143. löggjafarþing — 71. fundur
 10. mars 2014.
fyrri yfirlýsingar forsætisráðherra.

[16:24]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir hlý orð um uppbyggingarstarf og hagvöxt fyrri ríkisstjórnar. En okkur er nokkur vandi á höndum í þinginu vegna þess að forsætisráðherra svaraði ekki þeim spurningum sem fyrir hann voru lagðar. Hv. þm. Árni Páll Árnason spurði hæstv. forsætisráðherra um bréf sem hann skrifaði kjósendum og undirritaði eigin hendi, hvort ekkert væri að marka slíkt eða hvort þetta væri eina bréfið frá honum sem ekki væri að marka.

Hæstv. forsætisráðherra gaf sömu yfirlýsingar út á ýmsum öðrum vettvangi, það er auðvitað hægt að draga það upp líka. Það er eðlilegt að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort ekki sé hægt að treysta loforðum hans undirrituðum eigin hendi, eða hvort hann áskilji sér rétt eins og ráðherra Sjálfstæðisflokksins til að skipta bara um skoðun ef honum sýnist svo eftir kosningar.

Það er líka ástæða til að spyrja hæstv. forsætisráðherra um það sem hv. þm. Birgitta Jónsdóttir spurði og fékk heldur engin svör við. Hér sömdum við fyrir ellefu dögum síðan við formenn stjórnmálaflokkanna, formenn þingflokka, fyrir tilstuðlan forseta Alþingis um að fram færu samræður á tíu daga tímabili. Er það þannig að ef maður semur við formann Framsóknarflokksins um framgang þingstarfa með formlegum hætti og því er lýst yfir á forsetastóli, telji formaður Framsóknarflokksins sér heldur ekki vera skylt að uppfylla þá samninga?

Úr því að við erum farin að spyrja um orð og efndir gerir hæstv. forsætisráðherra nú mjög mikið úr því hvað sé heiðarlegt og rétt og hvað sé ómögulegt. Það gerir hann eftir kosningar. Þá er rétt að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hann hafi sagt kjósendum að það væri óheiðarlegt og órétt að Framsóknarflokkurinn stæði að aðildarviðræðum við Evrópusambandið og hvort hann hafi talið það ómögulegt og gert kjósendum grein fyrir því að það væri ómögulegt og ef þeir kysu Framsóknarflokkinn (Forseti hringir.) mundi hann slíta aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Hvar lýsti hæstv. forsætisráðherra því yfir fyrir kosningar (Forseti hringir.) fyrst þetta er allt saman svona heiðarlegt, rétt og óframkvæmanlegt?



[16:26]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Varðandi upprifjun hv. þingmanns á fyrirspurnum annarra þingmanna vísa ég til þeirra svara sem ég gaf við þeim fyrirspurnum. Hvað hins vegar varðar þá spurningu hv. þingmanns hvort stefna ríkisstjórnarinnar nú sé ekki í samræmi við þær yfirlýsingar sem voru gefnar fyrir kosningar get ég svarað því afdráttarlaust að hún er það að öllu leyti. Við höfum ekki dregið dul á það að við værum andsnúin aðild Íslands að Evrópusambandinu. Menn gáfu sér hins vegar tíma til þess að skoða það og meta hvaða möguleikar væru í stöðunni. Forustumenn Evrópusambandsins voru mjög afdráttarlausir í þeim efnum, m.a. varðandi spurninguna um það hvort ríkisstjórn sem ekki vildi inn í sambandið þar sem hvorugur flokkanna vildi inn, gæti verið í viðræðum um aðgang að sambandinu. Það töldu menn algjörlega óraunhæft og lái þeim hver sem vill og hver sem kynnir sér það út á hvað viðræður við Evrópusambandið ganga raunverulega út á.

Með öðrum orðum, virðulegur forseti, málin hafa svo sannarlega skýrst. Þar sem menn hugsanlega, það má hugsanlega gagnrýna menn fyrir það, hefðu mátt gefa sér fyrir langa löngu, bæði þingmenn stjórnar og stjórnarandstöðu, er núna orðið algjörlega borðleggjandi. Það er ekki hægt að vera í viðræðum um að reyna að komast inn í Evrópusambandið ef menn vilja ekki inn í Evrópusambandið.



[16:28]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Afstaða Evrópusambandsins liggur fyrir; ekkert knýr á um slit viðræðnanna.

Ef það er svona djúpstæð sannfæring hæstv. forsætisráðherra að það sé ómögulegt fyrir þann sem er andvígur aðild að halda áfram viðræðum, hvers vegna sagði hann kjósendum það ekki fyrir kosningar? Það hlýtur að hafa verið alveg jafn augljóst fyrir kosningar þessi ægilegi ómöguleiki og hvað væri heiðarlegt og hvað væri rétt. Þess vegna verður ekki dregin önnur ályktun en sú að í kosningabaráttunni vorið 2013 hafi hæstv. forsætisráðherra hvorki breytt heiðarlega né rétt því að hann hafi vísvitandi leynt kjósendur því að hann ætlaði að leita allra leiða til að koma í veg fyrir að þjóðin fengi að ráða úrslitum málsins og eftir kosningar (Forseti hringir.) að láta það koma fram þegar enginn gæti (Forseti hringir.) lengur haft áhrif á það (Forseti hringir.) hvað hann gerði.



[16:29]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég fór nú ekki leynt með það í umræðum á síðasta kjörtímabili hversu fáránleg sú staða væri sem síðasta ríkisstjórn var í þar sem a.m.k. annar stjórnarflokkurinn var fylgjandi aðild eða réttara sagt fylgjandi viðræðum, ég fór ekki leynt með að það væri staða sem gengi ekki upp. Stækkunarstjóri sambandsins var raunar sammála þegar hann heimsótti þingið í lok árs 2012 og útskýrði að það yrði að verða mikil breyting í næstu kosningum, ef það ætti að vera raunhæft að halda viðræðum áfram þyrftu menn að fá ríkisstjórn sem einsetti sér að komast inn í sambandið og ætlaði að draga þann vagn.

Hins vegar var mikilvægt að fá það endanlega staðfest, fá það upp á borðið hvað felst í því að vera í viðræðum við Evrópusambandið, vegna þess að hér hefur orðið lífsseig sú umræða að hægt sé að fara í viðræður, sækjast eftir því að ganga í sambandið til þess eins að leita tilboða, sjá hvað Evrópusambandið sé tilbúið að bjóða til þess að reyna að ná landinu inn í sambandið (Forseti hringir.) sem sækist eftir því að komast inn.