143. löggjafarþing — 90. fundur
 2. apríl 2014.
lokun fiskvinnslu á þremur stöðum á landinu.

[15:31]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vil inna hæstv. forsætisráðherra eftir viðbrögðum við þeim válegu tíðindum sem bárust starfsfólki fyrirtækisins Vísis í Grindavík á þremur stöðum á landinu nú fyrir helgi og auðvitað íbúum og forráðamönnum viðkomandi sveitarfélaga um leið, sem sagt að burðarásum atvinnulífs á Djúpavogi, Húsavík og Þingeyri verði lokað, öllu starfsfólki sagt upp, vinnslu hætt og aflaheimildir sem þar hafa verið nýttar færðar burt af staðnum.

Ég tel eðlilegt að spyrja hæstv. forsætisráðherra um mál af þessari stærðargráðu og það liggi í hlutarins eðli að ríkisstjórn í landinu hljóti að láta tíðindi af þessu tagi til sín taka. Þetta eru atburðir af þeirri stærðargráðu í atvinnu- og byggðalegu tilliti og svo þung högg á þessi byggðarlög, öll í raun og veru, svo maður tali ekki um þau sem veikast standa, eins og Þingeyri, að stjórnvöld hljóta að láta þetta til sín taka.

Í öðru lagi ber svo vel í veiði að hæstv. forsætisráðherra er jafnframt fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis og tveir af þessum þremur stöðum eru í okkar kjördæmi. Ég vil því spyrja hæstv. forsætisráðherra eftirfarandi spurninga:

Hefur ríkisstjórn þegar sett sig inn í þetta mál? Ef svo er ekki, hyggst hún þá ekki gera það á næstu dögum?

Hvernig sér hæstv. forsætisráðherra fyrir sér að ríkisstjórnin geti beitt sér í þessu máli, t.d. með því að virkja Byggðastofnun, fela sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem jafnframt fer með veigamikil verkefni innan atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, verkstjórn í málinu eða eitthvað af því taginu?

Hvernig hyggst ríkisstjórnin beita sér í málinu til að helst reyna að koma í veg fyrir eða draga úr áhrifum þessa atburðar?

Af því að hæstv. forsætisráðherra er sérfræðingur í forsendubresti spyr ég: Er ekki ljóst (Forseti hringir.) að ef þetta gengur eftir verður um meiri háttar forsendubrest að ræða í lífskjörum og atvinnu þessa fólks (Forseti hringir.) og byggðarlaganna og sveitarfélaganna sem það tilheyrir?



[15:33]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka spurninguna og tækifærið til að ræða þetta mál. Ég deili áhyggjum hv. þingmanns af þessari þróun sem, eins og hann gat um, mundi hafa mjög mikil og alvarleg og neikvæð áhrif á þessum þremur stöðum. Það er rétt sem hann nefndi líka, tveir þeirra eru í Norðausturkjördæmi.

Ríkisstjórnin hefur að sjálfsögðu sett sig inn í málið og fylgist með því en forstjóri fyrirtækisins sem um ræðir hefur lýst því yfir í fréttum að hann og fyrirtækið séu að vinna að því með heimamönnum á hverjum stað að ná niðurstöðu sem verði ásættanleg fyrir alla, a.m.k. sem flesta, og tryggja að það verði enginn atvinnumissir sem leiði af þessu.

Við vonum að sjálfsögðu að sem best gangi í þeirri vinnu og hún skili sem mestum árangri.

Hvað varðar framhaldið er þetta kannski áminning um mikilvægi þess að hér sé komið á fiskveiðistjórnarkerfi og gjaldtöku vegna fiskveiða sem ekki hvetur til samþjöppunar í greininni og neyðir fyrirtæki til þess að ná einhvers konar hámarkshagræðingu sem getur bitnað á byggðunum allt í kringum landið.

Það var einmitt gallinn við þær breytingar sem voru gerðar á síðasta kjörtímabili, svo ekki sé minnsta á þær breytingar sem reynt var að innleiða, að þær ýttu mjög undir samþjöppun í greininni, veiktu stöðu minni fyrirtækja og þar með líka minni byggðarlaga.

Þetta er ágætisáminning nú þegar vinna við nýtt fyrirkomulag við stjórn fiskveiða og gjaldtöku af greininni er langt komin.



[15:36]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er gott að hæstv. forsætisráðherra hafi áhyggjur og ég skil það. En hvað ætlar hæstv. ríkisstjórn að gera? Ég óttast ansi mikið að hér séu á ferðinni atburðir af því tagi að það muni þurfa virkan atbeina stjórnvalda til eigi að vera hægt að koma í veg fyrir að þetta gangi eftir, a.m.k. að verulegu leyti, og þar með tilheyrandi afleiðingum fyrir byggðarlögin. (Gripið fram í: Já.) Þetta eru ósköp einfaldlega svo stórir atburðir þar sem 40–60 manna vinnustaðir í 300–500 manna plássum eins og í tilviki Þingeyrar og Djúpavogs hverfa á einu bretti. Þetta er stór hluti atvinnulífsins á viðkomandi stöðum og veiðiheimildirnar sem þarna fylgja.

Má ég þá minna hæstv. forsætisráðherra á að þetta gerist í óbreyttu gamla kvótakerfinu. Þetta gerist þar en ekki í einhverju nýju kerfi sem hefði betur komist á og aukið byggðafestuna og aukið svigrúm stjórnvalda til að mæta aðstæðum af þessu tagi ef stjórnvöld sjálf hefðu haft meira af veiðiheimildum (Forseti hringir.) handa á milli en þau gera í núverandi kerfi.



[15:37]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Þetta gerist í því kerfi sem síðasta ríkisstjórn skildi eftir sig eftir meira en fjögurra ára setu og er, eins og ég gat um áðan, mikilvæg áminning um að ekki er æskilegt að skattleggja sjávarútveginn á þann hátt að það skapi mjög neikvæða hvata og bitni á byggðarlögum.

Ég endurtek svo það sem ég sagði áðan að nú standa yfir viðræður milli fulltrúa þessa fyrirtækis og heimamanna á hverjum stað, tilraunir til þess að finna á lausn og stjórnvöld hljóta að gefa mönnum frið til að vinna að slíkri lausn og vonast til þess að viðræðurnar skili sem mestum árangri.