143. löggjafarþing — 73. fundur
 12. mars 2014.
umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka, frh. fyrri umræðu.
stjtill., 340. mál. — Þskj. 635.

[15:39]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Orðheldni og traust eru mikilvæg forsenda fyrir lýðræði. Stjórnmálamenn verða að vera orðheldnir til að grafa ekki undan trausti á stjórnmálunum og þar með meginstoðum lýðræðisins. Það mál sem við ræðum nú, um að draga til baka eða slíta aðildarviðræðum við Evrópusambandið, er dæmi um gróf svik á kosningaloforðum, svik í máli sem er mjög mikilvægt fyrir sum okkar en svik við lýðræðisskipan á Íslandi. Þetta eru stór orð, herra forseti, en við skulum rifja upp loforð hæstv. ráðherra Sjálfstæðisflokksins.

Formaður flokksins, hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson, fór yfir það í ræðu 23. mars sl. að það væri stefna Sjálfstæðisflokksins að aðildarviðræðum yrði hætt en að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald þeirra á fyrri hluta kjörtímabilsins.

Hæstv. núverandi menntamálaráðherra, Illugi Gunnarsson, sagði í Silfri Egils fyrir réttu ári, 10. mars í fyrra, að hann væri sammála því að það ætti að stöðva viðræðurnar en það ætti að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu svo þjóðin fengi að segja sinn hug um það hvort hún vildi klára aðildarviðræðurnar. Hann bætti um betur og sagði að ef það yrði þannig að þjóðin segði já yrðu allir menn og allir flokkar bundnir af þeirri niðurstöðu.

Annar hæstv. núverandi ráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir, sagði í Silfri Egils 17. mars sl., með leyfi forseta:

„Að sjálfsögðu mun Sjálfstæðisflokkurinn standa við það að þjóðin fær að ákveða hvort það verði gengið lengra í þessu máli. Það er þjóðarinnar en ekki einstakra stjórnmálamanna.“

Fjórði hæstv. núverandi ráðherrann, Ragnheiður Elín Árnadóttir, sagði, með leyfi forseta:

„Það sem mér þykir mestu máli skipta er að þjóðin fái að greiða um það atkvæði hvort þessu verði haldið áfram eða ekki. Og ég treysti þjóðinni til þess að taka upplýsta ákvörðun.“

Orðheldni og traust er að engu haft af hálfu þessarar ríkisstjórnar.

Hæstv. forsætisráðherra talaði líka í kringum kosningarnar og við stjórnarmyndun eftir kosningarnar um þjóðaratkvæðagreiðslu. Núna hefur hann verið inntur eftir því hvað liggi á. Hvað hefur hæstv. forsætisráðherra sagt þjóð sinni? Hann hefur sagt að það sé krafa frá Evrópusambandinu að fá skýr svör. Svo vill til að til eru siðuð sambönd eins og Evrópusambandið sem gefa út sína stefnu. Hana má finna í ræðu stækkunarstjóra Evrópusambandsins, Stefans Füles, sem hann flutti í utanríkismálanefnd Evrópuþingsins. Hana er að finna á heimasíðu sambandsins. Hann flutti þessa ræðu 16. október 2013. Ég ætla ekki að hafa eftir orðrétt en ræðan er á ensku og í lauslegri þýðingu er hann að lýsa því að á Íslandi hafi viðræðurnar verið stöðvaðar og Evrópusambandið sé tilbúið þegar og ef Ísland sýnir áhuga til áframhaldandi viðræðna. Hann lýsir því jafnframt yfir að hann sé fullur trausts á því að hægt sé að finna niðurstöðu sem henti báðum aðilum.

Hæstv. forseti. Það er mér algjörlega óskiljanlegt hvernig hæstv. forsætisráðherra helst uppi að halda því fram við þing og þjóð að það sé einhver þrýstingur af hálfu Evrópusambandsins að við tökum ákvörðun. Það er þá eðlilegt að við fáum einhverjar frekari upplýsingar um hvar þetta hafi farið fram en í ræðu stækkunarstjórans, sem er á heimasíðu Evrópusambandsins, er ekki að finna nein orð í þá veru.

Hæstv. forsætisráðherra. Í dag erum við öll Kópavogsbúar. Í gær var samþykkt í bæjarstjórn Kópavogs áskorun til Alþingis um að sú tillaga sem nú er til umræðu yrði dregin til baka og um áframhaldandi viðræður færi fram þjóðaratkvæðagreiðsla. Það var framsóknarmaður, Ómar Stefánsson, bæjarfulltrúi Kópavogsbæjar, sem lagði fram þessa tillögu. Hana samþykktu bæjarfulltrúar allra flokka í Kópavogsbæ, að undanskildum þremur sjálfstæðismönnum, einn þeirra samþykkti en þrír sátu hjá; þeir treystu sér ekki til að vera á móti.

Kópavogur er stærsta sveitarfélagið í Suðvesturkjördæmi. Suðvesturkjördæmi er stærsta kjördæmi landsins þó að íbúar Kópavogs njóti ekki sama atkvæðavægis og íbúar Skagafjarðar. Íbúar Kópavogs eiga kjarkaða bæjarfulltrúa sem standa með kjósendum sínum og standa með vilja kjósenda sinna og standa með loforðum flokka sinna. Hvaða vilji stendur að baki annar en kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins og ýmissa annarra flokka?

Í skoðanakönnunum, annars vegar Fréttablaðsins, vildu um 80% kjósenda þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi viðræður. Í nýjum Þjóðarpúlsi Gallups eru þetta um 72% kjósenda og þar af 60% sem vilja klára aðildarviðræðurnar, en látum það vera. Málið hér snýst um traust og orðheldni og að fólk fái að segja afstöðu sína. Að baki þessari áskorun standa líka nær 50 þús. undirskriftir og að baki þessari áskorun standa mótmæli kjósenda á Austurvelli dag eftir dag. Krafan er skýr, krafan er sú að tillagan sem hér er til umræðu verði dregin til baka og síðan verði ákvörðun um áframhaldandi viðræður sett í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Herra forseti. Ég hafna þeim hugmyndum sem hér hafa komið fram um að málið gangi til nefndar. Ég neita því að Alþingi sé sett á það plan að hér sé verið að fjalla um kosningasvik í þinglegri meðferð. Það er eitthvað nýtt. Já, svíkjum bara kjósendur og svo tökum við svikin í þinglega meðferð.

Herra forseti. Það er fyrir neðan virðingu Alþingis. Ég tek undir áskorun 50 þús. kjósenda um að þetta mál verði dregið til baka. Síðan er hægt að finna góðan tíma fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu og áskorun Kópavogsbæjar.

Stjórnmál eru list hins mögulega. Þau snúast ekki um duttlunga einstakra stjórnmálamanna. Herra forseti. Ég er með Kópavogsbúum í þessu máli.



[15:49]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hún fjallaði mjög mikið um kosningasvik, það voru hennar orð, og lýðræðið og það að hér er ekki verið að krefjast þess að Ísland gangi eða gangi ekki í ESB heldur er verið að krefja hæstv. ríkisstjórn um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu. Í því sambandi eru oft notuð hin svokölluðu ómöguleikarök. Hv. þingmaður var hér á seinasta kjörtímabili og mér þykja þau rök svolítið sérstök með hliðsjón af því að á seinasta kjörtímabili var annar stjórnarflokkanna opinberlega á móti því að ganga í ESB. Vissulega hefur verið gagnrýnt að þetta hafi ekki gengið miklu hraðar fyrir sig en það gerði, en það gekk þó. Sérstaklega eftir að hafa lesið þessa skýrslu, hugsa ég í milljónasta skiptið, dettur mér í hug að hugsanlega sé hægt að greiða úr ágreiningi Íslands við Evrópusambandið varðandi landbúnaðarmál og jafnvel sjávarútveg, eitthvað sem mér þótti þar áður næstum því óhugsandi.

Mér þykir svolítið sérstök þessi ómöguleikarök með hliðsjón af því að nú er komin reynsla á að það sé að minnsta kosti einn flokkur í ríkisstjórn sem sé beinlínis og opinberlega á móti því að ganga í ESB.

Því langaði mig að inna hv. þingmann eftir reynslusögum í þeim efnum, þá kannski bara hv. stjórnarliðum til fróðleiks um það hvernig hægt sé að standa faglega að svona ferli, í fyrsta lagi hvort það sé þá ekki alveg örugglega hægt, í öðru lagi hvort það sé þá kannski eitthvað í því ferli sem hæstv. ríkisstjórn mætti taka sér til fyrirmyndar þegar hún tekst á við verkefnið sem henni er kannski ekkert sérlega vel við.



[15:51]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er erfitt fyrir stjórnmálamenn og framkvæmdarvaldið að framfylgja verkefni sem viðkomandi hefur litla trú á. Þeir stjórnmálamenn sem ganga til kosninga og lofa kjósendum sínum, segja: Flokkurinn minn er ekki hlynntur aðild, við teljum það ekki best fyrir Ísland en við viljum að kjósendur fái að kveða upp úr með það í þjóðaratkvæðagreiðslu — þá verður viðkomandi flokkur að standa við það.

Það er ekki ríkisstjórnin sem verður í stöðugum viðræðum við Evrópusambandið. Við vorum með mjög stóra og yfirgripsmikla samninganefnd með embættismönnum og fagfólki og ýmsum aðilum sem sáu um þennan málarekstur fyrir Íslands hönd en svo er auðvitað einstakra ráðherra að eiga samskipti á sínum málasviðum. Ég held að enginn ætti að óttast að ekki væri hörð hagsmunagæsla þeirra aðila sem leggja upp í þann leiðangur og eru mjög tortryggnir í garð sambandsins. Vissulega mundi ég vilja að það væri minn flokkur, Samfylkingin, sem leiddi slíkar viðræður en aðalatriðið um hvort viðræðurnar eigi að fara fram er að úr því sé skorið í þjóðaratkvæðagreiðslu eins og lofað hefur verið.



[15:54]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það er einmitt þetta tvennt sem mér sýnist að sé kannski aðalbitbeinið hérna. Ég heyri ekki betur en að þetta séu aðalrökin, þótt kannski sé ágreiningur um það hver séu aðalrökin þannig séð gegn því að halda þessa þjóðaratkvæðagreiðslu, en ómöguleikarökin eru þau sem ég heyri hvað oftast. Mér finnst þetta svolítið hljóma eins og lögfræðingur sem treystir sér einhvern veginn ekki til að vinna að hagsmunum skjólstæðings vegna þess að hann telur hann ýmist sekan eða saklausan, burt séð frá því hver lögvernduð réttindi sakbornings séu. Mér finnst það svolítið sambærilegt. Ef þjóðin ákveður að ríkisstjórnin eigi að gera eitthvað á hún væntanlega að gera það, eða það hefði maður haldið.

Til að halda áfram með spurninguna velti ég fyrir mér með þetta fagfólk. Var það einhvern tímann eitthvert vandamál að finna fagfólk sem treysti sér til þess að vinna að hagsmunum þjóðarinnar í þessu máli? Var það eitthvert vandamál á seinasta kjörtímabili?



[15:55]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Samninganefndin var einstaklega vel skipuð, að ég tel, og vann mjög vel að aðildarviðræðunum. Varðandi ómöguleikarökin vil ég bara endurtaka orð úr ræðu minni um orðheldni og traust. Með ómöguleikarökunum er formaður Sjálfstæðisflokksins að gera hæstv. ráðherra, sjálfan sig sem sagt, sem og hæstv. ráðherra Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, Ragnheiði Elínu Árnadóttur, Illuga Gunnarsson og jafnvel Kristján Þór Júlíusson, þótt ég hafi ekki vitnað í þann hæstv. ráðherra hér í ræðustól, að ómerkingum. Ef þeim finnst svona sjálfsagt að standa ekki við orð sín ættu þau að hugsa sinn gang, um erindi sitt í stjórnmálum.



[15:56]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hún gekk eiginlega eingöngu út á kosningasvik Sjálfstæðisflokksins.

Hv. þingmaður átti nú í fyrri ríkisstjórn samstarf við flokk sem hafði lofað því að ganga ekki til samstarfs við AGS, aldrei samþykkja Icesave og ekki ganga í Evrópusambandið en rann þó á því öllu saman, það eru Vinstri grænir. En ég geri að sjálfsögðu miklu meiri kröfur til Sjálfstæðisflokksins og ég er alveg sammála því að hann eigi að standa við sín kosningaloforð.

Þá er það spurningin: Hvernig voru þessi kosningaloforð? Eins og hv. þingmaður las þá stendur í öllum þessum loforðum: Ef haldið er áfram viðræðum þá skulu fara fram (Gripið fram í: Nei, nei, nei, nei.) kosningar. (Gripið fram í.) Og menn sögðu líka að farið yrði í kosningar. En nú er komin upp sú staða að menn ætla ekkert í viðræður (Gripið fram í: Nei …) áfram. Menn ætla ekki að halda þeim áfram, það stendur ekki til. Ég spyr þá hv. þingmann tveggja spurninga, annars vegar: Af hverju var ekki gengið til kosninga þegar ákveðið var að ganga í Evrópusambandið? Það er miklu stærra mál, afsal á sjálfstæði þjóðarinnar, breyting á stjórnarskrá o.s.frv. til þess að geta afsalað sjálfstæðinu og fullveldinu. Af hverju var þjóðin ekki spurð að því hvort hún vildi það? Hún var aldrei spurð að því, hún hefur ekki verið spurð enn þá. (Gripið fram í.)

Og hins vegar: Hvernig sér hv. þingmaður það fyrir sér og hversu trúverðugt er það ef tveir flokkar sem mynda ríkisstjórn ætla að fara að vinna að því að gera samning um að gera eitthvað sem er þvert á stefnu þeirra? Hversu trúverðugt yrði það? Daginn eftir að það yrði samþykkt færu menn að efast um trúverðugleikann í því máli þannig að ég get ekki séð hvernig í ósköpunum menn ættu að framfylgja stefnu sem þeir eru eindregið á móti.



[15:58]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta voru margar spurningar fyrir skamman tíma og ég svara ekki fyrir kosningaloforð Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.

Varðandi orðheldni, ef það á nú að fara hér í einhverja túlkun og útlistun þá legg ég til að Sjálfstæðisflokkurinn haldi fund um málið í Valhöll og þar séu frummælendur Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður flokksins, og Bjarni Benediktsson, núverandi formaður flokksins. Þeir geta þá tekist á um hvernig þeir sjálfstæðismenn sem greiddu flokknum atkvæði sitt þrátt fyrir snautlega niðurstöðu á landsfundi hafa túlkað þessi orð.

Varðandi það af hverju ekki hafi verið farið í þjóðaratkvæðagreiðslu þegar lagt var í umsóknina má alveg velta fyrir sér hvort það hefði kannski verið rétt á sínum tíma. En staðan var þannig að það var einfaldlega engin umræða um það. Samfylkingin fór fram í sinni kosningabaráttu með mjög skýra stefnu um að aðildarviðræður væru forsenda þess að við færum í ríkisstjórn og krafan um þjóðaratkvæðagreiðslu var ekki almenn úti í samfélaginu. Hún var hávær hér innan þings en það voru engar undirskriftasafnanir eða mótmæli eða skýr skilaboð frá kjósendum. Þarna voru kosningar nýafstaðnar.

Það er líka þannig varðandi aðildarviðræður, ég held að ég fari rétt með, a.m.k. veit ég ekki betur og hef nú spurst fyrir um málið, að það hefur aldrei tíðkast í neinu Evrópuríki að haldin væri þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort sækja ætti um. Þetta var einfaldlega ekki í almennri umræðu nema hér í þinginu. En við sögðum að við vildum sækja um (Forseti hringir.) aðild og lofuðum því skýrt að sjálfsögðu að þegar samningur lægi fyrir yrði það þjóðin sem kvæði upp úr um málið og gæti (Forseti hringir.) tekið efnislega afstöðu.



[16:01]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður svaraði ekki spurningunni um hversu trúverðugar slíkar viðræður væru og ég vildi fá svar við því í seinna andsvari.

Varðandi það að sækja um aðild, það var jú bara einn flokkur sem hafði það á stefnuskrá sinni að sækja um og sá flokkur barði í gegn meiri hluta á Alþingi með því að mynda vinstri stjórn, lofa mönnum vinstri stjórn, og í staðinn skyldu menn kyngja því í þeim ágæta flokki, Vinstri grænum, að ganga í Evrópusambandið eða sækja um. (HHj: Gerðu nú ekki lítið úr einum flokki.)

Síðan minni ég á kattasmölunina. Ég minni á ræður, sérstaklega hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur sem er athyglisverð þar sem hún finnur Evrópusambandinu allt til foráttu en segir svo: Já, ég vil sækja um aðild.

Hér var einn flokkur sem kúgaði meiri hluta Alþingis til samstarfs við stefnu sína og hann bítur núna úr nálinni með það og hefur sennilega skaðað hugsanlega aðild að Evrópusambandinu í mjög langan tíma.



[16:02]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er nú ekki að spyrja að viðhorfi Sjálfstæðisflokksins til lýðræðis. Kúgaði meiri hluta Alþingis? Það voru þingmenn allra flokka, Samfylkingar, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Borgarahreyfingarinnar eða Hreyfingarinnar, sem greiddu málinu atkvæði. Það var enginn meiri hluti kúgaður á Alþingi.

Varðandi hvað sé trúverðugt og hvað sé ótrúverðugt þá var það nú lengi vel stefna Framsóknarflokksins að sækja um aðild. Hæstv. fjármálaráðherra og núverandi hæstv. menntamálaráðherra skrifuðu greinar um að það væri nú kannski ástæða til að kanna aðildarviðræður. Ég sé ekki betur en að ný Evrópustefna ríkisstjórnarinnar beinist að því að auka samstarf við Evrópu. (Forseti hringir.) Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að þessir flokkar fari (Forseti hringir.) fyrir Íslands hönd í aðildarviðræður.



[16:03]
Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur fyrir mjög skelegga og fína ræðu. Það er gjarnan þannig, þegar hv. þingmaður tekur til máls, að þá hleypur manni kapp í kinn hér úti í sal og rýkur af stað. Af því að hv. þingmaður minntist á framgöngu Kópavogsbúa vil ég þakka hlý orð í garð okkar Kópavogsbúa og framsóknarmanna í Kópavogi. Það sýnir styrk félagshyggjusinnaðs miðjuflokks að eiga fólk með ólíkar skoðanir á þessu stóra máli. Ég trúi því að við værum ekki að eyða öllum þessum tíma í umræður og rökræður um þetta mál ef það væri ekki býsna flókið og hagsmunirnir ólíkir.

Mig langar að varpa spurningu til hv. þingmanns. Hún talaði um þinglega meðferð og svikin loforð í því samhengi og mig langar að taka fram að ég hef aldrei heyrt neinn af þeim hæstv. ráðherrum sem hv. þingmaður tiltók mæla gegn því að þjóðin hafi aðkomu að þessu máli heldur þvert á móti. Þá langar mig að spyrja í framhaldi af þessu: Er ekki þingleg meðferð eðlileg á þessu máli þó að hv. þingmaður sé vissulega ekki á sömu skoðun og hæstv. utanríkisráðherra sem ber þessa tillögu fram?

Hv. þingmaður talaði um siðað samfélag og því vil ég í öðru lagi spyrja: Er ekki rétt hjá mér að löggiltir endurskoðendur hafa ekki í árafjöld skrifað upp á reikninga sambandsins?



[16:06]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni, framsóknarmanni úr Kópavogi, hlý orð í minn garð.

Varðandi þinglega meðferð færði ég þau rök að þetta mál væri þvert á gefin loforð í kosningabaráttunni af hálfu hæstv. ráðherra. Ég fór í upphafi míns máls yfir það hvað þau sögðu við kjósendur í sjónvarpinu fyrir kosningar til að lokka þá til að kjósa sig. Svo leggja þau fram mál sem er þvert á þá stefnu sem boðuð var í sjónvarpinu fyrir kosningar og ég sé ekki af hverju við hér í þinginu eigum að taka þátt í því þegar áskoranir berast, ekki bara úr Kópavogi heldur frá 50 þús. kjósendum, um að draga þetta mál til baka.

Fólk lítur á þetta sem svik, hvort sem það er hlynnt inngöngu eða á móti henni eða hefur jafnvel ekki myndað sér skoðun, það vill bara fá að mynda sér skoðun. Því finnst að verið sé að svíkja það um þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég stend með áskorunum um að málið verði dregið til baka og fólk setjist niður og finni góðan tíma fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur til dæmis sagt að ætti að fara fram á fyrri hluta kjörtímabilsins.

Varðandi siðað samfélag og löggilta endurskoðendur í Evrópusambandinu segi ég nú, og er af mikilli ætt löggiltra endurskoðenda, að ég þekki það mál bara ekki nógu vel til að ég treysti mér til að svara fyrir það hér í ræðustól Alþingis.



[16:08]
Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin þó að ég verði að viðurkenna að ég er ekki fyllilega sáttur eða að hún hafi sannfært mig. Mér finnst í fyrra svarinu, með þinglegu meðferðina, eðlilegt að þetta mál fái þinglega meðferð í ljósi þess hversu víðtækir hagsmunirnir eru.

Hvað varðar löggilta endurskoðendur, get ég fullyrt að svo hefur verið um alllanga hríð að löggiltir endurskoðendur neiti að skrifa upp á reikninga sambandsins. (Gripið fram í.)

Mig langar að víkja að öðru og spyrja: Hvaða efnahagslegu mælikvarða leggur hv. þingmaður (Forseti hringir.) til til að gera það eftirsóknarvert fyrir okkur að sækja um? Nú er það staðreynd að verg landsframleiðsla (Forseti hringir.) á mann er hærri á Íslandi öll árin en meðaltal ríkja Evrópusambandsins.



[16:09]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að segja að ég hef verið Evrópusinni í að minnsta kosti 20 ár og það hafði ekkert með efnahagsmál að gera þegar sú hugsjón kviknaði í brjósti mér. Eftir því sem árin hafa liðið hef ég orðið sannfærðari um það, sem og mjög margir aðrir, ég er ekki ein um það, að efnahagslegum hagsmunum Íslands sé betur borgið innan Evrópusambandsins. Það lýtur ekki eingöngu að vergri landsframleiðslu, við þurfum líka að líta á það hvernig hún er samsett. Er það úr fjölbreyttri atvinnustarfsemi sem aðild að Evrópusambandinu mundi ýta undir? En það lýtur líka að stöðugleika myntarinnar. Við erum mjög háð útflutningi, við flytjum mikið út til evruríkja og Evrópusambandsins. Það er heldur engin tilviljun að forstjórar á Íslandi kalla eftir því að við höldum áfram með aðildarviðræðurnar því að það er erfitt að reka fyrirtæki og heimili við efnahagsleg skilyrði sem íslenska krónan skaffar okkur.



[16:11]
Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum 2. útgáfu af tillögu að þingsályktun um að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu, tillögu sem jafnframt fjallar um að efla samstarf við ESB og Evrópuríkin. Tillagan er nefnilega þrískipt. Í fyrsta lagi að draga til baka umsóknina. Í öðru lagi að ekki skuli sótt um aðild að ESB á nýjan leik án þess að fyrst fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla, sem er býsna merkilegt að ríkisstjórnin ætli þá að binda næstu ríkisstjórnir hvað það varðar. Í þriðja lagi að treysta tvíhliða samskipti og samvinnu. Ríkisstjórnin gerir sér greinilega grein fyrir því að erfitt sé að vera án samstarfs við Evrópu og að eyða þurfi verulegum peningum til að bæta þar úr fyrst menn vilja ekki fara inn í sambandið.

Tillagan var kynnt í skjóli nætur í helgarfríi Alþingis að kvöldi föstudags 21. febrúar þegar umræðan um skýrslu Hagfræðistofnunar var rétt að byrja. Þingmenn fengu þá SMS-skilaboð, sem er nú orðin svolítil lenska í stjórnkerfinu, um að þetta nýja þingskjal utanríkisráðherra hafi verið lagt fram í þinginu. Í ræðunni sem fylgdi í upphafi málsins, þegar var verið að ræða um skýrsluna, var talað um opna og hreinskipta umræðu, ekki bara í þinginu heldur í þjóðfélaginu. Og þá veltir maður fyrir sér af hverju tillagan komi ofan í það. SMS-ið kemur frá þinginu um að lögð hefði verið fram tillaga á Alþingi. Þannig barst það til okkar þingmanna, hæstv. forseti. (Gripið fram í.) Það er bara venjan.

Mig langar að vekja athygli á stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, af því að mér finnst eðlilegt að líta í hana, auk þess hvað menn sögðu hér fyrir kosningar.

Þar stendur, með leyfi forseta:

„Gert verður hlé á aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið og úttekt gerð á stöðu viðræðnanna og þróun mála innan sambandsins. Úttektin verður lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar og kynnt fyrir þjóðinni. Ekki verður haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Síðan hefur hafist tog um hvað þetta þýddi. Mér fannst þetta afar skýrt. Það átti að gera hlé. Það átti að fara í almenna umræðu í samfélaginu til að leggja mat á þetta, skýrslan frá Hagfræðistofnun var einn hluti af því og síðan mundum við ræða þetta vandlega í þinginu.

Hvers vegna kemur þá þessi tillaga allt í einu fram, mitt inn í fyrstu skýrslu, en von er á annarri frá Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands sem beðið er um af aðilum vinnumarkaðarins? Hvað var það sem rak málið áfram? Hvað gerðist? Hvað varð um málefnalega og opna umræðu á Alþingi og í þjóðfélaginu? Hvað varð um þjóðaratkvæðagreiðsluna sem núverandi ráðherrar töluðu um, eins og hér var rakið ágætlega af hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur áðan? Hvað varð um loforð núverandi ráðherra fyrir kosningar og margra þingmanna um að engar ákvarðanir yrðu teknar nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu?

Þá spurðu margir: Ætlar ríkisstjórnin enn og aftur að beita ofríki og svíkja loforð sín og stöðva aðildarumsóknina fyrir fullt og allt án frekari umræðu? Hæstv. utanríkisráðherra leyfði sér jafnvel að viðurkenna að það hefði aldrei staðið til að skýrslan sem slík og kynning fyrir þjóðinni þyrfti að fara fram áður en ákvarðanir voru teknar.

Stóð þetta í stjórnarsáttmálanum? Var þetta rætt í kosningunum? Hér var augljóst að afturhalds- og sérhagsmunaöflin virtust telja sig geta drepið umræðuna í fæðingu og ætluðu að gera það í skyndi af því að þau óttuðust að þjóðin væri að kalla eftir frekari umræðu og fá aðkomu að málinu.

En það voru ekki allir sammála. Einn af fyrrverandi formönnum Sjálfstæðisflokksins — þá er ég ekki að tala um þann sem stjórnar ofan úr Hádegismóum — kallaði þessa þingsályktunartillögu eitt stærsta kosningasvikamál sögunnar. Eitt stærsta kosningasvikamál sögunnar, þetta eru ekki orð frá Samfylkingunni eða öðrum. Þetta er frá fyrrverandi formanni Sjálfstæðisflokksins.

Fyrrverandi varaformaður sama flokks, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, segir orðrétt, með leyfi forseta: „Það er orðhengilsháttur að viðurkenna ekki að stjórnarflokkarnir séu að svíkja kosningaloforð sín með því að slíta aðildarviðræðum við ESB.“

Í framhaldi af þessu hefjast mótmæli á Austurvelli og á laugardagseftirmiðdegi koma 7–8 þús. manns, jafnvel fleiri, til að mótmæla því gerræði ríkisstjórnarinnar að taka málið úr höndum þjóðarinnar. Búið er að safna tæpum 50 þús. undirskriftum þar sem þess er krafist að menn standi við þau loforð sem þeir gáfu fyrir kosningar, þ.e. að þjóðin fái að koma að málinu áður en það verður afgreitt.

Það er skýlaus krafa Samfylkingarinnar að þessi tillaga verði dregin til baka og að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna eins fljótt og auðið er.

Umræðan í þinginu kann að virðast harkaleg um tillöguna og um skýrslu Hagfræðistofnunar, en ég bið landsmenn alla og hv. þingmenn að hafa það í huga hvernig þetta bar að. Hvar birtist harkan? Og munum það að þegar tillagan kom fram stóð beinlínis í tillögunni að þeir hv. þingmenn sem tóku ákvörðun um að fara í aðildarferlið hefðu gert það með einhverjum undarlegum hætti og þar með brotið stjórnarskrána. Það er setning sem hæstv. utanríkisráðherra varð síðan að draga til baka einfaldlega vegna þess að hún var ósönn og ómálefnaleg og svívirðileg aðför að hv. þingmönnum hér í sal, þeim sem sátu á þinginu þá réttara sagt. Þess vegna kallaði ég þetta tillögu númer tvö vegna þess að ekki má gleymast að það varð að breyta henni einfaldlega til að menn væru ekki með svona alvarlegar ásakanir.

Umræðan um tillöguna og ástæðan fyrir því að rætt hefur verið um störf þingsins og fundarstjórn forseta er sú hvernig tillagan kom fram. Af hverju var gerð tilraun til að slíta umræðunni með því að koma með þá tillögu sem við ræðum? Ásökunin sem ég nefndi áðan um að átt hefði sér stað stjórnarskrárbrot. Líka það að ekki lá fyrir, þegar tillagan um skýrsluna á sínum tíma var lögð fram, að fara ætti með hana í þinglega meðferð þannig að hún færi í utanríkismálanefnd, yrði rædd þar og kæmi svo aftur til umræðu í þinginu. Búið er að skera úr um það, en við stöndum enn með það óljóst hvernig á að fjalla um þær tvær tillögur sem eru til umræðu í þinginu á eftir þessari, því að tíminn til að fjalla um þær er afar stuttur.

Það er forvitnilegt að skoða líka þessa tillögu, vegna þess að hæstv. forsætisráðherra hefur kallað eftir því að hér eigi að vera málefnaleg og rökföst umræða, menn eigi að ræða um málin með rökum. Því er til dæmis haldið fram að þegar aðildarumsóknin var sett fram hafi þingsályktunin sætt þungri gagnrýni, þ.e. um að fara í aðildarviðræður. Það eru rök til að draga þá umsókn til baka. Eru þá ekki alveg eins rök að vegna þungs ágreinings um þá tillögu sem hér er verði hún dregin til baka? Ég spyr vegna þess að menn biðja um rökræna umræðu.

Langur vegur hafi verið frá því, segir líka í athugasemdum, að um það hafi ríkt sú sátt og sá stuðningur sem almennt er talinn nauðsynlegur grundvöllur ferlis af því tagi sem hér um ræðir. Má ekki með nákvæmlega sömu rökum segja að það sem er í greinargerð þessarar tillögu gildi um það að það eigi alls ekki að styðja hana vegna þess að hér er enginn almennur stuðningur í landinu? 80% þjóðarinnar vilja að menn fái að kjósa um hana og þar af leiðandi fullkomlega órökrétt að hún verði afgreidd í þinginu óbreytt eins og hæstv. utanríkisráðherra lagði hana fram.

Síðan koma enn merkilegri rök. Með leyfi forseta stendur í greinargerðinni:

„Þá hefur lengi legið fyrir að meiri hluti íslensku þjóðarinnar er á móti því að Ísland gangist undir skilmála Evrópusambandsins og gerist þannig meðlimur þess“ — gott og vel, svo fylgir að vísu — „þótt vilji sé fyrir að kanna möguleika á aðild.“

Nú liggur fyrir að mikill meiri hluti þjóðarinnar vill þjóðaratkvæðagreiðslu og ef menn ætla að fara að líta til skoðanakannana sem ég tel eðlilegt og sjálfsagt að gera, af hverju er þá þessi tillaga ekki bara dregin til baka og viðurkennt að menn hafi orðið viðskila, þ.e. þjóðin og ríkisstjórnin? Þetta er ágætlega orðað á forsíðu á visir.is í dag þar sem fyrirsögnin er, með leyfi forseta:

„Segir þjóðina ekki tilbúna í þessa vegferð með ríkisstjórninni.“

Í hvern skyldi vera vitnað varðandi þessa fyrirsögn? Það er bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í Kópavogi, sem hér var minnst á áður í dag.

Hægt er að halda svona áfram. Því miður er tíminn afar naumur til að fara yfir málið, en athyglisvert er að fylgjast með hvernig menn hafa tekið þessa umræðu, eins og hjá Viðskiptaráði, hjá þingi iðnfyrirtækja, á iðnþinginu, o.s.frv. Þar spyrja menn einfaldlega: Hvert er planið, hvað stendur til? Hvert ætlar þjóðin að fara? Höfum við það svo gott að við þurfum ekki að gera neinar áætlanir? Jú, við ætlum að reyna að auka samstarfið við Evrópusambandið með því að slíta viðræðum við það. Er það Evrópustefnan?

Menn spyrja í einlægni hver á fætur öðrum: Hvað á að taka við? Hvernig ætla menn að leysa það að við erum með margar íslenskar krónur í dag? Hér eru stór fyrirtæki, eins og öll útgerðin, sem meira og minna eru í Evrópusambandinu, sem fá sínar tekjur í erlendum gjaldmiðlum, borga sinn kostnað meira og minna í Evrópugjaldmiðlum. Eina sem þau njóta góðs af er að launin eru lækkuð með því að fella (Forseti hringir.) gengið. (Gripið fram í.)

Hægt er að halda svona áfram, því miður er tíminn allt of stuttur. Ég ítreka þá kröfu að tillaga þessi verði dregin til baka, (Forseti hringir.) menn byrji upp á nýtt og reyni að finna betri flöt á málinu og láti þjóðina segja sína skoðun.



[16:21]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fína ræðu. Við höfum aðeins rætt þessi mál hér í þingsal undanfarið og ég veit að við erum sammála um marga hluti. Þó að við séum ekki endilega sammála í grunninn, þ.e. varðandi inngöngu í ESB, held ég að við deilum þeirri skoðun að þjóðin eigi að koma að þessari ákvörðun.

Ég hef upplifað það, eins og ég veit að fleiri þingmenn hafa gert undanfarið, að efasemdarfólk og jafnvel andstæðingar Evrópusambandsins eru orðnir háværari um að fá að koma að málinu og segja sitt álit á því en ekki að það verði slegið út af borðinu án þess að fólk hafi nokkuð um það að segja.

Ég spurði hæstv. ráðherra hvernig hann hygðist kynna þetta fyrir þjóðinni og fékk í sjálfu sér engin svör við því. Mér finnst það afar athyglisvert að leggja fram skýrslu þar sem fram kemur að kynna eigi málin fyrir þjóðinni en svo liggur það ekki fyrir með hvaða hætti. Ekki er heldur tekið tillit til þeirra mótmæla sem hafa farið fram eða þeirra undirskrifta sem safnast hafa undanfarið.

Hér eru aðrar tillögur undir og þar á meðal tillaga okkar vinstri grænna þar sem við leggjum til ákveðna sáttaleið og hæstv. utanríkisráðherra hefur tekið jákvætt í hana opinberlega. Mig langar til að spyrja þingmanninn hvort hann sjái sér fært að taka afstöðu með þeirri tillögu líka.



[16:23]
Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Ég tek undir með hv. þm. Bjarkeyju Gunnarsdóttur að það er einmitt þannig að í öllum stjórnmálaflokkum á Íslandi hefur verið ágreiningur um þetta mál, það hefur komið ágætlega fram í umræðunni. Einhverra hluta vegna hefur tekist að smala stjórnarþingmönnum öllum saman þannig að í þessum þingsal virðast allir ætla að ganga í takt í því að slíta þessum viðræðum. Það hefur þá tekist undarlega vel að velja inn fulltrúa á þingið, vitandi af þessari Kópavogssamþykkt og ályktun Fjórðungssambands Vestfjarða um að halda ætti áfram með aðildarviðræður þar sem sveitarfélögin voru á fundunum. Það er meira að segja landsvæði þar sem vægi atkvæða er allt annað en í Kópavogi.

Það vekur undrun manns, einmitt út frá þeim staðreyndum að við erum með allt þetta fólk og þessar ólíku skoðanir, að menn skuli leyfa sér, hafandi ekkert annað plan, að loka ákveðnum leiðum. Það er það sem kom kannski ekki nógu vel fram í ræðunni, vegna þess að tíminn er auðvitað stuttur, að mér finnst ótækt að loka leiðum.

Ég tel tillöguna frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði engan veginn ásættanlega fyrir Samfylkinguna að því leyti að ég tel mikilvægt að leiða málið til lykta með þjóðaratkvæðagreiðslu. Við göngumst undir það, og það er sáttatillagan. Við sögðum á sínum tíma: Það þarf ekki þjóðaratkvæðagreiðslu vegna þess að við ætlum að hafa hana þegar samningur liggur fyrir. En nú er krafan um að fá að taka ákvörðun um framhaldið og ég styð það, það er málamiðlun okkar. Ég tel mikilvægt að það sé gert fyrr en seinna vegna þess að mér finnst engin ástæða til að hlífa ríkisstjórn við því, viljandi þjóðaratkvæðagreiðslu um sem flest mál, að vinna eftir slíkri niðurstöðu. Það er enginn ómöguleiki í því að þurfa að vinna eftir þeim niðurstöðum sem þjóðin kallar eftir, og ef það er ómöguleiki að mati ríkisstjórnarinnar þá fer hún frá.



[16:25]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessi svör. Nei, auðvitað er ekki ómöguleiki í neinu í sjálfu sér ef út í það er farið, það snýst bara um það hvernig við tökum á því sem við teljum erfitt að framkvæma eða framfylgja.

Vissulega er þetta sáttatillaga, þetta er málamiðlun sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði leggjum fram. Þetta er ekki endilega óskastaða, hvorki fyrir okkur né aðra, en það þarf alltaf að mætast einhvers staðar. Ég hefði viljað klára samningsumleitanir eða viðræður og leggja samning á borðið fyrir þjóðina, að hún fengi að kjósa um það. Ég hef áhyggjur af því að ríkisstjórnin leggi þá tillögu sem hér er til umræðu á borðið í þjóðaratkvæðagreiðslu, ég er ekki viss um að það sé endilega affarasælast að gera það. Tillagan sem slík er ekki endilega það sem við vildum spyrja um, við getum svo rætt og deilt um það um hvað við viljum spyrja.

Samfylkingin er ESB-flokkur, Vinstri hreyfingin – grænt framboð telst ekki vera ESB-flokkur. Ég hef nefnt það fyrir minn flokk að við eigum innan borðs fólk sem vill ganga í Evrópusambandið, fólk sem vill fá að sjá samning. Skoðanir eru því skiptar, eins og hér hefur komið fram, í öllum flokkum og kannski engin ein niðurstaða rétt í því. Ef við stæðum frammi fyrir því að þjóðin mundi samþykkja tillögu ríkisstjórnarinnar, ef hún væri borin undir þjóðina eins og hún lítur út núna, þ.e. að slíta viðræðum, hvað finnst Samfylkingunni að við ættum að gera í framhaldinu? Sér Samfylkingin fyrir sér eitthvert annað plan ef þessi tillaga ríkisstjórnarinnar yrði samþykkt?



[16:28]
Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef ekki látið mér detta það í hug að ríkisstjórnin færi að bera þingsályktunartillöguna óbreytta undir þjóðaratkvæði, heldur hreinlega bara um það hvort halda eigi áfram viðræðum eður ei. Það er krafan sem hefur hljómað hér og undirskriftirnar ganga út á, þ.e. að fólk vill fá að klára umræðurnar.

Ef þjóðin talar með skýrum hætti í þjóðaratkvæðagreiðslu þá eigum við að fylgja þeirri niðurstöðu, það segir sig sjálft, sama hvernig það er lagt fyrir þjóðina. Við höfum sagt: Við viljum fá þann úrskurð þjóðarinnar. Samfylkingin mun að sjálfsögðu lúta því eins og aðrir. En ég tel eðlilegast, eins og ég sagði, að þessi tillaga sem hér er rædd verði dregin til baka. Ég hef að vísu ítrekað talað fyrir því hér, farið í andsvör og tekið til máls undir liðnum um fundarstjórn forseta, vegna þess að ég vil fá skýringar á því að hér eru tvær aðrar tillögur, meðal annars sú tillaga sem hv. þm. Bjarkey Gunnarsdóttir vekur athygli á frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, og ég vil að þessar tillögur verði ræddar.

Ég vil að við fáum tíma til að upplýsa ólík sjónarmið í þessu máli. Auðvitað þyrftum við þá líka að fá fulltrúa Sjálfstæðisflokksins inn í umræðuna en einhverra hluta vegna telur sá flokkur sig ekkert þurfa að koma nálægt þessu, vill kannski ekkert segja vegna þess að hann er í hrópandi andstöðu við marga flokksmenn og þorir ekki að tjá skoðanir sínar hér og fara í málefnalega umræðu um tillögu sem átti að hljóta mjög ítarlega og málefnalega umræðu hjá þjóðinni. En það er önnur saga.

Margir sögðu það á sínum tíma, og vitnað er í það í greinargerð með tillögunni sem við ræðum hér, að hyggilegra hefði verið að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu á sínum tíma. Menn geta deilt um það. Ákveðið var að bíða og greiða atkvæði þegar endanlegur samningur lægi fyrir. Ekki var farið í þjóðaratkvæðagreiðslu þá. Eftir að það lá fyrir koma öll þessi loforð, m.a. ráðherra sem ég var að nefna hér áðan, þannig að það getur ekki verið nein afsökun fyrir því að vilja ekki fara í þjóðaratkvæðagreiðslu núna. Allir þeir ráðherrar sem við höfum vitnað í í umræðunni gáfu loforð sín fyrir kosningarnar þegar fyrir lá að þjóðaratkvæðagreiðsla hafði ekki farið fram áður, þ.e. þegar sótt var um. Það er því rökleysa — af því að við erum að tala um að beita rökum — að það séu rök fyrir því að fara ekki í þjóðaratkvæðagreiðslu núna.



[16:30]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðbjarti Hannessyni fyrir ræðuna. Hann fjallaði svolítið um rök og fór yfir það hvað honum finnst vera rökleysa í málflutningi hæstv. ríkisstjórnar. Ég verð að taka undir þorrann af því og allt sem ég man.

Stefna Pírata í málaflokknum er tiltölulega einföld. Þjóðin ræður þessu og á að ráða því vegna þess að við störfum hér eingöngu vegna þess að þjóðin hefur kosið okkur til þess og vegna þess að okkar vald kemur frá þjóðinni og ekki frá neinum öðrum.

Það viðhorf að kjósa beri um þetta mál er í stefnuskrá Pírata og þannig höfum við vissulega talað hingað til. Núna stöndum við frammi fyrir því að við þurfum að ræða nánari útfærslur á því nákvæmlega hvernig sé hægt að koma á þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er greinilega ekki hægt að hafa hana meðfram sveitarstjórnarkosningum, bæði vegna þess að lögin hindra það og sömuleiðis er ekki nægur tími til stefnu. Þá velti ég fyrir mér ef við hefðum ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu, hún yrði að vera ráðgefandi í bili, þar til stjórnarskrá hefur verið breytt, hvort hv. þingmaður teldi að slík þjóðaratkvæðagreiðsla væri gagnleg jafnvel inn í næsta kjörtímabil. Ég spyr vegna þess að þrátt fyrir að ég gefi lítið fyrir ómöguleikarökin og finnst þau eiginlega vera viðurkenning á vanhæfni persónulega, þannig lít ég á það, geri ég ráð fyrir að þau rök haldi áfram að standa hjá hæstv. ríkisstjórn. Gæti ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla ekki samt sem áður verið góð til að tryggja lögmæti næsta þings, á næsta kjörtímabili og næstu ríkisstjórnar sem, „inshallah“, verður einhver önnur?

Ég velti fyrir mér afstöðu hv. þingmanns til þess.



[16:32]
Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við búum við þau lög að við getum að vísu breytt stjórnarskránni, við gerðum um það samþykkt á síðasta kjörtímabili að hægt væri að breyta henni innan kjörtímabilsins og þar með taka upp þjóðaratkvæðagreiðslur, annaðhvort með því að þingið, þriðjungur þingmanna eða eitthvað slíkt, geti krafist atkvæðagreiðslu eða tiltekin prósenta af þjóðinni. Þá hefur oft verið talað um 10 eða 15%. Við erum núna komin með undirskriftir yfir 20%. Ég lít þannig á að ef við förum með mál í þjóðaratkvæðagreiðslu eigum við að sjálfsögðu að standa við það að afgreiða málin í samræmi við þá niðurstöðu.

Við þurfum í sjálfu sér ekki að breyta stjórnarskránni áður en þetta verður gert. Það er aðeins fyrirsláttur. Við getum alveg eins fengið niðurstöðuna strax og skuldbundið okkur til að vinna í samræmi við þá niðurstöðu. Mér finnst það skipta mjög miklu máli.

Það er gjarnan þannig að þegar menn eru komnir í þrot eins og núna eru menn byrjaðir að tala um að við skulum eyða löngum tíma í þetta, við skulum skoða aðra möguleika o.s.frv. Menn eru að reyna að drepa málinu á dreif. Við í Samfylkingunni víkjum verulega frá upphaflegri aðferðafræði okkar yfir í málamiðlun um að þarna sé farið í þjóðaratkvæðagreiðslu og það er líka þannig að þjóðin hefur bókstaflega krafist þess.

Ég tek undir með hv. þingmanni og þeirri stefnu Pírata að þegar út í það er komið á þjóðin auðvitað að fá tækifæri til að tala. Það er lýðræðislegt og það er eina leiðin sem við getum notað til að komast út úr þessum vanda því að þá skuldbindum við okkur, hvort sem við verðum undir eða ofan á, til að fara eftir niðurstöðunni og tökum þá þetta mál af dagskrá eða setjum það á dagskrá eftir því hver niðurstaðan er.

Mér finnst þetta skipta máli. Þetta er ein af leiðunum út úr ágreiningi eins og við erum að glíma við hér þar sem allir flokkar eru meira og minna klofnir í málinu. Þegar menn lögðu af stað í byrjun var hugmyndin að reyna að koma málinu í þann farveg að þjóðin fengi tækifæri til að vinna með það. Þess vegna voru samningahóparnir líka skipaðir þannig. (Forseti hringir.) Það var ekki verið að setja flokkspólitískan stimpil á umræðuna þá. Það var verið að leita að bestu lausninni fyrir þjóðina. Um það snýst þetta.



[16:35]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Þetta er umræða sem ég held að við þurfum einmitt að fara svolítið aftur í og aðeins dýpra, þ.e. umræðan um lýðræðisumbætur og sérstaklega um þjóðaratkvæðagreiðslu.

Nú var samþykkt stjórnarskrárbreyting á seinasta þingi og þar áður um að hægt væri að breyta stjórnarskránni á miðju kjörtímabili án þess að slíta þingi. Gallinn er sá, sem ég er afskaplega hræddur við, að lágmarkið eða það hlutfall kosningarbærra manna í landinu sem þarf að samþykkja stjórnarskrárbreytinguna er 40% og ég tel það nær óhugsandi, og er reyndar reiðubúinn að fullyrða að sé óhugsandi.

Ég vona að það sé rangt hjá mér en ég er nokkuð viss í minni sök. Þess vegna hef ég svolitlar áhyggjur af því að slíkar stjórnarskrárbreytingar sem væru til þess að auka lýðræðið færu í gegnum slíkt ferli. Síðan mundi það klikka, væntanlega, þetta er ofboðslega hár þröskuldur. Ég ítreka að 40% af öllum kosningarbærum mönnum á landinu þyrftu að segja já, ekki 40% af þeim sem mæta á kjörstað heldur 40% af kosningarbærum mönnum á landinu. Ef þessi leið yrði farin til að breyta stjórnarskrá mundi það einfaldlega leggja ríkisstjórninni vopn í hendur, gera henni kleift að segja: Sko, sjáðu bara, þetta fór í þjóðaratkvæðagreiðslu en niðurstaðan er að þjóðin hefur greinilega engan áhuga á auknu lýðræði. Ég lít á þessa 40% leið sem hálfgerða sjálfseyðingarleið, að leggja fram tillögur sem eru dæmdar til að falla.

Burt séð frá því, nú fór ég út fyrir það sem ég ætlaði að spyrja: Telur hv. þingmaður að það geti verið gagn að því að hafa skýrt lögmæti jafnvel ef hæstv. ríkisstjórn telur sig óhæfa til að fara eftir vilja þjóðarinnar (Forseti hringir.) í málaflokknum og gera það faglega? Er samt ekki eitthvert gagn að því að hafa skýrt lögmæti úr opinberri þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir næstu kosningar þannig að næsta ríkisstjórn skilji hvaða lögmæti liggur að baki ákvörðunum hennar?



[16:37]
Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé ljóst að alveg skýr skilaboð frá þjóðinni til Alþingis eiga að vera leiðarljós, hvort sem er fyrir þessa ríkisstjórn eða þá sem kemur í framhaldinu. Mér finnst mikilvægt þegar kallað er eftir þjóðaratkvæðagreiðslu að ef spurningin er skýr og svörin eru skýr sé ekki annað til umræðu en að fylgja því eftir.

Ég tek undir með hv. þingmanni að það er ákveðinn vandi með 40% ákvæðið, það er eitt af því sem náðist ekki betur í gegn á síðasta þingi, þetta skapar þá möguleika á að breyta stjórnarskrá núna, þótt ég telji ófært að binda sig við að þurfa fyrst að breyta stjórnarskrá. Ég tel það undanslátt að fara þá leið. Ég tel að draga eigi þá tillögu til baka sem hér liggur fyrir og er til umræðu, um að draga umsóknina til baka, við eigum að draga tillöguna til baka út úr þinginu. Við getum sameinast um þann hluta af henni að draga til baka. Hins vegar á að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu eins fljótt og hægt er. Það var ekki vilji fyrir því að ná því fyrir sveitarstjórnarkosningar þrátt fyrir ágæta viðleitni hv. þingmanna Pírata með stuðningi frá Samfylkingu og Bjartri framtíð. Það var ekki vilji fyrir því en það þýðir ekki að það megi ekki boða slíka þjóðaratkvæðagreiðslu með þriggja mánaða fyrirvara. Hún má alveg eins vera í haust, en því fyrr sem hún er ákveðin, þeim mun betra þannig að við getum lægt öldurnar og farið í málefnalega umræðu í undirbúningi fyrir þá atkvæðagreiðslu.

Ég tel að það eigi ekki að bíða eftir stjórnarskrárbreytingu til að slík tillaga komi fram.

Það er fullt af málum sem á eftir að upplýsa í þessu máli. Það er til dæmis mjög forvitnilegt, (Forseti hringir.) við áttum hér ágæta umræðu í gær í sambandi við þingsályktunartillöguna sem lögð var fram í upphafi og var mjög kröfuhörð um skilmála fyrir því að við gengjum í Evrópusambandið. Þrátt fyrir þá þingsályktunartillögu samþykktu 28 Evrópuríki, sem vissu öll um þingsályktunartillöguna, umsóknina. Við höfum aldrei fengið svör við spurningunni hvað það þýðir. Það eru svona hlutir sem eru óþolandi, að þjóðin skuli ekki fá tækifæri til að ræða og fá síðan svar áður en við förum að velja af eða á, (Forseti hringir.) hvort við viljum vera í Evrópusambandinu eða ekki. Þjóðin (Forseti hringir.) hefur alltaf síðasta orðið og það hefur alltaf verið stefna okkar, það hefur alltaf verið stefna mín. Við þingmenn förum ekki með þjóðina í Evrópusambandið, það gerir þjóðin sjálf.



[16:40]
Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Sú þingsályktunartillaga frá hæstv. utanríkisráðherra sem hér er til umræðu, um að draga skuli til baka aðildarumsókn okkar að Evrópusambandinu, hefur að sjálfsögðu orðið tilefni til mikillar og langrar umræðu og því miður mikilla deilna milli þingmanna og flokka. Það er kannski bara eins og það er í þjóðfélaginu, það eru skiptar skoðanir um hvort við eigum að ganga í Evrópusambandið eða ekki. En ég vil byrja á því að minna á að Alþingi samþykkti með fimm atkvæða meiri hluta árið 2009 að sækja um að fara í aðildarviðræður, í mínum huga að kanna kosti og galla og fá samning til að leggja fyrir þjóðina í skuldbindandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Tveir þingmenn sátu hjá, fyrrverandi hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir frá Vinstri grænum og þáverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.

Tillagan naut stuðnings úr öllum flokkum og eins og ég hef áður sagt samþykkti þáverandi varaformaður Framsóknarflokksins, Birkir Jón Jónsson, þá tillögu. Hann hefur vafalaust gert það á merkilegum forsendum sem finna má í samþykktum flokksþings framsóknarmanna árið 2009, sem hann hefur greitt atkvæði með. Samþykktir flokksþings framsóknarmanna frá 2009 eru mjög merkilegt plagg og ætti í raun að fara miklu meira yfir þær vegna þess að mér virðist eins og það séu miklu fleiri framsóknarmenn sem vilja fara þá leið að slíta viðræðum en í hinum stjórnarflokknum. Í raun og veru er það óskiljanlegt miðað við það sem samþykkt var á flokksþingi Framsóknarflokksins, eins og það heitir, og ýmislegt sem sagt hefur verið eftir það.

Ég hef áður sagt að ég gæti tekið undir næstum allt sem þar var samþykkt. Þar eru ræddir fyrirvarar og ýmislegt varðandi sjó og land sem ég get tekið undir að mörgu leyti. Ég vil líka minna á nefndarálit 2. minni hluta utanríkismálanefndar við þessa tillögu, en í 2. minni hluta var enginn annar en núverandi hæstv. forsætisráðherra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Í því nefndaráliti kemur fram nokkuð sem rétt er að rifja upp, ýmislegt um fyrirvara og annað slíkt sem ég gæti líka skrifað upp á. Þetta er það sem unnið hefur verið. Ég segi því alveg hiklaust að ég skil ekki þau sinnaskipti sem orðið hafa hjá framsóknarmönnum hvað þetta varðar miðað við samþykkt flokksþingsins og annað sem sagt hefur verið og gert.

Frá síðustu kosningum hefur það verið gagnrýnt og sagt: Jú, það er kominn nýr stjórnarmeirihluti. Stundum hefur verið sagt: Allir ráðherrarnir í hæstv. ríkisstjórn eru á móti þessu og þess vegna á ekki að halda áfram aðildarviðræðum. Það er ekki nægjanlegt að mínu mati.

Það má líka minna enn einu sinni á loforð eiginlega allra oddvita Sjálfstæðisflokksins í nær öllum kjördæmum. Ég veit um fimm kjördæmi sem öll eru mjög samhljóða oddvita Sjálfstæðisflokksins sem lofuðu því fyrir síðustu kosningar að þjóðin fengi að greiða atkvæði um hvort slíta ætti viðræðum eða ekki. Sá sem hér stendur tók þátt í þessari samþykkt 2009 og hefði alveg getað skrifað upp á það og sagt: Já, við skulum bara gera það núna árið 2014, við skulum samþykkja það að þjóðin fái að greiða um það atkvæði hvort við eigum að halda áfram eða ekki. Þessi tillaga er sú mesta sátt sem ég hef nokkurn tíma orðið vitni að hér á Alþingi. Það er nú bara þannig og það er mjög merkilegt.

Virðulegi forseti. Ég hef sagt það hér í ræðustól og skal gera það einu sinni enn í umræðu um þetta mál: Ég vil fá að sjá samning til að vega það og meta í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort ég segi já eða nei og þarna eru þættir inni, sérstaklega sem snúa að sjávarútvegsmálum og landbúnaðarmálum, sem ég set ekki fyrirvara um heldur vil sjá. Í skýrslu utanríkisráðherra, þar sem fjallað er um nýja sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins og hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir fór vel yfir í ágætri ræðu sinni, kemur margt mjög fróðlegt fram, m.a. er sagt hvað Evrópusambandið er að gera í fiskveiðistjórnarmálum og sjávarútvegsmálum sem við getum alveg skrifað undir. Getum við ekki alveg skrifað undir aukna áherslu á svæðisbundna stjórnun og aukna ákvörðunartöku í héraði og margt fleira?

Gagnrýnt hefur verið, og mér virðist það stundum vera eitt af aðaláhersluatriðum þeirra sem vilja slíta viðræðum, að ekki hafi tekist að opna samningskaflann og fá að sjá hvað skrifað er um sjávarútvegsmál. Þá er rétt að hafa í huga að það sem tafði það var Evrópusambandið sjálft sem fór í að endurskoða sína sameiginlegu fiskveiðistjórnarstefnu og getið er um í þessari skýrslu mjög ítarlega og faglega. Þar segir m.a. að í lok maí 2013 hafi náðst pólitískt samkomulag um að hafa það sem grundvöll í hinni nýju sjávarútvegsstefnu sem byggð er á tillögum þeim sem taldar eru upp í þessari skýrslu. Þann 10. desember 2013 var nýja stefnan samþykkt á Evrópuþinginu að undanskildu fyrirkomulagi varðandi sameiginlega sjávarútvegssjóðinn. Lokasamkomulag náðist þann 28. janúar á þessu ári, árið 2014.

Þetta segi ég sem rök fyrir því að ekki var hægt að opna þann mikilvæga kafla sem margir hér hafa tjáð sig um að hafi átt að opna fyrst. Þetta er ástæðan fyrir því og hana verður að virða. Varðandi ýmsar efnahagsþrengingar, sérstaklega í sunnanverðri Evrópu, þá held ég að það hafi að miklu leyti verið vegna þess að stjórnarstefnan í ríkisfjármálum í þeim löndum var ekki neitt sérstök, að það sé frekar því um að kenna en ýmsum öðrum þáttum sem sagðir eru hafa spilað inn í þá erfiðleika sem voru í sunnanverðri Evrópu og riðið hafa yfir Evrópusambandið. Sambandið er á góðri leið með að vinna úr þeim málum núna og ber styrkur evrunnar núna vott um það.

Virðulegi forseti. Við fáum hér við fyrri umr. þessarar þingsályktunartillögu ekki nema tíu mínútur og svo fimm mínútur til að ræða þetta mikilvæga mál. Ég segi alveg hiklaust: Þetta er eitt mikilvægasta mál sem stjórnmálaflokkar á Íslandi standa frammi fyrir núna og þurfa að taka ákvarðanir um. Þess vegna skil ég ekki af hverju stjórnmálaflokkar á Íslandi geta ekki náð samkomulagi um hvernig við ætlum að halda áfram með þetta mál sem leiða á til samnings sem þjóðin fær að greiða atkvæði um. Ég hef sagt: Þeir sem vilja styðja samninginn og þeir sem eru á móti honum fá fjárframlög úr ríkissjóði til að kynna sín sjónarmið. Best væri að gera það á sameiginlegum fundum úti um allt land og síðan mundi þjóðin greiða atkvæði um það. Segi þjóðin já, sem er frekar ólíklegt miðað við skoðanakannanir, þá er það endanleg niðurstaða og þá kemur mesta áskorunin sem íslenskir stjórnmálaflokkar geta fengið, að endurskoða efnahagsmálin, sama hvort það eru peningamál, ríkisfjármál, gjaldmiðilinn eða annað.

Þetta hefur verið afstaða mín og ég vildi gera hana að umtalsefni hér. Af hverju er ekki hægt að ná samstöðu á milli flokka þar sem allir þurfa að gefa eitthvað eftir af sínum ýtrustu tillögum og hugmyndum? Enginn fær allt sitt fram heldur er þetta málamiðlun, málamiðlun milli flokka sem allir geta unað við til að vinna að þessu framfaramáli. Mér finnst núna á síðustu dögum að fulltrúar bæði Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks séu að gefa upp boltann um að það sé möguleiki. Þegar þessari umræðu lýkur fer málið til efnislegrar umfjöllunar í utanríkismálanefnd, til faglegrar umfjöllunar þar sem tekin verður til umfjöllunar skýrsla aðila vinnumarkaðarins, Samtaka atvinnulífsins og ASÍ sem er að koma í þessum mánuði, ásamt þeirri skýrslu sem hæstv. utanríkisráðherra lagði fyrir þingið. Mig langar til að spyrja hæstv. utanríkisráðherra ef hann heyrir mál mitt, vegna þess að ég veit að hann er hér í hliðarsal, hvort hann geti svarað í stuttu andsvari á eftir varðandi það sem mér fannst merkilegast í umræðunni í gær, sem var stutt andsvar hans við ræðu hv. þm. Birgittu Jónsdóttur rétt fyrir kl. 3 í gær. Þar gaf hann í skyn á málefnalegan hátt, að mér fannst, að nefndin ætti að vinna þetta mál og það væri ekkert útilokað að við gætum náð sátt um það.

Það verða lokaorð mín í þessari tíu mínútna ræðu að hvetja til þess að forustumenn stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi setjist niður og haldi áfram að leita lausna til farsællar (Forseti hringir.) niðurstöðu með þetta mál sem yrði þá þjóðinni allri til heilla, (Forseti hringir.) sem endar með því að þjóðin mun taka ákvörðun um í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu hvort hún vill ganga í Evrópusambandið (Forseti hringir.) eða ekki.



[16:50]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð eiginlega að biðja um skýringar á tilteknum orðum í ræðu hv. þingmanns sem komu mér á óvart. Hv. þm. Kristján L. Möller komst einhvern veginn þannig að orði um Framsóknarflokkinn að hann skildi ekkert í þeim sinnaskiptum sem orðið hefðu hjá Framsóknarflokknum í þessu máli. Ég velti því þar af leiðandi fyrir mér hvort kynni hv. þingmanns af þeim flokki séu þau að hann sé sérstaklega stefnufastur flokkur, t.d. í Evrópumálum. Er það rangt munað hjá mér að Framsóknarflokkurinn sé í okkar minni, sem munum svolítið aftur í tímann, búinn að fara algerlega heilan hring í þessum málum frá því að þar var formaður Steingrímur Hermannsson og fór í kosningabaráttu undir þeim formerkjum að það væri „xB, ekki ESB“, „Allt er betra en íhaldið“ og ýmislegt fleira gott og var mjög harður á því að Ísland ætti ekki að ganga í Evrópusambandið? Við tóku tímar Halldórs Ásgrímssonar og Valgerðar Sverrisdóttur sem voru áköf í að færa flokkinn í átt að aðild að Evrópusambandinu og töluðu aktíft fyrir því að breyta stefnu flokksins. Um tíma var Framsóknarflokkurinn orðinn býsna Evrópusinnaður eins og kunnugt er, hafði það meðal annars á stefnuskrá sinni fyrir næstsíðustu kosningar að sækja bæri um aðild, að vísu með tilteknum skilyrðum, og yfir í það að núna er flokkurinn aftur kominn nokkurn veginn á sama stað á hringnum og hann var fyrir 15, 20 árum, að vera mjög eindreginn andstæðingur aðildar.

Sögulega séð held ég að það væri fróðlegt að heyra hvað er á bak við þessi ummæli hv. þm. Kristjáns L. Möllers um að hann botni alls ekkert í því hvernig Framsóknarflokkurinn hefur verið að aka sér til í þessum málum. Ég vil gjarnan fá að heyra hvað að baki liggur.



[16:52]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal reyna að skyggnast aðeins betur inn í hugarheim framsóknarmanna hvað þetta varðar og vitna til þess að í mars 2007 kemur út skýrsla Evrópunefndar Framsóknarflokksins, ágætisskýrsla sem ég vil trúa að allir nýir þingmenn hafi lesið. Ýmislegt kemur þar fram sem ég sem aðildarumsóknarsinni sem hef stutt þetta get tekið undir, eins og ég segi.

Hvað hef ég fleira fyrir mér, virðulegi forseti, þegar ég segi þetta og tala um sinnaskipti núverandi forustu flokksins á nýbyrjuðu þingi? Jú, nefndarálit frá 2. minni hluta utanríkismálanefndar, hæstv. núverandi forsætisráðherra, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, þar sem hann fer yfir þessi atriði, m.a. þar sem hann segir, með leyfi forseta:

„Framsóknarflokkurinn talaði fyrir þeirri leið þar til víðtæk samstaða náðist á flokksþingi flokksins í janúar 2009 um að komast mætti hjá þjóðaratkvæðagreiðslu en ná sams konar samstöðu með því að binda umsókn um Evrópusambandsaðild ákveðnum skilyrðum.

[…] 2. minni hluti telur að sú leið sem farin var til að ná víðtækri samstöðu innan Framsóknarflokksins sé vel til þess fallin að ná breiðri sátt um málið á Alþingi og í þjóðfélaginu öllu.“

Svona má lengi telja. Ég vek athygli, virðulegur forseti, á því að þetta eru ekki mín orð, þetta er lesið úr nefndaráliti.

Svo er breytingartillaga hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur 2009 og síðast en ekki síst bréf formanns Framsóknarflokksins til kjósenda í Reykjavík. Ég vek þó athygli á því að það var bara sent kjósendum í Reykjavík og að mér skilst mátti það alls ekki fara í önnur kjördæmi eða út á land. Þar lofar hann stefnu Framsóknarflokksins og talar mjög vel um hvernig eigi að gera.

Síðast en ekki síst hefur hæstv. forsætisráðherra eftir kosningar 2013 sagst líta svo á að það sé komið hlé á viðræður og að ekki eigi að slíta þeim með formlegum hætti, en þráðurinn (Forseti hringir.) verði ekki tekinn upp að nýju nema með umboði frá þjóðinni um (Forseti hringir.) þjóðaratkvæðagreiðslu. Mér finnst frá þessum upphafsárum sem hv. þingmaður fór dálítið langt aftur í, (Forseti hringir.) til Steingríms Hermannssonar, að miðað við núið (Forseti hringir.) sé Framsóknarflokkurinn ekkert annað en Evrópuaðildarumsóknarsinnar.



[16:55]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var mjög upplýsandi. Ég þakka hv. þingmanni fyrir og út af fyrir sig skil ég betur ummælin í þessu ljósi. Það er rétt út af fyrir sig að alveg fram undir þetta vor og sumar var kannski ekki við því að búast að Framsóknarflokkurinn birtist okkur með þeim hætti sem hann gerir svo í tillögu utanríkisráðherra nú. Það má vel kalla það sinnaskipti séð í þessum tímaramma. Ef maður horfir hins vegar yfir sögu flokksins til lengri tíma hefur hann tekið miklar sveiflur í þessu máli og það sem ég var að bæta inn í umræðuna var að Framsóknarflokkurinn á sér þá sögu að hafa verið á dálítið óvenjulegri vegferð og skrýtinni í þessu máli, satt best að segja. En þá segja kannski einhverjir að hann sé bara kominn heim aftur núna. Kannski verða næst sömu bréf og sami áróður sendur öllum kjósendum hvar í landinu sem þeir búa en þarf ekki að matreiða sérstaklega eitthvað söluvænlegt ofan í Reykvíkinga og fela það norðan Holtavörðuheiðar. Auðvitað er ekkert nýtt að Framsókn hafi spilað á það og haft uppi sérstakan málflutning úti á landi.

Fróðlegt er að velta fyrir sér hvort flokkurinn, þrátt fyrir þessa sögu, út frá afgreiðslu þessara mála í flokksstofnunum hans tiltölulega nýlega, er ekki þannig settur í raun og veru að ef þrýstingur kæmi úr herbúðum almennra flokksmanna eins og við höfum séð, samanber ályktun í Kópavogi í gær og að einhverju leyti viðtöl við sveitarstjórnarmenn víðar í landinu, væri hann viðræðuhæfur um einhverja aðra málsmeðferð en þá sem hér er lögð til. Ég held að það skipti kannski mestu máli upp á framhaldið og fróðlegt væri að heyra, úr því að hv. þingmaður er sérfróður um Framsóknarflokkinn og innyfli hans, (Forseti hringir.) hvaða trú hann hefur á því.



[16:57]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og ég sagði áðan og fór yfir má bæta við að Framsóknarflokkurinn hefur lengri sögu um að vilja ganga til viðræðna við Evrópusambandið vegna þess að hann byrjaði á því á flokksþingi sínu 2007. Það var ítrekað enn skýrar á þinginu 2009 og svo í pappírum sem hafa verið sendir út, eins og fyrir síðustu kosningar umrætt bréf frá hæstv. forsætisráðherra, og síðast en ekki síst nefndarálitið sem ég vitnaði í frá árinu 2009 þegar samþykkt var að ganga til aðildarviðræðna með þeim atkvæðamun sem ég hef hér getið um.

Þess vegna skil ég ekki, virðulegi forseti, hvaða sinnaskipti hafa orðið núna þegar Framsóknarflokkurinn er kominn í ríkisstjórn, miðað við þá tillögu sem hæstv. utanríkisráðherra setur fram núna. Ég er ákaflega ósáttur við hana en bind vonir við orð hæstv. utanríkisráðherra hér í gær þar sem hann gaf upp boltann — ef við notum það knattspyrnumál — fyrir því að nefndin mundi reyna að tala sig að niðurstöðu sem allir gætu lifað við og sætt sig við. Enginn fær allt sitt fram, enginn verður beygður niður í jörðina og allir geta komið út með sameiginlega tillögu, ákveðnar málamiðlanir að sjálfsögðu í anda samvinnumanna, þar sem reynt verður að komast að niðurstöðu sem allir geta unað við.

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður telur mig sérfróðan um málefni Framsóknarflokksins. Já, ég fylgist með öllum landsfundum, horfi á þá og geymi gögn sem send eru út, þar á meðal kosningagögn. Hér segir í nefndarálitinu, með leyfi forseta:

„Telur 2. minni hluti að með fyrrgreindum hætti sé hægt að sameina þá sem eru með og á móti aðild að ESB í því að ganga til aðildarviðræðna enda fáist þá loks niðurstaða í hina áralöngu umræðu um hvernig samningur standi til boða og hverjar, ef einhverjar, hinna títtræddu undanþágna náist fram.“ (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Þetta er allt saman í nefndaráliti núverandi hæstv. forsætisráðherra, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fyrir hönd Framsóknarflokksins árið 2009. (Gripið fram í: Hvað með …?)



[17:00]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þeirri umdeildu tillögu sem hér er til umræðu var skellt inn í þingið rétt fyrir kvöldmat á föstudegi. Það finnst mér lýsandi fyrir stöðuna. Málið er umdeilt og stjórnarmeirihlutinn hefur sjálfsagt gert sér grein fyrir því að tillögunni yrði mótmælt og freistað þess að leggja hana fram fyrir helgi í þeirri von að þingmenn hefðu blásið nóg yfir helgina og kæmu svo til þings tilbúnir til að renna málinu í gegn nokkuð snurðulaust, en þeim varð ekki að þeirri ósk sinni. Reiðin og vonbrigðin sem brutust út eru ekki bundin við Alþingi. Þúsundir manna hafa mótmælt tillögunni á Austurvelli dag eftir dag, um 50 þúsund manns hafa skrifað undir áskorun um að setja tillöguna umdeildu til hliðar og leggja framhald málsins í dóm þjóðarinnar. Rúmlega 80% landsmanna vilja samkvæmt könnun fá að segja sitt um afgreiðslu málsins.

Stjórnarflokkarnir höfðu lofað því fyrir kosningar að þjóðin fengi að kjósa um hvort haldið yrði áfram með aðildarviðræðurnar. Með þessu loforði fengu þeir sennilega fleiri til þess að greiða þeim atkvæði sitt en ef þeir hefðu ekki gefið þetta kosningaloforð. Fyrir kosningar höfðu einnig báðir stjórnarflokkarnir gefið yfirlýsingu um að þeir teldu Íslandi betur borgið utan Evrópusambandsins. Samt lofuðu þeir þjóðaratkvæðagreiðslu og hæstv. ráðherrar Sjálfstæðisflokksins gerðu það með einstaklega skýrum hætti í kosningabaráttunni síðastliðið vor.

Nú bregður svo við að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins, endurtekur í sífellu að hann geti ekki efnt kosningaloforðið því í því felist ómöguleiki. Það sé ómögulegt fyrir stjórnvöld að uppfylla kosningaloforðið vegna þess að það gæti gerst að þau verði ekki sammála niðurstöðunni í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Þeim væri því ómögulegt að fara að þjóðarvilja.

Mér finnst ástæða til að staldra við þessi ummæli formanns Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Bjarna Benediktssonar. Hvað þýða þau í raun og veru? Það er ekki hægt að halda þjóðaratkvæðagreiðsluna vegna þess að stjórnvöld gætu verið ósammála niðurstöðunni og treysti sér ekki til að framfylgja vilja þjóðarinnar. Er ekki eitthvað rangt við þetta, virðulegi forseti? Er hægt að sætta sig við það að aldrei geti farið fram þjóðaratkvæðagreiðsla vegna þess að verið gæti að stjórnvöld treysti sér ekki til að framfylgja þjóðarviljanum? Eða er ómöguleikinn aðeins bundinn við núverandi hæstv. ríkisstjórn?

Mér finnst þessi orð hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra vera ómöguleg og rök hans ganga ekki upp nema að við séum sammála því að þjóðaratkvæðagreiðslur eigi aldrei við. Svo er ekki, hvorki hér í þingsal né meðal fólksins í landinu. Nei, takk, virðulegi forseti, ómögulega meira af þessu.

Krafan um að þjóðin fái að koma að þessu mikilvæga hagsmunamáli er hávær í samfélaginu. Rétt um 50 þúsund manns, rúmlega 20% kosningarbærra manna, hafa skrifað undir áskorun sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Við undirrituð skorum á Alþingi að leggja til hliðar tillögu til þingsályktunar um að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu og boða til þjóðaratkvæðagreiðslu. Þar verði spurt: Vilt þú ljúka aðildarviðræðum við Evrópusambandið sem hófust með ályktun Alþingis 16. júlí 2009, eða viltu slíta þeim?“

Svona hljóðar áskorunin, virðulegi forseti. Þetta er mjög skýrt og skorinort og 50 þúsund manns hafa skrifað undir.

Menn deila um hve hátt hlutfall kosningarbærra manna þurfi til að fallist verði á þjóðaratkvæðagreiðslu. Stjórnlagaráð lagði til hlutfallið 10% á sínum tíma. Í umræðu um tillögu þess voru oft nefnd 15%. 20% er hvað sem öðru líður hærra en yfirleitt er miðað við hvað það varðar og sannarlega ástæða fyrir stjórnvöld að staldra við og endurskoða hug sinn.

Ég hef áhyggjur af því að hæstv. forsætisráðherra hefur ekki og virðist ekki ætla að beita sér fyrir sátt um málið, hvorki við þing né þjóð. Getur verið að hæstv. forsætisráðherra átti sig ekki á þunganum í umræðunni? Getur verið að hann haldi að hann geti hunsað allt þetta fólk, mótmæli þeirra og áskoranir? Getur verið að sjálfstæðismenn ætli ekki að beita sér fyrir sátt í málinu? Um hvað var formaður Sjálfstæðisflokksins að tala þegar hann sagði á dögunum að kanna þyrfti með hvaða hætti aðkoma þjóðarinnar gæti verið? Hvaða hagsmuni eru hæstv. forsætisráðherra, formaður Framsóknarflokksins, og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins, að verja með því að svíkja kosningaloforð með svo einbeittum hætti og hunsa áskoranir og mótmæli fólksins í landinu?

Ekki er verið að verja kjör heimilanna í landinu. Ekki er verið að verja kjör fyrirtækjanna í landinu og ekki er verið að bæta stöðu ríkissjóðs. Ef tillagan sem er hér til umræðu verður samþykkt án aðkomu þjóðarinnar er ekki aðeins verið að svíkja gefin loforð, heldur er með því líka verið að loka dyrum sem leiða að betra efnahagsumhverfi fyrir Ísland. Ef Ísland yrði aðili að Evrópusambandinu og tæki upp evru hefði það m.a. í för með sér, samkvæmt hermireikningi sem skýrður er í riti Seðlabankans, riti sem kom út haustið 2012 og fjallar um gjaldeyrismál, að innlendir raunvextir lækki, innlendur fjármagnsstofn stækki og landsframleiðsla á mann hækki varanlega við inngöngu lítils lands eins og Íslands í stærra myntsvæði. Einnig fylgja aðild að ESB og evrusvæðinu kvaðir varðandi stefnuna í ríkisfjármálum og aðra þætti efnahagsstefnunnar sem ætlað er að sporna gegn agaleysi í hagstjórn.

Við höfum búið lengi við mikla verðbólgu og efnahagslegan óstöðugleika, agaleysi í hagstjórn og lausatök í regluverki og eftirliti með fjármálakerfinu fengu að viðgangast á árunum fyrir bankahrunið. Ásamt þátttöku í margvíslegu samráði um efnahagsstefnu og fjármálastöðugleika sem ætti að stuðla að betri stefnu á þessum sviðum fengist með aðild að Evrópusambandinu aðgangur að björgunarsjóðum og sameiginlegu öryggisneti sem ætlað er að takast á við áföll í einstökum ríkjum.

Losun fjármagnshafta er mikilvægt en jafnframt flókið úrlausnarefni. Höftin reyndust mikilvæg við að ná stöðugleika í þjóðarbúskapnum í framhaldi af fjármálaáfallinu. Nauðsynlegt er þó að losa um höftin vegna þess að þau hafa í för með sér kostnað sem vex með tímanum og verður til lengdar meiri en ávinningurinn. Losun fjármagnshaftanna gengi augljóslega greiðlegar ef við gengjum í myntbandalag. Viðskiptaráð áætlar að gjaldeyrishöft hafi kostað íslensk fyrirtæki 80 milljarða kr. í fyrra. Ráðið kallar eftir trúverðugri áætlun um afnám hafta. Ég spyr því, hæstv. forseti: Hvert er plan hæstv. ríkisstjórnar hvað þetta varðar?

Margir hafa orðið til þess að gagnrýna þá ákvörðun stjórnvalda að slíta viðræðum við ESB og meðal þeirra eru forstjórar tveggja stórra alþjóðlegra fyrirtækja hér á landi, Marel og CCP. Þeir benda á að enginn annar valkostur hafi verið dreginn fram og benda einnig á að gjaldeyrishöftin standi nýsköpun hér á landi fyrir þrifum. Ekki ætlum við að nota krónur, er það planið? spurði Hilmar Veigar Pétursson, framkvæmdastjóri CCP, á iðnþingi á dögunum. Þessari spurningu þurfum við að svara og draga um leið fram hvað það þýðir fyrir atvinnulífið í landinu, samsetningu þess og rekstrarumhverfi og ekki síður hvað það þýðir fyrir heimilin í landinu og velferðina þar sem mjög kostnaðarsamt er fyrir ríkissjóð að halda úti krónunni, minnsta sjálfstæða gjaldmiðli í heimi.

Það er augljós hagur nýsköpunar og hugverkageirans að skipt verði um gjaldmiðil og eini raunhæfi kosturinn fyrir Ísland er evra. Nýsköpunarfyrirtæki sem hafa náð fótfestu ná ekki að blómstra í því umhverfi sem krónan skapar. Þessi fyrirtæki eru mjög mikilvæg fyrir okkur Íslendinga, skapa vel launuð störf og laða að og halda ungu og efnilegu fólki heima. Í sumum tilfellum er það nefnilega þannig að fólk vill ganga í Evrópusambandið til þess að geta haldið áfram að búa á Íslandi.

Virðulegi forseti. Jón Kalman rithöfundur spurði á fundi á Austurvelli á laugardaginn: „Ef ríkisstjórn er andsnúin vilja rúmlega 80% þjóðarinnar, hunsar algjörlega 46 þúsund undirskriftir og kokgleypir í viðbót margítrekuð loforð — fyrir hverja starfar hún þá?“

Ég geri nú í lok minnar ræðu þessa spurningu að minni. Ef hæstv. ríkisstjórn starfar ekki fyrir fólkið í landinu, fyrir hvern starfar hún þá?



[17:10]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Nú er áfram haldið að mótmæla því á Austurvelli að ríkisstjórnin ætli að slíta aðildarviðræðum við ESB og draga einhliða til baka umsóknina. Við höfum verið með hér í umfjöllun ekki bara þá tillögu, heldur líka tillögu frá þingflokki Vinstri grænna og tillögu frá öðrum flokkum eins og Samfylkingunni, Pírötum og Bjartri framtíð. Mig langar að heyra hvaða mun hv. þingmaður telur vera, í þessari stöðu, á tillögu okkar í Vinstri grænum og tillögu sem hún er flutningsmaður að, tillögum sem eiga að vera einhver millilending í þessu máli ef stjórnarflokkarnir ætla að hlusta á þjóð sína og taka eitthvert mark á því að krafan er að … (Gripið fram í: Ekki þeirra þjóð.) Nú heyrist kallað úti í sal að þjóðin sé ekki ríkisstjórnarflokkanna, en við erum þjóðin, öllsömul, er það ekki? En ef við ætlum að hlusta á þjóðina hvaða leið telur hv. þingmaður vera til sáttar?

Við í Vinstri grænum höfum lagt fram tillögu sem við teljum að sé vel hægt að lifa með miðað við það að við erum andstæðingar inngöngu í ESB, en viljum mæta lýðræðislegum vilja þjóðarinnar til að koma að þessu máli úr því sem komið er. Þetta er komið það langt að ekki er hægt að setja bara tappann í flöskuna því að hún mun springa í framhaldinu. (Forseti hringir.) Telur hv. þingmaður að tillaga (Forseti hringir.) okkar vinstri grænna gangi og hver er munurinn á ykkar tillögu og okkar?



[17:12]
Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er alveg skýr stefna Samfylkingarinnar og vilji að þetta ferli haldi áfram, því verði lokið og síðan verði niðurstaðan borin undir þjóðina. Það er hins vegar afskaplega ólíklegt að núverandi stjórnvöld taki undir þá stefnu, enda eru þau með tillögu hér um að slíta viðræðunum. Krafa þjóðarinnar eða þeirra 50 þúsunda sem eru búin að skrifa undir áskorunina er að taka tillöguna, leggja hana til hliðar og þjóðin verði spurð hvort eigi að halda áfram eða slíta. Mér finnst það vera góð sáttatillaga ef ég horfi út frá sjónarhóli stefnu Samfylkingarinnar.

En hv. þingmaður spyr mig um muninn á tillögu Pírata, Samfylkingarinnar og Bjartrar framtíðar sem gekk út á þjóðaratkvæðagreiðslu með sveitarstjórnarkosningum og síðan tillögu Vinstri grænna. Ég vil frekar fara leið þjóðarinnar en leið Vinstri grænna, þ.e. leið þeirra sem hafa ritað undir áskorunina. Það sem mér finnst eiginlega verst við tillögu Vinstri grænna, þótt ég skilji vel að flokkurinn sé að leita einhverra leiða til að komast út úr þessum vanda, er að þjóðaratkvæðagreiðslan skuli ekki vera tímasett og ekki sé skýrt um hvað eigi að spyrja. Væntanlega mundi það koma í ljós í meðförum þingsins.

Ég segi bara: Málamiðlunartillagan og leiðin út úr þessum vanda er að leggja þá tillögu sem við fjöllum um hér til hliðar og leyfa þjóðinni að segja hvort við eigum að halda áfram eða ekki. Um það er fólk að biðja.



[17:14]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Tillaga okkar vinstri grænna gengur einmitt út á það að mæta þjóðinni og að vísa þessu máli til þjóðarinnar á kjörtímabilinu en við viljum ekki njörva það niður, hvorki nákvæmlega innihald spurningarinnar né tímasetningu, vegna þess að við erum að reyna að ná utan um stærri hóp og viljum að fleiri komi að því hvernig orða eigi þessa spurningu, jafnvel að ákveða hvort það verði fleiri en ein spurning, og hvaða tími henti. Við viljum ekki setja eitthvað niður um það fyrir fram heldur væri það eins og sáttatillaga, menn gætu rætt sig niður á niðurstöðu í þeim efnum.

Nú hefur Samfylkingin kallað mjög á plan B hjá ríkisstjórnarflokkunum ef við höldum ekki áfram á þessari braut með þeim væntingum að ganga inn í Evrópusambandið. Nú kalla ég eftir plani B hjá Samfylkingunni. Hvaða plan hefur Samfylkingin ef niðurstaðan yrði sú að viðræðum yrði haldið áfram og samningur lægi fyrir, hann færi fyrir þjóðina og yrði felldur? Hvert er plan B hjá Samfylkingunni við þær aðstæður?

Það hefur verið svolítið mikið rætt um efnahagsmál í þessu sambandi, gjaldeyrismál og myntina okkar og að taka upp aðra mynt. Nú veit ég að hv. þingmaður þekkir fjárlögin vel og við hvað við höfum verið að glíma undanfarið, að ná stöðugleika og greiða niður skuldir. Ég veit að hún þekkir líka vel að við getum ekki tekið upp evru nema við ákveðnar aðstæður, að við séum búin að ná stöðugleika í þjóðfélaginu. Telur hv. þingmaður, að hugsanlegum samningi felldum, að með því að ná hér stjórn á efnahagslífinu getum við búið áfram á Íslandi?



[17:16]
Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að staðan sé nú ekki þannig að ef við göngum ekki í Evrópusambandið verði ekki hægt að búa hérna, en það verður verra. Atvinnulífið verður einhæfara og það verða margir sem munu ekki geta stundað atvinnu sína og búið á Íslandi. Það er alveg ljóst. Við munum áfram eyða fúlgum fjár á hverju ári til þess að halda úti gjaldmiðlinum hvort sem hann verður fljótandi eða ekki, ég get reyndar ekki séð hann fyrir mér fljótandi. Við erum að tala um lítinn gjaldmiðil sem 320 þús. manns halda uppi, sem við viljum keppa með á svæði og við gjaldmiðil sem 500 milljónir halda uppi. Það er ójafn leikur og það verður alltaf dýrt fyrir okkur að halda úti þessum gjaldmiðli, fyrir utan það að ef við tækjum upp evru mundu vextir lækka. Það sýnir þessi ágæta skýrsla Seðlabankans sem ég vona að allir hv. þingmenn hafi skoðað og pælt í gegnum, hún skýrir svo vel og leiðir sterkar líkur að því að hér muni vextir lækka. Farið hefur verið yfir það að lækkun á útgjöldum heimilanna yrði 100 milljarðar, 45 milljarðar fyrir ríkissjóð og 65 milljarðar fyrir fyrirtæki. Það gefur náttúrlega augaleið að við erum að tala um rúmlega 200 milljarða sem við gætum aldeilis gert eitt og annað fyrir til að bæta lífskjör í landinu.

Þannig að ég segi, virðulegi forseti, sem svar við spurningu hv. þingmanns: Það yrði ekki óbyggilegt á Íslandi þótt við færum ekki í Evrópusambandið, en kjör okkar mundu áfram verða verri og atvinnulífið einhæfara. (Forseti hringir.) Það er auðvitað val (Forseti hringir.) sem þjóðin stendur frammi fyrir.



[17:19]
Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum að fjalla um mál sem snýr að ákvarðanatöku um hagsmuni Íslands og hvort þeim sé betur borgið innan Evrópusambandsins eða utan. Maður heyrir það í umræðunni að margir hafa komist að niðurstöðu um þetta mál. Stjórnarliðar til dæmis sem ræddu málið í gær höfðu fyrir sitt leyti komist að niðurstöðu út frá skýrslu Hagfræðistofnunar og fannst og finnst ekki tilefni til að ræða það frekar.

Ég er þeirrar skoðunar, og margir eru sammála mér, að ekki sé hægt að taka endanlega ákvörðun fyrr en samningur liggur fyrir og menn eru komnir með allar upplýsingar á borðið. Hér stangast því þær skoðanir á.

Mér finnst kjarni málsins sem við erum að fjalla um vera virðing fyrir ólíkum skoðunum. Það sem við mundum vilja segja við þá sem eru stuðningsmenn þessarar tillögu er: Getið þið borið virðingu fyrir þeirri skoðun okkar að okkur finnst skýrsla Hagfræðistofnunar ekki hinn endanlegi sannleikur í þessu máli? Er hægt að bera virðingu fyrir þeirri skoðun að halda megi áfram með viðræðurnar, og eigi að gera það, til þess að fá allar upplýsingar upp á borðið?

Í kjarnann held ég að þetta sé meginefni þeirra mótmæla sem við höfum upplifað í samfélaginu og þeirra undirskriftasafnana sem hafa verið í gangi, að fólki finnst að verið sé að taka af því réttinn til að segja sína skoðun í málinu og komast að eigin niðurstöðu í málinu.

Mig langar að spyrja hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur um viðbrögð hennar við þessari hugleiðingu.



[17:21]
Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get verið sammála hv. þingmanni um að þetta er að hluta til ástæðan fyrir viðbrögðunum hér úti, en ég held að það spili líka stóra rullu, sérstaklega fyrir þá sem kusu stjórnarflokkana, að þeir sögðu fyrir kosningar: Við ætlum ekkert að fara út í þetta deilumál vegna þess að ef við komumst til valda verður það þjóðin sem fær að segja til um hvort eigi að halda áfram eða ekki. Ég held að þessi harkalegu viðbrögð séu líka vegna þess að þeir kjósendur voru sviknir um það. Ég held að undiraldan sé þung í þeirra röðum út af því.

Hins vegar held ég að við sem höfum lesið skýrslu utanríkisráðherra getum verið sammála um að hún er fínt plagg sem tekur stöðuna alveg ágætlega, en hún fer ekki mjög ítarlega í gegnum þá hagsmuni sem liggja undir. Hún bendir á skýrslu Seðlabankans varðandi gjaldeyrismálin sem er allt í lagi, en það þarf að svara betur spurningunni um hag fólksins í landinu og um hag fyrirtækjanna, hag launþega o.s.frv., sem ég geri ráð fyrir að skýrsla sem Alþjóðamálastofnun er að vinna fyrir aðila vinnumarkaðarins fari betur yfir. Mér finnst því mjög eðlilegt, og það sýnir virðingu fyrir öllum víddum málsins, að í það minnsta sé beðið eftir þeirri skýrslu og sú skýrsla fái umfjöllun hér og hún fái umfjöllun í nefndinni áður en þetta mál verður afgreitt.



[17:23]
Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að þetta liggi þannig að með því að halda áfram viðræðum, með því að ljúka samningi, liggur fyrir hvað felst í því að ganga í Evrópusambandið. Með því er ekki verið að taka ákvörðun um að ganga í Evrópusambandið. Það er ekki verið að taka endanlega ákvörðun um það fyrir hönd einhvers að ganga í Evrópusambandið og þannig virða að vettugi skoðanir þeirra sem eru á móti því. Það er einfaldlega verið að fara þess á leit að allar upplýsingar verði fengnar upp á borðið. Þeir sem segja að það sé ekkert um að semja, að það séu engar sérlausnir og engar undanþágur ættu ekki að hafa neinar áhyggjur af málefnastöðu sinni ef það er raunin.

Hér er verið að takast á um grundvöllinn í lýðræðislegri ákvarðanatöku og lýðræðislegu samtali, að bera virðingu fyrir ólíkum skoðunum. Mér finnst þess vegna og það er mín tilfinning, og ég held að það sé tilfinning sem er að finna víða í samfélaginu, að verið sé að lítilsvirða þá skoðun mína að halda eigi viðræðum áfram og fá alla kosti upp á borðið.

Sumir halda því fram að það sé ekkert til sem heitir að kíkja í pakkann hjá Evrópusambandinu, það liggi fyrir hvernig hann er. Ef svo væri væri ekki gert ráð fyrir því að ljúka þessu ferli með þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem hin endanlega ákvörðun er í höndum þjóðarinnar.



[17:25]
Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni eins og ég hef svo oft verið áður, enda er hann ágætur félagi.

Ég held að þetta sé þannig að við verðum að horfast í augu við að hérna er stórt og mikið hagsmunamál, það eru hatrammar deilur og ef við klárum ekki ferlið og sjáum hver niðurstaðan getur verið verða alltaf efasemdir uppi, það verða alltaf spurningar. Stóra hagsmunamálið er auðvitað sjávarútvegsmálin. Við erum mjög sérstök þar og staða okkar allt öðruvísi en annarra þjóða sem eru innan Evrópusambandsins. Við búumst við því að þar getum við fengið sérlausnir og leiðum að því líkur að það sé heilmikið sem við getum fengið þar. Við erum náttúrulega með stærsta hlutinn í gegnum EES-samninginn.

Þegar ég var að skoða skýrslu utanríkisráðherra tók ég það saman að af köflunum 33 eru 22 sem eru bara EES-samningurinn, 11 eru það ekki eða að stórum hluta ekki. Við erum sem betur fer með marga góða kosti þarna inni. Við þurfum að fá að klára þetta, annars verður undirtónninn alltaf: Af hverju máttum við ekki klára þetta? Af hverju megum við ekki klára? Hvaða hagsmuni er verið að verja? Af hverju megum við ekki fara í þennan viðkvæma sjávarútvegskafla, fá niðurstöðu og velja svo og hafna, hvort við tökum þeirri niðurstöðu eða höfnum henni? Annars liggur alltaf undir sá grunur um að verið sé að gæta hagsmuna fárra og fórna hagsmunum (Forseti hringir.) flestra.



[17:28]
Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Hvar eru ráðherrar Sjálfstæðisflokksins? Þora ráðherrar Sjálfstæðisflokksins ekki að koma til þessarar umræðu? Treysta ráðherrar Sjálfstæðisflokksins sér ekki til að ræða þau loforð sem þeir hafa gefið kjósendum sínum fyrir kosningar í þeim efnum?

Í upphafi umræðunnar var óskað eftir nærveru þeirra af ræðumanni áður en hann hóf ræðu sína. Forseti ákvað að gera boð fyrir ráðherrana. Enginn þeirra kom meðan á ræðunni stóð.

Ef ráðherrar Sjálfstæðisflokksins ætla ekki að láta sjá sig við umræðuna legg ég til að hér í ræðustólinn verði heimilað að setja vídeóskjá þannig að það megi í fjarveru ráðherranna, sem er þó lögskylt að sækja fundi á Alþingi, spila myndbandsupptökur af því sem þeir höfðu um þetta mál að segja í kosningabaráttunni 2013. Ef það er ekki hægt væri betra að fá þá hér í holdinu og blóðinu til að ræða sín eigin orð. Þeir eru varla algerlega huglausir, virðulegur forseti.



[17:29]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að taka undir þau sjónarmið sem komu fram hjá hv. þm. Helga Hjörvar og minna á að óskað hefur verið eftir því að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins væru viðstaddir þessa umræðu. Þeir hafa verið fjarstaddir meira og minna alla umræðuna. Forseti ætlaði að gera boð fyrir þá en enginn þeirra hefur birst hér. Ég hlýt því að inna hæstv. forseta eftir því hvort þeir hafi svarað boðum forseta og hver þau svör hafa verið, og ef ekki, að ýta á eftir því að boðin verði ítrekuð. Eins og kom fram eru ýmsir hv. þingmenn sem vilja eiga orðastað við ráðherra Sjálfstæðisflokksins, eða a.m.k. tryggja að þeir fylgist með umræðunni og geti svarað því sem til þeirra er beint ef þeir svo kjósa.

Ég ítreka þá beiðni sem hefur komið fram um að þeim verði gert viðvart um að þeirra sé óskað, a.m.k. einhverra þeirra, við þessa umræðu.



[17:30]
Forseti (Þorsteinn Sæmundsson):

Forseti getur upplýst að boð hefur verið gert fyrir ráðherra Sjálfstæðisflokksins og er sjálfsagt mál að ítreka þau.



[17:30]
Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Það er mér heiður að fá að ávarpa hið háa Alþingi sem er hér saman komið, ekki síst á þeirri ögurstundu sem við stöndum frammi fyrir nú, að ræða um hvort við skulum rjúfa umsóknarferli Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Við þurfum að skoða söguna í samhengi ef nota á hana til að styðja þann málstað sem mælt er fyrir. Ekki er fögur sagan sem Austur-Evrópa getur sagt okkur en ein ástæða þess að Rúmenía, Pólland og Búlgaría gengu í Evrópusambandið á sínum tíma var að það var skárri kostur en hinn valmöguleikinn, að gerast höll undir Rússland.

Evrópusambandið veitti þessum löndum fjármagn í því skyni að byggja upp innviði, styrkja lýðræði og stuðla að friði í þessum heimshluta. Sem dæmi um afleiðingar þessa má skoða muninn á Póllandi og Úkraínu.

Pólland gekk í Evrópusambandið árið 2004 og síðan þá hefur hagvöxtur og velferð íbúa þar í landi aukist verulega. Árið 1990 voru Úkraína og Pólland með svipaðan hagvöxt og efnahag og lífsgæði voru sambærileg. Í dag, 24 árum síðar, hefur hagvöxtur Póllands þrefaldast og lífsgæði sömuleiðis á meðan lífsgæðum í Úkraínu hefur lítið fleygt fram. Í dag er landið umsetið rússnesku hervaldi og spillingin hefur tært grundvallarstoðir samfélagsins svo alvarlega að þar ríkir upplausn og landið er á barmi borgarastyrjaldar og það í annað sinn á tíu árum.

Pólland er hins vegar orðið mikilvægt afl í alþjóðastjórnmálum og áhrifamikið innan Evrópusambandsins. Það hefur rödd. Þar ríkir friður og framþróun. Þeir hafa tekið þátt í baráttunni fyrir tjáningarfrelsinu gegn ACTA-frumvarpinu á Evrópuþinginu og þeir eru eitt örfárra ríkja sem reyndist fært um að lána Íslendingum gjaldeyri í kjölfar efnahagshrunsins.

Virðulegi forseti. Ef við ætlum að ræða ágæti Evrópusambandsins og áhrif þess á aðildarríkin hljótum við að þurfa að horfa á heildarsamhengið, hvað sambandið hefur gert fyrir lífsstíl íbúa sinna, hvað leiddi til stofnunar þess og hvernig heimsálfan hefur breyst síðan þá í friðsælt og vel megandi alþjóðasamfélag. Sjálf hef ég margt og mikið að athuga við Evrópusambandið og þar má sannarlega margt betur fara. Það er hins vegar firring að hafa andúð á tilvist Evrópusambandsins og öllu því sem það hefur í för með sér. Það er firring vegna þess að andúð blindar og hindrar viti bornar rökræður. Hún kemur í veg fyrir að við, þingið og þjóðin, fáum þær upplýsingar sem við þurfum á að halda til að geta tekið efnislega afstöðu til aðildar að Evrópusambandinu.

Halda á umræðunni áfram í óupplýstum skotgröfum dómdagsspámanna, getgátna og digurbarkalegra yfirlýsinga andstæðra fylkinga og flokka í stað þess að leggja hana fram í upplýstum farvegi til þjóðarinnar. Það virðist ekki skipta máli hvaða rökum er beitt, hvaða staðreyndir eru dregnar fram eða hvernig eðli og störf Evrópusambandsins eru útskýrð. Andúðin, tortryggnin og hrokinn í garð Evrópusambandsins ristir svo djúpt meðal forsprakka ríkisstjórnarinnar að henni verður vart haggað. Hún byggir ekki á rökum heldur tilfinningum, þjóðerniskennd, þröngsýni og ótta, á fánahyllingu og ást á íslenskri glímu. Það virðist engu máli skipta hvað við segjum eða gerum, hversu margir mæta niður á Austurvöll til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu dag eftir dag, hversu stór hluti þjóðarinnar skrifar undir kröfu þess efnis, hversu oft við bendum á ítrekuð loforð stjórnarflokkanna um hana. Andúð hæstv. ríkisstjórnar yfirgnæfir það allt. Stjórnarliðar eru búnir að gera upp hug sinn um hvað þeir vilja gera og þá er þeim sama um eigin loforð og um vilja þjóðarinnar.

Sífellt er rifist um það hvort varanlegar eða tímabundnar sérlausnir eða undanþágur geti fengist í samningum við Evrópusambandið með sérstakri áherslu á landbúnað og sjávarútveg. Svo virðist sem ríkisstjórnarflokkarnir geri sér ekki grein fyrir því að aðild að Evrópusambandinu og reyndar Evrópusambandið sjálft er ævarandi samningsferli í stöðugri þróun en ekki bundin einum 100 þús. blaðsíðna óbreytanlegum reglupakka. Þetta hafa stjórnarherrar reyndar verið duglegir við að benda á, þeir vilja ekki ganga inn í sambandið sem er í stöðugri þróun. Ef þeir segja við Evrópusambandið að við viljum varanlegar undanþágur er skiljanlegt að Evrópusambandið lyfti brúnum. Það er ekki tilbúið að skuldbinda sig um tiltekið fyrirkomulag um aldur og ævi. Hins vegar eru loforð loforð og Evrópusambandið skrifar ekki undir eitthvað sem það ætlar sér ekki að standa við eða hefur enga trú á, ólíkt hæstv. forsætisráðherra.

Ég hef staðið hér á Austurvelli ásamt fleiri þúsund manns í því skyni að biðla til hæstv. forsætisráðherra um að setja málið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þess vegna langar mig að nota þetta tækifæri til að spyrja: Hversu margir þurfa að mæta á Austurvöll? Hversu fast þurfum við að berja á gjánni til að hann sjái sér fært að taka eyrnatappana, stútfulla af andúð á Evrópusambandinu, úr eyrunum og hlusta, heyra það sem þjóðin hefur að segja? Við viljum kjósa og við vitum alveg hvað það þýðir. Við viljum kjósa vegna þess að fleiri hagsmunir eru í húfi en einvörðungu hæstv. ríkisstjórnar. Margir stúdentar sjá ekki framtíð í þessu landi þar sem þröng sultaról þeirra er þrengd sem aldrei fyrr. Ég sem stúdent stend hér og ég sé ekki framtíð á Íslandi ef stjórna á landinu svona.

Við horfum fram á atgervisflótta vegna þess að kjör fólks hér á landi eru einfaldlega ekki sambærileg því sem gengur og gerist annars staðar á Norðurlöndunum. Hjúkrunarfræðingar og læknar, verkfræðingar og annað hámenntað fólk flýr land, væntanlega af því að það var ekki búið að heyra um hæstvirta áburðarverksmiðju. Fyrirtæki sem jafnvel skila dágóðum hagnaði sjá sér varla fært að starfa hér á landi vegna gjaldeyrishafta, óstöðugleika og brigðulla stjórnarhátta. Hér ríkir engin sátt.

Ef hæstv. forsætisráðherra heldur að fólkið hér fyrir utan, sem er saman komið og lemur í grindverkið, sé að fagna starfi hans þá hefur hann rangt fyrir sér. Þessi yfirlýsing ríkisstjórnarinnar, um að notfæra sér vald sitt til þess að slíta viðræðum við Evrópusambandið, er andstætt því sem lofað var fyrir kosningar og það er á skjön við vilja meiri hluta þjóðarinnar sem vill kosningar varðandi áframhald aðildarviðræðna. Við, þjóðin, viljum kjósa ef á annað borð á að taka ákvörðun um þetta mál.



[17:37]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni sem talaði á undan mér fyrir mjög góða ræðu. Ég er sammála hverju einasta orði sem hún sagði.

Það er svolítið erfitt þegar maður hefur tíu mínútur og svo aftur fimm mínútur í þessu risastóra máli að ætla að reyna að segja eitthvað af viti því að af svo mörgu er að taka. Mig langar aðeins til að koma inn á orðið töfralausn, sem ég veit ekki alveg hvernig kom inn í umræðuna en mér finnst andstæðingar Evrópusambandsins klifa á því að Evrópusambandið sé engin töfralausn. Ég veit ekki til þess að nokkur hafi nokkurn tíma sagt að Evrópusambandið sé töfralausn, hver byrjaði með það? Það er alveg ljóst að aðild að Evrópusambandinu er kostur sem við þurfum að skoða, það gæti verið góður kostur fyrir Ísland. En það er ekki þannig, eins og við sjáum á þeim fjölmörgu ríkjum sem nú eru í Evrópusambandinu, að aðild að Evrópusambandinu reynist endilega farsæl fyrir öll lönd. Það er ekkert sem kemur í veg fyrir að þjóðir kjósi yfir sig einhverja vitleysinga og vil ég ganga svo langt að nefna vini mína á Ítalíu sem dæmi, þjóð sem kýs yfir sig Berlusconi aftur og aftur á ekki von á góðu og það hefur nákvæmlega ekkert með Evrópusambandið að gera. Þess vegna fer í taugarnar á mér þegar verið er að vísa í Evrópusambandið og það notað sem rök fyrir því að við eigum ekki að ganga í sambandið að segja: Sjáið þið bara Grikkland, sjáið þið bara Spán, sjáið þið bara Ítalíu. Þá erum við að velja þau lönd sem standa okkur fjærst.

Eigum við eitthvað sameiginlegt með Grikklandi? Ég var að sjá það sem ég vissi ekki, að viðskiptajöfnuður hefði mælst jákvæður í Grikklandi í fyrra í fyrsta skipti í 66 ár, ef ég man rétt. Ég sem hef alltaf haldið að vandræði Grikklands hefðu byrjað þegar þeir gengu í Evrópusambandið, að vandræði Grikklands væru Evrópusambandinu að kenna. Þannig hefur umræðan verið.

Mönnum er tíðrætt um atvinnuleysið á Spáni. Er eitthvað líkt með vinnumarkaðnum hér og vinnumarkaðnum á Spáni? Það er þannig víða, og ekki bara á Spáni, að fyrirtæki veigra sér beinlínis við að ráða starfsfólk vegna þess að það getur verið gríðarlega erfitt að segja því upp. Þetta er vandamál, þetta er þekkt vandamál í sumum löndum þar sem vinnumarkaðurinn er ekki, eins og maður getur orðað það jákvætt, sveigjanlegur. Mér finnst því mjög hæpið þegar við erum að bera okkur saman við lönd í Suður-Evrópu þar sem aðstæður eru allt aðrar og jafnvel undirliggjandi spilling og það notað sem rök fyrir því að við eigum ekki að skoða Evrópusambandið, hvað þá ganga í það. Ég held að við ættum að líta okkur nær og horfa á lönd eins og Danmörku, Svíþjóð, Finnland, Þýskaland, Belgíu, Holland og svo get ég áfram talið.

Það er líka þannig að þegar hrunið varð var mjög misjafnt hvernig fór fyrir þjóðum. Ég get ekki séð að það skipti í rauninni máli hvort þjóðir voru í Evrópusambandinu eða ekki. Írar fóru geyst og lentu í vanda, þeir eru í Evrópusambandinu. Sama má segja um Grikkland. Við fengum mikinn skell, ekki verður Evrópusambandinu kennt um það, eða væntanlega ekki. Ég held því að við ættum aðeins að róa okkur í þeirri umræðu sem ég vil kalla „Sjáið þið bara Grikkland“. Sjáum bara samninginn, segi ég, og skoðum svo málið út frá honum.

Það sem mér finnst brýnast, og ég hef oft sagt það áður hér, og er ástæðan fyrir því að ég vil alls ekki að aðildarviðræðunum verði slitið heldur vil klára þær og fá að sjá samninginn, er að við sitjum uppi með ónýtan gjaldmiðil og þjóðin neitar að horfast í augu við það. Það er grafalvarlegt. Stjórnvöld neita að horfast í augu við að við erum með gjaldmiðil sem er ekki gjaldgengur nema í þessu pínulitla hagkerfi hérna og eiginlega varla það. Ég hef ekki heyrt hvaða plan menn eru með. Ég vil kalla eftir því, hæstv. utanríkisráðherra mætti jafnvel koma upp í ræðustól á eftir og útskýra hvert planið í gjaldmiðilsmálum er.

Ég uppgötvaði þetta þegar sonur minn fékk gefins evrur í fermingargjöf. Ég hélt á evrunum og ákvað að fara ekki með þær í banka og skipta yfir í íslenskar krónu heldur setti ég þær ofan í skúffu og þar hafa þær verið vaxtalausar í mörg ár. Það var betri kostur en að skipta evrunum yfir í krónur. Ef maður vill frekar eiga evrur vaxtalaust heima hjá sér en að (Forseti hringir.) fara í bankann og kaupa krónur er eitthvað mikið að.



[17:43]
Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða yfirferð. Mig langar að spyrja hana, af því að hún hefur komið ötullega að neytendamálum í gegnum tíðina, hvert sjónarmið hennar er eða hvernig sýn hennar út frá neytendahliðinni er gagnvart aðild að Evrópusambandinu.

Augljós kostur fyrir neytendur og heimilin í landinu er auðvitað upptaka evru þar sem gæti fylgt meiri stöðugleiki í verðlagi. Einnig að við gætum losað okkur við verðtrygginguna að fullu ef við tækjum upp evru, ekki bara farið í að banna einstaka lánaflokka eins og núverandi ríkisstjórn virðist hafa hugmyndir um.

Eru einhver önnur sjónarmið sem við gætum haft í huga varðandi neytendur á Íslandi, og þá kannski líka hvað varðar EES-samninginn? Koma með honum líka réttarbætur fyrir neytendur hér á landi?



[17:44]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið.

Já, það er rétt að í rauninni heyra neytendamálin eiginlega alveg undir EES og miklar réttarbætur hafa fengist í gegnum EES-samninginn, svo sem eins og samkeppnislög, sem ég man bara eftir núna. Það sem upp á vantar er þá kannski tollabandalagið, það að geta til dæmis verslað á netinu, og svo er auðvitað stóra málið, þ.e. landbúnaðarpakkinn, að þar mundi liðkast um. Þar ætti jafnframt að vera tækifæri til útflutnings. En svo heppilega vill til að við erum að taka við neytendalöggjöf frá Brussel og hún hefur reynst okkur vel.



[17:45]
Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Þessi umræða um landbúnaðarkerfið er nefnilega áhugaverð vegna þess að við sem höfum talað fyrir því að við ættum að ganga inn í staðinn fyrir að vera svona — hvað eigum við að segja — aukaaðilar að Evrópusambandinu og þiggja löggjöf án þess að hafa bein áhrif á hana, höfum stundum verið úthrópuð fyrir það að ætla að ganga frá atvinnuvegum í landinu, til dæmis landbúnaðinum. Ég frábið mér algjörlega slíkan málflutning vegna þess að ég tel að þar séum við ekki bara að horfa á ný tækifæri fyrir íslenskan landbúnað til útflutnings heldur sé þetta líka risastórt neytendamál. Ég sakna þess að við tökum slíka umræðu án upphrópana. Þó að maður vilji breyta kerfi þýðir það ekki að maður sé á móti því sem fyrir er, heldur vilji maður eingöngu líta á ný sjónarmið og ræða þau og velta þeim upp. (Forseti hringir.) Ég sakna þess að sjá ekki fleiri stjórnarliða í salnum sem mundu taka þátt í umræðunni á þeim nótum (Forseti hringir.) þannig að við séum að ræða þetta á réttum grunni (Forseti hringir.) en ekki í skotgröfum.



[17:46]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég tek undir með hv. þingmanni. Ég held reyndar að bændur þurfi ekkert að óttast, ég held að þeir standi sig það vel nú þegar að íslenskir neytendur kunni að meta framleiðsluna og muni halda tryggð við íslenska framleiðslu. Og svo njóta framleiðendur og bændur hér fjarlægðarverndar sem er alveg óumdeild.

Ég hef í rauninni ekki þær sömu áhyggjur kannski og bændur sjálfir. Ég vil líka ítreka það að mér finnst mjög mikilvægt að við stöndum vörð um landbúnaðarkerfið. Þess vegna erum við að fara fram á sérlausnir sem felast meðal annars í því að við getum stutt okkar landbúnað meira en Evrópusambandið almennt leyfir á þeim grundvelli að hér séu erfið skilyrði og þar fram eftir götunum. Ég held því að þarna séu tækifæri og það væri einmitt mjög fróðlegt að opna þann kafla og klára þannig að við sæjum hvað við (Forseti hringir.) fengjum.



[17:48]
Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur fyrir fína ræðu. Hún kom mjög vel inn á samanburð við aðrar þjóðir og lífskjör. Af því að hún nefndi að það hefði verið betra að geyma evruna undir koddanum og njóta betri ávöxtunar er það sem betur fer þannig að hagfræðin kennir okkur að það eru líka til huglægir mælikvarðar, þannig að ég hefði hvatt hana til að innleysa þetta strax og fara út í leikfangaverslun og kaupa eitthvað fallegt handa börnunum.

Mig langar að spyrja þar sem hún talaði um Spán og samanburð við Spán. Þegar Spánverjar tóku upp evru á sínum tíma vildi það þannig til að ég var starfandi í ferðaþjónustu. Það skiptir máli á hvaða gengi við förum inn. Evran var of sterk fyrir Spánverja. Ferðaþjónustan, (Forseti hringir.) ég ætla ekki að segja að hún hafi hrunið en hún lenti í erfiðleikum. Ég held áfram með þetta dæmi í seinna andsvari.



[17:49]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo ég taki það fram geymdi ég þessar evrur áður en lög Seðlabankans um að það ætti að skila gjaldeyri komu til og þeim hefur verið eytt núna, þannig að það sé á hreinu.

Þetta er góður punktur sem hv. þingmaður kemur inn á. Auðvitað skiptir máli hvenær og hvernig það er gert, ef við göngum í myntsamstarfið. Það er nokkuð sem við gerum ekki á einni nóttu, það þarf að vanda vel til.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður bendir á, þetta olli vandræðum á Spáni og ég veit að til dæmis á Ítalíu, og jafnvel í fleiri löndum, notfærðu seljendur sér það þegar þar var tekinn upp nýr gjaldmiðill og verð hækkaði. Það þarf að vera mjög vakandi fyrir því þegar það gerist.



[17:50]
Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur gott svar. Ég held áfram með Spán og talandi um sveigjanlegan vinnumarkað byggja Spánverjar afkomu sína að verulegu leyti á ferðaþjónustu. Það vill þannig til að ferðaþjónustan stendur í dag jafnfætis sjávarútveginum, er jafnvel aðeins farin að taka fram úr miðað við nýjustu tölur. Ég held að við verðum að skoða þetta mjög vel og svo þá staðreynd að næstu ár verðum við með krónuna. Okkur hefur tekist býsna vel með krónuna ef við tökum mið af lífskjörum. Það er óyggjandi að verg landsframleiðsla á hvern mann, ef við tökum meðaltal 15 bestu ESB-landanna, er hærri hér á landi en þar.



[17:51]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég velti fyrir mér hvort það megi orða það þannig að lífskjör hér á landi séu ótrúlega góð þrátt fyrir krónuna. Við erum rík þjóð og eigum miklar auðlindir og erum vinnusöm. Ég velti fyrir mér hvort við stæðum ekki enn betur ef við hefðum stöðugan gjaldmiðil.

Varðandi ferðaþjónustuna deili ég þeim áhyggjum en ég velti líka fyrir mér hvort við eigum aðeins að vera að keppa í verði, hvort Ísland geti ekki leyft sér að keppa líka í gæðum. Er endilega gott að vera land sem er svo ódýrt að hingað streyma fleiri ferðamenn en við getum tekið á móti? Það væri ekkert endilega svo slæmt að við fengjum stöðugri og sterkari gjaldmiðil sem við nytum þá með öðrum hætti en mundum jafnframt treysta á ferðaþjónustuna þannig að við erum með einstakt land. Það verður alltaf einhver markhópur þarna úti sem er tilbúinn að koma til Íslands, jafnvel þótt við séum ekki ódýrasti kosturinn í boði.



[17:53]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst nú gott að heyra hv. þingmann taka fram að hún trúi ekki á aðild að Evrópusambandinu sem allsherjartöfralausn þó að ég ráði það nú engu að síður af máli hv. þingmanns að hún sé nokkuð áhugasöm um kosti aðildar.

Varðandi það að fara varlega í samanburð við t.d. ríkin á suðausturjaðri Evrópusambandsins þá er ég algjörlega sammála því. Það er almennt skynsamlegt að fara varlega í samanburð milli ólíkra landa og ég tala nú ekki um ef við ætlum að reyna að fara að bera eitthvað saman útkomu þeirra af því að hafa gengið í Evrópusambandið og svo möguleg áhrif á okkur.

Hv. þingmaður segir: Við skulum líta okkur nær til þeirra landa hér á norvesturjaðri Evrópusambandsins sem nær okkur eru og skyldari. En þá kemur merkileg staðreynd ljós. Það eru einmitt þau ríki mörg hver sem hafa haft mesta fyrirvara á því að ganga inn í Evrópusamrunann að fullu, Noregur hefur fellt það, Svíar hafa haldið sinni krónu, Danir hafa haldið sinni krónu með sitt sumarbústaðaákvæði, Bretar hafa sitt pund, (Gripið fram í.) Bretar eru ekki í Schengen og eru jafnvel á leiðinni til baka út aftur o.s.frv. (Forseti hringir.) Spurningin á móti til hv. þingmanns er þá kannski þessi: Segir þetta okkur einhverja sögu?



[17:54]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Miðað við fyrirvarana sem við setjum í samningaviðræðunum má eiginlega segja að við séum í þeim hópi því að við gerum mjög miklar kröfur um undanþágur og sérlausnir, eins og það hefur verið kallað. Það er rétt að Danir t.d. eru á undanþágu, en þeir eru þó í samstarfi við Evrópska seðlabankann og það er ekki víst að sú lausn mundi bjóðast okkur að vera áfram með krónuna og tengda evrunni, við vitum það ekki. En það er nokkuð sem mér finnst við þurfa að skoða.

Það sem er kannski alvarlegast við þingsályktunartillögu hæstv. utanríkisráðherra um að slíta viðræðunum er að þá komumst við ekkert áfram með þá umræðu. Þá verðum við hér áfram talandi um það hvað ef við hefðum og ef við værum og við vitum í rauninni ekkert í okkar haus. Allar þjóðir hafa klárað aðildarsamning og langflestar þeirra hafa lagt hann fyrir þjóðina, reyndar ekki alveg allar, held ég. Þetta yrði fyrsta þjóðin sem mundi (Forseti hringir.) slíta aðildarviðræðum og það er bara mjög sérstakt, (Forseti hringir.) það er stórt skref finnst mér.



[17:55]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi fyrra umræðuefnið lít ég svo á að sú staðreynd að nokkur lönd á norðvesturjaðri Evrópusambandsins hafi valið að hafa vissa sérstöðu þrátt fyrir að taka þátt í samstarfinu eða vera aðilar endurspegli það að þegar maður fer aðeins fjær sjálfu meginlandinu þá byrja aðstæður að breytast og hagsmunir eru aðrir. Varðandi samanburð held ég að það sé ákaflega mikilvægt að menn geri ekki þau mistök að halda að með aðild að Evrópusambandinu verði menn einhvern veginn öðruvísi land.

Þegar ég var dálítið í Eystrasaltsríkjunum og þau voru að sækja um aðild, ákaflega áhugasöm, þá sögðu þau gjarnan: Já, við ætlum að verða eins og Írar. Sjáið þið hvað Írum hefur gengið vel eftir að þeir gengu í Evrópusambandið. Gott og vel, sagði ég, en þið verðið ekki að Írlandi með því að ganga í Evrópusambandið. Lettland breyttist ekki í Írland, hvað þá Lúxemborg eða Danmörku við það að ganga í Evrópusambandið. Það var áfram Lettland með sömu innviði og að mörgu leyti sömu veikleika og þeir áttu fyrir við að stríða.



[17:56]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég tek algjörlega undir með hv. þingmanni. Þetta minnir mig stundum á umræðuna hérna um að við ætlum að taka upp ný lög um fjárreiður ríkisins og þegar þau lög verða innleidd verði allt gott og þá verði hér agi og við förum að haga okkur einhvern veginn allt öðruvísi, sem mér finnst einmitt svolítið hæpin umræða vegna þess að við erum þrátt fyrir allt sama fólkið þótt við fáum nýja löggjöf. Þetta er því góður punktur.

Bara svo ég tali fyrir mig er það fyrst og fremst gjaldmiðillinn sem ég horfi á. Ég held að EES-samningurinn þjóni okkur bara ágætlega en við verðum að horfast í augu við að við erum með gjaldmiðil sem ekki er nothæfur og við verðum að finna einhverja aðra lausn. Annars stefnum við kannski bara í landflótta og unga fólkið hefur ekki áhuga á að vera hérna, vegna þess að það að búa hér áfram við gjaldeyrishöft er ekki boðlegt. Það grefur undan samfélaginu. Við finnum ekkert fyrir því dagsdaglega en það er mjög skaðlegt. Við verðum að finna einhverja lausn á gjaldmiðilsmálum og ég tel að þetta sé sigurstrangleg leið til þess.



[17:58]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að spinna þráðinn áfram með gjaldmiðilinn. Hv. þingmaður sagði í ágætri ræðu sinni að það væri ekkert plan hjá ríkisstjórninni í gjaldmiðilsmálum. Ég er fulltrúi Samfylkingarinnar hér og það er sagt við okkur: Þið talið ekki um neitt nema evru, evra á að vera lausn á öllu. Við höfum aldrei haldið því fram. Svo er spurt: Og ef það gengur ekki eftir, hvert er þá planið? Mér finnst það alltaf dálítið fyndið af því að planið er þá sama plan og hinir flokkarnir hafa sem þeir eru mjög tregir við að leggja á borð fyrir okkur.

Það er nýafstaðið iðnþing þar sem einn framkvæmdastjóri tölvuleikjafyrirtækis hélt firnagóða ræðu og fór einmitt yfir það hvað væri erfitt fyrir fyrirtæki eins og hans að starfa á Íslandi og ótta hans við það að ekki ætti að klára aðildarviðræðurnar. Mig langaði að heyra: Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér fyrirtækjaflóru og atvinnulíf á Íslandi (Forseti hringir.) við óbreytt ástand eftir sirka tíu (Forseti hringir.) ár?



[17:59]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið. Það sem mér finnst mjög einkennilegt einmitt núna er að atvinnulífið kallar eftir plani og jafnvel eftir evru og fer ekkert í grafgötur með það. Stjórnvöld verða að hlusta á það þegar atvinnulífið gerir svo ríka kröfu.

Við skulum alveg átta okkur á því að hér eru fyrirtæki sem eru á undanþágu frá gjaldeyrishöftunum, það eru fyrirtæki sem gera upp í evrum, en hinn almenni launamaður, almenni neytandi notar íslenska krónu vegna þess að hann hefur ekki kost á neinu öðru. Það er ekki ásættanlegt.



[18:00]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er nefnilega svolítið merkilegt þegar fulltrúar launafólks og fulltrúar atvinnurekenda eru samhljóða í kröfum sínum.

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tókst með ótrúlegum árangri að rétta hér af efnahagslífið. Það var 3,3% hagvöxtur hér á síðasta ári, það dróst verulega úr atvinnuleysi en það er áhyggjuefni að vegna krónunnar og ýmissa annarra aðstæðna — hér féll ekki bara bankakerfið heldur líka gjaldmiðillinn — þá búum við við talsvert lakari lífskjör en þær þjóðir sem við viljum bera okkur saman við. En þetta er ekki bara spurning um lífskjörin heldur hvers konar fyrirtæki ná að blómstra hérna. Fyrirtæki sem er með vinnuafl getur farið hvert sem er í heiminum ef lífskjör eru ekki (Forseti hringir.) sambærileg við það sem gerist víða annars staðar. (Forseti hringir.)

Þess vegna spyr ég aftur: Hvaða atvinnutækifæri bíða barnanna okkar hér (Forseti hringir.) við óbreytt ástand?



[18:01]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einmitt það sem maður óttast. Unga fólkið getur farið hvert sem er í dag þar sem allur heimurinn er í rauninni undir. Við eigum meira að segja í vandræðum með að fá sérfræðilækna aftur heim. Við þurfum því virkilega að hugsa um það hvernig lífskjör eru hér á landi og hvernig við tryggjum þau sem best.

Ég vil endilega fá skýrsluna sem ASÍ og Samtök atvinnulífsins eru að láta vinna og ræða hana líka. Ég beini orðum mínum til hæstv. utanríkisráðherra: Alls ekki slíta viðræðunum fyrr en við erum búin að fá þá skýrslu í hendur og búin að lesa hana því að hún mun taka sérstaklega á kostum og göllum aðildar. Rýnum í hana.



[18:03]
Guðbjartur Hannesson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Þó að ég væri hér í þinghúsinu að fylgjast með umræðunum var ég að reyna að lesa fjölmiðla landsins. Ég sé á mbl.is í dag frétt um að Færeyjar, Noregur og ESB hafi samið um makríl. Það tengist svolítið ESB-umræðunni þannig að mér finnst eðlilegt að hæstv. forseti hlutist til um það, og ég sé að hæstv. utanríkisráðherra er hér í salnum, að við fáum skýr svör um hvað er að gerast. Við höfum staðið mjög þétt saman, allir þingmenn, bæði stjórn og stjórnarandstaða, um að verja hagsmuni okkar í makrílmálinu og vissum ekki betur en slitnað hefði upp úr vegna ágreinings við Noreg. Síðan kemur þessi frétt núna og kann að vera röng en þar er vitnað til Færeyja og talað um að skrifa eigi undir þessa samninga í kvöld.

Mér finnst mjög mikilvægt að upplýsingar komi hingað inn í þingið þannig að við fáum að fylgjast með hvað er að gerast ef þessu verður með einhverjum hætti svarað formlega. Auðvitað er það gríðarlegt hagsmunamál fyrir Íslendinga að við fáum annaðhvort góða samninga eða fáum rúmar heimildir til að veiða makrílinn.



[18:04]
utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að það er á vefmiðlum að eitthvað sé að gerast í þessa veru. Við höfum hins vegar ekki fengið neinar staðfestingar á því, þetta eru enn sögusagnir en ég hygg að um leið og við höfum einhverjar upplýsingar sem mark er á takandi um þetta sé eðlilegt að sjávarútvegsráðherra og hugsanlega utanríkisráðherra mæti fyrir utanríkismálanefnd og fari yfir málið út frá þeirri vitneskju sem við höfum þá. Við höfum fram að þessu komið báðir fyrir nefndina til að fjalla um þetta mál en sé þetta rétt er það vitanlega áhyggjuefni og við hljótum að spyrja okkur þeirrar spurningar hvað Evrópusambandið hafi meint með þeim viðræðum og þeim loforðum sem það hafði gefið okkur. Hvað vakir fyrir Færeyingum? Við vissum að Norðmenn voru að leika býsna ljótan leik í þessu öllu saman.

Sé þetta rétt er eðlilegt að utanríkismálanefnd komi saman á morgun eða hinn og við förum þá yfir málið — þegar við vitum eitthvað meira. Í dag er þetta bara frétt úr Morgunblaðinu og einhverjar sögusagnir sem við heyrum þannig að við bíðum eftir því að fá staðfestingu á því hvort þetta er rétt eða ekki.



[18:05]
Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ekki átti ég von á því að heyra frá hæstv. utanríkisráðherra að þetta væri „bara frétt úr Morgunblaðinu“ en það er sannarlega áhyggjuefni ef rétt reynist að samningar hafi tekist á milli þessara aðila. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir að ætla að gefa skýrslu um það fyrir nefndum þingsins en ég held að þetta sé augljóslega hagsmunamál af þeirri stærðargráðu, mestu hagsmunir sem við höfum verið að semja um á síðustu árum, að það hljóti að kalla á skýrslugjöf í þinginu ef rétt reynist. Það er grafalvarlegt ef svo er og full ástæða til að spyrja hverju það sæti að við séum ekki við þetta borð.



[18:06]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég tel ástæðu til að upplýsa inn í þetta samhengi að frumheimildin fyrir fréttinni er hinn merki færeyski fréttavefur Norðlýsið og þann miðil tel ég auðvitað miklu áreiðanlegri en hinn fjölmiðillinn sem var nefndur hér og borinn fyrir þessu á Íslandi.

Ég hrökk verulega við við þessa frétt þótt maður hefði heyrt örlítinn ávæning í þessa átt. Ég sé ekki annað en að þá sé komin upp verulega breytt staða og sérkennileg frá haustinu þegar Ísland og Evrópusambandið voru þó að reyna að leggja eitthvað á sig til að ná þessum málum saman. Það er reyndar ekki nýtt, búið að standa þannig frá haustinu 2012. Þetta hefur strandað meira á þeim aðilum sem eru núna hins vegar komnir í bandalag og skilja okkur eina eftir út undan.

Ég tek undir að ég held að það eigi alveg erindi inn í hvort sem er, en ekki síður þegar við erum hér að ræða tengsl okkar við Evrópusambandið, að fá þá á hreint hvað þarna hefur verið að gerast og fá skýringar á þessu ef rétt reynist, m.a. og ekki síst frá Evrópusambandinu. Auðvitað þurfum við eitthvað að ræða við frændur okkur Færeyinga líka, (Forseti hringir.) geri ég ráð fyrir, en Norðmenn koma okkur hvorki á óvart í þessu efni né öðrum.



[18:07]
Guðbjartur Hannesson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir að lofa því að taka þetta mál upp. Þetta er ekki mál sem verið er að búa til ágreining um, þetta er mál sem okkur langar til að fá upplýst. Við eigum þarna hagsmuni sem allir hafa staðið saman um að verja og menn hafa reynt að vera með þetta mál í því ferli að sækja það á vísindalegum forsendum og verið mjög málefnalegir í þessari vinnu. Ég treysti á að þannig hafi verið haldið á málinu.

Ef þetta er tilfellið er full ástæða til að það sé rætt ítarlega í utanríkismálanefnd, væntanlega þá í þinginu í framhaldi og þá komi skýrsla um hvað gerðist í þessu ferli sem tók þetta af leið. Kannski er þessi frétt ekki rétt en í þessum færeyska miðli með tilvitnun í gegnum mbl.is er meira að segja vitnað í prósentuna sem Færeyingar eiga að fá út úr þessu samkomulagi. Ég þakka utanríkisráðherra fyrir að taka vel í (Forseti hringir.) að skoða þetta í snatri.



[18:09]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum þingsályktunartillögu um að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Mig langar gjarnan að hæstv. utanríkisráðherra sitji hér á ráðherrabekk ef hann vildi vera svo vænn. Ég sé að hann hlýðir mér. Ég vil nefnilega beina orðum mínum sérstaklega til hans vegna þess að aldrei þessu vant eigum við eitthvað sameiginlegt þótt við séum hvort í sínum flokknum og þar á meðal er að við teljum bæði að hagsmunum okkar sé betur borgið utan Evrópusambandsins en innan þess. Ég tel þá þingsályktunartillögu sem hann leggur fram stórhættulega, eins og málið er að þróast, fyrir þau okkar sem teljum hagsmunum okkar betur borgið utan ESB þar sem alltaf eykst hin villandi umræða um kosti og galla þess að vera í sambandinu. Menn draga upp ansi sterka glansmynd af því hvernig innganga í Evrópusambandið gæti bjargað okkur sem þjóð og gert hér allt betra og fegurra. Ég held að það verði með einhverju móti að koma þeirri umræðu í heilbrigðari farveg og sá heilbrigði farvegur tel ég vera að við tökum þjóðina með okkur í þá vegferð og förum rétta leið, förum ekki þá fjallabaksleið að slíta viðræðunum núna.

Ég taldi ekki rétt að fara út í aðildarviðræður á sínum tíma, í kjölfar hrunsins. Ég taldi það arfavitlaust en ég ræð ekki ein. Ég taldi að við ættum ekki að fara í viðræður en niðurstaða samningaviðræðna milli Vinstri grænna og Samfylkingarinnar varð sú að það var gert. Þannig er við stjórnarmyndunarviðræður að menn geta ekki náð öllu sínu fram og verða alltaf að láta undan í einhverjum málum, eins og menn þekkja. Þessi vegferð varð veruleiki og farið var af stað sem hefur auðvitað kostað fjármuni en líka upplýst okkur um kosti og galla veru í ESB, þó ekki um stærstu þættina sem eru umdeilanlegastir gagnvart sjávarútvegsmálum, landbúnaðarmálum og fjárfestingum erlendra aðila í íslenskum sjávarútvegi og innflutningi á lifandi dýrum og plöntum og öðru því um líku, það stendur eftir. Mér finnst mjög skynsamleg nálgun að klára viðræðurnar, leggja niðurstöðuna síðan fram og taka rökræðuna, þegar allt liggur fyrir, með og á móti. Ég held að við sem höfum vissulega mótaðar skoðanir í þeim málum höfum mjög góðan málstað að verja þegar allt liggur fyrir. Það verður ekkert erfitt, tel ég, fyrir okkur öll sem erum þeim megin, að rökstyðja að hagsmunum okkar sé betur borgið utan ESB þegar við vegum það og metum. Vissulega er margt sem er áhugavert og það eru kostir við að ganga í ESB, ég efast ekkert um það. En í mínum huga eru ókostirnir fleiri og vega þyngra fyrir þjóðina.

Mér finnst verið að kynda undir þeirri glansmynd sem fólk dregur upp, ekki aðeins í þessum þingsal heldur úti í þjóðfélaginu og í umræðunni. Mér finnst að við, sem erum ein ríkasta þjóð í heimi og lendum í topp 10 í könnunum varðandi velferð og ríkidæmi þjóða, megum ekki tala þjóðina niður, að hér sé engin framtíð fyrir ungt fólk og gjaldmiðillinn kolómögulegur og allt sé á þennan veg, fyrirtæki sjái enga framtíð hér í landi. Eru þetta ekki allt verkefni fyrir okkur sem fullvalda þjóð að glíma við? Þetta eru verkefni sem við getum vel gert sjálf með löggjöf okkar og beint löggjöf okkar til að mæta eðlilegri framþróun í landinu, breyttum áherslum í atvinnumálum, kröfum ungs fólks um fjölbreyttari atvinnu og meiri menntunarmöguleika. Við getum áfram átt góð samskipti við þjóðir í kringum okkur en verið utan ESB, átt gott samstarf við þjóðir hvort sem það er innan ESB eða utan þeirra í alls kyns samningum sem fullvalda þjóð. Ég tel að eins og málin hafa þróast á Íslandi undanfarin ár eða áratugi, þar sem misskipting eykst í þjóðfélaginu, hafi ekkert með ESB að gera. Það hefur með það að gera að hér hefur því miður ríkt hægri stefna allt of lengi og kökunni er ekki jafnt skipt. Mér finnst einhvern veginn að það sem við getum skrifað á ríkisstjórnir undangenginna ára, afleiðingar stjórnvaldsákvarðana undanfarinna ára, að við kennum því um að við stöndum utan ESB og að þetta hefði orðið allt öðruvísi og hagur okkar miklu betri ef við hefðum verið í Evrópusambandinu. Ég held að það sé mikil villa í hugsun þegar menn hugsa á þann veg. Vissulega eru verkefni fram undan fyrir okkur varðandi gjaldeyrishöftin en gjaldeyrishöftin hverfa ekkert þótt við göngum í ESB. Þau vandamál þurfum við að leysa sjálf og það eru verkefni okkar nú um stundir.

Eins og ég hef nefnt áður í ræðu hefur krónan vissulega verið mælistika á efnahagsstjórn í landinu. Krónan sjálf er ekki vandamálið. Það er hvernig efnahagsstjórn landsins hefur verið í gegnum árin. Krónan er mælistika á hana. Vissulega hefur verið verðbólga hér og það er ekkert til að vera ánægður með. En það hefur líka með það að gera hvernig efnahagsmálum hefur verið stjórnað í gegnum árin. Ef okkur tekst að ná stöðugleika í ríkisbúskapnum og tekst að ná verðbólgunni niður er krónan auðvitað miklu sterkari gjaldmiðill en annars væri. Mér heyrist núna að útvegsmenn séu farnir að kvarta yfir því að krónan sé of sterk og það er líka umhugsunarefni.

Ég tel að við megum ekki í þessari umræðu tala niður okkar ríka þjóðfélag, sem við eigum að vera stolt af, og þau ótal tækifæri og möguleika sem við eigum sem þjóð að halda áfram að byggja ofan á með réttlæti og jöfnuð að leiðarljósi, því að það eru lykilatriði í því að þjóð geti verið farsæl. Þá vil ég nefna að lýðræði verður þar að vera efst á blaði. Það er út af lýðræðishugsjón sem ég sem Evrópuandstæðingur, ekki andstæðingur Evrópuþjóða, ég vil góða samvinnu þar á milli, en andstæðingur þess að ganga í ESB, segi núna: Nú erum við komin þetta langt. Nú eigum við að ljúka viðræðunum og bera samning undir þjóðina, taka rökræðuna um þann samning, með eða á móti, og láta þjóðina glíma við það að velja sér veg til framtíðar. Ég tel ekkert annað í stöðunni. Ég hvet þess vegna hæstv. utanríkisráðherra til að íhuga vel hvaða málstað (Forseti hringir.) hann vill velja til að halda okkur utan Evrópusambandsins.



[18:19]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og fyrir að draga það fram að þessi umræða hefur vakið athygli á þeim miklu kostum sem eru í því fólgnir að gerast aðili að Evrópusambandinu; þeirri fjölbreytni sem því getur fylgt, þeirri erlendu fjárfestingu, þeim kjörum í lánum fyrir fólk og fyrirtæki, auknu frelsi og tækifærum fyrir atvinnulífið og fólkið í landinu sem í því geta falist. Engu að síður er það álit hv. þingmanns að hagsmunum okkar sé betur borgið utan sambandsins en innan þess og það vekur ákveðnar spurningar.

Þá vildi ég kannski fyrst inna hv. þingmann eftir því hvort það mat hennar byggi á yfirráðum yfir auðlindum landsins og hvort hún mundi styðja aðild að Evrópusambandinu ef yfirráð okkar yfir auðlindunum væru tryggð í aðildarsamningi. Ég vil jafnframt spyrja hv. þingmann — eins og kom fram í ágætri jómfrúrræðu hér í dag hefur pólitíkin í Evrópu löngum snúist um það hvort menn halla sér undir Rússland eða eiga í samstarfi við frjálst lýðræðisríki, hin vestrænu ríki í Evrópu, það er þannig bæði fyrir fall múrsins og eftir fall múrsins — hvort hún telji hagsmunum Íslands betur borgið, eins og virðist vera að gerast í makríldeilunni, með Rússum en ekki með þjóðum meginlandsins og frændum okkar í Noregi.



[18:21]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er þeirrar skoðunar að við þurfum ekki að vera í efnahagsbandalagi til að geta átt samskipti á viðskiptalegum forsendum við aðrar þjóðir, ekki frekar en við þurfum að vera í hernaðarbandalagi. Ég tel að við höfum fulla burði til þess, séum það rík af auðlindum og höfum það mikla möguleika á að eflast og höfum margt fram að færa, að aðrar þjóðir hafi áhuga á og hag af því að eiga viðskipti við okkur.

Við erum með EES-samninginn, sem er Evrópska efnahagssvæðið, hann verður áfram til staðar og hann þarf að bæta. Ég mundi ekki skrifa upp á það að ganga í Evrópusambandið þó að við fengjum einhverjar undanþágur varðandi sjávarútvegsmálin. Í mínum huga er þetta miklu stærra mál en svo. Það er lýðræðishalli, tel ég vera, á Evrópusambandinu. Maður horfir til dæmis bara á ójafnræði hvað varðar konur í forustu innan Evrópusambandsins, í framkvæmdastjórninni. Það er fátt um fína drætti þar hvað varðar kvenfólk.

Ég óttast líka hina miklu fjarlægð Íslands frá höfuðstöðvunum í Brussel. Ég hef búið úti á landi alla tíð og þurft að sækja mikið á höfuðborgarsvæðið og ég er ekki mjög spennt fyrir því að taka það enn þá lengra, alla leiðina til Brussel. Mér finnst líka mjög hættulegt að völd þjappist langt í burtu miðlægt í miðri Evrópu frá litla Íslandi úti í ballarhafi.



[18:23]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Lýðræðishallinn er mestur í því að eiga enga aðkomu að þeim lögum sem sett eru hér í landinu og eru einmitt sett í Brussel. Fjarlægðin er mest í því fólgin að eiga engan fulltrúa í Brussel þar sem drjúgur hluti af okkar löggjöf er settur.

Hv. þingmaður talar um fullveldi, talar um að auka tiltrú á íslensku krónunni. Það er 100 ára saga um það að íslenska krónan er vondur gjaldmiðill. Það mun taka áratugi að skapa einhverja tiltrú á þann gjaldmiðil. Í þá áratugi verða hér gjaldeyrishöft. Er það fullvalda þjóð sem getur ekki leyst út gjaldeyri erlendra manna í sínu eigin landi? Er það fullvalda þjóð sem ljósritar lög sem aðrar þjóðir setja fyrir hana? Er það fullvalda þjóð sem felur eftirlitsstofnunum annarra ríkja heimildir til að loka bönkum sínum, til að sekta flugfélögin sín og til að taka margvíslegar aðrar ákvarðanir um mikilvæga hagsmuni Íslands án nokkurrar aðkomu Íslendinga eða lýðræðis okkar?



[18:25]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst hv. þingmaður skauta yfir að það var hér eitt stykki hrun árið 2008. Við erum auðvitað stödd í mjög einkennilegu umhverfi í kjölfar hrunsins. Það er ekki eitthvað sem nú hefur verið viðvarandi, þessi gjaldeyrishöft, og við þekkjum öll þá sögu, ég þarf ekki að fara yfir hana hér.

Við vitum að ástandið í Evrópu er ekkert til að hrópa húrra fyrir. Þar er hagvöxtur innan við 1%, hér er hagvöxtur að meðaltali undanfarin ár 2,5%, 3% fyrir síðasta ár. Atvinnuleysi í Evrópu er allt að 25% og enn meira hjá ungu fólki og þar hafa 11 milljónir verið atvinnulausar í meira en eitt ár. Við vitum að mikil hætta er á því að ef við göngum í Evrópusambandið og tökum upp evru í framhaldinu verði efnahagssveiflum stjórnað og stýrt með auknu atvinnuleysi hér innan lands. Það er ekki það sem ég vil sjá.



[18:26]
Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar. Ég og hv. þingmaður erum sammála um eitt í þessu máli, (Gripið fram í.) kannski tvennt, við erum sammála um að við eigum að leiða þetta mál til lykta. Ég held að það skipti mjög miklu. Við þingmenn getum svo sem alveg staðið hér og sagt að þetta hafi verið sagt áður og fabúlerað og velt vöngum yfir því hvað gæti hugsanlega komið út úr því ef við ljúkum þessum viðræðum. En ég tel það ekki skynsamlegt frekar en hv. þingmaður og því er best að ljúka viðræðunum þannig að Íslendingar allir geti tekið upplýsta ákvörðun. Við þingmenn semjum ekki um niðurstöðuna hér okkar í milli heldur er það gert af harðsnúinni samninganefnd héðan við þá sem staddir eru í Evrópu.

Það eru samt nokkur atriði sem ég verð að nefna. Ég er ósammála hv. þingmanni og fullyrðingum hennar áðan, eins og því að misskipting hafi ekki aukist vegna þess að við erum ekki í ESB. Jú, það má segja að það sé ekki beint ESB að kenna og því að við séum ekki þar inni. En það breytir ekki því að á Íslandi í dag búum við við þá stöðu að stærstu fyrirtækin gera upp í erlendri mynt. Þau nota ekki krónuna. Þeir sem nota verðtryggðu íslensku krónuna eru almenningur og lítil fyrirtæki. Þannig er staðan á Íslandi í dag. Segja má að í því sé falin ákveðin misskipting vegna þess að við tökum á okkur kostnaðinn við krónuna á meðan stærstu fyrirtækin og þeir sem þau eiga gera það ekki. Í þessu er að mínu mati fólgin misskipting og það er út af því sem ég vil fara alla leið með þessar viðræður. Ég vil sjá hvaða niðurstöðu við getum fengið hvað varðar gjaldmiðilinn vegna þess að ég tel að ekki sé hægt að nota krónuna áfram. Við sjáum það bara strax núna af því að krónan er komin í höft aftur og farin að verða handstýrð af Seðlabankanum, (Forseti hringir.) að þá eru einstaka atvinnuvegir í landinu farnir að gera kröfur sér til handa.



[18:28]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er þessi blessuð króna okkar sem hefur fylgt okkur ansi lengi, henni er kennt um allt og að hún beri ábyrgð á miklu. Við vitum að við þurfum að glíma áfram við gjaldmiðilinn okkar, ég er alveg sammála því. En eins og ég hef sagt, og er ekki ein um það, er aðalmálið náttúrlega að koma á efnahagslegum stöðugleika og ná niður verðbólgu á Íslandi og þá yrði krónan auðvitað í allt öðru umhverfi.

Eins og ég nefndi áðan hefur sjávarútvegurinn hagnast mjög mikið undanfarin ár á genginu en núna er krónan að styrkjast til hagsbóta fyrir okkur sem búum hérna og þá kvarta útflutningsaðilar sem hafa verið að hagnast á lágu gengi krónunnar. En einhvers staðar hlýtur þetta jafnvægi að vera. Við getum ekki tekið upp evru án þess að ganga í Evrópusambandið og við þurfum að ná ákveðnum efnahagslegum markmiðum til að svo sé hægt. Peningastefnunefnd er að störfum til að meta kosti og hvort einhverjir möguleikar séu í stöðunni. En einhvern veginn ætlum við að halda áfram að glíma við þessi mál varðandi gjaldmiðilinn ef niðurstaða verður sú að þjóðin, að fenginni einhverri niðurstöðu í samningum, fellir það að ganga í ESB. Þetta verkefni fer ekkert frá okkur. Við þurfum að glíma við það hvort einhver möguleiki sé á að tengja gjaldmiðil okkar öðrum gjaldmiðli. Efnahagskerfi okkar er auðvitað mjög lítið og smátt í samanburði við efnahagskerfið í Evrópu, það er bara staðreynd.



[18:30]
Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Miklar líkur yrðu á því að hér mundi verða aukinn stöðugleiki ef við tækjum upp evru. Hvers vegna leyfi ég mér að fullyrða þetta? Vegna þess að megnið af útflutningi okkar er til Evrópuríkja og það segir sig sjálft að ef verið er með sama gjaldmiðil í slíkum viðskiptum þá verður aukinn stöðugleiki.

Það sem ég vil líka nefna í þessu er að ég er þeirrar skoðunar eftir að hafa sjálf staðið í innflutningi á árum áður í fastgengisstefnu, þá langar mig heldur ekki þangað aftur. Við erum búin að prófa fastgengisstefnu, við erum búin að vera með flotgengi og við erum núna aftur komin í höft og menn eru að ræða einhvers konar míníhöft hugsanlega seinna meir af stærri fjármagnsflutningum miðað við áætlanir Seðlabankans. Mér líður eins og ég sé í einhverri tilraunastofu. Gjaldmiðill er verkfæri og (Forseti hringir.) við erum að mínu mati búin að fullreyna það verkfæri. Menn mega ekki vera of tilfinningatengdir íslensku krónunni (Forseti hringir.) þegar þeir vega og meta kosti og galla þess að skipta um gjaldmiðil.



[18:32]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það væri trúlega búið að fá mig til starfa í Seðlabankanum ef ég kynni lausn á því máli sem við erum að glíma við, höfum glímt við undanfarin ár og erum enn að glíma við varðandi gjaldmiðilinn okkar. En ég velti fyrir mér að evran reyndist nú Írum ekkert sérstaklega vel þegar kreppan skall á þá. Þá var hún ekki eitthvert lausnarorð og þeir tóku miklar dýfur í því áfalli og kreppunni. Maður spyr sig þá líka um lönd eins og Svíþjóð, Danmörk, Bretland — Noregur er utan ESB — af hverju eru þau lönd með sinn gjaldmiðil?

Ég er alveg sammála hv. þingmanni að við þurfum auðvitað að vinna áfram í peningastefnumálum okkar við losun gjaldeyrishafta. Það er gífurlega erfitt verkefni sem okkar færustu sérfræðingar leggja vonandi nótt við dag í að reyna að finna einhverja lausn á.



[18:33]
Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðu hennar. Hún er að mörgu leyti góð og ég er mjög ánægður með þá niðurstöðu sem hv. þingmaður hefur komist að varðandi það að fá úr málinu skorið þrátt fyrir að hún sé andstæðingur þess að ganga í Evrópusambandið. Ég held að það sé fyrir henni komið eins og svo mörgum landsmönnum og þá sérstaklega í ljósi atburðarásar síðustu vikna sem við höfum orðið vitni að hér í þinginu, að viðræðusinnunum hefur fjölgað í málinu. Að því leytinu til er það í rauninni hið besta mál að við séum í þessum sporum núna. Það hefur þjappað ákveðnum hópum saman um að reyna að fá niðurstöðu í málinu.

Mig langar aðeins að gera athugasemd við það sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni og mátti heyra enduróm af því í máli hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra í síðustu viku, að það sé allt einhvern veginn á uppleið hér og meira á niðurleið í Evrópusambandinu. Það er reyndar búið að hrekja það, það er hagvöxtur í Evrópusambandinu; 1,5% á þessu ári og gert ráð fyrir 2% á næsta ári. Þar er verðbólgustig náttúrlega á allt öðrum stað en hjá okkur, 0,8%, þannig að ekki er hægt að fullyrða að staðan sé eitthvað verri eða betri en það. Aðalatriðið er, og það sjáum við í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, að það er auðvitað mjög misjöfn staða í ólíkum löndum Evrópusambandsins, þ.e. hvernig fyrir þeim er komið í efnahagsmálum, hagvexti o.s.frv. Ég spyr hv. þingmann: Er það ekki einmitt vitnisburður um að þrátt fyrir ringulreið í Evrópusambandinu þá tryggi efnahagslegt sjálfstæði og fullveldi þjóðanna möguleika á því að hafa það gott og hafa það slæmt?



[18:35]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég held að við megum passa okkur á því að máta okkur ekki alveg inn í Evrópusambandið og telja að hagur okkar verði nákvæmlega eins og hagur í einhverju öðru landi Evrópusambandsins, því að innan sambandsins er auðvitað mjög ólíkt umhverfi. Við þekkjum löndin suður frá, Spán, Portúgal, Grikkland og Ítalíu, en í Frakklandi og Þýskalandi og hjá þessum ríkari þjóðum býr fólk við allt annan veruleika og þar er margt ólíkt innbyrðis.

Ég tel að ef niðurstaðan yrði sú að við mundum ganga í Evrópusambandið þá verðum við að átta okkur á að við erum mjög rík þjóð og við mundum vera í því hlutverki að við mundum leggja miklu meira inn í sameiginlega sjóði en við fengjum til baka af því að á mælikvarða evrópskra þjóða erum við með ríkari þjóðum. Við mundum auðvitað leggja miklu meira í púkkið en við fengjum til baka. Það er bara eðlilegt miðað við þjóðartekjur hér á hvern einstakling.

Við eigum líka að halda því til haga og vera stolt af því að okkur hefur gengið þetta vel að ná okkur aftur á strik eftir kreppuna. Núverandi ríkisstjórn getur ekki hrósað sér mikið af því en vonandi glutrar hún því ekki öllu niður sem áunnist hefur. Það er okkar hagur að hlutirnir gangi vel í Evrópusambandinu, vonandi gera þeir það því að við höfum auðvitað mikil viðskipti við Evrópuþjóðir. En það breytir því ekki að ég held að við getum virkilega staðið á eigin fótum þótt við stöndum utan Evrópusambandsins, við höfum fulla burði til þess. En það skiptir máli hvort hér er í landinu hægri eða vinstri stjórn.



[18:38]
Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er nú þannig með mig að ég hef tamið mér þá reglu þegar ég les bækur að ef bækurnar hafa ekki náð mér á 50 blaðsíðum legg ég þær til hliðar og les eitthvað annað, mér finnst tíma mínum betur varið þannig, þetta er bara regla. Það er þá alltaf mín niðurstaða að ákveða hvenær ég skuli láta gott heita.

Ég hef nú ekki farið í kvikmyndahús með hæstv. utanríkisráðherra en ég mundi ekki láta hann ákveða að við ættum að hverfa af vettvangi í hléi bara vegna þess að hann teldi víst að myndin mundi fara illa. En ég hef það svolítið á tilfinningunni í þessu máli að búið sé að ákveða það fyrir mig að þessi mynd muni fara mjög illa og ég eigi ekki að sjá restina, ég eigi ekki að fá að vita hvernig aðalsöguhetjunum reiðir af. Ég hef lent í því að þurfa að fara úr kvikmyndahúsi af mynd sem ég var mjög ánægður með áður en hún var búin og óvissan um örlög hetjanna nagaði mig lengi vel. (Forseti hringir.) Ég er því ánægður með hv. þingmann að hann skuli vera mér sammála í þessum efnum.



[18:39]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að segja að mér létti mikið þegar ég skildi að hv. þingmaður var ekki að vísa í ræðu mína þegar hann var að tala um að hann hefði næstum verið hættur við, að hann væri þá að tala um að hann ætlaði ekki að hlusta lengur á mína ræðu, eftir ákveðinn tíma. En hann var að tala um allt þetta ferli og ég er honum bara hjartanlega sammála um það.

Í ræðu minni hvatti ég hæstv. utanríkisráðherra til að sjá endinn á þessari bíómynd svo að hann vissi hvernig hún væri og þjóðin fengi að dæma hvað kæmi út úr þessari bíómynd, sem við nefnum svo sem myndlíkingu. Ég held að úr því sem komið er sé arfavitlaust að halda að hægt sé að troða þessu aftur til baka ofan í kokið á þjóðinni. Við eigum að horfa til lýðræðisins og taka þjóðina með okkur í þessa vegferð og ljúka henni saman og treysta á skynsemi (Forseti hringir.) hennar til að meta kosti og galla með eða á móti inngöngu í Evrópusambandið.



[18:40]
Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Í þessari umræðu hefur borið við að menn hafi farið nokkuð frjálslega með staðreyndir. Því hefur verið haldið fram að Evrópusambandinu liggi á að fá niðurstöðu í samningaviðræður landanna, þ.e. að skýr skilaboð komi frá Íslendingum um hvernig þeir sjái framhaldið fyrir sér. Meðal annars hefur því verið haldið fram af forustumönnum ríkisstjórnarinnar að þetta sé ástæðan fyrir þeirri þingsályktunartillögu sem við ræðum hér.

Það kemur mér mjög spánskt fyrir sjónir að þetta skuli vera ein meginröksemdin núna í máli þeirra þegar það liggur fyrir í greinargerðinni sem fylgir þingsályktunartillögunni að þessa er hvergi getið. Það er ekki gert að neinu atriði í greinargerðinni, sem er yfirleitt rökstuðningur mála sem lögð eru fram á þinginu, að verið sé að svara einhverju ákalli Evrópusambandsins. Raunar hafa talsmenn Evrópusambandsins sagt að þessi túlkun forustumanna ríkisstjórnarinnar standist ekki.

Því hefur líka verið haldið fram, eins og ég kom aðeins inn á í andsvari áðan, að allt sé á uppleið á Íslandi en á niðurleið í Evrópusambandinu og þess vegna sé það í sjálfu sér tómt mál að tala um að sækja um inngöngu þangað. Hæstv. forsætisráðherra sagði, með leyfi forseta:

„Staða efnahagsmála, staða fyrirtækjanna á Íslandi er búin að vera að batna jafnt og þétt síðustu missiri […] á meðan þessi þróun er öll til verri vegar í Evrópusambandinu þannig að það að líta á aðild að Evrópusambandinu sem lausn á þessu öllu skýtur mjög skökku við þegar menn skoða raunveruleikann.“

Á hinum ágæta vefmiðli Kjarnanum var þessi staðhæfing hæstv. forsætisráðherra skoðuð. Niðurstaðan er sú að á evrusvæðinu hefur verið hagvöxtur þrjá ársfjórðunga í röð og hagspár gera ráð fyrir því að hagvöxtur í sambandinu í heild verði 1,5% í ár. Á næsta ári á hann að verða 2%. Evran hefur styrkst um 5% gagnvart dollaranum á liðnu ári. Ársverðbólga er 0,8% og hefur lækkað á milli ára. Viðskiptajöfnuður er meira að segja jákvæður í Grikklandi en það er í fyrsta sinn í 66 ár sem það gerist. Atvinnuleysi hefur lækkað á milli ára og er sem stendur 10,8%. Það er auðvitað mikið en það er ekki hægt að fullyrða að allt sé á uppleið á Íslandi og allt sé á niðurleið í Evrópu.

Því hefur líka verið haldið fram í þessari umræðu að skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, sem við ræddum hér í þarsíðustu viku, hafi leitt það í ljós að ekki væri neinar sérlausnir að sækja í samningaviðræðunum, engar varanlegar undanþágur yrðu og þess vegna væri viðræðunum sjálfhætt. Það er mjög frjálslega farið með staðreyndir þegar menn halda því fram og byggja þá skoðun á skýrslunni. Í skýrslunni eru rakin ótal dæmi um það að sérlausnir hafi verið búnar til í kringum lönd, löggjöf Evrópusambandsins breytt o.s.frv. Ef menn hefðu trú á þeim málstað að ekki væri hægt að ná góðum samningi væri í raun og veru ekkert að óttast fyrir þá sem eru andvígir inngöngu í Evrópusambandið. Viðræðurnar mundu þá leiða það í ljós og þjóðin mundi fella samninginn í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég er hlynntur því að sækja um aðild að Evrópusambandinu, ég hef svona frekar verið hallur undir það að ganga þar inn. Ég byggi þá skoðun mína á fjórum meginröksemdum. Fyrst og fremst er gjaldmiðilsröksemdin. Í öðru lagi er lýðræðishallinn sem felst í því að vera fullvalda þjóð, viðtakandi að löggjöf Evrópusambandsins. Í þriðja lagi er ég ekki bara Íslendingur, ég er Evrópumaður og heimsborgari, og ég er þeirrar skoðunar að vandamál heimsins, mörg hver, verði nær eingöngu leyst á vettvangi ríkjasamstarfs milli frjálsra og fullvalda þjóða en ekki á vettvangi þjóðríkisins. Í fjórða lagi er ég þeirrar skoðunar að við sem evrópsk menningarþjóð eigum að vera þátttakendur í samstarfi þjóða á þessum vettvangi og að okkar rödd sem eylands í miðju Atlantshafi sé gríðarlega mikilvæg í Evrópu og innan Evrópusambandsins.

Mig langar að staldra aðeins við gjaldmiðilsspurninguna. Við í Bjartri framtíð höfum lagt fram tillögu í þinginu um að þjóðin móti sér gjaldmiðilsstefnu. Á Íslandi hefur það verið reynt til þrautar að mínu mati að halda úti sjálfstæðri mynt. Það hefur leitt til þess að við höfum á undanförnum 20 árum verið með verðbólgu upp á 6,2% að meðaltali. Við erum með hærri vexti en gengur og gerist í löndunum í kringum okkur. Það er auðvitað vegna þess að við erum með sveiflukenndan gjaldmiðil. Það gerir að verkum að það er áhættusamt að lána í íslenskum krónum og þess vegna eru vextir 1–1,5% hærri hér og hafa verið að jafnaði en í löndunum sem við berum okkur saman við.

Ég er þeirrar skoðunar að þetta hafi leitt til þess að við erum með mjög óheilbrigðan húsnæðismarkað. Samspil hárra vaxta og verðtryggingar hefur orðið til þess að íslenskir húsnæðiskaupendur horfa ekki til þess að geta greitt upp lánin sem þeir taka. Fólk tekur frekar lán út frá greiðslugrunni því að það veltir fyrir sér hvað það eigi afgangs um hver mánaðamót til að borga af húsnæðisláninu. Menn horfa á greiðslugetu miklu frekar en að geta mögulega frestað lántöku um einhvern tiltekinn tíma vegna þess að vextir muni lækka eða einhverjar breytingar verði sem leiði til þess að þeir geti greitt lánið sitt upp þrem árum fyrr en ella. Því miður er þetta staðreynd og leiddi meðal annars til þeirrar fasteignabólu sem myndaðist hér á árunum 2004–2008 með skelfilegum afleiðingum fyrir fjölda fólks.

Ég er þeirrar skoðunar að besta leiðin fyrir okkur til þess að ná stöðugleika, sem tryggir grundvöll bæði fjölskyldna og fyrirtækja til langs tíma, sé að taka upp annan gjaldmiðil. Með því að tengjast í fyrstu evrusamstarfinu mundum við byrja leiðangur sem leiddi til þess að við gætum á endanum tekið upp evru og búið við stöðugra efnahagslíf. Við gætum fellt niður tollahindranir, glætt þannig samkeppni, búið til heilbrigðara atvinnulíf, fjölgað undirstöðuatvinnuvegum í landinu, búið til meiri samkeppni um vinnuaflið og bætt kjör allra í okkar fína landi.

Það er auðvitað ekki þannig að allt leysist af sjálfu sér við það að ganga í Evrópusambandið. Við erum eins og allar þjóðir sem þar eru, sjálfstæð þjóð og berum ábyrgð á okkur sjálf, berum ábyrgð á efnahagsmálum okkar. Skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands leiðir það einmitt mjög glögglega í ljós að það er mjög misfarið með þá ábyrgð innan Evrópusambandsins, efnahagsstaða innan landanna er mjög misjöfn, eðlilega, vegna þess að þar er misjöfn pólitík rekin, þar eru ólíkar ákvarðanir teknar og þær eru teknar af sjálfstæðum þjóðum.

Ég er þess vegna mjög andvígur þeirri tillögu sem hér liggur fyrir um að slíta þessum viðræðum, ganga út úr kvikmyndahúsinu áður en endirinn liggur fyrir og maður getur gefið bíómyndinni stjörnur og ákveðið hvort manni líki myndin eða ekki. Gert er ráð fyrir því að það verði þjóðin á endanum og við öll sem tökum ákvörðun um það hvort við viljum ganga í Evrópusambandið eða ekki.



[18:51]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann talaði mikið um gjaldeyrismálin. Ég er svo undarlegur að það er ekki mitt helsta áhyggjuefni við Evrópusambandið en þó hef ég alltaf svolítið gefið gaum þeirri hugmynd sem margir gagnrýnendur þess að Ísland gangi í Evrópusambandið hafa nefnt, að íslenska krónan hafi í raun gert hrunið 2008 miklu skárra en það hefði getað verið vegna þess að hún flýtur undir eðlilegum kringumstæðum. Með krónu getur gengið lækkað og þar af leiðandi getum við haft jákvæðan viðskiptajöfnuð eftir það.

Ég vildi inna hv. þingmann eftir viðhorfum hans gagnvart þessu sjónarmiði, að kannski hafi krónan verið mjög heppileg í hruninu þótt hún sé ekki verið heppileg fyrir (Forseti hringir.) efnahaginn þegar vel gengur.



[18:52]
Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Krónan flýtur ekki sem stendur. Hún er vissulega gjaldmiðill í höftum og þess vegna höfum við verið með viðunandi ástand. En við búum við mjög óheilbrigt ástandi. Það er nokkuð sem við þurfum að leysa til langframa.

Þegar ég minnist á það í ræðu minni að við í Bjartri framtíð séum með tillögu um að við mótum okkur gjaldmiðilsstefnu erum við meðal annars að benda á að það er ekkert plan í gangi. Það er engin áætlun sjáanleg um hvernig við leysum þessa stöðu. Við höfum lagt til að upptaka evru sé kostur sem beri að skoða en þeir sem eru andvígir því hafa ekki bent á neina aðra leið.



[18:53]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir svarið. Það er vissulega rétt, ég verð að viðurkenna að ég hef heldur ekki heyrt neitt annað plan, en þegar kemur að peningastefnu almennt get ég samt sem áður ekki annað en velt fyrir mér hvort við værum betur stödd með evru.

Svo er hitt, það hlýtur að taka gríðarlega langan tíma að taka upp evru. Þá kemur að annarri spurningu um nokkuð sem ég hef áhuga á að vita meira um. Það eru ýmis efnahagsleg skilyrði fyrir því að taka upp evru, jafnvel ef við gengjum í Evrópusambandið á morgun tæki það sinn tíma að taka upp evruna þannig að við þyrftum alltaf eitthvert skammtíma- eða millitímaplan til að gera efnahag okkar þannig að hann væri samhæfur evrunni. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður geti eitthvað frætt mig um það hvernig við gætum skapað þau skilyrði, þ.e. gert efnahaginn þannig (Forseti hringir.) að við uppfyllum þau skilyrði sem þarf til að taka upp evru, jafnvel eftir að við gengjum í Evrópusambandið.



[18:55]
Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta eru mjög fínar spurningar sem hv. þingmaður beinir til mín. Það eru ekki einföld verkefni sem blasa við okkur í þessum efnum. Það væri ábyrgðarleysi af mér að halda því fram að þetta gerðist bara af sjálfu sér við það að ljúka aðildarviðræðunum, fara með þær í þjóðaratkvæðagreiðslu og þjóðin mundi mögulega samþykkja inngöngu.

Þetta kallar á mikinn aga í ríkisfjármálum, þetta kallar á áætlanagerð en menn gætu að minnsta kosti séð til lands. Menn væru þá að vinna eftir einhverri áætlun sem við þyrftum að koma okkur upp, fara inn í evrusamstarfið, fara inn á þau byrjunarstig sem Evrópusambandið hefur komið sér upp til að hjálpa þjóðum inn í þetta myntsamstarf. Sumar þjóðir eins og Danir, sem hér voru nefndir áðan, Bretar og Svíar, hafa reyndar kosið að stíga ekki alla leið inn í það samstarf. Það er (Forseti hringir.) auðvitað valkostur.



[18:56]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður vitnaði hér til orða hæstv. forsætisráðherra þar sem hann taldi allt á mikilli uppleið á Íslandi hin síðari missiri en á niðurleið í Evrópu. Nú er það í sjálfu sér gott að forsætisráðherra hafi séð ljósið og viðurkenni að þokkalegur efnahagsbati hafi verið í gangi á Íslandi undanfarin missiri, en hann féll í þá gryfju sem mér hefur alltaf þótt dapurleg í umræðunni undanfarin ár, að gera eiginlega út á erfiðleika Evrópu sem rök í þessu máli hvernig tengslum Íslands við það eigi að vera háttað, af því að sannarlega eigum við mikið undir því að Evrópu vegni vel.

Það breytir hins vegar ekki hinu að auðvitað hefur glíma Evrópusambandsins við erfiðleikana leitt ýmislegt í ljós, þar á meðal hvernig jaðarríkjum eins og Grikklandi eru settir kostirnir. Og af því að ég þekki nú sæmilega til þar og hef sambönd við menn þar hef ég það frá fleiri en einum og fleiri en tveimur og líka frá t.d. Írlandi og Portúgal að af þeim þremur sem að málinu hafa komið, Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, Evrópska seðlabankanum og framkvæmdastjórninni, (Forseti hringir.) hafi framkvæmdastjórnin verið harðdrægust í samskiptum við þessi lönd. Ég vil því spyrja hv. þingmann: Er hann ekki eftir sem áður sammála því (Forseti hringir.) að það geti verið áhugavert að skoða hvernig Evrópusambandið hefur birst okkur í þessum efnahagsþrengingum?



[18:58]
Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Jú, ég er mjög sammála hv. þingmanni um það. Ég er ekki eindreginn stuðningsmaður Evrópusambandsins í öllu því sem það tekur sér fyrir hendur. Ég held að þar hafi verið teknar misjafnar ákvarðanir o.s.frv. Ég er þeirrar skoðunar að Íslendingar eigi að vera þátttakendur í þeirri ákvörðunartöku. Mér fannst mjög eftirtektarvert, af því að Grikkland er nefnt hér, að í miðjum þrengingum Grikkja og upp úr þeim miklu hörmungum sem þeir gengu í gegnum var það þó svo að skoðanakannanir leiddu í ljós að 80% Grikkja vildu samt sem áður halda evrunni. Mér finnst það vera nokkur vitnisburður alltént um tilfinningar þeirra til þessa samstarfs og þess sem það hefur haft í för með sér.



[18:59]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Út af fyrir sig skilur maður það að í þeirri hryllilegu stöðu sem þar var upp komin sáu menn ákveðið haldreipi í því að hafa þó þennan stóra gjaldmiðil. Flestir voru sammála um að ef Grikkir hefðu orðið að hrekjast út úr evrunni, hverjar sem afleiðingarnar hefðu orðið fyrir Evrópusambandið eða evruna, hefði það verið skelfilegra fyrir Grikkland. Þá hefðu þeir setið uppi með kolónýta drökmu, eða hvernig sem í ósköpunum það nú hefði orðið, þannig að ég veit ekki hversu sterk rök það eru í sjálfu sér.

Hitt sem er mér umhugsunarefni út frá mínum sjónarhóli er það sem hefur alltaf verið einn af þeim fyrirvörum sem ég hef haft gagnvart aðild að Evrópusambandinu, það eru auðvitað markaðsöflin og fjármagnið, kapítalið, eins og einhverjir hefðu nú einhvern tíma sagt, sem ráða mjög miklu þegar á hólminn er komið og slegin er skjaldborg um það. Mér finnst það athyglisvert þegar stofnun eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sem ekki hafði orð á sér fyrir að vera beinlínis róttækur fær orðið betri ummæli frá þeim (Forseti hringir.) sem hafa verið að glíma við þá en framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sjálfs.



[19:00]
Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get tekið undir margt af því sem hv. þingmaður segir í fyrirvörum sínum gagnvart Evrópusambandinu. En mér finnst mikilvægt að Íslendingar og rödd Íslendinga heyrist á þeim vettvangi og að sjónarmið okkar komi fram þar, bæði í samskiptum Evrópusambandsins við þjóðir í kröggum og á jaðarsvæðum og í þróun og framþróun og framtíðarmótun Evrópusambandsins. Mér finnst skipta miklu máli að við séum þátttakendur þar, ekki bara vegna þess sem við getum fengið út úr því sem þjóð, heldur líka vegna þess að mér finnst það vera skylda okkar að vera þátttakendur í því samtali.

Ég fer heldur ekki ofan af því að mér hefur blöskrað það í langan tíma að Íslendingar geti ekki verið meiri þátttakendur í mótun þeirrar löggjafar sem þaðan kemur og við tökum upp hér á Íslandi.



[19:01]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

(ValG: Nú veitir andsvar hv. 9. þm. Reykv. s., Helgi Hjörvar.)

(Gripið fram í: Andsvar?) (Gripið fram í: … af fjöllum.)

Það skal ég glaður gera, virðulegur forseti, fyrst eftir því er sérstaklega óskað af forsetastóli.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans og umfjöllunina um gjaldmiðilinn. Nú er það svo að við höfum í hartnær 100 ár verið að spreyta okkur á þeim gjaldmiðli sem við erum með og heitir íslenska krónan. Ég held að það sé orðið erfitt að hafa tölu á þeim skiptum sem við höfum farið flatt á því. Það virðist enn þá eima eftir af því í umræðunni að þrátt fyrir algert efnahagshrun séu þeir enn til sem vonist til þess að aftur megi fá tiltrú á íslensku krónunni. Ég vildi spyrja hv. þingmann hvort hann telji það vera raunsæjar væntingar um framtíð íslensku krónunnar annars vegar og hins vegar hvort hann sjái fyrir sér að það megi takast í fyrirsjáanlegri framtíð eða á næstu árum að skapa þá tiltrú (Forseti hringir.) sem þarf á þann gjaldmiðil.



[19:03]
Forseti (Valgerður Gunnarsdóttir):

Forseti vill taka fram að það er afskaplega gaman að hlusta á hv. þm. Helga Hjörvar, en hann bað um orðið sjálfur.



[19:03]
Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vona að ég fái sambærilega einkunn hjá hæstv. forseta þegar ég hef lokið ræðu minni.

Ég hef heyrt það í umræðunni, sérstaklega eftir hrun og þegar þessi spurning um krónuna og framtíð hennar hefur verið uppi, að þeir sem eru andvígir inngöngu í Evrópusambandið og vilja halda í krónuna hafi komist að því, og það sé niðurstaða eftir áratugaskoðun, að það sem þurfi til þess að geta verið með krónuna sé öguð hagstjórn. Niðurstaðan sé sem sagt eftir 100 ára leit og tilraunastarfsemi að það sem okkur hafi yfirsést sé öguð hagstjórn. Ég held að það hafi verið reynt nokkuð lengi (Forseti hringir.) en því miður ekki með góðum árangri.



[19:04]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek eftir því að hv. þm. Róbert Marshall fær ekki þær einkunnir sem hann óskaði eftir af forsetastóli, en ég þakka honum engu að síður fyrir þennan skýra málflutning vegna þess að hann dregur fram þá miklu veikleika sem eru í öllum þeim hugarburði um að hér sé allt í lagi en allt sé vont í Evrópu og íslenska krónan sé ósköp góð en þetta sé agalegt í Evrópu. Staðreyndin er sú að það eru ósköp fáir í heiminum sem vilja kaupa eða selja íslenskar krónur, en evran gengur kaupum og sölum á hverjum degi.

Það er hins vegar þannig að við erum að kaupa og selja krónur í einhverjum fölskum veruleika á hundrað fimmtíu og eitthvað krónur. Annars staðar er verðið á henni um tvö hundruð þrjátíu og eitthvað krónur. Ef viðskipti væru gefin frjáls og gjaldeyrishöft afnumin af íslensku krónunni mundi það væntanlega þýða að á frjálsum markaði mundi gengi hennar nálgast það gengi sem er á aflandsmarkaðnum, þ.e. hún mundi falla umtalsvert.

Getur þingmaðurinn farið aðeins yfir það hvaða áhrif það mundi hafa á þau lífskjör sem þó er haldið uppi hér í landinu núna?



[19:05]
Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég rakti í sjálfu sér ágætlega, held ég, í ræðu minni þá kosti sem ég teldi að upptaka evru gæti haft í för með sér. Það sem mér finnst ekki síður mikilvægt og vil leggja mikla áherslu á er að við séum í þessari umræðu að tala út frá efnislegum rökum. Það sem ég rakti í ræðunni gagnvart því sem til dæmis hæstv. forsætisráðherra sagði um þetta mál, þá er einfaldlega búið að sýna fram á að þær fullyrðingar standast ekki. Mér finnst ótækt að byggja umræðu, ég tala nú ekki um ákvörðun, á röngum upplýsingum. Það finnst mér blasa við í þessum efnum.

Ég get alveg virt það að einhver sé búinn að komast að niðurstöðu fyrir sitt leyti en ég er ekki búinn að því og mér finnst að þeir sem eru búnir að komast að niðurstöðu fyrir sitt leyti eigi að virða það við aðra sem eru ekki búnir að því.



[19:07]
Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir fróðlega ræðu og sérstaklega fyrir að vekja máls á gjaldmiðlinum. Ég tók eftir því hjá hv. þingmanni að hann taldi íslenskri þjóð fyrirmunað að sýna agaða hagstjórn í framtíðinni og þess vegna þyrfti hún að taka upp evru eða einhvern sambærilegan gjaldmiðil.

En hvað ef okkur mistekst með agaða hagstjórn í framtíðinni og við erum komin með evru? Hvað gerist þá? Því fengu Möltubúar að kynnast.

Við gætum líka, umfram það að gera mistök í okkar hagstjórn, orðið útsett fyrir náttúrulegum sveiflum, við erum þannig stödd í heiminum. Hverjar yrðu þá afleiðingarnar? Óttast hv. þingmaður ekki að þá geti orðið fjármagnsflótti eins og varð frá Möltu? Samdráttur vegna fjármagnsflótta og gríðarlegt atvinnuleysi og jafnvel þyrfti að setja höft á. Hvað kæmi í veg fyrir að það gerðist hjá okkur fyrst það gerðist í evruríkinu Möltu?



[19:08]
Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var að vekja athygli á því í ræðu minni að gott og vel, við þurfum agaða hagstjórn, ég er alveg sammála því, en það eitt að segja það bjargar engu. Það sem við höfum kallað eftir er áætlun um það hvernig menn ætli að ná slíku fram, að menn sýni á spilin. Úr því að menn eru ekki fylgjandi því að taka upp evruna — sem er ekki gallalaus leið, enginn heldur því fram að hún sé það, hún er ekki skuldbindingalaus af okkar hálfu, hún setur á okkur þá kröfu að við verðum að standa okkur — þá verða menn einfaldlega að sýna á spilin, sýna hvað er mögulegt og það hafa þeir ekki gert.

Fyrir mitt leyti mundi ég mjög gjarnan vilja heyra það. Ég veit að hv. þm. Frosti Sigurjónsson hefur ýmsar hugmyndir um breytingar á peningamálakerfi heimsins en ég held að ekki sé meirihlutavilji fyrir þeim hugmyndum hér á þingi sem stendur.



[19:09]
Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að spyrja út í hver lausnin sé vegna þess að ég held að hún blasi við. Ég held að ef við horfum á hvað hefur komið fyrir í stýringu peningamála, ef hv. þingmaður mundi skoða það, getum við séð að hér hefur verið algjör óstjórn á peningamagni. Peningamagn hefur verið aukið hömlulaust. Í aðdraganda hrunsins var það fimmfaldað á fimm árum. Það er eitthvað sem við getum ákveðið að gera ekki.

Ég hef talað fyrir því að við fylgjumst betur með peningamagninu og ég er ekki einn um það. Úti um allan heim eru menn að tala um þessa hluti. Er hv. þingmaður þeirrar skoðunar að okkur sé alveg fyrirmunað að koma í veg fyrir að hér sé peningamagn aukið hömlulaust ár frá ári? Það hefur verið ágætisstjórn á peningamagni undanfarið ár, það hefur ekki aukist hömlulaust. Við getum alveg haldið því áfram. Hér hafa verið skeið þar sem stjórn hefur verið á peningamagninu og ég held að við getum haft það svo í framtíðinni.

En hvað ætti að koma í veg fyrir, að hans mati, að við getum stýrt peningamagni í landinu?



[19:10]
Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér hefur oft þótt hv. þm. Frosti Sigurjónsson tala af mikilli skynsemi um peningamál og það hefur oft verið mikil glóra að mínu viti í því sem hann hefur verið að segja. Sumar hugmyndir hans hafa mér fundist vera góðra gjalda verðar en að þær geti mögulega gengið upp, með fullri virðingu, einhvern tíma í framtíðinni og á annarri plánetu.

Ég horfi svolítið út frá þeirri stöðu sem við erum að vinna með núna og þeim möguleikum sem eru á borðinu. Gjaldmiðillinn var ein af fjórum meginröksemdum sem ég taldi upp fyrir þeirri sannfæringu minni að við ættum að verða hluti af Evrópusambandinu. Það er auðvitað sannfæring sem byggir á því að við náum góðu samkomulagi og samningi sem er ásættanlegur, þannig að hann er bara eitt af fjórum atriðum sem ég taldi til. Það leysir okkur ekki undan þeirri ábyrgð að hafa stjórn á okkar málum og fara vel með þau.



[19:11]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Flokkssystkin mín tvö og einnig hv. þingmaður Vinstri grænna hafa hér fyrr í dag farið þess á leit að forseti kallaði til ráðherra Sjálfstæðisflokksins sem hafa ekki sýnt sig við þessar umræður, hvorki í dag né undanfarna daga, þó að þeir hljóti að verða að gera hér grein fyrir skoðun sinni á þessari tillögu um að aðildarumsókn verði dregin til baka. Þeir sem hafa setið á forsetastóli í dag hafa tekið því vel að leita til ráðherranna og athuga hvort þeir mundu koma. Ég ætlaði að spyrja hæstv. forseta hvort eitthvað hafi komið út úr því, hvort við mættum búast við því að ráðherrar kæmu hingað og gerðu okkur þann heiður að vera með okkur síðustu þrjú korterin á þessum fundi í dag.



[19:12]
Forseti (Valgerður Gunnarsdóttir):

Forseti vill upplýsa að haft hefur verið samband við hæstv. ráðherra en þeir eru ekki í húsi eins og staðan er núna. Forseti gerir ekki ráð fyrir að þeir muni koma. Þess utan gerir forseti ráð fyrir því að þingfundi ljúki á næsta hálftímanum.



[19:13]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég þakka skýr svör forseta. Mig mundi þá langa til að biðja forseta að athuga hvort ráðherrarnir gætu gert okkur þann heiður að vera viðstaddir umræðuna á morgun, þá hafa þeir töluverðan tíma til að undirbúa sig undir það. Ég held að þeir mundu bæði gera okkur hér greiða og fólki sem fylgist mikið með þessari umræðu. Nálægt 50 þús. manns hafa lagt til að þessi tillaga verði borin til baka, ekki síst í ljósi loforða sem ráðherrar Sjálfstæðisflokksins gáfu fyrir síðustu kosningar. Mig langar að biðja hæstv. forseta um að tala við þetta ágæta fólk og athuga hvort það geti ekki sýnt þinginu þá virðingu að vera hér á morgun.



[19:14]
Forseti (Valgerður Gunnarsdóttir):

Forseti mun koma þessum orðum hv. þingmanns til réttra aðila og vonast til þess að ráðherrar verði með okkur hér á morgun.



[19:14]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þá ágætu umræðu sem hér hefur verið um þá mörgu góðu kosti við það að gerast aðili að Evrópusambandinu og auðvitað líka þær áskoranir og ögranir sem því fylgja og hagsmuni Íslands sem við yrðum að tryggja í aðildarviðræðum við sambandið, einkanlega varðandi fiskinn í sjónum og yfirráð okkar yfir auðlindum.

Það er mikilvægt að við nálgumst ekki þessa umræðu og yfir höfuð okkar þjóðfélagsumræðu með patentlausnum, ekki um stöðuga hagstjórn sem allt muni leysa eða um evruna, gjaldmiðilinn eina sem allt muni leysa. Það er um leið mikilvægt að við Íslendingar hættum að berja höfðinu við steininn eins og nátttröll því að þó að það sé vissulega ekki öruggt að okkur muni vegna vel með nýjan gjaldmiðil, evruna eða í aðdraganda þess í EMR II-myntsamstarfinu í Evrópu, þá er hitt algerlega fullreynt. Íslenska krónan er ekki nýtileg til hagstjórnar. Það er búið að reyna það í nærfellt 100 ár með mjög alvarlegum afleiðingum fyrir fólk og fyrirtæki í landinu, gríðarlegum sveiflum í hagstjórn, gjaldþrotum fjölda fyrirtækja, gríðarlegum fjárhagsörðugleikum fjölmargra kynslóða sem hafa orðið fyrir því að eignir þeirra hafa í einu vetfangi verið af þeim teknar.

Lokatilraunin með þennan gjaldmiðil var gerð hér upp úr aldamótum þegar hann var settur á flot með verðbólgumarkmiði. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra Bjarni Benediktsson, sem ekki treysti sér til að taka þátt í umræðum, taldi að það væri lokatilraunin með íslensku krónuna. Sú lokatilraun endaði í efnahagslegu þroti Íslands og því að við urðum að setja lög sem bönnuðu fólki að taka peningana sem það átti hér í landinu. Sú staða er enn uppi.

Við alla þá erfiðleika sem þessum litla gjaldmiðli hafa fylgt áður mun nú bætast að það hefur enginn tiltrú á honum. Það mun ekki bara taka mörg ár heldur áratugi, ef það er yfir höfuð hægt, að byggja upp slíka tiltrú. Til að ná efnahagslegum stöðugleika þurfum við að ná tiltrúnni. Þetta er kallað á ensku „catch 22“, hvort vinnur gegn öðru. Það er hins vegar ekki þar með sagt að með því að ljúka aðildarviðræðunum við Evrópusambandið, tryggja hagsmuni Íslands og yfirráð yfir fiskimiðunum, semja um aðild að evrópska myntsamstarfinu og fara síðan í fyllingu tímans, eftir að hafa náð stöðugleika í okkar efnahagsmálum í evrópska myntsvæðinu, í evrusamstarfið muni öll okkar vandamál leysast.

Við getum alveg lent aftur í einhverjum efnahagslegum ógöngum með nýjan gjaldmiðil. Spurningin sem við verðum að svara er þessi: Er líklegra að við getum náð meiri efnahagslegum stöðugleika og lægri vöxtum fyrir fólk og fyrirtæki í landinu, haft betri aðgang að fjármagni til að nota í fjárfestingar og arðbær verkefni og til að bæta hér og efla lífskjör á næstu árum og áratugum — er líklegra að við getum náð þessum markmiðum, ef við vöndum okkur og leggjumst öll á eitt og ytri skilyrði eru okkur hagfelld, með því að taka þátt í evrópska myntsamstarfinu og taka síðan upp evruna eða með því að reyna enn og aftur þann gjaldmiðil sem við erum búin að reyna í nærfellt 100 ár?

Niðurstaða Seðlabankans þar sem okkar helstu sérfræðingar í þessum málum eru var ótvíræð. Það eru minni líkur en meiri, eins og þeir ágætu og orðvöru sérfræðingar bankans sögðu, að við séum í betri færum til að ná hér efnahagslegum stöðugleika með eigin gjaldmiðli en áður vegna þess einfaldlega að við höfum ekki (Forseti hringir.) náð efnahagslegum stöðugleika með honum. Það er einfaldlega fullreynt og þó að evran og evrópska myntsamstarfið sé ekki patentlausn, ekki lokalausn þá er hún betra tækifæri til þess arna.



[19:20]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður nefnir einmitt tíma sem mér þykja mjög áhugaverðir svona í seinni tíma sögu Íslands og sérstaklega þegar kemur að Evrópusambandinu. Þegar við tölum um Evrópusambandið erum við alltaf að horfa til framtíðar, eins og er jú svo mikið í tísku, hjá sumum meira en öðrum. En mér finnst mikilvægt að við gerum okkur ljóst að til þess að horfa til framtíðar þurfum við að átta okkur á því hver fortíðin hafi verið.

Þótt ég sé ungur að árum man ég mjög vel eftir einkavæðingu bankanna, ég man mjög vel eftir því hvernig andrúmsloftið var á Íslandi almennt. Það var oft talað um sólgleraugu þáverandi hæstv. forsætisráðherra vegna þess að allt var svo bjart og frábært og dásamlegt og það var endalaust sólskin og ekkert slæmt að koma fyrir. Nema hvað? Jú, jú, eitthvað slæmt kom fyrir. Mér finnst mikilvægt að þegar við ræðum Evrópusambandið og allt sem það varðar þá séum við líka meðvituð um hvað það var sem fór úrskeiðis hér, burt séð frá krónunni og burt séð frá þeim efnahagslegu þáttum sem knýr fólk til að vilja kannski ganga inn í Evrópusambandið, að minnsta kosti á efnahagslegum forsendum og sérstaklega þegar kemur að gjaldmiðlinum.

Hér voru mistök gerð, að mínu mati mikil mistök og mörg, og ég skrifa það á flokka, það getur verið, en líka á þekkingarleysi og reynsluleysi íslensku þjóðarinnar. Með því á ég við alla, þar á meðal hæstv. ríkisstjórn, þáverandi og núverandi, og alla, bankakerfið, íslenska viðskiptamenn o.s.frv. Mér sýnist einhvern veginn eins og allt hafi klikkað en fyrst og fremst af ákveðnu reynslu- og þekkingarleysi gagnvart peningakerfinu, lánaumhverfinu o.s.frv.

Ég velti fyrir mér, þegar við höldum áfram þessari umræðu um Evrópusambandið, hvað af þeim (Forseti hringir.) lexíum hv. þingmaður telji mikilvægast að við höfum í huga til að forðast að gera sömu mistökin aftur, burt séð frá Evrópusambandinu.



[19:22]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég skal svara eins vel og ég get á tveimur mínútum en það verður ekki burt séð frá Evrópusambandinu því að það er Evrópusambandið sem við ræðum hér.

Ég held að einn mikilvægur lærdómur af því sem aflaga fór sé sá að við höfum byggt upp samfélag, stofnanir og lýðræðiskerfi utan um markað, utan um frjálsan markað, vegna þess að við trúum því að frjáls markaður sé drifkraftur framfara og efnahagslegrar velsældar og skapi okkur sem heild þau bestu lífskjör sem við mögulega getum náð. En frjálsum markaði fylgja brestir, markaðsbrestir og margvísleg samfélagsleg viðfangsefni sem við þurfum að taka á saman.

Nú er það svo að við höfum ákveðið að verða hluti af 500 milljóna manna markaði, af evrópska markaðnum. Þeir brestir sem orðið geta á þeim markaði geta, hafa og munu hafa áhrif á Ísland. Þess vegna eigum við að vera hluti af því lýðræðiskerfi, af því eftirlitskerfi, af því stjórnkerfi og af þeim samfélagslegu úrlausnum sem hafa verið byggð utan um þennan 500 milljóna manna markað, vegna þess að það sem við réðum ekki við var að við vorum með fyrirtæki sem voru þúsund sinnum of stór fyrir okkar litla lýðræðiskerfi og okkar litla stjórnkerfi. Það var í meginatriðum það sem aflaga fór.

Hitt getum við svo lært af því hversu miklu fljótari menn annars staðar á Norðurlöndunum voru út úr kreppunni að í erfiðleikum er alltaf miklu betra að vinna sig út úr þeim í samstarfi við aðra. Það á við okkur sem einstaklinga að okkur gengur betur að vinna okkur út úr erfiðleikum með samstarfi við fjölskyldu okkar og við vini okkar, og eins er það um þjóðir að þeim gengur best að vinna sig út úr efnahagslegum erfiðleikum með samstarfi við helstu viðskiptaþjóðir sínar. Það eru lönd (Forseti hringir.) Evrópusambandsins. Þess vegna eigum við að vera í því.



[19:24]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Já, ég átti kannski ekki við burt séð frá Evrópusambandinu alfarið, heldur kannski frekar í ljósi þess að orsakir vandamálanna sem hér komu upp voru til staðar burt séð frá Evrópusambandinu vegna þess að við vorum ekki og erum ekki í Evrópusambandinu. Við erum hins vegar og vorum á Evrópska efnahagssvæðinu og þeir varnaglar virðast ekki hafa verið til staðar innan þess sem ég tel að hefðu kannski forðað okkur frá kreppunni.

Kannski er þetta röng spurning, það getur verið, þá má hv. þingmaður bara benda mér á réttu spurninguna. En ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður telji að ef við hefðum verið í Evrópusambandinu, segjum 2005–2008, eitthvað því um líkt, hrunið hefði komið þá eða hvort það hefði þá orðið hrun hér að mati hv. þingmanns. (Forseti hringir.) Þetta er svolítið stór spurning. Kannski er réttari spurning þá: (Forseti hringir.) Telur hv. þingmaður að við hefðum átt auðveldara með að príla út úr vandamálunum?



[19:26]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég sagði það ósköp skýrt að ég tel að okkur gangi betur að vinna okkur út úr erfiðleikum í samstarfi við aðra en ein og sér, hvort sem við eigum við erfiðleika að stríða sem einstaklingar og þurfum að treysta á samstarf við fjölskyldu okkar og vini og samstarfsmenn, eða ef við eigum við erfiðleika að stríða sem þjóð og þurfum að treysta á samstarf við helstu viðskiptaþjóðir okkar.

Það eru engar patentlausnir, hvorki í lífi einstaklinga né þjóða. Þó að Ítalía sé í Evrópusambandinu er enn þá mafía á Ítalíu, spilling á Ítalíu. Ég held hins vegar að margt í evrópska samstarfinu geri Ítölum auðveldara fyrir að eiga við þá erfiðleika sem þar er við að glíma, þau verkefni sem þar er við að glíma, eins og nefnda mafíu, í samstarfi í Evrópu gegn spillingu, í samstarfi í Evrópu í löggæslumálum, og hið sama eigi við um önnur málefnasvið að okkur gengur betur að takast á við þau saman en hvert um sig.



[19:27]
Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Aftur fjallaði ræðan töluvert um myntmálin og hv. þingmaður spurði spurninga: Með evru, yrði þá ekki líklegra að hér yrðu lægri vextir og meiri aðgangur að fjármagni? Þetta hefði kannski verið góð spurning fyrir kreppu en þá voru vextir svipaðir í öllum evruríkjum, öllum aðildarríkjum myntbandalagsins, þá voru mjög svipaðir vextir og mjög greiður aðgangur að fjármagni og þá hefði svarið verið: Jú.

Hvað hefur kreppan sýnt okkur? Aðildarríki sem eru með evruna hafa lent í miklum vandræðum. Ekki síst hafa vextir orðið mjög ólíkir, mjög sundurleitir milli evruríkja, og í sumum evruríkjum eru þeir jafnvel orðnir hærri en hér. Gott ef nafnvextir íbúðalána fyrir fyrstu íbúð eru ekki komnir í 5% á Kýpur, 7% af íbúð sem fjárfest er í. Og þar er jafnvel neikvæð verðbólga, verðhjöðnun, þannig að raunvextir eru komnir hátt í 8%. Ekki er það mikið betri staða en hér.

Það er líka fjármagnsflótti frá mörgum evrulöndum og menn sem eiga evrur og sparnað í þessum löndum ákveða að taka sparnað sinn úr þessum ríkjum og fara með í einhver önnur lönd þar sem betur árar. Og það er ekkert hægt að sporna við því nema þá með fjármagnshöftum eins og gert var á Kýpur. Það voru jafnvel einhver höft sett í Portúgal og á Spáni á það hvað maður gat tekið mikið út. Er það áreiðanlega skoðun hv. þingmanns að það sé lausnin eftir að hafa séð þetta gerast í myntbandalaginu? Er ekki lausnin bara áfram sú að við sýnum ráðdeild og kunnum fótum okkar forráð í efnahagsmálum, sýnum sem sagt skynsemi í fjármálum okkar?



[19:29]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Auðvitað snýst þetta um það að kunna fótum sínum forráð og sýna ráðdeild. Það höfum við bara ekki gert, því miður. Þá verðum við að velta því fyrir okkur hvaða aðstæður eru líklegastar til þess að skapa okkur tækifæri til að gera það. Ég frábið mér að menn séu að líkja Íslandi við lönd Suður-Evrópu, eyjar í Miðjarðarhafinu þar sem eru ákaflega veik samfélög, hafa lengi verið, þar sem lengi hafa verið herforingjastjórnir vegna þess að þar hefur verið örðugt um lýðræðisuppbyggingu, þar sem engin hefð er fyrir því að greiða skatta eða rækja skyldur eða bera þá miklu félagslegu ábyrgð sem einkennir norðurhluta Evrópu.

Við eigum í þessu sambandi miklu frekar að horfa til nágrannalanda okkar. Hv. þingmaður verður auðvitað að horfast í augu við háan lántökukostnað fólksins í landinu, þeirra sem þurfa að taka lán til að kaupa sér íbúð, t.d. ungu kynslóðarinnar sem er núna að stórum hluta heima hjá foreldrum sínum vegna þess hvernig ástandið er hér á húsnæðismarkaði og vegna þess hversu háir vextir eru. Það þarf ekki annað að gera en að fara bara inn á vefinn og skoða það hvers konar vaxtakjör mönnum bjóðast, hvort sem það er með dönsku krónunni í EMR II-myntsamstarfinu eða með evrunni í Finnlandi.

Auðvitað er það ekki þannig að við munum strax ná þeim vöxtum sem þar eru. Kannski munum við aldrei ná þeim vöxtum sem þar eru, en þó að við gerðum ekki annað en að nálgast þá mundi það skipta gríðarlega miklu máli fyrir venjulegt fólk í þessu landi, fyrir fyrirtækin í landinu. En fyrst og fremst er þar þó tækifæri til þess að ná þeim stöðugleika sem hér þarf að vera til þess að við getum byggt upp fjölbreytt atvinnulíf og rutt þeirri viðskiptahindrun úr vegi (Forseti hringir.) sem íslenska krónan er.



[19:31]
Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir svarið en mér leiðist töluvert að heyra þingmann tala niður til ríkja sem eru í Suður-Evrópu, að þau kunni ekki fótum sínum forráð í peningamálum þegar við erum sjálf kannski engu betri og höfum ekkert verið betri í gegnum tíðina. Ég sé ekki fyrir mér hvernig hv. þingmaður ætlar að útskýra hvernig við ætlum að fá þessa ráðdeild bara með því að taka upp evruna. Ég held að það sé miklu alvarlegra að lenda í því að gera efnahagsleg mistök þegar við erum komin með gjaldmiðil sem við getum ekki stýrt til að bregðast við mistökunum.

Ég vil líka spyrja hv. þingmann að öðru vegna þess að ég hef heyrt þá spurningu: Hvað hefði gerst ef við hefðum verið í ESB í hruninu? Hefðum við þá t.d. getað sagt nei við Icesave-samningnum, þ.e. samningnum þar sem átti að láta skattgreiðendur á Íslandi axla skuldir einkabanka? Írar voru látnir axla skuldir sinna banka sem féllu. Hefði ekki verið óheppilegt fyrir Íslendinga að vera í Evrópusambandinu þegar hrunið dundi yfir að þessu leyti?



[19:32]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef margítrekað það að það eru engar töfralausnir til til að ná stöðugleika á Íslandi eftir þær miklu efnahagssveiflur sem hér hafa verið. Ég hef sagt að sumt er fullreynt. Það er fullreynt að íslenska krónan sé tæki til þess. Aðrir valkostir en evrópska myntsamstarfið eru ekki fyrir hendi. Þeir sem veifuðu hér kanadadollara og norskum krónum og einhverjum öðrum leiðum eru löngu hættir að tala um það. Okkar helstu sérfræðingar í Seðlabankanum hafa gert greinargóða skýrslu um að valkostirnir eru tveir, íslenska krónan, og hún mun ekki duga, það vitum við, og evran, hún gefur þann möguleika. Sannarlega mundi það hjálpa okkur til að sýna ráðdeild, til að mynda ef í hinu evrópska samstarfi verða settar reglur um ríkisfjármál að þýskri fyrirmynd með þeim aga sem menn hafa tamið sér á meginlandinu. (Forseti hringir.) Ég held að það sé nú kannski það sem við ættum einkum að sækja í samstarfið, bæði í evrunni og í ríkisfjármálunum, þ.e. aga og aðhald fyrir okkur.



[19:34]
Heiða Kristín Helgadóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og mig langar að þakka fyrir þessa umræðu. Umræðan sem við eigum hérna um Evrópusambandið og stöðu mála eins og hún er í dag er mjög góð að flestu leyti. Ég mundi gjarnan vilja ræða þessa hluti út frá niðurstöðu eftir samningaviðræður, við værum að ræða um staðreyndir málsins. Ég hef persónulega grætt mikið á umræðunni og mér finnst mjög miður að hún sé enn þá bara spekúlasjónir þrátt fyrir að hún sé byggð á skýrslum og tilfinningum manna í þeim skýrslum.

Það er annað sem mér finnst líka slæmt í umræðunni, það er þessi eilífa fortíðartenging. Mér finnst oft koma upp í umræðunni ásakanir um að einhver hafi sagt þetta eða hitt, eitthvað var gert svona eða hinsegin, og það einhvern veginn afsaki eða útskýri af hverju menn megi gera hlutina svona í dag. Mér finnst það mjög miður.

Þá langar mig að sjá hvort möguleiki væri á að spyrja hv. þingmann sem fyrrverandi stjórnarþingmann hvort hann teldi að draga mætti einhvern lærdóm af þátttöku sinni í þessu ferli á síðasta kjörtímabili, sem hefði jafnvel verið mistök eða eitthvað sem væri hægt að viðurkenna sem mistök og við gætum þá haldið áfram þaðan. Af því að hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson var að ræða um lærdóm þá langar mig aðeins að heyra hugleiðingar hv. þm. Helga Hjörvars um hvort mögulega væri hægt að gangast við einhverjum mistökum á síðasta kjörtímabili og þá gætum við bara haldið áfram, sérstaklega þar sem hæstv. ráðherra er í salnum.



[19:36]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er hægt að gangast við fjölmörgum mistökum á síðasta kjörtímabili, enda vissu allir þegar það hófst árið 2009 að í því mikla hreinsunarstarfi og uppbyggingarstarfi sem þar var fram undan, í því neyðarástandi sem þá var, var það óhjákvæmilegt, þar sem margar og stórar ákvarðanir væru teknar yrðu ýmsar þeirra ekki þær bestu sem völ var á og að eftir á að hyggja hefðum við tekið betri ákvarðanir.

Ég tel hins vegar að aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið hafi verið alger forsenda fyrir því uppbyggingarstarfi sem hér varð og ég held ekki að á þeim hafi verið haldið illa. Þvert á móti held ég að unnið hafi verið mjög gott starf í þeim viðræðum. Er þar við ýmislegt að eiga, meðal annars það að sambandið var sjálft að endurskoða sjávarútvegsstefnu sína og síðan kom makríldeilan upp á milli þjóðanna, hún var auðvitað ekki fyrirsjáanleg og ekki á færi stjórnmálamanna að koma í veg fyrir hana.

Ég held að það sé rétt hjá hv. þingmanni að það sem skiptir máli er framtíðin. Það sem skiptir meðal annars máli í framtíðinni er frelsið. Umræðan um gjaldmiðlinn, um lægri fjármagnskostnað og aðra slíka hluti snýst um frelsið vegna þess að það að hafa lítinn eigin gjaldmiðil er viðskiptahindrun í sjálfu sér. Hún dregur úr möguleikum bæði fólks og fyrirtækja að sækja sér fjármagn til að fjármagna heimili sín eða atvinnuuppbyggingu. Þannig dregur hún úr frelsi okkar, fækkar valkostum okkar, og fyrir litla þjóð eins og Íslendinga er það mikilvægasta verkefni framtíðarinnar að auka viðskiptafrelsið. Þannig (Forseti hringir.) tryggjum við best möguleika okkar til að vera sjálfstæð þjóð.



[19:38]
Heiða Kristín Helgadóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og tek hjartanlega undir með honum um frelsið og mikilvægi þess að við reynum að útkljá svona stór deilumál, því að það er ekki síður mikilvægt fyrir okkur, fyrir sjálfsmynd þjóðarinnar, að ná að klára viðamikil mál. Í því ljósi langar mig að þakka fyrir að fá að taka þátt í þessum umræðum um þetta stóra og mikilvæga mál. Ég held að mikilvægt sé — sama hvaðan við komum eða hvort við erum hrædd um að tapa fullveldi eða höfum þá skoðun að við getum stýrt hagkerfi okkar betur með krónu eða hvað það er, sem ég held að við hv. þm. Helgi Hjörvar séum tiltölulega sammála um að sé ekki staðan — að fara ofan í þessi mál og ræða þau og gera það á yfirvegaðan og (Forseti hringir.) góðan hátt. Ég þakka fyrir.



[19:40]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get tekið undir með hv. þingmanni að mikilvægt er að ræða ólík sjónarmið og það er líka mikilvægt að bera virðingu yfir ólíkum sjónarmiðum. Það er kannski það sem hefur hleypt hitanum í umfjöllunina í þinginu. Ef ríkisstjórn Íslands vill svíkja kosningaloforð sín og efna ekki til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna og láta þær bara vera áfram í hléi þá er það algerlega á valdi ríkisstjórnarinnar. En að koma með tillögu um að slíta viðræðum er meðvituð ákvörðun um að reyna að koma í veg fyrir að umræður um skiptar skoðanir á aðild að Evrópusambandinu fari fram á Íslandi næstu 10, 20, jafnvel 30 árin. Og það er (Forseti hringir.) hótun sem er full ástæða til að gera sitt ýtrasta til að koma í veg fyrir að nokkurn tíma verði að veruleika.