143. löggjafarþing — 83. fundur
 27. mars 2014.
sérstök umræða.

afnám gjaldeyrishafta og samningar við erlenda kröfuhafa gömlu bankanna.

[14:11]
Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fyrir að bregðast skjótt við beiðni minni um sérstaka umræðu um þetta aðkallandi mál. Ég hafði raunar beðið hæstv. forsætisráðherra um að vera til andsvara í þessari umræðu, lagði fram beiðni um það í janúar, en fékk ekkert svar í margar vikur. Ég vildi ræða við hæstv. forsætisráðherra um þetta mál vegna þess að það er eitt stærsta hagstjórnarverkefni samtímans og hann er verkstjóri í ríkisstjórninni og hefur haft talsvert stór orð um þetta verkefni, bæði í aðdraganda kosningabaráttunnar, í kosningabaráttunni og eftir hana. En ólíkt hafast þeir að og ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir að bregðast skjótt við eftir að ég breytti beiðni minni þannig að hann yrði til andsvara.

Ég lít svo á, og við í Bjartri framtíð og örugglega mjög margir hér inni, að þetta sé eitt stærsta viðfangsefnið, ef ekki það stærsta í hagstjórn á Íslandi. Við búum ekki við frjálst, opið og alþjóðlegt markaðshagkerfi. Ég hvet ykkur til að hlusta hér á eftir á ræðu hv. þm. Brynhildar S. Björnsdóttur sem hefur rannsakað hvernig þessi höft koma t.d. við ný fyrirtæki, sprotafyrirtæki, á Íslandi. Eitthvað það mikilvægasta sem við stuðlum að í hagkerfi er að skapa grundvöll fyrir ný fyrirtæki, fyrir sprota að vaxa. Höftin koma allverulega niður á þeim þætti hagkerfisins.

Það hlýtur að vera eitt mesta aðkallandi viðfangsefni ríkisstjórnarinnar að losa höftin. En þar hafa menn ekki talað skýrt. Fyrsta spurning mín til hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra er einfaldlega þessi: Eftir hvaða áætlun er unnið að losun hafta á Íslandi?

Það berast alls konar misvísandi upplýsingar. Á flokksfundi síns flokks sagði hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra að verið væri að vinna eftir plani. Það plan hefur ekki verið þingmönnum augljóst. Í dag er haft eftir hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra að jafnvel komi til losunar hafta á þessu ári. Hvernig má það vera og hvaða áætlun er það? Það væri ágætt að heyra hvort rétt sé haft eftir hæstv. fjármálaráðherra, að minnsta kosti í Aftenposten, held ég.

Svo var að koma út skýrsla frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu um það hvernig gangi að losa höft. Eitt sem er mjög athyglisvert í þeirri skýrslu er að sú framtíðarsýn sem dregin er þar upp er að losun hafta verði ekki losun hafta heldur er í raun og veru lagt til að alls konar þættir haftanna fái einfaldlega ný nöfn. Þannig er gert er ráð fyrir, eins og ég skil skýrsluna og þá framtíðarsýn, að áfram verði gjald á fjármagnsflutninga úr landinu, takmörkun verði á heimild fyrir banka til að safna innstæðum erlendis og bann verði við gjaldeyrislánum til aðila sem hafa ekki tekjur í erlendri mynt.

Þetta er auðvitað, þegar safnast saman, innihald haftanna eins og þau eru núna. Þannig að ég vil spyrja hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra: Er þetta merking þess í hans huga að losa höftin, að breyta þeim bara í raun og veru?

Svo er þriðja spurningin sem lýtur að því sem ég tel vera rót vandans. Það er einfaldlega sá vandi að ekki ríkir traust á íslenska hagkerfinu. Þess vegna erum við með lög sem banna aðilum að fara með peninga úr landi. Hvernig á að byggja upp traust? Sú lykilspurning liggur til grundvallar þessum vanda. Þar hegg ég eftir einu í skýrslu fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Þar er sagt að hafið var samráð við Seðlabanka Evrópu, við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um samstarf við að afnema höftin á Íslandi. Ég held að það hafi verið býsna gott að hafa samráð við þessar mikilvægu stofnanir og okkar viðskiptaaðila til að mynda traust á þessu ferli.

Tekur hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra undir það með mér að það sé slæmt að þetta samráð sé ekki til staðar og það sé slæmt að hafa lokað þeim dyrum með því að hóta því núna að slíta aðildarviðræðum við Evrópusambandið?

Svo vil ég líka spyrja hann að því grundvallaratriði hvort hann hafi ekki áhyggjur af því, á þessum tímapunkti, sérstaklega eftir að skýrsla ráðuneytis hans kom út, að gjaldeyrishöftin í núverandi mynd eða í framtíðinni muni ekki standast samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. (Forseti hringir.) Hvað gera bændur þá?



[14:16]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er víða komið við í fyrirspurn málshefjanda og ég skal gera mitt besta til að svara sem mestu í fyrri ræðu minni og vísa til seinni ræðu með aðra hluti.

Unnið hefur verið eftir áætlun um afnám fjármagnshafta sem kynnt var í mars 2011 og miðaði fyrst og fremst að því að draga úr áhættu tengdri aflandskrónum. Hins vegar var ljóst þegar ný ríkisstjórn tók við að það þyrfti að uppfæra afnámsáætlun um losun fjármagnshafta þar sem hún tók ekki nægilegt tillit til stöðu slitabúanna og áhrifa þeirra á greiðslujöfnuðinn í framtíðinni. Vinna við að endurskoða áætlun um losun fjármagnshafta er í fullum gangi. Ekki er langt síðan Seðlabankinn skilaði af sér nýrri greiningu á greiðslujöfnuði við útlönd til að spá um það hvernig hann mundi þróast næstu árin. Yfirstjórn þess verkefnis er í höndum stýrinefndar um afnám fjármagnshafta undir forustu ráðherra fjármála- og efnahagsmála, þar undir er að störfum sérstök verkefnisstjórn. Þetta er svipað stjórnskipulag á málum og gilti í tíð síðustu ríkisstjórnar. En við höfum sett upp til hliðar við stýrinefndina sérstaka ráðgjafarnefnd, ráðgjafarhóp, og það eru þær breytingar á fyrirkomulaginu sem ég vísaði til þegar ég talaði fyrir skemmstu um það að við værum að vinna eftir nýju verklagi í þessum efnum.

Við höfum einnig haldið nokkra fundi með samráðsnefnd fulltrúa þingflokka til að halda öðrum þingflokkum upplýstum um stöðu mála. Vandi slitabúanna og möguleg neikvæð áhrif þeirra á stöðugleika í efnahagslífinu eru meðal helstu ástæðna þess að hægt hefur gengið að afnema fjármagnshöftin. Því er mjög brýnt fyrir Ísland að þetta mál leysist farsællega og erfitt að stíga nein stór skref í afnámi fyrr en málin skýrast.

Spurt er hvort ég telji raunhæft að leysa höftin á þessu ári. Ég bendi einfaldlega á að ef hægt er að samstilla væntingar þeirra sem hér eiga hagsmuni undir, þeirra sem eiga kröfur á þrotabúin, slitabúin sjálf og annarra þeirra sem að málum koma, sé ég ekkert í sjálfu sér tæknilegt, lagalegt eða annað hvað varðar það ferli sem þá þarf að taka við sem eigi að valda því eitt og sér að afnámsferlið taki mörg ár, en á meðan það gerist ekki dragast hlutirnir áfram.

Í því samhengi hef ég áður nefnt að til greina gæti komið að setja inn sólarlagsákvæði á slitameðferð til samræmis við það sem þekkist erlendis, til að mynda Dodd-Frank löggjöfin í Bandaríkjunum þar sem fallin fjármálafyrirtæki hafa tiltekinn tíma til að klára sína slitameðferð með ákveðnu framlengingarákvæði.

Ég hef áður sagt að skilyrði geti skapast til að aflétta fjármagnshöftum á tiltölulega skömmum tíma, en það á veltur mikið á slitabúunum. Fjármagnshöftin eru hins vegar í dag mjög íþyngjandi eins og komið var inn á fyrir innlenda aðila. Mér finnst að það ætti að skoða óháð úrlausn annarra mála hvort ekki mætti létta aðeins á höftunum gagnvart heimilunum og fyrirtækjum á Íslandi. Ég tel að hægt væri að stíga ákveðin skref í því efni án þess að heildarhagsmunum væri fórnað í málinu.

Varðandi samráð við erlenda aðila eru ráðuneyti fjármála- og efnahagsmála og Seðlabankinn í reglulegum samskiptum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, OECD og fleiri alþjóðastofnanir þar sem greiðslujöfnuður og fjármagnshöft á Íslandi eru meðal annars rædd. Ég tek undir það með málshefjanda að til að efla traust á ferlinu öllu skiptir máli að halda ytra umhverfinu upplýstu. Við erum háð því að njóta góðra kjara á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og skiptir máli að gott gegnsæi sé í ákvörðunum ríkisstjórnarinnar.

Ég hef ekki sérstakar áhyggjur af EES-samningnum í þessu samhengi þar sem í þeim samningi eru ákvæði sem heimila aðildarríki að grípa til ráðstafana til að hindra óvenjulegt fjárstreymi úr landi, en þar er kveðið á um ákveðnar varnaðaraðgerðir fyrir ríki sem eiga í örðugleikum með greiðslujöfnuð í viðskiptum við útlönd og eins ef hætta er á að slíkt ástand skapist. Nýjasta greining á greiðslujöfnuði þjóðarbúsins bendir eindregið til þess að slík skilyrði séu til staðar fyrir Ísland til þess að beita höftum enn um sinn.

Ég mun í síðari ræðu minni koma frekar inn á það hvað við getum gert til að efla traust á íslensku hagkerfi. Þar kemur margt til, margt sem við þurfum að gera alveg óháð höftunum, alveg óháð því að við erum að glíma við afnám haftanna og það hvernig við gerum á endanum upp við hin föllnu fjármálafyrirtæki og við aflandskrónuvandann. Þar held ég að við getum verið sammála um að við gætum gert talsvert betur og ýmsar aðgerðir eru í undirbúningi á vettvangi (Forseti hringir.) ríkisstjórnarinnar sem munu gagnast í því sambandi.



[14:21]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Sú ræða sem hæstv. fjármálaráðherra flutti hér um afnám hafta var staðfesting á því fullkomna ráðleysi sem ríkir hjá ríkisstjórninni í þessu mikla hagsmunamáli þjóðarinnar. Það er engin ný svör að finna. Sú ríkisstjórn sem boðaði að hún hefði algerlega nýjar lausnir við að létta af höftum kemur ekki með nein ný svör. Forsætisráðherra boðaði hér fyrir septemberlok nýja áætlun um afnám gjaldeyrishafta. Ekkert nýtt er að finna í skýrslunni sem fjármálaráðherra lagði fyrir þing 17. mars um framgang áætlunar um losun fjármagnshafta. Í henni er hins vegar að finna alvarleg tíðindi. Fjármálaráðherra setur þar fram, án athugasemda, hugmyndir Seðlabankans um viðvarandi hindranir á frjálsu flæði fjármagns sem þurfi að vera við lýði eftir að höftum er aflétt.

Þær fela í sér bann við gjaldeyrislánum til óvarinna aðila, fela í sér bindisskyldu eða sérstakt gjald á fjármagn sem er í eigu erlendra aðila. Allt eru þetta hindranir á frjálsu flæði fjármagns sem standast ekki EES-samninginn að óbreyttu.

Hæstv. fjármálaráðherra sagði vera heimildir í EES-samningnum til þess að grípa til tímabundinna varnaraðgerða. Það er alveg rétt. En það eru engar heimildir í samningnum til að viðhalda höftum um ófyrirséða framtíð.

Þess vegna er það svo alvarlegt að ríkisstjórnin, hafandi þessar staðreyndir fyrir framan sig, skuli ákveða á sama tíma að slíta aðildarviðræðum við Evrópusambandið og koma þannig í veg fyrir að hin raunverulega færa leiðin, sem er upptaka evru með aðild að Evrópusambandinu, sé könnuð til hlítar. Það eru alvarleg afglöp hæstv. fjármálaráðherra og ríkisstjórnarinnar að bera ekki þær upplýsingar sem eru í skýrslunni undir Eftirlitsstofnun EFTA, bera þær undir viðsemjendur okkar á vettvangi Evrópusambandsins og spyrja: Er mögulegt að við komumst upp með að halda (Forseti hringir.) viðskiptafrelsi, aðgangi að erlendum mörkuðum og íslenskri krónu í höftum til langframa? Það hefur ríkisstjórnin ekki gert (Forseti hringir.) og þar af leiðandi hefur hún brugðist hlutverki sínu.



[14:24]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir að taka þetta stóra mál enn einu sinni upp á þingi. Þar höfum við hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar ítrekað leitað upplýsinga.

Eins og hér hefur komið fram átti ný áætlun um afnám hafta að koma í september. Í október sagði hæstv. fjármálaráðherra að enn væri unnið eftir þeirri áætlun sem hefði verið í gildi en uppfærsla hennar væri sameiginlegt verkefni þeirra sem kæmu að málum. Í janúar kom fram hjá hæstv. fjármálaráðherra að unnið væri hörðum höndum að gerð áætlunar um hvernig ætti að komast á næsta stað í ferlinu. Í febrúar sagði hæstv. forsætisráðherra að afnámsáætlun yrði ekki birt, henni yrði haldið leynilegri. Um síðustu afnámsáætlun, sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sagði okkur núna að ríkisstjórnin ynni enn samkvæmt, áætlunin frá 2011 í janúar, sagði hæstv. forsætisráðherra að hún væri raunar byggð, og ég vitna í hæstv. forsætisráðherra, með leyfi forseta, „á algjörlega röngum forsendum.“(Gripið fram í.)

Það er því ekki nema von þegar maður rennir yfir þær ræður sem hafa verið fluttar um þessi mál, sem eru orðnar ófáar á þessu þingi, að maður fari virkilega að velta fyrir sér hvert nákvæmlega hæstv. ríkisstjórn stefni. Hér átti að liggja fyrir áætlun sem átti að byggjast m.a. á hugmyndum hæstv. forsætisráðherra. Enn er hins vegar unnið eftir áætlun frá 2011 sem samkvæmt þeim sjálfum byggir á algjörlega röngum forsendum. Ég segi ekki meir.

Ástæða þess að við erum sífellt að spyrja eftir þessu er að sá þverpólitíski samráðshópur sem hefur verið starfandi hefur ekki fengið mikið að vita, eftir því sem við fregnum. Ég vil bara vekja athygli á því að sá þverpólitíski hópur sem starfaði á síðasta kjörtímabili boðaði til að mynda formenn stjórnmálaflokkanna til fundar við sig og hann gerði meðal annars tillögur um aðgerðir og leiðir sem hægt væri að fara. En hlutverk þessa nýja þverpólitíska hóps er algjörlega óljóst. Ég verð að segja, bara miðað við þær upplýsingar sem ég skautaði yfir við lestur á hinni merku heimasíðu althingi.is, gefa til kynna (Forseti hringir.) að við vitum ekki alveg hvert við erum að fara í þessu máli.



[14:26]
Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegi forseti. Það eru hagsmunir allra að höftin verði losuð eins fljótt og hægt er, en það er ekki sama hvernig það er gert og það má ekki heldur kosta hvað sem er og það má ekki bitna á röngum aðilum. Við losun hafta þarf að taka hvert skerf að vandlega athuguðu máli og gæta ávallt að hagsmunum heimilanna og ríkisins. Krónueignir útlendinga eru ekki erlend skuld ríkissjóðs. Ríkissjóði ber engin skylda til að taka erlendan gjaldeyri að láni svo að erlendir krónueigendur geti fyrr skipt krónum sínum í gjaldeyri. Losun hafta má því ekki byggjast á skuldsetningu ríkisins í erlendri mynt.

Krónueignir sem útlendingar eiga eru ekki heldur erlendar skuldir íslenskra heimila. Losun hafta má því ekki byggjast á að heimilin eða fólkið í landinu herði sultaról næstu árin til að skapa sem mestan gjaldeyri, að þjóðin neiti sér um að kaupa erlendan varning og spara gjaldeyri svo útlendir krónueigendur geti hraðar breytt sínum krónum í gjaldeyri. Lausnin má ekki byggjast á því.

Það er mikill þrýstingur frá ýmsum hagsmunaaðilum að losa höftin sem fyrst, að það gerist strax, en hraðinn má ekki vera svo mikill að við setjum hagsmuni heimila og ríkissjóðs í hættu eða að skilið verði við hagkerfið í ójafnvægi.

Sem fulltrúi í samráðshópi þingflokka um lausn fjármagnshafta hef ég notað tækifærið til að koma þessum sjónarmiðum áleiðis til þeirra embættismanna sem vinna nú að farsælli lausn á þessu stóra vandamáli. Þekking á umfangi vandans og mögulegum lausnum á fjármagnshöftunum er nú meiri en áður og það eykur möguleika á að hægt sé að taka vandaðar ákvarðanir í þessu stóra máli. Það eru sameiginlegir hagsmunir allra, þjóðarinnar og erlendra krónueigenda, að leysa höftin eins fljótt og hægt er. Ég er vongóður um að það muni takast með farsælum hætti.



[14:28]
Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Það sem ég held að sé mikilvægast að ræða vegna afnáms haftanna, sem er það sem allir hér í þessum sal vilja, er það sem hv. þm. Guðmundur Steingrímsson benti á og alþjóð veit: Höftin eru það sem truflar atvinnuuppbyggingu og efnahagsuppbyggingu á Íslandi hvað mest.

Það er gríðarlega mikilvægt að við látum ekki þetta mál, afnám hafta, verða að pólitísku bitbeini og blöndum ekki öðrum málum í það. Hér þurfum við að standa saman. En þá er líka mikilvægt, eins og hv. þm. Katrín Jakobsdóttir benti á, að við fáum upplýsingar. Við í minni hlutanum verðum að vera mjög vel upplýst um þetta ferli. Þar hefur verið smábrotalöm á sem ég vona að stjórnarflokkarnir lagi þannig að við getum komið okkur saman um það hvar við stöndum, hvert við erum að fara og hvernig, þannig að við getum farið þangað saman.

Staðan eins og hún er hjá okkur í dag er sterk. Við höfum sterka stöðu. Þeir sem fara fyrir þrotabúunum vilja ekki fara gjaldþrotaleiðina en við getum þvingað það fram. Annars vegar með því að ríkið er kröfuhafi og það getur bara sagt: Ég vil fá kröfu mína borgaða. Það þýðir að það verður að slíta þessu. Hins vegar getum við farið lagaleiðina og sett sólarlagsákvæði, eins og hæstv. ráðherra Bjarni Benediktsson benti á, á það hversu langan tíma það má taka með slit á þrotabúum.

Við höfum sterka stöðu meðan við fylgjum íslenskum lögum og reglum sem kveða á um að við getum gert þetta og það eigi að greiða út í íslenskum krónum. Það þýðir að við fáum gjaldeyrisforða á móti. Reglurnar segja einnig að við eigum að gæta jafnræðis við allra aðila sem þýðir að við gerum ekki sérsamninga við kröfuhafa, ekki frekar en við gerum það við einstakan borgara. Og við fylgjum því líka (Forseti hringir.) að nýta markaðstækin til þess að leysa málin. Ef við fylgjum þeim reglum og stöndum saman getur alþjóðasamfélagið ekki álasað okkur (Forseti hringir.) fyrir það og staða okkar er áfram að vera sterk og við getum leyst þetta farsællega og hratt.



[14:31]
Brynhildur S. Björnsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra lét nýlega þau orð falla í viðtali við Aftenposten í Noregi, með leyfi forseta: „að engin vandamál væru fyrir fjárfesta að koma til Íslands í dag, en huglæg áhrif haftanna væru veruleg.“

Að gefnu tilefni langar mig að veita hæstv. ráðherra örlitla innsýn í raunveruleika íslenskra sprotafyrirtækja.

Rannsóknir á atvinnusköpun hafa sýnt fram á að ein mikilvægustu hjól atvinnusköpunar eru ört vaxandi sprotafyrirtæki. Vegna tregðu erlendra fjárfesta við að koma að innlendri fjárfestingu hafa sprotar í síauknum mæli þurft að flytja hluta starfsemi sinnar til útlanda. Þótt leyfi fáist yfirleitt er mikil óvissa um hve langan tíma það tekur, auk þess sem það er alltaf með erfiðum skilyrðum. Vandinn er sá að Seðlabankinn gerir engan greinarmun á umsóknum eftir stærð fyrirtækja, hvað þá um hvers konar upphæðir er að ræða. Þar að auki er ferlið allt of tímafrekt og þar af leiðandi kostnaðarsamt.

Seðlabankinn gefur sér að lágmarki átta vikur í undanþáguferlið, en flest dæmi spanna marga mánuði. Sem dæmi tók það sprotafyrirtækið Klöru marga mánuði að fá að stofna dótturfélag í Bandaríkjunum og lögfræðikostnaðurinn við að millifæra einn bandaríkjadal var 750 þús. kr.

Annað nýlegt dæmi er fyrirtækið Skema sem hæstv. iðnaðarmálaráðherra veitti nýverið verðlaunin „Skapandi ungir frumkvöðlar“. Til að fara hratt yfir sögu sótti Skema um undanþágu til að stofna móðurfélag í Bandaríkjunum og flytja 75,6 dollara út. Undanþáguferlið tók átta mánuði og kostaði félagið 1 milljón kr. í lögfræðikostnað.

Að lokinni undanþágu og þar af leiðandi að fengnu leyfi til að lána erlendan gjaldmiðil á milli samsteypunnar kom í ljós að til þess að það væri hægt þurfti íslenska dótturfélagið að eiga til erlendan gjaldmiðil á íslenska bankareikningi sínum. Vitanlega átti það hann ekki til og þurfti því aftur sækja um undanþágu til að kaupa 14,5 dollara og færa 0,9 dollara yfir í erlent félag. Það ferli er enn í gangi, með ófyrirséðum kostnaði og tíma.

Mig langar að spyrja: Hvað finnst hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra um þetta? Eru þetta huglæg áhrif haftanna eða raunverulegur vandi sem við getum verið sammála um (Forseti hringir.) að þurfi alla vega að mæta algjörum forgangi hæstv. ríkisstjórnar og það strax?



[14:33]
Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Það er þyngra en tárum taki að eftir 70 ára baráttu frá stríðslokum skuli Ísland sitja í gjaldeyrishöftum. Þegar styrjöld lauk var gert ráð fyrir því að þjóðir heims gætu siglt inn í skiptanleika gjaldmiðla. Það náðist með takmörkuðum hætti um 1990, en við erum aftur í sömu stöðu og eftir stríð.

Þversögnin í þessu er sú að hér inni eru eignir sem tilheyra einkageiranum og eru ekki skiptanlegar, þ.e. það er ekki til gjaldeyriseign til þess að færa út án þess að fjármálastöðugleiki sé í hættu. Það er algerlega óásættanlegt.

Ég verð að segja eins og er að það sem hér hefur verið gert hefur gengið misjafnlega og geðjast mér misjafnlega. Til dæmis fjárfestingarleiðin, sem svo er nefnd, tvöfalt gengi, hún misbýður náttúrlega fólki. Það er skráð gengi en aðilar geta komið hér inn á allt öðru gengi. Þetta gerist helst í þeim löndum sem við viljum ekki bera okkur saman við og er algjörlega óásættanlegt. Það þarf að stefna að losun fyrr eða síðar og þegar litið er til þess hvernig hún verður þarf að horfa á snjóhengjuna og vandamál ríkissjóðs svokallað, það sem stendur eftir af vaxtamunarviðskiptum. Sömuleiðis tel ég að staða lífeyrissjóða sé að verða býsna hættuleg þar sem þar safnast upp innlendar eignir.

Virðulegi forseti. Tíma mínum er lokið. Ég á mikið eftir af ræðu minni og flyt hana kannski (Forseti hringir.) síðar í öðrum þætti.



[14:35]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Þessi umræða hefur skýrt ýmislegt. Hún hefur í fyrsta lagi skýrt það að staða okkar er sterk vegna lagabreytinga sem síðasta ríkisstjórn stóð fyrir, gegn atkvæðum Sjálfstæðisflokksins, þegar slitabúin voru felld undir höftin og erlendar eignir þeirra. Hún er líka sterk vegna góðrar áætlunar um afnám gjaldeyrishafta og ný skýrsla fjármálaráðherra frá 17. mars er eintóm lofgjörð um árangurinn frá því í mars 2011. Það þarf hins vegar að gera betur.

Hv. þm. Jón Þór Ólafsson lagði hér áðan fram þá frómu ósk að við mundum standa saman í þessu máli og það yrði ekki að pólitísku bitbeini. Því miður er það borin von vegna þess að það eru hagsmunaaðilar sem hafa hag af áframhaldandi höftum. Eftir því sem höft standa lengur er það bæði gömul saga og ný að þeim fjölgar sem hafa hagsmuni af óbreyttu ástandi. Þeir munu berjast með kjafti og klóm gegn afnámi hafta.

Þess vegna skiptir svo miklu máli að átta sig á tjóninu sem af höftunum hlýst og hversu mikilvægt það er fyrir þjóðarhag að létta þeim af.

Grundvallarveikleikinn sem við stöndum frammi fyrir núna er ráðleysi ríkisstjórnarinnar um hvað taki við af höftum afléttum, hvaða peningamálastefna taki við. Ég verð ekki var við þá stefnu og hlýt að ítreka fyrirspurn mína til hæstv. fjármálaráðherra: Horfist hann í augu við það mat Seðlabanka Íslands að íslenskri krónu fylgja óhjákvæmilega einhvers konar höft til langframa, að afléttum gjaldeyrishöftum? Ef svo er, af hverju í ósköpunum er hann ekki búinn að efna starfsskyldur sínar með því að fara til viðsemjenda okkar á vettvangi Evrópska efnahagssvæðisins og ræða við þá um hvort slík langvarandi höft séu möguleg og innan hvers ramma það er áður, en hann lét sér detta í hug að elta Framsóknarflokkinn í þeirri (Forseti hringir.) ömurlegu skógarför sem þeir hafa nú lagt af stað í, með það að markmiði að slíta aðildarviðræðum við Evrópusambandið?



[14:38]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Fáum blandast hugur um að afnám hafta á fjármagnsflutninga er meðal mikilvægustu en jafnframt vandasömustu viðfangsefna stjórnvalda. Gjaldeyrishöftin eru í sjálfu sér merki um vandkvæði sem ekki er unnt að takast á við nema með hömlum og þvingunaraðgerðum. Þau lýsa áberandi veikleika í íslenskum efnahagsmálum og vanmætti í hagstjórn. Þau vekja vantrú á því að hér sé hægt að stunda eðlileg viðskipti og þau bjóða heim hættu á mismunun, spillingu og braski.

Undir lok kosningabaráttunnar síðasta vor létu forustumenn ríkisstjórnarinnar í veðri vaka að þess gæti verið skammt að bíða að gjaldeyrishöft yrðu leyst. En fljótlega eftir að ríkisstjórnin hafði tekið við völdum varð ljóst að raunin yrði önnur. Um það bil mánuði eftir kosningar hafði það runnið upp fyrir hæstv. forsætisráðherra að ekki yrði hróflað við höftum nema áður lægi fyrir hver stefna þrotabúa bankanna væri. Á einum mánuði hafði verkefnið sem áður lá ljóst fyrir orðið flókið og jafnframt háð aðgerðum og stefnu þeirra sem fara með málefni þrotabúanna.

Ríkisstjórnin viðurkennir í stefnuyfirlýsingu sinni frá síðasta vori þar sem segir, með leyfi forseta:

„Eitt mikilvægasta verkefni ríkisstjórnarinnar verður að vinna að afnámi fjármagnshafta en gjaldeyrishöftin bjaga eignaverð og draga úr samkeppnishæfi þjóðarinnar.“

Það er út af fyrir sig traustvekjandi að sjá að forkólfar hæstv. ríkisstjórnar gera sér grein fyrir skaðsemi gjaldeyrishaftanna, en það sem við blasir þegar litið er yfir vegferð hennar það tæpa ár sem liðið er frá því að stefnuyfirlýsingin var fest á blað er í raun ekki ýkja traustvekjandi. Gjaldeyrishöftin eru enn við lýði eins og þau voru þegar stefnuyfirlýsingin var samin og ekkert gefur til kynna að þau séu á förum á næstunni.

Eitt mikilvægasta verkefni ríkisstjórnarinnar er því hreint út í sömu sporum og fyrir tæpu ári. Forustumenn stjórnarflokkanna, hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra, hafa vissulega sagt ýmislegt um málefnið á starfstíma ríkisstjórnarinnar en því miður hafa ummæli þeirra verið svo misvísandi og sundurlaus að þar grillir hvorki í trúverðuga stefnu né verkáætlun í því mikilvæga verkefni sem afnám gjaldeyrishafta er.



[14:40]
Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Afnám hafta er vissulega aðkallandi mál og vil ég þakka hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni fyrir að taka það upp hér við hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra og þingið.

Virðulegi forseti. Afnám hafta og umræðan um eftir hvaða plani, hvaða áætlun er unnið hefur margoft komið fram í máli hæstv. ráðherra, bæði fjármála- og efnahagsráðherra og reyndar líka hæstv. forsætisráðherra, að það þjóni ekki tilgangi sínum að opinbera þá áætlun. Ég vil taka undir það. Það væri beinlínis óskynsamlegt að afhenda leikáætlunina. Það gefur nánast augaleið. Mætti ætla að það mundi frekar gagnast andstæðingunum, ef við leyfum okkur að nota þá samlíkingu. Kannski má segja að það sé ekki sanngjarnt að stilla þessu þannig upp vegna þess að þegar dagurinn er á enda eru það sameiginlegir hagsmunir beggja að leysa þessa stöðu.

Mikilvægast er að vinna að afnámi hafta með aðgerðum, en vissulega blandast þar inn í einhvers konar viðræður til samninga sem grundvallast á sameiginlegum hagsmunum. Er þá væntanlega um að ræða kröfuhafa gömlu bankanna og slitastjórnir þeirra og aðra fulltrúa fjárfesta sem eiga krónueignir.

Það hefur hins vegar ítrekað komið fram hjá hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra að unnið er markvisst eftir áætlun um losun haftanna og mikilvægur hluti af því er vinna samráðshóps og stýrinefndar og Seðlabanka Íslands að líkani sem nýtist við áætlun um mat á greiðslujöfnun.



[14:42]
Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Að sjálfsögðu er þetta mál pólitískt. Ég var ekki að segja annað í fyrri ræðu minni. Það er pólitískt ef við bara horfum á það að ef Sjálfstæðisflokknum tekst ekki að afnema höft er það gríðarlegur ósigur fyrir það málefni sem þeir vilja standa framast í, kenna sig við og hafa forskot að verja; að vera með góða efnahagsstjórn. Það er það sem þeirra kjósendur horfa til. Þannig að sjálfsögðu er málið pólitískt.

En við getum ekki eða ættum ekki, sér í lagi ekki ef við viljum hraða farsælu afnámi hafta, að láta málið verða að pólitísku bitbeini eða reyna að tefja eða skemma eða á einhvern hátt þvælast fyrir því ferli með því að nota það í eitthvert pólitískt stríð. Það eigum við ekki að gera.

Þeir sem vilja hratt og farsælt afnám hafta ættu að koma að þessu borði, krefjast meiri upplýsinga frá stjórnarherrunum, frá þeim sem stýra þessu ferli, og taka þátt, en ekki reyna að bregða fæti fyrir það.



[14:44]
Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Þessi umræða er búin að vera nokkuð fróðleg. Ályktunin sem ég dreg er að það er ekkert plan. Það eru ýmsar pælingar í gangi eins og um að beita sólarlagsákvæðum á slit þrotabúanna og að veita innlendum heimilum og fyrirtækjum hugsanlega einhvers konar undanþágu frá höftunum. Þetta eru pælingar, ekki hluti af heildstæðu plani.

Ég vara eindregið við hugmyndum um að hafa einhvers konar leynilegt plan. Ég verð að spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé eitthvert leynilegt plan til, hann getur þá alla vega sagt okkur það. Ég vara eindregið við því. Haftaumhverfi er gróðrarstía spillingar og óréttlætis. Við hljótum að vilja búa í þannig opnu samfélagi að allar áætlanir um svona stór og mikilvæg mál séu fyrirliggjandi og gagnsæjar.

Mér finnst spurningum ósvarað. Ég tel að það sé gott plan að halda dyrunum opnum í aðildarviðræðum við Evrópusambandið og vinna að lausn haftanna í samvinnu við Seðlabanka Evrópu. Það var byrjað á því en hefur verið hætt. Fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, Þorsteinn Pálsson, hefur t.d. kallað það einhvern stærsta skaðann sem hlotist hefur af Evrópustefnu ríkisstjórnarinnar, í grein um síðustu helgi.

Ég þarf líka að fá svör við þeim spurningum hvort hæstv. ráðherra telji það samrýmast EES-samningnum til langs tíma að höft verða í þeirri mynd sem skýrsla ráðuneytis hans boðar í framtíðinni. Það eru ekki tímabundin höft að mínu viti.

Svo verð ég að spyrja út í eitt að lokum. Þetta eru fjölmargar spurningar, vissulega, en um stórt mál.

Talað var um það af hálfu hæstv. forsætisráðherra, og að ég hygg hæstv. fjármálaráðherra líka, í aðdraganda kosninga að núna væri tækifæri, einstakt tækifæri til að semja við kröfuhafa þrotabúanna. Þar mundi hugsanlega liggja mikið (Forseti hringir.) svigrúm. Síðan hefur ekkert heyrst af þeim samningaviðræðum. (Forseti hringir.) Ég skildi aldrei almennilega þetta tal. En mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Var það innan tómt?



[14:46]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu sem hefur á köflum verið ágæt. Sumt sem sagt hefur verið stenst ekki skoðun. Í fyrsta lagi: Ríkisstjórnin er með það sem eitt af sínum forgangsmálum að vinna að afnámi hafta. Þeir sem hafa komið hér upp og segja að það gangi ekki nægilega hratt eða vilja láta málið ganga eftir einhverjum öðrum leiðum hafa fæstir hugmyndir um það hvernig ætti að gera þetta öðruvísi. Ég hef bent á það að í fyrri áætlun um losun afnáms hafta hafi ekki verið tekið tillit nema til hluta vandans. Ég hef líka greint frá því að við höfum haft hóp sérfræðinga að störfum sem hefur verið að greina fyrir ríkisstjórnina og Seðlabankann sérstaklega hvaða kraftar eru að verki í þrotabúunum, hjá þeim sem eiga aflandskrónur, hjá þeim sem skulda í erlendum gjaldmiðlum og öðrum, sem hafa þau áhrif að greiðslujafnaðarspáin fyrir framtíðina lítur ekki betur út en raun ber vitni.

Við erum líka núna í fyrsta skipti komin með uppfærða greiðslujafnaðaráætlun til framtíðar. Þetta eru hlutir sem menn verða að hafa til þess að geta tekið af einhverri skynsemi, með einhverjum málefnalegum hætti, afstöðu til beiðna um undanþágu frá höftunum.

Varðandi undanþágur frá höftunum þá er það hlutverk slitastjórna og kröfuhafa bankanna að leita eftir nauðasamningum um uppgjör þeirra sín í milli. Hvorki Seðlabankinn né stjórnvöld ætla að hafa þar beina aðkomu. Slitabúin eru innlend fyrirtæki. Þau starfa í fjármagnshöftum. Vilji þau losna undan byrðum haftanna þurfa þau eins og aðrir innlendir aðilar að tryggja að þær undanþágur sem þau sækjast eftir hafi ekki neikvæð áhrif á þjóðarbúið og þar með þá sem eftir sitja. Lok nauðasamninga og veiting undanþágna frá fjármagnshöftum strandar því fyrst og fremst á þessum félögum sjálfum.

Ríkisstjórnin ætlar ekki að skipta á skjótri lausn og stöðugleika. Við erum að verja stöðugleika í íslensku efnahagslífi. Við erum að verja heimilin, atvinnulífið, ríkissjóð, sveitarfélög og aðra sem starfa í þessu hagkerfi með því að fara gætilega, (Forseti hringir.) með því að ana ekki fram án þess að hafa öll gögn, allar upplýsingar og greiningar á stöðunni í höndunum. (Forseti hringir.) Þetta er ástæðan fyrir því að ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á breytt verklag. (Forseti hringir.) Við höfum núna gögnin. Við erum í mun betri stöðu en áður til þess að taka afstöðu til málsins og byggja aðgerðir til framtíðar (Forseti hringir.) á þeim upplýsingum.