143. löggjafarþing — 90. fundur
 2. apríl 2014.
þjóðhagslegur ávinningur af hvalveiðum.

[15:18]
Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Það er ljóst að heimsbyggðin virðist vera á öðru máli um hvalveiðar en við Íslendingar. Hér í þinginu liggur frammi fyrirspurn frá mér um veiðar á langreyði og hrefnu, hvaða fyrirtæki hafa fengið leyfi til þeirra veiða og hver þjóðhagslegur ábati er af þeim.

Mér er efst í huga að fá að meta heildarhagsmuni, hver ábatinn sé af veiðunum miðað við það tjón sem við sjáum skapast af veiðunum.

Í síðustu viku fengum við fregnir af því að norður-ameríska matvælafyrirtækið High Liner Foods hafi hætt að versla við HB Granda vegna tengsla fyrirtækisins við Hval hf. og vinnslustöðvar þess. Fyrirtækið gat ekki boðið neytendum sínum upp á það.

Á mánudag barst sú frétt að alþjóðadómstóll Sameinuðu þjóðanna hefði komist að þeirri niðurstöðu að hvalveiðiáætlun Japans á suðurskautinu þar sem þeir veiða þúsund hvali á ári þjónaði engum vísindalegum tilgangi og hefur dómstóllinn nú úrskurðað að Japanir skuli hætta þeim hvalveiðum.

Í dag sjáum við minnisblað frá forseta Bandaríkjanna þar sem hann gagnrýnir hvalveiðar Íslendinga harðlega, nánar tiltekið veiðar á langreyði. Hann segir að það nái langt yfir öll viðmið Alþjóðahvalveiðiráðsins og beinir þeim tilmælum til bandarísku stjórnsýslunnar að hún beiti Íslendinga þrýstingi vegna hvalveiða okkar.

Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hann hafi ekki áhyggjur af því að við séum að fórna meiri hagsmunum fyrir minni. Hefur forsætisráðherra borið saman ferðamennskuna og fiskveiðar við tekjur vegna veiða á langreyðum sem nú eru seldar af einu fyrirtæki til Japans? Hefur forsætisráðherra metið utanríkishagsmuni Íslands þegar Bandaríkin ákveða að setja okkur út í kuldann? Og hvert er vægi þessara hagsmuna?

Er þvermóðska í þessum efnum æskileg að mati hæstv. ráðherra? Þurfum við ekki að fara að horfast í augu við það að ekki er stemning fyrir hvalveiðum í heiminum og að við fórnum þar meiri hagsmunum fyrir minni?



[15:20]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Það er ekki auðvelt að reikna reikningsdæmi eins og hv. þingmaður stillti því upp. (Gripið fram í: Þetta er ekkert …) Hins vegar eru í þessu mjög margir þættir sem eru mikils virði þótt ekki sé hægt að setja ákveðna tölu á þá, t.d. það að verja rétt Íslands til að nýta náttúruauðlindir sínar. Sá réttur er gríðarlega mikils virði fyrir okkur þó að ekki sé hægt að setja á hann ákveðna tölu.

Það er líka einhvers virði, hlýtur að vera, að menn standi á prinsippum sínum og láti ekki mestu hvalveiðiþjóð heims segja sér að við megum ekki veiða hval. Á meðan Bandaríkjamenn halda áfram sínum hvalveiðum ætla þeir að skikka Íslendinga til að hætta að veiða hval. Það er ekki hægt að láta undan slíkri ófyrirleitni þó að það sé kannski erfitt að setja nákvæma krónutölu á það.



[15:21]
Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka svarið. Ég hef áhyggjur af því að bæði forsætisráðherra og aðrir þingmenn stjórnarliðsins horfi ekki á málið út frá viðskiptalegum forsendum heldur tilfinningarökum. HB Grandi er eitt af stærstu fiskvinnslufyrirtækjum okkar og það skiptir almenning á Íslandi máli hvort fyrirtækinu gangi illa að selja afurðir sínar því að í vasa ríkissjóðs rennur renta af afurðunum.

Ef veiðar á langreyði skipta íslensku þjóðina svona miklu máli getur hæstv. forsætisráðherra þá sagt mér hvað þjóðin hefur upp úr krafsinu? Hvað borgar Hvalur hf. í auðlindagjöld af veiddum langreyðum? Borgar hann eitthvað?



[15:22]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Það má alveg ræða veiðigjald á hvalveiðileyfi en eins og ég gat um í fyrra andsvari snúast hagsmunirnir ekki um þær tölur. Þetta snýst um miklu stærri hluti, þetta snýst um sjálfsákvörðunarrétt íslensku þjóðarinnar. Ef við Íslendingar teljum það þjóna hagsmunum okkar að við fáum sjálf að ráða nýtingu auðlinda okkar og gefum engan afslátt á því, sem ég held að menn hljóti almennt að vera sammála um, verða menn að vera tilbúnir að verja þau prinsipp.

Þess vegna höfum við Íslendingar gert það og munum gera áfram rétt eins og aðrar þjóðir verja sína hagsmuni. Hv. þingmaður nefndi að þetta væri sérstök tilfinningasemi frekar en kalt efnahagslegt mat. Tilfinningasemin er öll í því að halda því fram að hvalir séu á einhvern hátt heilagar kýr á sama tíma og það fólk sem heyr slíka baráttu borðar nautakjöt og allar aðrar mögulegar kjötafurðir en (Forseti hringir.) tekur þessa dýrategund sérstaklega út úr. (BjÓ: Viðskiptalegir hagsmunir.)