143. löggjafarþing — 70. fundur
 27. feb. 2014.
um fundarstjórn.

dagskrá fundarins og kvöldfundir.

[10:32]
Helgi Hjörvar (Sf):

Forseti. Forseta Alþingis getur ekki verið alvara með það hvernig haldið er á þinghaldinu þessa dagana. Nýkomið mál inn í þingið og keyrður hér næturfundur til klukkan að ganga fjögur í nótt í febrúarmánuði. Stjarnfræðileg svik Sjálfstæðisflokksins á kosningaloforðum sínum koma jafnvel okkur, andstæðingum hans, á óvart. Það er að vissu leyti hægt að sýna því skilning að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins leggi á það ríka áherslu að svik þeirra við þjóðina séu rædd í skjóli nætur, en það er hlutverk forseta Alþingis að gæta jafnræðis hér í þinginu og þess að stór málefni er þjóðina varða séu rædd í björtu og að hér sé ekki verið að ala á ófriði dag eftir dag með því að keyra jafn einstrengingslega línu og gert hefur verið af hálfu ríkisstjórnarinnar í þessu máli.

Ég treysti því að forseti Alþingis setji ráðherrum hér einhver mörk um það hvernig er hægt að ryðja út dagskrá þingsins og stífla hana fyrir þeim fjölmörgu mikilvægu þjóðþrifamálum (Forseti hringir.) sem hér þurfa að komast til umræðu. Ég nefni náttúruverndarlögin og minni á að það mál þarf að afgreiða fyrir 1. apríl. (Forseti hringir.) Að óbreyttu stefnir ekki í að það takist. Ég hvet til þess að það mál verði tekið fyrst á dagskrá í dag, virðulegur forseti.



[10:33]
Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Sú sem hér stendur hélt sína fyrstu ræðu í umræðu um skýrslu klukkan hálfþrjú í nótt. Umræðunni lauk með andsvörum klukkan rúmlega þrjú og það var algjörlega óútskýrt af hendi forseta hvaða utanaðkomandi eða innri þrýstingur væri á störf þingsins til að slíkt þætti sæmandi, að þingflokksformaður eins stjórnarandstöðuflokksins væri settur í þá stöðu að flytja fyrstu ræðu sína í umræðu um mál, sem er ekki að mínu viti dagsetningarmál, klukkan hálfþrjú í nótt. Það eru tveir og hálfur mánuður eftir af störfum þingsins miðað við starfsáætlun og stjórnarandstaðan er algjörlega óútskýrt sett í þessa stöðu. Það endurspeglar hörkuna í málinu og endurspeglar eða varpar að minnsta kosti ljósi á þá vangaveltu (Forseti hringir.) að hér sé það framkvæmdarvaldið sem heldur um stjórn þingsins. Eða ég spyr: Hvernig getur forseti útskýrt þá stöðu sem upp kom hér í nótt og virðist ekki nokkur endir á?



[10:35]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Í upphafi þingfundar fáum við dagskrána fyrir fimmtudaginn 27. febrúar 2014 kl. 10.30 árdegis. Ég tek eftir því að röðunin á málum á dagskrá er heldur undarleg, finnst mér. Fyrst er óundirbúinn fyrirspurnatími, síðan eru aðildarviðræður við Evrópusambandið, skýrslan sem við höfum verið að ræða, þar á eftir kemur umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka. Þar á eftir spurningin um þjóðaratkvæðagreiðsluna og þar á eftir spurningin um formlegt hlé.

Ég sé ekki betur en að röðunin eigi helst að vera þveröfug ef það á raunverulega að ræða þessi mál. Ég lít svo á að þessi tvö mál, nr. 4 og 5, séu ekki raunverulega á dagskrá nema mál nr. 3 komi síðast af þessum þremur eða þá að þau séu rædd samtímis.



[10:36]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég hlýt að taka undir með þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað, það er sérkennilegt að í gærkvöldi var jafnvel verið að boða það að mælt yrði fyrir tillögunni sjálfri um slit aðildarviðræðna við Evrópusambandið að næturlagi. Ég veit að virðulegur forseti hlýtur að vera mér sammála um að enginn bragur er á slíkum þingstörfum, að hv. þingmenn séu hér á þvælingi af því að þeir vissu ekki fyrr en klukkan var farin að ganga tvö í nótt að ekki yrði mælt fyrir tillögunni til að mynda klukkan fimm í nótt.

Það er skiljanlegt að hér séu næturfundir þegar líða fer að lokum þingstarfa en þetta hlýtur að vera hægt að skipuleggja betur. Ég er ansi hrædd um að þegar óvissan er svona mikil þróist þingstörfin með neikvæðum hætti. Það þekkjum við auðvitað sem hér höfum verið undanfarin ár að tilhneigingin virðist vera að umræðan fer þá að snúast um þingstörfin en ekki efni málsins. Það hlýtur að vera hægt að koma í veg fyrir það. Ég skora á virðulegan forseta að taka frumkvæði í því máli að leggja línur fyrir næstu vikur í þinginu (Forseti hringir.) þannig að við getum fremur eytt tíma okkar í pontu í að eiga efnislegar umræður og vitum hvert við erum að fara.



[10:37]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ráðgátan mikla um ástæður þessa flumbrugangs og þessarar framgöngu ríkisstjórnarinnar hefur ekki verið leyst. Við höfum upplifað það hér á síðustu dögum að við höfum þurft að inna ríkisstjórnina og ríkisstjórnarmeirihlutann ítrekað eftir skýringum á framgöngunni. Við höfum þurft hér aftur og aftur að fara í umræður um fundarstjórn forseta til að fá lágmarkssvör við eðlilegum athugasemdum og þegar horft er til baka blasir það við hvílíkt sjálfskaparvíti lengd umræðunnar þessa viku hefur verið af hálfu ríkisstjórnarmeirihlutans.

Ef menn hefðu komið hér með skýrar áætlanir og skýringar, svarað strax eðlilegum athugasemdum eins og um hina óboðlegu greinargerð tillögunnar, hefði þessu máli getað undið fram með allt öðrum hætti. Enn er ekki ljóst hvernig ríkisstjórnin ætlar að halda á málinu. Hún stefnir því í fullkominn átakafarveg, hún ljær ekki máls á neinni sýn (Forseti hringir.) um sátt eða samstöðu í þessu mikla hagsmunamáli (Forseti hringir.) og henni er að takast (Forseti hringir.) að gera Evrópumálið að enn erfiðara átakamáli meðal þjóðarinnar en það var fyrir.



[10:39]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég biðst forláts á því að hafa ekki verið nógu skýr áðan. Ég var að leita eftir viðbrögðum virðulegs forseta við athugasemdum mínum varðandi dagskrána. Mig langar að spyrja virðulegan forseta sérstaklega hvernig hann telji dagskrárliði 4 og 5 geta skipt nokkru einasta máli ef búið er að afgreiða og samþykkja dagskrárlið 3. Hvers vegna í ósköpunum ættum við að ræða þjóðaratkvæðagreiðslu eða það að koma á formlegu hléi á aðildarviðræðurnar ef búið er að draga umsóknina til baka?

Það er algjörlega órökrétt að dagskrárliður nr. 3, að draga umsóknina til baka, sé fyrstur á dagskrá. Mun nær lagi væri að hafa hann síðast á dagskrá. Ég inni virðulegan forseta eftir viðbrögðum við þessum athugasemdum.



[10:40]
Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseti telur eðlilegt að umræðunni um skýrsluna verði undið áfram í dag. Að því búnu verði tekið til við umræðu um tillögu hæstv. ríkisstjórnar um að draga til baka aðildarumsóknina að Evrópusambandinu. Það hafði verið kynnt af forseta strax í byrjun þessarar viku og dagskráin hefur verið síðan lítt breytt að öðru leyti en því að bætt hefur verið inn á hana þeim málum sem hafa verið tæk til umfjöllunar í þinginu, ýmist úr nefndum eða frá ríkisstjórn eða frá þingmönnum.



[10:40]
Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Við þurfum ekki að hafa um það mörg orð hversu mikið deilumál möguleg aðild að Evrópusambandinu er. Þetta varðar grundvallarnálgun okkar á pólitík, lífsviðhorf og skoðanir og hefur verið deilumál í áratugi. Ég held að það verði af þessu tilefni núna, þegar ESB-málið er orðið svona stórt hér í þinginu, að leita að efnislegum sáttafarvegi.

Ég kem hér upp til að freista þess að greiða fyrir þingstörfum með því að lýsa því yfir að við þingmenn Bjartrar framtíðar erum reiðubúin að fallast á þá nálgun á Evrópusambandsmálin sem fram kemur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Við lítum á það sem sáttaboð af okkar hálfu að einfaldlega verði litið svo á að hlé verði gert á viðræðunum við ESB, það sé afstaða ríkisstjórnarinnar og að ríkisstjórnin haldi ekki áfram viðræðum við ESB nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.

Við erum að teygja okkur ansi langt í þessu efni, við erum flokkur sem hefur lagt áherslu á að klára viðræður við Evrópusambandið (Forseti hringir.) og leggja samninginn í dóm þjóðarinnar. Hér er sáttaboð af okkar hálfu, það er efnislega mjög samhljóða tillögu Vinstri grænna og við getum afgreitt þetta mál með efnislegri sátt núna.



[10:42]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Slæmt sá ég að það væri, en ef það er rétt sem hér kemur fram við umræðuna, að forseti Alþingis hafi gefið færi á því að mælt væri á Alþingi Íslendinga fyrir tillögu um einhverja stærstu ákvörðun Íslands í utanríkismálum að næturlagi, átta ég mig satt að segja ekki á því hvert stjórn þessa þings er að fara.

Er ekki hér hefðbundið þinghald? Er neyðarástand í landinu? Hvað kallar á svona vinnubrögð?

Virðulegur forseti. Er ekki ástæða til þess að huga að sáttum í þessu máli og einhverri hófsemi þegar jafnvel lágmarkskurteisisreglur eru hér þverbrotnar á mönnum æ ofan í æ? Ég verð að lýsa sérstökum áhyggjum af því að virðulegur forseti gangi of skammt í því að (Forseti hringir.) verja rétt þingmanna fyrir framkvæmdarvaldinu og yfirgangi þess.



[10:43]
Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseti vill taka fram til skýringar að í gærkvöldi var ítrekað leitað eftir því með hvaða hætti þingstörfum mundi vinda fram. Forseti greindi frá því að ætlun hans væri að halda áfram við það dagskrármál sem var þá á dagskrá, skýrsla Hagfræðistofnunar. Hins vegar greindi forseti frá því að ætlun hans væri ekki sú að mælt yrði fyrir nýju máli.

Í sjálfu sér var það nokkuð ljóst vegna þess að fjölmargir þingmenn voru á mælendaskrá. Ætlun forseta var ekki sú að hefja umræðu um þessa miklu tillögu fyrr en á björtum degi í dag og er að vonast til að það geti tekist.



[10:44]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég hvet hv. þingmenn til að greiða fyrir þingstörfum þannig að við getum tekið til við dagskrána. Hér eru 29 mál á dagskrá, mörg mjög mikilvæg, og rétt af okkur að halda áfram með dagskrána.

Ég átta mig hins vegar ekki alveg á forgangsröðun stjórnarandstöðunnar sem virðist klofin til þess atriðis hvaða mál eigi að taka fyrst á dagskrá. Samfylkingin og þingflokksformaður Samfylkingarinnar er greinilega búinn að taka nýja línu miðað við gærdaginn og leggur til að 18. dagskrármálið verði þá 2. dagskrármálið, eftir því sem mér skildist, sem er þvert á það sem flokksmenn hans héldu fram í gær.

Varðandi þær athugasemdir að það sé eitthvert nýmæli að menn standi hér og tali á næturnar minni ég einfaldlega á nokkur mál á síðasta kjörtímabili þar sem við stóðum margar nætur að ræða mál. Þar á meðal var til dæmis Icesave-málið sem ég tel að hafi verið afskaplega mikilvægt mál með tilliti til hagsmuna þjóðarinnar. Menn skulu aðeins gæta sín á því hvað þeir segja hér (Forseti hringir.) með tilliti til þeirra eigin verka á síðasta kjörtímabili.



[10:45]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki betur en að ég hafi verið mjög gætin í orðavali. Ég tók fram að hér væru stundum næturfundir en að fyrir því þyrftu að vera rök og að ég sæi ekki þau rök í þessu tilfelli. Þannig þurfum við auðvitað að nálgast málið.

Síðan verð ég líka að segja að það að vísa ávallt til fortíðar, sem bæði var gert á síðasta kjörtímabili og núna, kemur í veg fyrir að við breytum vinnubrögðunum, svo það sé sagt. Það sem ég kvaddi mér þó hljóðs til að segja var að mér fannst það mjög mikilvægt innlegg sem hv. þm. Guðmundur Steingrímsson kom hér með. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs lögðum okkar tillögu fram, hún lá ekki fyrir í byrjun vikunnar, hún er viðbrögð við þeirri tillögu sem stjórnarflokkarnir leggja fram, tilraun til að skapa einhverja sáttaleið í flóknu máli og horfast í augu við stefnu þeirra stjórnarflokka sem hér eru en standa um leið við þau loforð sem allir flokkar gáfu um að þjóðin fengi að segja sitt um þetta mál.

Mér finnst mjög mikilvægt að við færum okkur einmitt inn í efnislega umræðu um hvernig eigi að lenda þessu stóra máli því að, virðulegi forseti, það er ekki (Forseti hringir.) að fara neitt úr pólitískri umræðu. Það að reyna að þvinga það út af borðinu með þeim hætti sem hér er gert mun heldur ekki færa það út úr pólitískri umræðu. Hv. þingmenn stjórnarliðsins verða að horfast í augu við það.



[10:47]
Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar að gera að umtalsefni uppákomu sem varð hér í þingsal í gær þegar hæstv. fjármálaráðherra gerði sér lítið fyrir og nálgaðist ræðumann í ræðustól í þingsal og rétti honum pappíra. Ég vil bera það undir forseta hvort þetta geti samræmst þingsköpum og þeim venjum sem eru um samtal millum fólks í þingsal.

Það sjá allir hversu ótækt það væri ef aðrir þingmenn stæðu í kringum ræðustólinn og væru í því að sýna ræðumönnum einhverja pappíra. Ég er hræddur um að það mundi fljótlega þróast út í mjög óæskilega hluti, virðulegur forseti. Ég vil fá álit forseta á þessu vegna þess að sá þingmaður, sem auðvitað var gróflega misboðið með þessari framkomu, hefur komið fram hér síðan og beðist afsökunar á orðum sem hann lét falla í kjölfarið. En það er enga iðrun að sjá hjá þeim sem ögraði (Forseti hringir.) hv. þingmanni með þessum hætti.



[10:48]
Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseti tjáði sig sérstaklega um þessi mál, bæði í kjölfar atviksins og einnig í upphafi þingfundar eftir kvöldmatarhlé í gær, og vísar til þeirra ummæla sinna.



[10:48]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég þakka forseta fyrir að hafa frumkvæði að því að formenn hittust áðan, en þá brá svo við að formenn ríkisstjórnarflokkanna komu ekki með neitt, engar tillögur um það hvernig við ætlum að klára þetta mál á Alþingi. Við höfum nákvæmlega engan ramma. Það var ekkert tilboð. Það sem ég krefst eftir þennan fund, út af því að þar fékk ég engin svör, er að við fáum að vita af hverju er verið að reyna að hasta þessu máli í gegnum þingið án nokkurra skýringa. Almenningur á rétt á því. Ein af ástæðunum fyrir því að fólk er hérna fyrir utan á hverjum degi er að það skilur ekki hvað er í gangi á hinu háa Alþingi.



[10:49]
Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég vil sérstaklega nota þetta tækifæri til að þakka hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni fyrir að freista þess að nálgast á uppbyggilegan hátt þann efnislega hnút sem við sitjum uppi með hér. Ég held að það sé raunar afar mikilvægt að við reynum hvert um sig að koma sjónarmiðunum upp úr skotgröfunum og nálgast viðfangsefnið sem lýðræðisverkefni miklu frekar en sem hefðbundið átakaverkefni þar sem meiri hlutinn ræður.

Þetta er einfaldlega svoleiðis mál að við getum náð utan um það inn í framtíðina með því að fara þá sáttaleið sem þingflokkur Vinstri grænna leggur til. Þar eru ekki ýtrustu kröfur Vinstri grænna en þar eru heldur ekki ýtrustu kröfur neins. Það er tilraun til þess, af væntumþykju við þingræðið og þjóðina, að nálgast þetta sem lýðræðisverkefni, sem breiða uppbyggilega nálgun. (Forseti hringir.) Ég vænti þess að við notum hér öll nefndavikuna til að ígrunda það (Forseti hringir.) af sanngirni og yfirvegun hvort það gæti verið leið sem væri þinginu til sóma og þjóðinni til gleði.



[10:51]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur, það skiptir máli að nálgast þetta verkefni sem lýðræðisverkefni. Ég ítreka það sem ég hef margsagt í umræðum undanfarna daga, við í Samfylkingunni erum tilbúin til samtals um efnislega niðurstöðu þessara Evrópumála. Við erum tilbúin til að ganga býsna langt og ég hef margsagt að við erum tilbúin að viðhalda því hléi sem nú er. Það er auðvitað athyglisvert ef stjórnarandstaðan á Alþingi er í sáttahug, tilbúin að sætta sig við efni stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, en hún er sjálf ekki tilbúin til að sætta sig við orð síns eigin stjórnarsáttmála. Það sýnir okkur auðvitað að hér er um svik að ræða, það er verið að gera annað en lofað var í upphafi. Það er verið að gera annað en meira að segja flokkarnir tveir sömdu um í upphafi og það eru öfgaöfl í flokkunum sem hafa náð undirtökunum í þessum málaflokki og eru ákveðin í að efna til átaka (Forseti hringir.) í samfélaginu um Evrópumál.



[10:52]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ef við viljum í alvöru breyta vinnubrögðunum hér þurfum við að breyta mjög mörgu, m.a. orðræðunni. Ef menn eru í fullri alvöru að tala um það sem ögrun að koma með blað í ræðupúltið eru þeir ekki að lýsa raunveruleikanum.

Ég hef verið þingmaður frá árinu 2003. Það hefur margoft verið sett blað í mitt ræðupúlt, það er engin ögrun, það hefur verið gert bæði af samherjum og andstæðingum í pólitík. Mönnum er fullfrjálst að halda áfram að setja blöð í ræðupúltið á meðan ég held ræðu, ef menn hafa einhverjar efasemdir um það. Ég hef aldrei haft hugmyndaflug í að halda að það sé ögrun.

Við munum ekki stýra því hvort rætt verði um ESB-mál í þjóðfélaginu. Þó að við mundum slíta viðræðunum á morgun fara þau ekkert út af dagskránni ef þjóðin og hagsmunaaðilar hafa áhuga á því að halda þeim á dagskrá. Það er bara þannig.

Svo er það spurningin: Eigum við að ræða þessa (Forseti hringir.) skýrslu efnislega? Ég held að það væri afskaplega mikilvægt að við mundum (Forseti hringir.) taka upplýsandi umræðu um efni skýrslunnar. Það væri góð byrjun.



[10:54]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það er alveg rétt að þingmenn haga oft og tíðum málum sínum svolítið eftir því hvar þeir sitja, stjórnarmegin eða stjórnarandstöðumegin. Auðvitað þurfum við að passa okkur á því að ýkja hlutina ekki þannig að það sé ekki hægt að snúa til baka. Umræðan hér hefur svo sannarlega einkennst af gífuryrðum á báða vegu og skiljanlega því að fólk er í uppnámi. Ég hvet samt þingmenn til að spara gífuryrðin ef mögulegt er því að við lendum alltaf aftur á punkti eitt, alveg eins og þegar formaður utanríkismálanefndar kallaði í gær nefndarálit ritdóma. Það er ekki til að auka virðingu Alþingis eða trú okkar á að ferlið með þessa skýrslu verði eðlilegt. Við verðum að passa okkur og ég hvet fólk til að fara sáttaleiðina sem VG hefur lagt af stað með. (Forseti hringir.) Það er ekki draumastaða neins flokks en þó kannski besta leiðin fyrir þjóðina.



[10:55]
Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Fyrir ekki mikið meira en ári síðan gengu tveir hv. þingmenn með skilti hér fyrir framan ræðupúltið á meðan sá sem nú er hæstv. menntamálaráðherra var í pontu. Hann sá það ekki einu sinni sjálfur. Forseti sem þá var sleit umsvifalaust fundi, gerði hlé á þingfundi. Þingmennirnir tveir sem gengu hér fram hjá réttu ekki hv. þingmanni nokkurn skapaðan hlut í pontuna, komu hér í stólinn og báðust afsökunar á framferði sínu og var fundi slitið eftir það.

Ég vil bera það saman við viðbrögð hæstv. forseta í gær við þeirri uppákomu sem varð hérna þegar hv. þm. Katrín Júlíusdóttir var í stólnum.

Gott og vel. Stjórnarmeirihlutinn lofaði því að bera áframhald viðræðnanna undir þjóðina en er nú að gera þveröfugt við það sem hann lofaði. Hæstv. menntamálaráðherra sagði hér í gær að þegar staðreyndir breyttust skipti hann um skoðun. En hvaða staðreyndir hafa breyst í þessu máli? Akkúrat engar. Hvaða staðreyndir hafa breyst frá því að hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra sátu á Laugarvatni og töluðu um þjóðaratkvæðagreiðsluna sem fara ætti fram á þessu kjörtímabili? (Forseti hringir.) Ekki nokkur skapaður hlutur. Hæstv. menntamálaráðherra hlýtur (Forseti hringir.) að koma hér upp og útskýra hvaða staðreyndir hafa breyst í þessu máli. Hér er verið að bjóða ákveðna lausn, ákveðna leið til að bjarga andliti þessarar ríkisstjórnar. Af hverju þiggja menn það ekki?



[10:56]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég er að verða hérna eins og biluð plata að tala um þessi vinnubrögð og þetta næturbrölt. Mér finnst alveg með ólíkindum, það hefur ekkert staðið á okkur í minni hlutanum að ræða hér mál en þau hafa einfaldlega ekkert komið frá stjórnarmeirihlutanum. Ég velti fyrir mér hvort þetta sé svona á þjóðþingum annars staðar á Norðurlöndunum sem við berum okkur saman við. (Gripið fram í: Nei.) Þurfum við ekki að fara í læri þangað? Þetta er eins óeðlilegt og hugsast getur og mér finnst mjög einkennileg staða sem við erum hér í, minni hlutinn, við erum eiginlega eins og við séum að bjarga stjórnvöldum frá því að tortíma sjálfum sér í þessu máli. Við erum að leggja fram lausn sem miðar að því að setja þetta mál bara í frost, í hlé, og það vill þannig til að sú leið er að mínu mati besta leiðin fyrir þjóðina, besta leiðin fyrir stjórnvöld og besta leiðin fyrir minni hlutann. Er það ekki eitthvað? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[10:58]
Sigrún Magnúsdóttir (F):

Herra forseti. Ég kveð mér hér hljóðs um fundarstjórn forseta. Mér finnst forseti hafa staðið sig vel á þeim óróleikatímum sem verið hafa hér undanfarna daga. Hann er yfirvegaður, hann sker úr málum og úrskurðar jafnóðum. Mér finnst umræðunni hér snúið nokkuð á haus þegar menn koma hér upp og telja að lengd umræðunnar á Alþingi sé hægt að skrifa á ríkisstjórn og stjórnarmeirihlutann. Við höfum talað mjög lítið hér, það verður í sekúndum talið, held ég, sem ég hef verið í þessum ræðustól, svo dæmi (Gripið fram í.) sé tekið, þannig að það skrifast á ykkur, þessi óróleiki og þessi tímalengd á umræðum og ræðum. [Kliður í þingsal.]



[10:59]
Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við erum ólíkir einstaklingar og það kann vel að vera að hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni finnist í lagi að láta koma að sér með athugasemdir og leggja blað fyrir sig í ræðustól meðan menn eru hér að gera athugasemdir við málflutning þeirra sem eru í ræðustólnum. Það má líka vel vera að í framhaldinu af slíkum atburði kunni hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson vel við það að menn standi hér á hliðarlínunni og flissi og segi honum að róa sig þegar hann gerir við þetta athugasemdir. Það kann vel að vera, en mér líkaði það ekki. Þess vegna snöggreiddist ég í gær. Á því er ég búin að biðjast afsökunar, ég er búin að því og ég vona að menn hafi náð því, meðtekið það og tekið við því.

Hvað hæstv. fjármálaráðherra gerir síðan hvað sína framkomu varðar og sinn hlut í þessari snerru er alfarið hans mál. Hvað mig varðar er þetta mál búið en ég vona að það verði okkur lærdómur um það að við erum ólík og við kunnum ekki öll við framkomu sem (Forseti hringir.) má líkja við gauragang. Við gerum það ekki og þess vegna ber okkur að koma fram hér (Forseti hringir.) hvert við annað af virðingu og ég mun leggja mig fram um að gera það sjálf.



[11:00]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við skulum bara tala um hlutina eins og þeir eru. Fliss í hliðarsal, gauragangur og frammíköll er nokkuð sem hefur verið í gangi hér. Ef við ætlum að segja: Það er nokkuð sem við viljum alls ekki sjá, þurfum við að breyta því í grundvallaratriðum. Það er þá okkar allra að gera það. Ég hafna því hins vegar þegar menn leggja upp …(Gripið fram í.) Já, hv. þm. Helgi Hjörvar þarf að byrja í dag. En ég hafna því að það að setja blað í ræðustólinn sé einhver ögrun. Ég var að svara hv. þm. Róberti Marshall hvað það varðaði.

Síðan er staðreyndin sú að ef við viljum gera eins og gert er í þeim löndum sem við berum okkur saman við er mjög margt sem við þurfum að laga, sérstaklega þegar kemur að ríkisfjármálum. (Gripið fram í.) Þá þarf ábyrgð allra aðila, ekki bara stjórnarinnar. Þar er ýmislegt annað sem við þurfum að taka á sem við höfum reynt að ræða (Forseti hringir.) og tekið hér upp. Því miður voru það nær eingöngu meirihlutaflokkarnir (Forseti hringir.)sem tóku þá umræðu á sínum tíma en við skulum vona að það breytist.



[11:02]
Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka sáttaboðið og ég vil líka nota tækifærið og benda á að það er algjörlega ný staða í stjórnmálum og umræðum um Evrópusambandið í þjóðfélaginu, í þessum þingsal, að fram sé komin tillaga um að slíta viðræðunum. Enginn stjórnmálaflokkur sagði það upphátt fyrir síðustu kosningar. Tillögur voru meira að segja lagðar fyrir á flokksþingum Framsóknarflokksins, og að ég held Sjálfstæðisflokksins, þori þó ekki að fara með það, um að slíta viðræðum. Þær voru felldar.

Þetta er ný staða.

Við erum hér, þingflokkur Bjartrar framtíðar, algjörlega þeirrar skoðunar og höfum alltaf verið, að þessar viðræður eigi að klára og samninginn eigi að leggja fyrir dóm þjóðarinnar. Það hefur verið okkar afstaða. Við erum núna að segja: Horfumst í augu við ósættið í þessu máli. Veljum sáttina, það verður aldrei friður um að slíta. Skilgreinum þetta hlé, (Forseti hringir.) skilgreinum farveg málsins, kynnum skýrslu Hagfræðistofnunar almenningi, ræðum hana, ræðum málið efnislega, (Forseti hringir.) búum til farveg grundvallaðan á stjórnarsáttmálanum sjálfum. Sáttaleiðin er fyrir hendi.