143. löggjafarþing — 74. fundur
 13. mars 2014.
umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka, frh. fyrri umræðu.
stjtill., 340. mál. — Þskj. 635.

[11:39]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Ég hef lýst því yfir að ég styðji þá tillögu og ætti það ekki að koma neinum á óvart þar sem ég flutti sjálf tillögu svipaðs efnis á síðasta kjörtímabili, innihaldið var það sama, þar sem þegar á miðju síðasta kjörtímabili var algjörlega ljóst að sú aðferðafræði og sú tillaga sem samþykkt var í þinginu í tíð fyrri ríkisstjórnar var ekki vænleg til árangurs fyrir íslenska hagsmuni.

Ég er enn á þeirri skoðun að Íslandi og hagsmunum þess sé betur borgið utan Evrópusambandsins en innan. Því tel ég eindregið, og stend fast á þeirri skoðun minni, að okkar hagsmunir séu best varðir með því að taka þá afstöðu að draga þessa umsókn Íslands til baka og halda ekki áfram því aðlögunarferli sem Íslands hefur verið í síðan á síðasta kjörtímabili.

Það eru ýmis mál sem rétt væri að ræða í tengslum við þessa þingsályktunartillögu en tíminn er knappur. Í fyrsta lagi er rétt að geta þess að farið var af stað í þetta ferli á mjög veikum forsendum. Ljóst var að fyrrverandi ríkisstjórnarflokkar voru ekki einhuga um það hvort Ísland ætti að ganga í Evrópusambandið. Þegar ríki sækir um aðild að Evrópusambandinu er það gert í því ljósi að fyrir því sé meiri hluti á því þingi sem samþykkir það. Sú var ekki raunin hér, heldur vildu menn fara í það að kíkja í pakkann.

Sú hugmyndafræði gengur einfaldlega ekki upp og við sjáum það best á þeim árangri sem fyrrverandi ríkisstjórn náði í samningaviðræðum sínum við Evrópusambandið. Árangurinn skilaði sér ekki, ekki var byrjað að ræða um sjávarútvegsmálin, ekki erfiðu málin þó að það hafi verið fullyrt hér þegar lagt var af stað að aðildarferli okkar og samningarnir tækju mjög stuttan tíma. Það var fullyrt af þeim sem báru það mál uppi og var alveg ljóst að það stóðst ekki.

Það eru ýmis mál sem rétt væri að tala um, m.a. fullveldi og sjónarmiðin varðandi það. Í Lissabonsáttmálanum er fjallað um starfshætti Evrópusambandsins og þar er ákveðið hvaða svið falla undir valdmörk Evrópusambandsins. Í 2. gr. er fjallað um valdheimildirnar, en skipta má málefnasviðunum í þrjá flokka eftir því hversu mikið vald Evrópusambandið hefur.

Ef þjóð vill ganga í Evrópusambandið þarf hún að átta sig á því að þetta eru þrír flokkar málefnasviða. Í fyrsta lagi er málefnasvið þar sem Evrópusambandið hefur sérvald eða, með leyfi forseta, „exclusive competence“. Þarna undir falla til dæmis tollabandalagið, samkeppnisreglur til að tryggja skilvirkni innri markaðarins, peningamálastefnan, sameiginlega viðskiptastefnan og gerð alþjóðasamninga á tilteknum sviðum sem og varðveisla lífríkis sjávar samkvæmt sameiginlegu fiskveiðistefnunni. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að hafa í huga að undir sérvald Evrópusambandsins — fyrir þær þjóðir sem kjósa að ganga í Evrópusambandið — fellur varðveisla lífríkis sjávar samkvæmt sameiginlegu fiskveiðistefnunni.

Þetta felur í sér að Evrópusambandinu eru veittar óskiptar valdheimildir á tilteknu sviði sem skilgreint er í sáttmálanum. Evrópusambandinu er einu heimilt að setja lög og samþykkja lagalega bindandi gerðir en aðildarríkjunum er aðeins heimilt að gera það ef Evrópusambandið veitir þeim umboð til þess. Þarna á sér stað fullveldisframsal og við þurfum að átta okkur á því hvort við séum tilbúin í umræður um hvort við eigum að ganga í Evrópusambandið.

Ég er á þeirri skoðun að ef Ísland kysi að ganga í Evrópusambandið mundum við þurfa að breyta stjórnarskránni til að geta framselt svo mikið vald sem Lissabonsáttmálinn kallar eftir. Ég get ekki sagt það nógu oft að hér er um að ræða varðveislu lífríkis sjávar, hún fellur í þennan flokk um sérvald Evrópusambandsins.

Þetta er grundvallaratriði í Lissabonsáttmálanum og það er alveg ljóst að ef einhverjir sem telja að Evrópusambandið ætli að fara að afsala sér valdi á málaflokki sem fellur undir sérvald Evrópusambandsins samkvæmt Lissabonsáttmálanum þá tel ég að menn hugsi hlutina ekki alveg til enda eða sjái þá í mjög skýru ljósi.

ESB hefur valið að fella þennan málaflokk undir sérvald sitt og þess vegna eru rík sjónarmið innan Evrópusambandsins um að halda sig við þá reglu. Evrópusambandið gengur út á það að menn eigi að vera jafnir og að öll ríkin eigi að sitja við sama borð. Enda gekk hvorki né rak hjá fyrri ríkisstjórn að fá einhverjar undanþágur og ræða þær varðandi sjávarútveginn, m.a. út af þessu.

Síðan er hér um að ræða málefnasvið sem falla undir sameiginlegt vald eða á ensku „shared competence“. Þar undir falla innri markaðurinn, félagsmálefni, efnahagsleg, félagsleg og svæðisleg samloðun, landbúnaður og fiskveiðar fyrir utan þann þátt sem fellur undir sérvaldið sem ég fór yfir áðan. Hér undir falla umhverfismál, neytendavernd, flutningar, orkumál, dóms- og innanríkismál o.fl. Við þurfum að átta okkur á þessum mun þegar við ræðum um aðildina að Evrópusambandinu.

Í þriðja lagi er síðan um að ræða málaflokka þar sem er um að ræða stuðningsvald, á ensku, með leyfi forseta, „supporting competence“. Við þurfum að gera okkur grein fyrir því að þar eru undir málaflokkarnir heilbrigðismál, iðnaður, menning, ferðamannaiðnaður, menntun, verknám, æskulýðs- og íþróttamál og borgaralegt öryggi.

Fullveldisumræðan hefur tekið mikið pláss og verið áberandi þegar við höfum á undanförnum árum og áratugum verið að ræða um Evrópusambandsaðild og möguleika Íslands á því að ganga í Evrópusambandið. Ég tel að sú umræða muni halda áfram og óska nú eftir því að menn fari svolítið efnislega í það í þessari umræðu hvers vegna Ísland ætti að afsala sé fullveldi að svo miklu leyti sem Lissabonsáttmálinn gerir ráð fyrir. Hverjir eru hagsmunirnir í því fyrir Ísland?

Ég hef ekki áttað mig á því og ég sé ekki að þeir séu fyrir hendi. Ég hef ekki áttað mig á því í umræðunni hvaða sjónarmið þeir hafa gagnvart þessu sem eru á móti þeirri ágætu tillögu sem hér liggur fyrir. Efnislega umræðan að þessu leyti á eftir að fara fram og ég vona svo sannarlega til þess að við fáum að heyra hana, enda er mælendaskráin löng og menn hafa væntanlega tíma til þess að fara aðeins yfir það.



[11:47]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur fyrir prýðilega ræðu og málefnalega eins og hennar er von og vísa. Hún hefur setið vel undir þessari umræðu, þó sýnist mér að hún hafi verið fjarri þegar ég hélt ræðu mína vegna þess að nákvæmlega það sem hún óskaði eftir að heyra sem rök af hálfu okkar sem styðjum aðild flutti ég í tíu mínútna ræðu, að mig minnir, og fjallaði aðeins um það fyrir utan að ég vék aðeins að skýrslunni sem ég er ákaflega ánægður með af hálfu Hagfræðistofnunar.

Hv. þingmaður kallar þetta aðlögunarviðræður. Þá langar mig að vekja eftirtekt á því að nú hefur ríkisstjórnin nýlega samþykkt nýja Evrópustefnu. Aðall hennar er að hraða aðlögun með því að flýta upptöku tilskipunar. Finnst hv. þingmanni það ríma við sína skoðun? Og má ég spyrja hv. þingmann: Getur hún bent mér á eina aðlögun sem ráðist var í í tíð fyrri ríkisstjórnar á tíma aðlögunarviðræðna?

Hefur hún lesið málið svo vel að hún kynni að geta bent mér á eina varanlega undanþágu sem náðist fram í aðildarviðræðunum? Hv. þingmaður þarf ekki að svara því, ég get upplýst hana um að við þurftum eina og við fengum hana.

Hún talar um valdmörkin og það hvernig Lissabonsáttmálinn hefur rígneglt fullveldisframsal. Er það svo? Hvað mundi hv. þingmaður þá segja ef ég héldi því fram að að minnsta kosti fræðilega væri hægt að fá undanþágu frá heilum sameiginlegum sviðum eins og landbúnaði og sjávarútvegi? Það mundi koma hv. þingmanni á óvart. Það kom mér á óvart þegar prófessor í stjórnskipunarfræðum sem ekki hefur verið talinn hallur undir Evrópusambandið hélt því fram að eigin frumkvæði. Enginn hafði hugmyndaflug til þess að spyrja hann um það en svona liggur þetta. Menn vita ekki hverju þeir geta náð fram í samningum fyrr en þeir hafa lokið þeim.



[11:49]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir gott andsvar og biðst forláts á því að hafa misst af ágætri ræðu hans um þetta mál. Ég viðurkenni að ég var við önnur störf þegar hún var flutt og þykir það mjög miður, en heyri það að ég þarf að taka mér tíma í að hlusta á upptöku af henni sem ég finn á vef Alþingis, enda efast ég ekki um að hún hafi — (ÖS: Eða biðja mig um að flytja hana aftur.) eða hv. þingmaður getur flutt hana aftur fyrir okkur, þá væntanlega á mjög stuttum tíma.

Það kemur mér á óvart að hv. þingmaður, sem var áður ráðherra og fór með þennan málaflokk, komi hér upp og segi að við höfum einungis þurft eina varanlega undanþágu. Ég veit ekki annað en að menn hafi komið hér upp margoft og sagt að við mundum fá svo mikið af undanþágum að þetta yrði allt saman sérsniðið að Íslandi. Á tímabili þegar við vorum að ræða þessi mál á síðasta kjörtímabili fannst manni eins og Evrópusambandið væri að ganga í Ísland en ekki Ísland í Evrópusambandið. Það kemur mér svolítið á óvart en hv. þingmaður kemur kannski betur inn á það á eftir.

Það rímar ekki við meginniðurstöður skýrslunnar sem hv. þingmaður vísaði til að hægt sé og að það séu einhver fordæmi fyrir því að þjóð fái varanlegar undanþágur frá heilu málaflokkunum hjá Evrópusambandinu. Hvar hefur það verið gert? Hvenær hefur það verið gert? Það brýtur gegn grundvallarinntaki samstarfs Evrópuþjóða sem eiga sér samstarf í Evrópusambandinu um að þjóðirnar sitji við sama borð, fylgi sömu reglum. Vegna þessa grundvallarsjónarmiðs eru varanlegar undanþágur ekki til. Það er hægt að semja til ákveðins tíma um einhverja lengri aðlögun á ákveðnum málefnasviðum en að hægt sé að kippa heilu málaflokkunum út með varanlegum undanþágum — hvaða dæmi hefur hv. þingmaður um það?



[11:51]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður er snjöll ræðukona og kann allar tæknibrellur þrætulistarinnar. Hún var spurð einnar einfaldrar spurningar. Spurningin var þessi: Getur hv. þingmaður bent á eina aðlögun sem fyrri ríkisstjórn réðst í vegna aðildarviðræðnanna? Ég kýs að taka og túlka þögn hennar við þeirri spurningu sem nei, en ég skora á hv. þingmann að leggja fram fyrirspurn um það.

Hv. þingmaður segir síðan að ekki sé hægt að fá neinar varanlegar undanþágur. Síst allra þingkvenna og -manna vil ég ásaka hv. þingmann um að lesa ekki nógu rækilega þau plögg sem fyrir hana eru lögð, en ræða hennar áðan var á grundvelli skýrslu Hagfræðistofnunar og það kemur fram í skýrslu Hagfræðistofnunar að í einu tilteknu smáu tilviki þurftu Íslendingar að ná fram undanþágu, varanlegri undanþágu, ekki sérlausn, og fengu hana. Þetta getur hv. þingmaður lesið í einum viðaukanum. Ég hvet hv. þingmann til þess áður en hún leggst á koddann í kvöld að lesa svolítið betur viðaukana.

Hv. þingmaður spyr síðan hvort hægt sé að fá undanþágu fyrir heil svið. Það er náttúrlega frægt dæmi um það. Það eru ríki sem hafa undanþágu frá sameiginlega gjaldmiðlinum til dæmis. En það er ekki málið. Ég get fallist á það sem hv. þingmaður sagði, að það væri ekki í samræmi við meginniðurstöðu skýrslunnar og það kæmi henni á óvart að ekki væri útilokað að hægt væri að fá undanþágu frá heilum sameiginlegum sviðum. Það kom mér á óvart. En þetta var óvart upplýsing sem var færð fram í utanríkismálanefnd af þeim manni sem hefur hvað mest vit á þessu og hennar eigin flokkur, og reyndar fleiri flokkar, hafa oft kallað fram til vitnis um Evrópumálin. Svona liggur í þessu. Það er nefnilega þannig að í samningum geta menn náð öllum fjandanum fram ef þeir leggja sig nógu mikið fram um það og lengi skal manninn reyna, herra forseti. En ég ætla ekki að meira á hæstv. forseta og ætla nú að hverfa úr ræðustóli.



[11:54]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður er einnig meistari í ræðuflutningi og meistari í því að draga fram ýmsar hliðar sem aðrir sjá ekki og velta málunum þannig upp að þau megi skilja á fleiri en einn veg. En það er ekki gott að reyna að vekja falsvonir hjá þjóðinni, eins og mér fannst hv. þingmaður gera í andsvari sínu, að vekja þær vonir (Gripið fram í.) hjá fólki að Ísland geti fengið varanlegar undanþágur frá sjávarútvegs- og landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins í heild sinni. Hvaða málflutningur er það? Er hv. þingmaður að reyna að halda því fram og að reyna að vekja þær væntingar hjá þeim sem starfa í sjávarútvegi, hjá þeim sem starfa í landbúnaði, að það sé raunhæfur möguleiki? Ég held að hv. þingmaður, sem er mjög reyndur maður og fór með það vald á síðasta kjörtímabili að stýra þessu máli fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, viti það betur en allir hér inni að slíkt er algerlega útilokað. Við skulum reyna að temja okkur þann sið að vekja ekki falsvonir hjá íslensku þjóðinni. Ég held að það hafi sýnt sig í öllu Evrópusambandsaðildar- og aðlögunarferlinu frá upphafi að farið var af stað á röngum forsendum, farið var af stað á veikum grunni og þess vegna náði fyrrverandi ríkisstjórn ekki að klára samninginn sem hún ætlaði sér að gera á nokkrum mánuðum.



[11:55]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar. Það kemur engum á óvart að hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir metur það svo að hagsmunum Íslands sé betur borgið utan Evrópusambandsins en innan þess. Sama á við um fjölmarga aðra forustumenn í Sjálfstæðisflokknum.

Ég vil hins vegar spyrja hv. þingmann um gildi loforða, þá sérstaklega um gildi loforða flokksfélaga hennar og forustumanna, allra ráðherra Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórninni, þar með talið frá formanni, varaformanni og 2. varaformanni, til kjósenda um það fyrir ári síðan að þó að þeir teldu, eins og hv. þingmaður, að hagsmunum Íslands væri best borgið utan Evrópusambandsins hygðist flokkurinn engu að síður fela þjóðinni að taka ákvörðun um framhald aðildarinnar. Algerlega skýr og fyrirvaralaus voru þau loforð.

Nú hefur hæstv. forsætisráðherra lýst því yfir að forustumenn Sjálfstæðisflokksins hafi aldrei beðið um það í stjórnarmyndunarviðræðum að sú þjóðaratkvæðagreiðsla, sem þeir þó lofuðu, færi fram. Nú er komin fram tillaga sem gengur þvert á þessi loforð og hæstv. heilbrigðisráðherra lýsti því yfir rétt áðan að enn þá væri ekki búið að svíkja, enda væri ekki búið að samþykkja tillöguna. Hann vísaði til þess sem líka hefur mátt skilja á formanni Sjálfstæðisflokksins, að óbreytt yrði tillagan ekki samþykkt, enda væri hún svik, heldur eigi þjóðin að fá að koma að þessari ákvörðun eins og lofað var, hvað sem líður hagsmunamati hv. þingmanna. Ég spyr hv. þingmann einfaldlega: Telur hún að hún og Sjálfstæðisflokkurinn séu bundin af þeim loforðum sem gefin voru kjósendum fyrir aðeins einu ári síðan?



[11:57]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þetta andsvar sem var í rauninni ekki andsvar við ræðu mína heldur upptalning á því sem aðrir hafa sagt. Ég tjái mig hér um afstöðu mína og hvað mér finnst um þetta mál, um það var ræða mín. Ég verð að segja að það að hengja sig í þann málflutning sem hv. þingmaður gerir hér er ekki vænleg leið til þess að leysa mál. Við þurfum að líta á stöðuna eins og hún er og taka ákvörðun um hvað hægt er að gera og hvert við eigum að fara. (Gripið fram í.)

Við erum í þeirri stöðu að fyrrverandi ríkisstjórn sótti um aðild að Evrópusambandinu án þess að annar stjórnarflokkurinn á þeim tíma vildi ganga í Evrópusambandið. Það var gert undir þeim formerkjum að hægt væri að kíkja í pakkann. Það er afstaða mín að með því klúðraði fyrrverandi ríkisstjórn sínu eigin baráttumáli og þá sérstaklega Samfylkingin sem var svo agalega kát yfir því að fá einhvern með sér í þá vegferð.

En maður þarf að hugsa hlutina til enda. Á þeim tíma kom fram tillaga í þinginu frá okkur sjálfstæðismönnum um að það bæri að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort sækja skyldi um. Ekki var fallist á það af hálfu fyrrverandi ríkisstjórnar og ég tel að flestir þáverandi stjórnarliðar sem ég talaði við hafi nú viðurkennt að það hafi verið mikil mistök af hálfu fyrrverandi ríkisstjórnar að samþykkja ekki þá tillögu til að hafa skýrt umboð að því leyti í farteskinu. Ég held að það sé komið á daginn nú að haldið var mjög illa á þessu máli af þeim sem helst vilja fara inn í Evrópusambandið. Ég hef sagt það áður hér úr þessum stól að væri ég á þeirri skoðun að Ísland ætti að ganga í Evrópusambandið þá væri ég algerlega hoppandi ill út í fyrrverandi ríkisstjórn fyrir það með hvaða hætti hún hélt á málunum vegna þess að hún klúðraði málunum gersamlega.



[12:00]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú ekki annað hægt en að hafa samúð með hv. þingmanni að hún skuli ekki treysta sér til að ræða yfirlýsingar ráðherra Sjálfstæðisflokksins og kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins í þessum efnum. Það er þó óvenjulegt að þingmaður sem situr fyrir ákveðinn stjórnmálaflokk á Alþingi telji sig ekki eiga að svara fyrir kosningaloforð síns eigin flokks eða kosningayfirlýsingar sinna eigin forustumanna, en þetta er auðvitað svo neyðarleg staða að það er eðlilegt að hv. þingmaður vilji ekki bera ábyrgð á henni. En það er auðvitað ekki verið að hengja sig í neitt í umræðunni með því að vísa til skýrra og afdráttarlausra loforða allra ráðherra eins stjórnmálaflokks við kjósendur.

Ég vil spyrja hv. þingmann um hagsmunamatið, vegna þess að það er afstaða aðila vinnumarkaðarins, Samtaka atvinnulífsins og verkalýðshreyfingarinnar í landinu að það eigi, hagsmuna Íslands vegna, að ljúka aðildarviðræðunum og láta á það reyna hvaða hagsmuni við náum að tryggja í slíkum samningaviðræðum. Ég hlýt að spyrja hv. þingmann: Hvað er það sem veldur því að hv. þingmaður telur sig vita betur og geta haft vit fyrir forustunni í íslensku atvinnulífi um mat á hagsmunum Íslands í þessu efni? Eigum við að treysta forustumönnunum í íslensku atvinnulífi fyrir því að leggja hagsmunamat fyrir atvinnulífið og íslenska atvinnuhagsmuni eða eru einstaka þingmenn Sjálfstæðisflokksins betur til þess fallnir að meta hagsmuni íslensks atvinnulífs en forusta atvinnulífsins sjálfs? Það væri ágætt ef hv. þingmaður gæti skýrt það vegna þess að til þessa hélt ég að Sjálfstæðisflokkurinn hefði treyst hagsmunamati forustumanna í atvinnulífinu en ekki talið að stjórnmálamenn ættu að hafa vit fyrir þeim.



[12:02]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég átta mig ekki á þessum málflutningi. Er það skoðun hv. þingmanns að Alþingi Íslendinga og löggjafarvaldið þar með sé óþarft, og við ættum bara að fela Samtökum atvinnulífsins að stjórna Íslandi í öllum grundvallaratriðum? Ég átta mig einfaldlega ekki á því á hvaða vegferð hv. þingmaður er. Þegar tekin er afstaða til mála í þinginu er maður bundinn af sinni eigin sannfæringu, maður fer yfir hvert einasta mál á grundvelli þeirra gagna sem maður hefur, reynir að afla sér þeirra upplýsinga sem hægt er, reynir svo að taka afstöðu til þeirra mála sem uppi eru. Þannig hef ég farið í gegnum þessi Evrópumál. Ég tel að það sé algjörlega ljóst í ljósi heildarhagsmuna íslensku þjóðarinnar, ekki heildarhagsmuna einhverra einstakra atvinnugreina, ég met málið á stærri grundvelli en það, að standa fyrir utan Evrópusambandið.

Ef hv. þm. Helgi Hjörvar telur sig eiga að fara eftir þeim reglum sem hann var sjálfur að reyna að lista upp fyrir mér að ég ætti að fara eftir, er hann þá bara handbendi einhverra einstaklinga úti í bæ eða er hann handbendi Samtaka atvinnulífsins í þinginu? Hvernig á þetta eiginlega að virka? Ég skil ekki þessa hugmyndafræði. Ég held að hv. þingmaður hafi einfaldlega ekki alveg verið búinn að ákveða um hvað hann ætlaði að spyrja og farið að fabúlera eitthvað í pontunni. Þetta var afskaplega einkennilegt.

Grundvallaratriðið er að ég tel að þessi umræða muni skila mestum árangri ef við tölum um málefnið sem er til umræðu, tölum um hvar hagsmunir íslensku þjóðarinnar liggja, að við tölum um hvaða afleiðingar og hvaða valdaframsal felst í því að ganga í Evrópusambandið fremur en að vera í einhverjum Morfís-ræðum um hver eigi í raun og veru að stjórna Íslandi, hvort það séu Samtök atvinnulífsins eða löggjafinn sjálfur sem eigi að fara með lagasetningarvaldið.



[12:04]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Eftir að hæstv. utanríkisráðherra lagði fram þá þingsályktunartillögu sem við ræðum hefur ólgan í samfélaginu vaxið dag frá degi. Þjóðin vill fá að segja álit sitt á framhaldi viðræðnanna við Evrópusambandið. Tugþúsundir Íslendinga hafa lýst þeim áhuga, m.a. með því að skrifa nafn sitt á lista þess efnis og að auki mætt á Austurvöll dag eftir dag. Ég held að skýrari geti vilji þjóðarinnar ekki orðið.

Ég held að eins og stundum hefur verið sagt sé þetta kornið sem fyllti mælinn. Þjóðin bíður enn eftir stærstu aðgerð í heimi sem lítið bólar á og svo þegar þessari tillögu er skellt fram nánast áður en umræður hófust um skýrsluna um Evrópusambandið og stöðu samningaviðræðna er fólki misboðið, bæði því sem aðhyllist inngöngu í Evrópusambandið og hinu sem er ekki jafn sannfært eða vill þetta alls ekki. Markmiðið er að fá að greiða atkvæði og kannanirnar hafa sýnt að mikill meiri hluti vill fá að sjá samning til að taka afstöðu til þar sem allar þær upplýsingar liggja fyrir sem hægt er að fá, en ekki láta nokkra stjórnmálamenn segja sér hvort eitthvað sé mögulega eða hugsanlega framkvæmanlegt. Og hvað er að óttast? Er það ekki hlutverk okkar sem stjórnmálamanna að hlusta eftir þessum röddum eða eigum við að láta duga að óska eftir því að á okkur sé hlustað á fjögurra ára fresti? Rétt eins og Vilhjálmur Árnason prófessor sagði á dögunum í útvarpsviðtali þiggjum við aðkomu þjóðarinnar á fjögurra ára fresti en viljum svo kannski minna með skoðun hennar gera þess á milli.

Það að starfa hér á þingi snýst ekki um að hugsa fyrst og fremst um það sem að okkur sjálfum snýr, við erum fulltrúar fólksins og lýðræðið er ekki einungis falið í því að kjósa okkur á þing heldur að hlusta á þjóðina þegar hún kemur fram með svo sterk viðbrögð. Út á það gengur tillaga okkar vinstri grænna sem er tilraun til að sætta ólík sjónarmið og ná sem flestum með í ákvarðanatökunni.

Þegar við tókum þátt í því að koma þessu máli á dagskrá var ævinlega lagt upp úr því að þjóðin skyldi ljúka málinu með því að taka afstöðu til samnings í atkvæðagreiðslu.

Það að vera í pólitík snýst gjarnan um málamiðlanir og þar erum við stödd núna. Málamiðlun verður að nást í þessu stóra máli sem hefur tekið allt of mikið pláss í samfélagslegri umræðu og í allt of langan tíma. Við verðum að leiða málið til lykta og best hefði verið að mínu viti að klára viðræðurnar og leggja fyrir þjóðina samning en næstbesta kostinn tel ég felast í tillögu Vinstri grænna sem gengur út á að málið verði áfram á þeim ís sem það er en þjóðin fái að greiða atkvæði um það fyrir næstu kosningar.

Við megum ekki líta svo á að með því höfum við tapað einhverjum slag heldur höfum við mætt sem flestum ólíkum sjónarmiðum út frá stöðunni eins og hún er og blasir við okkur í dag. Það er enginn aumari af því að brjóta odd af oflæti sínu og stundum þurfum við sætta okkur við að niðurstaða máls er önnur en sú sem við helst vildum, því að það er lýðræðið í hnotskurn og eftir því ber okkur að vinna á þingi.

Skýrslan sem við ræddum hér á dögunum er heldur ekki stóri sannleikurinn í þessu umfangsmikla máli. Hann verður aldrei leiddur fram nema með samningi sem þjóðin fær að greiða atkvæði um. Við þingmenn og aðrir getum viðrað spádómsgáfu okkar um það hvernig möguleg niðurstaða gæti orðið en eins og ég hef sagt er það samningur sem hlýtur að vera endanlega niðurstaða með öllum þeim upplýsingum sem við getum tekið afstöðu til. Eins og í kosningum verðum við sjaldan öll alveg sammála niðurstöðunni.

Þeir sem aðhyllast Evrópusambandið halda að sjálfsögðu á lofti því sem þeir telja málstaðnum til framdráttar og hinir sem ekki vilja þangað inn finna því allt til foráttu. Það eru auðvitað kostir og gallar við að koma Íslandi í Evrópusambandið, annað væri einfaldleiki. Ég tel að allir, bæði aðildarsinnar og þeir sem alls ekki vilja ganga í ESB, séu fullmeðvitaðir um að um er ræða ríka hagsmuni fyrir íslensku þjóðina. Sumir tala um fjarlægð frá valdinu og lýðræðishalla en aðrir telja að mesti lýðræðishallinn sé fólginn í því að hafa ekki rödd innan Evrópusambandsins.

Enn aðrir segja að við eigum ekkert erindi í þetta samband burt séð frá því hvort einhverjar sérlausnir sé þar að fá, hvort sem þær varða sjávarútvegs- og landbúnaðarmál eða byggðamálin. Svo eru þeir sem eru sannfærðir um að með inngöngu í ESB séu meiri líkur á að við leysum gjaldeyrismálin, vaxta- og verðbólgumálin og fáum jafnvel í kaupbæti sem þjóð lækkað matarverð o.s.frv.

Það er nefnilega málið að öll sjónarmið eiga rétt á sér og við getum ekki leyft okkur að gera lítið úr andstæðum málsrökum og tilfinningum sem tengjast þessu máli. Þegar öllu er á botninn hvolft held ég að við deilum tæpast um það að aðild að Evrópusambandinu þýðir stóraukið framsal á innlendu valdi til yfirþjóðlegra stofnana. Álitamálið er hvort ávinningurinn af þeirri aðild sé slíkur að hann vegi upp á móti eða réttlæti yfirleitt slíkt valdaframsal. Við erum nú þegar, eins og margoft hefur komið fram í umræðunni, skuldbundin af alls konar samningum sem þegar þýða að við höfum afhent völd í miklum mæli, t.d. í gegnum EES-samninginn.

Eins og ég hef sagt verður þessum málum aldrei fullsvarað nema með samningi og það er ástæðan fyrir því að ég er á móti þeirri tillögu sem hæstv. utanríkisráðherra hefur lagt fram.

Ég geri mér fulla grein fyrir því að ríkisstjórnin og sá þingmeirihluti sem að henni stendur hefur ekki farið leynt með þá skoðun sína að aðild að Evrópusambandinu komi ekki til greina fyrir Ísland, en nú þarf að svara fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu sem var lofað. Margir kjósendur, sérstaklega Sjálfstæðisflokksins, telja sig vera hlunnfarna vegna þeirrar ákvörðunar sem ríkisstjórnin hefur nú tekið. Það kom meðal annars fram í kosningabæklingi Sjálfstæðisflokksins, með leyfi forseta:

„Sjálfstæðisflokkurinn telur hagsmunum Íslands betur borgið utan Evrópusambandsins en innan. Kjósendur ákveði í þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu hvort aðildarviðræðum skuli haldið áfram.“

Þetta er ekkert ósvipað og gerðist í mínum flokki. Við höfum lýst yfir eindreginni afstöðu gagnvart Evrópusambandinu en við höfum líka viljað hafa valdið í höndum þjóðarinnar. Ég held að við getum ekki misskilið það sem þarna kom fram og örugglega ekki þeir sem hafa látið í sér heyra varðandi þessa ákvörðun ríkisstjórnarinnar úr herbúðum Sjálfstæðisflokksins. En eins og við höfum stundum sagt áður: Kannski er loforð aðeins spurning um orðalag eða kannski er þetta allt saman misskilningur og þá ekki sá fyrsti sem þessi ríkisstjórn væri að fást við.

Við þurfum að leiða þetta mál til lykta og tillaga okkar hjá Vinstri grænum er farvegur til þess að gera það. Ef við efnum til þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir lok kjörtímabils eru stjórnmálahreyfingar, eins ólíkar og þær eru margar, með niðurstöðu þjóðarinnar sem leiðsögn fyrir næstu kosningar og við myndun næstu ríkisstjórnar. Hins vegar er stóra spurningin sem pólitíkusar þurfa að svara alltaf sú hvort þeir muni og ætli að virða þann þjóðarvilja sem kemur til með að birtast í slíkri þjóðaratkvæðagreiðslu. Auðvitað ættum við ekki að þurfa að velta því fyrir okkur þegar stór hluti þjóðarinnar hefur nú þegar skrifað undir áskorun þess efnis og tekur líklega þátt í slíkri þjóðaratkvæðagreiðslu, þá á hún að vera veganesti sem við tökum mark á.

Virðulegi forseti. Í lokin vil ég taka fram að þótt ég sé ekki endilega fylgjandi aðild Íslands að Evrópusambandinu þykir mér hugmyndin um viðræðuslit ekki góð. Það er áhugavert að velta fyrir sér að flokkar treysti sér eingöngu til að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu ef þeir telja að niðurstaðan verði þeim þóknanleg. Mér finnst það ákveðið hugleysi gagnvart lýðræðinu og vantraust á dómgreind landsmanna.

Því vil ég eins og félagar mínir sem hér hafa talað hvetja ríkisstjórnina til að taka í þá útréttu sáttarhönd sem felst í tillögu okkar vinstri grænna sem kemur til móts við þau sjónarmið ríkisstjórnarinnar að hún vilji ekki vera í aðildarviðræðum en tryggir um leið aðkomu þjóðarinnar. Samvinna og sátt var það sem núverandi ríkisstjórn sagðist ætla að beita sér fyrir, nú er tækifærið. Ef við ætlum að vera sannfærandi stjórnmálamenn eigum við að halda sjónarmiðum okkar á lofti, vera trú í pólitík okkar og sjá til þess að allt ferlið sé opið og treysta því um leið að þjóðin komist að þeirri niðurstöðu sem hún telur besta fyrir sig. (Forseti hringir.) Í því er enginn ómöguleiki fólginn.



[12:14]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir mjög góða ræðu þar sem hún fór yfir stöðuna í þessu máli. Ég verð að segja fyrir mína parta, herra forseti, að það var furðulegt hvernig þetta mál bar að hér í þinginu. Þetta er mál sem er þvert á loforð, skýr loforð annars stjórnarflokksins og í andstöðu við orð sem hæstv. forsætisráðherra lét falla eftir kosningar. Og þegar maður les skýrsluna sem Hagfræðistofnun vann er ekkert þar sem bendir til þess að það að klára aðildarviðræðurnar ógni hagsmunum Íslands á einhvern hátt. Sjávarútvegurinn er náttúrlega grundvallaratvinnugrein og þar hljótum við að gæta okkar hagsmuna eins vel og við getum og fórnum ekki meiri hagsmunum fyrir minni. Varðandi landbúnaðinn fannst mér nokkuð gefið undir fótinn með að íslenskur landbúnaður gæti unað mjög vel við aðildarsamninginn. Ég gat ekki séð að það væri neitt sem neytendur ættu að hræðast, þvert á móti.

Kannski er stærsta hagsmunamálið í ákveðnu samhengi evran sem er ekki rædd í skýrslunni. Það er því ekkert í skýrslunni sem gefur til kynna að ríkir hagsmunir séu til þess að leggja tillöguna fram á þennan hátt. Það var ekki einu sinni talað við formenn minni hlutans og rætt við þá og sagt: Hér er von á tíðindum.

Ég ætla að leyfa mér, herra forseti, að fílósófera aðeins við hv. þingmann og spyrja í ljósi þeirrar góðu yfirferðar sem hún fór í um (Forseti hringir.) hvað þetta er mikilvægt mál: Hvaða hagsmunir liggi að baki þessari skjótu framlagningu (Forseti hringir.) tillögu um að slíta viðræðunum?



[12:17]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir andsvarið. Ef ég vissi af hverju þessi tillaga kom fram í beinu framhaldi — í rauninni ekki einu sinni í framhaldi, eins og hv. þingmaður kom inn á. Hún kom öllum algjörlega í opna skjöldu sem hér starfa og ef ég vissi af hverju hún kom fram væri ég líklega búin að leysa marga hluti því að það er mjög flókið að komast inn í hugarheim framsóknarmanna, held ég, hvað þeir láta sér detta í hug.

Ég sé enga ógn við það að klára þennan samning og ég hef talað fyrir því að það hefði átt að gera. Ég hef líka sagt að ég tel að allir þeir stjórnmálamenn sem koma að þeirri vinnu sem snýr að þessu máli sem og öðrum, hljóti að leggja sig fram um að fá sem besta samninga fyrir sína þjóð. Annað mundu þeir ekki leggja á borð fyrir þjóðina. Ef við rækjum okkur einhvers staðar á það á einhverjum tímapunkti að við teldum að lengra yrði ekki náð og það sem okkur byðist væri óásættanlegt þá legðum við það fyrir þjóðina og segðum um leið: Við teljum þetta ekki innihalda þá hagsmuni sem við þurfum að standa fyrir og gæta.

Auðvitað getum við, eins og hv. þingmaður sagði áðan, diskúterað fram og til baka það sem við teljum og höldum að geti náðst út úr þessu. En ég tek undir með henni að það var engin ógn sem kom fram í þessari skýrslu og kannski ekkert mjög margt til viðbótar við það sem við þegar vissum. Mér finnst ég ekki vita nóg til þess að taka fullmótaða afstöðu frekar en svo margir aðrir. En það var ekkert sem kom fram í skýrslunni sem ógnar því, þannig að ég get eiginlega ekki áttað mig á því af hverju tillagan er lögð fram að öðru leyti en því að (Forseti hringir.) ný ríkisstjórn er með völdin og hún verður að sýna að hún hafi þau.



[12:19]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef játað það hér í ræðustól að Evrópusambandið er tilfinningamál fyrir mig, ég er mjög hlynnt aðild að Evrópusambandinu. En Evrópusambandið er hagsmunabandalag, ég mundi samþykkja inngöngu í það til þess að vinna að hagsmunum Íslands. Það er augljóst að ég væri ekki tilbúin til þess að ganga inn í samband sem ynni gegn hagsmunum Íslands. En ég sá ekkert í þessari skýrslu sem ógn. Mér finnst svo vont að með þessari tillögu er verið að færa umræðuna í þann farveg að okkur standi einhver ógn af því að klára viðræðurnar í stað þess að líta á þau tækifæri sem felast í því að klára þær.

Það sem er vandi á Íslandi er að við búum í dreifbýlu landi og dreifbýlið er fámennt og við viljum ekki að á Íslandi verði bara byggð á suðvesturhorninu. En það er þróun sem er yfirvofandi og við þurfum alltaf að vera að vinna gegn. Ég sá í skýrslunni tækifæri fyrir Ísland sem blómstrandi byggð og ekki síður hinar dreifðu byggðir. Ég sá í skýrslunni tækifæri fyrir ungt fólk til þess að njóta sambærilegra gæða og ungt fólk í öðrum velmegunarríkjum. Ég sá í skýrslunni auknar líkur á því að ungt fólk vildi búa hér ef við byggjum við betri efnahagsleg skilyrði (Forseti hringir.) og skilyrði ýmissa atvinnugreina. Getur þingmaðurinn tekið undir að það séu fleiri tækifæri fólgin í því að klára (Forseti hringir.) viðræðurnar en að slíta þeim nú?



[12:21]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Umræðan hefur náttúrlega verið eins og við vitum ótrúlega svart/hvít, þ.e. gagnvart þeim sem aðhyllast aðild og þeim sem eru alfarið á móti. Sumir eru kannski tvístígandi en þeirra rödd heyrist síður.

Ég tel tækifæri í því að ljúka samningnum eins og ég hef lýst í þeim ræðum sem ég hef haldið um þessi mál og það er fyrst og fremst vegna þess að þá tel ég að við höfum þær upplýsingar sem við þurfum til að taka ákvarðanir sem byggjast á einhverju raunverulegu en ekki spekúlasjónum einstakra manna.

Ég er ekki endilega viss um að ég hafi lesið það sama út úr skýrslunni og hv. þingmaður um unga fólkið. Þar kemur líka fram töluvert atvinnuleysi og fleira í Evrópuríkjunum. Þrátt fyrir það finnst mér svo mikilvægt að þessi fyrri umræða festist ekki í andstæðum pólum og vil kannski sjá þau sóknarfæri sem ég tel felast í því að ljúka þessu máli.

Það er niðurstaða okkar vinstri grænna að við viljum að við tökum þessa ákvörðun í sameiningu og sátt við þjóðina en ekki að okkar ólíku sjónarmið séu þau einu sem fái þar að ráða. Tækifærin eru til staðar til að ljúka því og skýrslan, eins og ég sagði í ræðu minni, er ekki hinn stóri sannleikur. Það verður líka áhugavert að sjá hvað kemur fram í skýrslunni sem Alþjóðamálastofnun er að vinna og hvort niðurstöður þar verði allt aðrar en þær sem við höfum nú haft sem veganesti í umræðunni.



[12:23]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Þetta er auðvitað algerlega makalaus framkoma af hálfu hæstv. utanríkisráðherra og ríkisstjórnarinnar. Þegar við eigum í samningaviðræðum á alþjóðavettvangi um gríðarlega mikilvæg hagsmunamál, eins og makrílmálið er, og erum í þeirri stöðu að vera með gagnkvæman skilning við Evrópusambandið og frændur okkar Færeyinga að eiga við Norðmenn í átökum eins og svo oft áður um hagsmuni í fiskveiðimálum, þá ákveður ríkisstjórnin að segja hér sundur friðinn, svíkja eigin kosningaloforð, koma inn í þingið með þetta mikla deilumál, reyna að troða því í gegn og ýta öllu öðru af dagskrá og er svo upptekin af þessum leiðangri að á meðan setjast Norðmenn að samningaborðinu án þess að við vitum af því. Síðan les hæstv. utanríkisráðherra um það á internetinu að þjóðirnar sem hann hefur kosið að snúa baki við séu eðlilega búnar að semja á bak við hann, eins og hann segir sjálfur. Allt um það.

Ég vildi nota þetta tækifæri til þess að spyrja hv. þingmann annars vegar, vegna þess að hann er efasemdamaður um aðild að Evrópusambandinu: Hverjir eru mikilvægustu ávinningar sem þingmaðurinn sæi við það að verða aðili að Evrópusambandinu? Og hins vegar: Hvaða hagsmuni óttast hann helst að við getum ekki tryggt í aðildarviðræðum við Evrópusambandið? Er hann í hópi þeirra sem hafa fyrst og fremst áhyggjur af yfirráðum yfir auðlindum okkar og mundu að þeim málum leystum styðja aðildarsamning við sambandið?



[12:25]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég held að við deilum þeirri skoðun að við viljum, eins og ég sagði áðan, ná í samning þannig að þjóðin sjái í rauninni hvað hún hafi að semja um og greiða atkvæði um. Auðvitað má segja að mörg góð mál hafi runnið undan rifjum Evrópusambandsins, eins og í umhverfismálum o.fl. Þaðan hefur margt gott komið.

Þingmaðurinn minntist á auðlindamálin. Það eru þau sem við höfum mestar áhyggjur af. Að því gefnu að við héldum yfirráðum yfir þeim að því marki sem við getum sætt okkur við þá er í sjálfu sér helst fjarlægðin frá þeim stað þar sem ákvarðanir eru teknar sem ég óttast. Þrátt fyrir það erum við að mörgu leyti í dag, eins og ég sagði í ræðunni, þátttakendur í alþjóðastarfi og erum búin að afsala okkur valdi á mjög margan hátt. Það yrði samt sem áður meira um það og þrátt fyrir að við hefðum rödd innan sambandsins er ég ekki viss um að það tryggði okkur endilega að við næðum fram þeim málum sem við þyrftum hverju sinni. Ég hef líka sagt að það sé breytilegt eins og annað í samfélaginu, bæði Evrópusambandið og staða okkar sem þjóðar.

Í sjálfu sér er erfitt að segja hvað maður óttast og hverju maður mundi fagna. Jú, auðvitað mundi maður kannski frekar vera tilbúinn að fagna því ef auðlindamálin næðust í gegn, (Forseti hringir.) en óttinn við að missa samt sem áður tökin á því sem maður þó hefur (Forseti hringir.) fælir frá.



[12:28]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Í rauninni mætti líka orða spurninguna með eftirfarandi hætti: Ef við næðum í aðildarviðræðum við Evrópusambandið fram þeim þáttum sem fram koma í þingsályktunartillögunni, sem við Íslendingar þyrftum að ná fram í viðræðum, og Alþingi samþykkti, væri hv. þingmaður þá stuðningsmaður þess að gerast aðili að Evrópusambandinu?

Ég tek undir með þingmanninum, það er auðvitað grundvallaratriði að við höfum forræði yfir auðlindunum. Mér þykja fjarlægðarrökin vera nokkuð merkileg því að ég hefði haldið að fjarlægðin væri mest þegar við erum ekki til staðar. Í dag erum við ekki til staðar í Evrópusambandinu þar sem ákvarðanirnar eru teknar.

Hæstv. utanríkisráðherra hefur nýverið kynnt stefnu í Evrópumálum þar sem mér skilst að tveir eða þrír fulltrúar okkar eigi að vera á kaffistofunni í Brussel eða á göngunum þar og reyna að fá að vita hvað sé um að vera og reyna að hafa áhrif eftir þeirri leið. Ég hefði haldið að nálægðin við þann stað þar sem ákvarðanir, sem ráða mestu um daglegt líf okkar, eru teknar væri mest ef við værum fullgildur þátttakandi og auðvitað líka vegna þess að um hin stærri mál í heiminum semja orðið tiltölulega fáir á vettvangi heimsmálanna. Evrópusambandið er einn af þeim og meðan við erum ekki aðili að því eigum við enga aðkomu að helstu alþjóðasamningum um stærstu hagsmunamál í heiminum en með aðild að sambandinu fáum við aðkomu að því og getum a.m.k. sagt hver okkar hugur er í málinu þó að við munum auðvitað ekki ein ráða úrslitum mála, eðli málsins samkvæmt.



[12:30]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er stór spurning. Við erum alltaf í einhverjum spekúlasjónum um hvað ef og allt það. Ég hef sagt að ég sé tilbúin að skipta um skoðun í þessu máli sem og öðrum ef eitthvað sem mér hugnast getur réttlætt það. Ef samningurinn yrði mjög ákjósanlegur væri ég a.m.k. tilbúin til þess að gefa því tækifæri, en ég get ekki þar með sagt það hér og nú vegna þess að mér hefur fundist stefna hæstv. ríkisstjórnar, t.d. í fjárlagagerðinni, vera í takti við það sem Evrópusambandið er svolítið að praktísera, þ.e. ískaldan niðurskurð í fjárlögum í staðinn fyrir að fara þá blönduðu leið sem við reyndum að gera á síðasta kjörtímabili. Það er svolítið skondið að ríkisstjórn sem talar hvað mest á móti aðildarsamningnum skuli hegða sér í því stóra máli sem fjárlög ríkisins eru með mjög sambærilegum hætti og gert er í Evrópusambandinu. Það er auðvitað ekki til eftirbreytni.

Eitt af því sem ég óttast hvað varðar inngöngu í þetta samband er að þar með missum við þó þann sjálfstæða rétt sem við höfum með fjárlagagerð okkar sem getur orðið til þess að við sitjum uppi með það sem við gerum núna, þ.e. fjárlagagerð í anda ESB en ekki í anda vinstri manna og félagshyggju sem við stóðum fyrir á síðasta kjörtímabili. Það er eitt af stóru málunum.



[12:32]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Þó að ég sé algjörlega andsnúinn þeirri tillögu sem hér liggur fyrir og hún sé lögð fram á röngum tíma og feli í reynd í sér rangt mat á stöðu Íslands gagnvart umheiminum og sérstaklega rangt tímaskyn hæstv. utanríkisráðherra, því þetta er u.þ.b. vitlausasti tíminn sem hægt er að leggja fram svona tillögu, segi ég samt sem áður að eftir að hafa verið við fjölmargar umræður um utanríkismál sem hafa tengst Evrópusambandinu er sú sem hér hefur staðið síðustu röska viku sú besta. Hún er sú málefnalegasta sem ég hef komið að. Ekki get ég svo sem þakkað hæstv. ráðherra það, því hann hefur mest stritast við að sitja og lítið svarað fyrirspurnum, t.d. um það hvernig menn meta áhrif þessa flumbrugangs á viðleitni hans við að fá fram endurskoðun á EES-samningnum, eða hvort hann telji að það hjálpi okkur eitthvað við að halda áfram undanþágu sem við höfum frá grunnsamningum EES-samningsins um frjálsa fjármagnsflutninga. Nei.

Hins vegar hafa hér margir þingmenn, bæði stjórnarliðsins og ekki síður stjórnarandstöðunnar, flutt ræður sem mér hafa þótt varpa skýrara ljósi á málið. Ég vil sérstaklega þakka þær ræður t.d. sem hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir hefur haldið hér sem hafa verið mjög málefnalegar og tekið vel utan um þau helstu rök sem andstaðan hefur flutt gegn aðildinni.

Það markverðasta sem hefur komið fram á þessum morgni er þó það sem birtist í andsvörum hv. þm. Helga Hjörvars og hæstv. velferðarráðherra fyrr í dag. Þar kom fram í máli hv. þm. Helga Hjörvars sem ég vissi ekki áður að hæstv. heilbrigðisráðherra hefur líka fylkt sér í raðir þeirra forustumanna Sjálfstæðisflokksins sem hafa lýst því skorinort yfir að hafa eigi þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðnanna. Það vissi ég ekki áður. Það var nýtt.

Merkast í þeim samskiptum var sú staðreynd að hæstv. ráðherra sagði að hann teldi að ekkert hefði komið fram sem benti til annars en að það yrði líka raunin þegar upp er staðið. Það er það sem skiptir máli, að þjóðin fái að kjósa um framhald viðræðnanna.

Ég er þeirrar skoðunar að sú mikla reiði sem hefur brotist fram í því að yfir 80% af þjóðinni vilja fá að halda viðræðunum áfram sé af tveimur rótum runnin. Annars vegar vilja menn ógjarnan sjá klippt á þann möguleika sem felst í því að geta haldið viðræðunum áfram og síðan lokið samningum og hugsanlega gengið í Evrópusambandið og tekið upp evruna. Það skapar mikinn kvíða hjá mörgum gagnvart framtíðinni, ekki síst í ljósi þess að núverandi ríkisstjórn hefur ekki lagt fram skýra framtíðarsýn um það.

Hins vegar og ekki síst tel ég að reiðin sé spunnin af þeim toga að menn ætlast til þess að íslenskir stjórnmálamenn standi við orð sín. Það liggur fyrir að sex ráðherrar hafa nú orðið uppvísir að því að standa ekki við orð sín. Það er það sem þarf að slétta út af borðinu.

Herra forseti. Þegar ég segi að þessi tillaga sé ekki rétt tímasett er margt sem hægt er að færa því til sterkra röksemda. Í fyrsta lagi tel ég að núna blasi við það meginverkefni að afnema gjaldeyrishöft. Það er ekkert sem ríkisstjórnin hefur sagt eða gert sem bendir til að hún hafi fullmótaða áætlun um það. Ég er þeirrar skoðunar að tryggasta leiðin til að afnema gjaldeyrishöftin sé að gera það í samvinnu við Evrópusambandið og halda viðræðum áfram. Það er kannski gildasta röksemdin.

Önnur röksemd og skyld þeirri fyrstu er sú staðreynd að með því að halda viðræðunum áfram getum við tiltölulega fljótt eftir að aðild hefur verið samþykkt komið krónunni í skjól, nánast með því að ganga inn í fordyri evrunnar þegar við verðum aðilar að gjaldmiðlasamstarfi Evrópusambandsins. Það felur í sér að Evrópski seðlabankinn styður við krónuna á tilteknu viðmiðunargengi. Þá strax munu vextir lækka og staðan verða miklu betri og traustari. Það skiptir máli að komast í þetta skjól.

Í þriðja lagi er síðan sá möguleiki að geta tekið upp evruna sjálfa. Við höfum séð að þrátt fyrir þær hremmingar sem hafa gengið yfir Evrópusambandið og evrulöndin styrktist evran. Stóru þjóðirnar eru nú í óðaönn að færa gjaldeyrisvaraforða sína yfir í evruna. Það er löggilt heilbrigðisvottorð um að þær líta á hana sem traustan framtíðarmiðil. Það sem var merkilegast á meðan mestur gusugangurinn gekk yfir Evrópusambandið fyrir nokkrum missirum var að evran styrktist gagnvart öllum helstu gjaldmiðlum heimsins. Hún hefur því sýnt sinn styrk.

Í fjórða lagi munu auðvitað vextir hér smám saman lækka ef við tækjum upp evruna. Íslandsálagið, það álag sem við greiðum krónunnar vegna, er metið um 3–4%. Ef við reiknum með 3% vaxtalækkun á einhverju tilteknu árabili þýðir það, þegar tekið er allt saman, að lækkun greiðslubyrði heimila, hins opinbera og ríkissjóðs, fyrirtækja í landinu, nemur samtals 230 milljörðum kr. á ári. Þetta skiptir allt miklu máli.

Í fimmta lagi skiptir máli að ef við færum þessa leið þyrftum við ekki að búa með þann stóra gjaldeyrisvarasjóð sem við höfum allan að láni. Það eitt og sér mundi skipta tugum milljarða í lægri kostnað ríkissjóðs á hverju ári.

Í sjötta lagi blasir við að út af núverandi höftum, og hefur það komið fram nýlega í máli Viðskiptaráðs, töpum við andvirði útflutnings á hverju ári vegna haftanna sem nemur 80 milljörðum kr. á ári í útflutningsverslun. Þetta skiptir mjög miklu máli.

Í sjöunda lagi tel ég að eitt af því sem er draumur núverandi ríkisstjórnar og reyndar stjórnarandstöðu líka, að afnema verðtrygginguna, gerist sjálfkrafa þegar menn eru búnir að vera svolitla stund í hinu nýja bandalagi sameiginlegrar myntar. Það er einfaldlega þannig. Þá gæti sá ágæti prestssonur sem úti í sal hlær, hv. þm. Höskuldur Þórhallsson, glaðst, vegna þess að hann er einn af þeim sem hafa verið sorgmæddir upp á síðkastið yfir því fíaskói sem birtist okkur þegar ríkisstjórnin ætlaði að afnema verðtrygginguna og hafði ekki meira upp úr því krafsi en að festa hana í sessi.

Í áttunda lagi er ég þeirrar skoðunar að þetta muni opna nýja möguleika fyrir íslenskan sjávarútveg. Til dæmis munu falla niður allir þeir tollar sem enn þá eru á útflutningi sjávarfangs, sérstaklega uppsjávarfisksins. Miðað við hvernig veiði á honum og uppsjávartegundunum hefur þróast þýðir það 20 milljarða í þjóðarbúið í formi tollaafnáms.

Þess utan, í níunda lagi, mun þetta opna möguleika fyrir nýja tegund af framleiðslu á Íslandi sem við sjáum hafa sprottið upp í litlum framleiðslufyrirtækjum víðs vegar um landið sem framleiða tilbúna rétti fyrir innanlandsmarkað. Tollmúrar á tilbúnum réttum á Evrópusambandið eru ókleifir. Um leið og þeim múrum yrði rutt úr vegi mundi það leiða til þess að t.d. fyrirtæki eins og hinn vinsæli Grímur kokkur, sem ég og ýmsir aðrir sem stundum þurfum að hafa hratt á hæli til þess að grípa í kvöldmatinn notfærum okkar, mundu á tiltölulega fáum árum geta orðið að stórveldi í Evrópu.

Í tíunda lagi: Hvað þá með hina ungu bændasyni þessa lands? Gætu þeir ekki horft glöðum, björtum augum til framtíðarinnar innan Evrópusambandsins? Að sjálfsögðu. Þar er að vaxa eftirspurn eftir hágæðavöru úr landbúnaði sem Íslendingar geta svarað. En til þess þurfum við afnám tolla.

Eitt af viðfangsefnum hæstv. utanríkisráðherra þessa dagana er að reyna að ná hærri tollkvótum á Evrópusambandið. Af hverju? Vegna þess að eftirspurnin er mikil og framleiðslan er fyrir hendi. Þannig að ég held því fram að innganga og aðild Íslands að Evrópusambandinu yrði mikil lyftistöng fyrir bændur, sérstaklega fyrir unga bændur sem hafa augun á framtíðinni og eru búnir að stúdera þetta vel.

Ég gæti haldið áfram nokkuð, herra forseti, en ég ætla að láta hér staðar numið. Þó vil ég segja að sú skýrsla sem hefur verið grundvöllur þessarar umræðu, skýrsla Hagfræðistofnunar, hefur komið mér þægilega á óvart. Hún hefur sýnt algjörlega skýrt, og vísa ég þá í kafla 14 í viðauka Stefáns Más Stefánssonar, að vissulega er það þannig að þegar umsóknarríki leggur inn umsókn verður það að meginreglu að gangast undir það að taka upp regluverkið á hinum sameiginlegu sviðum, en eins og prófessorinn sýnir svo skýrt fram er hægt að fá sérlausnir, við höfum nú þegar fengið eina í samningunum fram að þessu. Skýrslan sýnir að það er hægt að fá sérlausnir í sjávarútvegi sem svara okkar þörfum svo fremi sem þær séu skýrt skilgreindar.



[12:42]
Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aldrei þessu vant var mér ekki hlátur í huga þegar ég hlustaði á ræðu hv. þingmanns, brosti þó í kampinn þegar hann sagði að það væri draumur stjórnarandstöðunnar að afnema verðtrygginguna og ég býst þá við að ríkisstjórninni verði veittur fullur stuðningur í þeim efnum, skiptir engu máli hvort það verður gert við núverandi gjaldmiðil eða einhvern annan.

Það sem ég velti hins vegar fyrir mér er það ferðalag sem hófst hér sumarið 2009 þegar ákveðið var að sækja um inngöngu í Evrópusambandið. Nú kemur fram í skýrslunni sem hv. þingmaður vísaði í að það hafi tekið tvö ár að hefja efnislegar umræður. Það er ótrúlegt í ljósi þess að fullyrt var að viðræðurnar sjálfar mundu taka í mesta lagi 18 mánuði.

Ég spyr hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra sem hélt svo hönduglega á málum: Hvað stóð í vegi fyrir því að hefja efnislega umræðu á öllum þessum tíma?

Mig langar líka að spyrja af því hann minntist á unga bændur. Hann sagði að tollvernd yrði kannski ekki eitt af því sem við mundum fá. Af hverju lá samningsafstaða Íslands ekki fyrir þegar hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra ákvað að setja málið í salt fyrir um ári síðan? Hvað stóð í vegi fyrir því að samningsafstaða Íslands lægi fyrir áður en gert var hlé á umræðunum?



[12:45]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Eins og fram kemur í kafla sem ritaður var af einum af ágætum félögum hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar lá samningsafstaðan fyrir. Það var einfaldlega þannig. Hún hefur verið send utanríkismálanefnd af hæstv. utanríkisráðherra að beiðni eins nefndarmannsins. Þannig að bæði varðandi sjávarútveg og landbúnað lágu þessar samningsafstöður fyrir. Að því er sjávarútveginn varðaði var hún ágreiningslaus. Að því er varðaði samningsafstöðuna í landbúnaði var ágreiningur við bændur. Þeir lögðu fram sex eða sjö rauðar varnarlínur sem þeir kölluðu svo. Við töldum að við hefðum svarað öllum nema einni, hún laut að nákvæmlega þessu tiltekna atriði. Um það er fjallað í viðauka Ágústs Þórs Árnasonar, aðjúnkts við Háskólann á Akureyri, svo að það liggi algjörlega skýrt fyrir. Það er alveg rétt að ágreiningur var um tollverndina.

Hv. þingmaður sagði réttilega að gert hefði verið ráð fyrir 18–24 mánaða viðræðutíma. Þannig lagði ég það upp að þegar væri komið í viðræðurnar mundi það taka þann tíma eins sérfræðingar Evrópusambandsins og stækkunarstjórinn lögðu það upp, þ.e. 18 mánuði. Hv. þingmaður finnur ekkert í áliti meiri hlutans um annað. Það lá alveg klárt fyrir samkvæmt þeim reglum sem samþykktar voru 2006 af Evrópusambandinu að það þyrfti tiltekna undirbúningsvinnu áður, gríðarlegum fjölda spurninga þurfti að svara, sömuleiðis rýnivinnu sem við töldum að vísu að við mundum geta fengið nokkra undanþágu frá og fengum að því er varðaði EES-kaflana — þar var bara einn rýnifundur í staðinn fyrir tvo ella.

Það breytir því ekki að við komumst ekki í það að fara í þessa tvo kafla. Ég ætla ekki að rifja upp hér hvað olli ágreiningnum og töfinni í landbúnaðinum, hv. þingmaður veit það. Hitt get ég sagt honum, eins og kemur fram í skýrslunni, að það var (Forseti hringir.) fyrst og fremst tvíhliða deila um makrílinn sem olli því að ekki tókst að koma fram rýniskýrslu af hálfu Evrópusambandsins. Þar af leiðandi var okkur ekki boðið (Forseti hringir.) að leggja fram tilbúna samningsafstöðu.



[12:47]
Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mjög skýrt í meirihlutaáliti utanríkismálanefndar frá síðasta kjörtímabili að viðræðurnar ættu að taka mjög skamman tíma. (Gripið fram í: Nei.) Nú er fullyrt að fyrst hafi átt að fara fram einhver undirbúningsvinna. Af hverju koma menn ekki og segja bara hreint út að það var um aðlögun að ræða? Það tók tvö ár að hefja efnislegar umræður og kaflarnir sem var talað sérstaklega um í áliti utanríkismálanefndar að yrði að skoða fyrst og fremst, landbúnaðarkaflinn og sjávarútvegskaflinn, voru óopnaðir. Auðvitað fjallar þetta um tollvernd og auðvitað fjallar þetta um að það er ekki samstaða á Íslandi um hver samningsmarkmiðin eigi að vera. Þar liggur hundurinn grafinn.

Í þeirri skýrslu sem hinn ágæti (Gripið fram í: Aðjúnkt.) aðjúnkt við Háskólann á Akureyri lagði fram kemur einmitt (Forseti hringir.) fram að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hafi sagt í bréfi að því miður væri mjög ólíklegt að við næðum einhverju (Forseti hringir.) samkomulagi um tollverndina. Um leið getum við sagt (Forseti hringir.) að það liggi fyrir um hvað (Forseti hringir.) samið var og um hvað var ekki samið.



[12:48]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Ekki er þetta alveg rétt munað hjá hv. þingmanni. Það segir ekkert um þetta í viðaukanum. Það liggur algjörlega skýrt fyrir hver var afstaða meiri hluta utanríkismálanefndar og síðan meiri hluta þingsins varðandi tollverndina. (HöskÞ: Annað segir skýrslan.) — Nei, þetta er tollabandalag. Í því felst að tollverndin fellur niður við aðild.

Þetta er sagt algjörlega skýrt í áliti meiri hlutans. Síðan er sagt þar líka að einmitt út af því þurfi sérstaklega að taka á hagsmunum einstakra greina. Þar er mjólkuriðnaðurinn nefndur alveg sérstaklega. (Gripið fram í: Engin …) — Nei. Til þess að … (HöskÞ: Engar sérlausnir?) — Jú, sérlausnir um með hvaða hætti ætti síðan að koma fram stuðningi við bændur, en það er önnur saga. (Gripið fram í.) Engin sérlausn var um tollverndina að því marki nema það átti að borga hana bændum beint í staðinn fyrir að neytendur borgi bændum í hvert skipti sem þeir kaupa landbúnaðarvarning við kassann. Þetta var algjörlega skýrt af formanni þáverandi utanríkismálanefndar, hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni, sem skrifaði grein til þess að slá þetta í gadda.



[12:50]
Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir ræðu sína, innblásna að venju. Þar voru miklir kostir Evrópusambandsins tíundaðir í mörgum liðum svo þar draup nánast smjör af hverju strái.

Mig langar að spyrja hv. þingmann aðeins um þær deilur og þá gagnrýni sem hefur verið á Evrópusambandið, ekki síst frá vinstri væng stjórnmálanna vegna viðbragða framkvæmdastjórnar sambandsins við evrukrísunni, um þá stefnu sem framkvæmdastjórnin hefur tekið að standa fyrir. Hún hvetur til mjög mikillar niðurskurðarstefnu sem meðal annars birtist þegar Frakklandsforseti, vinstri maðurinn sem gegnir því embætti, François Hollande, lenti í deilum við framkvæmdastjórnina því að hann vildi fremur fara þá leið sem sú ríkisstjórn sem við hv. þingmaður áttum bæði sæti í fór, þ.e. hina blönduðu leið tekjuöflunar og niðurskurðar. Frakklandsforseti fékk fyrir það ákúrur frá Evrópusambandinu sem vildi fremur horfa til niðurskurðar ríkisútgjalda. Nú er það eitthvað sem er ekki á valdi Evrópusambandsins, ekki enn þá alla vega, að ákveða hvernig nákvæmlega ríkisfjármálum er háttað en þetta hefur hins vegar líka verið krafan, og Evrópusambandið gagnrýnt harkalega fyrir það, í þeim ríkjum sem hafa þurft á aðstoð sambandsins að halda.

Auðvitað eru aðstæður þar talsvert mismunandi þannig að ekki er auðvelt að leggja öll þau ríki að jöfnu sem hafa þegið slíka aðstoð og björgun Evrópusambandsins.

Hvert er mat hv. þingmanns? Telur hann að Evrópusambandið, sem vissulega hefur sína kosti, hafi hreinlega færst of langt til hægri og horfið frá þeim félagslegu sjónarmiðum sem einkenndi um margt ákvarðanatöku þar með því að fylgja þeirri hörðu niðurskurðarpólitík sem hv. ríkisstjórn sem nú situr á Íslandi hefur líka tekið upp?



[12:52]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þessi spurning tekur á kjarna Evrópusambandsins og sveigjanleika þess. Ég tel ekki að Evrópusambandið hafi horfið frá sínum upprunalegu félagslegu gildum, sem aftur eru sennilega andlag þeirrar sterku andstöðu sem er að finna meðal hægri vængsins á Íslandi gegn Evrópusambandinu. Ég tel að félagsleg vernd í krafti þess og ávinningar sem launþegahreyfingar hér á landi og annars staðar hafa notið sé enn í góðum gangi.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að um skeið fylgdi Evrópusambandið svipaðri stefnu og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn um það hvernig ríki ættu að bregðast við kreppu og fjárhagserfiðleikum. Það má segja að viðsnúningur á þeirri þróun á heimsvísu hafi hafist hér á landi þegar íslensku ríkisstjórninni tókst með sannfærandi rökum að fá AGS til þess að breyta afstöðu sinni um hvernig ætti að ráðast gegn þeirri stöðu sem var komin upp hér. Það gekk upp og í kjölfarið, sérstaklega eftir að Christine Lagarde tók við hjá sjóðnum gjörbreyttist stefnan. Þetta smitaði til Evrópu. Fyrst, eins og hv. þingmaður sagði, með kvörtunum Hollande, forseta Frakklands. Að lokum breytti hann og fleiri viðhorfi Evrópusambandsins.

Það kom síðan fram með beinhörðum hætti í því að löndum eins og Portúgal, Spáni, Írlandi, hugsanlega fleirum, var veittur lengri frestur til þess að ná fram markmiðum sínum, ekkert ósvipað og við sömdum um hér á sínum tíma. Þetta hefur leitt til þess að það má segja að Evrópusambandið hafi í reynd horfið frá því sem, með leyfi forseta, má á ensku kalla „austerity policy“. Menn eru orðnir sér meðvitaðir um að mikilvægt er á svona tímum að ríkissjóður haldi áfram að setja peninga, bæði á hina félagslegu hlið en líka fjárfesta í innviðum til þess að skapa störf og veltu (Forseti hringir.) og velmegun.



[12:54]
Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það er mat mitt að í þá skýrslu sem Hagfræðistofnun skilaði og var til umræðu í þarsíðustu viku vanti í raun og veru alla umfjöllun um þetta. Mig langar að inna hv. þingmann eftir því, því að hann situr í hv. utanríkismálanefnd, hvort ekki sé öruggt að nefndin muni taka fyrir þessa vídd. Það er ánægjulegt að heyra að hann telji að orðið hafi ákveðin áherslubreyting hjá Evrópusambandinu. Ég held að það sé eitthvað sem skiptir máli að taka til umræðu í tengslum við skýrsluna.

Tími minn er stuttur en mig langar að spyrja hv. þingmann. Þær kröfur sem við verðum vör við núna sem tengjast þessu máli snúast ekki fyrst og fremst um Evrópusambandið heldur að þjóðin hafi um það að segja hvernig málinu verður fram haldið. Telur hv. þingmaður að eitthvað sé hægt að vinna með þá tillögu sem við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum lagt fram til að ná efnislegri (Forseti hringir.) sátt á Alþingi um þetta mál?



[12:55]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. utanríkismálanefnd hefur ekki enn þá gefið sér tóm frá mikilvægum verkefnum sínum, eins og t.d. að rannsaka hugardjúp Garrís Kasparovs heimsmeistara í skák, til að ræða þau mál. Ég get á þessari stundu ekkert sagt um það hvar einhvers konar sátt kynni að liggja í loftinu. Það er ekkert ómögulegt í þessum heimi. (Gripið fram í: Hvað segirðu?) Ég er sjálfur þeirrar skoðunar að æskilegast sé að þjóðin fái sem fyrst að kjósa um framhald viðræðna. Ég er eins og obbi þjóðarinnar mjög forvitinn um samningana. Ég er auðvitað eldheitur Evrópusinni, en ég vil ekki aðild út á hvað sem er. Ég er einfaldlega einn af þeim sem þurfa að kíkja í pakkann. Ég hef aldrei lokið nokkrum samningi, en mörgum lokið um ævina, án þess að bíða þangað til ég sé endaafurðina til þess að gera almennilega upp hug minn um hvort hún sé ásættanleg.

Varðandi spurningu hv. þingmanns um hvort þeir þættir sem hún ræddi verði ræddir í nefndinni hygg ég að ég megi segja já. Það hefur verið rætt að þetta (Forseti hringir.) sé einn af þeim þáttum sem við þurfum að rannsaka af því að þá er hvergi að finna í núverandi skýrslu. Ég veit að hinn góði formaður með aðstoð hæstv. forseta mun sjá til þess að við náum því fram að fá að veiða fram upplýsingar (Forseti hringir.) sem því tengjast. Ég bið hæstv. forseta afsökunar á því að reyna svona á þolrif hans.



[12:57]
Forseti (Kristján L. Möller):

Forseti biðst afsökunar á því að hafa fært hv. þingmann um eitt sæti og ávarpað hann sem 3. þm. Það er víst rétt að hann er 4. þm. Reykv. n.