143. löggjafarþing — 86. fundur
 1. apríl 2014.
efling tónlistarnáms, 1. umræða.
stjfrv., 414. mál (nám óháð búsetu). — Þskj. 751.

[14:09]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna framlengingar á gildistíma samkomulags milli ríkis og sveitarfélaga um eflingu tónlistarnáms. Á árinu 2014 veitir ríkissjóður framlag að fjárhæð 520 millj. kr. til tónlistarkennslu á vegum sveitarfélaga. Á móti taka sveitarfélög tímabundið yfir verkefni frá ríki sem nema 230 millj. kr. á ársgrunni.

Í frumvarpinu er lagður lagagrundvöllur að framhaldi tímabundinnar tilfærslu eftirfarandi verkefna frá ríki til sveitarfélaga á árinu 2014 í samræmi við viðauka við samkomulag ríkis og sveitarfélaga um tímabundna breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga frá 5. október 2011, en viðaukinn var undirritaður 5. mars 2014. Þá er hér upp talið:

1. Fjármögnun endurmenntunarsjóðs grunnskóla, samanber ákvæði til bráðabirgða II við lög um grunnskóla, nr. 91/2008.

2. Fjármögnun og rekstur námsgagnasjóðs, samanber 6. gr. laga um námsgögn, nr. 71/2007.

3. Fjármögnun varasjóðs húsnæðismála, samanber samkomulag frá 23. nóvember 2010.

Í 2.–4. gr. frumvarpsins sem hér er lagt fram er kveðið á um framhald á tímabundinni fjármögnun ofangreindra verkefna með því að framlög sveitarfélaga verði innheimt af úthlutun framlaga jöfnunarsjóðs til sveitarfélaga í hlutfalli við íbúafjölda 1. desember á næstliðnu ári. Önnur verkefni sem sveitarfélögin fjármagna áfram tímabundið á yfirstandandi ári og kalla ekki á breytingar á sérlögum eru talin upp í 5. gr. frumvarpsins sem fjallar um bráðabirgðaákvæði við lög um tekjustofna sveitarfélaga. Um er að ræða eftirfarandi verkefni:

1. Sumardvalarheimili í Reykjadal, samanber fjárlagalið 08-809-1.35.

2. Tölvumiðstöð fatlaðra, samanber fjárlagalið 08-809-1.15.

3. Vistheimilið Bjarg, samanber fjárlagalið 08-809-1.36.

Framangreind verkefni tengjast samkomulagi ríkis og sveitarfélaga um yfirfærslu þjónustu við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga en af ýmsum ástæðum voru þessi verkefni þá undanskilin við gerð heildarsamkomulags um þá verkefnatilfærslu. Gert er ráð fyrir að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga innheimti kostnað vegna þeirra af úthlutun framlaga jöfnunarsjóðs til sveitarfélaga í hlutfalli við íbúafjölda 1. desember á næstliðnu ári.

Tilurð frumvarps þessa má rekja til samkomulags ríkis og Sambands íslenskra sveitarfélaga sem undirritað var hinn 13. maí sl. um eflingu tónlistarnáms og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms sem framlengt hefur verið til 31. desember 2014 með viðauka frá 5. mars 2014. Í samkomulaginu var lagður grundvöllur að eflingu tónlistarnáms með aðkomu ríkissjóðs að kennslukostnaði í tónlistarskólum sem gerir nemendum kleift að stunda framhaldsnám í hljóðfæraleik og mið- og framhaldsnám í söng óháð búsetu. Jafnframt var í samkomulaginu og reglum sem settar hafa verið á grundvelli þess leitast við að jafna aðstöðumun annarra nemenda til tónlistarnáms óháð búsetu með því að jöfnunarsjóður greiði hluta kennslukostnaðar á móti því sveitarfélagi þar sem nemandinn á lögheimili.

Virðulegi forseti. Ég vænti þess að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allsherjar- og menntamálanefndar.



[14:13]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsögu hans fyrir málinu þótt ég viti ekki hvort viðeigandi sé að ræða jafn mikilvægt málefni á þessum ágæta degi, 1. apríl.

Málefni tónlistarskólanna hafa auðvitað verið í nokkrum ágreiningi milli ríkis og sveitarfélaga um nokkurt skeið og ég vil af þessu tilefni spyrja hæstv. menntamálaráðherra hvort hann telji ekki úrbóta þörf á þessari umgjörð. Þá vil ég einkum nefna tvo þætti málsins sem eru annars vegar ábyrgðin á framhaldsskólastiginu í tónlistarnámi, hvort ekki sé eðlilegt þar sem tónlistarnámið er orðið hluti af framhaldsskólanámi hjá fjölda framhaldsskólanema að sá sem rekur og ber ábyrgð á framhaldsskólanum, þ.e. ríkið, axli ábyrgð á framhaldsskólanáminu í tónlist eins og í öðrum greinum og það sé ekki með einhverjum öðrum hætti með það farið. Hins vegar, og það lýtur að hinni lagalegu umgjörð tónlistarnámsins, hvort hana þurfi ekki að skerpa betur þannig að þeim miklu framlögum sem fylgja úr ríkissjóði fylgi líka ákveðin réttindi fyrir börn í landinu til að njóta náms á þessu sviði þannig að tryggt sé að skattfénu sé ráðstafað á réttlátan hátt og það komi sannarlega vel í almannaþágu.



[14:15]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað varðar fyrri spurninguna sem hv. þm. Helgi Hjörvar beindi til mín um framhaldsskólastigið í tónlistinni er staða málsins sú sem þekkt er, þetta verkefni er samkvæmt samningum á forræði sveitarfélaganna. Það komu upp vandamál sem lýstu sér í því að það minnkuðu mjög möguleikar nemenda á að fara á milli tónlistarskóla, velja sér tónlistarskóla við hæfi sem mætti lýsa best þannig að nemendurnir voru fastir einhvers konar heimilisfesti í sínu sveitarfélagi, áttu erfitt með að fara á milli sveitarfélaga. Þess vegna ákvað ríkið að bæta við þá fjármuni sem sveitarfélögin lögðu til til að liðka fyrir þannig að nemendur ættu auðveldara með að fara á milli, til að auðvelda sveitarstjórnarstiginu að hleypa nemendunum á milli sveitarfélaga og þar með á milli skóla.

Ég verð að segja að skilningur einstakra sveitarfélaga á málinu hefur verið mismunandi og get ég rætt það í seinna svari mínu. Ég vil þá nokkuð tæpa á síðara atriðinu sem þessu er tengt, sem hv. þm. Helgi Hjörvar nefndi og er um lagaumgjörðina og réttindi þeirra sem búa víðs vegar um landið og möguleika þeirra til að stunda tónlistarnám. Ég get tekið undir með hv. þingmanni að ástæða er til, og ég ræddi það í þinginu að ég held í gær, að skoða löggjöf almennt um listnám, spurning þingmannsins snertir nefnilega fleiri svið en tónlistina, t.d. dansnámið. En tilgangurinn með framlagi ríkisins í þessu máli var að auðvelda nemendum hvaðan sem er af landinu að fara á milli skóla og velja sér skóla. Það var tilgangurinn með því að bæta fjármununum við. Þeir áttu ekki að koma í staðinn fyrir fjárframlag frá t.d. Reykjavíkurborg eða öðrum sveitarfélögum.



[14:17]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og vænti þess að hann bæti við í síðara andsvari sínu. Ég held að það sé mikilvægt sem ráðherra nefnir, að hugað sé að löggjöfinni um listnámið almennt. Auðvitað er það þannig, og hæstv. ráðherra er sjálfur framúrskarandi dæmi um það, að tónlistarskólarnir okkar hafa náð einstæðum árangri í uppeldisstarfi sínu og mikilvægt að standa vörð um þær stofnanir og þann árangur sem þar hefur náðst, en um leið verða þeir að þróast með samfélaginu.

Skólakerfið okkar allt hefur verið að taka miklum breytingum. Skóladagurinn hjá grunnskólabörnum er að verða samfelldur og óskir um að börn geti sótt bæði nám og tómstundir á einum stað, eða alla vega á auðveldan hátt í heimahverfi sínu, verða æ ríkari. Ég held að það séu eðlilegar nútímakröfur og að mikilvægt sé að reyna að tryggja sem almennast aðgengi að þessu námi, vegna þess að það eru gríðarleg forréttindi í að fá að leggja stund á tónlistarnám og getur hjálpað þeim, sem það gera, við allt annað nám í skólunum. Þeim mun fleiri sem okkur tekst að skapa aðgengi fyrir í þetta nám þeim mun betra. Til þess þarf lagaramminn að sjálfsögðu að vera miklu betur úr garði gerður en var þegar þetta byrjaði að mörgu leyti sem einkaframtak og framtak hjá sjálfseignarstofnunum í listdanskennslu og eins og ráðherra segir réttilega, ekki bara í tónlistarkennslu heldur líka í listdansi og myndlistarkennslu og ýmsu öðru.



[14:19]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir vinsamleg ummæli í minn garð. Ég gæti haldið langa ræðu um gagnsemi þess fyrir mig að hafa stundað nám í tónlistarskóla. Ég raunar legg það nám í mínu lífi fullkomlega að jöfnu við annað nám í grunnskóla, geri engan greinarmun þar á í mikilvægi. Reyndar tel ég allt benda til þess að nám í tónlist byggi mjög vel undir annað nám, það að fást við tónlistarnámið, ná tökum á hljóðfæri, ná tökum á verkefnum og geta flutt þau á tónleikum, svo dæmi sé tekið. Þetta er auðvitað ferli sem nýtist mjög vel við allt annað nám. Þess vegna styður tónlistarskólakerfið okkar mjög vel við skólakerfið okkar almennt.

Um leið er það vettvangur fyrir þá sem hafa afburðagetu á því sviði. Kerfi okkar er það víðfeðmt, ef svo má segja, að nokkurn veginn sama hvar menn búa á landinu er möguleiki fyrir krakkana að komast í gott tónlistarnám sem síðan er grunnurinn að framhaldsnámi í tónlist fyrir þá sem vilja leggja slíkt fyrir sig sem ævistarf. Þá skiptir máli fyrir okkur þegar kemur að framhaldsstiginu að tryggja að þeir nemendur hafi aðgang að tónlistarnámi við hæfi. Það er þess vegna sem ríkið er tilbúið til að bæta við fjármunum ofan á það sem sveitarfélögin gera sem svo sannarlega hafa málið á forræði sínu. Það er aldrei svo að það sé hugsað þannig að fjármunirnir hjá ríkinu komi í staðinn, enda getur það ekki verið svo að eitt stjórnsýsluvald hafi alla stjórnsýslu málsins og forræði en annað stjórnsýslustig sjái síðan um að greiða. Það hlýtur að þurfa að fara saman.

En ég get tekið undir það sem hv. þingmaður ræddi um mikilvægi þessa máls.



[14:22]
Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fyrir þetta frumvarp. Í sjálfu sér er ánægjulegt að hér skuli vera framlengdur gildistími samkomulags milli ríkis og sveitarfélaga um eflingu tónlistarnáms. Á sama tíma vekur það athygli, og mig langar að eiga aðeins orðastað við hæstv. ráðherra um það, að mörg af þeim stóru málum sem við ættum að vera að ræða í þinginu eins og t.d. varðandi framhaldsskólann eru hér ekki á dagskrá. Nú er það að gerast uppi í Karphúsi að menn eru að ákveða framtíð framhaldsskólans án þess að löggjafinn eða þjóðin komi á neinn hátt að þeim breytingum.

Ástæðan fyrir því að maður kemur hér kannski illa undirbúinn er að dagskránni var breytt, stóra leiðréttingarmálið tekið út og þessu máli skellt á dagskrá. Í morgun var svo allsherjar- og menntamálanefnd að ræða málefni Landbúnaðarháskóla Íslands. Þar fylgjumst við bara með því í fjölmiðlum hvernig tekist er á um framtíð þess skóla. Annars vegar eru loforð um gull og græna skóga ef af sameiningu verður og hins vegar hótanir um verulegar skerðingar ef ekki verður af henni.

Það sem mig langaði að spyrja um var í fyrsta lagi: Af hverju er þetta samkomulag tímabundið og á bara að gilda út þetta ár? Er einhver ágreiningur í málinu eða eru einhver önnur áform uppi varðandi það? Hver er þá helsti ágreiningurinn ef hann er einhver? Mig langar líka að heyra frá hæstv. ráðherra um skilin á milli sveitarfélaga og ríkisins. Það er rétt sem hæstv. ráðherra vakti athygli á að það þótti mikilvægt að taka utan um það vandamál að menn verði ekki háðir hreppamörkum varðandi framhaldsnám í tónlist. Ég tek heils hugar undir með honum í því. Eru þessi gráu svæði þarna á milli leyst eða er enn þá verið að rukka þegar menn fara á milli svæða þrátt fyrir þetta? Ég vil byrja á að spyrja um þetta.



[14:24]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég heyri það á máli hv. þingmanns að það er ýmislegt annað sem hann vill ræða en bara það frumvarp sem hér er til umræðu. Ég ætla þó að halda mig að meginstofni til við að svara því sem að frumvarpinu snýr. Ég hlýt þó að segja að það er ekki svo, af því að hv. þingmaður nefndi málefni Landbúnaðarháskólans, að einhverjar kröfur séu um einhvern stórfelldan niðurskurð þar aðrar en bara þær að skólinn haldi sig innan þeirra fjárheimilda sem Alþingi hefur lagt fram með fjárlögum. Það er auðvitað fyrsta krafan þar.

Einnig hafa Ríkisendurskoðun og fjármálaráðuneyti bent á þann mikla halla sem hefur myndast þarna á undanförnum árum og hleypur á hundruðum milljóna. Ætli það sé ekki einhvers staðar í kringum 760 millj. kr. sem farið hefur verið fram úr umframfjárheimildum Alþingis? En það er önnur umræða.

Umræðan núna snýr að því verkefni sem hér er og hv. þingmaður spyr hvers vegna samkomulagið sé ekki til lengri tíma. Það er rétt sem hv. þingmaður setur fingur á og bendir á að það er ákveðinn núningur í málinu. Það er ákveðið vandamál undir sem snýr að samstarfi ríkisins og sveitarfélaganna. Til dæmis er uppi sú túlkun af hálfu eins sveitarfélagsins að með því að ríkið komi með þessa fjármuni geti það sveitarfélag dregið til baka sína fjármuni. Einungis ríkið eigi þá að sjá um að greiða fyrir alla þessa þjónustu. Það var auðvitað aldrei tilgangurinn af hálfu ríkisvaldsins. Ríkisvaldið ætlaði sér aldrei að nálgast málið með þeim hætti. Það vildi bæta við fjármunum til að liðka til, til þess að nemendur gætu farið á milli sveitarfélaga og til væri kerfi sem tæki á því til að bæta sveitarfélögum það upp. Til þess voru refirnir skornir.



[14:26]
Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla svo sem ekki að ræða önnur mál þótt ég hafi vakið athygli á máli Landbúnaðarháskólans. En ég vil þó líka vekja athygli á því að það er dálítið langt á milli að krefjast þess að menn fari undir fjárlögin og borgi upp halla liðinna ára, allt að 35 millj. kr. á ári, eða að fá 170 millj. kr. og fjárfestingar að auki, 170 millj. kr. í reksturinn á ári. Það er gríðarlegt bil þarna á milli og hæstv. ráðherra skuldar þinginu skýringar á því hvers vegna þessi mismunur er og hvaða fjárveitingar koma til viðbótar sem fylgja eingöngu sameiningunni.

Mig langaði að fá að heyra betur um ágreininginn og um tímamörkin sem ég spurði um, sem eru til áramóta. Hvað þýðir það? Er markmiðið að fella samkomulagið niður um áramótin eða er eitthvað annað í undirbúningi? Kannski verð ég að reyna að gefa hæstv. ráðherra tækifæri á að segja hvaða vinna er í gangi þannig að við getum fjallað um þetta á undirbúningsstigi en ekki þegar búið er að ákveða hlutina.

Mig langar líka að velta vöngum yfir sveitarfélagamörkunum varðandi skólaþjónustuna, sérstaklega hjá grunnskólunum, sem hafa valdið því að menn hafa efast um að hægt sé að tryggja gæðin á ólíkum svæðum. Ég vil heyra skoðun hæstv. ráðherra á því. Þessi mál eru leyst með mjög mismunandi hætti í einstökum sveitarfélögum. Að hve miklu leyti getur ráðuneytið haft þar áhrif sem eftirlitsaðili með keyptri þjónustu? Það eru auðvitað sveitarfélögin sem bera þá ábyrgð en löggjafinn ber ábyrgð á rammanum sem settur er og þeim kröfum sem gerðar eru.

Í lokin á þessu stutta andsvari vil ég bara taka það fram að við verðum að gæta að því að við höfum gríðarlega gott tónlistarnám á Íslandi, einkum hjá börnum á grunnskóla- og framhaldsskólaaldri, og við megum ekki missa það niður. Ég skora á hæstv. ráðherra að standa vörð um það nám og heiti stuðningi við það.



[14:28]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað varðar gæði tónlistarnámsins þá er verkefnið, eins og hv. þingmaður benti reyndar sjálfur á, á forræði sveitarfélaganna. Við á Alþingi getum sett lagaramma og síðan eru settar námskrár og önnur viðmið sem þarf að vinna eftir, en fyrst og síðast er verkefnið á hendi sveitarfélaganna.

Ástæðan fyrir því að við horfum einungis til eins árs er m.a. það sem ég nefndi; það er ákveðinn núningur hér á milli sem þarf að leysa úr. Það þarf að leysa úr honum áður en kemur til þess að samkomulagið rennur út eða við höfum með lögum eða öðrum aðgerðum leyst þar úr og komið skipan á málin sem við erum sátt við og samkomulag er um. En ég er sammála hv. þm. Guðbjarti Hannessyni, rétt eins og ég er sammála hv. þm. Helga Hjörvar, um að þetta nám og það hvernig okkur hefur tekist að byggja það upp er gríðarleg eign fyrir samfélagið. Það er mjög verðmætt að börn alls staðar á landinu eigi gott aðgengi að tónlistarnámi. Ég tel að í fyrsta lagi sé það mannbætandi og í það minnsta opni það heim tónlistarinnar og gefi þar með þeim einstaklingum betra færi á að njóta tónlistar í lífinu. Þar fyrir utan — og það er gríðarlega mikilvægt — tel ég að nám í tónlist hafi jákvæð áhrif á annað nám. Það hjálpar mjög þeim einstaklingum sem velja sér tónlistarnám ásamt öðru námi til að stunda það nám sem þeir kjósa. Síðan skiptir sérstaklega miklu máli varðandi framhaldsnám og þá einstaklinga sem ætla sér að leggja tónlist fyrir sig sem starf og leggja tónlist fyrir sig sem atvinnumennsku að við tryggjum (Forseti hringir.) að það sé til umgjörð og öruggur vettvangur fyrir slíka nemendur til að geta blómstrað.



[14:31]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir að halda samskiptum opnum á milli sveitarfélaga og ríkisins hvað þessi mál varðar. Það er forsaga þarna að baki og mikið hefur oft borið á milli þegar menn hafa rætt þessi mikilvægu mál. Eins og hæstv. ráðherra kom inn á áðan er tónlistarnám og -kennsla mjög mikilvæg fyrir samfélag okkar og auðvitað líka fyrir einstaklingana sjálfa sem læra á hljóðfæri.

Fyrir tugum ára spruttu upp litlir tónlistarskólar í smærri bæjum þar sem tónlistarfélög tóku sig saman og stofnuðu skóla með styrk frá sveitarfélaginu. Núna er það þannig að í flestum bæjum á landinu er forskóli frír og aðgengi að tónlistarnámi nokkuð gott í þéttbýli sem skiptir mjög miklu máli því að það er auðvitað aðgengið sem stýrir því hvernig framhaldið verður. Það er svo mikilvægt að þeir sem eru búnir að fara í það nám sem boðið er upp á í heimabyggð geti sótt í stærri skóla og haldið áfram námi sínu. Það er algjörlega óumdeilt hversu mikilvæg músíkin er fyrir hagkerfið á Íslandi og hvað hún gefur okkur mikið.

Fyrir rúmum tíu árum var annað samkomulag á ferðinni sem gekk út á það að nemendur í framhaldsskólum komu með skírteini frá tónlistarskólum og framhaldsskólarnir mátu síðan einingarnar til lokaprófs. Ríkið greiddi þá fyrir þær einingar sem voru metnar. Þetta hljómar ágætlega. Það er vit í því að ríkið greiði fyrir þann hluta framhaldsskólanámsins sem kemur frá tónlistarskólunum svo að sveitarfélögin haldi því ekki uppi.

Það voru hins vegar hnökrar á því samstarfi. Eitt af vandamálunum var nemendabókhald tónlistarskólanna sem var ekki eins nákvæmt og nauðsynlegt var til að geta undirbyggt svona talningu á einingum og þessi samskipti milli ríkis og sveitarfélaga. Nú þekki ég ekki nákvæmlega þá sögu en alla vega gekk það samstarf ekki upp og það slitnaði upp úr því. Sem betur fer var tekið upp samstarf og samtal áfram. Áður en það samkomulag sem gert var í maí árið 2011 kom til þurftu þau ungmenni sem vildu sækja í framhaldsnám í tónlist að sækja um styrk til síns sveitarfélags sem þurfti síðan að borga með þeim inn í tónlistarskóla sem annað sveitarfélag rak. Það var þá undir hælinn lagt hvernig þetta færi og jafnvel komið undir því hvernig sveitarfélagið stóð svona almennt hvernig það hagaði sér í þessum málum. Það var því ákaflega mikilvægt fyrir þessa nemendur að aðgengið væri ekki heft með neinum hætti og þessum samskiptum var komið á.

Það samkomulag sem nú er verið að framlengja, undir það var ritað 13. maí 2011, um eflingu tónlistarnáms og jöfnun á aðstöðu nemenda til tónlistarnáms. Það var nokkuð ljóst þegar hv. allsherjar- og menntamálanefnd afgreiddi síðan málið — allir stóðu að baki þeirri afgreiðslu þó að þrír hv. þingmenn hafi þar verið með fyrirvara — að einhver núningur var þarna á milli, einhverjar forsendur sem voru ekki eins og gert hafði verið ráð fyrir þegar samkomulagið var undirritað. Það var einkum tvennt, það var fjöldi nemenda og kjarasamningar sem sveitarfélögin höfðu gert við tónlistarskólakennara í millitíðinni. Þarna var ljóst að strax var kominn einhver núningur á þessum nokkru mánuðum, frá maí til desember, þegar nefndin afgreiddi nefndarálitið, en mælti samt með því að frumvarpið yrði samþykkt óbreytt. Inn í samkomulagið var skrifað að viðræður ættu að verða um endurskoðun og þær ættu að hefjast fyrir 1. júní 2012. Búið var að gera ráð fyrir því að einhverjar viðræður yrðu og nefndin gerði ráð fyrir að formlegar viðræður milli ríkis og sveitarfélaga, um endurskoðun samkomulagsins vegna breyttra forsenda, færu fram sem fyrst og fyrir þennan tíma sem tilgreindur var.

Nefndin lagði líka í desember 2011 á það áherslu að tryggt yrði mat og eftirlit með því hvernig framlög ríkisins og markmið samkomulagsins væri útfært, að það væri öruggt að þarna væri eftirlit og samtal á milli. Auðvitað fór samtalið af stað og menn voru ekki alveg sammála um hvernig ætti að útfæra þetta allt saman. Jú, vissulega var það rétt að sumir skólar töldu rekstur sinn vera það slæman, af því að það voru fleiri nemendur og kjarasamningurinn kom betur út hjá einum skóla en öðrum — en það var ekki þannig að hægt væri að slá reglustiku yfir skólann og segja: Út af þessu samkomulagi, út af þessum forsendubresti eru allir skólarnir í vandræðum. Það var ekki þannig, þannig að það þurfti að kíkja betur á nemendabókhaldið, rekstur hvers skóla fyrir sig. Það er auðvitað ákveðið vandamál, eins og hæstv. ráðherra hefur bent á, þegar peningur er lagður til reksturs frá ríkinu en það eru sveitarfélögin sem bera ábyrgð á honum. Þá má búast við að þarna verði núningur.

Það er von mín að fundið verði út úr þessu. Gert er ráð fyrir að þessi breyting sé tímabundin, eins og fram hefur komið hér í ræðum og andsvörum, þetta samkrull sem mér finnst kannski alveg ganga upp. Ég vona að það verði skoðað í áframhaldandi vinnu með þetta. Annars vegar er talað um styrk eða framlag upp á 520 millj. kr. á árinu 2014 og það er í samræmi við gildandi fjárlög og allt í besta lagi með það. En einnig er talað um að sveitarfélögin, eins og áður var, í fyrra samkomulagi, skuldbindi sig áfram til að standa tímabundið straum af verkefnum sem áður voru fjármögnuð af ríkinu og nema framlögin þeirra um 230 millj. kr. á ársgrundvelli. Miðað er við að þau framlög renni til Tölvumiðstöðvar fatlaðra, endurmenntunarsjóðs grunnskóla, námsgagnasjóðs, sumardvalarheimilisins í Reykjadal, vistheimilisins Bjargs og varasjóðs húsnæðismála.

Ég vil vara við því að í svona samkomulagi sé verið að blanda öðrum málum inn. Þau eru svo sannarlega tímabundin og þar með allt samkomulagið, því að þetta er allt saman krullað saman. Ég held að betur færi á því ef starfsemi tónlistarskólanna yrði bara tekin og horft á hana út frá hag nemenda, sem um leið er þá hagur samfélagsins, og tryggja eins og kostur er aðgengi þeirra nemenda sem vilja mennta sig betur eða áfram miðað við það sem boðið er upp á í þeirra heimabyggð, að það væri svona útgangspunkturinn. Málið er flókið. Ég hef fengið að fylgjast með þessum samskiptum núna í rúman áratug, hef skoðað þau út frá framhaldsskólunum og reyndar ráðuneytinu um tíma og svo aftur hér; ég veit að þetta er viðkvæmt, ég held að það muni einfalda stöðuna ef færri verkefnum er blandað inn í málin.

Það er sannarlega von mín að þarna náist samkomulag sem getur haldið til lengri tíma, sem er gegnsætt, sem gagnast nemendum eins og kostur er, og skapar um leið sátt á milli sveitarfélaga og ríkisins í þessum efnum. Ég óska hæstv. ráðherra velfarnaðar í því máli.



[14:42]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessu frumvarpi sem komið er fram frá hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra. Lögin verða tímabundin en hafa þó vonandi áhrif lengur en gildistíminn gerir ráð fyrir. Þarna er í raun verið að festa í lög og þannig staðfesta samkomulag sem gert var 2011 um að ríkið kæmi að því að styðja við tónlistarnám á framhaldsstigi og söngnám á mið- og framhaldsskólastigi. Það samkomulag, sem bar yfirskriftina „Samkomulag um eflingu tónlistarnámi og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms“, var búið að vera mjög lengi í bígerð og var angi af mun stærra máli sem var vinna við endurskoðun laga um tónlistarmenntun.

Við hæstv. ráðherra áttum ágætissamtal í gær í fyrirspurnatíma þar sem við ræddum fyrirkomulag fjárhagslegs stuðnings við listdansmenntun, bæði á framhaldsskólastigi og á grunnstigi. Auðvitað leiða slíkar umræður í ljós að við erum ekki nægilega langt á veg komin með að horfa á listnám og listgreinakennslu heildstætt og horfa á lagaumhverfi og fjárhagslegt umhverfi heildstætt. Það má hins vegar segja að saga tónlistarskóla og tónlistarnáms á Íslandi sýni hversu gríðarlega miklu máli öflugt tónlistarnám, öflug tónlistarkennsla skiptir. Það er engin tilviljun hvað við Íslendingar höfum náð miklum árangri í sköpun tónlistar og flutningi tónlistar, svo dæmi sé tekið. Þar nægir að nefna þá sinfóníuhljómsveit sem við eigum, sem er á heimsmælikvarða þrátt fyrir að vera hér í þessu örríki. Það nægir að nefna alla þá tónlistarmenn sem hafa náð stórkostlegum árangri á alþjóðavísu, hvort sem við horfum til þeirra þekktustu eins og Bjarkar eða Sigur Rósar og fleiri eða þeirra sem hafa komið á eftir, Of monsters and men, og svo mætti lengi telja.

Ég var stundum spurð að því, og væntanlega núverandi hæstv. ráðherra líka, hvernig á því stæði, hvort þetta væri frumkrafturinn úr íslensku eldfjöllunum sem birtist í tónlistarmönnunum. Mitt svar var alltaf: Það er skólakerfið, það er menntunin sem skiptir öllu máli. Það er hún sem leggur grunninn, veitir fólki nauðsynlega hæfni og nauðsynlegan skilning sem þarf á tónlistinni og byggir um leið upp það sjálfstraust sem þarf til að fara í eigin sköpunarleiðangur og nýta menntun á þann feikilega fjölbreytta hátt sem við sjáum.

Ég var aðili að því samkomulagi sem hér er verið að festa í lög og átti afskaplega marga fundi um það. Þetta er flókið, og það hefur komið fram, bæði hjá hæstv. ráðherra og hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur, þegar kemur að verkaskiptingu ólíkra aðila. Samkomulagið var undirritað skömmu áður en tónlistarhúsið Harpa var opnað og hluti af því sem ýtti við fólki þar var tilhugsunin um nauðsyn þess að ríkið kæmi að því að efla tónlistarnám á framhaldsskólastigi sem er eðlileg verkaskipting miðað við að ríkið reki almennt framhaldsskólastig í landinu, að stuðningurinn komi inn í gegnum það. Það sem ýtti á það var að þarna var verið að opna hús sem vissulega var umdeilt. Ég er sannfærð um það eftir á að það var rétt ákvörðun en það var umdeild ákvörðun á erfiðum tíma í þjóðfélaginu og margir sögðu: Við erum að opna hús og á sama tíma horfum við á tónlistarskólana í landinu í vandræðum. Mér fannst það mjög réttmæt gagnrýni á þeim tíma. Hér var verið að opna hús en hver átti að vera í því eftir 20 ár? Tónlistarnemarnir sem eru núna í námi. Þess vegna var þetta líka gríðarlega mikilvægt, af því að margir tónlistarskólar voru í verulegum vandræðum.

Eitt af markmiðum samkomulagsins var, og þá sögu þekki ég líka ágætlega eða þann aðdraganda, að vistarböndunum svokölluðu yrði aflétt, þ.e. að nemendur gætu farið á milli sveitarfélaga í tónlistarnámi. Það er gaman að segja frá því að á þeim tíma var ég ásamt núverandi hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur og fleira góðu fólki í fræðsluráði Reykjavíkur. Þessi vistarbönd voru sett á þeim tíma og það stafaði af deilum milli sveitarfélaganna um hver ætti að sjá um að fjármagna tónlistarnám. Þetta er ekki nýtt mál þegar við horfum upp á verkaskiptingu, bæði milli sveitarfélaga og síðan milli ríkis og sveitarfélaga. Það hefur lengi verið í umræðunni og afsprengi þeirrar umræðu á þeim tíma var að vistarböndin komust á. Ég segi alveg hreint út að það hafði gríðarlega erfiðleika í för með sér fyrir marga tónlistarnema og var eitt af markmiðum samkomulagsins að aflétta þeim vistarböndum og hefur það gengið eftir. Þess vegna segi ég: Það er mjög mikilvægt að við fórnum ekki þeim árangri sem náðist með samkomulaginu og byggt verði á honum og unnið áfram. Eins og hæstv. ráðherra benti á fylgja því ákveðnir erfiðleikar að ríkið fjármagni að hluta skólastig en umsjón þess skólastigs sé í höndum sveitarfélaganna, nemendabókhaldið sé í höndum sveitarfélaganna, öll yfirsýn sé í höndum sveitarfélaganna.

Lögum samkvæmt fara sveitarfélögin með tónlistarnám. Því hefur ekki verið breytt. Ég leit svo á að stuðningur ríkisins væri til eflingar, hann væri pólitísk ákvörðun, að ríkið væri reiðubúið að styðja sveitarfélögin til að standa vel að tónlistarnámi sem er gríðarlega mikilvægt. Ég ætla ekki að eyða tíma mínum í að fara yfir mikilvægi þess. Við erum örugglega öll sammála um það sem hér erum inni. En lögbundinni skiptingu hefur ekki verið breytt. Þess vegna langar mig að nýta tækifærið. Ég sé að hæstv. ráðherra hefur óskað eftir að koma í andsvar og mig langar að inna hæstv. ráðherra eftir því hvert framhaldið verður. Ég veit að frumvarp um heildarskipulag tónlistarnáms hefur lengi verið í smíðum. Það var í smíðum áður en ég varð ráðherra fyrir mörgum árum og það var í smíðum meðan ég var ráðherra og það er örugglega enn í smíðum hjá núverandi hæstv. ráðherra. Þá velti ég því fyrir mér hver örlög þess verða í framhaldinu. Sér hæstv. ráðherra fram úr því að hér komi fram frumvarp um þetta heildarskipulag? Er kannski ástæða til að ganga lengra en gert hefur verið ráð fyrir í þeim drögum og horfa upp á lögbundna verkaskiptingu milli skólastiga hjá ríki og sveitarfélögum og gæti það þá jafnvel verið til eftirbreytni fyrir annað listnám? Ég vísa þá aftur í listdansnámið og kennsluna sem við ræddum í gær.

Það er auðvitað stór og róttæk breyting. Ég ætlast ekki til þess að hæstv. ráðherra svari því vegna þess að sú breyting mundi kalla á verulegar breytingar, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu þar sem eru margir sjálfstæðir skólar sem reka og kenna á ólíkum stigum. Það er ekki eins og við séum að byrja með óskrifað blað og getum farið í það að ríkið stofni framhaldstónlistarskóla fyrir framhaldsskólastigið. Það er alveg ljóst að það er flókið. Það kynni þó að vera eðlilegra ef við horfum upp á að ríkið haldi fjárhagslegum stuðningi sínum áfram og líka af því að við höfum séð það í túlkuninni á samkomulaginu að það hefur orðið misbrestur á því að skilningur sé sameiginlegur. Nú er það Samband íslenskra sveitarfélaga sem gerði þetta samkomulag við ríkið á sínum tíma og það kom fljótlega í ljós, eins og hv. þm. Oddný G. Harðardóttir nefndi, að forsendur á þeim nemendafjölda sem lá á bak við voru ekki alveg nógu skýrar og þess vegna var samkomulagið líka stundum í krónutölu. Það var ekki byggt upp þannig að það ætti að fjármagna kennslu tiltekins fjölda nemenda heldur var byggt á þeim nemendafjölda sem talið var samkvæmt upplýsingum sveitarfélaganna að væri í tónlistarnámi og ákveðin krónutala sett á samkomulagið út af því. Ég hef gert það að umræðuefni til að mynda á fundi með borgarfulltrúum Reykjavíkurborgar að þar er annar skilningur uppi en var alveg örugglega uppi, að mínu viti, af hálfu ríkisins og líka af hálfu Sambands íslenskra sveitarfélaga. Ég vil nota tækifærið og spyrja hæstv. menntamálaráðherra hvort menn hafi færst eitthvað nær hver öðrum í þeim skilningi af því að það kom upp að Reykjavíkurborg lagði talsvert annan skilning en önnur sveitarfélög í samkomulagið sem birtist í því að Reykjavíkurborg taldi að með samkomulaginu hefði verkefni sem lögum samkvæmt liggur hjá sveitarfélögunum verið fært yfir til ríkisins. Það var auðvitað ekki gert. Það var engin lagabreyting sem fylgdi samkomulaginu og þetta frumvarp felur ekki í sér slíka breytingu.

Mig langar að nota tækifærið til að segja að ég mun styðja þetta mál og vænti þess að umfjöllun hv. allsherjar- og menntamálanefndar leiði í ljós, og mér sýnist það við fyrsta lestur, að þetta sé hið besta mál. Mig langar að spyrja um tvennt og það er annars vegar framtíðin, stóra heildarmyndin og hvort við sjáum fram á að við fáum eitthvert frumvarp í hendur til að mynda á næsta þingi, hvort sú vinna sé komin eitthvað áfram, því að sú vinna hlýtur að fela í sér hina spurninguna sem ég nefndi, að það sé sameiginlegur skilningur allra sveitarfélaga og ríkisins í því hvernig þessum fjárhagslega stuðningi er varið. Það höfum við séð og það höfum við heyrt, til að mynda þingmenn Reykjavíkur, frá tónlistarskólanum að því miður hefur þetta samkomulag sem átti að vera til að efla tónlistarnám ekki orðið til að efla það í einstökum tilvikum í Reykjavík og það er auðvitað ekki gott. Ég nota tækifærið og spyr hæstv. ráðherra um þetta.



[14:52]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Áður en ég kem að spurningum mínum skal ég reyna að bregðast við því sem hv. þingmaður nefndi, um framtíðina í þessu máli, það er sjálfsagt að bregðast við því. Það er rétt sem hv. þingmaður nefndi að um langa hríð hefur verið unnið að nýjum lögum um tónlistarskólana og sú vinna stendur enn yfir. Augljóslega kemur ekki fram frumvarp á þessu þingi en ég er alveg sammála hv. þingmanni að fara þarf mjög gaumgæfilega yfir það hvort skynsamlegt sé að hafa núverandi verkaskiptingu áfram, hvort við þurfum ekki að setjast niður með Sambandi íslenskra sveitarfélaga og ræða þessi verkefni þannig að tryggt sé að við náum þeim markmiðum sem við setjum okkur með tónlistarnáminu, meðal annars því sem hér hefur verið til umræðu að nokkru, sem er að nemendur geti farið á milli sveitarfélaga og valið sér tónlistarskóla eftir þörfum. Ég tel mikilvægt að hafa þann sveigjanleika og það hafi í raun og veru, í það minnsta að stórum hluta, verið ein af ástæðunum fyrir því að ríkisvaldið ákvað að bæta þessum fjármunum við.

Kem ég nú að því sem ég hefði viljað spyrja hv. þingmann um: Þegar samkomulagið var gert árið 2011, var það þá ekki alveg örugglega skilningur ríkisins að þetta væru viðbótarfjármunir? Mig langar líka að spyrja: Hefði ríkisvaldið á þeim tíma gengið til þeirra samninga með sama hætti ef fyrir hefði legið sá skilningur Reykjavíkurborgar, sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni, að þar með gæti Reykjavíkurborg dregið til baka þá fjármuni sem borgin hafði verið að veita til þessa verkefnis? Til að ítreka, hefði ríkið þá gert slíkt samkomulag ef sá skilningur hefði legið fyrir?



[14:54]
Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra andsvarið og svarið. Fyrst vil ég segja um framtíðina að ég fagna því ef að minnsta kosti verkaskiptingin verður tekin til skoðunar. Ég veit ekki hvort þetta er mál sem er auðvelt að leysa, ég fór yfir það áðan. En vissulega held ég að það sem við höfum lært á þessu samkomulagi sé að þegar verkaskipting er ekki algerlega skýr þá komi upp ágreiningsmál og álitaefni.

Þá kem ég að spurningu hæstv. ráðherra. Í mínum huga og þeirra sem rituðu undir samkomulagið af hálfu ríkisins held ég að það hafi verið algerlega skýrt að um viðbótarfjármagn var að ræða. Það var að hluta til fengið með því að færa verkefni yfir til sveitarfélaga en meiri hlutinn var nýtt fé. Þetta var mikið rætt í ríkisstjórn á þeim tíma, kannski fannst ekki öllum það rétt að fara í slíka aðgerð á krepputímum en á móti kemur að tónlistarnemendur og tónlistarkennsla — ljóst var að margir skólar voru í verulegum vanda, sveitarfélögin báru sig illa þannig að það var algerlega skýrt af okkar hálfu, eins og kemur fram í titli samkomulagsins, að þetta var viðbótarfjármagn ætlað til að efla tónlistarnám en ekki bara til að koma út á sléttu ef við getum hugsað það þannig.

Þess vegna lít ég ekki svo á að með þeim skilningi hafi skapast eitthvert svigrúm til sérstaks aukaniðurskurðar hjá íslenskum sveitarfélögum, það var ekki skilningur okkar sem skrifuðum undir það samkomulag af hálfu ríkisins, enda töldum við ástæðuna fyrir því að farið var í þetta að töluvert hafði verið skorið niður í tónlistarnámi. Og það var líka vegna þeirrar eðlilegu kröfu sem hefur lengi verið uppi af hálfu bæði ýmissa sveitarfélaga og líka af hálfu tónlistarskólanna að ríkið komi meira að því skólastigi í þessari grein en það annars gerir. Það er kannski frekar í raun og veru menntapólitísk spurning þar sem ég hef verið sammála því að eðlilegt sé að ríkið komi að framhaldsstigi líka í listgreinanámi eins og öðru námi.



[14:56]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka svörin og tel að það hafi komið mjög skýrt fram að af hálfu ríkisvaldsins var sú stefnumótun skýr að um var að ræða viðbótarfjármagn til að efla tónlistarstarfið og tónlistarskólastarfið á framhalds- og miðstigi. Það hlýtur því að valda vonbrigðum fyrir okkur sem erum ríkisins megin að sá skilningur skuli vera til staðar, til dæmis hjá Reykjavíkurborg, að þar með hafi myndast tækifæri fyrir borgina að draga til baka fjármuni. Það er, eins og ég skil svar hv. þingmanns, þvert á það sem samkomulaginu var ætlað að ná fram, þvert á alla forsögu málsins, eðli þess og efni. Þess vegna vonast ég til þess, þegar fyrir liggur að mikil vandamál eru uppi hjá tónlistarskólunum, m.a. í Reykjavík, að Reykjavíkurborg endurskoði þá afstöðu sína.

Ég vildi gjarnan fá að heyra frá hv. þingmanni hvort hún sé ekki sammála mér um að æskilegt sé að borgin endurskoði afstöðu sína og leggi fram fjármuni til að efla tónlistarskólana, þá í Reykjavík, sem eru mjög mikilvægir í öllu tilliti, mikilvægt að þeir skólar séu öflugir, að þeir geti sinnt hlutverki sínu, en það gerist ekki nema auknir fjármunir verði látnir renna til verkefnisins og það standi upp á Reykjavíkurborg að gera það.



[14:58]
Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað er rétt að halda því til haga að samkomulag var gert við Samband íslenskra sveitarfélaga en ekki einstök sveitarfélög. Því er kannski rétt að leita einhverra skýringa hjá samtökum sveitarfélaga hvernig nákvæmlega það kemur til að sveitarfélögin skilja þetta mál ólíkum skilningi.

Ég get staðfest þann skilning sem hæstv. ráðherra fór yfir, og það er líka skilningur fyrrverandi fjármálaráðherra, hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, sem skrifaði einnig undir þetta samkomulag og við ræddum hér í hliðarsal áðan, enda hefði öllum átt að vera ljóst að samkomulaginu fylgdi ekki breyting á lögum um breytta verkaskiptingu. Til þess hefði þurft annars vegar að skrifa þetta út úr samkomulaginu og breyta lögum um verkaskiptingu þannig að það lægi algerlega skýrt fyrir í lögum að framhaldsstigið í tónlist væri þá á ábyrgð ríkisins. Lögum hefur ekki verið breytt og það hefði ég nú talið grundvallarforsendu. Hins vegar kann það að hafa ruglað umræðuna að sú krónutala sem sett var inn í samkomulagið á sínum tíma, 480 milljónir, miðaðist vissulega við einhvern nemendafjölda. Þar með var kannski komin upp einhver hugmynd í hugum fólks að þarna væri ætlunin að greiða fyrir þennan tiltekna nemendafjölda og þar með ætti einhvern veginn að takmarka nemendaaðgang. Auðvitað er mikilvægt að átta sig á því að þar voru upplýsingar ekki nægilega góðar um nemendafjölda, þannig að mér finnst ekkert óeðlilegt að við endurskoðun samkomulagsins verði tekið tillit til betri gagna í þeim efnum. En lagalegur skilningur hlýtur að vera algerlega kristaltær og þangað til lögum verður breytt eins og við ræddum áðan, sem kann að verða, þá hlýtur sá skilningur að vera á samkomulaginu að þetta sé viðbótarfjármagn þar sem ríkið kemur inn. Ég sagði á sínum tíma að mér fyndist þetta vera svolítið mórölsk ákvörðun, þ.e. að ríkið kæmi og styddi við þetta stig og sýndi þar með ákveðinn pólitískan vilja sem ég vona og þykist vita að sé enn til staðar, en ábyrgðin liggur auðvitað enn þá hjá sveitarfélögum.



[15:01]
Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að þetta frumvarp hafi verið lagt fram og sá viðauki sem hér hefur verið gerður um framlengingu á gildistíma samkomulags milli sveitarfélaga varðandi eflingu tónlistarnáms, að búið sé að tryggja það út árið. Á sama tíma hljótum við að spyrja: Hvert verður framhaldið? Hvað er í pípunum? Hvað er í bígerð?

Nú hafa menntamál ekki verið mikið til umræðu hér í þinginu en á sama tíma er heilmikið að gerast í menntamálum úti í samfélaginu. Það hafa verið sérstakar umræður, mjög málefnalegar og góðar, þar sem tekið hefur verið á einstökum viðfangsefnum en við höfum ekki enn fengið stóru línurnar til umræðu, hvorki á Alþingi sjálfu né í hv. allsherjar- og menntamálanefnd. Í trausti þess að hæstv. ráðherra fari í seinni ræðu sinni aðeins yfir stöðuna almennt leyfi ég mér að spyrja eftir framtíðarsýninni og skólastefnunni, ekki hvað síst varðandi það sem hér er til umfjöllunar, sem er listnám, þ.e. tónlistarnám. Komið hefur verið inn á þá hluti í fyrri ræðum og í andsvörum ráðherra hvað sé í bígerð, þ.e. að setja þurfi samstæð lög um þetta. Eru menn að velta fyrir sér, af því að hér er um skammtímasamning að ræða, að færa þetta með formlegri færslu, þ.e. verkefnið tónlistarkennslu á framhaldsskólastigi, alfarið til ríkisins. Það hefur komið fram að ekki hefur verið tekin ákvörðun um það heldur eru þarna samningar um greiðslur sem fara á milli. Þá má um leið spyrja hvernig menn ætli að búa að listnámi.

Ég nefndi það í andsvari við hæstv. ráðherra að í gangi eru kjarasamningar. Það er afar óþægileg tilfinning að uppi í Karphúsi skuli menn vera að móta menntastefnu fyrir ríkið á sama tíma og við sitjum á Alþingi, löggjafinn, og bíðum eftir niðurstöðu sem jafnvel verður kjarasamningsbundin áður en hún kemur til umræðu. Það finnst mér að öllu leyti óeðlilegt. Mér hefði fundist miklu eðlilegra að menn hefðu farið af stað með stefnumótun, rammann, skilgreiningu, hvaða væntingar hæstv. ráðherra hefur, hæstv. ríkisstjórn og síðan Alþingi, að það hefði allt legið fyrir og síðan gerðu menn samninga á þeim grundvelli um það hvernig menn ætluðu að búa um greiðslur til að ná fram þeim markmiðum sem þar koma fram.

Gríðarlega mörgum boltum hefur verið kastað á loft varðandi skólastarfið. Í fjárlagafrumvarpinu er rætt um aukna einkavæðingu. Eru einhver slík áform í gangi? Þegar menn leika biðleiki eins og hér eru þá einhverjir slíkir hlutir á bak við? Ætla menn að fela einhverjum öðrum aðilum að sinna þessu? Við sjáum líka áform um sameiningar skóla. Það er meira að segja talað um það í hagræðingarskýrslunni að sameina eigi framhaldsskóla. Við erum að slást við sameiningu skóla þar sem verið er að ræða um Landbúnaðarháskólann.

Eins og ég kom að í andsvari áðan er komin fram greinargerð um hvernig megi hugsanlega styrkja Landbúnaðarháskólann. Því gætu fylgt peningar, bæði í fjárfestingar- og rekstrarkostnað. Ef menn ganga ekki að því verða menn að gera svo vel og borga sem nemur 35 millj. kr. á ári upp í gamlan halla og aðlaga reksturinn sem nemur annarri eins upphæð. Það þýðir uppsagnir og samdrátt. Það er afar vondur kostur en ekkert af þessu hefur í raun komið formlega fram fyrr en nú í dag í allsherjar- og menntamálanefnd þar sem sá sem hér stendur óskaði eftir því að fá að heyra málflutning aðila málsins. Þar komu fulltrúar sveitarfélagsins Borgarbyggðar, fulltrúar Bændasamtakanna, fulltrúar ráðuneytisins, sem skýrðu sín sjónarmið, og síðan stjórn Landbúnaðarháskólans. Það er eiginlega fyrsta umræðan og þar kemur fram að til er fullt af skýrslum sem ég hafði sumar hverjar séð sem þingmaður kjördæmisins en hafa í raun aldrei verið lagðar fram í hv. allsherjar- og menntamálanefnd. Ég held að menn verði að fá tækifæri til að ræða þessa hluti. Það sama gildir um boðaða hvítbók sem mér finnst í sjálfu sér, og hefur alltaf þótt, mjög spennandi form, þ.e. þegar menn leggja fram greiningu á málaflokki, meginlínur um tillögur að lausnum og markmiðum og þingið fái að fjalla um það og móta stefnu og hæstv. ráðherra semji í framhaldinu lagafrumvarp eftir að málið hefur fengið lýðræðislega umfjöllun í þinginu.

Þetta virkar ekki enn og nú kann það að vera mikil kröfuharka að ætlast til þess að slíkt vinnulag sé farið að virka á jafn skömmum tíma og um er að ræða. Ég er í sjálfu sér ekki að segja að það sé ekki eðlilegt að þetta hafi tekið tíma en ég kalla eftir skoðun ráðherrans hvað það varðar hvernig hann hyggst leggja þessi mál inn í umræðuna, hvernig hann hyggst þoka henni áfram en ekki bara yfirlýsingar í fjölmiðlum um að hæstv. ráðherra ætli eitt eða annað, ætli að sameina Landbúnaðarháskólann og Háskóla Íslands og ætli að stytta nám til stúdentsprófs án þess að svara því hvernig o.s.frv. Ég treysti því að þessi umræða fari fram og ég tek þetta upp vegna þess að tækifærin hér í þingsal eru ekki mjög mörg til að ræða þetta. Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra fari í seinni ræðu sinni lítillega yfir það sem er í gangi hvað varðar málaflokkinn.

Mig langar að koma aðeins betur inn á það sem fram hefur komið í umræðunni, þ.e. samskiptin við Reykjavíkurborg, það kemur fram í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins að verið er að bæta 40 millj. kr. inn í þennan samning, í þessum viðauka, til að mæta halla á framhaldsskólum. Hver er staðan hvað það varðar? Þó að ábyrgðin sé hjá sveitarfélögunum þá er ríkið að styrkja þetta og hver er staðan hvað varðar þann þátt?

Þá komum við líka að því sem ég ræddi í andsvarinu, sem mér finnst skipta mjög miklu máli almennt í umræðunni um skólamál og þessi tvö stjórnsýslustig sem eiga að vinna hlið við hlið — þar sem sveitarfélögin taka að sér ábyrgðina og hafa lagalega ábyrgð á því að sinna ákveðnum þáttum — þ.e. þetta eftirlitshlutverk sem ráðuneytið hefur, sem tryggir þá framboð af ákveðnum gæðum, hvort sem um er að ræða tónlistarkennslu eða grunnskólakennslu og eftir atvikum leikskólakennslu, og auðvitað það sem ríkið rekur sjálft, þ.e. framhaldsskóla og háskóla.

Kröfur hafa komið fram frá minni sveitarfélögum um að þau ráði ekki fullkomlega við verkefnið, þau vilji fá undanþágur frá lögunum og spurningin er þá hvernig bregðast eigi við því. Sjálfur hef ég ekki viljað sjá mikinn afslátt á kröfum heldur verða sveitarfélögin að sameinast um rekstur og leggja stærri svæði undir til að tryggja að hægt sé að veita góða þjónustu. Samtímis viljum við að þessi þjónusta sé í heimabyggð og nærri notendum þannig að ekki sé um að ræða akstur um langa leið. Þarna er tekist á um það, eins og ég segi, hver skyldan sé til að hafa til dæmis tónlistarskóla. Almennt hefur þetta verið forgangsverkefni hjá sveitarfélögunum, þau hafa lagt fram mikinn pening til að tryggja góða tónlistarkennslu. En það eru ótal grá svæði og mig langar að heyra ráðherra taka aðeins á þessu.

Við ræddum hér um að tónlistarskólarnir eru farnir að skila einingum inn í framhaldsskólann. Menn geta verið með valgreinar og lokið hluta af stúdentsprófi með því að ljúka einingum í framhaldsskólann. Grunnskólinn nýtir jafnframt tónlistarskóla, menn nota það sem valgreinar í grunnskólunum að stunda nám í tónlistarskóla. Þetta þýðir að gráu svæðin verða fleiri, þ.e. þar sem annars vegar eru stofnanir sem eru reknar af ríkinu og á ábyrgð ríkisins alfarið og hins vegar stofnanir sem alfarið eru á ábyrgð sveitarfélaganna. Ég held að þetta samstarf sé mjög gott, ég held að það þurfi að vera til staðar. Ég held að menn þurfi að geta nýtt sér það að stunda tónlist í grunnskóla, að það geti verið hluti af valgrein; þar með er álagið á nemendur ekki langt umfram það sem æskilegt getur talist. Það sama á við um nemendur sem stunda tónlistarnám af fullum krafti og eyði í það miklum tíma, að það sé fært til eininga á framhaldsskólastiginu. Það skiptir gríðarlega miklu máli að þetta geti haldið áfram.

Ég treysti á að ráðherra standi þannig að málum að það verði hægt. En þegar maður sér frumvarp eins og hér, sem er bara til skamms tíma, hlýtur það að vekja spurningar um hvað sé á döfinni. Það er kannski það sem varð tilefni þess að ég kom hingað upp, þ.e. ég kalla eftir því að hæstv. ráðherra komi í ræðu og geri okkur grein fyrir því hver staðan er í menntamálunum almennt. Á hverju eigum við von og hvernig verður aðkoma þingsins að þessum málum? Ég bý það vel að fá tækifæri til að fjalla um málið í allsherjar- og menntamálanefnd og kalla eftir ýmsum upplýsingum hvað varðar þetta frumvarp. Miðað við fyrstu yfirferð og kynningu á frumvarpinu þá er engin ástæða til annars en reikna með því að það gangi vel. Ég styð frumvarpið enda er um að ræða framhald af þeim samningum sem voru gerðir áður, ég treysti á að fullt samkomulag verði um það en spyr um framhaldið eftir næstu áramót.



[15:12]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna ummæla hv. þingmanns um tímaplön þau sem samkomulagið nær yfir þá er það í sjálfu sér ekkert frábrugðið að grunni til því sem var um fyrra samkomulag, að það er takmarkað í tíma. Sú ákvörðun að láta samkomulagið einungis ná til ákveðins tíma endurspeglar að menn vilja ekki festa þetta fyrirkomulag í sessi á þennan hátt, þ.e. að hjá öðru stjórnsýslustiginu sé ábyrgðin á málaflokknum t.d. um fjölda nemenda, um kjarasamninga við starfsmenn og annað slíkt sem máli getur skipt fyrir þróun kostnaðar, og síðan sé annað stjórnsýslustig sem sjái um að greiða fyrir þjónustuna. Reyndar var það svo, eins og hefur komið skýrt fram af hálfu fyrrverandi hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra, hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur, sem einnig vitnaði til hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra, hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, að hugsunin af hálfu ríkisins var alfarið sú að um væri að ræða viðbótarfjármuni og ríkisvaldið væri á engan hátt að taka þar með yfir að greiða fyrir þessa þjónustu, enda getur það illa staðið að eitt stjórnsýslustig fari með alla stjórn málsins en annað greiði fyrir. Spurning mín til hv. þingmanns er þessi: Getur hann ekki verið sammála því að þetta fyrirkomulag þarfnist endurskoðunar við og við þurfum að svara á afgerandi hátt, t.d. að framhaldsskólastigið verði hjá ríkinu eða verði það áfram hjá sveitarfélögunum, eins og grunnskólinn, verði einhvern veginn að búa þannig um hnútana að ábyrgð og fjárveitingin fari saman?

Ég kalla eftir afstöðu hv. þingmanns til þessa.



[15:14]
Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra spyr hvort ekki sé ástæða til að endurskoða þetta form eða að minnsta kosti finna því farveg til lengri tíma. Ég tek heils hugar undir að þess þurfi. Ég geri í sjálfu sér enga athugasemd við að þetta sé tímabundið út árið en það er ávísun á að eitthvað annað standi til. Þá spyr ég í leiðinni: Hvernig á að standa að þeim breytingum, hvaða sjónarmið eiga að ráða og markmiðin og annað? Ég held að mikilvægt sé að festa tónlistarkennsluna í sessi til langs tíma, hvernig hún verður, hvernig hún verður tryggð í hinum dreifðu byggðum og þau skil á milli skólastiga sem ég nefndi í ræðu minni áður. Ég geri því ekki neina athugasemd við að þetta sé tímabundið en kalla eftir því hvernig eigi að vinna með framhaldið.

Ég tek undir með hæstv. ráðherra varðandi tvískiptinguna, að ábyrgðin, allt regluverkið, jafnvel kjarasamningar og annað slíkt sé hjá öðrum aðilanum, að ábyrgð og greiðsla fari ekki saman þannig að annars vegar er aðili sem skilgreinir þjónustuna, formið og allt í kringum það fyrir kjarasamninga og hins vegar er það sá sem greiðir. Það er auðvitað ekki æskilegasta formið, það segir sig sjálft. Það er tímabundið ástand en ég held að ef við hugsum til tónlistarskólanna og menntunar í landinu sé mjög mikilvægt að því sé vel sinnt og þá þurfum við að komast út úr því. Ég kalla eftir því frá ráðherra að hann setji upp ferli um hvernig eigi að vinna að slíku og komi með hugmyndir um möguleika og síðar fáum við tækifæri til að fjalla um það í þinginu áður en menn taka ákvörðun um það, eða að settur verði upp faglegur hópur með öllum hagsmunaaðilum sem vinni að málinu.

Markmiðið var á sínum tíma að efla tónlistarkennslu en líka að hindra hreppaflutninga, þ.e. að endalaus viðskipti væru á milli sveitarfélaga um nemendur og togstreita um hvað ætti að borga mikið og hvernig.



[15:16]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að það geti orðið ágætur samhljómur um þetta mál í þinginu, að allar forsendur séu til þess. Það skiptir miklu máli að það sé þá um leið góður samhljómur við Samband íslenskra sveitarfélaga um málið.

Eitt af þeim atriðum sem mun reyna á og er grundvallaratriði er þetta: Viljum við hafa áfram þá skipan mála að sveitarfélögin sjái um þennan rekstur sem er í nokkru frábrugðinn þeirri meginreglu sem við höfum, að ríkisvaldið sér um nám á framhaldsstigi, eða viljum við breyta um kúrs og beita okkur fyrir því að það verði samkomulag á milli ríkis og sveitarfélaga um að ríkið taki að sér þetta skólastig og til samræmis við það sem almennt gerist? Ég tel að gagnlegt væri fyrir þann undirbúning að fá fram afstöðu hv. þm. Guðbjarts Hannessonar um málið þar sem hann er auðvitað einn af þeim sem hér á þingi hafa hvað mest fjallað um menntamál. Ég hef bent á það áður í umræðunni að fyrir liggja drög að frumvarpi í ráðuneytinu sem hafa verið í vinnslu lengi, mörg ár, um tónlistarskólana en ég tel nauðsynlegt í ljósi þessarar reynslu, í ljósi þeirrar umræðu sem verið hefur að það verði í það minnsta skoðað og farið nákvæmlega ofan í þann þátt málsins sem ég var að lýsa. Ég vona að ég fái aðeins skýrari svör frá hv. þingmanni um afstöðu hans til þeirrar spurningar sem ég velti hér upp.



[15:18]
Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að hæstv. ráðherra sé í raun að biðja mig að fara öfuga leið við þá sem ég vil gjarnan að sé farin í svona málum. Ég var með tillögu um að menn drægju fram kosti og galla á ákveðnum formum, hverjir séu styrkleikar núverandi tónlistarskólakerfis, hver sé styrkleikinn við að sveitarfélögin reki það, hvað mundi hugsanlega tapast við að ríkið tæki yfir, áður en ég svara spurningunni. Ég held þess vegna að mikilvægt sé að koma því inn í umræðuna. Ég tek undir með hæstv. ráðherra að það er samhljómur í samfélaginu um ákveðna grundvallarþætti í menntun og í tónlistarnámi og mikill skilningur á því að við þurfum að hafa það öflugt og ég efast ekki um að hægt sé að ná samhljómi á milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og sveitarfélaganna og þingsins. Það er þó með ákveðnum fyrirvörum. Þeir eru að menn fari ekki í róttækar hugmyndir um útvistun, einkavæðingu eða aðra slíka hluti. Það getur líka kallað á að við sameinumst um að umgjörðin, kjaralegt umhverfi, aðbúnaður að skólum og annað séu skilgreindar kröfur.

Það eru kostir og gallar við þetta. Það að tónlistarskólarnir eru hjá sveitarfélögunum og reknir af sveitarfélögunum býður upp á ýmsa skemmtilega möguleika innan hvers sveitarfélags í sambandi við samspil viðburða í bænum, milli bæjarfélagsins og tónlistarskólans, þar sem maður getur séð fyrir sér að ríkið mundi alltaf segja: Nei, við ætlum ekki að borga það, það þarf að kaupa af ríkinu ef slík þjónusta á að koma til o.s.frv. Þetta hefur allt saman kosti og galla. Hæstv. ráðherra þarf einmitt að koma fram með hugmyndirnar á hugmyndastigi af því að við þurfum á því að halda að ná samstöðu um málið, að draga fram hvað fylgir hvorri leiðin sem farin yrði og síðan mundum við geta valið í framhaldinu. Þótt ég sé ekki í þeirri stöðu að stjórna hér mun ég ekki gefa eina skýra niðurstöðu vegna þess að ég treysti mér ekki til að sjá fyrir alla möguleikana sem hugsanlega kæmu upp í vandaðri umræðu.



[15:21]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem hefur farið fram og ég ætla að í meðförum nefndar muni þau mál sem á einhvern hátt þarfnast skýringar fá skýringu. Ég ætla þó að flest meginatriði málsins liggi nokkuð ljós fyrir.

Ef ég á að grípa um það sem ég tel að við hljótum öll að vera sammála um er það það að miklu varðar að fyrirkomulag þessara mála fái fastari og skýrari umgjörð sem fyrst. Samkomulagið sem gert var 2011, sem var skynsamlegt að mínu mati og rétt aðgerð, var tímabundið og þessi lög eða þetta frumvarp er til að undirbyggja að við getum haldið áfram slíku samkomulagi. Þetta getur þó ekki verið hin varanlega staða málsins, sérstaklega ekki í ljósi þess hvernig ákveðin sveitarfélög, t.d. Reykjavíkurborg, hafa kosið að túlka samkomulagið. Ég er ósammála þeirri túlkun og það kom skýrt fram í umræðunum áðan að hv. þm. Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra, er sammála mér hvað það varðar, að sú túlkun sem lá fyrir og hugsun á samkomulaginu í upphafi var aldrei af hálfu ríkisins að einstök sveitarfélög gætu eða ættu þar með að draga til baka eða verulega úr framlagi sínu til verkefnisins. Ég vona því að sú afstaða verði endurskoðuð hjá til dæmis Reykjavíkurborg og borgin komi með myndarlegt framlag til að styðja við skólana, það veitir ekki af.

Stóra spurningin sem við stöndum frammi fyrir er sú sem hv. þm. Guðbjartur Hannesson reifaði ágætlega og mér fannst hv. þingmaður svara því ágætlega hvernig hann vildi nálgast þessa umræðu og geri enga athugasemd við það. Spurning er: Hvar á þetta verkefni með réttu heima? Það eru vissulega kostir og gallar í þessu máli. Það eru kostir við að hafa það hjá sveitarfélögunum, og við þekkjum að ýmis sveitarfélög hafa áhuga á því að taka yfir framhaldsskólastigið í skólastarfinu almennt, en það eru líka augljósir gallar. Gallarnir koma meðal annars fram í þeim vandamálum sem við höfum verið að fást við hér, sem til að mynda birtast í því að einn aðili fer með málaflokkinn og annar greiði til hans að meginstofni til.

Það er að mínu mati alveg ljóst að við getum ekki og munum ekki leggja fram núna á vorþingi nýtt frumvarp um tónlistarskólana, en vonandi getum við gert það næsta haust. Það hefur mikil vinna verið unnin hvað það frumvarp varðar en þar skiptir máli, og reyndar verulegu, að góður samhljómur sé á milli ríkisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga um það hvernig eigi að halda á þessu máli.

Virðulegi forseti. Ég vona að þetta mál fái ágætan framgang hér, fari til nefndar eftir þessa umræðu og að okkur takist að ljúka því þannig að hægt sé í það minnsta að tryggja þennan samstarfsgrundvöll á samningstímanum á milli ríkis og sveitarfélaga um þetta mikilvæga mál.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til allsh.- og menntmn.