143. löggjafarþing — 82. fundur
 26. mars 2014.
náttúruvernd, frh. 3. umræðu.
stjfrv., 167. mál (brottfall laganna). — Þskj. 199 (með áorðn. breyt. á þskj. 624).

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[16:02]

Frv.  samþ. með 51 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ÁPÁ,  ÁsmD,  BÁ,  BirgJ,  BjÓ,  BSB,  BP,  BN,  EKG,  ElH,  ELA,  EyH,  GuðbH,  HarB,  HE,  HHG,  HHj,  HöskÞ,  JMS,  JónG,  JÞÓ,  KG,  KJak,  KaJúl,  KÞJ,  KLM,  LRM,  LínS,  OH,  ÓP,  PJP,  PHB,  REÁ,  RR,  SII,  SigrM,  SIJ,  SilG,  SJS,  SÞÁ,  SSv,  UBK,  VBj,  ValG,  VigH,  VilÁ,  VilB,  ÞorS,  ÞórE,  ÖJ,  ÖS.
12 þm. (ÁsF,  BjG,  BjarnB,  FSigurj,  GÞÞ,  GStein,  GBS,  HBK,  IllG,  PVB,  SDG,  WÞÞ) fjarstaddir.
6 þm. gerðu svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[15:55]
Elín Hirst (S):

Virðulegur forseti. Ég segi já við þessu frumvarpi og vil jafnframt geta þess að í mínum huga er þetta söguleg stund á Alþingi og sýnir hvernig meiri og minni hluti geta undir styrkri forustu unnið saman í málum sem þessum ef hugur fylgir máli. Ég hvet fólk til áframhaldandi starfa með þessum hætti og vil sérstaklega þakka formanni umhverfisnefndar fyrir starf hans í þessu máli.



[15:55]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Formanni umhverfisnefndar ætlar að verða seint fullþakkað úr þessum ræðustóli en það er rík ástæða til þess vegna þess að umhverfisnefnd hefur haft forustu um verklag sem er sannarlega eftirbreytnivert. Hæstv. umhverfisráðherra kom hér inn með þetta þingmál gersamlega ótækt, fullkomlega óboðlegt, og hreinan dónaskap. Að nefndin skyldi taka málið og finna á því þennan sáttaflöt er gott fordæmi um það með hvaða hætti bæta má úr þingmálum í meðferð á Alþingi. Það er sérstök ástæða til að hvetja utanríkismálanefnd, sem sannarlega hefur fengið annað fullkomlega óboðlegt þingmál hér inn, sem er afturköllun aðildarumsóknarinnar, til að feta í fótspor umhverfisnefndar og skapa sátt um niðurstöðu sem er í anda þess sem þjóðin vill í því máli. (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[15:57]
Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég segi já með mikilli gleði við þessu máli. Hins vegar er ljóst að hér er löng og ströng ferð á miðri leið. Náttúruverndarar hafa tekið slaginn utan húss og innan. Þeir höfundar hvítbókarinnar sem lögðu á sig mikla vinnu eiga þakkir skildar. Umhverfis- og samgöngunefnd síðasta kjörtímabils undir stjórn Marðar Árnasonar í þessu flókna máli lagði mikið af mörkum til að ná sátt.

Hv. núverandi umhverfis- og samgöngunefnd hefur unnið góða vinnu. Það er gríðarlega mikilvægt að þeim anda verði haldið áfram en ekki er síður mikilvægt fyrir okkur öll sem aðhyllumst náttúruvernd á Íslandi að vera vakandi fyrir því að það eru stríðsyfirlýsingar í gangi hér frá degi til dags.

Orkustofnun kemur hér fram með algjörlega fordæmalausar tillögur og leggur fyrir rammaáætlun 3 þar sem allt er í uppnámi. (Forseti hringir.) Það færi vel á því að sá andi (Forseti hringir.) sem verið hefur í umhverfis- og samgöngunefnd rataði inn til Orkustofnunar (Forseti hringir.) og í samskipti Orkustofnunar við verkefnisstjórn rammaáætlunar 3. (Gripið fram í.) (SII: Heyr, heyr.) [Kliður í þingsal.]



[15:58]
Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þó að við höfum náð þeirri niðurstöðu í nefndinni að vera sátt við verklagið skiptir mjög miklu máli að við náum að klára málið í sama anda, þ.e. að ráðherra hafi gott samráð við nefndina í vinnu hennar eins og hann hefur sagst ætla að gera og sömuleiðis að haft verði gott samráð þannig að niðurstaðan úr þessu verði raunveruleg sátt í stað þess að við förum í ferli þar sem sams konar vinnubrögð verða viðhöfð og menn viðhöfðu þegar þeir lögðu málið fram upphaflega.

Ég hef trú á því miðað við orð hæstv. umhverfisráðherra hér áðan að svo verði, en enn og aftur ætla ég að segja hér við afgreiðslu þessa máls: Enn eru málefni umhverfisins og auðlindanna í uppnámi m.a. vegna þess að menn hafa sett rammaáætlun og túlkun hennar inn í umræðuna með afar undarlegum hætti að mínu mati. Ég er ekki sátt við hvernig það hefur verið gert, enda var ég sú sem lagði hér fram og mælti fyrir frumvarpinu á sínum tíma. Ég tel að menn fari þar ekki rétt með það (Forseti hringir.) og fylgi ekki anda laganna. (Forseti hringir.)

Ég vona að það vinnulag sem við höfum sýnt (Forseti hringir.) í þessu máli verði einnig viðhaft til að ná sátt í því máli.



[16:00]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna þeirri samstöðu sem náðst hefur á vettvangi umhverfis- og samgöngunefndar um að hafa vit fyrir hæstv. ráðherra sem gekk fram af fáheyrðum fruntaskap með framlagningu þessa frumvarps. Eftir stendur hins vegar að mörg verk eru óunnin í náttúruvernd á Íslandi. Við sjáum hvernig ráðherrann hefur gengið fram varðandi afmörkun friðlands í Þjórsárverum, við sjáum afstöðu í anda Orkustofnunar og Landsvirkjunar til rammaáætlunar og hvernig þessir aðilar beita fyrir sig langsóttum lagatúlkunum til þess að viðhalda ófriði um umhverfismál í landinu. Það er mjög mikilvægt að við stöndum saman um það að efla friðinn að þessu leyti og að það verði raunverulega þannig að alvörusátt náist um vernd og nýtingu náttúruauðlinda.

Svo bíður það auðvitað annarrar þingnefndar, utanríkismálanefndar, að koma vitinu fyrir ráðherra þess fagsviðs og fá hann ofan af aðför að friðinum í samfélaginu sem hann hefur efnt til með fáheyrðri tillögu um afturköllun aðildarviðræðna við Evrópusambandið. (Forseti hringir.) Það skiptir miklu máli að þingnefndir standi nú í ístaðinu á þessum tímum gagnvart misvitrum ráðherrum.



[16:01]
Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka allt það hrós sem umhverfisnefnd hefur fengið (Gripið fram í.) vegna þess að við eigum þetta saman. Ég hef tekið eftir því í umræðunni að um leið og menn nota tækifærið til að hrósa nefndinni gera þeir lítið úr störfum einhverra annarra hér á Alþingi. Það þykir mér miður, ég verð að segja það alveg eins og er. Við verðum að virða vald hverrar nefndar fyrir sig til að taka öll þau mál sem eru á borðum hennar og leysa þau á farsælan hátt.

Þetta er ágætisfordæmi, ég veit það og við skulum vona að það gangi vel, en ég ætla að ítreka þessi sátt náðist í góðu samstarfi við umhverfisráðherra, í góðu samstarfi við hagsmunaaðila o.fl. Ég var svo pínu hugsi eftir ræðu hér þess þingmanns sem talaði á undan mér, hv. formanns Samfylkingarinnar, og velti fyrir mér hvort við ættum að kalla saman félag prestssona á Alþingi (Forseti hringir.) og ræða aðeins hvernig við eigum að ná betri sátt og málefnalegri umræðu um stór mál. [Hlátur í þingsal.] (Gripið fram í.)