143. löggjafarþing — 90. fundur
 2. apríl 2014.
fyrirhugaðar refsiaðgerðir vegna hvalveiða Íslendinga.

[15:24]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég kem hér og hegg í sama knérunn því að framtíð hvalveiða hefur um langt skeið verið óviss og atburðir vikunnar hljóta að auka óvissuna enn frekar.

Japanir hafa stundað svokallaðar vísindaveiðar á hvölum um árabil og í kjölfar kæru frá Ástralíu hefur dómstóll Sameinuðu þjóðanna, The International Court of Justice, úrskurðað þessar hvalveiðar Japana ólöglegar og hefur japanska ríkisstjórnin ákveðið að virða úrskurðinn og hætta hvalveiðum. Forseti Bandaríkjanna, Barack Obama,

(Forseti (EKG): Forseti biður um hljóð í hliðarsölum, hávaði berst ótæpilega hér inn.)

… hefur einnig sent bréf til forseta Bandaríkjaþings og birt á heimasíðu Hvíta hússins þess efnis að öll tvíhliða samskipti Íslands og Bandaríkjanna verði tekin til endurskoðunar í ljósi hvalveiða Íslendinga.

Góð samskipti Íslands og Bandaríkjanna eru okkur mikilvæg og ég vil minna á að hæstv. ríkisstjórn hefur það sérstaklega á stefnuskrá sinni að auka tvíhliða samstarf vestur um haf. Ákvörðun Bandaríkjaforseta er því augljóslega nokkurt áfall fyrir þá áherslu hæstv. ríkisstjórnar.

Ég vil því spyrja hæstv. forsætisráðherra um viðbrögð ríkisstjórnarinnar við hvalveiðibanni Japana annars vegar og hins vegar hvernig ríkisstjórnin muni bregðast við þeirri ákvörðun Bandaríkjaforseta að endurskoða tvíhliða samskipti Íslands og Bandaríkjanna. Í ákvörðuninni felast ýmis atriði og eitt af þeim er til dæmis að ráðherrar og embættismenn meti það sérstaklega hvort þeir heimsæki landið og síðan ákvarðanir um frekari aðgerðir. (Forseti hringir.) Ég vil vita afstöðuna til þessa banns í Japan og hvað ríkisstjórnin hyggist gera vegna yfirlýsingar Bandaríkjaforseta.



[15:26]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Það er ekkert nýtt í yfirlýsingum Bandaríkjaforseta nú. Hann hefur áður lýst því sama yfir. Þetta er bara endurtekning á því sem forsetinn sagði árið 2011 og það varð engin veruleg breyting á samskiptum landanna milli 2011 og 2013 nema hvað, eins og hv. þingmaður hefur getið um, að mikil áhersla er á það hjá nýrri ríkisstjórn að efla tengslin við Bandaríkin. Menn hljóta að gera ráð fyrir því að Bandaríkjamenn séu ekki það ófyrirleitnir að þeir færu að beita aðra þjóð refsiaðgerðum fyrir það sem þeir gera sjálfir í meira mæli en nokkurt annað land.

Hvað varðar Japana og veiðar þeirra við suðurskautið og niðurstöðu Alþjóðadómstólsins þekki ég svo sem ekki vísindalegar forsendur þeirrar ákvörðunar, hvort þetta voru ósjálfbærar veiðar eða ekki. Hins vegar, af því að hv. þingmaður spyr um afleiðingar þeirrar niðurstöðu, má benda á að hugsanlegar afleiðingar gætu verið þær að þetta mundi bæta markaðsstöðu íslenskra hvalaafurða í Japan vegna þess að þar yrði skortur á hvalkjöti miðað við það sem nú er. Japanar eru eins og þekkt er hrifnir af hvalkjöti, eins og margir Íslendingar, þannig að líklegasta afleiðingin er markaðsleg áhrif í Japan.

Svo aftur varðandi þetta prinsipp og mikilvægi þess að Íslendingar verji réttinn til að nýta auðlindir sínar, þá eru til stór náttúruverndarsamtök sem berjast gegn þorskveiðum í Atlantshafi og hafa jafnvel mælst til þess að þær verði bannaðar. Eigum við þá næst að fara í að semja við menn um hvort við megum yfir höfuð veiða þorsk eða hversu mikinn þegar búið er að gefa eftir (Forseti hringir.) rétt okkar, þetta prinsipp til að nýta eigin auðlindir?



[15:28]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég held að enginn hafi komið með tillögur þess efnis varðandi þorskinn enda er það ekki tegund í útrýmingarhættu.

Það er mat mitt að það sem er að gerast núna á síðustu mánuðum varðandi afstöðu alþjóðasamfélagsins til hvalveiða geti þýtt að við séum að lenda í vaxandi deilu við einstök ríki og að almenningsálitið á Vesturlöndum sé okkur ekkert sérstaklega hliðhollt. Ég vil því nota tækifærið og hvetja hæstv. forsætisráðherra til að kynna sér tillögu mína og fleiri þingmann sem felur í sér mjög málefnalegt hagsmunamat á stöðu Íslands vegna hvalveiða og það verði á grundvelli slíks hagsmunamats sem við tökum þá ákvörðun hvort það sé þess virði að stefna samskiptum okkar við önnur ríki í hættu ef hagsmunirnir af hvalveiðum eru (Forseti hringir.) mun minni en ýmsir vilja láta í veðri vaka.



[15:30]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Hér á raunar við sama svar og áðan, auðvitað er mikilvægt samt að við höldum málstað okkar á lofti, ekki aðeins í hvalveiðimálum heldur varðandi makríl og ýmislegt fleira líka.

Af því að hv. þingmaður hefur sérstakar áhyggjur af því að menn hugsi um fátt annað en hvalveiðar þegar Ísland kemur upp í hugann erlendis eða þegar spurt er um Ísland er hv. þm. Jón Gunnarsson nú fróður um hvalveiðar og hefur ýmsar skemmtilegar staðreyndir á takteinunum. Ég hvet hv. þingmann til að leita til Jóns. Eitt af því sem Jón gæti sagt hv. þingmanni er að þegar fólk í Bandaríkjunum er spurt hvað komi upp í hugann þegar Ísland er nefnt voru fleiri sem nefndu að húsgagnafyrirtækið Ikea væri íslenskt en þeir sem nefndu hvalveiðar og áhyggjur af þeim.

Ikea er ekki beinlínis íslenskt fyrirtæki en engu að síður halda fleiri að Íslendingar séu að framleiða húsgögn í meira mæli en nokkur önnur þjóð (Forseti hringir.) en að við séum að veiða hval eða að menn hafi sérstakar áhyggjur af því.