143. löggjafarþing — 78. fundur
 20. mars 2014.
beiðnir um sérstakar umræður.

[10:33]
Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég er þeirrar skoðunar og ég er viss um að margir hér inni eru einnig þeirrar skoðunar að góð stjórnmál snúist að stórum hluta um góð samskipti. Það liggur fyrir að við erum mörg hér með ólíkar skoðanir og ólíkar nálganir á hlutina en til að fá það besta út úr því verðum við að eiga góð samskipti.

Mér finnst margt benda til þess að upp sé kominn ákveðinn samskiptavandi á Alþingi sem aftrar góðum ákvarðanatökum og gerir þetta þing verra en það þyrfti að vera. Það er tvennt sem mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra um í því sambandi. Ég hef gagnrýnt hæstv. forsætisráðherra fyrir að vera tregur til að koma hingað og taka þátt og vera til andsvara í sérstökum umræðum. Sérstakar umræður eru, eins og þingheimur veit, ekki óundirbúnar fyrirspurnir. Sérstakar umræður eru yfirgripsmeiri, þær fara fram með þátttöku allra flokka og þær geta ekki farið fram nema ráðherrar séu til andsvara.

Ég hef sjálfur beðið í marga mánuði með beiðni til hæstv. forsætisráðherra um að koma og taka þátt í sérstökum umræðum varðandi mál sem hann hefur sjálfur talað mikið um á öðrum vettvangi og í síðustu kosningabaráttu. Þar á meðal er afnám gjaldeyrishafta og samningar við erlenda kröfuhafa sem hæstv. forsætisráðherra talaði mjög mikið um í síðustu kosningabaráttu. Ég beið hér lengi eftir því að fá svar við því hvort hæstv. forsætisráðherra vildi vera svo vænn að koma til andsvara í sérstakri umræðu um þau mál.

Mig langar einfaldlega að spyrja hæstv. forsætisráðherra, vegna þess að ég lít svo á að það sé hlutverk hæstv. forsætisráðherra, forsætisráðherra á hverjum tíma að fara á undan með góðu fordæmi þegar kemur að þessum samskiptum við þingið: Hvers vegna hefur hæstv. forsætisráðherra (Forseti hringir.) einungis svarað einni beiðni um að koma í sérstaka umræðu af þeim sex sem beint hefur verið til hans á kjörtímabilinu?



[10:35]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður spyr sérstaklega út í og gerir að umtalsefni sérstakar umræður og tíðni þeirra. Ég er svo sem sammála hv. þingmanni um að það sé æskilegt að menn ræði sem flest mál og sem mest, en hvað varðar sérstakar umræður er nú ekki hægt að segja annað en að flokki hv. þingmanns hafi verið ágætlega sinnt á þessu kjörtímabili því að Björt framtíð hefur beðið um tólf sérstakar umræður við ráðherra og fengið átta en þrjár hafa verið kallaðar aftur. Hv. þingmaður nefnir beiðni um sérstakar umræður við mig. Ég hef boðist til að ræða við m.a. hv. þingmann um mál sem hann hefur beðið um sérstaka umræðu um án þess að hann hafi séð sér fært að ræða málið akkúrat á þeim tíma. Ég hef hins vegar í þeim tilvikum ekki getað rætt málið á þeim tíma sem hv. þingmaður vildi ræða það. Hins vegar vantar ekkert upp á vilja minn til að ræða mál almennt við hv. þingmann og er raunar ekkert óeðlilegt í samanburði við fyrri forsætisráðherra að forsætisráðherra taki þátt í færri sérstökum umræðum en aðrir ráðherrar. Það í eðli sínu hlutverk sérstakra umræðna að fjalla um ákveðin málasvið og þar sem fá slík svið heyra undir forsætisráðherra beint er eðlilegt að hann taki þátt í færri sérstökum umræðum.

Fyrrverandi forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir tók t.d. ítrekað ekki þátt í neinni sérstakri umræðu heilu missirin, hún tók að vísu þrjár sérstakar umræður að meðaltali á ári á síðasta kjörtímabili. Hv. þingmaður sér því að ekki vantar mikið upp á það meðaltal og eflaust munum við ná að finna tíma til að vinna upp það meðaltal svo hv. þingmaður geti verið sáttur, ella getur hann beðið um sérstaka umræðu um sérstakar umræður og ég skal reyna að taka vel í þá beiðni.



[10:38]
Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég kannast ekki við að hafa verið boðið að koma í sérstaka umræðu sem ég bað um og ekki getað komið, en það verða þá bara að vera orð gegn orði. Ég hef beðið hér spakur, í einu tilviki í marga mánuði, eftir því að vera kallaður til að koma til sérstakrar umræðu sem ég bað um en ekkert gerðist.

Svarið kom ekki við spurningu minni um hvers vegna forsætisráðherra líti ekki á það sem eina af skyldum sínum að koma til andsvara í sérstakri umræðu þegar hann er beðinn um það. Flestir aðrir ráðherrar hafa gert það, margir mjög vel, en hæstv. forsætisráðherra er verkstjóri í ríkisstjórninni og mér finnst að honum beri að fara á undan með góðu fordæmi. Hann hefur sinnt 16% þeirra beiðna sem beint hefur verið til hans.

Það er hins vegar annað sem ég ætla að spyrja um í síðara andsvari og varðar líka ákveðið viðhorf til þingsins. Farið hefur fram samráð, t.d. um síðustu jól. Gert var samkomulag, stofna átti hér samráðshóp um útboð á makrílkvóta og samráðshóp um uppbyggingu vísinda og tækni. Leggja átti sérstaka áherslu (Forseti hringir.) á að afgreiða þingmannamál, þetta var samkomulag formanna flokkanna. (Forseti hringir.) Ekkert af þessu hefur litið dagsins ljós og síðari spurningin er: Er samráð einhvers virði? (Forseti hringir.) Er hægt að treysta því hér á þinginu (Forseti hringir.) að samkomulag sé yfir höfuð virt?

(Forseti (EKG): Forseti vill biðja hv. þingmann að virða tímamörk.)



[10:39]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Aftur verð ég að gera smáathugasemd við það hvernig hv. þingmaður leggur hlutina upp. Hann var t.d. í viðtali til að vekja máls á þessum miklu áhyggjum sínum af því að vera ekki sinnt í sérstökum umræðum þar sem hann hélt því fram að forsætisráðherra hefði bara tekið þátt í einni af 45 beiðnum um sérstakar umræður, eins og mátti skilja hv. þingmann. Hið rétta er auðvitað að í langflestum tilvikum, eins og ég gat um áðan, er sérstökum umræðum beint til fagráðherra á ákveðnum sviðum og er ekkert út á það að setja.

Fyrir liggja fjórar beiðnir um sérstaka umræðu. Þar af hef ég tekið eina, ég hef gert þinginu viðvart bæði í tilviki hv. þingmanns og hv. þm. Árna Páls Árnasonar um að ég sé tilbúinn að taka við þá sérstakar umræður án þess að þeir hafi verið á staðnum eða séð sér fært að taka þær á þeim tíma. Það þýðir ekki að menn fái bara eitt tækifæri til að taka sérstaka umræðu. Hins vegar er eðlilegt að geta þess að það hefur ekki verið bara á annan veginn hvað varðar þetta atriði.

Hvað varðar samráð almennt stendur það í sjálfu sér sem samið var um (Forseti hringir.) og menn munu hafa samráð um vonandi (Forseti hringir.) sem flesta hluti, en það breytir þó ekki því að hér er ný ríkisstjórn með nýja stefnu, hún mun fylgja þeirri stefnu en hlusta á ábendingar. (Gripið fram í.)