143. löggjafarþing — 67. fundur
 24. feb. 2014.
samkeppnishæfni Íslands á sviði gagnahýsingar.

[16:56]
Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ég hef verið að ganga á milli þessa dagana og vikurnar og skoðað hvernig hægt er að efla atvinnulífið með internetinu. Það er nokkuð ljóst að Ísland er gríðarlega vel staðsett þegar kemur að því að hýsa alþjóðagagnaver. Þetta er markaður sem The Economist talar um að muni vaxa um 30% eða að „big data“, stór gögn, ef við þýðum beint, muni vaxa um 30% á næstu árum. Það er fyrirséð að það mun halda áfram að vaxa mjög hratt umfram það.

Einhvers staðar þarf að hýsa þau gögn og Ísland er mjög vel staðsett til þess að hýsa gögnin. Það sem er mikið horft til upp á langtímasamkeppnisfærni er náttúrlega sparnaður, það er verðstöðugleiki, það er aðgengi að orku, sem er gott á Íslandi, líka til lengri tíma, og það er að lágmarka áhættuna. Ísland uppfyllir öll þau skilyrði og þetta hefur verið tekið saman.

Það sem ég geri er að fara á fundi hjá hagsmunaaðilum. Ég hitti framkvæmdastjóra Farice nýlega og spurði hann bara: Hvað er hægt að gera, hvað er það fyrsta og það mikilvægasta sem hægt er að gera núna til þess að flýta fyrir og styrkja samkeppnisstöðu Íslands sem staðar til að hýsa alþjóðleg gagnaver?

Ég spurði hann hvort það þyrfti lagabreytingu, einhverja reglugerðarbreytingu og hann sagði: Líklega ekki. Ríkisskattstjóri hefur skilgreint það svo að ef erlendir aðilar setja upp tölvuþjón eða „server“, með leyfi forseta, á Íslandi þurfa þeir að stofna fyrirtæki í kringum það, fyrirtæki skipað með stjórn, ráða lögfræðinga til þess að fara í gegnum allt lagaumhverfið o.s.frv. Þetta er því mjög óþjált. (Forseti hringir.) Ef það væri hægt að koma þessu af stað, og svo þegar menn stækka þurfa þeir ekki að uppfylla þessi skilyrði aftur, mundi það auka samkeppnishæfi Íslands mjög mikið. (Forseti hringir.) Mig langar að athuga hvort hæstv. ráðherra sé búinn að skoða þetta. Hvernig getum við flýtt þessu máli?



[16:59]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. þingmanni þegar hann fjallar um möguleika okkar til að sækja aukin viðskipti og aukin umsvif um þá sæstrengi sem liggja til Íslands og geta fært okkur möguleika í tengslum við umhverfisvæna orku og tiltölulega kalt andrúmsloft á Íslandi til þess að draga hingað fjárfestingu. Það eru miklir möguleikar þarna og við höfum rætt þetta aðeins á undanförnum dögum hér í þinginu. Mér skilst að hv. þingmaður sé kominn fyrir nefnd iðnaðarráðherra til þess að kanna möguleika á að byggja upp frekari þjónustu á því sviði á Íslandi. Þau tækifæri eigum við að grípa.

Varðandi þær hindranir sem hv. þingmaður nefnir eru þær til skoðunar í ráðuneytinu. Það er ekki komin niðurstaða um það hvernig hægt er að bregðast við þessum ábendingum, en þær komu reyndar fram fyrir allnokkru síðan. Ég er ekki kominn með endanlega niðurstöðu um það með hvaða hætti við getum rutt úr vegi tæknilegum hindrunum, eða lagatæknilegum hindrunum ætti ég kannski frekar að segja, á borð við þá sem hann nefnir. Ég kannast við það að alþjóðlegir fjárfestar segi þetta draga úr viljanum til þess að stofna til starfsemi á Íslandi.



[17:00]
Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Það er ánægjulegt. Ég fer fyrir starfshópi sem hæstv. ráðherra Ragnheiður Elín Árnadóttir skipaði og þakka kærlega fyrir það. Við töluðum um þetta í haust og hún var áhugasöm um að efla atvinnulífið með internetinu og sjá hvernig hægt er að auka verðmætasköpun og nýta þau tækifæri fyrir samfélagið og menntakerfið o.s.frv. Það var mjög ánægjulegt að hún sagði strax: Við skipum bara starfshóp, þú ferð fyrir honum. Þarna höfum við manneskju sem er röggsöm og tilbúin að taka við góðum hugmyndum hvaðan sem þær koma.

Mig langar að reyna að setja málið í forgang og ætla að athuga hvort hæstv. fjármálaráðherra vill aðstoða mig við það, hvort ég geti átt fund með honum eða aðilum í ráðuneytinu sem eru að vinna að málinu þannig að við getum sett það í forgang, af því að þarna virðist vera lagður steinn í götu þess að nýta alveg ofboðsleg tækifæri. Gæti ég átt fund með hæstv. ráðherra, gæti hann varðað veginn (Forseti hringir.) til þess að flýta málinu?



[17:02]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég vil ítreka að ég mun skoða þessar ábendingar, þessar umkvartanir. Þær snúa að þörfinni fyrir lagabreytingu, hugsanlega, eða reglugerðarbreytingu. Stundum hefur því verið haldið fram við mig að það þurfi einfalda yfirlýsingu um það hvernig lög og reglur yrðu túlkuð á þessu sviði. Vonandi get ég fengið botn í það sem allra fyrst.