143. löggjafarþing — 77. fundur
 19. mars 2014.
fiskeldi, 1. umræða.
stjfrv., 319. mál (breyting ýmissa laga). — Þskj. 609.

[16:51]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi. Þetta er þskj. 609, 319. mál.

Frumvarp þetta er afrakstur af vinnu nefndar sem skipuð var sl. haust. Var nefndinni meðal annars ætlað að leggja mat á það hvort hægt væri að einfalda stjórnsýslu og eftirlit með fiskeldi með það að markmiði að gera starfsemi vegna fiskeldis sem skilvirkasta án þess að kröfum um vernd umhverfis yrði fórnað.

Fiskeldi er sem betur fer mjög vaxandi atvinnugrein á Íslandi, sérstaklega á þeim afmörkuðu svæðum landsins þar sem skilyrði fjarða eru hagstæð til eldis en líka miðað við þær ákvarðanir sem áður hafa verið teknar til að tryggja að villtur lax eigi eðlileg skilyrði á sínum svæðum. Framtíðaráform tengd uppbyggingu í fiskeldi eru þó nokkur og mikilvægt að skapa greininni einfaldara rekstrarumhverfi og þann fyrirsjáanleika sem kostur er án þess að vega að hagsmunum umhverfisins. Gagnrýni hefur komið fram þess efnis að stjórnsýslan, þá sérstaklega leyfisveitingaferlið og eftirlitið með fiskeldi, sé þung og viðkomustaðir margir. Í frumvarpi þessu er leitast við að bregðast við þeirri gagnrýni á stjórnsýsluna.

Frumvarpið byggir í meginatriðum á þeim sjónarmiðum sem fram koma í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar þar sem fram kemur að ríkisstjórnin muni beita sér fyrir endurskoðun regluverks atvinnulífsins með einföldun og aukna skilvirkni þess að leiðarljósi. Þannig er markmið frumvarpsins meðal annars einföldun og aukin skilvirkni í leyfisveitingum vegna fiskeldis. Þá er einnig markmið frumvarpsins að ná fram aukinni skilvirkni og hagkvæmni í eftirliti með fiskeldi.

Meginefni frumvarpsins lýtur að:

1. Einföldun á umsóknarferli starfs- og rekstrarleyfa.

2. Nýmælum sem stuðla að auknu öryggi í fiskeldi og draga úr umhverfisáhrifum þess.

3. Aukinni skilvirkni og hagkvæmni í eftirliti með fiskeldi.

4. Gjaldtöku og tryggingarskyldu.

5. Stofnun Umhverfissjóðs sjókvíaeldis.

6. Dagsektum, úrbótum og kostnaði leyfishafa og starfsemi án rekstrarleyfis.

Ég mun gera sérstaklega grein fyrir þessum þáttum síðar í ræðu minni.

Þá eru í frumvarpinu lagðar til breytingar á lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, um að allt eldi sjávar- og ferskvatnslífvera verði háð starfsleyfi Umhverfisstofnunar. Þetta er til einföldunar. Áður sóttu aðilar eftir atvikum um starfsleyfi fyrir fiskeldi til heilbrigðisnefndar viðeigandi sveitarfélags eða Umhverfisstofnunar. Ber þá áætlað framleiðslumagn því hvor aðilinn ætti við. Með tillögðum breytingum er öll starfsleyfisskyld starfsemi tengd fiskeldi færð á eina hönd óháð áætluðu framleiðslumagni.

Hvað varðar einföldun á umsóknarferli starfs- og rekstrarleyfa er lagt til að umsækjendur þurfi einungis að eiga í samskiptum við eina stofnun, Matvælastofnun, sem verður móttökustofnun fyrir umsóknir starfs- og rekstrarleyfa. Þannig mun Matvælastofnun taka við umsóknum og senda umsókn um starfsleyfi til Umhverfisstofnunar sem mun að lokinni afgreiðslu senda Matvælastofnun starfsleyfi sem stofnunin mun afhenda umsækjanda samhliða rekstrarleyfinu. Áður afgreiddi Fiskistofa rekstrarleyfi í fiskeldi. Áfram þarf að leita álits Fiskistofu með umsögn og það er verkefni Matvælastofnunar.

Þá er lagt til að settir verði á tímafrestir í tengslum við afgreiðslu leyfa þannig að umsóknir til starfs- og rekstrarleyfa skuli afgreiddar innan sex mánaða frá því að umsókn barst.

Þetta er að mínu mati mjög mikilvægur þáttur þegar við tökumst á við það verkefni að auka skilvirkni stjórnsýslunnar.

Hér er lagt til að einni stofnun, Matvælastofnun, verði falið það hlutverk að tryggja að umsóknir um leyfi séu afgreiddar innan tiltekinna tímamarka, þessara sex mánaða. Það er mikilvægt að Matvælastofnun sinni þessu verki af festu og að þær stofnanir sem eru umsagnaraðilar virði tímamörk umsagna og gangi þannig í takt í því sameiginlega verkefni okkar sem er að svara kalli atvinnulífsins um aukna skilvirkni og bætta þjónustu.

Varðandi eftirlit með fiskeldi er lagt til að það verði einfaldað á þann veg að það eftirlit sem nú er framkvæmt af Fiskistofu og Matvælastofnun verði allt framkvæmt af Matvælastofnun. Þá er lagt til að Matvælastofnun sjái um afmarkaða þætti eftirlits með fiskeldi sem Umhverfisstofnun er falið samkvæmt lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, á grundvelli þjónustusamnings við Umhverfisstofnun. Markmið með gerð þjónustusamnings er að auka skilvirkni í eftirliti og minnka heildarkostnað eftirlitsskyldra aðila við eftirlit í fiskeldinu.

Nokkurt óhagræði hefur fylgt því að eftirlitið sé í höndum þetta margra stofnana, bæði fyrir fyrirtækin en einnig fyrir stjórnsýsluna. Eftirlitsaðilar hafa ekki átt þess kost að samræma eftirlit sitt. Þær stofnanir sem um ræðir hafa kappkostað að sinna því eftirliti sem þeim er falið samkvæmt lögum. Það segir sig sjálft að því fylgir verulegt óhagræði fyrir fiskeldisfyrirtækin að eftirlitsaðilar á vegum ríkisins komi í röðum, jafnvel dag eftir dag, frá ólíkum stofnunum til að hafa eftirlit með ólíkum þáttum leyfisskyldrar starfsemi. Ég tel það til mikilla bóta að einfalda eftirlitið á þennan hátt og gera stofnununum kleift að samræma eftirlitsskylda starfsemi sína með þjónustusamningum.

Við vinnu frumvarps þessa hefur borið á gagnrýni í garð þess að Fiskistofa muni hætta starfsemi stofnunarinnar tengdri fiskeldi á Ísafirði. Ég hef farið þess á leit við fiskistofustjóra að hann finni starfsstöðinni á Ísafirði önnur verkefni tengd starfsemi Fiskistofu. Ekki á að takmarka möguleika til einföldunar regluverks á grunni stofnanaskipulags. Ég sé enn fremur ekkert því til fyrirstöðu, og tel það jafnvel æskilegt, að Matvælastofnun kanni möguleika þess að byggja upp starfsemi sína tengda fiskeldi í nálægð við stærsta kjarna atvinnustarfsemi fiskeldisins, þ.e. á Vestfjörðum.

Við uppbyggingu fiskeldis á Íslandi er mikilvægt að taka tillit til umhverfisþátta og mögulegra áhrifa starfseminnar á umhverfið. Í raun lít ég svo á að eitt af markmiðum löggjafar um fiskeldi eigi að fela í sér að tryggja samspil fiskeldisstarfseminnar við umhverfið, við villta lífríkið. Til að nefna dæmi þurfum við með regluverkinu og góðu samráði og samstarfi milli hagsmunaaðila að tryggja gæði búnaðar við sjókvíaeldi með það að markmiði að verja villta stofna fyrir óæskilegri erfðablöndun.

Í frumvarpi þessu er að finna þau nýmæli hvað varðar sjókvíaeldisstöðvar að umsókn um rekstrarleyfi skuli fylgja upplýsingar um að eldisbúnaður umsækjanda standist ströngustu staðla sem gerðir eru fyrir fiskeldismannvirki í sjó. Nánar verður kveðið á um þær kröfur sem þarf að uppfylla samkvæmt þessum stöðlum í reglugerð um fiskeldi. Í þessu sambandi skal sérstaklega hafður til viðmiðunar norski staðallinn NS 9415. Þannig er lögunum ætlað að vera hvati til ýtrustu varkárni að þessu lútandi og verði frumvarpið að lögum er tækifæri hverju sinni með reglugerðarsetningu til að herða á kröfum sé þess þörf. Með þessum nýmælum er verið að stuðla að auknu öryggi og draga úr umhverfisáhrifum fiskeldis, þar með töldum slysasleppingum.

Einnig er lagt til að skylda sé að merkja fisk í eldisstöðvum með erfðamerkingum þannig að auðveldara sé að rekja hvaðan fiskur kemur ef til slyss kemur.

Þá er í frumvarpinu einnig að finna þau nýmæli að umsókn um rekstrarleyfi skuli fylgja burðarþolsmat fyrir viðkomandi sjókvíaeldissvæði. Þannig er sett sú krafa að áður en fiskeldisstarfsemi hefst sé búið að leggja mat á þol umhverfisins fyrir starfsemi á því svæði sem sóst er eftir að starfa á. Með þessu er ætlað að tryggja sem besta nýtingu svæða og hafa sem minnst áhrif á lífríki þeirra. Hafrannsóknastofnun eða öðrum samþykktum aðilum er falið að gera slíkt burðarþolsmat þegar þörf er á. Slíkar rannsóknir eru mjög mikilvægar fyrir uppbyggingu fiskeldis á Íslandi en þær eru kostnaðarsamar. Því er með frumvarpinu lagt til að komið verði á Umhverfissjóði sjókvíaeldis sem meðal annars er ætlað að fjármagna þessar rannsóknir. Umhverfissjóðurinn verður fjármagnaður með greiðslu rekstrarleyfishafa í samræmi við leyfilegt árlegt framleiðslumagn. Engin gjöld eru í dag greidd fyrir rekstrarleyfi önnur en eftirlitskostnaður viðkomandi aðila.

Til samanburðar eru afnot af sjókvíaeldissvæðum í nágrannalöndum okkar nokkuð dýr. Ákvæðum um Umhverfissjóð er ætlað að auka möguleika þess að tryggja farsælt samspil fiskeldis og umhverfis með bættum rannsóknum sem með þessu greiðast af aðilum í leyfisskyldri starfsemi. Auk þess er Umhverfissjóðnum ætlað að fjármagna nauðsynlega vöktun með veiðivötnum sem liggja nálægt fiskeldisstöðvum. Með það markmið að leiðarljósi að leitast við að verja villta stofna fyrir hugsanlegri erfðablöndun þarf að hafa eftirlit með því hvort eldisfiskur gangi upp í veiðivötn og ár.

Í frumvarpinu er að finna nokkur ákvæði sem ætlað er að tryggja burði og getu þeirra sem að eldi hyggja til að fara í starfsemina. Lúta þau meðal annars að fagþekkingu og hæfni umsækjanda eða starfsmanna á hans vegum, upplýsingum í umsókn fyrir leyfisskyldri starfsemi um eigin fjármögnun og rekstraráætlun sem og ábyrgðartryggingu fyrir því tjóni sem af starfseminni gæti hlotist. Þar er sérstaklega tekið fram að tryggingin skuli ábyrgjast kostnað sem kann að hljótast af því að hreinsa upp eldisbúnað hætti viðkomandi starfsemi. Það hefur verið kostnaður fyrir sveitarfélög og í mörgum tilfellum mengun af tómum eldisstöðvum þar sem ekki er gætt að hreinsun þeirra við starfslok.

Í frumvarpinu eru einnig nokkrar greinar sem lúta að því að nýta sjókvíaeldi á sem hagkvæmastan hátt. Góð eldissvæði eru verðmæt og eðlilegt að löggjafinn hafi stýringu og eftirlit með því að burðarþol svæða sé nýtt á sem hagkvæmastan hátt með uppbyggingu arðbærrar starfsemi í fiskeldi í huga.

Í frumvarpinu eru einnig lagðar til breytingar á lögum nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum, er varða afgreiðslu Skipulagsstofnunar á tilkynningum um framkvæmdir á sama framkvæmdastað.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir helstu atriðum frumvarpsins og ástæðum fyrir framlagningu þess og legg til að því verði vísað til 2. umr. og atvinnuveganefndar að 1. umr. lokinni.



[17:03]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa ágætu greinargerð fyrir málinu. Það er ákaflega mikilvægt markmið í sjálfu sér að einfalda og um leið styrkja eftirlit með ýmislegri starfsemi í landinu.

Ég vil nota tækifærið og inna hæstv. ráðherra eftir stöðu kræklingaeldisins í þessu sambandi, hvort það falli nokkuð undir þessa löggjöf. Ég minnist þess á síðasta kjörtímabili að þeir sem fyrir því standa hafi leitað eftir einföldun á regluumhverfi sínu og að erfiðlega hafi gengið að ná þeim óskum fram. Hefur ráðherrann hugmyndir um að gera einhverjar sérstakar ráðstafanir í því sambandi?

Í öðru lagi vildi ég spyrja ráðherrann: Hvað gerist ef leyfisumsóknirnar eru ekki afgreiddar innan þessa sex mánaða frests? Er þetta bara einhver almenn viljayfirlýsing um að það eigi að afgreiða þær innan sex mánaða eða njóta umsækjendurnir einhverra ákveðinna réttinda? Er einhver sérstakur þrýstingur á stofnunina, annar en að það standi bara einhvers staðar að það eigi að afgreiða umsóknir á sex mánuðum, sem tryggir að það gangi raunverulega eftir?

Hvernig er með nýju kröfurnar, ef ég hef skilið ráðherrann rétt, sem lúta að hlutum eins og burðarþoli, norska staðlinum og öðru þess háttar, munu þær líka ná til þeirra sem þegar hafa hafið starfsemi? Eru þeir þá í stakk búnir til að mæta þessum nýju kröfum?

Að síðustu skildi ég ráðherrann þannig að í nálægum löndum greiddu menn fyrir aðstöðuna sem þeir fá í sjónum, þ.e. sjókvíaeldið, en ekki hér. Er það rétt skilið? Hvaða fjárhæðir erum við þá að tala um að menn greiði fyrir andstöðuna sem þeir fá?



[17:05]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni áhugaverðar fyrirspurnir. Varðandi kræklingaræktina þá taldi einn þeirra sem kom hingað upp og gagnrýndi þau lög að þau mundu ekki standa lengi. Við erum að vinna að því að undirbyggja hvernig hægt er að breyta þeim. Kræklingurinn heyrir ekki undir þetta fiskeldi, það eru sérlög sem gilda um kræklingarækt og önnur um skelrækt. Þau þurfa í miklu meira mæli að byggjast á skipulagi en á leyfisveitingum eins og lögin sem hér voru sett á síðasta kjörtímabili gerðu, sem eru býsna flókin og þæfð. Það er starfshópur að kanna frekari nýtingu á vannýttum tegundum og hann mun væntanlega koma inn á þetta ásamt öðru. Síðan höfum við hafið vinnu við undirbúning skipulagsvinnu.

Umhverfissjóðurinn og greiðslurnar fyrir burðarþolið og þá vinnu sem þarf að vinna — við erum svolítið á eftir og erum þar af leiðandi að vinna með greininni. Hún tekur þátt í að greiða á sama tíma og við erum að byggja upp þekkingu á nýjum svæðum. Í Noregi til að mynda og þeim svæðum þar sem þessari vinnu lauk fyrir nokkrum árum, vegna þess að menn voru hreinlega komnir lengra, hafa menn fyrir fram ákveðið hvað svæðið þolir. Það er búið að reikna út burðarþolið, hvort sem það var ríkið eða einhver fyrrverandi fyrirtæki sem gerðu það með sambærilegum hætti og við erum að leggja af stað með hér. Leyfin eru boðin upp og kosta umtalsverða fjármuni. Það getur vel verið að það verði þróunin hér eftir að við höfum kortlagt þau svæði sem eru til á Íslandi.

Varðandi sex mánuðina, hvað það þýðir, það er eins og í stjórnsýslunni. Settar eru takmarkanir um að menn eigi að afgreiða mál innan ákveðins tíma og ef þeir gera það ekki þá kæra menn (Forseti hringir.) það og leita réttar síns samkvæmt þeim lögum (Forseti hringir.) sem um það gilda. (Forseti hringir.) Varðandi afturvirkni þeirra reglugerða (Forseti hringir.) sem settar eru þá eru þær auðvitað ekki afturvirkar.



[17:07]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og vil inna eftir nokkrum öðrum atriðum.

Það fyrsta lýtur að aðkomu sveitarfélaganna vegna þess að þessi starfsemi hefur talsverð áhrif í því sveitarfélagi þar sem hún fer fram. Ef ég skil ráðherrann rétt þá hefur hluti af leyfisveitingunum, miðað við ákveðin stærðarmörk eldis, farið til heilbrigðisnefndar sveitarfélaganna en mun ekki gera það eftirleiðis. Hafa sveitarfélögin eftir sem áður eitthvert vald á skipulagsþætti málsins? Nú man ég eftir því úr umhverfis- og skipulagsnefnd að þar var nokkuð til umræðu hvort sveitarfélögin ættu að fá skipulagsvaldið á hafinu úti fyrir sínu sveitarfélagi en ég man ekki glöggt með hvaða hætti því lyktaði og hvort þau hafi skipulagsvald yfir sjókvíum.

Ég vil líka nota tækifærið og fagna orðum hæstv. ráðherra um möguleikana á því að bjóða þessi leyfi upp. Af hreinni forvitni, hvað greiða menn fyrir slík leyfi í nálægum löndum, þekkir hæstv. ráðherra það? Er verulegt burðarþol að mati ráðherrans ónýtt á Íslandi og hvaða stærðir erum við að tala um í því sambandi? Ráðherrann nefndi að við mættum búast við talsverðri uppbyggingu í þessari grein á næstunni. Er honum kunnugt um fjárfestingarverkefni sem von er á? Eigum við mikið ógert í greininni almennt og ónýtt tækifæri til að sækja fram og auka verðmætasköpun í landinu?



[17:10]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta eru þó nokkrar spurningar. Ég næ kannski ekki að svara þeim öllum. Ég nefndi að til að mynda í Noregi er ein aðferð notuð til að bjóða upp. Það getur líka verið að leyfin séu hreinlega seld á ákveðnum svæðum, það fer auðvitað eftir byggðarlegum sjónarmiðum. Menn gera ýmislegt. Ég þori ekki að fara með upphæðirnar, þær eru umtalsverðar, enda er rétt að muna að lax er seldur býsna háu verði um þessar mundir, umtalsvert hærra verði en t.d. annar hvítfiskur eða fjórum sinnum hærra.

Varðandi skipulagslögin og hvernig sveitarfélögin koma að því minnir mig að þau nái út fyrir netlög. Menn hafa rætt um 115 metra. Menn hafa verið að ræða um hvort eigi að fara lengra. Þetta er t.d. eitt af þeim umræðuefnum sem fara fram núna varðandi skipulag hafs og stranda sem er að hefjast. Það er einmitt samráðsfundur fljótlega með hagsmunaaðilum, þar á meðal sveitarfélögunum. Þar getum við horft til hvernig menn hafa haft þetta í Skotlandi og annars staðar á Norðurlöndunum. Það er með aðeins mismunandi hætti, en iðulega er samstarf á milli ríkis og sveitarfélaga. Það er spurning hver fer með forræðið.

Varðandi heilbrigðiseftirlit, áður hafa verið gefin út leyfi og fylgst með þegar um nákvæma stærð er að ræða. Til einföldunar er allt sett til Umhverfisstofnunar núna. Það útilokar auðvitað ekki, þegar menn eru búnir að einfalda hver fari með stjórnsýsluna á einhverju verkefni, að heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna víðs vegar um landið sé hugsanlega besti aðilinn til að fara með eftirlit seinna meir, en það er allt önnur ákvörðun og tengist ekkert þessu frumvarpi. Hér erum við fyrst og fremst að einfalda stjórnsýsluna og eftirlitið og síðan verður áhugavert að skoða með hvaða hætti eftirlitið verður í framhaldinu þegar menn sjá fyrir sér þessa uppbyggingu.

Tækifærin í fiskeldi á Íslandi eru gríðarleg og sóknarfæri mikil (Forseti hringir.) og mikill hugur í mörgum fyrirtækjum sem eru að taka til starfa.



[17:12]
Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil fagna þessu frumvarpi og þeirri viðleitni sem kemur fram í frumvarpinu til að einfalda regluverkið í kringum fiskeldi, auka skilvirknina og reyna að tryggja að menn geti fengið svör varðandi þá atvinnugrein.

Það eru nokkur atriði sem mig langar að tæpa á við ráðherra eftir fyrstu kynni mín af frumvarpinu, ég hef ekki náð að lesa það nema rétt hér í þingsal. Varðandi gjaldtökuna sé ég að fjármálaráðuneytið hefur gert athugasemdir, eins og venjulega. Fjármála- og efnahagsráðuneytið telur ekki heppilegt fyrirkomulag að ríkistekjur séu markaðar á þennan hátt til reksturs ríkisaðila. Mig langar að inna ráðherra eftir því, vegna þess að líka er komið fram frumvarp frá stjórnendum eða formanni og einhverjum nefndarmönnum úr fjárlaganefnd, meiri hluta nefndarinnar, um að allir markaðir tekjustofnar verði afnumdir, hvernig það spilar saman.

Það er líka mjög forvitnilegt að sjá að hér er sett árgjald og það er miðað við verðlag. Það er athyglisvert fyrir þá sem hafa verið hér í ESB-umræðu að ekki er treyst á íslenskan gjaldmiðil heldur notað 6 SDR, sem mér reiknast til að sé í augnablikinu ein króna á hvert kíló. Upphæðin á þessu, við hvað er miðað, hvaðan kemur sú tala? Ég var að umreikna þetta yfir á heildarafla en það væri fróðlegt að skoða í samhengi, mér sýnist þetta ekki vera neitt gríðarlega háar tölur.

Í þriðja lagi langar mig að hvetja hæstv. ráðherra til að standa við það þegar við færum þetta yfir á eina stofnun, eða réttara sagt yfir í Matvælastofnun og síðan yfir í Umhverfisstofnun varðandi heilbrigðiseftirlitið, að þessi verkefni verði úti á landi, sem er í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um að reyna að færa verkefni út á land, að það færist ekki (Forseti hringir.) til borgarinnar heldur verði á heimaslóðum eins og hæstv. ráðherra nefndi sem möguleika.



[17:14]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt að hér er frumvarp frá formanni og varaformanni eða líklega meiri hluta ef ekki allri fjárlaganefnd um að leggja af markaðar tekjur, hugmyndir sem hafa verið gegnumgangandi og hafa ríkan stuðning í fjármálaráðuneytinu eins og hv. þingmaður þekkir.

Eins og ég fór yfir bæði í ræðu minni og andsvörum við hv. þm. Helga Hjörvar erum við hér að byggja upp nýja þekkingu og til þess að byggja hana upp höfum við leitað til greinarinnar. Greininni finnst algert skilyrði að hún taki þátt í því á þann hátt að tekjurnar séu tryggðar í verkefnið. Við höfum fullan skilning á því, ríkisstjórnin og þingflokkar stjórnarflokkanna, og þess vegna er málið komið fram á þennan hátt.

Varðandi að tengja þetta við SDR er það auðvitað vegna þess að þetta eru að langsamlega stærstu leyti erlendar tekjur sem koma hérna inn og til þess að hafa þær sem jafnastar í þennan sjóð. Hann var í raun og veru reiknaður upp út frá þeim þörfum sem greinin telur að þurfi til að rannsaka burðarþolsmat og aðra þá þætti sem þar eru taldir upp sem verkefni sjóðsins, þess vegna er þessi tala fundin. Hún er ekkert flóknari en það. Hún er talin vera nægjanleg til að standa undir rannsóknunum til að menn geti þróað ný svæði og haldið áfram að byggja upp svæðin. Á meðan á þeim tíma stendur, þeim uppbyggingarfasa, erum við alla vega með Umhverfissjóð til að tryggja þetta og tekjurnar tengdar á þennan hátt við útflutninginn.



[17:16]
Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég tek undir með honum að hugmyndin eða frumvarpið um markaða tekjustofna er frá meiri hluta fjárlaganefndar. Ég tek einnig undir það að þetta sé ekki alveg svo einfalt að maður geti kastað öllum mörkuðum tekjustofnum út. Ég er því ekki að gagnrýna það í sjálfu sér heldur að vekja athygli á mótsögninni í málflutningi stjórnarflokkanna.

Í öðru lagi er auðvitað gjaldtaka þarna líka við að fá leyfi og menn fá ekki að fara af stað án þess að greiða fyrir fram. Það vakti athygli mína. Er það venja í stjórnsýslunni? Ég skil að betra sé að menn leiki sér ekki að því að stofna til útgjalda en það er ábyggilega ekki algengt að menn þurfi að borga fyrir fram, þótt maður viti að svo sé einstökum tilfellum eins og með vegabréf og annað.

Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir rökin fyrir því af hverju hann notar erlendan gjaldmiðil. Ég ætla að hafa það eftir honum þegar ég er í ESB-umræðu. Það er ekki hægt að treysta á íslensku krónuna. Það þarf að vera sveigjanleiki í tengslum við útflutningsatvinnuvegi okkar. Vonandi getum við orðið sammála fljótlega um að þannig sé það.

Ég ætla að ítreka betur þetta með Matvælastofnun og Umhverfisstofnun, þ.e. útibú á Vestfjörðum. Það hafa komið fram mjög skýrar óskir frá sveitarstjórnarmönnum á þessum svæðum og við erum að tala um svæði sem sjá algjörlega ný tækifæri, eins og Vesturbyggð og suðurhluti Vestfjarðanna. Það væri svolítill stórhugur í því að færa umsýsluna með þessu á Vestfirðina, bara ákveða það og taka pólitíska ákvörðun um nýja þjónustu, að hún verði á því svæði. Við erum með menntasetur á Ísafirði, það er ekkert sem ætti að koma í veg fyrir að þetta gæti verið á því svæði. Með tilkomu Dýrafjarðarganganna, og sem betur fer verður staðið við að fara í útboð á næstu tveimur árum, munu samskipti og möguleikar aukast á svæðinu.

Ég geri mér alveg grein fyrir að það er fiskeldi á öðrum stöðum (Forseti hringir.) á landinu en það væri í anda þess sem (Forseti hringir.) menn hafa oft talað fyrir, að styrkja landsbyggðina, að taka bókstafleg ákvörðun (Forseti hringir.) um að umsýslan verði á þessu svæði.



[17:19]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vona að hv. þingmaður hafi ekki misskilið orð mín þannig að ég treysti ekki íslensku krónunni. Hér er farin leið til að koma til móts við þá aðila sem þurfa að kaupa allt það bix sem þeir nota erlendis frá og öll varan fer til útlanda. Við erum smátt og smátt að byggja upp þessa þekkingu hér innan lands og hún verður gríðarlega góð og mikil. Ég vænti mikils af þessari atvinnugrein, mér finnst hún mjög spennandi og ef okkur tekst á grundvelli þessa frumvarps — ef það þóknast þinginu og verður að lögum verðum við komin með góðan grunn til að byggja á, bæði til að verja umhverfið, verja villtu stofnana og gera eðlilegar kröfur til þessarar nýju atvinnugreinar. Þær eru íþyngjandi, greinin er tilbúin að taka þátt í því og þess vegna erum við líka tilbúin til að koma til móts við sjónarmið þeirra sem standa í þessum atvinnurekstri.

Varðandi það hvort ekki eigi að flytja allt sem tengist þessu á Vestfirði er rétt að geta þess að það er talsvert fiskeldi á Austfjörðum og það er líka möguleiki að byggja það upp á öðrum svæðum fyrir norðan, ekki síst í Eyjafirðinum og nokkrum öðrum svæðum, þótt við séum búin að loka fyrir flestalla firði og flóa til að að tryggja okkar íslensku veiðiár. Ég held að það hafi verið mjög framsýn ákvörðun sem var tekin hér 2004. Eftir sem áður eru talsvert stór svæði og öflug, ekki síst Vestfirðirnir og Austfirðirnir að einhverju leyti og Vestfirðirnir núna, sem eru mjög heppilegir til þessa. Ef menn bera saman stærð Vestfjarða til að mynda við Færeyjar, sem framleiða núna um tæp 70 þúsund tonn af laxfiski og við framleiðum líklega allt í allt um 7.500, sjáum við hvaða sóknarfæri við höfum.

Það eru því gríðarleg tækifæri sem menn hafa horft til og mér kæmi ekki á óvart ef þetta gengi vel. Margt bendir til að hér verði komin öflug atvinnugrein innan ekki svo margra ára sem verði (Forseti hringir.) farin að framleiða kannski 50 þúsund tonn, ef ekki meir.



[17:21]
Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Í upphafi máls míns vil ég þakka hæstv. ráðherra fyrir það frumvarp sem hér er lagt fram. Það er afrakstur af vinnu starfshóps sem í sátu Valdimar Ingi Gunnarsson sjávarútvegsfræðingur, Guðbergur Rúnarsson, verkfræðingur og framkvæmdastjóri Landssambands fiskeldisstöðva, sem ég fagna mjög, hann var tilnefndur af þeim samtökum, og Sigríður Auður Arnardóttir, skrifstofustjóri í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, sem ég fagna líka mjög vegna þess að margir þræðir liggja í umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Síðan var starfsmaður nefndarinnar, Ásta Einarsdóttir, lögfræðingur í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Það frumvarp sem við sjáum hér er afrakstur þessarar vinnu.

Það sem helst rökstyður það að þetta frumvarp þurfi að koma fram er að í þessu ekkert svo mjög stóra frumvarpi, sem má segja að sé hálfgerður bandormur, er tekið til við að breyta hvorki meira né minna en sex lögum hvað þetta varðar. Hér er talað um breytingu á lögum nr. 71/2008, um fiskeldi, með síðari breytingum. Síðan er farið í breytingu á lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, líka með síðari breytingum, og breytingu á lögum nr. 106/200, um mat á umhverfisáhrifum, með síðari breytingum. Einnig er breyting á lögum nr. 80/2005, um Matvælastofnun, með síðari breytingum, og að lokum breyting á lögum nr. 36/1992, um Fiskistofu, með síðari breytingum. Hér er farið inn í lagabálka, þá elstu frá 1992, sýnist mér, um Fiskistofu, og þá yngstu nr. 71/2008, um fiskeldi.

Virðulegi forseti. Ég tel þetta nægjanleg rök fyrir frumvarpinu, þ.e. að verið er breyta svona víða en það sýnir og sannar hve flókinn og erfiður þessi ferill var. Ég er algerlega sammála því að þessu þurfi að breyta, að einfalda þurfi þetta og gera það skilvirkara plús það að auka öryggi sjókvíaeldis, sama hvort það er rekstraröryggi eða öryggi hvað varðar villtan lax í laxveiðiám o.s.frv.

Við sem sátum í atvinnuveganefnd á síðasta kjörtímabili kynntumst þessu nokkuð vel þegar fulltrúar frá fyrirtæki sem til stóð að stofna á Bíldudal við Arnarfjörð óskuðu eftir að koma á fund nefndarinnar og ræða við okkur um þessi mál. Forsvarsmaður þess væntanlega fyrirtækis kom á fund nefndarinnar en hann hafði rekið laxeldisfyrirtæki í Noregi í fjöldamörg ár með miklum glæsibrag. Þar var afurðin fullunnin í neytendapakkningar líkt og gera á í þessu tiltekna fyrirtæki. Jafnframt fengum við á fund nefndarinnar fulltrúa frá fyrirtækinu Fjarðarlaxi sem var á sama svæði. Hæstv. núverandi ráðherra sat í þessari nefnd á sínum tíma og í ljós kom hve flókið og þunglamalegt kerfi var við að fást á Íslandi, og nær vonlaust fyrir menn að vinna eftir því. Dæmin frá Noregi sýndu miklu auðveldara kerfi.

Ég vil trúa því sem atvinnunefndarmaður að tekið hafi verið á öllum þáttum í þessu ferli, fyrir þau fyrirtæki sem ég hef gert að umtalsefni svo og önnur sem fréttir berast af. Við höfum heyrt að fyrirtækið Gunnvör á Ísafirði hafi verið í mjög löngu ferli, ég man ekki einu sinni hve mörg árin eru orðin, varðandi laxeldi í Djúpinu. Þar hvorki gengur né rekur. Það er því til mikils að vinna að skila hér frumvarpi til laga sem hæstv. ráðherra hefur flutt. Vonandi verður það til þess, eins og aðaltilgangurinn á að vera, að einfalda og auka skilvirkni bæði í úthlutun og eftirliti. Ég fagna því mjög að þessi leyfisveitingaferill sé styttur og einfaldaður svo að menn þurfi ekki að ganga frá einni stofnun til annarrar og hin stofnunin sé svo að bíða eftir gögnum frá enn annarri stofnun o.s.frv.

Virðulegi forseti. Ég dáðist mjög að þeim mönnum sem stofnuðu þetta fyrirtæki, Arnarlax. Ég sagði, eftir umrædda fundi í atvinnuveganefnd, að ég sæi laxeldi fyrir mér sem stóriðju Vestfjarða þegar öll þessi fyrirtæki væru farin að starfa þar. Ég dáðist mjög að því hve þeir höfðu mikla þolinmæði gagnvart íslenskri stjórnsýslu og gáfust ekki upp. En þetta var langur ferill og mikið þurfti að leggja á sig við það og ég tók þátt í því sem þáverandi formaður atvinnuveganefndar. Það var til dæmis búið að úrskurða að umsóknin um 3 þús. tonna eldi, sem þá var sótt um, þyrfti í umhverfismat. Það kom seint og menn voru ekki sáttir við það og lögðu fram gögn um vistarþol í fjörðunum, norska útreikninga, norskar reglur, sem ég leyfi mér að halda að hafi að lokum breytt því að þessu var kippt til baka, að fyrirtækið þyrfti ekki í umhverfismat. En þetta var langur ferill sem lauk með því að 21. júní 2012 fékk Arnarlax leyfi og er nú með það 3 þús. tonna leyfi sem þeir fengu þá og er með leyfi fyrir 3.400 tonna eldi á Bíldudal við Arnarfjörð og einhverjum fjörðum sem liggja þar inn af sem ég kann ekki að nefna, en það eru fjórar staðsetningar. En eins og ég segi, þetta fyrirtæki ætlar að fullvinna lax í neytendapakkningar og flytja beint út.

Ég fagna því sem fram kemur í frumvarpinu en hef eins og áður fyrirvara um frekari vinnu nefndarinnar. Umsagnir munu berast, gestir munu koma á fund nefndarinnar því að betur sjá augu en auga eins og þar stendur. Í 3 gr. frumvarpsins er talað um að afgreiða skuli þessi leyfi innan sex mánaða frá því að umsóknir berast, að leyfisveitingaferillinn verði ekki lengri en það. Síðan kemur setning sem mig langar aðeins að spyrja hæstv. ráðherra út í, setning sem ég er frekar hræddur við. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Verði tafir á málsmeðferð vegna ófullnægjandi gagna umsækjenda framlengist frestur til afgreiðslu sem því nemur.“

Þá segi ég: Þá er mikilvægt að leiðbeiningarskylda stjórnvalda sé í heiðri höfð þannig að þeir sem ætla að leggja inn umsókn um starfs- og rekstrarleyfi geti séð það á einum stað, nákvæmlega uppsett, hvað þurfi að leggja fram og það sé hvorki of né van. Þá er það þeirra að uppfylla þessi atriði, vinna fagleg og góð gögn, og enginn afsláttur verður af því sem sett er fram í byrjun. Þetta segi ég vegna þess að ég hef fylgst vel með atriðum sem varða Bakka á Húsavík og snúa að Eftirlitsstofnun EFTA þar sem ívilnunarsamningar sem samþykktir voru á Alþingi á síðasta kjörtímabili, og eru sem betur fer hver af öðrum að fá samþykki ESA, hafa verið þannig að leggi ESA inn nýjar spurningar þá vaknar sjálfkrafa lengri frestur. Það má ekki vera þannig, ef menn vildu tefja málið einhverra hluta vegna, sem ég ætla ekki að gefa mér að verði, að á 15 mánuðum komi fram listi um að svo og svo mörg gögn vanti og Matvælastofnun, sem á þá að fjalla um þetta allt saman, geti í framhaldinu vakið upp nýja og nýja fresti þannig að allt í einu sé ferillinn farinn að taka ár. Ég vona að fyrir þessu sé séð og að áhyggjur mínar séu ástæðulausar. Ég bið hæstv. ráðherra að bregðast við þessu ef hann getur hér í lokaræðu sinni við 1. umr. en ítreka það sem ég segi að þarna þarf að koma fram — og það getur vel verið að við breytum því bara í nefndinni og setjum það inn í lagagreinina — að viðkomandi stofnun skuli hafa vel sýnilegt á heimasíðu sinni svo að öllum sé ljóst hvaða gögn nákvæmlega þurfi að leggja fram í byrjun. Þá er það bara þeirra að uppfylla það strax. Menn eiga þá heldur ekki að geta fengið neina skemmri leið að því eða slugsa við að leggja fram gögn í byrjun máls. Það er grundvallaratriði.

Hér hefur aðeins verið talað um fiskeldi sem vaxandi atvinnugrein á Íslandi. Já, vonandi verður það. Hæstv. ráðherra talaði um að Færeyingar væru með 70 þús. tonn í slíkri framleiðslu en við Íslendingar eitthvað í kringum 7.500 ef ég heyrði rétt. Það sýnir og sannar hvað við erum langt á eftir vegna þess að ég held að staðhættir hér hjá okkur séu þannig að við eigum alveg að geta verið samkeppnisfær við Færeyjar hvað þetta varðar. Vonandi búum við til þannig rekstrargrundvöll aðila hér á Íslandi, sem vilja vera í fiskeldi og laxeldi, að þetta geti vaxið vel og verði arðsöm og góð atvinnugrein sem skili miklum og góðum launum og eigendum sínum góðri ávöxtun á því sem þeir leggja fram. En þetta er metnaðarfullt, það sem verið er að gera, og ekki eingöngu fyrir vestan þó að ég hafi gert það að umtalsefni. Það kom fram hér líka að eldi á Austfjörðum er mikið og öflugt. Það þekkjum við sem komum af því svæði.

Nú má enginn skilja orð mín þannig að hingað til hafi allt verið kolómögulegt í stjórnsýslunni. Þetta var bara of flókið eins og okkur hættir oft til að hafa hlutina, við deilum þeim á marga aðila sem gerir að verkum að allt tekur svo langan tíma. Ég ætla hins vegar að hæla korti sem gert hefur verið í stjórnsýslunni, sem ég man nú ekki nákvæmlega hvað heitir en var birt okkur í atvinnuveganefnd á þeim umræddu fundum sem ég hef gert að umtalsefni, þar sem sýnt var fram á hvaða svæði við höfum tekið frá til laxeldis og á hvaða svæðum eru miklar og góðar laxveiðiár sem laxeldi í sjó getur truflað. Það er ansi víða á Vestfjörðum, til dæmis í Arnarfirði og í Djúpinu, og svo eru aðrir firðir teknir frá fyrir þetta, en önnur svæði koma ekki til greina. Þetta finnst mér alveg til fyrirmyndar vegna þess að við vitum, það höfum við fundið í atvinnuveganefnd, að þegar rætt hefur verið um laxeldi og fiskeldi, sérstaklega laxeldi, þá koma viðvörunarorð frá þeim sem eru með laxveiðiár og eru unnendur laxveiða á stöng í ám og allt það, þetta er alveg hárrétt, þetta eru sjónarmið sem við verðum að gæta að. Við verðum að lágmarka tjón sem gæti orðið ef einhver slys yrðu.

Við 1. umr. um frumvarpið ætla ég að ítreka það sem ég sagði í byrjun, að ég fagna framlagningu þess. Ég vona að við í atvinnuveganefnd afgreiðum það fljótt og vel í gegn en þó ekki á þeim hraða að við skemmum vinnuna. Hér er vitnað í mörg lög sem þarf að fara í gegnum og það er eins gott að við vöndum það verk vel og látum það verða aðalatriðið að auka skilvirkni við úthlutun á leyfum, en það á að vera aðalatriðið.



[17:37]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Mig langar aðeins að koma inn á þetta mál og játa að þetta er eitt af því sem ég þarf að kynna mér betur og hefur kannski ekki verið eitt af mínum hugðarefnum sem ég hef sinnt á þingi. Ég tek undir með hv. þingmanni sem hér talaði á undan að auðvitað er til fyrirmyndar þegar svæði eru kortlögð. Hér hefur verið nefnt hvar heppilegast væri að hafa starfsstöðvar og annað slíkt og ég tek undir með hæstv. ráðherra að það getur verið vandasamt þegar margir vilja kökuna fá. Hins vegar styð ég heils hugar að sem flest störf verði flutt sem næst þeim svæðum sem um er að ræða hverju sinni.

Eins og fram hefur komið eru með frumvarpinu gerðar breytingar á ýmsum lagaákvæðum og fyrir þingmann eins og mig sem þarf að setja mig inn í mörg mál og hef ekki endilega kynnt mér þessi mál til hlítar, ég var að lesa þetta bara í morgun, er þetta afskaplega snúið og framsetningin getur verið þannig að fólk gefst upp við að lesa marga lagakróka. En ég ætla að reyna að þreifa mig í gegnum þetta og spyrja ráðherra nokkurra spurninga.

Fyrst er til að taka að það er alltaf jákvætt þegar við getum einfaldað öll umsóknarferli sem snúa að ríkinu, hvort sem þau snerta rekstur eða starfsleyfi og það er vel þegar okkur tekst að gera það. Mér sýnist það vera markmiðið með öllum þessum lagabreytingum og ég tek undir með hv. þm. Kristjáni Möller að gæta þarf þess að ekkert verði eftir.

Í frumvarpinu kemur fram að Matvælastofnun verði móttökustofnun fyrir umsóknir um starfs- og rekstrarleyfi fyrir fiskeldi. Töluvert er rætt um burðarþolsmat sem mér sýnist að Hafrannsóknastofnun eigi að samþykkja. Það stendur hér, virðulegi forseti, að burðarþolsmat skuli framkvæmt af Hafrannsóknastofnun eða öðrum aðila sem ráðuneytið samþykkir að fenginni bindandi umsögn Hafrannsóknastofnunar. Það virðist vera að annaðhvort geti Hafrannsóknastofnun sjálf gert þetta og það sé endanleg niðurstaða eða að hún fái einhverja aðra til þess. Það er spurning hvort það sé heppilegt að einn og sami aðilinn hafi þetta vald, af því að í greinargerð er sagt að burðarþolsmat sé mjög mikilvægt upp á nýtingu á sjókvíaeldissvæði og áhrif á lífríkið.

Síðan er fjallað um það sem liggur skýrt hér undir en það er þessi sameining þátta, einföldun umsóknarferlis og að Fiskistofa láti frá sér það eftirlit vegna fiskeldis sem hún sinnir nú og Matvælastofnun taki það yfir. Í umsögn fjármála- og efnahagsráðuneytis um kostnaðarliði segir að um hálft stöðugildi þurfi til. Í ljósi þess að Matvælastofnun varð af töluverðum fjármunum við gerð fjárlaga þá átta ég mig ekki alveg á því hvort þetta er nýtt stöðugildi eða hvort þetta er flutningur á starfi og hvort gjöldin sem tekin eru eigi eingöngu að standa undir því starfi, af því að síðar er hér sagt að það þurfi um 80% stöðugildi hjá Matvælastofnun til að sinna verkefnum sem snúa að afmörkuðum þáttum eftirlits með fiskeldi, sem Umhverfisstofnun er falið í dag. Í beinu framhaldi er sagt að hjá Fiskistofu hafi tveir starfsmenn sinnt þessum verkefnum sem eiga að færast frá stofnuninni og kostnaður við þau hafi verið um 20 millj. kr. á ári. Sagt er hér að með flutningi þessa verkefna til Matvælastofnunar muni svigrúm aukast hjá Fiskistofu til að sinna öðrum verkefnum. Mig langar að spyrja hvaða verkefni það væru helst sem Fiskistofa mundi sinna. Hefur þeim kannski ekki verið sinnt til þessa eða eru það ný verkefni?

Síðan langar mig að tala um Umhverfissjóð sjókvíaeldis. Fjármögnun hans á að byggjast á árgjaldi sem greitt verði, eins og hér hefur aðeins verið rætt, í erlendri mynt, og Matvælastofnun annist innheimtu þess. Skoða eigi árgjaldið á fimm ára fresti. Ég spyr: Af hverju fimm ár? Er það eitthvað sem var bara ákveðið eða hvað býr þar að baki? Þarf að komast á einhver reynsla eða annað sem snýr að þessum verkefnum? Ráðherra getur kannski svarað því.

Í frumvarpinu er talað um dagsektir og úrbætur og ýmislegt fleira og þar er vitnað í skýrslu sem Gerður Guðmundsdóttir gerði fyrir Landssamband fiskeldisstöðva. Í henni kemur fram að þvingunarúrræði Umhverfisstofnunar séu skilvirkari en núgildandi þvingunarúrræði þar sem Fiskistofa geti aðeins afturkallað rekstrarleyfi. Mig langar að spyrja: Gerist það oft að beita þurfi þvingunarúrræðum? Þarna er einnig talað um úrræði vegna fiskeldisstöðva sem starfa án rekstrarleyfa. Er um margar að ræða, hefur þetta oft komið upp?

Hér hefur verið vikið aðeins að hlutverki heilbrigðisnefnda sveitarfélaga varðandi útgáfu starfsleyfa og að það verði fært til Umhverfisstofnunar. Í umsögn fjármála- og efnahagsráðuneytis segir að tekjur sveitarfélaga vegna þessa hafi verið 2 millj. kr. Þetta kemur í raun inn á það sem hér var rætt áðan um markaðar tekjur Umhverfisstofnunar. Ég játa það að þegar maður situr í fjárlaganefnd og ræðir markaðar tekjur og meiri hlutinn talar mjög mikið um að afnema þær þá hnýtur maður að sjálfsögðu um það að þær skuli lagðar til í frumvarpinu. Þetta er ekki eina frumvarpið sem við erum með til meðferðar, sýnist mér, þar sem gert er ráð fyrir nýjum mörkuðum tekjum. Þetta snýr nú svolítið öfugt og ég velti fyrir mér hvað fulltrúar meiri hlutans í fjárlaganefnd hafi um þetta að segja. Það kemur auðvitað fram í umsögn fjármála- og efnahagsráðuneytisins að það telur það ekki heppilegt fyrirkomulag að ríkistekjur séu markaðar með þessum hætti og telur að þær tekjur sem hér um ræðir eigi að renna í ríkissjóð og síðan eigi væntanlega að úthluta þeim með hefðbundnum hætti til hvers verkefnis fyrir sig.

Á bls. 12 í frumvarpinu er rætt um mat á áhrifum og að frumvarpið hafi í för með sér íþyngjandi áhrif fyrir helstu hagsmunaðila. Þar rétt fyrir ofan er sagt að haft hafi verið samráð við ákveðna aðila. Leggja á gjald á rekstrarleyfishafa sem á að renna í Umhverfissjóð sjókvíaeldis, sem á að stuðla að sjálfbæru sjókvíaeldi. Það er vissulega afar gott markmið en mig langar að spyrja hvort þessir aðilar hafi verið sammála því að leggja á þetta íþyngjandi gjald. Mig minnir reyndar að hæstv. ráðherra hafi komið inn á það í ræðu sinni, en ég var nú að lesa yfir þannig að ég játa að ég hef kannski ekki alveg tekið eftir því. En ég spyr hvort allir þeir aðilar sem hér eru nefndir hafi verið sammála þessu gjaldi.

Síðan langar mig að koma inn á 6. gr., um afgreiðslu umsókna. Ef tvær eða fleiri umsóknir um rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi á sama sjókvíaeldissvæði hafi borist skuli þær afgreiddar í þeirri tímaröð sem þær berast. Í mati fjármálaráðuneytisins segir að um geti verið að ræða 8–10 rekstrarleyfi á ári. Hefur verið mikið um það fram til þessa að umsóknir um sama svæði berist frá mörgum aðilum? Og ég segi eins og ég sagði í upphafi: Þetta er málefni sem ég er rétt að byrja að kynna mér þannig að ég játa fáfræði mína í því.

Í b-lið 7. gr. er lagt til að fella út skyldur leyfishafa til að standa að rannsóknum, og er þar vísað í núgildandi lög, þar sem talið er ósanngjarnt að íþyngja einstökum fyrirtækjum. Hér er ekki talið sanngjarnt að íþyngja einhverjum fyrirtækjum, en svo er lagt til að vöktun verði fjármögnuð af Umhverfissjóði sjókvíaeldis. Það er annars vegar talað um rannsóknir og hins vegar vöktun. Erum við að tala um sambærilega hluti?

Aðeins neðar eða í 2. mgr. c-liðar 7. gr. kemur fram að leyfi fyrir sjókvíaeldi með minni nýtingu en 40% af burðarþoli skuli aðeins veita til fjögurra ára. Ef fleiri en einn aðili sækjast eftir rekstrarleyfi á svæðinu að fjórum árum liðnum, skal úthluta þeim leyfi sem ætlar að nýta svæðið á sem hagkvæmastan hátt. Má þá skilja það þannig að ef kæmi beiðni frá öðrum aðila sem ekki hefði verið áður á svæðinu en sem ætlaði sér að fara í stærra eldi yrði sá sem hefði verið með minna eldi látinn víkja?

Mig langar líka að spyrja um 12. gr., um að sjóðurinn eigi að fjármagna að hluta eða fullu rannsóknir sem fela í sér vöktun á hlutfalli eldislaxa í laxveiðiám. Í skýringum við greinina er nefndur möguleiki á að greiða kostnað við önnur verkefni sem stjórn sjóðsins ákveður. Getur hæstv. ráðherra gefið mér einhver dæmi um slík verkefni?

Svo finnst mér svolítið skondið að hér sé talað um að stjórn sjóðsins sé skipuð þremur mönnum og atkvæði formanns ráði úrslitum ef atkvæði falla jöfn. Ég hélt að atkvæði gætu aldrei verið jöfn ef um væri að ræða þrjá aðila, það er kannski spurning um að lagfæra þetta.

Í 14. gr. er lagt til að Umhverfisstofnun geri þjónustusamning við Matvælastofnun, sem á að auka skilvirkni og draga úr kostnaði við eftirlit í fiskeldi. Matvælastofnun fari í reglulegar eftirlitsferðir. Hluti af eftirliti Umhverfisstofnunar hefur falist í mælingum og rannsóknum og fleiru sem framkvæmdar hafa verið af óháðum aðila. Farið er aðeins ofan í hlutverk Matvælastofnunar vegna þessa þjónustusamnings, svo sem eins og að taka út gæðakerfi og stofnunin á að hafa eftirlit á vettvangi með ákveðnum efnisatriðum, svo sem meðhöndlun efna og hvort fiskeldisstarfsemi sé á staðnum og taka sýni. Er þetta sparnaður til lengri tíma litið eða verður aukinn kostnaður í upphafi eða hvernig kemur þetta út? Mér finnst ekki gott að lesa það út úr þessu, þó að ég hafi lesið umsögn fjármálaráðuneytisins, því að hér eru gerðar margar lagabreytingar, margir liðir undir. Mér finnst ekki koma skýrt fram hvort hér verði sparnaður til lengri tíma litið en einhver kostnaður í upphafi.

Virðulegi forseti. Þetta er málefni sem ég er að kynna mér og þekki kannski ekki mjög vel en hér er rætt um að töluverðan undirbúning þurfi hjá stofnununum, eins og segir í bráðabirgðaákvæði III, sérstaklega hjá Matvælastofnun. Það þurfi að skipuleggja verkferla, ganga frá starfsmannamálum og aðstöðu og breyta reglugerðum, eins og hér er kannski verið að hluta að fjalla um. Rætt er um að Fiskistofa þurfi að fara með útgáfu leyfa og eftirlit í nokkra mánuði til viðbótar á meðan verið er að innleiða þessar nauðsynlegu breytingar. Kannski kemur kostnaðurinn hér fram þó að ég átti mig ekki alveg á hver hann er.

Í lokin langar mig að ítreka að í umsögn sinni segir fjármálaráðuneytið að það sé álitamál hvort heppilegra kynni að vera, í stað þess að stofnaður yrði nýr sjóður með fremur litla veltu í fjárlögum til að sinna þessu verkefni, að veitt yrði fjárframlag til viðeigandi ríkisstofnunar sem falið væri að hafa umsjón með málaflokknum. Þetta er eitt af því sem mér finnst standa út af (Forseti hringir.) borðinu miðað við verkefni okkar í fjárlaganefnd.



[17:52]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég vil einkanlega spyrja hv. þingmann sem þingmann einmitt í fjárlaganefnd, sem þingmaðurinn vék að í máli sínu, aðeins um Matvælastofnun og fjárhag hennar — það eru sannarlega góðar og frómar fyrirætlanir hjá hæstv. ráðherra um að stofnunin eigi að afgreiða með einfaldari og skilvirkari hætti en verið hefur þær umsóknir sem berast og að ljúka eigi umfjöllun um þær innan sex mánaða og gefa út leyfi — hvort þingmaðurinn telji að Matvælastofnun sé fjárhagslega í stakk búin til þess eins og fjárveitingar hafa verið til hennar fyrir þetta ár og eins og umbúnaðurinn um fjárveitingarnar er í málinu eins og það liggur fyrir núna.

Ég vil líka inna þingmanninn eftir sjónarmiðum um skipulagsþátt málsins vegna þess að hluti leyfisveitinga hefur verið hjá heilbrigðisnefndum sveitarfélaganna eins og fram hefur komið, en færist þá til Matvælastofnunar. Mér hefur fundist það að mörgu leyti vera góður rökstuðningur við það einmitt hjá Vestfirðingunum að auka ætti skipulagsvald sveitarfélaganna þannig að það nái lengra en þau netlög sem hæstv. ráðherra gat um áðan, 115 metra út frá ströndinni, því að það hefur auðvitað mikil áhrif á ásýnd eins sveitarfélags, þ.e. sjókvíaeldi af þessu tagi og kannski eðlilegt að íbúarnir þar hafi um það að segja.

Að síðustu, einmitt til fjárlaganefndarmannsins líka, ráðherrann upplýsti að Norðmenn byðu þessi leyfi upp. Væri það ekki að mörgu leyti ákjósanlegri aðferð til dæmis í tilfellum þar sem tveir sækja um sama svæði, eins og þingmaðurinn nefndi í ræðu sinni, að í stað þess að láta þann sem fyrr sækir um fá svæðið að láta menn bara keppa einfaldlega með því að sá sem borgar best, (Forseti hringir.) hann fær það?



[17:54]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hvað varðar Matvælastofnun ræddum við fyrir áramótin töluvert um þær fjárveitingar og sérstaklega í tengslum við svokallaða IPA-styrki og auðvitað aðra fjármögnun. Það er kannski ein ástæðan fyrir því að ég varpaði akkúrat þessu fram til hæstv. ráðherra, og ég vona að hann svari því í lokaræðu sinni: Er Matvælastofnun tilbúin til að taka á móti þessum verkefnum eða flytjast einhverjir starfsmenn á milli? Það er ekki nóg að tala bara um fjármagnið. Eru starfsmenn til staðar eftir þann niðurskurð sem hefur átt sér stað? Ég hef efasemdir um að þetta geti gengið eftir.

Ég tek undir með hv. þingmanni varðandi sveitarfélög og áhrif þeirra og vald til þess að hafa eitthvað um það að segja hvernig nærsvæði þeirra lítur úr. Ég mundi sjálf vilja ef til stæði að vera með slíkt eldi fyrir utan heimabyggð mína að við hefðum eitthvað um það að segja, því að eins og réttilega var komið inn á hefur þetta töluverð áhrif á ásýnd.

Ég tek líka undir það að ég hugsa að besta hugmyndin sé að bjóða upp leyfin, þó að ég hafi ekki endilega diskúterað eða skoðað það alveg ofan í kjölinn hvort einhverjir aðrir hagsmunir geti vegið þar sem gætu haft áhrif á stöðuna. Það sem kemur fram í frumvarpinu er jákvætt, en ég kom kannski ekki inn á það áðan að krefja á þá sem sækja um leyfi, þ.e. að þeir hafi fjármagnað sig að ákveðnu marki. Ég held að afar gott sé að það sé inni að sá sem sækir um slíkt leyfi þurfi að geta sýnt fram á það fjárhagslega að hann geti staðið í því. Það styrkir kannski enn frekar slíkt uppboð eins og hér hefur verið nefnt.



[17:57]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin og sérstaklega fyrir jákvæðar undirtektir við uppboðsleiðinni. Við jafnaðarmenn höfum löngum talað fyrir hugmyndum um auðlindasjóð, sem væri sameign landsmanna með svipuðum hætti og norski olíusjóðurinn er, og að almenningur hefði beinar tekjur af öllum auðlindum í gegnum slíkan auðlindasjóð. Þar mætti bjóða upp leyfi til sjókvíaeldis eins og hér væri þá um að ræða. Auðvitað rynnu þangað veiðigjöldin, gjöld sem tengdust nýtingu á orkuauðlindum okkar, hvort sem það er olíuvinnsla eða vatnsaflið, jarðhitinn, útboð á fjarskiptarásum og fjölmargt annað hefur verið nefnt í þessu sambandi.

Ég vildi í þessu síðara andsvari biðja þingmanninn um að skýra betur það sem hún á við þegar hún fjallar um markaða tekjustofna. Hvaða annmarkar eru á því að vera með markaða tekjustofna eins og hér er gert ráð fyrir? Og var það rétt skilið að þetta væri í ósamræmi við þá stefnu sem forusta fjárlaganefndarinnar, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, hefur markað? Hefur hæstv. fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson — af því að þetta er stjórnarfrumvarp sem hlýtur að hafa verið samþykkt til framlagningar í ríkisstjórn — lýst einhverri afstöðu til þeirra álitaefna sem kunna að vera uppi um markaða tekjustofna?



[17:58]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Eins og kemur fram í umsögn fjármálaráðuneytisins er þetta ekki alveg í takt við það sem fjármálaráðuneytið vill viðhafa, þ.e. um markaðar tekjur. Um það hefur verið deilt hvaða tilgangi þær þjóna og hvort þær séu af hinu góða. Sumir telja það ekki gegnsætt að hafa markaðar tekjur meðan aðrir telja að þannig sé því fylgt eftir. Við þekkjum öll markaðar tekjur sem hafa kannski ekki allar runnið til þeirra verkefna sem þær eiga að gera.

Svo er auðvitað alltaf spurning hvort afnema eigi allar markaðar tekjur eða hvort sumir gjaldstofnar geti verið með þeim hætti. Þetta er alla vega ekki í takt við frumvarpið um opinber fjármál sem hæstv. fjármálaráðherra leggur væntanlega fram fljótlega og þetta er alls ekki í samræmi við fyrirliggjandi frumvarp sem meiri hlutinn í fjárlaganefnd hefur lagt fram. Ástæða er til að velta þessu fyrir sér og eins og ég sagði áðan held ég að það sé í fleiri frumvörpum sem hér eru fyrirliggjandi þar sem markaðar tekjur koma fram til tiltekinna verkefna eða stofnana. Stjórnarmeirihlutinn hlýtur að þurfa að velta aðeins fyrir sér á hvaða línu hann er og hvernig hann ætli að gera þetta.

Fjármálaráðuneytið gerir líka athugasemdir við að í frumvarpinu er gert ráð fyrir að árgjald til að fjármagna ríkisstarfsemi verði greitt í erlendri mynt og bendir á að það sé algjört einsdæmi og telur það óheppilegt fyrirkomulag og veki upp álitamál um aðra skatta og skyldur sem þessi fyrirtæki greiða eða hvernig slík áform snúi að fyrirtækjum í öðrum útflutningsgreinum. Hér er því augljóslega verið að ganga svolítið gegn því sem fjármálaráðuneytið leggur til.



[18:01]
Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég tel rétt að koma hér í ræðu þar sem ég fæ ekki tækifæri til þess að fjalla um málið í nefnd, ég sit sjálfur ekki í hv. atvinnuveganefnd, en hér er um að ræða mál sem mikið hefur komið inn á borð til okkar þingmanna Norðvesturkjördæmis þar sem við höfum verið að ræða um laxeldið á Vestfjörðum, m.a. á sunnanverðum Vestfjörðum, og allar þær væntingar og tækifæri sem verið hafa sjáanleg þar í uppbyggingu á laxeldi og einnig er margra ára reynsla af því í Ísafjarðardjúpi.

Meginefni frumvarpsins lýtur að einföldun á umsóknarferli starfs- og rekstrarleyfa samkvæmt greinargerð með frumvarpinu og er talað um að stuðla þar að auknu öryggi í fiskeldi og draga úr umhverfisáhrifum þess, aukinni skilvirkni og hagkvæmni í eftirliti með fiskeldi, gjaldtöku og tryggingarskyldu, stofnun Umhverfissjóðs sjókvíaeldis, dagsektum, úrbótum á kostnaði leyfishafa og starfsemi sem er án rekstrarleyfis.

Eins og ég kom að í andsvari við hæstv. ráðherra tel ég að þetta sé gríðarlega mikilvægt frumvarp og þau markmið sem sett eru fyrir frumvarpið mjög góð. Ég ætla að vona, þó að það komi kannski ekki fram hér, að sá hópur sem skilar nú frumvarpi hafi gert það í mikilli sátt, en þar er m.a. fulltrúi tilnefndur af Landssambandi fiskeldisstöðva. En auðvitað koma fjöldamargar spurningar fram þegar ég les þetta, eftir að hafa heyrt í mönnum á sínum tíma þegar menn voru að reyna að koma þessu í gang og heyrt lýsingar þeirra á öllum þeim vandkvæðum sem voru við það að fá þessi leyfi, t.d. varðandi óskýr mörk, skort á skipulagi á strand- og hafsvæðum, hvernig farið er með skipulagsvald á þessum svæðum, hvernig nýtingin má vera á þessum svæðum, hver réttur landeigenda er sem eiga land að sjó o.s.frv.

Auðvitað hefur hluti af þessu verið tekinn inn í reglugerðir áður og reynt að sinna þessum verkefnum, en hér er verið að reyna að setja allt á einn stað. Verið er að færa þessi mál til Matvælastofnunar og mér finnst sérlega ánægjulegt að sjá í frumvarpinu að þar er reynt að gera þetta þannig að Matvælastofnun sæki síðan aðstoð til annarra aðila. Það kemur fram í 3. gr. frumvarpsins að Matvælastofnun skuli taka á móti umsóknum og síðan verði hún að leita til margra aðila til þess að fá svör við ýmsum þáttum. Má þar nefna Fiskistofu, Veiðimálastofnun, Hafrannsóknastofnun, og einnig til viðkomandi sveitarstjórna til þess að fá skýr svör við ákveðnum þáttum til þess að Matvælastofnun geti síðan gefið leyfi. Þar er m.a. fjallað um hvort umsækjandi uppfylli kröfur sem gerðar eru í reglugerðum um heilbrigðiskröfur o.s.frv. og er ítarlega farið yfir þær kröfur hér.

Það er líka athyglisvert að sjá að Umhverfisstofnun á að fara með ákveðna þætti, en reiknað er með því að Umhverfisstofnun og Matvælastofnun geri samning þar sem Matvælastofnun fer með það hlutverk að hluta þannig að þetta verði allt á einni hendi. Það er mjög til fyrirmyndar og ég ætla að vona að það virki.

Það sem vekur áhyggjur á sama tíma, þó að það sé í sjálfu sér ekki aðalatriði, er að sum verkefni sem núna eru úti á landi, eins og hjá Fiskistofu á Ísafirði, færast til. Fiskistofa missir þá þau verkefni. Af því að ég vitnaði til funda með þingmönnum Norðvesturkjördæmis og sveitarstjórnarmönnum á þessu svæði á Vestfjörðum, og hef raunar heyrt þá umræðu víðar, þá skiptir mjög miklu máli þegar svona veigamiklar breytingar eru gerðar að menn tryggi að störfin haldist á þeim svæðum þar sem veita þarf þessa þjónustu og þarf að hafa hana sem næst notendunum. Auðvitað geri ég mér grein fyrir að ekki er hægt að dreifa þessum verkefnum út um allt land, en ég gerði hér að tillögu minni í andsvari að þar sem uppbyggingin væri hröðust í augnablikinu, þ.e. á Vestfjörðum, yrði þessi þjónusta þar. Fluttar hafa verið þingsályktunartillögur um það í þinginu, m.a. af fyrrverandi hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur, að Vestfirðir yrðu skilgreint svæði þar sem menn væru með rannsóknir og þjónustu í sambandi við sjávarútveg. Alla vega gætum við náð þeim áfanga að umsjón og þjónusta við fiskeldi yrði höfð á þessu svæði. Auðvitað verðum við þá líka að reikna með því að þau fyrirtæki sem sækja þarna um leyfi verði þá með lögheimili sín í þessum sveitarfélögum til þess að tekjurnar af starfseminni fari sem mest inn á svæðið.

Það hefði verið gaman að heyra meira frá ráðherra varðandi burðarþolsmat og sjóeldissvæði. Þegar við höfum verið að fjalla um þessi mál við fólk frá viðkomandi fyrirtækjum hafa verið skiptar skoðanir um hversu stórt land menn þurfi að helga sér. Ef menn eru með svona gríðarlega miklar fjárfestingar verða menn að hafa tryggingu fyrir því að ekki komi aðrar stöðvar of nærri út af sjúkdómahættu. Sumir hafa talað um að þeir þyrftu nánast að hafa heilu firðina vegna þess að þá gætu þeir líka fært sig á milli staða þannig að umhverfisáhrifin yrðu minni og hindrað líka sýkingar. Það kemur ekki fram í frumvarpinu hver mörkin eru nákvæmlega, það er að hluta til tilgreint í reglugerðum, talað um 5 km þarna á milli, en það hlýtur að skipta gríðarlega miklu máli þegar kemur að útfærslum og framkvæmd.

Það er athyglisvert líka í 5. gr. frumvarpsins þar sem gerðar eru kröfur til þeirra sem fá leyfi. Þar er til dæmis talað um eignarhald á fiskeldisstöðvum, að umsækjandi hafi fullnægjandi fagþekkingu á viðkomandi sviði, gæðakerfi stöðvarinnar og að eldisbúnaður standist kröfur o.s.frv. Það er líka til fyrirmyndar að ekki geti hver sem er rokið af stað með eitthvert fyrirtæki sem fari síðan á hausinn og skilji eftir sig mannvirki. Þarna er líka séð til þess að menn verði að borga tryggingar þannig að ef þeir lenda í einhverjum áföllum og öðru slíku séu þeir tryggðir fyrir því þannig að það falli ekki á viðkomandi sveitarfélag eða að ríkið verði að hreinsa upp eftir slíka starfsemi.

Það eru álitamál í þessu eins og kom fram: Hver staða skipulagsvaldsins gagnvart sveitarfélögunum? Hvernig er með skipulag á þessum hafsvæðum og almennt í landinu og hafa menn verið að gera skipulag á strandsvæðum, eins og Vestfirðingar þegar þeir hafa verið að vinna að slíku? Hvernig á að halda utan um þessi mál í heild? Það væri fróðlegt að fá meiri umræðu um það. Einnig kemur hér fram, sem er forvitnilegt, að menn virðast ætla að stuðla að töluvert mikilli nýtingu, því að það er ákvæði um það að ef rekstrarleyfi er gefið út fyrir minna en 40% nýtingu á ákveðnu hafsvæði sé það tímabundið. Þar er talað um fjögur ár, þá þurfi að endurskoða það, þannig að greinilega er verið að ýta undir það að menn nýti þessi svæði vel. En þá er spurningin: Hvað telst vera hæfileg nýting til þess að sjórinn nái að hreinsa sig? Það kemur ágætlega fram í frumvarpinu að það er háð straumum og öðru slíku.

Hér er búið að ræða töluvert um eftirlitsgjaldið og talað er um að faggiltir eftirlitsaðilar geti sinnt eftirlitinu fyrir Matvælastofnun, þ.e. talað er um Matvælastofnun eða faggilta eftirlitsaðila. Nú væri gaman að vita hvort þeir eru til og þá líka hvernig gjaldtöku yrði háttað hvað það varðar, en ég sé fyrir mér að þarna geti verið einkafyrirtæki, eins og er svo sem algengt í þessum iðnaði, en auðvitað þarf að reyna að tryggja að kostnaði verði haldið sem lægstum hvað þetta varðar. Og það er raunar skýrt kveðið á um að eftirlitsgjaldið skuli miðast við launakostnað, annan kostnað vegna starfsfólks o.s.frv., greiningu á rannsóknarstofu og sýnatöku, og að Umhverfisstofnun og Matvælastofnun geri með sér samning þar sem Matvælastofnun fer að hluta til hlutverk með Umhverfisstofnunar og sinnir því sérstaklega, það er skilgreint í lögum til þess að tryggja að þetta sé allt á einni hendi.

Ég vakti athygli á því í andsvari sem mér fannst vera svolítið sérstakt, að umsóknir um rekstrarleyfi skuli ekki teknar til afgreiðslu fyrr en þjónustugjald hefur verið greitt. Það er að mörgu leyti skiljanlegt ákvæði en hversu íþyngjandi það er átta ég mig ekki alveg á, þ.e. hvort nægjanlegt er að gefa tryggingu eða hvernig gengið er frá þessu. Í næstu grein á eftir er það ákvæði sem ég nefndi áðan um trygginguna, þ.e. að umsækjandi verði að kaupa ábyrgðartryggingu hjá vátryggingafélagi fyrir hugsanlegu tjóni sem af starfseminni getur hlotist. Það verði að liggja fyrir fyrir útgáfu rekstrarleyfis.

Síðan er ákvæði líka um þennan Umhverfissjóð. Ég sagði það nú í bæði gríni og alvöru að það er dálítið sérstakt að fá þarna inn í íslensk lög viðmið og gjaldtöku sem er með erlendum gjaldeyri, þ.e. sem er með SDR, sem er blanda af gjaldeyri, og gjaldtakan tryggð með þeim hætti. Það er að því leyti merkilegt, eins og ráðherra sagði, að ef kostnaður, greiðslur og tekjur og allt er í erlendum gjaldmiðli hjá þessum fyrirtækjum þá sé það nauðsynlegt, en þannig er það hjá stórum hluta af íslensku atvinnulífi, ég tala nú ekki um útflutningsatvinnuvegunum, þá er þetta ein skýrasta viðurkenningin á því að það er erfitt að setja inn í lög verð í íslenskum krónum. Það er alltaf töluverð vinna að færa upp gjaldskrár einfaldlega vegna þess að krónan er ekki stabíll gjaldmiðill. Ég ætla ekki að dvelja mikið lengur við það en mér finnst þetta vera mjög áhugavert og forvitnilegt í samhengi við þá umræðu sem á sér stað í dag um gjaldeyrishöft og stöðu íslensku krónunnar og allt sem því er tengt.

Það má skilja það þannig að ef einhver sækir um og er kominn í umsóknarferli sé Skipulagsstofnun ekki skylt að taka annan aðila inn fyrr en búið er að afgreiða þann fyrri. Það hefði verið fróðlegt að heyra hvernig menn hafa hugsað sér þetta. Fyrstur kemur, fyrstur fær, þannig má skilja þetta að sumu leyti. Á sama tíma höfum við rætt hér fyrr í umræðunni að uppboð með einhverjum hætti gæti verið æskilegt form ef verið er að úthluta ákveðnum svæðum, að menn eigi þá aðgang að því með einhverjum formlegum umsóknum og þá jafnvel uppboðum, ekki endilega fyrir hæstbjóðanda. Það er líka hægt að gera það með ýmsum hætti, eins og við höfum rætt í tengslum við sjávarútveginn, að það sé tilboðsmarkaður sem stendur yfir í einhvern ákveðinn tíma á netinu og síðan er það afgreitt eftir það. Þetta er í sjálfu sér ekki alveg skýrt hér.

Í 16. gr. í frumvarpinu, III. kafla, stendur, með leyfi forseta:

„Skipulagsstofnun er ekki skylt að taka til efnislegrar meðferðar tilkynningu framkvæmdaraðila til ákvörðunar um matsskyldu í þeim tilvikum sem hin tilkynnta framkvæmd er fyrirhuguð á sama framkvæmdastað og önnur framkvæmd sem þegar er til efnislegrar málsmeðferðar á grundvelli þessarar greinar og þar sem fullnægjandi gögn liggja fyrir að mati Skipulagsstofnunar, eða fyrir liggur ákvörðun samkvæmt þessari grein“ o.s.frv.

Þarna er því greinilega verið að setja varnagla um að menn þurfi ekki að vinna verkið fyrir mörg fyrirtæki á sama tíma og að sá sem fyrstur sækir um fái verkefnið.

Áðan var rætt um gjaldtökuna. Öll sú gjaldtaka sem tilgreind er hér er gjaldtakan við að sækja um, kostnaðurinn við umsóknina og síðan kostnaðurinn við þennan sérstaka sjóð. En mér finnst mikilvægt að fylgja eftir þeirri athugasemd sem kom fram fyrr í umræðunni frá hv. þm. Helga Hjörvar, (Gripið fram í.) þar sem vakin er athygli á auðlindasjóðnum, hugmyndunum um að fá leyfi til að nýta íslenska náttúru, að rukkað sé eitthvert afnotagjald sem renni í sameiginlegan sjóð landsmanna. Ég held að það sé eitthvað til umhugsunar, það getur verið að fyrir hendi séu einhverjir byggðastyrkir og hjálp við að koma slíkri atvinnustarfsemi af stað í byrjun, en til lengri tíma eigum við að hugsa um þetta sem sameiginleg verðmæti. Það er orðið mjög áríðandi, bæði þarna og í atvinnulífinu, í sambandi við ferðaþjónustuna og gjaldtökuna þar, eins og rætt var fyrr í dag. Við höfum rætt um auðlindagjald í sjávarútvegi, í raforkunni og víðar, að þjóðin fái einhvers konar afnotagjald fyrir samneysluna af þessum auðlindum sem rennur síðan gjarnan til sveitarfélaga eða til viðkomandi byggðarlaga. Um er að ræða heilu hafsvæðin og afnotarétt af þeim til langs tíma. Það er ekki nægjanlegt í öllum tilfellum að segja bara: Ja, fyrirtækið kemur með starfsemina, menn borga útsvar á staðnum o.s.frv., það þarf meira til. Ég held að það sé nokkuð sem verði rætt í nefndinni og að menn muni skoða það. Það er áríðandi að taka heildstætt á þessum málum vegna þess að við sjáum að sífellt fleiri ásælast aðgang að íslenskri náttúru og þá er mikilvægt að við fylgjum eftir því ákvæði eða þeim hugmyndum sem við höfum um að (Forseti hringir.) landið sé í eigu þjóðarinnar og þar með einnig sjórinn í kringum það.



[18:16]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er eins og hv. þingmaður er að reyna að lesa mig í gegnum þetta frumvarp þar sem ég hef ekki aðkomu að því í nefnd. Eitt af því sem maður telur sér skylt að gera er að reyna að setja sig inn í sem flest mál, því að um ýmislegt er maður spurður sem ætlast er til að maður viti og hafi einhverja þekkingu á. Það er því af hinu góða að sitja undir umræðum og ræða málin.

Ég vil byrja á því að taka undir það sem hann sagði um auðlindasjóðinn. Ég held að við eigum sameiginlegt að vilja búa til slíkan sjóð fyrir þjóðina okkar vegna nýtingar á náttúrunni, hvar svo sem og hver hún er, hvort sem það er þetta eða eitthvað annað.

Hv. þingmaður kom upp áðan og svo aftur núna og ræddi meðal annars um tilurð Fiskistofu og það að hún mundi kannski leggjast af, eitthvað slíkt, fyrir vestan þrátt fyrir að hæstv. ráðherra hefði talað um að finna henni önnur verkefni. Mig langar að velta því upp með þingmanninum hvaða verkefni hann sæi til dæmis fyrir sér að Fiskistofa gæti sinnt í stað þeirra sem hún sinnir núna. Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir því að þeir peningar sem um ræðir, þetta eru svo sem ekki háar fjárhæðir eða ég veit ekki hvort þetta er það eina sem um ræðir því að talað um 1,4 millj. kr. tekjur hjá Fiskistofu vegna þessa eftirlitsgjalds. Ég veit ekki nákvæmlega hvaða áhrif það hefur á starfsemina fyrir vestan, hvort þetta er eingöngu niðurskurður þar eða hvort það er eitthvað annað og hvaða öðrum verkefni þeir sinna þar. Hv. þingmaður getur kannski frætt mig aðeins um það.



[18:18]
Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við vitum hvað fellur niður en ég verð að viðurkenna að ég get ekki greint hvaða verkefni gætu hugsanlega komið í staðinn. Aftur á móti verðum við að taka alvarlega þau loforð sem gefin eru í stjórnarsáttmálanum um að reyna að færa verkefni út á svæðin og þá kannski ekki hvað síst ný verkefni, þ.e. þar sem verið er að byggja upp einhverja nýja starfsemi, að hún sé færð til. Það er alveg augljóst að miklu víðar en við gerum í dag er líka hægt að færa hluta af stofnunum út á land og láta þær þjónusta á viðkomandi heimasvæðum.

Mér finnst þetta hafa komið mjög vel í ljós til dæmis þegar menn lentu í mikilli vinnu í kringum Kolgrafafjörðinn á Snæfellsnesi; Náttúrustofan í Stykkishólmi, Hafrannsóknastofnunin í Ólafsvík, þessir aðilar koma allir að því að leysa þar mál. Ef maður skoðar það svo í samhengi við að þurfa alltaf að fara með mannskap úr Reykjavík, sem var að vísu til viðbótar í þessum tilfellum líka, í enn meira mæli sér maður hversu mikilvægt það er að vöktun, eftirlit, aðhald sé sem næst notandanum.

Oft hafa menn verið að spara og færa þetta á einn stað og þá hafa menn borgað til baka það sem sparaðist með því að borga dagpeninga, ferðakostnað og miklu lengri vinnutíma þar sem það tekur heila daginn að ferðast til að vinna tveggja klukkutíma vinnu.

Á Vestfjörðum eru miklar vegalengdir en eins og ég segi er vonandi að samgöngur batni þar á milli suður- og norðurfjarðanna þannig að hringurinn opnist með nýjum Dýrafjarðargöngum. Þá opnast líka ný tækifæri.

Sum af þessum laxeldisfyrirtækjum eru háð þessu líka. Þau vinna báðum megin þannig að þau þurfa á því að halda að þessar samgöngur batni til að þetta virki almennilega.

Ég get ekki svarað því nákvæmlega hvað það er sem kæmi í staðinn fyrir þetta á Fiskistofu. Aftur á móti er athyglisvert að umfangsmikil starfsemi (Forseti hringir.) er tengd sjávarútvegi á þessu svæði og mætti aukast verulega.



[18:21]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þrátt fyrir að það sé kannski óvenjulegt vil ég beina því til hæstv. ráðherra að hann svari því — af því að hann nefndi það í ræðu sinni áðan að hann hefði óskað eftir því við Fiskistofu að hún skoðaði það hvaða önnur verkefni væri þarna um að ræða, þ.e. hjá Fiskistofu fyrir vestan. Það væri áhugavert að vita hvað það væri sem kæmi í staðinn. Þá skil ég það þannig að þrátt fyrir þá lækkun sem hér kemur fram í þessum tekjum Fiskistofu eigi ekki endilega að skerða starfsemina. Ég kýs að líta svo á miðað við það sem hæstv. ráðherra sagði áðan. Hann leiðréttir mig vonandi ef það er ekki rétt.

Af því að við höfum aðeins rætt fjármálin í tengslum við þetta frumvarp og hv. þingmaður hefur lýst ánægju sinni með gjaldmiðilinn sem tekinn er til í því langar mig að spyrja hann sem fyrrverandi formann fjárlaganefndar hvað honum þyki um þær athugasemdir sem hér koma fram, að þetta sé gert. Hér er eindregið lagst gegn því að þetta sé gert svona og því velt upp að þetta sé álitamál varðandi aðra skatta og skyldur sem þessi fyrirtæki greiða í sjávarútveginum. Erum við hér að setja fordæmi? Er þetta það sem koma skal, að allt sem tengist útflutningsgreinum að einhverju leyti, og lög voru sett um hér, að þar verði notaður annar miðill til viðmiðunar en krónan? Hvernig metur þingmaðurinn það?

Mér sýnist, eins og ég segi, að það sé ekki beint í takt við það sem að minnsta kosti ráðuneytið telur heppilegt.



[18:23]
Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er athyglisvert þetta með nýja gjaldmiðilinn. Í raun er gagnrýnin kannski ekki sett á það frá fjármálaráðuneytinu í sinni umsögn. En það er ástæða til að vekja athygli á þessu líka vegna þess að við erum með býsna margar útgáfur af gjaldmiðlum. Menn eru með verðtryggða krónu, menn eru með óverðtryggða krónu, menn eru með erlend viðmið, við sjáum ferðaþjónustuna nota evrur og umreikna í íslenskar krónur nánast eftir hentugleikum. Ég hef grun um að gjaldtakan á Geysi hafi verið ákveðin sem fjórar evrur og þá sett sem 600 kr. og spurning hvernig það verður til lengri tíma.

Við erum að taka okkur þessi viðmið og miðum oft við notendur eða kaupendur að þjónustunni og svo útflutning á vörum.

Það sem er athyglisvert og við höfum svo sem getað rætt af því að hv. þm. Bjarkey Gunnarsdóttir er í fjárlaganefnd, það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að kaflinn hér í umsögn fjármálaráðuneytisins er mjög athyglisverður. Ég ætla að leyfa mér að lesa hann, með leyfi hæstv. forseta:

„Frumvarpið gerir ráð fyrir að framangreind gjöld, sem teljast vera lögþvingaðar ríkistekjur, renni beint til reksturs annars vegar Matvælastofnunar og hins vegar til nýs Umhverfissjóðs sjókvíaeldis. Fjármála- og efnahagsráðuneytið telur það ekki heppilegt fyrirkomulag að ríkistekjur séu markaðar með þessum hætti til reksturs ríkisaðila. Að mati ráðuneytisins ættu tekjur sem kveðið er á um í lögum og teljast til ríkistekna að renna í ríkissjóð og ákvörðun um fjárheimildir verkefna að vera tekin í fjárlögum hverju sinni.“

Fyrir þessu eru heilmikil rök og ég geri mér alveg grein fyrir því að menn geta haft miklar tekjur tímabundið og þá er verið að reyna að hindra að stofnanir þenjist út tímabundið og síðan vill það oft bregðast að menn dragi saman aftur.

Samtímis er ég ekki svo viss um að hægt sé að gera það sem meiri hluti fjárlaganefndar hefur flutt frumvarp um, (Forseti hringir.) að leggja af markaða tekjustofna. Ég held að málið sé ekki svona einfalt, ég held að menn þurfi að tengja þetta að einhverju leyti (Forseti hringir.) þó að ég treysti mér ekki til að segja að þetta sé endilega réttasta leiðin.



[18:25]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmönnum málefnalega og ítarlega umræðu um þetta mál. Varðandi þær fyrirspurnir sem komu get ég almennt sagt um þær að þó nokkrar þeirra lutu að því hvernig ákveðin niðurstaða væri komin, hvort hún væri íþyngjandi fyrir greinina og annað í þeim dúr. Rétt er að benda á að þetta var unnið í miklu samráði við greinina og öll niðurstaða sem kemur fram í frumvarpinu byggist á því að greinin sjálf er mjög meðvituð um ábyrgð sína. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem svona sóknarhugur er í fiskeldi á Íslandi og margt sem bendir til þess að ef við vöndum vel til verka með þá þekkingu og reynslu sem við höfum í dag muni okkur farnast mun betur en oft áður. Þess vegna svarar það kannski flestum þeim spurningum sem hér voru bornar upp.

Varðandi það til að mynda hvort eðlilegt sé að greiða þjónustugjöld áður en menn fá afgreiðslu sinna mála er þetta hluti af því að meta hæfni þeirra fyrirtækja sem fara þarna inn, að þau séu rekstrarhæf, þau séu með nægilegt fjármagn og séu burðug til að standa undir því og annað í þeim dúr.

Ég tel að það sé bara til marks um ábyrgð greinarinnar að vera tilbúinn að leggja slíkt til í frumvarpi sem er unnið í þéttu samráði fjölmargra aðila.

Varðandi þá fyrirspurn sem hv. þm. Kristján L. Möller kom með um Matvælastofnun, og aðrir þingmenn komu reyndar inn á hana líka, hvað gerist ef upplýsingar vantar og menn gætu farið að teygja lopann þá sagði ég það í ræðu minni að ég liti svo á að Matvælastofnun mundi taka þetta víðtæka verkefni að sér af mikilli festu. Auðvitað hvílir mikil leiðbeiningarskylda á stofnunum ríkisins. Ég tel að það verði gert að þessu leyti og þess vegna þurfa þær upplýsingar sem menn eiga að skila að vera mjög skilmerkilegar og fresturinn ekki nýttur með þeim hætti að á síðustu dögum sex mánaðanna muni menn óska eftir upplýsingum sem taki hálft ár til viðbótar. Ég tel líka eðlilegt og vænti þess að atvinnuveganefnd sem þekkir þessi mál frá því að fjallað var um þetta talsvert á síðasta kjörtímabili, þau vandræði sem þær leyfisveitingar og sá eftirlitsfrumskógur sem þessi grein bjó við, að hún muni fara vel yfir frumvarpið og svara að einhverju leyti þeim spurningum sem bornar hafa verið fram, m.a. í nefndaráliti sem væri þá lögskýringargagn og til stuðnings fyrir þá aðila sem þurfa að vinna eftir þeim, þar á meðal ríkisstofnanir.

Að öðru leyti var aðeins umræða um fyrstur kemur, fyrstur fær. Það er auðvitað algengasta leiðin og kannski á margan hátt sú eðlilegasta. Það er líka rétt að nefna að við erum að byggja upp ný svæði, okkur vantar grunnrannsóknir og greinin sjálf tekur þátt í því. Það væri allt annað viðhorf og kannski mundu menn fara aðrar leiðir við leyfisveitingar og greiðslu ef búið væri að kortleggja allt landið, til að mynda af hálfu hins opinbera. Þá þyrfti hið opinbera að fá þann kostnað greiddan inn með leyfisveitingunum. Hér er farin önnur leið, þ.e. að greinin sjálf mun taka þátt í því að byggja upp þekkingu á þeim svæðum sem eftir er að rannsaka og verður síðan úthlutað til fyrirtækja. Ég held að það sé ákjósanleg leið við þær aðstæður sem við búum við í dag og tekur á þeim vanda sem menn hafa horft upp á á liðnum árum án þess að taka á honum. Ég tel að þetta sé nokkuð efnilegt.

Hér hefur líka aðeins verið rætt um skipulag. Rétt er að geta þess að á vegum umhverfisráðuneytisins er komin af stað vinna við frumvarp að skipulagi hafs og stranda. Þar er horft til þess fordæmis sem Fjórðungssamband Vestfjarða hefur staðið fyrir og gert með glæsibrag þar sem meðal annars Arnarfjörður hefur verið kortlagður. Ég var staddur þar um daginn þegar menn undirrituðu þá áætlun og það var mjög gleðileg stund. Ég tel að það sé góð fyrirmynd fyrir þá vinnu sem við þurfum að fara í.

Þegar þeirri vinnu hefur verið hrundið af stað verður í kjölfarið hægt að leysa önnur mál er varða til að mynda kræklingarækt og skelrækt og aðra slíka þætti, breyta því umhverfi sem þar er og láta það byggja meira á skipulagi og síðan úthlutun samkvæmt því. Það er mjög eðlilegt að sveitarfélögin séu miðlæg í því hvort það verði á forræði sveitarfélaga eingöngu eða í samstarfi ríkis og sveitarfélaga, það er eitthvað sem meðal annars verður fjallað um í aðdraganda frumvarps um skipulag hafs og stranda. Þar af leiðandi er mjög margt af því sem við höfum talað um á liðnum árum að hafi verið óleyst og verið óljóst, vandasamt og flókið er nú þegar komið af stað. Það er gleðilegt að geta komið með þetta mál inn í þingið eftir átta mánaða vinnu í ráðherraembætti og ég er bara stoltur af því.



[18:31]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir greinargóð svör við mörgu af því sem tekið var upp. Undir umræðunni, ekki síst þegar við fórum að snúa okkur að þeirri uppbyggingu sem fram undan er í þessari grein og hversu hátt verð er í henni, rifjaðist upp fyrir mér hversu miklar sveiflur eru í henni. Ég minnist þess að hafa farið með hv. fjárlaganefnd árið 2003 í heimsókn í eldi sem þá var í Mjóafirði og þá var verðið á afurðunum komið niður úr öllu valdi.

Oft hafa rekstrarskilyrði í þessari grein á Íslandi orðið mjög léleg. Því miður eru mörg dæmi um fyrirtæki sem við slíkar aðstæður hafa ekki haldið uppi nægilega miklum gæðum í starfsemi sinni eða farið nægilega að þeim reglum sem eiga að tryggja öryggið í kringum þessa starfsemi. Þess vegna er ástæða til að spyrja hæstv. ráðherra við lok umræðunnar hvort hann hafi engar áhyggjur af þessari einföldun á eftirlitinu, þ.e. áhyggjur af því að það verði slys í kringum þessa starfsemi, að eldisfiskurinn blandist við hinn náttúrulega, að það verði einhver erfðamengun þar á milli eða annað slíkt sem ógnað gæti þeim miklu verðmætum og hagsmunum sem við höfum í hinum náttúrulega laxi og þeim miklu tekjum sem menn hafa af honum víða um land.



[18:33]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Að sjálfsögðu eiga menn alltaf að fara að öllu með gát. Þetta frumvarp byggir á því að einfalda en líka auka skilvirkni í eftirlitinu. Ég hef í sjálfu sér ekki áhyggjur af því að það eitt að einfalda þýði að það verði lélegra, síður en svo, ég held að það verði miklu betra. Það er einnig tekið á mjög mörgum öryggisþáttum er varða umhverfishlutann og gerðar auknar kröfur um búnað sjókvíaeldisfiskeldisins. Ég tel að þar sé líka nokkuð vel að verki staðið og verði þar af leiðandi miklum mun betra en það hefur verið hingað til. Auðvitað er ekki hægt að tryggja að ekki gerist slys og þess vegna þurfa að vera til einhver viðbragðstæki til að bregðast við. Meðal annars hefur verið fjallað dálítið um það í þessum hópi. Það verður tryggt í reglugerðum.

Hv. þm. Kristján L. Möller kom inn á kort sem gert var 2004. Ég held að ég fari rétt með þegar ég segi að það hafi verið gert í tíð Guðna Ágústssonar sem þá var landbúnaðarráðherra. Þar voru tekin frá ákveðin svæði til að tryggja okkar verðmætustu svæði fyrir villta laxinn. Það er aðdáunarverð aðferðafræði og staða okkar á Íslandi er til dæmis margfalt betri en í Noregi hvað þetta varðar. Við höfum verið nokkuð rómuð fyrir að hafa tekið slíka ákvörðun. Á sama hátt eru önnur svæði sem voru skilin eftir til meðal annars sjókvíaeldis og þau eru líka verulega öflug. Þar eru gríðarleg tækifæri til að byggja upp þessa spennandi atvinnugrein. Verð á eldislaxi er býsna hátt um þessar mundir og hefur verið um alllangt skeið.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til atvinnuvn.