143. löggjafarþing — 63. fundur
 13. feb. 2014.
stefna ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum.

[10:33]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Í gær var haldið viðskiptaþing og það var glæsileg samkoma, 450 manns, uppselt á þingið. Umfjöllunarefnið var uppbygging alþjóðageirans í íslensku efnahagslífi. Þar voru menn sammála og erlendur sérfræðingur lagði ríkt á um að mikilvægasta forsenda þess að sú uppbygging tækist væri að menn hefðu plan um umgjörð efnahagslífsins og sóknarstefnu fram undan. Hann spurði alla viðstadda hvort þeir teldu að Ísland hefði plan og af 450 manns í salnum rétti enginn upp hönd, ekki einu sinni hæstv. fjármálaráðherra sem sat þó á fremsta bekk.

Í máli formanns Viðskiptaráðs í setningarræðu lýsti hann því ágætlega að síðasta ríkisstjórn hefði haft plan með aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Í þeirri aðildarumsókn felst ákveðin skuldbinding um efnahagsstefnu sem byggir á aga og því að menn uppfylli Maastricht-skilyrði til upptöku evru.

Ný ríkisstjórn hefur hins vegar enga nýja stefnu markað og það liggur ekkert fyrir hvert plan nýrrar ríkisstjórnar er. Ég vil þess vegna spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Hvert er planið sem ný ríkisstjórn hefur? Það er mjög alvarlegt fyrir íslenskt efnahagslíf ef menn sitja á viðskiptaþingi og enginn í salnum hefur tilfinningu fyrir því að það sé einhver stefna um það hvert haldið skuli. Sérstaklega vil ég inna hæstv. fjármálaráðherra eftir því hvort hann geti tekið undir með formanni Viðskiptaráðs er hvatti til þess að ríkisstjórnin mundi að minnsta kosti heita því að uppfylla Maastricht-skilyrðin, t.d. fyrir lok þessa kjörtímabils, þannig að stefnan væri sett í einhverja þá átt sem muni tryggja efnahagslegan stöðugleika og gera okkur auðveldara að takast á við verkefnin fram undan og gefa fyrirtækjunum fyrirheit um þann stöðugleika sem er nauðsynlegur til að þau geti vaxið á erlendum markaði.



[10:35]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég sat þetta þing og ég lyfti einmitt upp hönd til að gefa merki um það að ég teldi okkur hafa skýrt plan. (ÁPÁ: Mér yfirsást það.) Þegar rætt er um hvort plan er til staðar eða ekki er spurningin þessi: Plan við hverju? Samfylkingin telur að Evrópusambandið sé einhvers konar heildarlausn, Planið með stóru péi og greini, á öllum okkar vandamálum. Okkar áherslur birtast annars vegar í stjórnarsáttmálanum, hins vegar í ríkisfjármálaáherslum í fjárlagafrumvarpinu. Þar er planið að stöðva skuldasöfnun.

Okkar nýja plan byggir á því að hætta að reka ríkið með halla. Það er bara mjög einföld hagfræði sem býr þar að baki. Hún er sú að ef þú eyðir ekki um efni fram heldur leggur áherslu á að eiga fyrir útgjöldum mun þetta smám saman fara að lagast. Þá fáum við alvöruviðspyrnu. Það er grundvallarplan sem við störfum eftir í dag. Við leggjum líka áherslu á að eiga gott samstarf með atvinnulífinu til að störfum fjölgi í landinu vegna þess að plan okkar gengur út á það að ef störfum fjölgar á Íslandi fáum við meiri getu, frekari burði til að rísa undir rekstri velferðarkerfisins, til að standa okkur betur í heilbrigðismálum, menntamálum og á öðrum sviðum, samgöngum og annars staðar þar sem máli skiptir, þar sem kallað er eftir því að við færumst framar eftir framabrautinni. Það er plan að gera það ekki á grundvelli þess að taka lán. Við höfum líka trú á framtíð Íslands vegna þess að hér eru gæði, auðlindir, mannauður sem við viljum nýta til að auka samkeppnishæfni landsins í samkeppni þjóðanna. Það er hægt að gera með öðrum hætti en þeim að ganga í Evrópusambandið.

Ég tók reyndar eftir því að hv. þingmaður, formaður Samfylkingarinnar, spurði sérstaklega þennan fyrirlesara á fundinum hvort það væri ekki nokkuð ljóst að eina leiðin út úr vandanum væri sú (Forseti hringir.) að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru og fékk neikvætt svar.



[10:37]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ánægjuefni að fundist hafi þrír menn í þessum 450 manna sal, þ.e. ráðherrarnir sem voru viðstaddir, sem könnuðust við að það væri til plan. Í svari hins erlenda sérfræðings við fyrirspurn minni kom fram að það þyrfti alþjóðlega viðurkennt plan.

Ég spyr enn og aftur: Af hverju er fjármálaráðherra ekki tilbúinn til þess að skuldbinda sig til að fara að einhverjum alþjóðlega viðurkenndum viðmiðum í þessu efni? Ég spyr sérstaklega vegna þess að í ræðu forsætisráðherra í gær sást glitta í annað plan. Það sást glitta í það plan að ganga gegn sjálfstæði Seðlabankans, að úthúða forsvarsmönnum í atvinnulífinu af því að þeir eru ekki sammála forsætisráðherranum, að úthúða lífeyrissjóðum almennings vegna þess að þeir keppa við forréttindaklíkur forsætisráðherrans um yfirráð í atvinnulífinu.

Ég segi því: Þetta er auðvitað alþjóðlega viðurkennt plan. Þetta er plan sem allir þekkja, plan ofstjórnar og ófrelsis í viðskiptalífi og plan efnahagslegrar einangrunar. Þess vegna er sérstaklega mikilvægt að fjármálaráðherra afneiti þessu ofstjórnarplani héðan úr ræðustól Alþingis. (BirgJ: Heyr, heyr!)



[10:39]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Þau tíðindi urðu á viðskiptaþingi í gær að forsætisráðherra mætti. Planið hjá fyrrverandi forsætisráðherra var að hunsa þingið, eiga engin samskipti við atvinnulífið þannig að þau miklu tímamót urðu í gær að tekið var upp samtal við atvinnurekendur (ÁPÁ: Samtal?) í landinu með því að þiggja boð um að koma og ávarpa þar ráðstefnu.

Kallað er eftir því að við störfum eftir alþjóðlega viðurkenndu plani. Höfum við ekki verið í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn með efnahagsáætlun? Er það ekki svo að alþjóðleg matsfyrirtæki segi okkur á réttri braut? Er það ekki svo að lánshæfismat hafi verið stöðugt og horfur bara nokkuð góðar? Er það ekki svo að Seðlabankinn segi nú hagvöxt fara vaxandi? Atvinnuleysi er á leiðinni niður. Er ekki hægt að segja að það séu bara býsna margir hagvísar að vísa í rétta átt í augnablikinu? Vonandi tekst að leysa farsællega úr því sem er að gerast á vinnumarkaði. Það er því engin ástæða (Forseti hringir.) til að koma hingað upp og segja okkur stefna í öfuga átt (Forseti hringir.) borið saman við það sem alþjóðlegt umhverfi kallar eftir.