143. löggjafarþing — 67. fundur
 24. feb. 2014.
framtíðarsýn í gjaldeyrismálum.

[16:49]
Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Við áttum smá orðastað um skýrslur áðan, ég og hæstv. fjármálaráðherra. Hér er ein, Sérrit Seðlabanka Íslands um valkosti Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum, þar sem rakið er mjög vel að valkostirnir eru í raun tveir. Það er annars vegar að hafa krónu hér með öllum þeim vandkvæðum sem því kann að fylgja og hefur fylgt Íslendingum á undanförnum áratugum. Hins vegar er það að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru. Þetta eru raunhæfu leiðirnar tvær sem Seðlabankinn mælir með.

Seðlabankinn segir að reynsla Íslendinga af frjálsum gjaldmiðli hafi verið svo slök að hún sé sláandi, sláandi slök. Það segir í þessari skýrslu að hafi krónan haft einhvern lækningamátt efnahagslega hafi lækningin verið verri en sjúkdómurinn, lækningin hafi orðið til þess að efnahagskerfið var helsjúkt.

Við höfum búið við það á Íslandi að hér hafa orðið eignabólur, gengishrun, verðbólgan grasserað, oft og tíðum réttlætt með því að það þurfi að bjarga ákveðnum útflutningsatvinnuvegum. Fé hefur verið flutt frá almenningi til þessara útflutningsatvinnuvega hvað eftir annað. Við búum ekki við stöðugleika. Við höfum ekki búið við stöðugt efnahagslíf og nú erum við með krónuna í höftum, við erum með hana í höftum og það er snjóhengja yfir okkur sem varðar heila landsframleiðslu.

Hæstv. fjármálaráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur núna ákveðið að skynsamlegt sé að loka þeim valmöguleika sem Seðlabankinn telur sigurstranglegri í þessari viðureign, loka þeim valmöguleika. Og það er ekkert víst hvenær við getum opnað þann möguleika aftur. Þá hlýt ég að spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Hver er sýn hans í gjaldmiðilsmálum? Það getur ekki verið að hæstv. fjármálaráðherra taki slíka ákvörðun öðruvísi en að hafa mjög skýra sýn á það (Forseti hringir.) hvernig gjaldmiðilsmálum á að vera háttað á Íslandi á 21. öldinni. Ég óska eftir því að hæstv. (Forseti hringir.) fjármálaráðherra segi núna almenningi og atvinnulífinu í landinu hvernig gjaldmiðilsmálum á að vera háttað að hans mati.



[16:51]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður segir að í skýrslunni er fyrst og fremst fjallað um tvo valkosti. Það felur í sér að Seðlabankinn er í raun og veru að segja að það væri lakari valkostur að taka einhliða upp aðra mynt.

Hv. þingmaður segir að við höfum haft mjög slæma reynslu af því að hafa sjálfstæða mynt í landinu, en það fer auðvitað eftir því hvaða mælikvarða við notum við það mat. Til dæmis ef við notum mælikvarða lífsgæðanna hefur okkur gengið vel á Íslandi þrátt fyrir sjálfstæða mynt sem hefur flakkað töluvert mikið upp og niður með miklum gengissveiflum. Okkur hefur tekist þrátt fyrir þessar sveiflur að stórbæta lífskjör.

Mér finnst hv. þingmaður líka stilla þessu upp þannig að við stöndum frammi fyrir því að hafa krónu sem mun sveiflast mjög mikið og vera í hagkerfi þar sem verðbólga verður há og vextir eða að komast í Evrópusambandið og taka upp evru og komast þannig einhvern veginn í skjól. En nú er það þannig að fjöldi ríkja í evrusamstarfinu er í sárum, upplifir mikinn vanda, glímir við atvinnuleysi, þarf að taka út efnahagssveifluna í gegnum vinnumarkaðinn í stað þess að gera það í gegnum gengið og því fylgja gríðarleg vandamál.

Mín niðurstaða er sú að það er engin einföld lausn til. Við kaupum okkur ekki frá því að þurfa að stunda agaða hagstjórn með því að taka upp mynt einhvers annars myntsvæðis eða mynt annars ríkis. Svarið liggur þess vegna í því að stórauka agann í hagstjórninni. Í því frumvarpi sem ég hyggst kynna fyrir þinginu á næstunni um opinber fjármál verður að finna ný viðmið sem við höfum ekki áður starfað eftir í ríkisfjármálum. Ný ríkisstjórn leggur upp með hallalaus fjárlög, leggur áherslu á að borga niður skuldir og við sjáum ný viðhorf hjá aðilum vinnumarkaðarins á sama tíma sem skipta miklu máli til þess að allir séu að toga í sömu átt.



[16:54]
Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég er að biðja hæstv. fjármálaráðherra að segja það alveg skýrt hvernig gjaldmiðilsmálum á að vera háttað á Íslandi í framtíðinni. Hann vill sem sagt sjálfstæða krónu. Á hún þá að vera í höftum? Ef hún á ekki að vera í höftum á þá að leysa höftin einhvern veginn? Erum við þá að tala um frjálsa krónu? Gaf það góða raun?

Við erum að tala um valkosti. Það er enginn að tala um einfaldar leiðir í þessu. Það er enginn að tala um töfralausnir eða neitt slíkt. Skýrslan er svona löng vegna þess að það eru margar hliðar á þessu. Evrusamstarf er að mati skýrsluhöfunda betri valkostur. Hann felur líka í sér erfiðleika, að sjálfsögðu. Hefur þetta mat farið fram innan ríkisstjórnarinnar? Liggur eitthvert slíkt mat á þessum valkostum að baki þeirri ákvörðun að loka þessum dyrum, slíta viðræðunum?



[16:55]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Spurningin um upptöku evrunnar er ekki bara spurning um að ganga inn í evrusamstarfið. Hún er um leið spurning um að ganga inn í Evrópusambandið og taka upp löggjöf á hinum ýmsu sviðum, til dæmis um stjórn fiskveiða, og taka þátt með virkum hætti í Evrópuþinginu og undirgangast stefnu Evrópusambandsins á fjölmörgum öðrum sviðum. Þess vegna er Evrópusambandsumræðan í raun og veru miklu stærri spurning en bara um það sem snýr að krónunni og evrunni.

Ég sé fyrir mér á næstu árum að við þurfum að auka agann í opinberum fjármálum. Ég sé fyrir mér krónu sem stýrist af gangi okkar í utanríkisviðskiptum, við þurfum því að leggja áherslu á aukin utanríkisviðskipti. Ég vil ekki höft á krónuna en ég sé fyrir mér að við þurfum að uppfæra peningamálastefnuna þar sem grunnurinn verður verðstöðugleiki. Seðlabankinn hefur sjálfur kallað þá stefnu verðstöðugleika plús með nýjum skilyrðum sem taka mið af þeim veikleikum sem fram hafa komið í framkvæmd (Forseti hringir.) peningastefnunnar til þessa.

Þetta tel ég að hægt sé að gera, enda hafi menn trú og traust á því sem stjórnvöld eru að gera (Forseti hringir.) hverju sinni takist okkur að skapa ný störf og efla útflutningsgreinarnar í landinu.