143. löggjafarþing — 75. fundur
 13. mars 2014.
umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka, frh. fyrri umræðu.
stjtill., 340. mál. — Þskj. 635.

[16:08]
Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Hér hefur verið til umræðu þingsályktunartillaga um að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu og um eflingu samstarfs við Evrópusambandið og Evrópuríki. Ég get tekið undir seinni hluta þessarar fyrirsagnar, um eflingu samstarfs við Evrópusambandið og Evrópuríki, en ég get ekki tekið undir fyrri hlutann. Ég hef áður lýst skoðun minni á þessu aðildarferli og ítreka hér andstöðu mína við þá tillögu að draga umsóknina til baka.

Þar ber margt til. Eitt er það að mér finnst tillagan afskaplega illa fram sett. Hún er eins og plokkfiskur á lélegu veitingahúsi sem er hent framan í gestina og sagt: Étt´ann.

Tillagan er ekki margorð en í athugasemdum er langur kafli sem mér virðist tekinn upp úr gamalli skýrslu. Tillagan getur tæpast byggt á þeirri skýrslu sem Hagfræðistofnun vann og skilaði hér fyrr í vetur.

Það sem er kannski dapurlegast við þetta er að skýrslan sjálf byggist ekki á nokkru einasta hagsmunamati en ég tel eðlilegt að þegar svona stór ákvörðun er tekin liggi fyrir hagsmunamat. Hverjir eru þeir hagsmunir? Þeir eru í raun lífsgrundvöllur okkar í landinu, þ.e. atvinna okkar sem hér erum og framtíðarinnar. Ef til vill má segja að þegar hagsmunamat er gert og þegar menn spá í framtíðina sjái menn kannski ekki alltaf rétt. Ég er með í höndunum Islands udvikling og økonomiske fremtids betydning frá 1918. Þá var heildarútflutningur landsmanna um 60 þús. tonn. Mér sýnist við fljótan lestur aðallega reiknað með því að flutt sé út smjör og kindakjöt. Sú hefur hins vegar ekki orðið raunin.

Ég er í eðli mínu friðarsinni. Það getur vel verið að einhverjum finnist stundum ófriður af mér, en friðarsinni er ég samt. Ég hef dálítið velt fyrir mér þeim styrjöldum sem háðar hafa verið í Evrópu á umliðnum öldum og þeim styrjöldum sem náðu til Íslands. Í fljótu bragði man ég eftir því að gerðar hafi verið tvær loftárásir á Ísland, önnur á bæ sem gat kannski talist hernaðarlega mikilvægur á þeim tíma, Seyðisfjörð, en hin var á Breiðdalsvík. Sú árás var hreint grimmdarverk.

Síðan 1945 hefur ríkt friður í Evrópu, a.m.k. í henni vestanverðri. Grundvöllur þess friðar er tvenns konar, annars vegar NATO og hins vegar Evrópusambandið í ýmsum myndum, frá Kol- og stálsambandinu, Efnahagsbandalaginu o.s.frv. Ég tel að það hafi verið mikill áfangi í friðarviðleitni, þar sem aldrei voru gerðir friðarsamningar, að stofna Sambandslýðveldið Þýskaland í friði. Ég hef margoft sagt þegar ég hef verið spurður hvort aldrei hafi gerst neitt skemmtilegt í mínu lífi: Jú, það gerðist einu sinni eitt afskaplega skemmtilegt. Það var þegar ég átti dag með dr. Max Adenauer, syni kanslarans, og ég hef oft hugsað til hlýjunnar í nánd þess manns. Því miður lifði ég það ekki að hitta kanslarann sjálfan sem hefði kannski verið mikil upplifun. (ÁÞS: Eina skiptið sem var skemmtilegt?) Ja, það hafa ekki alltaf verið gleðidagar á þingi, skal ég segja þér, hv. þingmaður.

Ég nefni þetta sérstaklega vegna þess að frumherjar Evrópusambandsins voru friðarsinnar og töldu eðlilegt að reyna að stofna til friðar með öðrum hætti en áður þar sem gerðir voru þvingunarsamningar, friðarsamningar sem ekki voru efndir. Eins og ég sagði áðan var NATO stofnað um svipað leyti og Kol- og stálsambandið fór af stað. Þá var raunveruleg vá fyrir dyrum, vá þess efnis að Sovétríkin mundu gera innrás í Vestur-Evrópu. Henni var afstýrt. Það sem gerðist hins vegar þegar Sovétríkin liðuðust í sundur var að nánast öll lönd Austur-Evrópu gengu í NATO alveg eins og þau hafa gengið í Evrópusambandið.

Nokkrir nýbúar frá þessum slóðum hafa komið að máli við mig vegna þessarar afstöðu sem þeir hafa frétt af og sagt að þjóðir þeirra og lönd hafi fyrst fengið fullt frelsi þegar þau gengu í Evrópusambandið og NATO.

Ég ítreka enn og aftur að ég er Evrópumaður og ég fæ ekki svör við því í þessari skýrslu af hverju ætti að draga umsóknina til baka. Ekkert er fjallað um stöðu samninga og þeir þrír málaflokkar sem hafa verið taldir skipta sköpum, landbúnaður og byggðamál, sjávarútvegur og gjaldmiðilsmál, eru ekki ræddir í þessari skýrslu svo neinu nemi, a.m.k. ekki samningsafstaða Íslands. Um hana spurði ég en fékk ekki svör sem hægt er að birta. Ég spurði hæstv. utanríkisráðherra í fyrirspurn fyrr í vetur og fékk um það svör sem ekki er hægt að birta. Ég hef hins vegar átt viðræður við aðila sem ég treysti, innlenda sem erlenda, og þeir telja að sjávarútvegurinn verði ekki sú fyrirstaða sem allir hafa talað um.

Að vísu bar það til í gær og í dag að við vorum ekki sammála Evrópusambandinu út af samningi sem gerður hefur verið um makríl. Það kann að vera að ekki séu alltaf sættir í hjónaböndum en þá þarf að vinna úr því. Við höfum byggt upp sjálfbærar veiðar á stofnum innan okkar lögsögu og reynt að koma í veg fyrir offjárfestingu. Íslenskur sjávarútvegur hefur hér um bil alltaf lifað án niðurgreiðslna ef frá eru taldar gengisfellingar sem hafa verið gerðar til hagsbóta fyrir greinina. Síðast en ekki síst höfum við komist hjá brottkasti.

Í landbúnaðarmálum er mér alveg óskiljanlegt hver ógnin ætti að vera. Töluverð ógn beinist nú þegar að landbúnaði sem er um það bil 0,5% af landsframleiðslu. Þeir sem hafa til þess burði ættu að skoða hvernig afkoman er í þeirri grein því að hún þarf líklega að taka sig taki hvar sem hún lendir.

Ég ætla að eyða síðustu mínútunum sem ég hef í að segja að þetta kemur kannski ekki á óvart vegna þess afstaða Framsóknarflokksins til alþjóðlegrar samvinnu hefur ekki alltaf verið upp á marga fiska. Framsóknarflokkurinn er í meginatriðum einangrunarhyggjuflokkur … (Utanrrh.: Þetta er rangt, Vilhjálmur.) (Gripið fram í: Þetta er ekki rétt.) (Utanrrh.: Skammastu þín.)

(Forseti (ValG): Ég bið þingmenn að virða …)

Við getum rifjað upp afstöðu Framsóknarflokksins í þeim efnum sem ég hef nokkurn veginn í kollinum, t.d. afstöðu Framsóknarflokksins til EFTA á sínum tíma, ég er með hana alveg í kollinum.

Hvað um það, það er ýmislegt fleira sem ég þarf að ræða hérna en ég var truflaður í miðjum klíðum og tíminn er að renna út.

Ég ætla aðeins að segja að fullveldi er ekki bara það að standa einn og sjálfur heldur er fullveldi líka það að geta samið um framtíð sína. Engin þjóð er eyland og við þurfum að geta samið okkur til réttlætis. Við höfum sótt margt gott til útlanda. Ég segi eins og Jón Hreggviðsson sagði einu sinni þegar honum var ofboðið: Vont er þeirra ranglæti, verra þeirra réttlæti. (Forseti hringir.)

Ég hef lokið máli mínu.



[16:18]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni og jafnframt fagna því að stjórnarsinni komi hér í ræðustól og ræði þessa þingsályktunartillögu sem hér er rætt um — þó að ekki eigi endilega að beina því til sjálfstæðismanna, þeir hafa þó fáir tekið þátt en hrópandi er afstaða framsóknarmanna sem láta ekki sjá sig í þessari umræðu.

Hv. þingmaður lýsti þessari þingsályktunartillögu sem lélegum plokkfiski á lélegu veitingahúsi. Það eru kannski orð að sönnu en mig langar í þessu örstutta andsvari að spyrja hv. þingmann aðeins nánar út í tvo þætti sem stjórnarsinnar leggja hvað mesta áherslu á, og telja að þar sé ekki hægt að ná neinum samningum eða sérlausnum, þ.e. út í landbúnaðarmál og sjávarútvegsmál. Hv. þingmaður nefndi reyndar að sjávarútvegsmál væru ekki fyrirstaða. Vonandi er það svo og ég minni á kaflann í skýrslunni um breytta sjávarútvegsstefnu sem kemur mjög að stefnu Íslendinga, m.a. um sjálfbærar veiðar o.s.frv. þó að tíðindi dagsins skjóti skökku við.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í landbúnaðarmál. Skýtur það ekki skökku við og er ekki einhvers staðar holrúm í málflutningi þeirra sem óttast innflutning á landbúnaðarvörum að staðan er sú að lengi hefur verið fluttur inn kjúklingur? Sagt er að þeir séu stundum þíddir upp og settir í einhverjar kjúklingabollur. Nú er staðan sú að ekki er til nautahakk í landinu þannig að það kemur frá Spáni en hér á verði sem er ekkert lægra en á innlendu nautahakki. Ofurtollar eru lagðir á til verndar þessum innflutningi. Mig langar að spyrja hv. þingmann aðeins betur út í þá einangrunarstefnu sem hann nefndi áðan sem ákveðinn flokkur hefur. Er þetta ekki gott dæmi um einangrunarstefnuna?



[16:20]
Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég biðst afsökunar á að hvað ég gekk hratt í pontu, ég ætla aðeins að svara: Hv. þingmaður, jú, þetta er gott dæmi um einangrunarstefnu.

Ég ætla ekki að lengja mál mitt.



[16:21]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þetta svar. Þetta er sú stefna sem rekin er og ég tók eftir því að hér ókyrrðust nokkrir þingmenn í salnum þegar hann talaði um þessa einangrunarstefnu og Framsóknarflokkinn í þeim efnum. Það verður gaman að heyra í andsvari á eftir hvað framsóknarmenn segja við þessu og hvernig þeir ætla að bera það til baka að þetta sé rétt.

Í seinna andsvari langar mig að spyrja hv. þingmann út í afstöðu nokkurra þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem gegna allir um þessar mundir ráðherrastöðu. Mjög oft hafa verið spiluð fyrir landsmenn þau loforð sem sjálfstæðismenn, núverandi hæstv. ráðherrar, settu fram fyrir kosningar þar sem því var lofað að flokkurinn mundi beita sér fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort halda ætti áfram eða ekki.

Ég hef sagt að þetta sé sú mesta samstaða sem hægt sé að ná á Alþingi í raun og veru um þetta mál, þessi tillaga (Forseti hringir.) um þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort halda eigi áfram. Hver eru sjónarmið varðandi það sem sjálfstæðismenn sögðu hér áður: Orð skulu standa o.s.frv.?



[16:22]
Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef lagt það í vana minn að svara ekki fyrir aðra. Ég tel rétt að þingmaðurinn beini þessari fyrirspurn til þeirra sem hann telur að hafi gefið þessi loforð.

Ég ætla ekki að svara þessu á annan veg. (KLM: En þetta eru forustumenn Sjálfstæðisflokksins.) Já, já, ég svara ekki fyrir þá, ég svara fyrir mig. Ég fór í þessa kosningabaráttu sem ég háði á þeim forsendum sem ég hef lesið hér á síðustu mínútum. Ég svara ekki fyrir aðra.



[16:23]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er ansi stuttur tími sem þingmönnum gefst hér til að ræða þessa tillögu. Ég hefði gjarnan viljað heyra meira af sjónarmiðum hv. þm. Vilhjálms Bjarnasonar enda er hann sérfræðingur í fjármálamörkuðum. Hann veit ýmislegt um atvinnuhætti og er einstaklega sögufróður.

Við hv. þingmaður erum sammála um að við viljum fá að sjá samning. Hann fór ágætlega yfir það að Evrópusambandið er svo margt. Það er friðarbandalag. Það er samband þjóða sem tilheyra Evrópuálfu og eiga ýmislegt sameiginlegt í menningarlegu tilliti þó að þessi 28 ríki séu auðvitað mjög ólík innbyrðis og eigi mjög ólíka sögu og menningu. Það eru atvinnuhagsmunir sem felast í því að fara í Evrópusambandið, það eru hagsmunir varðandi gjaldmiðilsmál og aðild okkar að Evrópusambandinu tengist mjög fullveldishugtakinu. Þá getum við deilt um það hvort fullveldi okkar sé betur borgið utan sambandsins, sem aðilar að EES, eða hvort það sé einmitt leið til að styrkja fullveldið að vera innan Evrópusambandsins og hafa þar af leiðandi meiri áhrif á það regluverk sem við ætlum að innleiða hér á landi.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann af því að hann hefur tekið þá afstöðu, ég veit að það gerðist ekki við framlagningu þessarar tillögu, að telja mikilvægt að við ljúkum aðildarviðræðunum: Hverjir eru mikilvægustu hagsmunir Íslands í því að við náum að ljúka þessum aðildarsamningi?



[16:25]
Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hagsmunir eru margir og mikilvægir og það er erfitt að spyrja að því hverjir séu stærstir. Eitt er það til dæmis að gjaldmiðill vor, krónan, hefur verið okkur dálítið þungur baggi. Kannski kostar krónan okkur um það bil 80–150 milljarða á ári. Ef hún kostar okkur 80–100 milljarða á ári þá dregur hún úr getu til að byggja upp hér sem því nemur.

Ég horfi nú töluvert mikið til fjármálamarkaðarins, ég verð að viðurkenna það, en ég á ekki nema sex sekúndur eftir þannig að ég ætla ekki að ræða þetta frekar. Ég hef lokið máli mínu.



[16:26]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Vissulega eru gjaldmiðilsmálin, ég tek undir það með hv. þingmanni, mjög knýjandi. Það eru miklir hagsmunir að sjá hvort við getum ekki innleitt nýjan gjaldmiðil á Íslandi, í okkar litla og opna hagkerfi.

Evrópusambandið er auðvitað margt og ég veit ýmislegt um það. En það er líka stórt samband með 28 mismunandi ríkjum og það er ekkert allt gott innan þess. Það er samt sem áður vettvangur þar sem 28 ríki hafa ákveðið að vinna sameiginlega að framfaramálum í álfunni og reyna að leysa deiluefni við samningaborðið í stað þess að fara í stríð eins og löngum tíðkaðist í álfunni.

Ég vil spyrja þingmanninn um þá efnahagserfiðleika, sem riðið hafa yfir Evrópu, hvort kannski hefði verið erfiðara að leysa þá án evru og án Evrópusambandsins.



[16:27]
Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú býsna erfitt að svara þessari spurningu. Það voru náttúrlega ýmsir erfiðleikar í þeim löndum sem hafa átt hvað bágast á undanförnum árum, áður en þau gengu í Evrópusambandið.

Ég hef margoft sagt það að mörg þessara landa voru tekin inn í Evrópusambandið í hraðferð vegna þess að verið var að tryggja lýðræðisþróun. Það má því kannski segja að efnahagsþróunin hafi setið eftir. En ég er ekkert viss um að þessi lönd hefðu komið betur út með sína gömlu gjaldmiðla.

Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að lífið verður áfram erfitt, og á að vera erfitt, fyrir þjóðir. Það er hins vegar óþarfi að gera það erfiðara en ástæða er til. Ég skal ekki segja, þetta er mjög erfið spurning sem kannski enginn getur svarað.



[16:29]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég óska hv. þingmanni til hamingju með orðgnóttina, plokkfiskur á lélegu veitingahúsi sem hent er í gestinn og sagt: Étt´ann. Þetta var einkunn hins magnaða hv. þingmanns á tillögu hæstv. utanríkisráðherra. Ég hefði aldrei getað komist svona vel að orði.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Telur hann ekki að hann sé að fara fram úr sjálfum sér þegar hann hefur þau ummæli um Framsóknarflokkinn að hann sé og hafi verið einangrunarhyggjuflokkur? Ég tel erfitt að kalla slíkt yfir þingheim án þess að færa sterkari rök fyrir því.

Ég vil því gjarnan, herra forseti, hlýða á rökstuðning hv. þingmanns fyrir slíku. Ekki vill hann láta það liggja eftir sem sleggjudóm. Hann hlýtur að finna hjá sér innri þörf til að færa rök fyrir þeirri fullyrðingu sinni og þá væntanlega á jafn kyngimögnuðu máli og hann viðhafði í ræðu sinni áðan.



[16:30]
Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal svara þessum spurningum með gleði. Í fyrsta lagi er þessi þingsályktunartillaga til marks um einangrunarhyggju. Í öðru lagi ætla ég að minna á atkvæðagreiðslu á Alþingi 1969, það er mynd af henni hér í hliðarsal, þegar Ísland gekk í EFTA og framsóknarmenn gátu ekki tekið afstöðu, sátu hjá. Í þriðja lagi voru miklar deilur í Framsóknarflokknum árið 1993 þegar Ísland gerðist aðili að Evrópska efnahagssvæðinu og ég tel að ég þurfi ekki að rekja þá sögu frekar. Þessi verndarstefna í landbúnaði er svo hrein einangrunarstefna, ég þarf ekki heldur að rekja það frekar.

Þetta eru því engir sleggjudómar hjá mér og ég vona að hv. þingmaður sé sáttur við þetta svar.



[16:31]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sáttur við svarið. Ég tel að ekki sé hægt að segja, eftir þessa ræðu hv. þingmanns, að þetta hafi verið sleggjudómur hjá honum, hann færði sterk, söguleg rök fyrir máli sínu.

Mig langar að nota þær örfáu sekúndur sem ég hef til að spyrja hv. þingmann, sem er ásamt mér í hv. utanríkismálanefnd, hvernig hann sjái fyrir sér meðferð þessa máls þegar það kemur til nefndarinnar. Þetta er flókið mál, vandasamt. Telur hann til dæmis ekki eðlilegt að það verði sent út til umsagnar eins og önnur slík mál þannig að þeir sem gerst til þekkja, og við þurfum að fá álit frá, hafi nægan tíma til að setja álit sitt fram með vönduðum hætti? Ég er þeirrar skoðunar, ég tel að menn eigi ekki að hrapa að neinu varðandi þetta.

Ég spyr líka: Telur hann ekki algjörlega nauðsynlegt að áður en umfjöllun nefndarinnar lýkur höfum við fyrir okkur skýrslu Alþjóðamálastofnunar sem tekur líka á hinum hagrænu þáttum sem ekki er að finna í skýrslunni sem við höfum rætt hér áður en umræðan um þessa tillögu hófst?



[16:32]
Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, ég tel rétt og eðlilegt að þessi þingsályktunartillaga verði send út til umsagnar rétt eins og aðrar þingsályktunartillögur og fái ekki síðri umfjöllun en fríverslunarsamningurinn við Alþýðulýðveldið Kína. Sá frestur til umsagnar er allnokkur og ef von er á skýrslu Alþjóðamálastofnunar í apríl þá kann að vera að þetta reki nú allt saman, þannig að ekkert sé að óttast.

Ég tel eðlilegt að þessi tillaga verði send út til umsagnar og ég vona að ekki verði ágreiningur um það í utanríkismálanefnd. Ég vona að hv. þingmaður verði ekki hvumpinn þegar það verður ákveðið.



[16:33]
Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég heyri á salnum að það er rétt sem segir einhvers staðar að það sé meiri gleði yfir einum ranglátum sem snýr aftur en 99 réttlátum. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvar hann telji að hagsmunir okkar Íslendinga lægju nú, í ljósi þeirra atburða sem orðið hafa kunnir í dag, þ.e. varðandi makrílveiðar, ef við værum þegar þátttakendur í Evrópusambandinu. Getur hann útskýrt fyrir mér hvar hann telji að hagsmunir okkar lægju, hverjir þeir væru, og hvaða afleiðingar það hefði haft fyrir okkur, í ljósi þeirra atburða sem nú eru orðnir, ef við værum þegar orðnir meðlimir?



[16:34]
Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég tel að Ísland hefði verið við samningaborðið ef landið hefði verið meðlimur í Evrópusambandinu. Ég tel því að hagsmunum okkar hefði ekki verið verr fyrir komið innan sambandsins en þeim er nú komið utan þess. Ég vona að þetta sé fullnægjandi svar fyrir hv. þingmann.



[16:35]
Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta svarar í sjálfu sér ekki alveg spurningunni vegna þess að við ættum þá væntanlega von á því að aðrar þjóðir væru hér að veiða makríl.

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann hvort hann eigi skýringu fyrir mig á því að þriðjungur Þjóðverja vill ganga úr þessu bandalagi og væntanlega fer fram þjóðaratkvæðagreiðsla í Bretlandi á næsta ári um úrgöngu. Nokkur hluti Dana og Svía er sömu skoðunar. Spurningin er þessi: Fer einangrunarsinnum fjölgandi hjá þessum þjóðum eða eru kannski svona margir framsóknarmenn í Evrópu sem mér þykir nú reyndar nærtækari skýring.

Á hv. þingmaður skýringu á því hvers vegna þessi hópur er æstur í að yfirgefa þessa sælu?



[16:36]
Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það eru framsóknarmenn í öllum flokkum og það eru framsóknarmenn meðal allra þjóða. Ég kann ekki skýringuna á því og veit ekki hverjar þessar tölur verða, ég skal ræða um það við hv. þingmann þegar tölur liggja fyrir í því máli. Ég held hins vegar að Þýskaland hafi haft verulegan ávinning af vist sinni í Evrópusambandinu. (Gripið fram í.) — Ha, hefur verið talið? Já, þetta eru nýjar fréttir fyrir mig að það hafi verið talið, ég hef ekki heyrt af þessari þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég hef heyrt um kannanir og stundum greiða menn atkvæði með buddunni þegar kemur að hinum raunverulegu atkvæðagreiðslum.



[16:37]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Í umræðum um það mál sem hér er til umfjöllunar, bæði í þessari umræðu í þinginu og í samfélaginu almennt þegar þessi mál hefur borið á góma, þ.e. spurninguna um aðild eða ekki aðild Íslands að Evrópusambandinu, þá hefur mikið verið talað um hvort menn viti nákvæmlega hvað felst í aðild að Evrópusambandinu eða ekki, hvort hægt sé að taka afstöðu til þess hér og nú hvort þjóðin vill ganga í Evrópusambandið eða ekki eða hvort það sé nauðsynlegt að fá fram samningsniðurstöðu til að mönnum sé fyllilega ljóst hvað aðild að Evrópusambandinu þýðir.

Í mínum huga er margt ljóst við aðild að Evrópusambandinu en það er líka ýmislegt sem ekki er ljóst. Það lýtur m.a. að þeim atriðum sem við settum fram í nefndaráliti utanríkismálanefndar frá árinu 2009 um meginhagsmuni okkar. Margt í því er óljóst varðandi hver niðurstaðan yrði eins og ég lít á málið. Til að fá úr því skorið þarf þess vegna að fá samningsniðurstöðu til að menn geti tekið endanlega afstöðu til spurningarinnar um aðild eða ekki aðild að Evrópusambandinu.

Vissulega hafa mjög margir nú þegar mótað sér mjög ákveðna skoðun á því að vera annaðhvort fylgjandi eða andsnúnir því að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu og það er ekkert að því að menn hafi sannfæringu í því efni. Hún byggist þá ekki endilega og kannski alls ekki á samningsniðurstöðu í einstökum málaflokkum sem verið er að semja um, heldur á almennum sjónarmiðum að því er varðar þátttöku í alþjóðasamstarfi eins og Evrópusambandið er. En það hefur ítrekað komið fram, m.a. í skoðanakönnunum, að verulegur hluti þjóðarinnar vill fá að sjá samningsniðurstöðu til að geta tekið afstöðu og mun fólk þá væntanlega láta útkomuna í þeim köflum sem varðar það mestu ráða endanlegri afstöðu sinni. Það geta verið sjávarútvegsmál hjá sumum, landbúnaðarmál hjá öðrum, byggðamál hjá einhverjum enn öðrum, umhverfismál, vinnuréttarmál o.s.frv. Það er ekkert eitt rétt í því. Menn geta alveg haft mismunandi skoðanir út frá mismunandi forsendum og menn eiga rétt á því.

Það var hins vegar mjög athyglisvert að í samtölum mínum við hv. þm. Frosta Sigurjónsson, í andsvörum fyrr í þessari umræðu, þá spurði ég hann hvort hann sæi einhverja leið til að fá úr því skorið nákvæmlega hvað fælist í aðild að Evrópusambandinu aðra en þá að fá samningsniðurstöðuna á borðið. Hann staðfesti það hér í svari við fyrirspurn minni að líklega væri engin önnur leið. En því hefur einmitt verið haldið á lofti í þessari umræðu að hægt sé að gera upp hug sinn nú þegar. Því hefur m.a. verið haldið fram úr ræðustól í þessari umræðu að það sé óheiðarlegt að halda því fram að hægt sé að gera upp hug sinn á grundvelli samningsniðurstöðu, það sé óheiðarlegt að kíkja í pakkann, eins og sumir kalla það, þ.e. fá fram samningsniðurstöðu og taka afstöðu á þeim grundvelli. Ég segi fyrir mína parta að ég tel ekkert óheiðarlegt við það. Það eru margir sem vilja einmitt fá niðurstöðuna á borðið og það sjáum við ítrekað í skoðanakönnunum og það sjáum við á þeim viðbrögðum sem nú hafa komið fram í samfélaginu að undanförnu með um 50 þúsund undirskriftir fólks sem vill fá þjóðaratkvæðagreiðslu vegna þeirra loforða sem gefin voru. Í þeim hópi er bæði fólk sem er fylgjandi og andsnúið aðild að Evrópusambandinu. Það vill fá að koma að ákvörðun í þessu máli líkt og margítrekað var í aðdraganda kosninga. Allir stjórnmálaflokkar hafa í raun sagt á einum eða öðrum tíma að þjóðin ætti að taka ákvörðun um afstöðuna til Evrópusambandsins.

Þess vegna höfum við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði lagt fram þingsályktunartillögu okkar inn í umræðuna sem viðbrögð við tillögu hæstv. utanríkisráðherra og við lítum á það sem sáttaleið. Það er ekki endilega sú leið sem við hefðum farið ef við réðum ein ferðinni, en við erum að reyna að ná utan um málið og reyna að ná sem breiðastri sátt með því að leggja þá til að gert verði formlegt hlé á aðildarviðræðunum þannig að núverandi hæstv. ríkisstjórn standi ekki í þeim viðræðum sem hún er andsnúin, við horfumst bara í augu við það og við viðurkennum að það er kannski ekki skynsamlegt. Jafnframt leggjum við til að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla fyrir lok kjörtímabilsins eins og talað hefur verið um og lofað þannig að við eða fyrir næstu kosningar liggi fyrir leiðsögn þjóðarinnar hvað þetta atriði varðar. Stjórnmálaflokkarnir geta þá tekið afstöðu til þess hvort þeir vilja virða þá niðurstöðu sem kemur úr þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu (Forseti hringir.) eða ekki og við myndun næstu ríkisstjórnar lægi sú leiðsögn fyrir. (Forseti hringir.) Ég hvet eindregið til þess að þingmenn stjórnarflokkanna (Forseti hringir.) íhugi vandlega þá tillögu sem við þingmenn Vinstri grænna höfum lagt fram í þessu sambandi.



[16:42]
Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort ég hafi skilið hann rétt. Ég fékk það á tilfinninguna að hv. þingmaður væri að taka undir ómöguleikaumræðuna alla, að það þyrfti að finna einhverja leið til þess að koma hæstv. ríkisstjórn út úr þeim ómöguleika sem hún telur vera fyrir hendi ef þjóðarviljinn fellur ekki að vilja hæstv. ríkisstjórnar. Skildi ég hann rétt?

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann hvernig hann sér fyrir sér atvinnustefnu okkar Íslendinga og þróun atvinnulífs ef við skiptum ekki um gjaldmiðil. Nú er margbúið að fara yfir rökin fyrir því að annaðhvort ættu Íslendingar að halda áfram með krónuna eða ganga í Evrópusambandið og taka upp evru í framhaldinu, þeir tveir kostir séu í stöðunni þegar búið er að velta við öllum steinum.

Á síðasta kjörtímabili lagði ríkisstjórnin sem þá var við lýði mikla áherslu á nýsköpun og ýtti undir þá atvinnustefnu. Það hefur sýnt sig að sprotunum vegnar vel til að byrja með í styrkjaumhverfi og með skattafslætti en síðan þegar þeir eru orðnir stórir og þurfa að fá meira rými er rekstrarumhverfið á Íslandi ekki hentugt. Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér slíka atvinnustefnu ef við göngum ekki í Evrópusambandið og tökum upp evru í framhaldinu?



[16:45]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki að taka undir þau sjónarmið sem komið hafa fram frá ríkisstjórninni um að ómögulegt sé fyrir ríkisstjórn sem er andsnúin aðild að Evrópusambandinu að vera í viðræðum við Evrópusambandið. Við í VG erum hins vegar að segja þetta: Þessi sjónarmið eru uppi af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Við erum ekki endilega sammála þeim, en við erum reiðubúin til að mæta og koma til móts við þau sjónarmið ríkisstjórnarinnar og þess vegna höfum við lagt til þessa leið. Við teljum að sú leið sem við höfum lagt til mæti sjónarmiðum ríkisstjórnarflokkanna, þó að við séum ekki sammála þeim, um leið og tryggð er aðkoma þjóðarinnar að ákvörðun um næstu skref og framhaldið inni á þessu kjörtímabili.

Eins og ég sagði er þetta ekki endilega sú leið sem við mundum vilja fara ef við réðum ein, en við horfumst í augu við hinn pólitíska veruleika í málinu. Það er ekki endilega alltaf og ekki endilega algengt að stjórnarandstöðuflokkar geri það og rétti ríkisstjórn slíka sáttarhönd. Við vonumst auðvitað til þess að ríkisstjórnin hlusti á það sem við höfum fram að færa í umræðunni og sé að minnsta kosti reiðubúin til að fara í alvarlega umræðu við okkur um það á vettvangi utanríkismálanefndar.

Varðandi atvinnustefnuna og ef ekki er skipt um gjaldmiðil þá ég hef skoðað mjög ítarlega skýrslu Seðlabankans um valkosti í gjaldmiðilsmálum. Ég er sammála þeirri meginniðurstöðu sem þar er dregin upp, að valkostirnir séu í meginatriðum tveir, þ.e. áfram króna og þá væntanlega og hugsanlega í einhverjum höftum enn um sinn, eða upptaka evru. Ég get alveg sagt að mér finnst upptaka evru spennandi kostur en þeirri leið fylgir sá böggull að við yrðum að ganga í Evrópusambandið og ég er ekki kominn á þann stað í þeirri umræðu. Ég tel að það verði að skoða mjög heildstætt áfram (Forseti hringir.) hvernig við ætlum að byggja upp gjaldmiðilsstefnu okkar með krónu (Forseti hringir.) og hvernig við getum leyst hana úr höftum. Ef það reynist ómögulegt á næstu (Forseti hringir.) árum, ég tala nú ekki um áratugum, held (Forseti hringir.) ég að við verðum að fara að hugsa okkur vandlega um.



[16:47]
Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að ganga ferlið á enda og þjóðin eigi að segja sína skoðun á niðurstöðunni. Til vara mundi ég fallast á kröfu þjóðarinnar og þeirra 50 þúsund manna sem hafa skrifað undir áskorun til ríkisstjórnarinnar um að leggja þessa tillögu til hliðar og leyfa þjóðinni að ákveða hvort viðræðunum verði haldið áfram eða þeim slitið. Mér finnst það vera sáttatillagan og sáttatónninn sem við eigum að slá. Við munum sjá hvað kemur út úr þessu og ríkisstjórn sem ekki getur farið að þjóðarvilja og getur ekki fundið út úr því sjálf verður náttúrlega að finna sér eitthvað annað að gera.

Hefur hv. þingmaður ekki áhyggjur af nýsköpunarstefnu í höftum? (Forseti hringir.) Sér hann einhverja leið út úr höftunum í náinni framtíð?



[16:48]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér er ljós sú afstaða þingmanna Samfylkingarinnar að þeir vilja ljúka aðildarviðræðunum og kannski til vara þjóðaratkvæðagreiðslu um framhaldið núna eða mjög fljótlega, ég skynja það.

Á síðasta landsfundi okkar Vinstri grænna var samþykkt sú stefnumörkun að við vildum ljúka aðildarviðræðunum og bera niðurstöðuna undir þjóðaratkvæði. Þá töluðum við um að reyna að ljúka þeim á ári eða svo frá síðustu kosningum. En það er ekki staðan sem er uppi núna og maður verður auðvitað að taka svolítið mið af þeim pólitíska veruleika sem er. Við erum reiðubúin að teygja okkur þetta mikið í átt að afstöðu ríkisstjórnarinnar. Ég heyri að Samfylkingin er ekki tilbúin að teygja sig jafn langt og það er hennar ákvörðun og hennar val en þetta er okkar niðurstaða.

Að því er varðar nýsköpunarstefnuna þá get ég alveg tekið undir með hv. þingmanni, ég hef verulegar áhyggjur af umhverfi nýsköpunarfyrirtækja með krónu í höftum. Ég tel reyndar að það sé ómögulegt fyrir þau ef krónan verður áfram í höftum um langa hríð og þess vegna sé brýnt (Forseti hringir.) að finna leiðir til þess að losa hana úr höftum. Ef það er ekki raunhæfur möguleiki (Forseti hringir.) á næstu missirum verði (Forseti hringir.) menn að hugsa málið upp á nýtt.



[16:50]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður gerði það nokkuð að umtalsefni að sumir láta eins og það sé óheiðarlegt eða ekki nógu gott að menn vilji sjá samning áður en þeir taka endanlega afstöðu til þess hvort Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið eða ekki, og menn kalla það sjónarmið „að kíkja í pakkann“ í niðurlægingarskyni.

Mér heyrist við hv. þingmaðurinn vera sammála um að það sé síður en svo óeðlilegt, það hljóti að vera sú eina afstaða sem fólk getur tekið þegar það tekur að lokum ákvörðun um hvar við höldum að framtíð okkar sé best tryggð, hvort sem það á við um gjaldmiðilinn, ný fyrirtæki eða bara hvernig framtíð okkar sé best tryggð.

Nú er það ekki svo að ekkert hafi verið rætt um aðild að Evrópusambandinu fyrr en tillagan var samþykkt í þinginu 2009. Þá var hins vegar alltaf sagt: Málið er ekki á dagskrá. Það þurfti aldrei að svara neinu um það, það var bara alltaf sagt: Málið er ekki á dagskrá. Menn buðu andstæðingum sínum ekki upp á vondan plokkfisk, þeir sögðu bara við fólk: Éttu það sem úti frýs.

Mig langar að spyrja þingmanninn hvort það sé ekki bara þetta sem vaki núna fyrir stjórnvöldum, að það sé ekkert á borðinu og menn geti héðan í frá vísað öllu á bug og sagt eins og þeir gerðu áður fyrr: Málið er ekki á dagskrá, við þurfum ekki að ræða það. Það er svolítið alvarlegt þykir mér. Þá eru náttúrlega ákveðin öfl í þjóðfélaginu búin að ná sínu fram.



[16:52]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að það sé fyllilega lögmætt sjónarmið að vilja sjá niðurstöðu samnings. Eins og ég sagði áðan, sumir hafa gert upp hug sinn í málinu en stór hluti þjóðarinnar hefur það ekki og vill sjá samning og ég tel að það sé lögmætt sjónarmið. Þannig hefur þetta verið mjög víða.

Það er ekki rétt, tel ég, sem hefur oft verið sagt í þessari umræðu, að í öllum ríkjum sem hafa sótt um aðild að Evrópusambandinu hafi verið yfirgnæfandi stuðningur við það að sækja um. Í Eystrasaltsríkjunum, t.d. í Litháen, þegar var ákveðið að sækja um aðild að Evrópusambandinu, sýndu skoðanakannanir 80% andstöðu meðal þjóðarinnar við aðild að Evrópusambandinu en það var samþykkt í þinginu.

Við sáum líka í Svíþjóð að allar skoðanakannanir, áður en kosið var þar um niðurstöðuna, sýndu að meiri hluti var andsnúinn aðild að Evrópusambandinu en það var samþykkt á kjördag og svo sýndu skoðanakannanir eftir kjördag hið gagnstæða.

Þegar Noregur var í viðræðunum 1992 og 1993 ákvað þáverandi forsætisráðherra Noregs, Gro Harlem Brundtland, sem stóð fyrir umsókninni, að skipa sjávarútvegsráðherra í Noregi sem var eindreginn andstæðingur aðildar Noregs að Evrópusambandinu, af því að það var mat þeirra að það væri betra fyrir hagsmuni Noregs í viðræðunum, ekki síst um sjávarútvegsmál, að vera með einstakling í því embætti sem var andsnúinn aðild. Allir segja hér: Það er ekki hægt. Þetta var gert. Að vísu felldu Norðmenn aðildarsamninginn og kannski yrði það eins hér, og menn ættu þá ekki, a.m.k. sumir, að hafa áhyggjur af því.

Málið er ekki á dagskrá — málið er að sjálfsögðu á dagskrá, það er á dagskrá og fer ekki af dagskrá. Ég er þeirrar skoðunar og það er einlæg sannfæring mín að úr því sem komið er, og menn geta haft langa ræðu um það hvernig atburðarásin var og af hverju var ekki kosið eða atkvæðagreiðsla um það áður en lagt var af stað og svoleiðis, þá erum við stödd hér og það er einlæg sannfæring mín að úr því sem komið er verði enginn friður í íslensku samfélagi um þessa spurningu án þess að þjóðin taki þá ákvörðun. (Forseti hringir.) Það er alveg sama hvað menn ákveða að gera, ég held að það verði enginn friður um málið í íslensku samfélagi nema þjóðin (Forseti hringir.) taki ákvörðunina.



[16:54]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þarf ekki að fara um þetta mörgum orðum, ég er alveg hjartanlega sammála hv. þingmanni, sérstaklega lokaorðum hans.

Mig langar til að spyrja hann, af því að í þessari viku kom út Evrópustefna ríkisstjórnarinnar, hvort hann hafi haft tækifæri til að kynna sér þá stefnu. Það hlýtur að vera ætlan ríkisstjórnarinnar, fyrst hún er einmitt búin að nefna þá stefnu, að ýta í burtu þeirri spurningu sem við þingmaðurinn erum sammála um að sé á dagskrá. Ef þingmaðurinn hefur haft tækifæri til að kynna sér stefnuna, sem tekur ekki mjög langan tíma, langar að spyrja hann hvort hann telji líklegt að hún sé svo áhrifamikil (Forseti hringir.) að hún láti fólk hætta að hugsa um þetta mál.



[16:56]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nei, ég tel ekki að Evrópustefnan sem hefur verið kynnt og ég hef lauslega rennt yfir — hún er í sjálfu sér ekki í löngu máli — sé líkleg til þess að ýta þessu máli út af dagskrá. Það er ekki hægt að afskrifa kröfuna um þjóðaratkvæðagreiðslu um stöðu málsins með þessari Evrópustefnu.

Af því ég sá hæstv. utanríkisráðherra í hliðarsal áðan og ég veit ekki hvort hann er þar enn þá vil ég segja að ég teldi að það væri tilefni til þess að ræða þessa Evrópustefnu til dæmis á vettvangi utanríkismálanefndar og jafnvel í þingsal með einhverri skýrslu um hana þannig að það gæfist færi til þess að taka hana hér til umræðu. Að sjálfsögðu tengist hún málinu öllu. Þar er að vísu mikil áhersla lögð á EES-samninginn. Ég verð að segja fyrir mína parta að ég hef haft vaxandi efasemdir um það að EES-samningurinn dugi. Það á meðal annars rætur í því að við erum í vaxandi mæli að rekast á stjórnarskrána að því er varðar að fullnusta EES-samninginn. (Forseti hringir.) Ég tel að hann dugi ekki til langrar framtíðar eins og hann er, (Forseti hringir.) annaðhvort þurfi að gera á honum breytingar til að hann rúmist innan (Forseti hringir.) stjórnarskrárinnar eða breyta stjórnarskránni eða jafnvel bara fara út úr honum (Forseti hringir.) og leysa málið með öðrum hætti.



[16:57]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna sem var um margt athygliverð. Mig langar aðeins að segja hv. þingmanni skoðun mína, ég tel að það sé ekki farsælt að ríkisstjórn, sem hefur þá skoðun að það sé best fyrir hagsmuni Íslands að verða ekki aðili að Evrópusambandinu, standi í samningaviðræðum við Evrópusambandið. Ég komst að þeirri niðurstöðu m.a. með því að horfa á hvernig fyrrverandi ríkisstjórn náði að halda utan um samningaviðræðurnar þar sem helmingurinn af ríkisstjórninni hafði það sem nánast sitt eina baráttumál að koma Íslandi í Evrópusambandið, það átti að vera lausnin á öllu, þá er ég að tala um Samfylkinguna, og svo hins vegar Vinstri grænir, sem voru og eru flestir, held ég, sannfærðir í hjarta sínu um að hagsmunum Íslands sé best borgið utan Evrópusambandsins.

Ég tel að niðurstaðan eftir síðasta kjörtímabil segi okkur að ekki sé farsælt að fara í slíkan leiðangur sem samningaviðræður við ESB eru ef ríkisstjórnin er ekki á þeirri skoðun að það sé gott fyrir Ísland að ganga í Evrópusambandið.

Það kemur fram á bls. 32, kafla 6.1 í skýrslunni sem rædd var í síðustu viku og er nú til meðferðar í utanríkismálanefnd, að þau lönd sem óska eftir aðild að Evrópusambandinu gangist undir ákveðin grundvallarskilyrði sem rakin eru í skýrslunni í meginatriðum. Síðan kemur fram að gengið sé út frá því að umsóknarríki sækist eftir aðild, það er grundvallarpunktur. Ég hef aldrei skilið hvers vegna við þurfum að deila um það. Ég næ ekki þessari hugsun „að kíkja í pakkann“ en kannski getur hv. þingmaður útskýrt það betur fyrir mér.

Ég hjó eftir því í máli hv. þingmanns að hann taldi að það væri gott að málið fengi umræðu í nefndinni og mundi þróast eitthvað þar. Mig langar þá að spyrja hv. þingmann: Er hann fylgjandi því að málið komist til nefndar, vegna þess að það kom fram í máli eins þingmanns fyrr í dag í umræðu um fundarstjórn forseta, mig minnir að það hafi verið hv. þm. Sigríður (Forseti hringir.) Ingibjörg Ingadóttir, að hún væri á móti því að málið kæmist (Forseti hringir.) til nefndar. Er hv. þingmaður á sömu skoðun?



[16:59]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það voru nokkuð margar spurningar sem ég skráði niður, m.a. varðandi viðhorf hv. þingmanns um að ekki væri farsælt að ríkisstjórn andsnúin Evróusambandsaðild leiddi viðræðurnar. Ég get alveg tekið undir það sjónarmið í sjálfu sér að það er kannski ekki það heppilegasta en það breytir því ekki að þetta er mál sem hefur verið lengi í umræðu í íslensku samfélagi, þetta er ekki nýtt af nálinni í íslensku samfélagi. Sumir stjórnmálaflokkar, t.d. Sjálfstæðisflokkurinn, höfðu það í upphafi á stefnuskrá sinni að fara í Evrópusambandið, ef menn fara langt aftur í tímann, menn skulu ekki gleyma því. Stjórnmálaflokkar hafa því haft alls konar skoðanir í þessu máli.

Ég tel að það hafi alls ekki verið slæmur kostur hjá síðustu hæstv. ríkisstjórn, það voru ólík sjónarmið uppi, bara eins og í samfélaginu öllu. Og ég tel það ekkert endilega vont, eins og ég nefndi varðandi sjávarútvegsráðherra Noregs, að menn sem standa þá tiltölulega fastir fyrir í þeim málaflokkum taki að sér að leiða viðræður, vegna þess að þetta snýst um að þjóðin taki ákvörðun og það er skylda stjórnvalda að leiða fram góða kosti. Ég hef alltaf sagt: Það á að vera markmið stjórnvalda að þegar þjóðin tekur afstöðu til þessa máls þá séu báðir kostir góðir, vegna þess að það er skylda okkar að sjá til þess að Íslandi farnist vel, hvaða ákvörðun sem þjóðin tekur. Þess vegna er það mikilvægt.

Hv. þingmaður sagði líka að það hefði verið baráttumál síðustu ríkisstjórnar, eina baráttumálið. Það er nú ekki … (UBK: Samfylkingarinnar.) Ég held að það sé nú ekki alveg sanngjarnt að halda því fram.

Hér er talað um að umsóknarríki sækist eftir aðild og er vísað til þess í skýrslunni. Við lögðum þetta upp þannig að við vildum sækja um aðild að Evrópusambandinu og leiða fram í dagsljósið hvað það hefði í för með sér fyrir íslenskt samfélag. Gleymum því nú ekki hvaða aðstæður voru hér uppi 2009 og hvaða sjónarmið voru í skoðanakönnunum o.s.frv. Ég tel því að það hafi verið fullkomlega lögmætt viðhorf. (Forseti hringir.)

Varðandi það hvort málið eigi að komast til nefndar, já, málið (Forseti hringir.) á að fara til nefndar.



[17:02]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Kærar þakkir, herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svar hans við andsvari mínu, það var mjög upplýsandi. Ég er mjög glöð að heyra að hv. þingmaður styður það að þingmálið komist til nefndar. Ég held að það sé mjög gott að við getum verið sammála um það, ég vona að það séu ekki margir á þeirri skoðun að þingmál eigi ekki að komast til nefndar til frekari umræðu þannig að hægt sé að fá gesti o.s.frv.

Ég verð samt að segja varðandi hina spurninguna að við erum ekki sammála um hvort vegferð síðustu ríkisstjórnar hafi leitt til góðs eða ekki en við hljótum að minnsta kosti að vera sammála um að hún skilaði ekki þeirri niðurstöðu sem stefnt var að. Að því leyti til hljótum við að vera sammála um að sú aðferðafræði að kíkja í pakkann virkar ekki, ekki þegar við höfum þá forsögu sem við röktum áðan varðandi það að annar flokkurinn vildi inn og hinn ekki. Hvers vegna gekk þá ekki planið betur upp þegar menn sögðu hér sumir hverjir að það mundi taka mjög skamman tíma að semja við Evrópusambandið?



[17:03]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er mikið verið að tala um tímaramma í þessari umræðu og að eitt og annað hafi ekki tekist innan þess tímaramma sem lagt var upp með. Þetta er bara það stórt mál að menn geta ekki leyft sér að mínu viti að setja einhvern sérstakan tímafrest á það.

Það var sagt, segir hv. þingmaður, og því hefur verið haldið fram í þessum ræðustól að það komi fram í nefndaráliti utanríkismálanefndar frá 2009, sumir hafa haldið því fram, það gerði einn þingmaður t.d. fyrr í dag. Ég vil bara segja: Það stendur ekki í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar sem ég þekki býsna vel. Það viðhorf kemur fram í einu fylgiskjali sem kemur ekki frá nefndinni sjálfri, þ.e. að hægt sé að hugsa sér að þetta geti gerst jafnvel á 18 mánuðum eða eitthvað þess háttar. Það kemur hvergi fram í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar og það er alveg meðvitað. Mér var ljóst að þetta yrði tímafrekara og það eru mörg viðtöl við mig frá þessum tíma sem formanns utanríkismálanefndar frá sumrinu 2009 þar sem ég sagði: Ég tel raunhæft að þetta mál verði til lykta leitt (Forseti hringir.) í fyrsta lagi á árinu 2013. Það sagði ég árið 2009, miðað við það (Forseti hringir.) að viðræðurnar hæfust þá. Þær drógust aðeins í upphafi, þannig að ég tel mig vera með algjörlega hreinan skjöld í þessu máli.



[17:04]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það mál sem er til umræðu og þau mál sem eru til umræðu hafa þegar vakið talsverða athygli, bæði innan lands og erlendis. Ég hef átt samtöl við nokkra erlenda fjölmiðla til að skýra þá stöðu sem hér er uppi. Eftir því sem umræðunni hefur undið fram og eftir því sem maður heyrir í fleirum er það mat mitt að sú ólga sem er í samfélaginu núna, og birtist m.a. í undirskriftum þar sem krafist er þjóðaratkvæðagreiðslu, snúist vissulega að einhverju leyti um Evrópusambandið en að mínu mati snýst ólgan og sú krafa fyrst og fremst um lýðræðið og þá breytingu sem hefur orðið á því hvernig Íslendingar upplifa lýðræði, þá kröfu sem Íslendingar setja fram um að þetta sé ákvörðun þar sem eigi að koma til kasta þjóðarinnar.

Þetta er mjög áhugaverð þróun því að það er alveg ljóst að þjóðaratkvæðagreiðslur voru fátíðir viðburðir hér þangað til á síðasta kjörtímabili. Ég held þó að þjóðaratkvæðagreiðslur séu alls ekki svar við öllum þeim spurningum sem vakna í tengslum við lýðræðisþróun. Ég nefni þann ágæta fund sem haldinn var í Hannesarholti sl. miðvikudagskvöld þar sem heimspekingar, stjórnmálafræðingar og fjölmiðlafræðingar fóru yfir stöðuna í stjórnmálunum út frá akademísku sjónarhorni. Eitt af því sem kom fram þar var að það sem Íslendingar og stjórnmálamenn og stjórnkerfið þurfa að velta fyrir sér og læra sé hvernig við undirbúum ákvarðanir, hvernig við getum gert það í auknu samráði þannig að ekki þurfi að koma til ólgu á borð við þá sem við upplifum núna, sem ég held að snúist fyrst og fremst um þá kröfu sem fólk gerir um að hafa áhrif á þróun mála.

Það er ekkert óeðlilegt að fólk geri þá kröfu í ljósi þeirra orða sem féllu hér fyrir kosningar. Ég held að það sé ekki ósanngjarnt að segja, hafandi tekið þátt í mjög mörgum fundum og verið í sjónvarpsþáttum með formönnum þeirra stjórnmálaflokka sem nú sitja í ríkisstjórn, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, að ég hafði sjálf þær væntingar að þeir flokkar mundu stefna að þjóðaratkvæðagreiðslu fyrr en síðar á kjörtímabilinu um framhald málsins þrátt fyrir afstöðu sína til Evrópusambandsins. Þannig skildi ég það og þannig skildi fólk það sem hlustaði á þá ágætu menn fyrir kosningar og því er sú krafa sem nú kemur fram um aðkomu þjóðarinnar fullkomlega eðlileg. Hún byggir á réttmætum væntingum og það sem hefur verið sagt síðar um að betra hefði verið að þessi loforð hefðu verið orðuð öðruvísi, það sem hefur verið sagt um að aðstæður hafi breyst af því að flokkarnir tveir hafi farið saman í ríkisstjórn eru ekki rök sem halda. Það liggur auðvitað fyrir að ef flokkarnir eru andsnúnir aðild að ESB en lofa eigi að síður þjóðaratkvæðagreiðslu breytir það engu í raun og veru. Þá þarf að minnsta kosti að taka fram fyrir kosningar að það muni hafa áhrif með hverjum þeir eru í stjórnarsamstarfi.

Þetta er því ástæðan fyrir þeim kröfum sem nú eru uppi. Ég vil nota tækifærið á nýjan leik, eins og ég gerði í fyrri ræðu minni um tillögu hæstv. utanríkisráðherra, og vekja athygli á þeirri tillögu sem ég kalla málamiðlunartillögu, sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum lagt fram og hæstv. utanríkisráðherra, sem hér situr, hefur lýst sig reiðubúinn til að skoða. Hún snýst um að því hléi sem nú er á viðræðum verði haldið áfram en að á kjörtímabilinu, og það er skilið eftir opið hvenær það verður, verði efnt til þeirrar þjóðaratkvæðagreiðslu sem ég tel að kjósendur hafi haft réttmætar væntingar um að yrði haldin jafnvel fyrr en síðar, og þá vitna ég til orða formanns Sjálfstæðisflokksins.

Þetta hefur vakið athygli. Ég vitnaði í erlendra fjölmiðla sem hafa mikið viljað spyrja út í afstöðuna til Evrópusambandsins. Ég held að það sem komi þeim einna helst á óvart í samtali mínu við þá sé að málið snúist fyrst og fremst um lýðræðisþróun á Íslandi. Ég held að við sem sitjum núna á Alþingi höfum gullið tækifæri til þess að leiðrétta það sem ég tel vera mistök í tillögu hæstv. utanríkisráðherra, að gera ekki ráð fyrir aðkomu þjóðarinnar. Ég tel að við höfum tækifæri til þess að leiðrétta þau mistök. Ég tel líka að þau viðbrögð sem sú tillaga hefur mætt á meðal þjóðarinnar hljóti að vekja okkur til umhugsunar um það sem ég nefndi áðan, sem er þá aðdragandi og undirbúningur slíks tillöguflutnings og slíkra ákvarðana. Ég held að þar gætum við öll lært sitthvað um að með auknu samráði (Forseti hringir.) í aðdraganda ákvarðana getum við náð aukinni sátt um slíkar ákvarðanir.



[17:10]
Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni góða og efnisríka ræðu og inna hana eftir viðhorfum til framhalds mála.

Ég er sammála þingmanninum um að mikilvægt sé að undirbúa almennilega flóknar ákvarðanir sem varða þjóðarhag. Það er ekki reynt að gera það af hálfu ríkisstjórnarinnar í þessu máli, því að ekki er beðið um hagsmunamat frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og hlaupið til þegar skýrsla stofnunarinnar liggur fyrir og hún notuð sem skálkaskjól til þess að slíta viðræðum.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvaða kosti hún sér þá í stöðunni til að undirbyggja svona ákvörðun. Ég hef efasemdir um hléhugmyndina sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur spilað út vegna þess að ég sé ekki að í þessu mikla hagsmunamáli sé hægt að ákveða að hafa hlé, það þurfi að vinna áfram greiningar á hagsmunum ólíkra atvinnugreina og almennings í landinu og það þurfi að leggja mat á ólíka þætti í því efni og undirbyggja með þeim hætti upplýsta ákvörðun, því að tillaga ríkisstjórnarinnar byggir ekki á neinni upplýsingu og þetta er ekki upplýst ákvörðun sem ríkisstjórnin tekur.

Önnur leið er síðan að fara þá málefnalegu og skynsamlegu leið sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð samþykkti á landsfundi 2009, að hún væri tilbúin að láta þjóðina ákveða niðurstöðu í þessu máli, jafnvel að undangenginni umsókn, vegna þess að það er önnur leið til að taka upplýsta ákvörðun, að fara og ná í þann besta samning sem mögulegur er, leggja hann svo undir þjóðina. Ef við förum ekki þá leið, sem ég ítreka að ég tel skynsamlegasta, þ.e. leiðina sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð ákvað að fara 2009 — og hefði betur verið ef fleiri flokkar hefðu farið þá málefnalegu leið — hvaða leið getum við þá farið, (Forseti hringir.) hvernig getum við þá byggt betur undir (Forseti hringir.) ákvarðanatöku okkar í Evrópumálum?



[17:12]
Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa athugasemd. Nú er það svo að það var niðurstaða okkar síðasta landsfundar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði að réttast væri að ljúka viðræðum sem fyrst, helst innan árs, og leggja niðurstöðuna í dóm þjóðarinnar. Það má þó segja að sú niðurstaða hafi líka miðast við þær forsendur að Vinstri hreyfingin – grænt framboð yrði áfram í stjórnarsamstarfi á vinstri vængnum, sem hefði auðvitað verið okkar fyrsta val að loknum kosningum. Sú tillaga sem við leggjum fram er í raun og veru viðbrögð við tillögu hæstv. ríkisstjórnar, sem leggur tillögu sína fram, og við teljum hana vera vænlega leið til sátta milli ólíkra sjónarmiða.

Varðandi það sem hv. þingmaður nefnir um undirbúning og hvernig hægt sé að undirbúa ákvarðanir betur má vissulega segja að sú leið að fara í það að óska eftir skýrslu Hagfræðistofnunar hafi verið tilraun til þess að undirbúa ákvarðanatöku, en þá hefðum við líka þurft að fá almennilegan tíma hér á þingi til að ræða þá skýrslu, ræða það sem ég hef til að mynda bent á að ég telji að vanta í þá skýrslu, sem er félagshagfræðileg greining á stöðu mála innan Evrópusambandsins, og gefa hv. þingmönnum tækifæri til að fara djúpt ofan í þau mál.

Síðan er annað sem gerir þetta viðfangsefni sérstaklega flókið og það er að hér er ekki um afmarkaða ákvörðun að ræða, línulögn yfir Sprengisand. Sú ákvörðun er nokkuð einföld í raun og veru, það er hægt að grafast fyrir um öll gögn og komast að endanlegri niðurstöðu. Í tilfelli Evrópusambandsins má segja að sú undirbúningsvinna og allar þær kannanir sem voru gerðar, til að mynda á árunum 2007 og 2008 þegar starfaði Evrópunefnd sem ég sat í, á þeim árum sem ég sat í annarri Evrópunefnd, 2004–2007, síðan þá hefur sambandið tekið heilmiklum breytingum. Það má því segja að undirbúningsvinnan verði að taka mið af því að hér er um organískt fyrirbæri að ræða. Það að tala um Evrópusambandið núna (Forseti hringir.) gæti verið annað en að ræða það 2017.



[17:15]
Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er náttúrlega athyglisvert að í uppleggi ríkisstjórnarinnar í beiðninni til Hagfræðistofnunar Háskólans er ekki óskað eftir hagsmunamati, þannig að grundvallarforsendan sem hlyti að vera til að taka ákvörðun — ríkisstjórnin hefur engan áhuga á að fá svar við greiningu á hagsmunum Íslands og komast að efnislegri niðurstöðu. Það vantar auðvitað fjöldamargt inn í skýrsluna þó að hún sé góð um þá þætti sem hún tekur til, en þeir eru allt of, allt of fáir. Þess vegna er alveg nauðsynlegt að mínu viti að bíða niðurstöðu Alþjóðamálastofnunar og skoða að hvaða leyti sú skýrsla kunni að bæta þar í eyðurnar, fylla í skallablettina. En það er líka mikilvægt að búa til farveg, og þá bið ég hv. þingmann aðeins að hugsa með mér og fabúlera með mér um hvað við gætum gert með tillögu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um undirbúning að aðkomu þjóðarinnar á næstu árum, hvort við (Forseti hringir.) gætum ekki komið á ferli þar sem við mundum greina hagsmuni, (Forseti hringir.) ólíka hagsmuni ólíkra hópa og þar með auðvelda þjóðinni að taka upplýsta (Forseti hringir.) ákvörðun um framhaldið.



[17:16]
Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað varðar orð hv. þingmanns um hagsmunamat er það vissulega svo að sum okkar teljum okkur vita um það bil hvað samstarfið innan Evrópusambandsins gengur út á. Ég er ein þeirra sem hef sagt að ég telji mig að langmestu leyti vita út á hvað Evrópusambandið gengur, hvað felist í því að taka þátt í slíku samstarfi, ekki aðeins út frá hagsmunum Íslands heldur fyrir alla þá sem taka þátt í slíku samstarfi.

Ég ber hins vegar virðingu fyrir þeim sjónarmiðum sem segja að mikilvæg sé fyrir fólk til að geta tekið afstöðu til málsins að hafa einhverja niðurstöðu, hafa samningsniðurstöðu á borðinu. Það sjónarmið spilaði auðvitað inn í þá ákvörðun sem við tókum í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði 2009 þegar við héldum fast í þá ákvörðun okkar að þetta væri eitthvað sem ætti að koma til úrlausnar þjóðarinnar, en út frá þessum sjónarmiðum væri eðlilegt að einhvers konar samningsniðurstaða lægi fyrir. Ég ber virðingu fyrir þeim sjónarmiðum.

Hvað varðar tillögu okkar, sem hv. þingmaður spyr um, (Forseti hringir.) þá nefnum við að eðlilegt sé að þverpólitískur hópur stuðli að upplýstri umræðu um málið til undirbúnings (Forseti hringir.) þjóðaratkvæðagreiðslu, og ég sé ekkert því til fyrirstöðu að (Forseti hringir.) það verði útfært nánar.



[17:17]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það gleður mig alltaf svolítið þegar umræða fer að snúast meira um lýðræðið vegna þess að stefna okkar pírata hvað varðar Evrópusambandið er og hefur alltaf verið sú að við viljum að það sé ákvörðun þjóðarinnar, teljum að svo sé og eigi að vera. Hv. þingmaður nefndi svolítið lýðræðismál í ræðu sinni og er það vel.

Ég velti fyrir mér með hliðsjón af því að nú hefur hv. þingmaður vissulega verið nokkuð mikið lengur í pólitík en ég, og í ríkisstjórn í þokkabót, hvaða forsendur hv. þingmaður telur eðlilegast að liggi til grundvallar ákvörðunar um að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekin mál, vegna þess að það eru nokkrar útfærslur mögulegar. Ein er sú, eins og er í víst Danmörku að mér skilst, að þriðjungur þings geti beðið um þjóðaratkvæðagreiðslu, en það hefur bara einu sinni gerst í sögu Danmerkur að það hafi verið nýtt. Það hefur auðvitað þann kost að stjórnmálamenn ræða kannski frekar hlutina til enda, en ekki verður af eiginlegum þjóðaratkvæðagreiðslum í kjölfarið á því. Þess vegna hefur mér litist betur á stefnu okkar pírata, við viljum frekar að það sé þjóðin sjálf sem kalli eftir því að þjóðaratkvæðagreiðslur verði við eitthvert tiltekið hlutfall kosningarbærra manna, kannski 5%, 10%, eða eitthvað svoleiðis.

Ég velti fyrir mér, vegna þess að hv. þingmaður nefndi þjóðaratkvæðagreiðslu á þessum tímapunkti, bara svona almennt hvort hv. þingmaður líti svo á að þjóðaratkvæðagreiðslur séu til þess að bæta pólitíska fyrirkomulagið hér á þinginu, eins og hugmyndin er í Danmörku, (Forseti hringir.) eða hvort hv. þingmaður telji það eðlilegra að fyrirkomulag sé til staðar sem raunverulega valdi þjóðaratkvæðagreiðslu.



[17:20]
Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Nú sit ég í stjórnarskrárnefnd sem hefur verið skipuð, þar sem við erum einmitt að ræða þetta ólíka fyrirkomulag. Ég tel raunar að hvorugt fyrirkomulagið þurfi að útiloka hitt. Það er fullkomlega hægt að hugsa sér það að tiltekinn hluti þjóðarinnar geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekið mál. Það er líka hægt að hugsa sér að samhliða því geti tiltekinn hluti þingmanna krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekið mál.

Ég er hins vegar ekki þeirrar skoðunar að þjóðaratkvæðagreiðslur séu endilega eitthvað sem við eigum að stefna að að hafa hér á tveggja vikna fresti, heldur eigi þær, held ég, að snúast um stór mál, afdrifarík mál, en til að komast hjá ólgu og ósætti sé mikilvægt að stjórnmálamenn hugi að því hvernig hægt sé nákvæmlega að haga samráði um mál þannig að hægt verði að komast fram hjá slíkri ólgu. Það er mín skoðun því að ég held að eðlilegra sé að þjóðaratkvæðagreiðslur heyri til undantekninga fremur en hitt.

Hvað varðar danska fyrirkomulagið hef ég talið að það fyrirkomulag eitt og sér geti orðið til þess að bæta talsvert umræðuhefðina á þingi. Það hefur stundum verið sagt að það sé ekki góð hugmynd að veita tilteknum minni hluta þingmanna þennan rétt, að geta skotið málum til þjóðarinnar, af því að hér sé svo mikill pólitískur óstöðugleiki á þinginu, mikil læti alltaf hreint, og þetta geti bara ekki virkað hér. En ég velti í þessu tilfelli fyrir mér hvort kom á undan eggið eða hænan, þ.e. hvort slíkur möguleiki minni hluta þingmanna skapi þá kannski jafnvel betri umræðumenningu þannig að málþóf sé til að mynda ekki eina leiðin til að stoppa einhver stór og umdeild mál og slíkt fyrirkomulag kalli á aukið samtal meiri hluta og minni hluta. Þessu velti ég fyrir mér.

Hvað varðar hitt fyrirkomulagið sem hv. þingmaður lýsti stuðningi við hefur það verið stefna Vinstri grænna að tiltekinn hluti þjóðarinnar geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég sé ekki endilega (Forseti hringir.) að annað fyrirkomulagið útiloki hitt.



[17:22]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega svarið og ber alveg virðingu fyrir því sjónarmiði, en ég er pínulítið ósammála. Mér finnst að þótt þjóðaratkvæðagreiðslur ættu kannski ekki að vera á þriggja vikna fresti mættu þær vera annað hvert ár eða þriðja hvert ár eða eitthvað því um líkt. Mér þætti það alveg eðlilegt.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Ef við gefum okkur þá leið að þjóðin geti kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu, hvaða prósentu hefur hv. þingmaður í huga? Vegna þess að það fer í raun og veru að verða athyglisverðari umræða. Nú hef ég ekki séð svona hátt hlutfall mótmælenda, það er yfir 20% kjörbærra manna sem hafa mótmælt, sem að mínu mati er mjög hátt. Sjálfum finnst mér 10% eiginlega vera hámark, mér finnst að ef það kemst upp í 10% þá eigi að vera þjóðaratkvæðagreiðsla.

Fyrst og fremst, ástæðan fyrir því að ég spyr hvort þær eigi raunverulega að gerast eða bara virka sem aðhaldstæki fyrir þingið er vegna þess að ég held að við náum betri árangri og betri samvinnu við þjóðina (Forseti hringir.) með þeirri umræðu sem skapast í þjóðfélaginu í kjölfar þess (Forseti hringir.) að ákvörðunin sé lögð í hendur þjóðarinnar.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um prósentuna, hvaða prósentu hv. þingmaður hafi í huga.



[17:23]
Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef svo sem ekki nein skýr svör um hvaða prósentutölu eigi að miða við. En ég vek athygli hv. þingmanns á því að á Íslandi er svo sannarlega ekki nein kreppa í þátttöku. Þegar við horfum á þátttöku í kosningum, þegar við horfum til að mynda á þá undirskriftasöfnun sem nú stendur yfir þá eru yfir 20% kosningarbærra manna búin að skrifa undir þá söfnun. Það hefur ekki verið vandkvæðum háð, getum við sagt, að virkja fólk til þátttöku, þannig að þær áhyggjur sem við höfum haft af því eru kannski ekki endilega byggðar á miklum rökum einmitt núna þó að ég skuli ekki segja um hvað verði til framtíðar.

Hvað varðar prósentutölu þá segi ég að við í VG höfum ekki lent í einhverri tiltekinni tölu, en það sem hefur verið í umræðunni hefur verið eitthvað á milli 10 og 20% eins og hv. þingmaður nefndi, einhver slík tala sem tiltekinn hluti kosningarbærra manna geti þá krafist atkvæðagreiðslu um tiltekið mál, og þá ekki bara endilega lög heldur líka önnur mál eins og (Forseti hringir.) ég nefndi áðan, til dæmis framkvæmdir á borð við línulögn yfir Sprengisand eða eitthvað slíkt, þá væri eðlilegt að það væri líka (Forseti hringir.) hægt að leggja í dóm þjóðarinnar.



[17:25]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar að beina spurningu til hv. þingmanns þar sem hann er formaður stjórnarandstöðuflokks. Fram kom í umræðum um fundarstjórn forseta fyrr í dag sú yfirlýsing af hálfu eins þingmanns Samfylkingarinnar að hann legðist gegn því að málið færi til nefndar. Er það sameiginleg afstaða stjórnarandstöðuflokkanna eða er það einfaldlega bara skoðun þessa þingmanns? Mig langar bara að fá það á hreint vegna þess að ég tel að það sé mikilvægt að við vitum í hvaða umræðu við erum hér, en þetta er einföld spurning.

Hins vegar talaði hv. þingmaður mjög mikið um að undirbúa ákvarðanir betur til þess að forðast ólgu og ósætti um stór mál. Telur hv. þingmaður í ljósi sögunnar og þeirrar reynslu sem hv. þingmaður hefur af því að sitja í ríkisstjórn sem var klofin í afstöðu sinni til þess málefnis hvort Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið eða ekki, að það sé vænlegt til árangurs að slík ríkisstjórn sæki um aðild að Evrópusambandinu og leiði umræður og viðræður um inngöngu þjóðarinnar í Evrópusambandið? Helmingur ríkisstjórnarinnar á síðasta kjörtímabili vildi ekki ganga inn í sambandið og hvorugur stjórnarflokkurinn á þessu kjörtímabili.



[17:26]
Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað varðar fyrri spurningu hv. þingmanns tel ég sjálfsagt að málið fái eðlilega þinglega meðferð. Hins vegar tel ég líka að komið hafi fram í umræðunni ýmsar vísbendingar frá bæði hæstv. ráðherrum og hv. þingmönnum stjórnarflokkanna um að þessir flokkar séu reiðubúnir að skoða ýmsar leiðir í tengslum við þá þinglegu meðferð, þ.e. að það sé ekki endilega sú hugsun að fara eigi með þetta mál óbreytt í gegn heldur eigi að taka tillit til annarra tillagna sem komið hafa fram og skoða leiðir til þess að ná þar einhverri niðurstöðu sem endurspeglar þá meira vilja alls þingsins. Ég lít því þannig á málið og tek fullt mark á þeim orðum sem hér hafa fallið.

Hvað varðar undirbúning ákvarðana vil ég fyrst segja það að mér finnst mikilvægt, af því að ég nefndi það áðan og ítreka það hér að ég tel að það að undirbúa ákvarðanir betur sé eitthvað sem við getum öll tekið til okkar og öll lært af. Ég tel líka eftir að hafa setið í ríkisstjórn sem var að hluta í minni hluta á því kjörtímabili, að oft sé hægt að ná lendingu um stór mál með slíku samráði, það er hægt. Við höfum haft ákveðinn meirihlutakúltúr í stjórnmálunum sem er ekkert endilega hollur fyrir umræðuhefðina og það að hafa setið í minnihlutaríkisstjórn held ég að sé hverjum manni nokkuð holl lífsreynsla til þess að fara í slíka vinnu.

Það er auðvitað ekki í fyrsta sinn sem það gerist að ríkisstjórn sé klofin í afstöðu sinni til mála. Ég nefni fordæmið frá Noregi þegar minnihlutastjórn Verkakmannaflokksins sótti um aðild að Evrópusambandinu og Verkamannaflokkurinn var klofinn í afstöðu sinni til málsins. Ég tel ekki endilega að það skapi ómöguleika, eins og hér hefur komið fram í umræðunni. Það skapar þó ákveðna kröfu á hendur þeim stjórnmálamönnum sem inn í slíkt verkefni ganga hvernig nákvæmlega þeir geta unnið að góðum samningi, eins og í þessu tilfelli, (Forseti hringir.) ef maður hefur mjög sterkar efasemdir um eðli sjálfs samstarfsins.



[17:29]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið sem var mjög skýrt. Það er gott að við tölum skýrt hérna.

Það er annað atriði sem ég held að við séum ekki alveg sammála um, ég hef þá skoðun að við eigum að draga aðildarumsókn okkar til baka og slíta viðræðum. Það hefur margoft komið hér fram og ég lagði fram þingmál þess efnis á fyrra kjörtímabili. Ég hef þá skoðun að verði einhvern tíma aftur lagt af stað í slíkan leiðangur þá muni það byggja á hagsmunamati. Ég tel að við eigum að læra af reynslunni af síðasta kjörtímabili að það sé ekki vænlegt að fara í slíkan leiðangur nema fyrir liggi vilji meiri hluta Alþingis fyrir því að ganga í Evrópusambandið og líka þjóðaratkvæðagreiðsla. Ég held að þetta séu þeir tveir þættir sem þurfi að liggja skýrt fyrir. Ég tel að við þurfum að draga lærdóm af reynslunni á síðasta kjörtímabili (Forseti hringir.) varðandi framgang málsins í meðförum fyrrverandi ríkisstjórnar.



[17:30]
Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki alveg sammála hv. þingmanni, sem kemur ekki á óvart í ljósi þeirrar afstöðu sem mín hreyfing tók í þessu máli, sem var að þetta væri mál af slíkri stærðargráðu að rétt væri að þjóðin tæki þá ákvörðun. Við lögðum ekki þá ríku áherslu sem ég hef heyrt hjá fleiri hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins að vilji þings og þjóðar þyrftu að fara saman í málinu.

Síðan kemur að því sem ég hef mikið velt fyrir mér upp á síðkastið í kringum þessa umræðu, að auðvitað koma upp mál þar sem afstaða til að mynda flokka fer ekki saman við það sem þjóðin segir. Ég nefni sem dæmi afstöðu manna til þjóðkirkjunnar, sem er auðvitað mjög stórt mál fyrir hvert samfélag. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við hv. þingmenn veltum því fyrir okkur þegar þjóðin hefur lýst afstöðu sinni, segjum bara í allt öðru og óskyldu máli til þess að taka þetta út úr þessu samhengi, hvernig eiga þá stjórnmálaflokkarnir að standa að því nákvæmlega? Þrátt fyrir að við höfum enga bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu ber ekki stjórnmálaflokkum að taka að einhverju leyti tillit til (Forseti hringir.) þess vilja sem fram kemur í slíkum þjóðaratkvæðagreiðslum?



[17:31]
Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Það er að bera í bakkafullan lækinn að óska eftir því að hæstv. utanríkisráðherra sé í salnum. Ég ætla að gera aðra tilraun til að leggja fyrir hann spurningu og svo aðra framsóknarmenn sem sitja hér í salnum ef þeir ganga ekki allir á dyr. Ég hyggst gera að umtalsefni ályktanir Framsóknarflokksins og bréfaskriftir þeirra til kjósenda sem ég sem jafnaðarmaður og aðildarumsóknarsinni get alveg skrifað upp á.

Fyrir kosningar 2009 sendi forusta Framsóknarflokksins í Reykjavík mjög merkilegt bréf til kjósenda sem var undirritað af formanni flokksins. Ég vil taka skýrt fram að á þeim tíma lá Framsóknarflokkurinn í Reykjavík mjög lágt í skoðanakönnunum og það leit jafnvel út fyrir að oddvitar í þessum Reykjavíkurkjördæmum mundu ekki ná kosningu. Þannig voru skoðanakannanir rétt fyrir kosningar.

Síðan er þetta bréf til „kæra kjósanda“ sent út og tekið á nokkrum þáttum en kaflinn um Evrópu er alveg sérstaklega góður. Með leyfi forseta stendur þar:

„Framsóknarflokkurinn er eini flokkurinn sem hefur markað sér skýra stefnu fyrir aðildarviðræður við Evrópusambandið og skilgreint samningsmarkmið þeirra viðræðna. Framsókn hefur sett það sem skilyrði fyrir aðild að fullveldi og óskorað forræði yfir auðlindum þjóðarinnar verði grundvallarkrafa í þeim viðræðum, auk skilyrða sem lúta m.a. að hagsmunum landbúnaðar og sjávarútvegs. Fordæmi eru fyrir slíku í samningum annarra þjóða við Evrópusambandið og því algerlega rangt að halda því fram að þessar kröfur hamli því að af aðildarsamningi geti orðið.“ (SJS: Hver skrifar undir þetta?)

Virðulegi forseti. Þetta bréf er ekki haft undir heldur efst til að leggja áherslu á það og undirritað af formanni Framsóknarflokksins, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni. Ég ítreka það sem ég sagði áðan, virðulegi forseti, þarna lá Framsóknarflokkurinn mjög illa í skoðanakönnunum og má alveg leiða líkur að því að bæði formaður flokksins, núverandi hæstv. forsætisráðherra, og formaður fjárlaganefndar, margrædd, Vigdís Hauksdóttir, hafi ef til vill náð kjöri eftir þessa kosningabaráttu.

Síðan skilur maður eiginlega ekki það sem ég ræddi hér í gær, samþykktir flokksþinga Framsóknarflokksins, bæði 2007 og áréttað 2009, um aðildarviðræður. Þess vegna hef ég ekki skilið þá breytingu sem nú er með framlagningu á þessari dæmalausu tillögu sem hæstv. utanríkisráðherra leggur fram og hefur orðið hér tilefni til mikilla deilna og langra umræðna sem hvergi sér fyrir endann á, þ.e. um þessa dæmalausu tillögu að slíta viðræðunum.

Hvað hefur breyst hjá Framsóknarflokknum? Og má ég biðja þá framsóknarmenn í salnum, hv. þm. Þórunni Egilsdóttur, hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur, hv. þm. Karl Garðarsson, sem þar að auki stóð í Kringlunni í kosningabaráttunni 2013 og hafði uppi fögur og góð orð um aðildarviðræður við Evrópusambandið við kjósendur sem tóku hann tali — hver eru þessi sinnaskipti? Hvað hefur gerst? Það er það sem okkur vantar enn að vita, hvers vegna þessi flýtir, hvers vegna sú dæmalausa tillaga sem þarna er sett fram. Hvers vegna var þetta unnið svona?

Ef til vill hefur skýrleiki og einhver skýring á því birst okkur í gær og í dag, umræðuefnið áðan um samningaviðræður um makrílinn. Ef til vill er það ekki skrýtið að framsóknarmenn treysti sér ekki í viðræður við alþjóðasamtök og aðila erlendis miðað við það sem gerðist í gær í makrílviðræðunum. Það hefur komið fram að hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur haldið vel á málum í þeim viðræðum en ég efast um að utanríkisráðuneytið hafi gert það. Og það er grundvallaratriði í öllum samningum að standa ekki upp frá borði og skilja aðra samningsaðila eftir á fundi til að halda áfram. Þegar menn standa upp frá samningaborði, ég tala nú ekki um í fjögurra þjóða viðræðum eins og þarna var, verða menn að vera tryggir með að samningaviðræðunum sé sannarlega slitið. Það kann að vera að það sem gerðist í gær hvað varðar makrílinn fyrir Íslands hönd skýri dálítið þennan flumbrugang sem (Forseti hringir.) er núna við þessa dæmalausu tillögu (Forseti hringir.) þar sem á að slíta þessum viðræðum.

Virðulegi forseti. Ég hlýt að kalla eftir svörum, vegna þess að ég hef ekki fengið að leggja (Forseti hringir.) spurningar fyrir hæstv. utanríkisráðherra, (Forseti hringir.) og trúi ekki öðru en að þeir framsóknarmenn sem eru í salnum komi í andsvör og útskýri (Forseti hringir.) fyrir okkur það sem sett var hérna fram.



[17:37]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki framsóknarmaður. Það væri eflaust gaman að ræða Framsóknarflokkinn hér við hv. þingmann en ég ætla að sleppa því.

Mig langar að spyrja hann aðeins út í sjávarútvegsmálin. Ég veit að hann er áhugamaður um þau og við eigum að byggja þessa umræðu á þeirri stöðuskýrslu sem við fengum hingað til umræðu. Þar kemur fram:

„Ólíklegt er að hægt sé að sækja um varanlega undanþágu frá takmörkunum varðandi fjárfestingar útlendinga í sjávarútvegsfyrirtækjum. Hugsanlega væri hægt að fá tímabundnar undanþágur til aðlögunar, t.d. með því að setja skilyrði um búsetu. Einnig má telja óvíst að hægt verði að setja skilyrði um hömlur á framsal aflaheimilda til annarra en Íslendinga eða íslenskra fyrirtækja. Þá er ljóst að samningsumboð við lönd utan Evrópusambandsins, t.d. vegna veiða úr deili- og flökkustofnum, verður á hendi Evrópusambandsins en ekki einstakra ríkja. Leitað er samráðs við aðildarlöndin í slíkum tilvikum.“

Að lokum:

„Þá er ljóst að ekki væri hægt að fá undanþágu frá ákvæðinu um að heildarafli í helstu veiðum skuli ákvarðaður formlega á vettvangi Evrópusambandsins, þrátt fyrir að lögsaga Íslands yrði skilgreind sem sérstakt fiskveiðistjórnunarsvæði.“

Ég vil spyrja hv. þingmann út í þær skoðanir sem koma fram í skýrslunni og hvort hann telji að nýjasta útspilið, að við skyldum ekki vera tekin með í samninga varðandi makrílinn, hafi áhrif á framhaldið. Eru þetta ákveðin skilaboð frá Evrópusambandinu til okkar? Ég ætla nú ekki að vera með stórar meiningar um að við viljum ekki ljúka þeim viðræðum sem farnar voru af stað, maður má kannski ekki ætla mönnum slíkt. Ég vil heyra sjónarmið hans varðandi þessa þætti.



[17:39]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur þetta andsvar sem hún veitir mér við þeirri stuttu fimm mínútna ræðu sem ég hafði til umráða áðan, seinni ræðu við fyrri umr. um þessa þingsályktunartillögu. Það er eðlilegt að hv. þingmaður spyrji út í sjávarútvegsmál, mjög eðlilegt. Við höfum lengi setið saman í nefndum Alþingis sem fjalla um sjávarútvegsmál og okkur eru þau kær, við komum bæði af landsbyggðinni og vitum um þýðingu sjávarútvegs á landsbyggðinni og fyrir land og þjóð. Þess vegna er mjög eðlilegt að spurt sé út í hann.

Hv. þingmaður las upp úr skýrslunni sem við höfum rætt, um varanlegar undanþágur, um eignarhald og veiðireynslu o.s.frv., og talaði um búsetu. Ég hef sagt og segi enn: Niðurstaða í sjávarútvegskaflanum, ef til samnings kemur, mun ráða afstöðu minni, hvort ég segi já eða nei við samningi á lokastigi. Þar eru mörg atriði sem koma til umfjöllunar.

Hér hefur verið rætt um sjávarútvegskaflann, og sérstaklega af hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur og ég gerði það í einhverjar mínútur í tíu mínútna ræðu minni í gær þar sem ég fjallaði um það sem kemur fram í skýrslunni, og hina nýju sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins sem þó var ekki stimpluð endilega fyrr en í upphafi þessa árs. Það er sagt fyrir þá sem gagnrýna að sjávarútvegskaflinn hafi ekki verið opnaður, sá mikilvægi kafli. Sumir telja að hann hefði átt að koma fyrst og að það hefði átt fá niðurstöðu í hann o.s.frv. Skýringin var þessi: Evrópusambandið var að skoða stefnu sína og fara í gengum hana og hún, eins og hún birtist í skýrslunni, þessari ágætu skýrslu um þá kafla og málaflokka sem rætt er um, sýnir okkur auðvitað best og er besti rökstuðningurinn sem komið hefur fram síðustu mánuði (Forseti hringir.) fyrir því að við eigum að halda aðildarviðræðum áfram og komast að samkomulagi (Forseti hringir.) og fá samning til að bera undir þjóðina.



[17:42]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Við hv. þingmaður deilum þeirri skoðun að við viljum að þjóðin komi að málinu, að það fari í þjóðaratkvæðagreiðslu og að það sé þjóðin sem ákveði framhald málsins. Það hefur mikið verið rætt hér að á ferðinni sé sérhagsmunagæsla og að núverandi ríkisstjórn sé að slá skjaldborg um sérhagsmunagæslu. Ég lít þannig á að menn séu þá að tala um sjávarútveginn og aðrar útflutningsgreinar og að af þeim sökum vilji menn ekki halda viðræðunum áfram. Telur hv. þingmaður að slík hagsmunagæsla sé á ferðinni?

Það hefur líka verið talað eins og sérhagsmunagæsla sé eitthvert fyrirbæri á Íslandi sem ekki þekkist í Evrópu. Mig langar að heyra sjónarmið hv. þingmanns í því og líka varðandi sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins (Forseti hringir.) sem er að fara að taka sér til fyrirmyndar íslenska sjávarútvegsstefnu, sem ekki allir eru sammála um.



[17:43]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins varðandi það sem hv. þingmaður ræddi í lok andsvars sín, um íslensku sjávarútvegsstefnuna sem Evrópusambandið er að taka upp. Það geta verið skiptar skoðanir á því hvað sé best að taka upp og hvað ekki og hvað sé verst við sjávarútvegsstefnu okkar og hvað sé aftur betra. Sjálfbærar veiðar eru auðvitað aðalatriðið og mér finnst mjög merkilegt hvernig það er skrifað inn í hina nýju sjávarútvegsstefnu, þó sýnist mér ekki beint hafa verið farið eftir henni núna í plottinu í Edinborg þar sem Evrópusambandið og tvær þjóðir náðu samkomulagi. En það er annað mál.

Hvort um sérhagsmunagæslu sé að ræða hvað varðar þingsályktunartillöguna um að slíta viðræðunum þá ég veit það ekki. Maður leiðir hugann að ýmsu eins og ég sagði í ræðu minni. Hvað er það sem orsakar þennan ofboðslega flýti? Hvað var það sem kallaði á það þegar umræðan var rétt að byrja um skýrsluna að efnislegri umræðu væri næstum lokið, eins og hæstv. utanríkisráðherra sagði og skellti svo fram þessari tillögu beint ofan í það? (Forseti hringir.) Ég geri mér ekki grein fyrir því, en ég geri mér grein fyrir því að stefna Heimssýnar er að hluta utanríkisstefna (Forseti hringir.) þessarar ríkisstjórnar.



[17:45]
Karl Garðarsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Kristján Möller spyr: Hvað hefur breyst í Framsóknarflokknum frá árinu 2009? Það er rétt að benda honum á, ef hann skyldi ekki vita það, að stór hluti þingmanna Framsóknarflokksins í dag var nú ekki einu sinni skráður í flokkinn árið 2009, a.m.k. 10 af 19 þingmönnum flokksins, við skulum hafa það á hreinu.

Ég ætla líka að benda hv. þingmanni á ályktun flokksþings framsóknarmanna frá síðasta ári, en þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Íslendingar skulu áfram leita eftir samstarfi við þjóðir innan og utan Evrópusambandsins á grundvelli frjálsra og sanngjarnra samninga og samvinnu sem byggir á jöfnuði og ábata allra aðila. Með slíkum samskiptum geta íslensk stjórnvöld best tryggt hagsmuni Íslands á hverjum tíma. Framsóknarflokkurinn telur hag lands og þjóðar best borgið utan Evrópusambandsins.“

Þetta kemur fram í ályktun flokksþings framsóknarmanna á síðasta ári.

Spurning til hans: Hann sagði hér áðan, hv. þingmaður, að undirritaður hefði haft fögur orð um Evrópusambandið í Kringlunni í aðdraganda kosninga á síðasta ári. Mér þætti vænt um að vita hvaða orð það eru sem hann er að vísa til þar, sem ég á að hafa sagt um Evrópusambandið.



[17:46]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er afar þakklátur hv. þm. Karli Garðarssyni fyrir að koma í andsvar við þessa stuttu ræðu mína. Ég virði það því að ég hef verið að kalla eftir sjónarmiðum framsóknarmanna. Við erum hér að skiptast á skoðunum og mér finnst vanta eitthvað inn í ferilinn allan til að útskýra þennan flýti, þ.e. miðað við það sem áður hefur verið sagt.

Hv. þingmaður setur fram þá skýringu að margir af þingmönnum flokksins hafi ekki einu sinni verið skráðir í Framsóknarflokkinn 2009. Það er virðingarvert, það var miklu betra þá en nú. En flokkar skipta ekki um skoðun og breyta ályktunum sínum eins og Framsóknarflokkurinn gerði frá 2007, og ítrekaði og bætti í, til 2009. Og svo þetta frábæra bréf sem sent var kjósendum daginn fyrir kosningar — takið eftir að þetta var daginn fyrir kosningar — og auglýsingar á höfuðborgarsvæðinu, um aðildarviðræður við Evrópusambandið, máttu alls ekki fréttast út á land. Auglýsingarnar máttu ekki fara í landsbyggðarkjördæmin.

Flokkar skipta ekki um skoðun í stórum málum af þessu tagi eins og fólk skiptir um föt. Stefnan var mörkuð þarna og ég leiddi líkur að því að þetta hefði að hluta til orðið til þess að Framsóknarflokkurinn fékk menn kjörna í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur árið 2009 m.a. út af þessari framsýnu stefnu sem var studd ályktuninni frá 2009. Og eins og hér hefur komið fram var hún studd af þeim sem voru í Framsóknarflokknum þá en ekki af þeim sem eru í Framsóknarflokknum núna, en þá var yfirgnæfandi stuðningur við ályktunina á flokksþingi Framsóknarflokksins, þegar þetta var.



[17:48]
Karl Garðarsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þarf nú ekki einu sinni að nota þessa mínútu vegna þess að þetta er mjög merkileg yfirlýsing frá hv. þm. Kristjáni Möller um að flokkar skipti aldrei um skoðun. Það er þá alveg nýtt í íslenskum stjórnmálum og stjórnmálum almennt, þannig að við skulum halda því til haga. En einhverra hluta vegna kýs hann að svara ekki spurningunni sem ég beindi til hans sem var: Hvað var það sem ég sagði svona jákvætt um Evrópusambandið í Kringlunni í aðdraganda kosninga 2013?



[17:49]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Maður hefur ekki nákvæmlega eftir það sem menn segja við aðra sem standa og hitta frambjóðendur eins og gengur og gerist. Ég stóð í stórmörkuðum í mínu kjördæmi og kjósendur komu og ræddu við mig eins og þeir gerðu við frambjóðendur Framsóknarflokksins hér á höfuðborgarsvæðinu. Ungt fólk sem hefur áhyggjur af framtíð Íslands, og vill að við tengjumst þessu sambandi, tökum upp nýjan gjaldmiðil og annað slíkt, eins og ungt fólk vill margt hvert, skiptist á skoðunum við frambjóðendur. Þar á meðal kom fram að aðildarviðræður ætti að leiða til lykta og leggja málið í dóm kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu. Og það er einmitt það sem við erum að tala um núna.

Virðulegi forseti. Að mínu mati hefur aldrei á Íslandi verið eins mikið tækifæri til að mynda breiða sátt meðal alþingismanna og fælist í því að (Forseti hringir.) samþykkja tillögu um að vísa því í þjóðaratkvæðagreiðslu, (Forseti hringir.) eins og sjálfstæðismenn og framsóknarmenn hafa lofað, (Forseti hringir.) hvort halda eigi aðildarviðræðunum áfram.



[17:50]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég varð svo djörf að óska eftir andsvari við hv. þingmann þó að ég sé ekki framsóknarmaður. Ég vona að hv. þingmaður sé ekki móðgaður við mig fyrir þær sakir.

Mér þótti þessi nálgun frekar sérkennileg, að reyna að kría fram hvernig núverandi þingmenn Framsóknarflokksins útskýrðu kosningabækling frá árinu 2009. Þeir sem hér sátu í salnum voru allir fyrst í framboði fyrir síðustu kosningar eftir því sem mér skilst. Það væri eins og ef ég krefði hv. þm. Kristján Möller svara við spurningunni hvers vegna hann styddi ekki lengur útflutningsleiðina sem farið var fram með í kosningunum 1995 af forverum Samfylkingarinnar. Er það þannig að þingmaðurinn styðji ekki enn þá leið eða er það einfaldlega þannig að flokkar skipti ekki um skoðun, þeir skipti bara um kennitölu? Er það í lagi?

Þar sem hv. þingmanni er svona mikið í mun að aðrir flokkar standi við sína stefnu verð ég að knýja jafnframt svara úr ríkisstjórn 2009 þegar hv. þingmaður sat þar með Vinstri grænum: Hlýddi hann ráðherrum Vinstri grænna yfir kosningaplögg Vinstri grænna þar sem fram kom að Vinstri grænir væru á móti því að Ísland gengi í Evrópusambandið? Það kom vægast mjög flatt upp á kjósendur Vinstri grænna á þeim tíma að þeir skyldu síðan leiða þá baráttu að Ísland sækti um aðild að Evrópusambandinu. Hélt þáverandi samgönguráðherra, Kristján Möller, svona ræðu yfir ráðherrum og þingmönnum Vinstri grænna á þeim tíma til að hlýða þeim yfir sín eigin kosningaloforð?



[17:52]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður fer fjögur ár aftur fyrir minn þingfestutíma, (UBK: Nú, má …?) 1995, og allt í besta lagi með það. Sá sem hér stendur er upprunninn í gamla góða Alþýðuflokknum en ekki Alþýðubandalaginu þannig að hann skrifaði aldrei upp á útflutningsleiðina sem núverandi forseti lýðveldisins var höfundur að, ef ég man rétt, og setti fram í kosningabæklingi 1995. Það gæti vel verið að ég gæti fundið þann bækling eins og ýmislegt annað sem skrifað hefur verið.

Þetta snýst um hvað menn segja og hvað menn boða í kosningum, já, það snýst um það. Mér finnst það mjög merkilegt og að menn þurfi að standa við þau orð eins og fimm núverandi ráðherrar Sjálfstæðisflokksins sögðu í aðdraganda síðustu kosninga það sem þeir hafa vafalaust lært utan bókar og búið hefur verið til af PR-mönnum Sjálfstæðisflokksins í Valhöll um að þetta deilumál skyldi leitt til lykta, að auðvitað fengi þjóðin að greiða atkvæði um hvort halda ætti áfram viðræðum eða ekki.

Ég veit ekki hvað hv. þingmaður sagði í Suðurkjördæmi, ég var hinum megin á landinu, beint á móti, í norður. Ég veit hins vegar hvað oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi hefur sagt um þetta og ég tel einfaldlega að þegar við segjum svona hluti í kosningabaráttu eigi menn að standa við þá alveg eins og ég veit að hæstv. heilbrigðisráðherra, sem hér stendur, ætlar að standa við það sem hann birti í svari til sjálfstæðismanna í gagni þeirra sem sent var öllum sjálfstæðismönnum fyrir síðustu kosningar.



[17:54]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þá er ósvarað þeirri spurningu, þar sem þetta er skoðun hv. þingmanns, hvort hann hafi tekið þessa umræðu við ráðherra Vinstri grænna í fyrrverandi ríkisstjórn þegar þeir samþykktu það gegn eigin yfirlýsingum í kosningabaráttunni, gegn samþykktum landsfundar Vinstri grænna, (Gripið fram í: Nei.) [Kliður í þingsal.] gegn því sem sagt var í kosningabaráttunni (Gripið fram í: Ekki …) árið 2009, fyrir kosningabaráttuna þá, (ÁPÁ: Segja satt.) að Vinstri grænir væru á móti (Gripið fram í: Vinstri grænir …) aðild Íslands að Evrópusambandinu. Það kom flatt upp á alla þá kjósendur Vinstri grænna sem ég hef hitt í mínu kjördæmi að Vinstri grænir leiddu svo þá (HHj: Er þingmaðurinn …?) baráttu að koma okkur Íslendingum (ÁPÁ: … þjóðaratkvæðagreiðslu …) inn í aðlögunarviðræður við Evrópusambandið. [Kliður í þingsal.]

(Forseti (ÞorS): Forseti biður þingmenn að hafa hljóð.)

Ef menn ætla að halda því fram að það sé stefna hv. þingmanns að lesa yfir þingmönnum Framsóknar upp úr gömlum kosningayfirlýsingum, þegar viðkomandi voru ekki einu sinni í framboði, (Forseti hringir.) verða menn auðvitað að gera það á öllum vígstöðvum, (Forseti hringir.) ekki bara þegar það hentar.



[17:55]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég gat hér um, þó að ég hafi ekki lesið það upp orðrétt, hverju oddvitar og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins lofuðu fyrir kosningar 2013. Það var alveg skýrt.

Hv. þingmaður talar um hvað fulltrúar á landsfundi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sögðu við stjórnarmyndun þeirrar ágætu ríkisstjórnar sem starfaði eftir kosningarnar 2009. Ég hefði haft gaman af að taka þá bæklinga með mér ef ég hefði vitað þetta. Ef ég man rétt samþykkti landsfundur að hann væri tilbúinn að leggja aðildarsamning fyrir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu þannig að þessu deilumáli lyki. Ég tók eftir því áðan, þegar hv. þingmaður fór með þessi orð um stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í Evrópumálum, að margir þingmenn hér andmæltu því sem hv. þingmaður sagði. Það er alveg nákvæmlega það sama og við þurftum að gera um þá dæmalausu greinargerð sem fylgdi tillögunni (Forseti hringir.) fyrst þegar hún var lögð fram en hæstv. utanríkisráðherra var gerður (Forseti hringir.) afturreka með hana.

Virðulegi forseti. Ég held að Heimssýnargögn séu ekki góð fylgigögn með frumvörpum.



[17:57]
Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Við í stjórnarandstöðunni höfum haft forgöngu um málefnalega umræðu um Evrópusambandið í björtu. Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa ekki þorað að vera með í þeirri umræðu að ræða loforð sín fyrir síðustu kosningar. Og nú bregða ríkisstjórnarflokkarnir á það ráð að knýja í gegn með ofbeldi kvöld- og næturfundi á Alþingi til að troða málinu í gegn með einum eða öðrum hætti í stað þess að taka þátt í málefnalegri umræðu.

Ríkisstjórnin spillir friðnum á Alþingi. Hún sundrar þjóðinni, hún svíkur loforð sín, hún stendur ekki vörð um hagsmuni Íslands á alþjóðlegum vettvangi. Virðulegur forseti. Ég mótmæli þessari svívirðilegu framkomu hér á þinginu.



[17:58]
Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil nota þetta tækifæri strax til að bjóða velkomna í salinn hæstv. ráðherra Sjálfstæðisflokksins, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, en eftir ráðherrum Sjálfstæðisflokksins hefur nokkuð verið kallað í þessari umræðu og það ekki að ósekju, kannski einmitt vegna þess að þeir hafa talað í aðdraganda kosninga og snúið svo við blaðinu núna með stuðningi við tillögu hæstv. utanríkisráðherra, sem hefur verið viðstaddur umræðuna og þökk sé honum fyrir það.

Hér stefnum við í kvöldfund. Boðað hefur verið að við munum sitja fram eftir kvöldi og halda umræðu áfram. Ég óska eftir því að aðrir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins fari að fordæmi hæstv. innanríkisráðherra og sitji hér með okkur og ræði þessi mál í kvöld vegna þess að annað er algerlega óásættanlegt. Hér eru enn vendingar í málinu. Það hafa verið vendingar í málinu í dag sem við þurfum að fá úr skorið hvað ríkisstjórnarflokkarnir meina með. Það er að vísu einn og einn þingmaður sem (Forseti hringir.) talar alveg eins og ekkert hafi gerst síðan föstudaginn þegar tillagan kom fram, til dæmis hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir. (Forseti hringir.) En það mætti segja mér að fleiri væru tilbúnir (Forseti hringir.) að sýna hér mildari hliðar og ég kalla eftir því.

(Forseti (ÞorS): Forseti beinir því til þingmanna að virða tímamörk.)



[18:00]
Árni Páll Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja það að ég skil ekki hvað rekur virðulegan forseta til að rjúfa friðinn í þinginu. Við höfum staðið hér fyrir málefnalegri umræðu alla þessa viku. Við höfum látið það óátalið þó að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafi ekki birst hér í þingsal, fólkið sem er bert að því að svíkja loforð þorir ekki einu sinni að koma hingað og standa fyrir máli sínu. Það þorir ekki einu sinni að koma hér í ræðu. Við höfum samt ekki verið að gera úr því mál. Við höfum ekki látið það trufla umræðuna.

En það er alveg ljóst að ef menn ætla að fara að leika svona fruntaleiki eins og forseti er að stinga upp á núna, að efna hér til kvöldfunda og næturfunda, þá er auðvitað verið að slíta sundur friðinn. Það er búið að skapa hér frið um framhald mála undanfarna daga og það er á ábyrgð forseta að rjúfa það. Það er margbúið að segja við forustumenn stjórnarflokkanna hvað þarf að koma til. (Gripið fram í.) Það liggur ljóst fyrir að forusta ríkisstjórnarinnar er ráðalaus í málinu og ræður ekki við að taka ákvarðanir um næstu skref.



[18:01]
Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Við höfum verið að ræða málið í ágætum friði. Við höfum staðið hér, rætt málið hvert við annað, stjórnarandstaðan meira og minna, en ríkisstjórnin hefur sýnt okkur virðingarleysi og skeytingarleysi með því að vera ekki hér til andsvara eða til viðræðu um málið. Við höfum látið okkur hafa það. En tökum eftir því að það er takmarkaður ræðutími í umræðunni. Eingöngu er hægt að tala einu sinni í tíu mínútur og einu sinni í fimm mínútur. Þess vegna skil ég ekki af hverju við erum að fá kl. hálfsex í kvöld SMS um það að hér eigi að fara fram atkvæðagreiðsla um lengd þingfundar. Vegna þess að ríkisstjórnin ætlar að fara að sýna vald sitt. Hún ætlar ekki að taka þátt í umræðu, hún ætlar bara að sýna vald sitt, keyra mál með tuddaskap í gegnum þingið, með tuddaskap, virðulegi forseti, og þetta er skýrt merki um það.

Ef menn vilja vinna heiðarlega, koma vel fram við samþingmenn sína (Forseti hringir.) þá hefðu menn gert það eftir að þingfundur hófst í morgun (Forseti hringir.) en ekki rétt áður en kvöldfundur brestur á. (Forseti hringir.) Það er virðingarleysi gagnvart þinginu og fjölskyldum okkar, virðulegi forseti.



[18:02]
Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseti freistaði þess í allan dag að reyna að ná niðurstöðu þannig að hægt væri að ljúka þessum þingfundi og umræðu um þau mál fyrir klukkan átta í dag. Það er ljóst að svo verður ekki og þess vegna er boðað til kvöldfundar.



[18:03]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hæstv. ríkisstjórn og þá sérstaklega hæstv. ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa sýnt þessari þjóð algera óvirðingu með því að segja blákalt að þeir ætli að svíkja loforð sem þeir gáfu fyrir kosningar. Það er ekki neinum vafa undirorpið. 50 þúsund manns hafa skrifað undir beiðni um að menn standi við orð sín. Það er ekki farið fram á meira. Hinir ágætu hæstv. ráðherrar sýna fólkinu úti og okkur, það er allt í lagi með okkur en annað með kjósendurna, þá óvirðingu að mæta ekki í þingsal. Þeir tala ekki einu sinni í þessari umræðu.

Þrisvar í gær var beðið um að þessir menn kæmu hingað. Það var beðið um það með 12 tíma fyrirvara eða 24 tíma fyrirvara, ég veit ekki hvað það var, en þeir láta ekki svo lítið að koma og standa fyrir máli sínu og útskýra af hverju þeir svíkja gefin loforð.



[18:04]
Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Það kemur mér verulega á óvart að boðað skuli til atkvæðagreiðslu um lengd þingfundar þegar klukkan er orðin meira en sex að kvöldi. Það kemur mér mjög á óvart. Fyrr í dag var kallað eftir hæstv. ráðherrum Sjálfstæðisflokksins, slag í slag. Vísað var í orð sem voru látin falla í óundirbúnum fyrirspurnum og kölluðum við eftir hæstv. ráðherrum til að fara yfir málið. Getur það verið, virðulegur forseti, að forseti sætti sig við að hæstv. ráðherrar skili sér einungis í hús til að greiða atkvæði um lengd þingfundar en koma ekki í umræðuna? Það er óásættanlegt.



[18:05]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég tel mjög sérkennilegt að amast við því að þingmenn og ráðherrar komi hingað til að taka þátt í atkvæðagreiðslum sem boðaðar eru í þinginu. Við höfum gengið of langt þegar við erum farin að amast við því.

En af því að við höfum talað um að menn ræði hér málin í mikilli sátt þá kom það fram hjá einum hv. þingmanni stjórnarandstöðunnar í umræðum um fundarstjórn forseta að viðkomandi berðist gegn því að þetta mál færi til þingnefndar. Það hefur komið fram. Ég hef gert reynt að kanna hvort allir þingmenn stjórnarandstöðunnar séu á þessari skoðun og hef fengið það fram hjá hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstri grænna, að vinstri grænir berjast ekki gegn því að málið fái þinglega meðferð, þvert á móti, þeir vilja að málið fari í nefnd og fái þar umræðu. Ég kalla eftir því að menn spyrji sjálfa sig að því hvort það sé rétt afstaða hjá þingmönnum sem tala um það í öðru orðinu að þeir vilji ræða þetta mál á málefnalegan hátt en segja svo í hinu orðinu að þeir berjist gegn því að málið (Gripið fram í.) fari til umræðu í nefnd. (Gripið fram í.)



[18:06]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég var einnig undrandi á að það skyldi allt í einu boðað til atkvæðagreiðslu um kvöld- eða næturfund einfaldlega vegna þess að við höfum bæði í gær og í dag átt hér ágætlega málefnalega umræðu í björtu um þetta mál og sú umræða er langt komin þannig að ég sé enga sérstaka þörf á því að breyta taktinum í þessu eða andrúmsloftinu og stemningunni. Það hefur fyrst og fremst verið einn ljóður á þessari umræðu eins og hún hefur farið fram í gær og í dag og það er alger fjarvera hæstvirtra ráðherra. Það er það ótrúlega virðingarleysi sem forustumenn ríkisstjórnarinnar sýna þessu stóra máli að láta ekki sjá sig hér. Með fullri virðingu fyrir hæstv. utanríkisráðherra þá er þetta mál af þeirri stærðargráðu að það er eðlilegt að ætlast til þess að forustumenn ríkisstjórnarflokkanna séu hér líka til svara og þátttöku í umræðunni.

Reyndar er það virðingarleysi að verða fordæmalaust sem hæstv. forsætisráðherra sýnir Alþingi með fjarveru sinni með því að taka nánast aldrei þátt í sérstökum umræðum og koma í veg fyrir það með fjarveru sinni og synjun að hægt sé að taka við hann sérstaka umræðu. Ég krefst þess, eigi að halda hér áfram, að ráðherrarnir verði þá viðstaddir til loka þessarar umræðu.



[18:08]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það hefur verið gagnrýnt hérna og sagt að þingmenn stjórnarandstöðunnar vilji ekki fá málið í nefnd. Þá vil ég bara árétta að miðað við hvernig þetta hefur verið í dágóðan tíma þá veit maður ekki hvernig í ósköpunum maður á að geta treyst því að málið verði rætt af einhverri alvöru í nefnd. Ferlið er þannig að fyrst fær málið umræðu í þinginu og síðan fer það til nefndar. Það hefur ekki fengið neina efnislega umræðu af hálfu stjórnarinnar svo orð sé á hafandi.

Við sitjum hér og við ræðum málið, við reynum að ræða það efnislega og þá sjaldan sem hv. þingmaður stjórnarmeirihlutans stígur í pontu og segir eitthvað efnislega um málið þá vantar alla hæstv. ráðherra eða að minnsta kosti yfirþyrmandi meiri hluta stjórnarmanna. Það er ekki umræðan sem ætlað er í þingsköpum að hafa fyrir nefndarstarf. Það er því ekki rétt að gagnrýna einstaka þingmenn stjórnarandstöðunnar fyrir að vilja ekki fá málið í nefnd, eins og sagt hefur verið. Það er ekki í neinu samræmi við það hvaða umræða á sér stað hér eða öllu heldur á sér ekki stað hér og sérstaklega tekur maður eftir fjarveru hæstv. forsætisráðherra sem þó virðist taka allar ákvarðanir þegar allt kemur til alls.



[18:09]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Við höfum rætt um allnokkra hríð kosningasvik Sjálfstæðisflokksins. Ég hef kallað eftir því oftar en einu sinni að hæstv. ráðherrar Sjálfstæðisflokksins komi hingað og geri grein fyrir skyndilegri breytingu á afstöðu, því að þetta er algerlega óviðunandi. Það er mjög óeðlilegt að þetta mál fari til nefndar og það verði einhvers konar þingleg meðferð á kosningasvikum Sjálfstæðisflokksins án þess að við fáum að vita úr þeirra munni af hverju svo er. Þegar ég var kölluð hingað til atkvæðagreiðslu hugsaði ég: Það skyldi þó ekki vera að hæstv. ráðherrar ætluðu að gera svo lítið að segja okkur frá afstöðuskiptum sínum? Nei, svo er ekki. Ég sé ekki einn þeirra á mælendaskrá en þeir eru mættir hér í hús til að greiða atkvæði um lengri þingfund. Þetta er hneisa, herra forseti.



[18:10]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég efast ekkert um að hæstv. forseti hefur lagt sig fram við það í dag að reyna að ná sáttum eða halda utan um þetta mál og reyna að koma því í einhvern farveg, en það hefur greinilega ekki tekist. Ég tel þetta mjög alvarlega niðurstöðu. Með þeirri ákvörðun að halda kvöldfund er verið að senda okkur þingmönnum sem höfum tekið þátt í þessari umræðu langt nef og verið að hella olíu á eld. Menn rétta ekki fram neina sáttarhönd í þessu máli sem hefði verið hægt hefðu menn haft þroska til að lenda málinu og horfa til þess að þjóðin fylgist með umræðunni. Þjóðin fylgist með þegar menn halda áfram að þverskallast við, hlusta ekki á þjóðina og halda að þeir geti það eins og þeir hafi allan heiminn fram undan til að stjórna þessu landi.

Það kemur að því að kosið verður aftur og fylgið er strax farið að hrynja af þessum flokkum. Menn skulu muna það þegar þeir haga sér eins og þeir gera.



[18:12]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hér er enginn friður, sem var þó í dag, og ekkert útspil frá hæstv. ríkisstjórn. Það er nú þannig að fleiri þarf en einn til samkomulags, það er nokkuð ljóst.

Mig langar að inna hæstv. forseta eftir því, því að hann sagði hér áðan að hann hefði lagt sig fram um það í dag að leita samkomulags: Var það við hæstv. forsætisráðherra eða hæstv. utanríkisráðherra? Það var a.m.k. ekki við formenn flokkanna eða þingflokksformenn, það er alveg ljóst, ég er búin að spyrjast fyrir um það. Hver vill ekki semja um þetta mál eða málsmeðferðina? Ég óska eftir því að hæstv. forseti upplýsi það.

Auðvitað er það óvirðing við okkur þingmenn, eins og hér kom fram áðan, og fjölskyldur okkar að boðað skuli til lengri þingfundar kl. hálfsex. Það er ekki með nokkru móti hægt að sætta sig við það að stjórnarliðar komi hingað, greiði atkvæði sem og ráðherrar og neiti síðan nánast að taka þátt í umræðunni (Forseti hringir.) en ætli svo að tala heil ósköp, heyrist manni af þeim sem hafa talað, í nefnd. (Forseti hringir.) Af hverju vilja þeir ekki opinbera skoðanir sínar í ræðustól Alþingis? (Gripið fram í: Heyr, heyr!)



[18:13]
Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Það hefur margkomið fram að forseti hefur lagt mikla áherslu á að hægt verði að ljúka umræðu um þetta mál á þessum degi og hefur freistað þess í dag að sjá til þess að það megi takast án þess að fundur verði hér fram á kvöld. Það tókst ekki og það er ekki við neinn einstakan að sakast í þeim efnum. Það varð einfaldlega ekki niðurstaðan að það væri hægt og þess vegna er nú boðað til kvöldfundar. Þetta veit ég að hv. þingmönnum er mætavel kunnugt.



[18:14]
Árni Páll Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það hefur alltaf legið ljóst fyrir hvað þarf að koma til svo að hægt sé að vinna í friði í þessu máli. Það hefur ekki verið í boði af hálfu ríkisstjórnarinnar. Það er vandamálið sem við er að etja.

Virðulegur forseti verður að axla ábyrgðina á því að rjúfa friðinn í þinginu. Það þýðir líka að hann verður að skikka ráðherra ríkisstjórnarinnar til að sitja hér í kvöld og fram á nótt. Það er lágmarkskrafa að þeir ráðherrar sem hafa gengið opinberlega á bak orða sinna sitji við þessa umræðu. Það er lágmark að forsætisráðherra sitji umræðuna, allir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra. Við höfum hlíft þessu fólki hingað til, leyft því að sinna sínu og taka ekki þátt í lýðræðislegri umræðu. Á meðan eru haldnir fundir sem er uppselt inn á þar sem prófessorar við háskólann fjalla um vandann sem íslensk stjórnmál eru komin í vegna þess að umræðan snúist um form en ekki efni. Við höfum hlíft ráðherrunum við því að taka þátt í efnislegri umræðu. (Forseti hringir.) Það er komið nóg af því. Forseti verður (Forseti hringir.) að tryggja viðveru þessa fólks hér (Forseti hringir.) þar til umræðu lýkur.



[18:15]
Róbert Marshall (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég amast ekki við því að haldinn verði hér kvöldfundur en mér finnst það sjálfsögð krafa, úr því að þessi umræða er á síðustu metrunum, að hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar séu viðstaddir hana og sýni á spilin hvað varðar næstu skref. Við höfum a.m.k. fengið að heyra og sjá í dag að hæstv. ráðherrar Sjálfstæðisflokksins gera sér grein fyrir því að samþykkt tillögunnar, eins og hún liggur fyrir, felur í sér svik við kosningaloforð. Annars hefði hæstv. heilbrigðisráðherra ekki orðað það þannig í ræðu fyrr í dag: Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki svikið kosningaloforð, enn.

Ég held að menn ættu að svara þeim 50 þús. einstaklingum sem hafa skorað á ríkisstjórnina að beygja af leið, svara þeim tugum þúsundum mótmælenda sem hafa komið hingað hvern dag og svara 82% þjóðarinnar sem segjast í skoðanakönnun vilja ljúka viðræðunum.

Það hlýtur að vera erfitt fyrir hæstv. ráðherra að vera í þessari stöðu. Þess vegna er ágætt ef þeir koma hingað og taka þátt í hópstyrkingu með okkur hinum í minni hlutanum (Forseti hringir.) og sýna aðeins á spilin og hvernig þeir sjá fyrir sér að komast út úr þeim ógöngum sem þeir hafa leitt yfir sig.



[18:16]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Þetta snýst ekki um það að þingmenn stjórnarandstöðunnar séu hér lengur en búist hafði verið við fyrr í dag heldur snýst þetta um umræðuformið almennt. Hér verða ekki efnislegar umræður svo að teljandi sé áður en málið fer í nefnd. Það er alvarlegt mál. Hvers vegna ekki? Hvers vegna hefur ekki komið fram neinn rökstuðningur fyrir því hví slíta þurfi viðræðum frekar en að gera einfaldlega hlé? Það má ekki koma neitt til móts við neinn. Hvers vegna ekki? Af hverju er það svona mikið vandamál fyrir stjórnarliða að koma hingað og rökstyðja sitt mál? Hvers vegna á að lengja hér fund til að við getum haldið áfram að tala við engan eða svo gott sem? (Gripið fram í.)

Ég þakka reyndar hv. 4. þm. Suðurk., Unni Brá Konráðsdóttur, fyrir að taka þátt í umræðunni sem hér hefur staðið í kvöld. Það er í alvöru mikils metið vegna þess hve sjaldgæft það er; ég tala nú ekki um hæstv. ráðherra. En það að slíta viðræðunum á móti því að gera hlé — hvers vegna má ekki ræða þetta? Hvers vegna getur enginn komið hingað og rökstutt þetta? Og ef þetta skiptir engu máli, eins og sumir hv. stjórnarliðar hafa sagt, hvers vegna má þá ekki koma til móts við þetta? Af hverju getum við ekki rætt þetta efnislega í þingsal eins og þingsköp gera ráð fyrir áður en málið fer í nefnd? Á hverju strandar það?



[18:18]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mér er fullljóst að greiða á atkvæði um lengri fund í kvöld, svo mikið skil ég. Ég skil hins vegar ekki hvernig hæstv. ráðherrar Sjálfstæðisflokksins ætla að vera fjarstaddir alla þessa umræðu. Einn hæstv. ráðherra Sjálfstæðisflokksins hefur komið inn á þetta mál í óundirbúnum fyrirspurnum þar sem hann sagði alveg klárlega, eða ég gat ekki skilið hann öðruvísi, að hann ætlaði ekki að svíkja loforð. Það þýðir þá að hann ætlar ekki að samþykkja þessa tillögu eins og hún er. Það hlýtur að fela í sér að þá eigi að breyta tillögunni. Mér finnst að við þingmenn eigum rétt á því að heyra það frá hæstv. ráðherrum sem enn eru ákveðnir, ef það eru einhverjir, í að ætla að svíkja loforðin, eða eru þeir hættir við? Ég vil taka fram að (Forseti hringir.) ég hef aldrei sagt, mér dettur það ekki í hug, að (Forseti hringir.) hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir ætli að svíkja eitthvert loforð. Það er annað fólk (Forseti hringir.) sem ætlar að gera það og það er það fólk sem við viljum tala við.



[18:19]
Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég er ekki alveg sátt við svörin sem hæstv. forseti gaf mér hér áðan. Þó svo að hæstv. forseti hafi með einhverjum hætti verið að reyna að koma skilaboðum til stjórnarflokkanna og forustumanna þeirra í dag um að reyna að koma á fundi þá gerðist það ekki. Menn hefðu alveg getað sagt sér fyrr í dag að sú gæti orðið niðurstaðan.

Manni líður eins og þetta sé partur af einhverju leikriti: Nú er sko kominn tími til að koma upp úr kafinu og sýna vald okkar. Við skulum hrúgast inn í þingsal, ekki til að fara á mælendaskrá eða taka þátt í umræðu heldur til að sýna þeim hver ræður og hver meiri hlutinn er í þinginu. Ég er mjög spæld yfir því að hæstv. forseti skuli taka þátt í þessu vegna þess að það kemur sér afar illa fyrir okkur sem erum með fjölskyldu og lítil börn að svona sé gert með svo skömmum fyrirvara.

Ég sætti mig ekki við þessi svör vegna þess að það hefði verið hægt að gera þetta í morgun. Það hefði verið langheiðarlegast og hreinlegast.



[18:21]
Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseti vill taka fram til að fyrirbyggja misskilning að hann var ekki í dag að leita hófanna um sérstök fundahöld í þessu sambandi. Hins vegar hefur forseti verið í góðri sátt við alla þingmenn að reyna að stýra þinginu þannig þessa viku að það mætti stuðla að sáttum, meðal annars með því að hafa hér ekki kvöldfundi, heldur ekki á þriðjudaginn þó að full heimild væri til þess samkvæmt þingsköpum. Forseti kaus að nýta sér ekki þá heimild í því skyni og í þeirri von og í þeirri trú að það mætti verða til þess að greiða fyrir efnislegri umræðu sem sannarlega hefur tekist mjög vel til með í þessari viku.



[18:21]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Við höfum svo sannarlega verið í efnislegri umræðu en jafnframt kallað eftir hæstv. ráðherrum. Sérstaklega höfum við kallað eftir hæstv. ráðherrum Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktssyni, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, Ragnheiði Elínu Árnadóttur, Kristjáni Þór Júlíussyni og Illuga Gunnarssyni, sem lofuðu öll kjósendum sínum fyrir kosningar að um framhald aðildarviðræðna yrði ákveðið í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég hef líka óskað eftir nánari skýringum frá hæstv. forsætisráðherra um þessi meintu orð Evrópusambandsins um að nauðsynlegt sé að fá afstöðu sem allra fyrst, sem er þvert á það sem fram kemur í útgefnum gögnum á síðum Evrópusambandsins. Er það þá rétt skilið hjá mér, herra forseti, að fyrst við höfum ekki staðið hér í fundarstjórnarumræðu dagana langa þá hafi ekki þótt ástæða til að hlusta á okkur? Það er þá einhver lexía sem við tökum með okkur í minni hlutanum.



[18:23]
Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég er komin hingað öðru sinni til að kvarta undan þeirri ákvörðun virðulegs forseta að ætla að halda úti kvöldfundi. Ég er mjög hissa á þeirri ákvörðun. Í fyrsta lagi vegna þess að hæstv. utanríkisráðherra sagði það í gær að hann væri ánægður með rólega umræðu og það lægi ekkert á, sagði þetta einhvern veginn á þá leið: Það liggur ekkert á og við skulum taka umræðuna.

Í öðru lagi er ég undrandi yfir ákvörðun forseta vegna þess að umræðan er endanleg, hver þingmaður hefur fyrst tíu mínútur og síðan fimm mínútur, þannig að í friði hefði verið hægt að láta umræðuna bara ganga sinn gang. En þess í stað velur virðulegur forseti ófriðinn. Ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum með þessa ákvörðun í því ljósi þar sem virðulegur forseti hefur margoft lýst því yfir, og ég veit það, að hann hefur reynt að koma hér á góðum friði og greiðlegum þingstörfum.



[18:24]
utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki alveg þetta upphlaup því að það var nú þannig að á þriðjudaginn nálguðust þingflokksformenn Samfylkingar og Vinstri grænna okkur með það að komast hjá kvöldfundi, hvort hægt væri að koma umræðunni í góðan farveg, sem gerðist. Það var líka tilkynnt og þeim gert ljóst þá að ef ekki næðist að klára umræðuna á réttum tíma í dag mundi forseti boða til kvöldfundar og jafnvel til fundar á morgun líka ef forseti einsetti sér að koma þessu máli til nefndar. (Gripið fram í: … samkomulag …)

Hv. þm. Helgi Hjörvar hristir hausinn frammi í sal en hann sat þann fund með mér og forseta þegar þetta var sagt. Ég man ekki hvort hv. þm. Svandís Svavarsdóttir var þar, ég ætla ekki að bera þetta neitt upp á hana. En við skulum bara reyna að klára málið hér, þá kemst það til nefndar. Ég er búinn að segja að ég vil að öll þessi mál, allar þessar tillögur fari saman til nefndar, (Gripið fram í: … eftir að ræða …) þær fái góða umfjöllun þar og þær verði teknar til efnislegrar umræðu, sendar út (Forseti hringir.) og menn flýti sér ekki í nefndinni. Ég er opinn fyrir öllum breytingum sem eru skynsamlegar í nefndinni.



[18:25]
Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég verð að segja að það er fullt tilefni til að kalla eftir fundi þingflokksformanna. Hér er verið að vitna í eitthvert samkomulag þar sem hæstv. utanríkisráðherra vísar í samtöl á þriðjudaginn var sem hafi falið í sér að við hefðum mátt vita að hér yrði kvöld- og næturfundur í kvöld, ellegar fundur á morgun. (Gripið fram í: Það er ekki hægt að funda á morgun.) Þetta er ekki boðlegt, virðulegur forseti. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Til að við getum endurreist hér einhvern vinnufrið óska eftir því að forseti boði til fundar þingflokksformanna, að við leiðréttum hér kúrsinn og vitum um hvað við erum að tala. Það er algjörlega fráleitt að bera fram eitthvert ímyndað samkomulag og ætlast til þess að við höldum áfram eðlilegum þingstörfum.

Hér hefur átt sér stað góð og málefnaleg umræða 11. mars, 12. mars og 13. mars — og hvað er að? Hvað gerðist? Hvað kom upp? Af hverju er ekki bara (Forseti hringir.) hægt að halda þingfundum áfram eftir helgi eins og til stóð? (Forseti hringir.) Hvað gefur tilefni til þess að beita þessu ofbeldi allt í einu núna? Er það eitthvað frá hæstv. utanríkisráðherra? (Forseti hringir.) (Gripið fram í: Hvað sagði …?) Ég er mjög hugsi yfir því sem hann er að segja hérna. (Gripið fram í: Hvað sagði …?) (Gripið fram í: … hætta að ljúga hér í þingsalnum.) (Forseti hringir.)

(Forseti (EKG): Þingmenn eru beðnir um að gæta orða sinna, líka þegar þeir sitja í sætum sínum.)



[18:27]
Guðbjartur Hannesson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég ætlaði að hrósa hæstv. forseta fyrir ákvarðanirnar hér fyrr í vikunni en nú er ég allt í einu farinn að efast um hver hefur dagskrárvaldið í þinginu. Hér kemur hæstv. utanríkisráðherra og tilkynnir hvernig dagskráin á að vera og hvað standi til (Gripið fram í: Og hvernig hefðir …) og það kemur mér afar mikið á óvart þar sem ég þekki þann sem nú situr í stól hæstv. forseta ef hann lætur það stjórnast af hæstv. utanríkisráðherra.

Það sem ég tók líka eftir var að hæstv. utanríkisráðherra óskaði eftir því að taka til máls um fundarstjórn forseta og komst strax að. Þetta er regla sem hefur gilt í þinginu, ef ráðherrar óska eftir því að koma í umræðu er þeim hleypt fram fyrir. Nú eru þeir allir í húsi, allir sjálfstæðismennirnir sem við erum búin að vera að bíða eftir að segi okkur eitthvað um sína skoðun þannig að við þurfum ekki að vera að tala við þá eftir viðtöl við þá í blöðunum og svara þeim svo í þinginu. Nú eru þeir komnir í hús og ég skora á þá að við tökum okkur tíma fram yfir níu eða eitthvað í kvöld, fáum þeirra ræður þannig að við getum brugðist við þeim (Forseti hringir.) þegar við förum í (Forseti hringir.) seinni ræðuna í þessu stóra máli. (Forseti hringir.) Þeim er velkomið að koma fram fyrir. Fyrst einstaklingar eru farnir að taka dagskrárvaldið hér (Forseti hringir.) ætla ég að leyfa mér það líka.



[18:28]
Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseti hefur hér dagskrárvaldið. Það er forseti sem er að gera þessa tillögu um lengd þingfundar og forseti hefur þegar gert grein fyrir því fyrr á þessum fundi hvers vegna hann flytur þessa tillögu. (HHj: Og er það þess vegna …?) Það er sú tillaga sem hér liggur fyrir. Hún byggir á mati forseta eins og hann hefur gert grein fyrir og það þarf ekki frekari umræðu við um það.



[18:29]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er frekar ólánlegt að hér skuli upphefjast bullandi ágreiningur á nýjan leik um þingstörfin eftir þriggja daga málefnalegar umræður. Það er tæplega hægt að segja að lukkan sé með okkur, maður fer að velta fyrir sér hvort Alþingi vanti lukkutröll eins og íshokkílið og ýmsir aðrir hafa til að reyna að auka gæfu sína. [Hlátur í þingsal.]

Aðallega kem ég hingað til að leggja áherslu á það sem hefur komið fram í máli margra ræðumanna. Hér er stuttur ræðutími, tíu mínútur og fimm mínútur. Það eru lítil tækifæri til skoðanaskipta við hæstvirta ráðherra, í fyrsta lagi eru þeir bara að hunsa umræðuna og eru ekki við og í öðru lagi taka þeir ekki til máls þannig að við eigum þá kost á því að fara í andsvör við þá o.s.frv. Það væri hið eðlilega að þeir sem hafa verið margbeðnir að fara yfir og útskýra sína sjónarmið sýndu umræðunni þá virðingu að halda hér ræður þannig að þeir tækju það af sínum ræðutíma og sínum kvóta og við fengjum (Forseti hringir.) tækifæri til að eiga við þá orðaskipti í andsvörum. Þá væri einhver bragur á þessu, herra forseti.



[18:30]
Kristján L. Möller (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Umræðan um þetta stóra og mikla mál sem birtist okkur í þingsályktunartillögu sem þingmenn geta rætt fyrst í tíu mínútur og svo í fimm mínútur hefur verið mjög efnisleg og góð síðustu þrjá daga. Ég hélt eitt augnablik hér síðdegis í dag í ræðu minni þegar ég sá að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins voru farnir að streyma í hús að þeir ætluðu að heiðra okkur með nærveru sinni — eða hitt þó heldur — og taka þátt í umræðu, nota sínar tíu mínútur og fimm mínútur til að útskýra sín mál og svara spurningum okkar eftir atvikum í andsvörum. Nei, þá var það ekki ætlunin hjá hæstv. ráðherrum heldur var það til að koma rétt fyrir sex og greiða atkvæði um að við hin skyldum vera á kvöldfundi eða jafnvel fram á nótt. Friðurinn var skyndilega rofinn.

Ég tel enn að formenn þingflokka, allir sem einn undir forustu forseta Alþingis, eigi að vinna að því að ná samkomulagi. Mér finnst menn vera að gefa hér eftir (Forseti hringir.) og okkur vantar bara frekari útskýringar á þeim orðum sem hæstv. utanríkisráðherra, ábyrgðarmaður þessa máls, (Forseti hringir.) er að segja við okkur í þinginu. (Forseti hringir.) Hvert á framhaldið að vera? Ef það kemur fram held ég að það liðki mjög fyrir þingstörfum, virðulegi forseti.

(Forseti (EKG): Forseti minnir hv. þingmenn á að virða tímamörk.)



[18:32]
Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Þess er kannski ekki að vænta að ríkisstjórn Íslands taki þátt í umræðum á Alþingi. Þessi sama ríkisstjórn hefur ekki einu sinni vit á því að taka þátt í samningaviðræðum heldur stendur sjálf upp frá borðinu og gengur frá því. Þeim sem verður ekki skotaskuld úr því að klúðra stórkostlegum hagsmunum Íslands á alþjóðavettvangi verður ekki skotaskuld úr því að klúðra þinghaldinu.

Það er rétt að það hefur legið fyrir að ríkisstjórnin vildi gjarnan klára þetta mál í gegnum umræðu sem allra fyrst, helst í þessari viku. Hún hefur gjarnan viljað ræða sín sviknu loforð í skjóli kvöld- og næturfunda. En það hefur alltaf legið fyrir að það yrði tekið óstinnt upp ef það yrði reynt. Við höfum lagt á það áherslu að ræða þetta málefnalega í björtu og reyna að endurreisa virðingu Alþingis. Það er stjórnarmeirihlutinn sem kýs að fara fram í marsmánuði með kvöld- og næturfundum til að reyna að koma svikum sínum í gegnum umræðu í skjóli myrkurs. Það er leitt að forseti Alþingis taki þátt í því og ég óska eftir því að kallaður verði saman fundur þingflokksformanna til að reyna að ná (Forseti hringir.) einhverri skynsamlegri niðurstöðu um það hvernig þessum málum megi halda áfram.



[18:33]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Öndvert við ýmsa sem hafa talað vil ég lýsa fullu trausti á fundarstjórn hæstv. forseta. Ef meiri hlutinn vill hafa hér fund verður hann að sýna þann vilja sinn með atkvæðagreiðslu og ég mun þá beygja mig undir það, þó að ég viti um fátt jafn erfitt og að þurfa að sitja hér næturfund og sjá dag rísa, eins og allir vita. Ég er því tilbúinn að leggja það á mig fyrir vondan málstað ef það er vilji meiri hlutans.

Ráðsnjallastur okkar allra, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, var aldrei þessu vant með ákaflega vonda tillögu þegar hann lagði til að hæstv. forsætisráðherra kæmi í íshokkíbúningnum sínum hingað til fundar. [Hlátur í þingsal.] Sömuleiðis er ég ekki viss um að það hafi verið góð tillaga hjá hv. þm. Guðbjarti Hannessyni að ráðherrarnir greiddu fyrir þingstörfum með ræðum. Ég er ekki viss um að það flýtti fyrir eða bætti umræðuna. Ég yrði hins vegar ákaflega glaður ef hæstv. utanríkisráðherra mundi láta svo lítið af og til að svara spurningum sem til hans er beint. Það mundi greiða fyrir umræðunni.



[18:35]
Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseti hyggst boða til þingflokksformannafundar í fyrirhuguðu kvöldverðarhléi.



[18:35]
Guðbjartur Hannesson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að fara að munnhöggvast við flokksfélaga minn, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, um það hvort það er skynsamlegt að við hlustum á ræður sjálfstæðismanna en mér finnst það afar óþægilegt engu að síður að lesa um afstöðu manna hér og þar og þurfa svo að svara því í þingsal. Mér finnst það vera vond umræðuaðferð. Þegar menn hafa kallað eftir því að hér verði rökræða, hér verði málefnaleg umræða, hér verði gegnsæ og vönduð umræða þá er það mjög erfitt þegar maður hefur ekki þann aðila sem stendur fyrir málinu til þess að ræða við.

Ég ætla að biðjast velvirðingar á því að nefna enn einu sinni við hæstv. forseta tvær aðrar tillögur sem við leggjum mikla áherslu á, a.m.k. ég, að fari til nefndar áður en umræða hefst í utanríkismálanefnd. Það á eftir að ræða þær; við höfum 15 mínútur í hvorri tillögu til þess og við verðum að nýta þann tíma ef við ætlum að koma sjónarmiðum okkar á framfæri. Ég sé ekki að undir neinum kringumstæðum verði hægt að koma þessu máli til nefndar fyrir helgina ef það á að gerast í slíkum ófriði. (Forseti hringir.) Við eigum þá eftir að ræða það allan föstudaginn og laugardaginn (Forseti hringir.) ef það á að hafast og jafnvel sunnudaginn (Forseti hringir.) þar á eftir líka.



[18:36]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er skynsamlegt af forseta að boða til fundar með þingflokksformönnum. Ég tel að það sé rétt skref að gera það sem fyrst. Það er hægt að lenda þessu máli, vilji er allt sem þarf.

Ég held að stjórnarliðar ættu að fara að sjá að þeir komast ekkert lengra með málið nema að hafa okkur í stjórnarandstöðunni með sér. Það boð stendur enn. Láta þetta mál jafnvel liggja yfir helgina. Menn geta farið í einhverjar sumarbústaðaferðir með góðum ráðgjöfum [Hlátur í þingsal.] og notað þá helgi vel en valið sér betri félaga en hingað til. Við erum öll tilbúin að koma í þá ferð.

Í fullri alvöru er ekki skynsamlegt að vera með hnefann á lofti í þessu máli gagnvart stjórnarandstöðunni og þjóðinni. Það er ekki skynsamleg leið.



[18:37]
Þorsteinn Sæmundsson (F) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég ætla að lýsa yfir ánægju með fundarstjórn forseta þessa viku. Mér finnst lítil sanngirni koma fram í hans garð í orðum þingmanna. Ég skil (Gripið fram í.) reyndar ekki alveg þessa geðshræringu vegna þess, eins og hæstv. forseti minntist á, að hann notaði til dæmis ekki þann möguleika að hafa hér kvöldfund á þriðjudag. (Gripið fram í.)

Umræðan hefur verið gríðarlega góð og málefnaleg til þessa (Gripið fram í.) þannig að … Gæti ég kannski fengið hljóð, herra forseti? Þessi umræða hefur verið góð og málefnaleg og það er engin ástæða til þess að spilla því. Það gengur mjög á mælendaskrá þannig að það er í sjálfu sér ekkert mál að ljúka þessari umræðu tiltölulega fljótt og vel. Ég held að við ættum öll að reyna að stuðla að því að það verði hægt.



[18:39]
Róbert Marshall (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég fagna því að forseti hefur ákveðið að boða til fundar með þingflokksformönnum og vonandi náum við þar að komast að einhverri niðurstöðu um það hvernig við ljúkum þessu máli og umræðum um það.

Það er ekki hægt að láta eins og ekkert hafi gerst á þeim tveimur vikum sem liðnar eru í þessu máli. Það hefur orðið gríðarleg þróun. Ég er ekki bara að tala um að skoðanakannanir sýni vilja 82% þjóðarinnar, 50 þús. undirskriftir og mótmæli dag eftir dag. Ég er líka að tala um ummæli eins og ummæli hæstv. heilbrigðisráðherra hér í dag sem segir Sjálfstæðisflokkinn ekki hafa svikið nein kosningaloforð enn. Ég er líka að tala um ummæli þingmanna á borð við hv. þm. Karl Garðarsson, þingmann Framsóknarflokksins, sem gaf áheit um að þessu máli yrði töluvert breytt, og eins orð hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar.

Ég held að það sé ekki hægt að halda kvöldfund og ljúka þessu máli án þess að við fáum að sjá á spilin hjá stjórnarmeirihlutanum og menn gefi aðeins til kynna hvernig þeir hyggist leysa (Forseti hringir.) þetta mál. Það er þess vegna sjálfsögð krafa að óska eftir viðveru ráðherra ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) við umræðuna hér í kvöld.