143. löggjafarþing — 84. fundur
 31. mars 2014.
atvinnumál.
fsp. SJS, 387. mál. — Þskj. 708.

[16:56]
Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Það vakti athygli mína á dögunum þegar ég var að leita mér gagna og lenti inn á heimasíðu Stjórnarráðsins og fór að skoða lista yfir ráðherranefndir og starfshópa sem þar er að finna, að engin af ráðherranefndum eða ráðgjafarnefndum hæstv. ríkisstjórnar fjallar um atvinnumál. Á síðasta kjörtímabili var ráðherranefnd um atvinnumál ein allra virkasta ráðherranefndin eðli málsins samkvæmt og mikil verkefni lögð í hennar hendur. Hún hafði veg og vanda af því að undirbúa fjárfestingaráætlun, hún var samstarfstæki ríkisstjórnar við aðila vinnumarkaðarins um margar mikilvægar vinnumarkaðsaðgerðir og úrræði, svo sem eins og að greiða götu ungs fólk inn í skólana á þeim erfiðu tímum sem við vorum að ganga í gegnum. Ég hygg að ráðherranefnd um atvinnumál hafi væntanlega slagað upp í ráðherranefndir um ríkisfjármál og efnahagsmál hvað varðar tíðni funda.

Þessu er öðruvísi hagað hjá núverandi hæstv. ríkisstjórn. Ég vil gjarnan gefa hæstv. forsætisráðherra tækifæri til að útskýra fyrir okkur af hverju hæstv. ríkisstjórn — hafandi þó skipað a.m.k. sex ráðherranefndir og allt í besta lagi með það, þ.e. ráðherranefnd um efnahagsmál, ráðherranefnd um jafnréttismál, ráðherranefnd um lýðheilsumál, ráðherranefnd um málefni norðurslóða, ráðherranefnd um ríkisfjármál og ráðherranefnd um úrlausnir í skuldamálum heimila. Þar til viðbótar starfa einar tvær sérstakar ráðgjafarnefndir, það eru ráðgjafarnefnd um opinberar eftirlitsreglur og ráðgjafarnefnd um eftirlit á vegum hins opinbera og framkvæmd laga nr. 27/1999, um opinberar eftirlitsreglur, fyrir utan auðvitað alls konar starfshópa og samhæfingarhópa, nefndir o.s.frv.

Á þessum alllanga lista sem ég prentaði út áðan, af öllum þessum stofnunum, nefndum, hópum og ráðum hjá hæstv. ríkisstjórn og í forsætisráðuneytinu, er engin nefnd sem fjallar um atvinnumál. Að vísu er minnst á samráðsvettvang um aukna hagsæld, en að öðru leyti koma þær ekki þarna við sögu.

Þetta vekur nokkra undrun mína. Því hef ég leyft mér að spyrja hæstv. forsætisráðherra hverju það ráðslag sæti að þrátt fyrir fjölda ráðherranefnda, ráðgjafarnefnda og starfshópa á vegum hæstv. ríkisstjórnar virðist enginn sérstakur vettvangur hafa verið myndaður um atvinnumál.

Þá í leiðinni vil ég gjarnan inna hæstv. forsætisráðherra, svona fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og væntanlega sem verkstjóra hennar, eftir því hvað líði vinnu við mótun heildstæðrar atvinnustefnu, sem lögð var talsverð vinna í á síðari hluta síðasta kjörtímabils með mikilli þátttöku samtaka, stofnana og í (Forseti hringir.) mjög víðtæku grasrótarsamstarfi og meiningin var að ætti að geta litið dagsins ljós undir lok ársins 2013 eða á fyrstu mánuðum þessa árs. Hvar er sú vinna á vegi stödd?



[16:59]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir tækifæri til að gera stuttlega grein fyrir vinnu ríkisstjórnarinnar að atvinnumálum.

Uppbygging atvinnulífs er eitt af meginverkefnum nýrrar ríkisstjórnar. Atvinnumál eru því áhersluatriði í nánast öllu starfi hennar. Ég skal nefna nokkur dæmi.

Atvinnumál eru efnahagsmál og koma sem slík reglulega til umfjöllunar í ráðherranefnd um efnahagsmál. Ríkisfjármál verða ekki krufin til mergjar nema atvinnumál liggi til grundvallar og sem slík koma þau reglulega til umfjöllunar í ráðherranefnd um ríkisfjármál. Atvinnumál til framtíðar litið er stór hluti norðurslóðamálefna sem nú eru mjög til umræðu og koma sem slík til umfjöllunar í ráðherranefnd um málefni norðurslóða. Þá er starfandi í landinu sérstakt ráðuneyti atvinnumála, eins og fyrirspyrjanda ætti að vera vel kunnugt, þar sem fjallað er um atvinnumál og þau rædd, bæði á breiðum grunni og afmörkuðum sviðum og tveir ráðherrar sem þar starfa bera atvinnumálin reglulega upp í ríkisstjórn eins og vera ber. Og áfram mætti telja.

Eitt meginhlutverk Vísinda- og tækniráðs er að auka samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs og ég hef beitt mér fyrir eflingu þess starfs meðal annars með myndun formlegs samstarfshóps þeirra aðila sem að ráðinu koma til að stuðla að markvissari undirbúningi funda ráðsins og til að framfylgja betur en verið hefur þeirri stefnu sem ráðið mótar. Þá eru atvinnumál þungamiðjan í starfi samráðsvettvangs um aukna hagsæld þar sem fulltrúar fjölmargra aðila koma saman, m.a. aðilar vinnumarkaðarins og fulltrúar viðskiptalífsins, þar fyrir utan er fjöldi óformlegra hópa starfandi á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins þar sem unnið er að endurskoðun löggjafar og verklags er snerta atvinnumál. Það ráðuneyti á í reglulegum samskiptum við hagsmunaaðila í atvinnulífinu hvað varðar starfsumhverfi og stefnumótun á ýmsum sviðum.

Almennt telur atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið mikilvægt að nýta þá samstarfsvettvanga sem fyrir hendi eru, svo sem Vísinda- og tækniráð, hátækni- og sprotavettvang í samstarfi við Samtök iðnaðarins, samráðsvettvang um aukna hagsæld, auk þeirra fjölda hópa, samtaka og samráðsvettvanga sem starfandi eru til eflingar atvinnulífi. Ráðuneytið leggur ríka áherslu á uppbyggilegt samtal þvert á atvinnugreinar. Það er ekki markmið ríkisstjórnarinnar í sjálfu sér að setja á fót fjölda nefnda og starfshópa þó að það kunni að vera nauðsynlegt til að vinna að umfangsmiklum og flóknum verkefnum.

Það má þó nefna nokkra starfshópa á sviði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Starfshópur um hagnýtingu internetsins í þágu nýsköpunar og atvinnuþróunar, sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra skipaði þann 15. febrúar síðastliðinn, hafði það hlutverk að koma með tillögur um hvernig við best nýttum þau tækifæri sem internetið gefur okkur til efnahagslegra og samfélagslegra framfara, þar með talið að sjálfsögðu atvinnusköpunar. Hópurinn hefur skilað tillögunum og greinargerð til ráðherra. Samstarfshópur um einföldun regluverks í ferðaþjónustu var settur á laggirnar undir forustu Ferðamálastofu. Markmið hópsins er að einfalda regluverk í kringum ferðaþjónustu.

Þá leggur óformlegur samstarfshópur um mótun klasastefnu drög að landsáætlun á sviði klasa sem tilbúin verður með haustinu. Í samstarfinu taka þátt ráðuneyti, stofnanir og níu klasar víða um land. Fleira mætti vissulega nefna, en framangreint ætti að duga til að upplýsa að vettvangur umræðu um atvinnumál í íslenska stjórnkerfinu er fjölbreyttur en ekki enginn, eins og fyrirspyrjandi virðist telja.

Vinna við mótun nýsköpunar og atvinnustefnu er í fullum gangi. Frumdrög stefnunnar hafa verið kynnt fyrir helstu samstarfs- og hagsmunaaðilum og kallað hefur verið eftir umsögnum áður en til opinnar kynningar kemur. Ráðuneytið vinnur nú að endurbættum drögum stefnunnar þar sem tillit er tekið til þeirra ábendinga sem borist hafa. Fyrirhugað er að kynna drög til opinnar umsagnar á heimasíðu ráðuneytisins á næstu vikum. Þar gefst bæði þátttakendum í stefnumótunarferlinu og almenningi tækifæri til að koma á framfæri athugasemdum og ábendingum áður en endanleg útgáfa stefnunnar verður kynnt. Það verður því ekki annað sagt en að hjá ríkisstjórninni sé mikil áhersla á eflingu atvinnulífs og atvinnumálin yfirleitt. Sú mikla áhersla virðist nú þegar vera farin að skila árangri, frá því ríkisstjórnin tók við hafa nettó orðið til um 4 þús. ný störf.



[17:05]
Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Hæstv. forsætisráðherra nefndi hóp sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra skipaði um hagnýtingu internetsins í þágu nýsköpunar- og atvinnuþróunar. Okkur var falið það verkefni og við skiluðum tillögum hópsins af okkur 15. mars. Hópurinn átti að gera tillögur til ráðherra um úrbætur á þessu sviði og tillögurnar og greinargerðin verða birt opinberlega á vef ráðuneytisins á morgun. Þetta var virkilega gott og skemmtilegt starf. Þarna komu aðilar sem þurftu að koma að borðinu til þess að boltinn færi að rúlla. Það er fullt af góðum tillögum og við völdum þær með því tilliti að þetta væri atriði sem væri hægt að taka ákvörðun um á lágu stjórnsýslustigi og fara strax í það svo að boltinn færi að rúlla.

Í kjölfarið mun ég leggja fram þingsályktunartillögu í dag um að skipaður skuli starfshópur til lengri tíma sem tekur við boltanum frá iðnaðar- og viðskiptaráðherra og vinnur vinnuna áfram, (Forseti hringir.) eins og skýrslu McKinsey og Boston Consulting Group. Það þarf að vinna vinnuna samfellt, það þarf alltaf að vera að uppfæra lögin (Forseti hringir.) til þess að skapa kjörlendi fyrir hagnýtingu internetsins og vernd notenda.



[17:06]
Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Mér finnst hæstv. forsætisráðherra fullbrattur að slá eign sinni og ríkisstjórnar sinnar á þó það sem jákvætt hefur verið að gerast í efnahagsmálum á Íslandi undanfarin ár. Veruleikinn er auðvitað sá að hæstv. ríkisstjórn fékk í arf mun kraftmeiri bata í hagkerfinu en menn höfðu áttað sig á, samanber ágæta útkomu á árinu 2013 í heild (Gripið fram í.)sem og að meðaltali 2,5% hagvöxt síðastliðin þrjú ár; 2011, 2012 og 2013 er að meðaltali rúmlega 2,5% hagvöxtur á Íslandi. Það byrjaði ekki í maímánuði síðastliðnum, hæstv. forsætisráðherra.

Í öðru lagi fagna ég því að vinna að heildstæðri nýsköpunar- og atvinnustefnu skuli vera í fullum gangi, það eru góðar fréttir. Mér finnst gott að heyra að von sé á því að eitthvað fari að birtast í þeim efnum. Í þriðja lagi þakka ég hæstv. forsætisráðherra fyrir ágæta upptalningu. Þetta var ágætisupptalning og minnir okkur á að það er til vísinda- og tækniráð og margir „instansar“. Ég hugsa að þeir hafi að vísu verið svolítið súrir með þann mikla niðurskurð á fjárveitingum til samkeppnissjóða sem þeir fengu í andlitið frá nýrri ríkisstjórn. Mér fannst ég ekki alveg fá skýr svör við því hvers vegna atvinnumálin verðskulda ekki ráðherranefnd úr því að þær eru á annað borð þetta margar hjá hæstv. ríkisstjórn, ein sex, sjö stykki. En gott og vel. Að sjálfsögðu er manni létt við að fá það staðfest að ríkisstjórnin hefur ekki gleymt atvinnumálunum þó að þetta takist svona til eða hún hafi valið sér það verklag að hafa ekki samræmingarvettvang innan Stjórnarráðsins eða ríkisstjórnanna sem slíkra um atvinnumál. Ég mundi í allri vinsemd mæla með því við hæstv. forsætisráðherra að hann velti því fyrir sér. Eins ágætt og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið er og tvímenningarnir þar, held ég að það sé afturför að sumu leyti að gera ekki atvinnumálunum (Forseti hringir.) hátt undir höfði með því að ein af nokkrum ráðherranefndum hæstv. ríkisstjórnar fjalli um atvinnumál.



[17:08]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni almennt tiltölulega jákvæð viðbrögð og ítreka það sem ég nefndi áðan, atvinnumálin eru auðvitað allt um kring í vinnu þessarar ríkisstjórnar og koma við sögu í fjölmörgum starfshópum og nefndum.

Jafnframt bendi ég hv. þingmanni á að kynna sér þann mikla viðsnúning sem hefur orðið í efnahagslífinu í atvinnumálum og efnahagslífinu almennt frá því að ný ríkisstjórn tók við. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður benti á að viðsnúningur varð ekki akkúrat í maímánuði heldur að nokkrum mánuðum liðnum, seinni hluta árs, sérstaklega síðasta ársfjórðung ársins 2013. Þegar stefna nýrrar ríkisstjórnar var farin að hafa áhrif og menn höfðu öðlast töluverða og réttmæta trú á framtíðaruppbyggingu atvinnumála og efnahagslífsins tók hagvöxtur óvænt rækilega við sér og aðrir efnahagslegir mælikvarðar hafa síðan verið að færast mjög í rétta átt.