143. löggjafarþing — 81. fundur
 26. mars 2014.
náttúruvernd, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 167. mál (brottfall laganna). — Þskj. 199, nál. m. brtt. 624.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[15:47]

[15:38]
Höskuldur Þórhallsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér erum við að fara að greiða atkvæði um risastórt mál sem náðst hefur söguleg sátt í. Ég fagna því sérstaklega og þakka öllum nefndarmönnum og hæstv. umhverfisráðherra fyrir þátttöku þeirra í þeirri ágætu sátt sem náðist um meginstofn frumvarpsins og þá vinnu sem fram undan er. Ég tel það mjög mikilvægt. Ég vil sérstaklega þakka hv. þm. Róberti Marshall. Öll nefndin sendir honum góðar batakveðjur og vonandi kemur hann til starfa í nefndinni hið allra fyrsta. Hann á sinn þátt í því að svo vel tókst til.

Það er líka ágæt samstaða um framhald og framgang málsins. Ég tel það mikið fagnaðarefni á Alþingi og vonandi vísi að því sem koma skal að náðst geti sátt í jafn stóru máli og hér um ræðir.



[15:40]
Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Um leið og ég tek undir með hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni og þakka samnefndarmönnum mínum í hv. umhverfis- og samgöngunefnd fyrir sérlega gott samstarf vil ég líka nota tækifærið og segja að ég bind miklar vonir við framhaldið, að við nýtum vel þann tíma sem fram undan er til að geta lokið vinnu við ný náttúruverndarlög þannig að við fáum hér nýja og framsækna löggjöf á þessu sviði.

Ég skrifaði undir nefndarálit nefndarinnar með þeim fyrirvara að helst hefði ósk mín verið sú að lögin hefðu tekið gildi núna 1. apríl af því að ég tel að þau feli í sér mjög mikla framför. En til að vinna málinu gagn fannst mér mikilvægt að við næðum saman um þessa lausn og ég er mjög ánægð með þá vinnu sem verið hefur í hv. umhverfis- og samgöngunefnd og þess vegna er ég vongóð um að við finnum góða lausn og getum séð ný og framsækin náttúruverndarlög á árinu 2015.



[15:41]
Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég þakka sömuleiðis hv. umhverfis- og samgöngunefnd fyrir frábært samstarf í þessu máli. Við gengum fordómalaust til verks og ákváðum að byrja ekki í pólitískum skotgröfum. Þannig tókst okkur að lenda málinu og má formaður nefndarinnar, hv. þm. Höskuldur Þórhallsson, eiga mikla þökk fyrir það hvernig hann nálgaðist málið með nefndinni. Megi það vera til fyrirmyndar í öðrum málum vegna þess að lagt var af stað í þetta mál með stríðshanskann á lofti. Það átti að henda því. Hið sama finnst mér vera að gerast með rammaáætlun, hún er í miklu uppnámi. En von mín er sú að við getum náð sams konar vinnulagi hvað varðar lendingu í því máli á næstu vikum og missirum þannig að náttúra Íslands sé ekki alltaf bitbein stjórnmálaafla í samfélaginu og að þjóðin sé ekki alltaf klofin í herðar niður vegna umræðu um nýtingu eða verndun á íslenskri náttúru. Þetta er mikilvægt fyrsta skref og vonandi tekst okkur að halda svona áfram á þessu sviði.



[15:42]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir það sem tekist hefur í þessu máli, að taka flokkspólitíska hagsmuni út úr málinu. Auðvitað á ekki að berjast í skotgröfum þegar við fjöllum um náttúruvernd í landinu, náttúruverndarlög. Ég þakka bæði meiri hlutanum og minni hlutanum í nefndinni og ekki síst formanninum fyrir að hafa gengið vasklega fram í því. Þegar ég skynjaði þá umræðu sem þar átti sér stað tók ég þá tali sem þar eru í forsvari og lagði til að við reyndum að fara þessa leið.

Hluti af því samkomulagi er áframhaldið, sem er líka óvanalegt, að framkvæmdarvald og löggjafarvald vinni að því saman að klára þetta mál. Ég vænti þess að við náum samstöðu um það. Það sem mér finnst mikilsverðast er að ná eins víðtækri sátt og hægt er um jafn mikilvægt mál og náttúruvernd og náttúruverndarlög eru án þess að þar séu einhverjar hefðbundnar gamlar skotgrafir.



[15:43]
Birgitta Jónsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka formanni nefndarinnar, hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni, fyrir að ná einstöku samkomulagi um ákaflega erfitt mál sem kom inn í þingið. Það var með þeim hætti að ég var mjög svartsýn á að við næðum einhverjum sameiginlegum fleti og farsælli lausn.

Alltaf þegar ný skref eru tekin er tilefni til að ætla að næsta skref verði í sömu átt. Ég hvet samþingmenn mína bæði í umhverfis- og samgöngunefnd sem og öðrum nefndum til að feta í fótspor umhverfisnefndar sem við greiðum nú atkvæði um sem er mjög jákvætt. Ef við gætum haft fleiri svona mál í þinginu held ég að traustið til okkar mundi hækka ört.



Brtt. í nál. 624,1 (ný 1. gr.) samþ. með 52 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ÁsmD,  BÁ,  BirgJ,  BjarnB,  BjÓ,  BSB,  BP,  BN,  EKG,  ElH,  ELA,  EyH,  FSigurj,  GuðbH,  HarB,  HE,  HHG,  HHj,  HöskÞ,  JMS,  JónG,  JÞÓ,  KG,  KJak,  KaJúl,  KÞJ,  KLM,  LRM,  LínS,  OH,  ÓP,  PJP,  PHB,  RR,  SDG,  SII,  SigrM,  SIJ,  SilG,  SJS,  SÞÁ,  SSv,  UBK,  VBj,  ValG,  VigH,  VilÁ,  VilB,  ÞorS,  ÞórE,  ÖJ,  ÖS.
11 þm. (ÁPÁ,  ÁsF,  BjG,  GÞÞ,  GStein,  GBS,  HBK,  IllG,  PVB,  REÁ,  WÞÞ) fjarstaddir.
2 þm. gerðu svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[15:45]
Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að við séum að ná þessari sátt um þetta mál. Á síðasta þingi átti sá sem hér stendur sæti í umhverfis- og samgöngunefnd. Framsóknarflokkurinn vildi gera ákveðnar breytingar á málinu á sínum tíma til að ná um það víðtækri sátt. Það tókst ekki og þáverandi stjórnarmeirihluti var ekki tilbúinn til að ganga að því að öllu leyti. Ég bind vonir við að þetta geti í framhaldinu leitt til þess að hægt verði að ná sátt um málið. Ég held að það sé mögulegt, ekki bar mikið í milli á síðasta þingi. Vonandi sjáum við frumvarp koma í þingið sem lagt verður fram í fullri sátt allra aðila vegna þess að ekki ber mjög mikið í milli. Mál eins og þetta á að vera hægt að vinna í breiðri sátt.



[15:46]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég segi já. Ég vil nota tækifærið og þakka hv. umhverfis- og samgöngunefnd eins og margir hafa gert hér. Við erum hér að fresta gildistöku laganna enn frekar, frekar en að kalla þau til baka vegna þess að deilur standa meðal annars um almannarétt, sérstaka vernd og varúðarregluna. Þetta eru stóru tækin til að verja íslenska náttúru. Ef hin almenna sátt á að felast í því í framhaldinu að gefinn verði afsláttur frá þeim línum sem lagðar voru í þeim lögum sem við fjöllum um hér og þeim anda sem þar kemur fram lofa ég því, bæði forseta og meiri hlutanum, að enginn friður verður um sátt sem slíka og hún verður einhliða fyrir sérhagsmuni. (Gripið fram í: … svona jákvæð.)



 2. gr. samþ. með 47 shlj. atkv.

Brtt. í nál. 624,2 (ný fyrirsögn) samþ. með 49 shlj. atkv.

Frumvarpið gengur til 3. umr.