143. löggjafarþing — 76. fundur
 18. mars 2014.
menningarsamningur.

[14:20]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hvernig standi á því að ekki er búið að ganga frá menningarsamningnum við landshlutasamtök sveitarfélaga en samningurinn rann út um áramót og nú er 18. mars. Þessi staða er ekki góð. Í raun hefur það alvarleg áhrif á menningarstörf á landsbyggðinni þar sem ekki er hægt að veita styrki til menningarverkefna á árinu 2014 en enn er verið að bíða eftir því að þessi samningur verði í höfn. Við heyrum jafnvel að umsækjendur séu að draga til baka umsóknir sínar og verkefni að falla niður.

Ég veit ekki til að það strandi á fjármagni en gert er ráð fyrir þessum samningi í fjárlögum. Þó hef ég heyrt einhverjar efasemdir um það hvort atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið verði aðili að þessum samningi áfram en veit þó ekki betur en gert sé ráð fyrir 30 millj. kr. á liðnum 04-559-198 sem heitir Ferðamál, ýmis verkefni.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hvað er það sem tefur gerð menningarsamninga við samtök sveitarfélaga á landsbyggðinni? Hvenær hefur hæstv. ráðherra hugsað sér að leysa þetta mál og gerir hann sér grein fyrir alvarleika málsins?



[14:22]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Já, ég geri mér grein fyrir því að það skiptir máli að þessir samningar klárist sem fyrst. Reyndar var boðuð sérstök umræða um stöðu menningarsamninga sem ég held að hafi upphaflega verið hugsuð í dag en var frestað um óákveðinn tíma. Ég vona að hún fari fram sem fyrst þannig að við getum farið ágætlega í gegnum þetta.

Fyrir liggur að ákveðið var að draga úr menningarsamningunum um 10%, framlaginu. Við skoðuðum sérstaklega hvort við ættum að breyta þeim reiknireglum sem lágu til grundvallar frá fyrri skiptingu og kölluðum eftir athugasemdum um það. Það var síðan niðurstaða mín að affarasælast væri að halda sig við þær reiknireglur sem höfðu verið mótaðar áður og láta niðurskurðinn jafnt yfir alla ganga.

Það hefur reyndar valdið því að gamlar deilur frá fyrri tíð, um fyrri skiptingu og þá niðurstöðu sem fékkst síðast þegar samningurinn var gerður, hafa að nokkru skotið upp kollinum og við eigum enn eftir að leysa þar nokkur mál. Ég vonast til þess að það leysist sem fyrst. Hitt ber líka að hafa í huga að til skoðunar eru, undir forustu forsætisráðherra, ákveðnar breytingar á heildarfyrirkomulagi þessara mála og ég vonast til að við verðum komin með fast land undir fæturna í því máli sem fyrst.



[14:24]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Við vissum af þessu með 10% niðurskurð, það svo sem hefur legið fyrir, og eins það að reiknireglan fór eitthvað misjafnt í suma.

Ég get ekki alveg sætt mig við það svar að verið sé að horfa til einhverra breytinga á heildarfyrirkomulagi, samningarnir eru í uppnámi hér og nú. Ríkisstjórnin gat í raun alveg farið að vinna í þessu máli í júní á síðasta ári. Það er rétt að hv. þm. Svandís Svavarsdóttir hefur kallað eftir sérstakri umræðu, ég var eiginlega að vona að hún þyrfti ekki einu sinni fara fram vegna þess að hæstv. ráðherra væri búinn að leysa þetta. Það þekkja þetta margir þingmenn hérna sem eru á landsbyggðinni að það er allt í uppnámi út af þessu og menningarfulltrúar eru að eyða ótrúlegum tíma og peningi í að reyna að ýta á að fá svör frá ráðuneyti um á hverju strandar. Ég er í raun ekki enn komin með svar við því á hverju strandar nákvæmlega. Erum við þá að tala um að þetta verði leyst í næsta mánuði eða er þetta bara rétt handan við hornið eða hvað er í gangi?



[14:25]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Við skulum vona að þetta mál leysist sem fyrst og farsællega. En eins og ég fór yfir eru hér uppi ákveðin vandamál sem við erfðum frá fyrri tíð sem var óánægja með þá skiptingu sem lagt var upp með. Í raun og veru ætti það kannski ekki að valda okkur svo miklum vandræðum, það sem gerist er það að það er bara 10% lækkun á heildina.

Ég vonast til þess að þetta mál leysist sem fyrst og er alveg klár á því að tafir á málinu eru til óþæginda.