég tek fram að við erum alltaf að tala um í velgjörðarskyni. Umræðan hefur því verið ítarleg, umræðan hefur verið góð. Ekki eru allir sammála þannig að öll sjónarmið hafa komist á framfæri.

Ég minni á að í þingsályktunartillögunni sem var samþykkt var velferðarráðherra falið að skipa starfshóp sem ætti að undirbúa frumvarp til laga sem heimilar staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Ég lít svo á að skýrsla hæstv. ráðherra sé liður í því, eins og hann hefur kynnt það sjálfur. Ég vona svo sannarlega að við fáum frumvarp um þetta á hinu háa Alþingi svo fljótt sem verða má, eins og segir í tillögunni.

Ef við horfum sex ár aftur í tímann, hvað varð til þess að ég fór að skipta mér af þessu máli? Það var vegna þess að til mín leitaði fólk sem þráir ekkert annað meira í lífinu en að eignast barn. Þetta var ekki einn, þetta voru ekki tveir, þetta var nokkur hópur fólks.

Hvað hefur gerst á þessum sex árum? Þau eins og við öll hafa orðið sex árum eldri. Hv. þm. Jóhanna María Sigmundsdóttir fór vel yfir þau skilyrði sem þarf að uppfylla í ættleiðingarferlinu. Þar eru sett ákveðin aldurstakmörk og ég leyfi mér að fullyrða að nánast allir þeir sem eru komnir að þessu úrræði hafa farið í gegnum ferlið; ættleiðingar, tæknifrjóvgun og allt þetta. Allt tekur þetta tíma. Við getum verið að tala um áratug eða meira í lífi þessa fólks í baráttunni við það að geta eignast barn. Það er auðvitað ekki réttur allra að eignast börn eins og hér hefur komið fram. En gleymum því ekki heldur að við göngum ansi langt nú þegar og við leggjum okkur öll fram í þeirri viðleitni að aðstoða fólk sem getur ekki eignast börn með eðlilegum hætti. Við leyfum tæknifrjóvganir, við leyfum glasafrjóvganir. Við tölum um siðferðileg álitamál tengd staðgöngumæðrun. Þau eru öll fyrir hendi, leyfi ég mér að fullyrða, nema eitt; að móðirin lætur barnið af hendi. Varðandi uppruna barns er miklu auðveldara fyrir barn að leita uppruna síns þegar um staðgöngumóður er að ræða vegna þess að í mörgum tilfellum er um að ræða kynfrumur frá væntanlegum foreldrum.

Við leyfum gjafaegg og gjafasæði. Það er hægt að gefa egg og gefa sæði án þess að veita leyfi fyrir því að heimilt sé að gefa upp hver gefur viðkomandi egg og sæði. Ég segi fyrir mig, mér þykir það meiri gjöf. Ég nefndi hér son minn sem fæddist fyrir tæpum sex árum. Hann er nánast alveg eins og ég. Hann þykir svo líkur mér, blessaður drengurinn, að ég þarf ekki að vera nálægt honum til að fólk átti sig á því að ég er móðir hans. Hann var einu sinni egg sem ég hefði getað gefið. Hann er alveg eins og ég. Það er mjög mikil gjöf ef maður hugsar þetta í þessu samhengi. Ég er ekki að gera lítið úr þeirri gjöf sem það er fyrir konu að ganga með barn fyrir aðra konu, en setjum ekki siðferðilegu álitamálin í þessu máli ofar öllu öðru sem við höfum þegar leyft. Þetta er nákvæmlega sami hluturinn. Þetta er úrræði fyrir foreldra sem geta ekki eignast barn eftir öðrum leiðum og þetta gerir fólk.

Hér var nefnt áðan að það var ekki fyrr en í sumar sem fyrsta samkynhneigða parið á Íslandi, karlar, fékk að ættleiða barn. (Forseti hringir.) Þeir hafa upplýst um það sjálfir. Þeir leituðu áður staðgöngumóðurleiðarinnar í útlöndum (Forseti hringir.) en féllu frá því vegna þess að þeir fengu þá dásamlegu gjöf sem þessi litla stúlka er sem þeir gátu ættleitt. Þetta er hægt. Fólk gerir þetta, (Forseti hringir.) það gengur ansi langt. Hjálpum því, semjum þetta að íslenskum veruleika.



[19:09]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir umræðuna og ágæta greinargerð frá hæstv. ráðherra. Ég tel að sú umræða sem hér hefur farið fram og þau ólíku sjónarmið sem þar hefur verið lýst sýni okkur býsna vel hversu lítt þróuð umræðan er orðin, hversu mörg málþing sem þó kunna að hafa verið haldin og hversu stórar spurningar, bæði lögfræðilegar og siðferðilegar, eru hér sem ósvarað er og óleyst er úr. Ég þakka hæstv. ráðherra og nefndinni fyrir að koma ekki með málið í frumvarpsformi vegna þess að ég tel að málið sé alveg langt í frá að vera þroskað til þess að það megi með einhverjum sóma bera hér fram í frumvarpsformi.

Ég held að það hefði ekki verið málinu til framdráttar eða til sérstakrar farsældar, ef þetta verður innleitt á einhverjum tímapunkti í samfélag okkar, að knýja það í gegn með kröfum í þinglokasamningum, að taka það til afgreiðslu og láta afgreiða það með 70% atkvæða í þingsalnum. Ég held að hluti af því sem þurfi að horfa til, ef af þessu yrði einhvern tíma, yrði það að vera stöðu barnanna vegna og réttinda þeirra vegna gert í býsna miklu siðferðilegu sammæli. Þess vegna sé það öllum fyrir bestu að leyfa þessari umræðu að þroskast og lausnum að verða til á þeim vandamálum sem uppi eru.

Ég vil fyrir mitt leyti áskilja mér rétt til að skipta um skoðun í málinu en eins og það er vaxið núna er ég eindreginn efasemdarmaður um að farsælt væri að taka þetta skref nú. Ég tel ekki að það sé okkur sérstakt keppikefli að verða á undan hinum Norðurlöndunum til að mynda að leysa úr þeim flóknu, siðferðilegu og lögfræðilegu atriðum og láta reynsluna verða hér. Ég held fremur að við eigum að njóta þeirrar sérþekkingar sem þar er að finna, þeirrar reynslu sem þau stóru samfélög byggja á og fylgja þeirri þróun sem þar verður og alþjóðlega í því að fást við þessi úrlausnarefni.

Sumt á ekki að selja. Við erum öll sammála um að það að ganga með barn á ekki að selja. Að lögleiða það í velgjörðarskyni eykur líkurnar á því að það verði selt í okkar samfélagi. Og það er ekkert annað en kjánaskapur að horfast ekki í augu við þá alvarlegu staðreynd þegar þetta mál er til umfjöllunar.



[19:13]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum munnlega skýrslu heilbrigðisráðherra vegna undirbúnings á lagafrumvarpi um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Málið er þess eðlis að um það vakna eðlilega ótal spurningar, siðferðilegar, læknisfræðilegar og hvort það falli undir mannréttindi að eignast barn, eins og hér hefur verið rætt. Það eru mörg alvarleg siðferðileg álitamál sem fylgja staðgöngumæðrun og þau hafa verið reifuð af ýmsum siðfræðingum, læknum, femínistum og öðrum í þjóðfélaginu á undanförnum missirum og árum.

Það er fjöldi álitamála til staðar og við getum alveg búist við því að staðgöngumæðrun leiði til fleiri vandamála en henni er ætlað að leysa. Þótt staðgöngumæðrun sé auðveld úrlausnar á tæknilegum grunni eru siðferðilegu og lagalegu sjónarmiðin flókin. Gæta þarf hagsmuna konunnar sem leggur til líkama sinn, einnig hagsmuna barna hennar sem hún á fyrir, maka hennar og fjölskyldu. Hagsmunir barnsins sem fæðist við slíkar aðstæður þurfa að vera tryggðir og sérstaklega þarf að hafa í huga að upp geta komið óvænt veikindi, t.d. fötlun barns, sem ekki voru séð fyrir en óháð því þarf hagur barnsins að vera tryggður og loks þarf að hafa í huga hagsmuni konunnar og þeirra sem fá barnið afhent eftir fæðingu.

Staðgöngumæðrun má hugsa sér í velgjörðarskyni þar sem náinn ættingi eða vinkona gengur með barn sem velgjörð eða í hagnaðarskyni þar sem staðgöngumóðirin gengur með barn fyrir aðra konu í ábataskyni. Miðað við þau siðferðilegu gildi sem uppi eru í íslensku þjóðfélagi má telja líklegt að mjög margir telji að staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni sé ásættanleg en staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni sé ekki réttlætanleg.

Reynsla annarra þjóða er að staðgöngmæðrun hefur tilhneigingu til að markaðsvæðast þar sem verð myndast fyrir barn og verð fyrir aðgang að líkama konu. Einnig hafa mörkin sem dregin hafa verið þá tilhneigingu að færast til, þ.e. það sem áður var talið eðlilegt í velgjörðarskyni verður ekki aðeins innan fjölskyldu eða fyrir konu án legs heldur við aðstæður sem í upphafi voru taldar óhugsandi, t.d. ef kona er upptekin vegna vinnu eða vill ekki gangast undir þær líkamlegu breytingar sem fylgja þungun og hún hefur fjárráð til að kaupa sér staðgöngumóður. Við þessar aðstæður geta mörkin orðið óljós. Breyting á mörkum er þróun sem hefur gerst á öllum sviðum læknisfræðinnar þegar ný tækni kemur til sögunnar. Þetta á við um bæði um líffæragjafir og glasafrjóvganir, ef tæknin er komin og aðgerð tekst vel færast æ fleiri yfir í þann hóp sem þarf á meðferð að halda þó svo upphaflega hafi úrræðið aðeins verið hugsað fyrir mjög takmarkaðan hóp.

Þegar upp er komin sú staða að vel fjáð kona getur keypt sér þessa þjónustu verður mismunun eftir fjárhag, en þetta eru eðlilegar vangaveltur í þessu stóra samhengi. Verði staðgöngumæðrun leyfð getur það sett óeðlilegan þrýsting á nánustu fjölskyldur, t.d. á systur um að ganga með barn fyrir systur sína. Staðgöngumóðir er undir þrýstingi frá væntanlegum foreldrum sem biðja hana að haga sér í samræmi við þeirra óskir, sem setur hömlur á líf hennar.

Þessi skýrsla er vel fram sett og gott að fá hana inn í þingið til umræðu vegna undirbúnings þess frumvarps sem við höfum rætt hér. Ég tel að það að setja lög um að líkami kvenna sé hlutgerður sem tæki til sköpunar barns fyrir þriðja aðila sé ekki ásættanlegt. Ég tel ekki rétt að líkami kvenna verði notaður í því skyni að vera hluti af því læknisferli að kona gangi með barn í þeim eina tilgangi að gefa það frá sér. Það er stærst í mínum huga og það sem ég tek afstöðu til í þessu erfiða máli. Aftur á móti tel ég að við eigum að aðstoða barnlaust fólk með öllum tiltækum hætti, hvort sem það er við ættleiðingu barns, innan lands eða erlendis. Hitt tel ég ekki ganga, að líkami konu sé notaður sem tæki til að framleiða barn sem hún gefur frá sér.



[19:18]
heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram sem er málefnaleg og að mörgu leyti upplýsandi um afstöðu einstakra þingmanna til þessa máls. Ég vil ítreka það strax að ég gef mér ekkert fyrir fram í þessum efnum. Vinnan fram undan við þá frumvarpssmíð sem Alþingi fól mér að vinna kallar á vandaða vinnu við leit að svörum við mörgum viðamiklum spurningum, hvort tveggja lögfræðilegum og siðferðilegum.

Meginmarkmiðið í vinnu starfshópsins um staðgöngumæðrun er að finna leiðir við lagasetninguna, frumvarpssmíðina, til að ná þeim markmiðum sem Alþingi setti í ályktuninni frá því í janúar 2012. Það er ekkert einfalt mál að ákveða hvaða leiðir skuli farið til að nálgast þá niðurstöðu sem þar var kallað eftir.

Það er vandasamt og í mörgu flókið að tryggja að eingöngu verði um að ræða staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni og um leið takmarka möguleika til að fara utan og nýta verslun með staðgöngumæðrun. Þá þarf að hyggja að mörgu til að tryggja að réttindi allra séu virt en barnið sjálft hlýtur þar að vera í öndvegi, samanber hina mikilvægu réttarreglu um að það ráði ávallt sem barninu er fyrir bestu. En til að Alþingi geti tekið vel ígrundaða ákvörðun við frekari vinnslu málsins þarf að svara ýmsum spurningum eins og nefnt hefur verið. Í vinnunni sem fram undan er þá er stefnt að því að taka til úrvinnslu níu meginatriði sem ég ætla að nefna hér í nokkrum orðum.

Í fyrsta lagi verði núverandi bann við staðgöngumæðrun fellt úr gildi en bætt við tæknifrjóvgunarlög heimild til að framkvæma tæknifrjóvgun á konu sem gengur með barn í velgjörðarskyni í því skyni að afhenda það öðru fólki eftir fæðingu.

Í öðru lagi verði gengið út frá því að þeir sem taki þátt í ferlinu þurfi að uppfylla tiltekin skilyrði og fyrir getnað fari fram mat á hæfni staðgöngumóður og væntanlegra foreldra. Staðgöngumóðir þurfi að lágmarki að vera hraust og hafa átt barn áður og þá þurfi að liggja fyrir samþykki maka hennar ef hún er í hjúskap eða skráðri óvígðri sambúð. Væntanlegir foreldrar geti verið hvers konar sambúðarfólk sem ekki geti af líffræðilegum orsökum átt barn. Nefndin hefur til athugunar hvort heimila eigi einstaklingum að nýta sér þetta úrræði. Þá þurfi væntanlegir foreldrar að lágmarki að geta tryggt barni þroskavænleg uppeldisskilyrði. Nefndin hefur einnig til skoðunar að gera vensl þessara aðila að skilyrði eða með hvaða hætti megi tryggja að persónulegt samkomulag verði forsenda ferlisins.

Í þriðja lagi vil ég nefna að nefndin hefur til skoðunar hvort gera eigi að skilyrði að að minnsta kosti ein kynfruma komi frá væntanlegum foreldrum. Ekki hefur verið tekin afstaða til þess hvort heimila eigi staðgöngumóður að leggja til eggfrumu. Það verður gengið út frá því að sú kona sem gengur með og fæðir barnið sem móðirin og yfirfærsla á foreldrastöðu eða sérstök ættleiðing fari fram eftir fæðingu barns að liðnum ákveðnum umþóttunartíma. Í þessu felist fullt sjálfræði staðgöngumóður um allar ákvarðanir tengdar meðgöngunni og fæðingunni.

Staðgöngumóðir njóti sömu þjónustu og aðrar þungaðar konur. Fagleg ráðgjöf sérfræðinga til allra aðila verði tryggð frá upphafi ferlisins til enda.

Réttur barns sem fætt er af staðgöngumóður til að þekkja uppruna sinn verði tryggður. Nefndin mun leggja til að tæknifrjóvgunarlögunum verði breytt þannig að þessi réttur nái til allra barna sem verða til með gjafakynfrumum.

Það þarf að mæla fyrir um farvegi í lögum fyrir yfirfærslu á foreldrastöðu eða foreldrarétti og sérstaka ættleiðingu. Sérstaklega þarf þó að huga að leiðum til að leysa ágreining eftir fæðingu barns. Gert verði ráð fyrir að væntanlegir foreldrar sem taka við barni njóti réttar til fæðingarorlofs.

Það þarf að setja verslunarbann sem í felist að leyfi verði ekki veitt til tæknifrjóvgunar á staðgöngumóður komi greiðsla fyrir. Vegna þessa verði nauðsynlegt að afmarka vel hvaða greiðslur megi fara á milli aðila vegna útlagðs kostnaðar staðgöngumóður. Allar aðrar viðbótargreiðslur yrðu bannaðar og mundu varða refsingu. Auglýsingar og kynning á þessu úrræði varði refsingu.

Milliganga um að gera samninga við erlenda aðila sem bjóða upp á þjónustu staðgöngumæðra eða milliganga um ólögmætar greiðslur milli aðila varði einnig refsingu. Samningar sem gerðir yrðu við erlenda aðila sem bjóða upp á þjónustu staðgöngumæðra í hagnaðarskyni væru sömuleiðis ólögmætir. Allsherjarregla ýtir til hliðar hvers konar erlendum löggjörningum um staðgöngumæðrun.

Loks í níunda lagi verði að taka sérstaka afstöðu til réttarstöðu barna sem kunna að verða til með aðstoð staðgöngumæðra í útlöndum.

Virðulegi forseti. Siðferðileg rök vega þungt í stefnumörkun um þetta sérstæða viðfangsefni vegna þess að breytingar í læknisfræði, tækni, samgöngum og þjóðfélagsgerð hafa opnað nýja möguleika sem samfélög, jafnt okkar sem annarra ríkja, standa frammi fyrir og komast vart hjá að taka afstöðu til. Það er mjög mikilvægt að alþingismenn hafi í huga að siðferðileg rök eru ýmist vísun í mögulegar eða líklegar afleiðingar ákvarðana eða tilvísun í það hvernig breytni fellur að tilteknum siðalögmálum. Í því tilviki sem hér um ræðir, hvort það sé til bóta að lögfesta umgjörð um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni eða ekki, er eðlilegt að horft sé til stöðu þekkingar um áhrif staðgöngumæðrunar á þá einstaklinga sem hlut mundu eiga að máli og þar með á samfélagið.

Ráðuneyti mitt mun á grundvelli vinnu starfshópsins leggja sig sérstaklega fram um að Alþingi og þingnefndir fái greiðan aðgang að upplýsingum um þær rannsóknir sem þekktar eru og geti þannig betur metið málið á grundvelli bestu þekkingar. Við þurfum einnig að hafa hugfast að í umræðu á Alþingi um ákvörðun þar sem siðfræðileg rök ráða óhjákvæmilega svo miklu eru málefnaleg rök byggð á siðviti hvers og eins gild rök, en þau þurfa að þola rökræðu og skoðanaskipti.

Ég vil ítreka þakkir fyrir þá umræðu sem hér hefur orðið og vænti góðs samstarfs við þingmenn og þær nefndir sem kunna að fjalla um málið þegar því vindur fram í vinnslu.