143. löggjafarþing — 91. fundur
 7. apríl 2014.
gjaldmiðilsstefna.

[15:13]
Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég held að það væri mun betra að eiga þessa umræðu við hæstv. fjármálaráðherra þegar hann hefur lesið meira en bara fyrirsagnir í blöðum um skýrsluna. Margt sem kom fram í orðum hæstv. ráðherra áðan held ég að væri öðruvísi ef hann hefði lesið skýrsluna. Það er til dæmis ágætlega rakið í kaflanum um efnahagsmál í skýrslunni sem kom út í dag að hér ríkti töluvert mikil velsæld þegar Ísland bjó við fast gengi og var skuggatengt við ERM I á árabilinu 1989–2001. Þá var hér lág verðbólga og það ríkti ákveðinn stöðugleiki.

Það er kannski vel við hæfi að spyrja hæstv. fjármálaráðherra fyrstu spurningar minnar svona: Er hann sammála því að þetta tímabil í efnahagssögu Íslendinga 1989, og í kjölfar þjóðarsáttarsamninga, til 2001, þegar við tókum upp fljótandi gengi, hafi verið velsældartímabil? Það er tímabil þar sem við uppfylltum Maastricht-skilyrðin. Þetta er ágætlega rakið í skýrslunni. Við bjuggum við beintengingu á ERM sem var undanfari evrunnar. Það væri fróðlegt að heyra álit hæstv. fjármálaráðherra á þessu.

Ég hjó eftir því í máli hæstv. fjármálaráðherra að hann tók undir að það væri nauðsynlegt að ræða þessi mál af yfirvegun og skynsemi, það væri ekkert svart/hvítt í þessu. Þá vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Telur hæstv. ráðherra það samrýmast markmiðinu um opna og yfirvegaða umræðu um þessi mikilvægu mál, þar sem ekkert er svart eða hvítt, að slíta viðræðunum við ESB á þessum tímapunkti og loka þar með öðrum valmöguleikanum sem er upptaka evru? Samrýmist það markmiðinu um yfirvegaða og skynsamlega umræðu?

Svo vil ég í þriðja lagi spyrja hvað hæstv. fjármálaráðherra á við þegar hann segir að sveiflurnar í krónunni og hrun hennar hafi komið atvinnulífinu til góða og segir jafnvel skynsamlegt að nýta sveiflurnar og hrun krónunnar í því skyni að bjarga atvinnulífinu, sem sagt gengisfellingarstefna. Hvernig getur hann í hinu orðinu talað um forsendubrest (Forseti hringir.) þegar hann fer í það að leiðrétta skuldir heimilanna?



[15:16]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Forsendubresturinn varð hjá heimilunum með sínar verðtryggðu skuldir. Ég hef aldrei sagt að það hafi komið atvinnulífinu til góða að gengið hafi fallið svona hrikalega. Ég hef einfaldlega vakið athygli á því að það var nauðsynleg og óumflýjanleg aðlögun að breyttum veruleika sem átti sér stað. Það sem gerðist í kjölfarið var það að samkeppnisstaða útflutningsgreinanna styrktist mjög verulega.

Hvernig á maður að ræða um tímabilið sem hv. þingmaður fór yfir að hafi gilt fram til þess að gengið var sett á flot? Hvaða einkunn vil ég gefa þessu tímabili? Jú, ég tel að það sé athyglisvert að lengst af á þeim tíma hafi verðbólgan verið innan þolanlegra marka og vextir voru sömuleiðis nokkuð lágir, a.m.k. í sögulegu samhengi. Krónan var á þessum tíma eins konar körfumynt sem tók mið af gengi ýmissa gjaldmiðla sem aftur endurspegluðu utanríkisviðskipti okkar. En það sem skipti mestu varðandi fastgengisstefnuna var að við sprungum á limminu. Við sprungum á getunni til að halda genginu stöðugu með gjaldeyrisöflun. Við gátum það ekki lengur. Það er áhætta sem menn taka ef þeir ætla að byggja fastgengisstefnu og hin undirliggjandi utanríkisviðskipti styðja ekki við það gengi sem menn hafa fastsett sér að halda. Þá þarf að fara að taka lán í erlendum myntum til að halda genginu við og á endanum gátum við ekki haldið því áfram.

Hvernig samræmist það yfirvegaðri Evrópuumræðu að leggja fram og styðja tillögu um að draga aðildarumsóknina til baka? Í fyrsta lagi samrýmist það mjög vel niðurstöðunum í síðustu kosningum, meirihlutavilja Alþingis. Mér finnst það kannski aðalatriðið. Svo er auðvitað hitt að við erum ekki að byrja Evrópuumræðuna, hún hefur staðið lengur en í eitt kjörtímabil og lengur en tvö. (Forseti hringir.) Hún stendur enn yfir.



[15:18]
Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Í mínum huga fer það illa saman að tala annars vegar um aðlögunarhæfni út af krónunni og tala þá, a.m.k. að mörgu leyti, vel um hrun hennar, að það feli í sér einhvers konar aðlögunarhæfni, en tala í hinu orðinu um forsendubrest gagnvart heimilunum sem þurfi að bæta upp með 100 milljarða fjárútlátum úr ríkissjóði. Þetta fer illa saman. Menn verða að tala skýrt í þessum efnum. Eru sveiflurnar góðar eða ekki góðar?

Auðvitað er myndin ekki svart/hvít. Það er ekki gallalaust að taka upp evru en þetta skeið frá 1989–2001, ég endurtek það, vorum við með fastgengisstefnu tengda ERM sem er undanfari evrunnar. Mjög margir halda því fram að rökrétt næsta skref væri í samvinnu við Evrópusambandið að taka upp evruna, fara fyrst inn í ERM II og svo í evruna, m.a. vegna þess að reynslan af efnahagsstjórninni í fastgengi tengdu ERM var góð. (Forseti hringir.)

Ég vil ítreka spurninguna og orða hana kannski aðeins öðruvísi: Mundi það (Forseti hringir.) að slíta viðræðunum núna ekki útiloka þennan möguleika út úr umræðunni? Er það gott?



[15:19]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það að við erum ekki í viðræðum við Evrópusambandið í augnablikinu endurspeglar einfaldlega pólitísku stöðuna í landinu, niðurstöðu síðustu þingkosninga. Það er ekki meirihlutavilji fyrir því í þinginu að ganga í Evrópusambandið. Menn verða að geta horfst í augu við það og einnig hitt að það er ekkert sem útilokar menn frá því að sækjast eftir aðild einhvern tímann í framtíðinni sama hvernig þetta atvikast núna. Auðvitað er þingsályktunartillagan enn til meðferðar í þingnefnd.

Varðandi þá miklu kosti sem menn leggja áherslu á hér í umræðunni um að taka upp mynt þessa myntsvæðis finnst mér menn skauta býsna léttilega frá þeim djúpa vanda sem evrusvæðið er í í dag og vanda þeirra ríkja sem tóku upp hina sameiginlegu mynt og eru að glíma við hátt atvinnuleysi eins og á til dæmis við á Spáni þar sem annar hver ungur Spánverji er atvinnulaus. (Gripið fram í: Þannig verður þetta á Íslandi.) Nú hlæja menn í salnum og segja: Auðvitað verður það þá þannig líka á Íslandi. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) En þetta er háalvarlegt mál og aðalatriði er að myntin sem menn eru að nota verður að (Forseti hringir.) endurspegla það sem er að gerast í hagkerfinu. Ef menn láta það ekki gerast eru menn að kalla yfir sig alls konar vandamál á borð við þau sem mörg evruríkin eru með í dag.